144. löggjafarþing — 87. fundur
 13. apríl 2015.
för ráðherra til Kína.

[15:52]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fór til Kína í síðasta mánuði og var þar ásamt fulltrúum fyrirtækisins Orka Energy, en það vill svo til að hann var einmitt á launum við ráðgjöf hjá því fyrirtæki þegar hann var utan þings. Fram kom á vef ráðuneytisins að með í för hæstv. ráðherra hafi verið fulltrúar frá Marel og Orku Energy en því var reyndar breytt á vefnum 8. apríl og sagt að fulltrúar fyrirtækjanna hafi verið staddir í Kína og ekki verið hluti af sendinefnd ráðherra.

Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju var þessu breytt á vef ráðuneytisins? Hvaða mat lá þar að baki? Hvað var misfarið með í fyrri útgáfu? Það vill svo vel til í vefvæddum heimi að fyrri gerðir af slíku varðveitast líka. Þetta fyrirtæki vinnur að orkutengdum verkefnum í Asíu og fram kemur að það hafi átt fund með ráðherranum á meðan á dvöl hans í Kína stóð. Hver átti frumkvæðið að því að Orka Energy kæmi með í þessa ferð? Hvar liggur sú ákvörðun?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Í hverju var ráðgjöf hans fólgin? Hvað er það sem ráðherrann ráðlagði fyrirtækinu að gera og hvað kostuðu þau ráð? Hvað er langt síðan ráðherrann þáði peninga frá þessu fyrirtæki, væntanlega ráðherrann/ráðgjafinn? Voru þessi tilteknu ráð sem ráðherrann/ráðgjafinn gaf fyrirtækinu til umræðu á fundinum í Kína?



[15:54]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar fyrsta lið fyrirspurnarinnar, um vef ráðuneytisins, var því sem þar stóð ekki breytt heldur var það uppfært, eins og ég hef skilið það, þ.e. bætt var við upplýsingum vegna þess að upphaflegi textinn hafði valdið misskilningi um að þessi tvö fyrirtæki, þ.e. Orka Energy og Marel, hefðu verið með í för og hefði mátt skilja það sem svo að þau hefðu komið með í sendinefnd frá Íslandi. Jafnvel voru gerðir að því skórnir að greitt hefði verið fyrir þessi fyrirtæki. Svo er ekki, fulltrúar þessara fyrirtækja voru staddir í Kína á þessum tíma og það skýrir raunverulega þær breytingar sem hv. þingmaður spyr um.

Hvað varðar þáttinn í hverju ráðgjöf væri fólgin sem hv. þingmaður nefndi hér þá er til þess að taka að á þeim árum sem ég var utan þings og þurfti að vinna fyrir mér með öðrum hætti þá vann ég hjá einkaaðila, fyrirtæki, reyndar fleirum en þessum, nokkrum. Ég verð að taka það fram að í sjálfu sér ber mér engin skylda til að segja sérstaklega frá því, en úr því að hv. þingmaður spyr var það þannig að ég aðstoðaði þar við að kanna möguleika á að tengja þetta fyrirtæki við fjárfesta í Singapúr. Það er rétt að taka það fram að þetta fyrirtæki er þannig samansett að á þessum tíma var það í meirihlutaeigu manna sem eru ekki Íslendingar, það eru útlendingar. Það eru engir íslenskir fjármunir í þessu fyrirtæki. Reyndar er rétt að taka það fram að þetta fyrirtæki hefur keypt vinnu af íslenskum vísindamönnum og sérfræðingum fyrir nokkra milljarða á síðastliðnum árum og hefur þar með leitt til aukins hagvaxtar í landinu og gefið íslenskum sérfræðingum og vísindamönnum frábært tækifæri til að sinna störfum sínum.

