144. löggjafarþing — 87. fundur
 13. apríl 2015.
fjárveitingar til háskóla.
fsp. KLM, 519. mál. — Þskj. 898.

[16:37]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín hljóðar svo:

Hyggst ráðherra endurskoða úthlutunarreglur ráðuneytisins varðandi fjárveitingar til háskóla, samanber umræðu við gerð síðustu fjárlaga um misskiptingu í því sambandi?

Tilefni fyrirspurnarinnar, til upprifjunar fyrir þingmenn, er að við 2. umr. fjárlaga kom inn breytingartillaga þar sem skipt var 617 millj. kr. til háskóla. Háskólinn á Akureyri fékk eingöngu 10,3 milljónir af þessum 617 milljónum, Háskóli Íslands fékk tæpar 300 milljónir, Háskólinn í Reykjavík um 260 milljónir, Landbúnaðarháskóli Íslands 17,9 og svo framvegis.

Þessi skipting var tilefni mikillar umræðu hér á Alþingi. Ég minnist þess að ég sagði að mér fyndist eitthvað athugavert við excel-skjöl ráðuneytisins þegar hægt væri að komast að þvílíkri niðurstöðu. Í framhaldi af þessu ályktaði háskólaráð Háskólans á Akureyri vegna fjárveitinga til háskólastigsins og í þeirri ályktun sagði m.a., með leyfi forseta:

„Það skýtur skökku við, að á sama tíma og Háskólinn á Akureyri hefur uppfyllt allar opinberar gæðakröfur, sýnt mikla ráðdeild í rekstri og greitt upp að fullu hallarekstur fyrri ára, þá skuli skólinn ekki njóta þess þegar kemur að því að fjármagn sé aukið til háskólastigsins að nýju […].“

Svo kemur fram að Háskólinn á Akureyri er með rúmlega 100 nemendaígildi umfram fjárveitingar í dag og allt stefni í að sá munur aukist á næsta ári, þ.e. 2015.

Síðan segir í ályktuninni, virðulegi forseti:

„Háskólaráð lýsir yfir furðu sinni á þeirri stöðu sem upp er komin, að takmarka verði aðgengi og námsframboð við stærsta háskóla landsins utan höfuðborgarsvæðisins og þriðja stærsta háskóla landsins, á sama tíma og skólar á höfuðborgarsvæðinu fá greitt fyrir umframnemendur síðustu ára.“

Síðan, með leyfi forseta:

„Háskólinn á Akureyri hefur þjónað landinu öllu í gegnum öflugt fjarnám og unnið mikið brautryðjendastarf á því sviði.“

Þess má geta að Háskólinn á Akureyri fær engar fjárveitingar vegna þessa mikla fjarnáms.

Virðulegi forseti. Þetta var tilefni þess að ég leyfði mér að setja fram þá spurningu til ráðherra sem ég las hér í upphafi til þess að eiga orðastað við ráðherrann og heyra skýringar hans á því hvers vegna komið er fram við Háskólann á Akureyri á þann hátt sem ég hef gert að umtalsefni og háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur ályktað um. Ég bíð spenntur eftir að heyra skýringar hæstv. ráðherra á þessu og vona jafnframt að hann komi með það í farteskinu að þarna sé (Forseti hringir.) vitlaust gefið, að þarna séu jafnvel einhverjir feilar í (Forseti hringir.) excel-skjölunum sem ráða allt of mikið ríkjum (Forseti hringir.) í ráðuneytunum um þessar mundir.



[16:40]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Ég vil taka það fyrst fram að í ráðuneytinu stendur nú yfir vinna við gerð heildstæðrar stefnumótunar fyrir málefnasviðið háskólar og vísindastarfsemi til fimm ára. Tekið verður til ólíkra þátta æðri menntunar, rannsókna og nýsköpunar og helstu stoðaðila málaflokksins. Markmið stefnumótunarinnar er að auka skilvirkni, samþættingu, árangur og gæði innan málaflokksins. Stefnumótunin verður lögð til grundvallar ákvörðun um kennslu og rannsóknir í háskólum, þar á meðal hvort ráðist verður í breytingar á fyrirkomulagi fjármögnunar, kennslu og rannsókna í háskólum.

