144. löggjafarþing — 87. fundur
 13. apríl 2015.
leiðrétting kjara eldri borgara.

[16:11]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur iðulega verið frystur á sama tíma og lægstu laun hafa hækkað. Þetta er kallað kjaragliðnun. Mig langar að spyrja ráðherra hvort honum finnist krafa aldraðra, margra hverra, um að sú kjaragliðnun verði leiðrétt strax fyrir tímabilið 2009–2013, réttmæt.

Eldri borgarar þessa lands — sem telja þúsundir og treysta margir hverjir nær eingöngu á laun eða bætur frá Tryggingastofnun — eru einn örfárra hópa sem ekki nýtur samningsréttar. Þeir koma þar með ekki að borðinu þegar aðrir launþegar landsins ná fram sínum launabótum eins og við stöndum frammi fyrir í dag, þeir hafa ekki þennan samningsrétt. Hvað geta þeir sagt? Þeir geta ekki sagt: Við förum í verkfall. Þeir geta ekki sagt: Eigum við að hætta að vera gamlir? Við erum hættir, farnir í verkfall. Það gengur ekki.

Er ráðherrann meðvitaður um þessa réttarstöðu? Hefur hún verið að hugsa það? Hefur hún hugsað einhverjar leiðir sem hægt væri að fara til að eldri borgarar og öryrkjar og fleiri hópar, sem hafa ekki þennan samningsrétt, geti komið að borðinu þegar verið er að ræða um laun þeirra og stöðu, við sáum í fjárlögunum, það var byrjað að fara í 3,5% en lækkað í meðferð þingsins niður í 3%.

Ég átti góðan fundi með Félagi eldri borgara í Reykjavík nýlega og í Danmörku eru það frjáls félagasamtök, regnhlífarsamtök eins og ASÍ þess lands, sem tryggir að þau geti komið aðeins að borðinu. Er það eitthvað sem ráðherra getur gert með reglugerð eða hvað? Eru einhver verkfæri sem ráðherra hefur og það jafnvel löggjöf til að aðstoða eldri borgara og aðra, sem þiggja bætur frá ríkinu, til að koma betur að borðinu hvað varðar þeirra kjaramál? Og hvað finnst ráðherranum um þetta? Finnst honum það réttmæt krafa að leiðrétta þessa kjaragliðnun?



[16:14]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í 69. gr. almannatryggingalaga er einmitt sérstakt ákvæði sem snýr að hækkun bóta og hvernig eigi að hátta þeim.

Ég vil líka benda á að í mínum huga er forsenda fyrir allri velferð — og almannatryggingar eru náttúrlega lykilþáttur í íslenska velferðarkerfinu — vinna, að við bætum stöðu þess fólks sem er á vinnumarkaði því að það er það sem borgar skattana sem aflar tekna sem við höfum til að bæta enn frekar í greiðslu bóta og aðra þætti velferðarkerfisins.

Það hlýtur að þurfa að liggja fyrir hvernig við ætlum að standa að því að bæta kjör fólks á almennum vinnumarkaði. Það mun vonandi leiða til þess að við sjáum auknar tekjur koma inn í ríkissjóð og það liggur algerlega fyrir, eftir þessa helgi og eftir ályktanir og vinnu félagsmanna á flokksþingi framsóknarmanna, að það verður eitt af lykilmálum okkar að berjast fyrir bættum kjörum lífeyrisþega.



[16:15]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Já, gott og vel. En það vantar samt sem áður enn upp á þetta. Ef við horfum á það í ljósi grunngilda Pírata, sem ég held að flestir geti verið sammála um, að allir eigi rétt á að koma að ákvörðunum sem þá varðar. Fólk á almennum vinnumarkaði hefur rétt til að koma að ákvörðunum um laun sín og því er í lögum skapaður ákveðinn samningsréttur sem styrkir samningsstöðu þess.

Þetta er ekki til staðar fyrir eldri borgara, þetta er ekki til staðar fyrir öryrkja. Það er það sem ég er að reyna að átta mig á, hvort ráðherrann hafi verið að hugsa það og hvort hann sé opinn fyrir því að finna aðrar leiðir, þó ekki nema það að eldri borgarar geti fengið að sitja við borðið á einhverjum forsendum, meira en er í dag, þegar verið er að taka ákvarðanir um velferð þeirra, um kjör þeirra. Ég held að hæstv. ráðherra hafi svarað hinu eins vel og hún mun gera, en ég bið hana endilega að gefa svar við þessu.



[16:16]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú er starfandi nefnd undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er einmitt hugsuð til þess að endurskoða almannatryggingakerfið. Þar eiga eldri borgarar og öryrkjar fulltrúa þannig að þeir sitja við borðið og eru að vinna tillögur að því hvernig hægt sé að bæta kjör þeirra.

Ég vil líka minna á, og síðasta ríkisstjórn verður að eiga það sem hún á, að samkvæmt þeim tölum sem við höfum þá var einmitt — og það var eitthvað sem samstaða var um hér í þinginu — staðinn vörður um greiðslur almannatrygginga þegar menn stóðu hér í mjög erfiðum niðurskurði.

Ég hef líka lagt áherslu á það í mínu starfi sem ráðherra og ég veit að þegar tillögurnar koma fram verður mikil samstaða áfram hér í þinginu um að bæta kjör þessara hópa.