Hvað varðar frumkvæðið liggur fyrir að á mínu verksviði eru samningar sem snúa að samstarfi á orkusviðinu, vísindarannsóknum sem þar liggja undir. Þar af leiðandi var alveg eðlilegt að þetta fyrirtæki kæmi þar að, þ.e. kæmi á fundum, vegna þess að burðarásinn í samskiptum Íslands og Kína á sviði orkuvísinda og orkusamstarfs liggur þar í gegn. Ég hafði vissulega áhuga á því í þessari ferð eins og aðrir hafa haft að sjá hvaða framkvæmdir þetta væru (Forseti hringir.) ... í Baoding, sem er vinabær Hafnarfjarðar sem hæstv. fyrrverandi ráðherra þekkir til. (Forseti hringir.) Það skýrir þar með þann þátt (Forseti hringir.) ...



[15:56]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Ég skildi það þá þannig hjá ráðherranum að frumkvæðið að þessu samfloti í Kína hefði komið frá honum sjálfum, að hann hefði talið það eðlilegt og verjandi að hann hefði frumkvæði að þessu samfloti. Ég er ekki sammála því að það sé eðlilegt í ljósi þess sem fram hefur komið.

Ég spyr hæstv. ráðherra til viðbótar: Hver á Orku Energy? Eru það íslenskir eða erlendir aðilar? Hvernig eru eignarhlutföll fyrirtækisins? Hverjir voru sem sagt þeir aðilar sem greiddu Illuga Gunnarssyni laun meðan hann starfaði sem ráðgjafi?



[15:57]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég sagði það hér áðan, það er enginn íslenskur aðili sem á þessi fyrirtæki, þetta eru allt aðilar sem eru annaðhvort búsettir erlendis eða eru erlendir aðilar, reyndar á þessum tíma er þetta í meirihlutaeign erlendra aðila.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst svolítið áhugavert að hlusta á þessa fyrirspurn hv. þingmanns. Það er eins og verið sé að reyna að gera það tortryggilegt að menn vinni hjá einkafyrirtækjum. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það ekki, hefur ekki þá reynslu. (SSv: Ha?) Hv. þingmaður virðist samkvæmt ferilskrá sinni aldrei hafa unnið hjá neinum einkaaðilum heldur bara hjá hinu opinbera. Ég hef líka unnið hjá hinu opinbera, ég starfaði til dæmis í Háskóla Íslands og þáði þar laun. Það voru fulltrúar frá Háskóla Íslands með í för, það voru þrír háskólarektorar með í þessari ferð. Ekki er með nokkrum hætti hægt að gera það tortryggilegt að rektor þess skóla væri þarna þó að ég hafi unnið hjá þeirri stofnun.

Ég vil líka segja eins og er að það sem skiptir máli hérna er þetta: Allt var uppi á borðum. Það liggur alveg fyrir að á þessum tíma var ég að vinna fyrir þetta fyrirtæki. Ég tel eðlilegt að þingmenn vinni fyrir sér þá þegar þeir eru ekki á þingi og ég er mjög stoltur af þeim störfum. Þetta fyrirtæki hefur keypt þjónustu af íslenskum vísindamönnum og ráðgjöfum fyrir milljarða (Forseti hringir.) á undanförnum árum og þar með lagt grunn fyrir hagvöxt. Ég þekki aftur á móti skoðanir hv. þingmanns á hagvexti. Ég verð að segja eins og er [Háreysti í þingsal.] að ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í því að gefa íslenskum vísindamönnum og íslenskum sérfræðingum tækifæri til að nýta þekkingu sína. (Forseti hringir.) Ég hef talið rétt hingað til, rétt eins og Jóhanna Sigurðardóttir, rétt eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, rétt eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, rétt eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að vera einmitt viðstaddur undirskriftir samninga þessa sama fyrirtækis þannig að … (Gripið fram í.)— Og ekki á launum í þessu tilviki. (Forseti hringir.) Þetta eru ekkert annað en aðdróttanir og ég verð að segja eins og er að það er sérkennilegt að hlusta á það hjá hv. þingmanni hvernig þessar aðdróttanir (Forseti hringir.) ...

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða tímamörk.)