Núverandi fyrirkomulag fjárveitinga til kennslu í háskólum hefur verið við lýði frá árinu 1999 og kom það í fyrsta skipti til framkvæmda við fjárlagagerð ársins 2000. Fyrirkomulagið byggir á reglum nr. 646 frá 1999, um fjárveitingar til háskóla. Á grundvelli reglnanna ákvarðar ráðuneytið fjárveitingar til kennslu með aðstoð reiknilíkans er byggir m.a. á skiptingu náms í verðflokka eftir fræðasviðum, fjölda ársnema og brautskráninga hjá einstaka skólum. Jafnframt hefur ráðuneytið í ákveðnum tilvikum gripið inn í sértækar aðkallandi aðstæður í háskólum með viðbótarfjárveitingum, en slíkar ráðstafanir eru tímabundnar aðgerðir.

Opinber framlög til háskólanna hafa lækkað úr 1.330 þús. kr. fyrir hvern ársnema árið 2009 í 1.170 þús. kr. árið 2013. Þetta má að stórum hluta skýra með samspili nemendafjölgunar og niðurskurðar í kerfinu. Ársnemum fjölgaði um 1.745 á milli áranna 2008 og 2010 og þar af fjölgaði ársnemendum í Háskóla Íslands um 1.453. Háskóli Íslands bar því 83% af fjölguninni í kerfinu.

Lækkun framlaga á hvern ársnema undanfarin ár hefur veikt mjög rekstrargrundvöll háskólanna. Í fjárlagafrumvarpi 2015 var leitast við að snúa þeirri þróun við og stíga fyrstu skrefin í átt að færa framlög á hvern nemanda nær því sem gerist í löndum OECD og annars staðar á Norðurlöndunum. Ráðist var í sértækar hækkanir á einingaverðum nokkurra reikniflokka með það að markmiði að styrkja rekstrargrundvöll skólanna og voru reikniflokkar á sviði tölvunar- og stærðfræði, hjúkrunarfræði, félagsvísinda og kennaranáms hækkaðir að þessu sinni. Breytingar á fjárhæðum reikniflokkanna hafa mismunandi áhrif á heildarfjárveitingu hvers skóla þar sem samsetning nemendahópanna er ólík eftir skólum.



[16:43]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég var að bíða eftir að hæstv. ráðherra mundi svara spurningu hv. þingmanns en heyrði ekki svarið. Ég ætla því að ítreka spurninguna.

Þetta snýst um það að þegar verið var að deila þessum peningum út var miðað við áætlaðan nemendafjölda árið 2014. Raunnemendafjöldi árið 2014 í Háskólanum á Akureyri var mun meiri en áætlunin gerði ráð fyrir. Spurningin er því þessi: Verður Háskólanum á Akureyri bættur sá mismunur sem var á áætluninni og rauntölunum fyrir árið 2014? Þetta er einföld spurning.

Annað sem mig langar aðeins að koma inn á, á þeim stutta tíma sem hér gefst, er að í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að ekki væri greitt fyrir umframnemendur heldur hærri fjárframlög fyrir hvert nemendaígildi. Varla var blekið þornað fyrr en menn voru hættir við það ákvæði og farnir að greiða fyrir umframnemendaígildi á umliðnum árum. Þetta er mjög (Forseti hringir.) óskýr stefna.

Nú hljóta háskólar að spyrja sig: Eigum við (Forseti hringir.) að taka umframnemendur og treysta á að við fáum þetta bætt síðar, eða er markmiðið að hækka framlög á nemendaígildi?



[16:45]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og hv. þingmaður, þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá frá ráðherranum svar við þeirri spurningu sem hér er borin fram.

Við stjórnarandstöðuþingmenn fórum mjög vel í gegnum þetta fyrir jólin, þegar við vorum að afgreiða fjárlagafrumvarpið, og óskuðum þá meðal annars eftir skýringum á smánarlegu framlagi, úr 617 millj. kr. pottinum, til Háskólans á Akureyri. Ég hugsa að um sé að ræða eina skólann sem hefur sýnt ráðdeildarsemi sem felst í því að lækka laun starfsmanna, leggja niður deildir o.s.frv. en því er mætt með því að skólinn fær ekki aukið framlag þegar betur er farið að ára. Ég tek því undir þær spurningar sem hér hafa komið fram og hvet ráðherra til að (Forseti hringir.) styðja betur við bakið á Háskólanum á Akureyri en gert hefur verið í ljósi þeirrar sögu sem hann á.



[16:46]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er mjög þörf, þ.e. að ræða einmitt stöðu landsbyggðarháskólanna, orð og efndir varðandi þróunina á landsbyggðinni.

Síðastliðinn föstudag átti ég kost á því að vera við umræðu um skýrslu frá Vinnumálastofnun um þróun á vinnumarkaði á Íslandi næstu tvö árin, frá 2015 til 2017. Þar kom fram að efling ferðaþjónustu hefur nær eingöngu ráðið, eða 96%, fjölgun fólks á vinnumarkaði. Þar kom líka fram að efla þyrfti landsbyggðina í umsýslu og móttöku á ferðamönnum og sérstaklega kom fram að auka þyrfti menntun úti á landsbyggðinni fyrir þá aðila sem vinna í ferðaþjónustu.

