144. löggjafarþing — 83. fundur
 23. mars 2015.
augnlæknaþjónusta.
fsp. KLM, 595. mál. — Þskj. 1035.

[17:41]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Tilefni að þessari fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra um augnlæknaþjónustu á Austurlandi kemur í framhaldi af kjördæmaviku þar sem þingflokkur Samfylkingarinnar fór allur austur á land og átti þar fjölmarga fundi ásamt því að fara í heimsóknir á ýmsar stofnanir þar.

Eitt af því sem bar á góma á þessum fundum upphófst eftir að Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, sagði okkur þingmönnum frá því hvernig staða augnlæknamála væri á Austurlandi. Það er tilefnið að þessari spurningu. Þar komu að vísu fram upplýsingar um að augnlæknaþjónustu hafi alveg verið hætt en síðan hef ég fengið upplýsingar um að annar augnlæknirinn sé hættur að koma en hinn kemur tvisvar á ári.

Virðulegi forseti. Þetta er ástæðan fyrir spurningum mínum en til að útskýra þetta aðeins betur kom fram hjá einum aðila að hann þekkti dæmi um foreldri sem þurfti að fara með barn til augnlæknis í Reykjavík vegna þess að komum augnæknanna hefur fækkað svo mikið og það kostaði viðkomandi 144 þús. kr., flug fyrir foreldri plús barn. Tvær ferðir greiðast að vísu af Sjúkratryggingum Íslands en viðkomandi þarf að fara oftar og þá er það eingöngu kostnaður viðkomandi sem fellur þar til. Ef það er tvisvar í viðbót eru það þessar 144 þús. kr. plús auðvitað annar kostnaður vegna vinnutaps og uppihalds í Reykjavík.

Ég vek athygli á því að Sjúkratryggingar borga sem sagt þessar 144 þús. kr. en ástæðan fyrir því að augnlæknar vilja minna fara austur á land, og ef til vill á aðra staði á landsbyggðinni líka, er samningar Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna þar sem þeir krefjast 10% afsláttar eftir að komið er fram yfir ákveðinn einingafjölda. Ríkissjóður greiðir þetta úr sínum vasa en væri ekki betra að þessir peningar færu til Heilbrigðisstofnunar Austurlands og jafnvel einhver augnlæknakvóti til þess heilbrigðisumdæmis þannig að íbúarnir gætu notað þetta þar í staðinn fyrir að taka á sig svona löng ferðalög?

Á öðrum fundi kom fram lýsing frá fullorðnu fólki sem þurfti að taka fullorðinn ættingja sinn af dvalarheimili og keyra með hann til Akureyrar til augnlæknis og aftur til baka sem hafði mjög alvarlegar afleiðingar. Spurning mín til ráðherra snýr að þessu:

1. Er ráðherra kunnugt um hvers vegna augnlæknaþjónustu á Austurlandi með komu sérfræðinga hefur verið hætt? — Ég tek skýrt fram að henni hefur ekki verið hætt en hún hefur minnkað mjög mikið.

2. Er eitthvað í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands (Forseti hringir.) sem skýrir þessa breytingu?

Þetta eru þær spurningar, virðulegi forseti, sem ég vildi leggja fyrir hæstv. ráðherra.



[17:45]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar tvær spurningar sem hann beinir til mín og varða augnlæknaþjónustuna á Austurlandi. Það er rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, Kristjáns Möllers, að augnlæknaþjónustu á Austurlandi hefur ekki verið hætt, það er ekki svo. Tveir augnlæknar sinntu Austurlandi og annar þessara tveggja ákvað sjálfur að hætta komum austur. Þegar það lá fyrir leitaði Heilbrigðisstofnun Austurlands til Sjúkratrygginga Íslands og fór fram á að fá til sín þær einingar sem þarna undir heyra svo stofnunin gæti ráðið sjálf úr þessum málum og ráðið þess vegna til sín augnlækni. Það var gengið frá samningi milli Sjúkratrygginga og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um mitt ár 2014, en enn sem komið er hefur ekki tekist að ná samningi við nýjan augnlækni. Stofnunin hefur unnið að því og þetta verk komst á að minni beiðni þegar ég fékk fréttir af þessu síðastliðið vor. Í rauninni hefur því engin breyting orðið á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands, það er langur vegur frá, hún kappkostar þvert á móti að veita sem besta þjónustu og stuðla að því að bæta aðgengi að sérgreinaþjónustu á Austurlandi. Aðkoma Sjúkratrygginga að þessu leytinu til er góð, enda er ljóst að flestir sérgreinalæknar í landinu starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar.

