144. löggjafarþing — 87. fundur
 13. apríl 2015.
samráð um frumvörp um húsnæðismál.

[16:05]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í ágætri ræðu sem forseti hélt í upphafi fundar þá hvatti hann þingmenn til forgangsröðunar og skipulags og það höfum við gert í hv. velferðarnefnd. Við vorum undir það búin að taka við málum sem varða húsnæðismál. Fjögur eru á þingmálaskrá en þó hefur verið boðað að eitt þeirra frestist fram á haustið.

Nú er svo komið að aðeins eru komin fram tvö mál. Annað er frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum og hitt um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Bæði frumvörpin enda á sömu setningunni: Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð. Stóra útgjaldafrumvarpið um húsnæðisbætur og stofnstyrki vantar. Það hefur tekið tvö ár að skila þessu af sér og átti að vera í ljósi þess að mikilvægt væri að hafa samráð. Það virðist hafa verið þannig að ekki var haft samráð við tvö helstu leigufélög landsins sem bæði eru í almannaþjónustu, Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústaði, enda segja þau að verði frumvarp um húsaleigulög að lögum verði starfsemin í uppnámi. Þannig var því samráði háttað.

Varðandi stóra húsnæðisbótamálið og stofnstyrkjamálið er það grundvallarmál til að tryggja húsnæðisöryggi og koma upp virkum leigumarkaði, en það virðist ekki fást afgreitt. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sjálf vakið athygli á því með einhvers konar gjörningi þar sem hún sendir sendingu til starfsfólks ráðuneytis með orkustöngum og hvetur það til að vinna vinnuna sína. Ég geri ráð fyrir því að ráðherra viti jafn vel og ég að ekki er við embættismenn fjármálaráðuneytisins að sakast heldur viljaleysi ríkisstjórnarinnar. Og ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig háttaði hún samráði við gerð þessara frumvarpa (Forseti hringir.) og hefur hún stuðning ríkisstjórnarinnar við mál sitt um húsnæðisbætur og stofnstyrki?



[16:08]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þekkir ágætlega þar sem hún var fulltrúi í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þar til hún tók ákvörðun um að hætta, var skipaður stór samvinnuhópur og raunar lagt upp með að allir þeir sem hefðu áhuga á því að koma að tillögum varðandi húsnæðismálin ættu möguleika á því að senda fulltrúa. Síðan var það raunar útvíkkað enn frekar af því að verkefnum var skipt upp og myndaðir fjórir mismunandi hópar og endaði með því að hver og einn fulltrúi gat skipað fjóra fulltrúa í það samráð.

Síðan spyr hv. þingmaður um samráð og ég tel rétt að túlka spurningu hv. þingmanns þannig að hún snúi að samráðinu eftir að tekið var við tillögunum og byrjað að vinna með þær í frumvarpsgerð. Það var með ýmsum hætti og er tilgreint m.a. í greinargerðinni með frumvörpunum við hvaða aðila var haft samráð. Ég skal hins vegar viðurkenna og ég vona að hv. þingmaður virði það við mig að þar sem ég er leigjandi sjálf þá endurspeglar frumvarpið um húsaleigulögin kannski meiri áherslu á leigjendur og að taka stöðu með þeim frekar en að taka stöðu með leigusölunum. Við erum núna einfaldlega að fara yfir athugasemdir. Málið liggur núna fyrir þinginu og ég fæ vonandi tækifæri til að mæla sem fyrst fyrir því þannig að hv. þingmaður geti sett málið í umsagnarferli og farið yfir athugasemdir sem berast um þessi tvö frumvörp og gert þær breytingar sem þarf ef þingmaðurinn telur rétt að taka undir þær.



[16:09]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Bara til að skýra það út fyrir hæstv. ráðherra þá eru þessir svokölluðu leigusalar sem eru leigufélög í almannaþjónustu einmitt að hugsa um hagsmuni leigjenda þegar þeir gagnrýna frumvarpið.

En nú í raun að aðalspurningunni sem ég fékk ekki svar við hjá hæstv. ráðherra. Styður ríkisstjórnin áform ráðherra um að stórauka stuðning við leigjendur og leigufélög í almannaþjónustu til að tryggja húsnæðisöryggi og virkan leigumarkað? Eða er þetta einkamál hennar? Manni liggur við að hugsa það þegar maður sér með hvaða hætti ráðherra hefur ákveðið að koma fram við það starfsfólk sem vinnur að þessu máli. En aðalspurningin er og ég óska eftir svari frá hæstv. ráðherra: Er stuðningur við málið og hvenær megum við búast við því að það komi hingað inn í þingið því ef um stuðning er að ræða þá er ekkert mál að koma því hér inn.



[16:10]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna það að ég skil ekki alveg hvað hv. þingmaður á við varðandi framkomu mína gagnvart starfsmönnum Stjórnarráðsins. (Gripið fram í.) Ef það þykir ekki lengur við hæfi að senda duglegu fólki kort eða jafnvel gjafir þá veit ég ekki alveg hvert við erum komin í okkar samfélagi.

Það kemur skýrt fram í fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun að húsnæðismálin eru eitt af lykilmálum ríkisstjórnarinnar og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þann texta sem þar stendur.