Það má segja að mottóið í umræðunni hafi verið menntun og gæði. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda því til haga, þegar við ræðum hvort sem er skólana í Norðvesturkjördæmi eða Háskólann á Akureyri, hversu gríðarlega miklu máli það skiptir (Forseti hringir.) að við gætum þess að menntunin verði úti á landi og að til þess fáist nægilegt fjármagn.



[16:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég var nú ekki miklu nær hvað varðar málefni Háskólans á Akureyri sérstaklega þrátt fyrir að hlusta hér á fróðlegan yfirlestur hæstv. ráðherra um almenna vinnu hans að þessu leyti. Það er óumdeilt að Háskólinn á Akureyri stóð sig með afbrigðum vel þegar hann, á mestu erfiðleikaárunum, var jafnframt að greiða upp uppsafnaðan halla og gera upp að fullu skuldahala án nokkurrar sérstakar aðstoðar við það frá ríkinu.

Þegar kemur síðan að því að leggja grunn að starfi háskólanna inn í framtíðina duga ekki vélrænar reikniformúlur einar að mínu mati. Ég tel að ráðuneyti menntamála verði að hafa einhverja framtíðarsýn líka og þess verði að sjá stað hvaða hlutverk menn ætla hverri menntastofnun fyrir sig. Í því ljósi séð var útkoman hjá Háskólanum á Akureyri við afgreiðslu síðustu fjárlaga, úthlutun úr leiðréttingapottinum, með öllu óskiljanleg. Það verður ekki sagt að á nokkurn hátt sjáist þess stað að ráðuneyti menntamála, undir núverandi stjórn, hafi skilning (Forseti hringir.) á því gríðarlega veigamikla hlutverki sem Háskólinn á Akureyri hefur sem algert (Forseti hringir.) flaggskip menntunar á æðri skólastigum á landsbyggðinni.



[16:48]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skildi það af ræðu hæstv. ráðherra að mikil vinna væri í gangi í því að athuga hvort aðferðirnar sem notaðar eru til að deila út fjármagni séu réttar eða ekki. Þetta var samt ekki alveg skiljanlegt. Ég get ekki skilið af hverju menn geta ekki, þó að þeir séu orðnir ráðherrar, haft skoðun á hlutunum. Telur ráðherrann að þau reiknilíkön sem nú eru í notkun fullnægi þörfum háskólanna, Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað finnst honum um það þegar fjárlaganefnd kemur og færir, án þess að ráðuneytið virðist komast nokkurs staðar að, allt í einu 40 milljónir inn í Háskólann á Hólum og (Forseti hringir.) skólameistari þar er alveg steinhissa og veit ekkert (Gripið fram í.) hvaðan á sig stendur veðrið? Ég meina, hvað finnst ráðherra? (Forseti hringir.) Getur hann sagt mér hvað honum finnst um þessi vinnubrögð?



[16:50]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er yfirleitt allra manna fremstur í því að koma með skýr svör. Hér er hann spurður mjög einfaldra spurninga sem hann hefði í sjálfu sér getað svarað með einu orði. Þess í stað kýs hæstv. ráðherra að fara með langan fyrirlestur, las hann mjög hratt og fyrir venjulegt fólk var mjög erfitt að komast að niðurstöðu um hvað hæstv. ráðherra var að segja. Þess vegna vil ég koma með þá frómu ósk að hæstv. ráðherra beiti sínum analítísku hæfileikum til að eima sjálfan sig niður í kannski tvær setningar í síðara svari.

Að öðru leyti ann ég háskólum Reykjavíkur og Íslands hverrar krónu sem þeir fá til sín. En ég verð hins vegar að taka undir það, og sú skoðun mín hefur komið fram áður, að mér fannst mjög harkalega farið með háskólann fyrir norðan við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Sér í lagi þegar horft er til þess að sá háskóli fór í einu og öllu eftir því sem fyrir hann var lagt og þar að auki verð ég að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að menn þurfa auðvitað að (Forseti hringir.) hafa forgangsröð á hreinu. Og að því er varðar landsbyggðina er hann (Forseti hringir.) flaggskipið. Þetta er háskóli, herra forseti, (Forseti hringir.) sem hefur sérstöðu (Forseti hringir.) varðandi til dæmis norðurslóðir, sem ég veit að við hæstv. forseti erum sammála um.