Þeir samningar sem um sérgreinalæknana gilda hafa veruleg áhrif og geta haft áhrif á dreifingu framboðs þeirra sérhæfðu verka um landið. Eins og ég gat um hef ég beitt mér fyrir þessu í samtölum við bæði SÍ og Heilbrigðisstofnun Austurlands, en ég hef sömuleiðis rætt þetta við forstjóra allra heilbrigðisstofnana og hvatt þá til að horfa heildstætt á þessa hluti vegna þess að þeir níu einstaklingar sem gegna forstöðu fyrir heilbrigðisstofnanir landsins í níu umdæmum eiga að minni hyggju að líta svo á að þeir beri allir ábyrgð á því að veita öllum landsmönnum heilbrigðisþjónustu. Þar liggur ábyrgð í stofnanarekstrinum, sérstaklega á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsinu á Akureyri, við það að miðla af sinni sérþekkingu út til annarra svæða landsins.

Ég vil þó geta þess út af þessari fyrirspurn að samkvæmt yfirliti sem ég óskaði eftir að fá um útgjöld vegna þjónustu við augnlækningar hafa þau aldrei verið meiri á Austurlandi en síðastliðin tvö ár, 2013 og 2014, hvort heldur maður lítur á heildarútgjöldin eða eingöngu á hlut Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Því er ekki til að dreifa að við séum ekki að leggja sama magn af fjármunum inn í þetta, vandræðin hafa staðið til þess að við náum ekki að manna þær stöður sem við erum að sækja í. Fjöldi þjónustuþega af Austurlandi öllu var á árinu 2014 1.527 manns og á því yfirliti sem ég hef frá árunum 2011–2014 er það næsthæsta talan sem liggur yfir þjónustuþega. Ég held að þetta sé ekki í heildina tekið í neitt afskaplega slæmri stöðu. Við höfum hins vegar einstök dæmi sem gjarnan hefðu mátt vera með öðrum hætti en við fáum frásagnir af en þannig hefur þetta alla tíð gengið. Heilbrigðisstofnanirnar hafa þó reynt að bregðast við, eins og ég get hérna um, hvort heldur er á Austurlandi eða annars staðar, að reyna að veita þjónustuna sem næst heimasveit viðkomandi einstaklings.



[17:50]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var dálítið skondið svar hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann er alltaf háll sem áll og það má segja að hann hafi smogið hér úr sínum eigin greipum. Hæstv. ráðherra sagði að það væri í rauninni ekkert að nema að það hefði ekki tekist að manna stöðurnar sem þurfti, það hefði verið lagður meiri peningur í þetta á síðustu tveimur árum en áður, en eftir sem áður stendur það eftir að fólkið sem þarf að notfæra sér tiltekna þjónustu þarf að fara alla leiðina suður eða inn á Akureyri, ekki allt en sumt. Ég er ekki að kenna hæstv. ráðherra sérstaklega um þetta, hins vegar er algjörlega ljóst að þetta er enn eitt dæmi um það hvernig íbúar landsbyggðarinnar búa oft við skerta þjónustu. Ég held að það sitji síst á hæstv. ráðherra að draga af sér, ég er ekki að segja að hann geri það, en eitthvað er að í þessu kerfi.

Sérstaklega finnst mér að niðurskurðarmeistarar ættu að skoða sitt framferði ef það er þannig að þeir hafi átt einhvern hlut að því með sparnaðarkröfum að leiða til þeirrar niðurstöðu að ríkið þurfi samt sem áður að (Forseti hringir.) borga meira en áður í fargjöld. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að það er verið að eyða meiri peningum í þetta á síðustu tveimur árum en áður.