[16:51]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, hann er ekki einn um það að hafa ekki skilið svar ráðherra. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, og reyndi ég nú að bera mig eftir svarinu, að ég skildi ekki hvað ráðherrann var að fara. Bara ekki neitt. Það er kannski ný stefna í störfum þingsins að ráðherra noti ekki tíma sinn til þess að svara fyrirspurnum, ábyggilega gert til þess að halda starfsáætlun, en það er þá eitthvað nýtt.

Virðulegi forseti. Ég hvet sveitunga minn, hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson, til þess að koma í seinna andsvar og segja okkur það skýrt: Verður reiknilíkaninu breytt þannig að hlutföllin verði ekki aftur með þeim hætti sem ég gerði að umtalsefni, þegar Háskólinn á Akureyri fær aðeins 10,3 millj. kr. af 617 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til háskóla? Verður reiknilíkaninu breytt þannig að inn í það komi fjárveitingar vegna fjarnema? Eða á bara að taka það einhvern veginn út úr öðrum rekstri og flaggskipið í þessari kennslu, Háskólinn á Akureyri, fái það ekkert bætt?

Virðulegi forseti. Ef ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera í þessu þá liggur við að ég segi bara að það verði langbest fyrir hana að fela yfirvöldum Háskólans á Akureyri að reka alla háskólana í landinu vegna þess að þau gera það á mjög hagkvæman og góðan hátt eins og ég sagði í byrjun, þau hafa uppfyllt öll skilyrði.

En að þessari niðurstöðu varðandi aukafjárveitingar sem ég hef gert að umtalsefni og spurning mín snerist um. Verður þessu reiknilíkani breytt? Mun ráðherrann beita sér fyrir því að Háskólinn á Akureyri fái leiðréttingu vegna aukafjárveitinga og reiknilíkanið (Forseti hringir.) verði leiðrétt þannig að skólinn geti staðið við sitt (Forseti hringir.) og haldið áfram að eflast en þurfi ekki sífellt að vera í nauðavörn, eða verður þetta að hætti (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar og á kostnað þeirra?



[16:54]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að fjárframlög til skólans á Akureyri hafa verið aukin. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að þegar um var að ræða sérstaka fjárveitingu sem hv. þingmaður ræddi, rétt rúmar 600 milljónir, var þeim fjármunum úthlutað eftir fyrir fram ákveðinni reglu óháð skólum. Þar var horft á þann mikla vanda sem hefur myndast vegna þess að nemendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Í skólunum er fjöldi nemenda, í Háskólanum á Akureyri og víðar, sem er í raun og veru ekki greitt fyrir. Þannig að ákveðið var að ráðast í það. Þá er staðan sú að stærsti háskóli þjóðarinnar, Háskóli Íslands, hefur tekið á móti stærstum hluta þessarar aukningar. Ég fór yfir það í svari mínu áðan að Háskóli Íslands bar 83% af fjölgun í kerfinu sem átti sér stað á árunum 2008 til 2010, sem er bróðurparturinn eins og augljóst mátti vera.

Síðan er hitt, virðulegi forseti, að það er vandlifað í þessum heimi, hér er kvartað yfir of miklum upplýsingum. Ég hefði viljað koma fram með í þessu svari einmitt alla meginþættina sem skipta máli þegar er horft til þess líkans eða þeirrar aðferðafræði sem notuð er þegar útdeilt er hluta af fjármunum til skólanna. Það var kallað eftir framtíðarsýn, að hana skorti. Ég get tekið undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hana hefur vantað. Á undanförnum áratug og kannski tveimur höfum við aðallega reynt að fjölga sem mest stúdentum af því við vorum á eftir öðrum þjóðum hvað það varðaði. Núna aftur á móti er komið að ákveðnum tímamótum og það þarf að búa til nýja sýn í þessu efni og sú vinna stendur yfir.

Virðulegi forseti. Af því hér var kallað eftir enn þá skýrari eða einfaldari svörum en hafa verið gefin þá skal ég reyna að gera það sem ég get í því. Svarið er nei, ég mun ekki breyta afturvirkt einu eða neinu af því sem nú þegar er búið að gera og samþykkja á Alþingi, það gefur augaleið. Við erum auðvitað að skoða þessi reiknilíkön. En þarna var ráðist í almenna, gagnsæja aðgerð sem (Forseti hringir.) sneri að því að reyna að leysa þann vanda sem kom upp í háskólakerfinu öllu sem er fjöldi þeirra (Forseti hringir.) nemenda sem ekki var greitt fyrir. Það var gert með almennum hætti. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli. Það var ekki tekin sérstök ákvörðun um sérstaka skóla.