[17:51]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið svo langt sem það nær og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að leggja orð í belg. Ég held að ég verði samt sem áður að komast að þeirri niðurstöðu að hvað varðar augnlæknaþjónustu á Austurlandi núna, eftir þessa breytingu sem ég gat um áðan, sé ófremdarástand í augnlæknamálum á Austurlandi. Því ber að breyta. Þetta gengur ekki, það dugar ekki fyrir svona stóran landsfjórðung að augnlæknir komi tvisvar á ári. Það býður heim svona dæmum sem ég tók um þennan ellilífeyrisþega austur á landi sem þurfti að keyra með til Akureyrar. Þetta gengur ekki.

Hæstv. ráðherra ræddi áðan afsláttinn sem Sjúkratryggingar krefjast af kvóta sem er umfram. Þess vegna má ég kannski bæta við spurningu, virðulegi forseti, til hæstv. ráðherra og hún er sú hvort ekki væri ástæða fyrir heilbrigðisráðherra til að beita sér gagnvart Sjúkratryggingum Íslands þannig að við það að úthluta þessum kvótum án afsláttar verði kvótar settir niður til þeirra augnlækna sem sinna landsbyggðinni og eru tilbúnir að fara út á land, að þeir fái aukinn kvóta til þess eða að viðkomandi heilbrigðisstofnun fái kvóta til að nota þannig að ekki sé verið að krefjast þess af augnlæknum að þeir gefi endilega 10% afslátt af þessu.

Hitt atriðið sem ég vil líka nefna blandast að einhverjum hluta inn í þetta þó að ég taki skýrt fram að ég held að Heilbrigðisstofnun Austurlands láti það ekki hafa áhrif, þ.e. að heilbrigðisstofnanir úti á landi taka þátt í kostnaði eins og við ferðirnar, gistingu, uppihald, ritaraþjónustu og fleira sem heilbrigðisstofnanirnar fá ekki pening fyrir. Þær taka það úr sínum rekstri til að færa þjónustuna nær íbúunum sem ég, hæstv. ráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum hrifnir af að hafa. Það á að vera sami kostnaður fyrir fólk að fara til augnlæknis, hvort sem það gengur yfir Miklubrautina eða einhverjar götur á höfuðborgarsvæðinu eða býr úti á landi. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir breytingum þannig að þessi sérfræðiþjónusta geti verið meiri og eflst úti á landi.



[17:54]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, liprir menn í tungu (Gripið fram í.) eftir góða helgi og halda góðar ræður. Þegar hér er sagt að sá sem hér stendur sé háll sem áll hefði ég frekar átt von á líkingu við urriða en álinn, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem á eftir að verða hér á eftir.

Það er alveg rétt að margt má bæta í þessu kerfi og við erum að vinna að því. Fyrsta verkefnið var til dæmis að gera samninga við sérgreinalækna sem voru samningslausir 2010–2013. Það er forsendan fyrir því að geta gert kröfu til þess hvernig þeir haga störfum sínum. Við gerðum samninga undir lok árs 2013 en svo er aftur annað mál hvernig gengur að gera breytingar í þá veru sem við erum öll sammála um að þurfi að gerast, þ.e. að sérgreina- og sérfræðilæknisþjónustan verði sem næst fólkinu sjálfu. Það á heldur ekki að gera með þeim hætti að það leggist einhver sérstakur kostnaður á viðkomandi heilbrigðisstofnanir ef þær sinna þessu.

Ég nefndi áðan að samningur hefði verið gerður á milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sem er vel, en síðan á eftir að fullnusta með hvaða hætti unnt er að nýta fjárveitinguna. Það kann vel að vera — (KLM: Tvö skipti eru ekki nóg.) Nei, það kann vel að vera að við þurfum að gera breytingar á innihaldi sérgreinalæknasamningsins til að tryggja að við eigum kröfuna á að honum sé skilað út á vettvang. Ég fagna því að hér er samstaða um að bæta úr þeim brestum sem við erum klárlega með í þessari þjónustu en ég læt liggja á milli hluta að dæma um hvort þetta er ófremdarástand, (Forseti hringir.) sérstaklega þegar haft er í huga að magnið í þjónustunni sem verið er að veita (Forseti hringir.) … og að því eigum við að stefna.