144. löggjafarþing — 89. fundur
 15. apríl 2015.
störf þingsins.

[15:02]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú heyrum við fréttir þess efnis að á aðalfundi HB Granda hafi sú ákvörðun verið tekin að hækka stjórnarlaun um 33,3%. Þessar hækkanir skila stjórnarmönnum frá 50 þúsundum upp í 100 þúsund í auknar tekjur á mánuði. Þessar hækkanir gerast á sama tíma og landverkafólk HB Granda greiðir atkvæði um verkfallsaðgerðir þar sem því stendur til boða 3,3% launahækkun. Sú prósentuhækkun mundi skila 6–7 þús. kr. í hækkun á mánuði. Svigrúmið hefur hingað til ekki verið talið vera meira því að meiri hækkun gæti, samkvæmt Samtökum atvinnulífsins, ógnað stöðugleika.

Þegar horft er á þessar samanburðartölur, þ.e. boðun 3,3% launahækkunar til landverkafólksins og ákvörðun um 33,3% til stjórnarmanna, dettur manni aðeins eitt í hug: Var komman færð á vitlausan stað eða hvað átti sér eiginlega stað? Er hér verið að samþykkja að aðrir starfsmenn fyrirtækisins fái sömu launahækkanir? Eða gilda ekki sömu viðmið um launahækkanir fyrir verkafólk og toppa hjá fyrirtækjum?

Þessi ákvörðun hefur framkallað mikla og skiljanlega reiði hjá landverkafólki fyrirtækisins. Þetta virðist hleypa mun meiri hörku í samningaviðræðurnar og skal engan undra. Erfitt getur verið að átta sig á hvers vegna það virðist vera í lagi að veita ákveðnum hópi tíu sinnum meiri launahækkanir en eru í boði fyrir aðra hópa. Af hverju ógna þessar hækkanir ekki stöðugleika í landinu en allt ætlar um koll að keyra þegar talað er um alvöruhækkanir fyrir lægstu hópana, sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum þar sem svigrúmið virðist svo sannarlega vera til staðar?

Ég get ekki orða bundist og ég verð að vitna í titil á lagi sem samið hefur verið hjá starfsmönnum HB Granda vegna kjarabaráttunnar og heitir Sveiattan.



[15:04]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er á sama stað og sú sem talaði á undan mér og verð að taka undir með formanni Verkalýðsfélags Akraness þegar hann gagnrýnir þessa hækkun stjórnarlauna hjá HB Granda upp á 33,3%, eins og hér kom fram, og að launafólki sé boðið upp á 3,5% launahækkun.

Það fólk sem þiggur stjórnarlaun hjá HB Granda og fleiri fyrirtækjum er oft og tíðum í öðrum störfum, vel launuðum störfum, þannig að þetta er viðbót við laun þess. Það er ekkert skrýtið að fólk spyrji sig hvort stjórnendur þessa fyrirtækis og margra annarra sem greiða að auki mikinn arð til eigenda sinna hafi ekkert siðferði og enga réttlætiskennd gagnvart sínu starfsfólki. Stjórnarmenn HB Granda eiga að skammast sín fyrir að sýna starfsfólki sínu aðra eins fyrirlitningu og felst í þessari hækkun stjórnarlauna á sama tíma og verkafólk hefur varla í sig og á þrátt fyrir langan vinnudag.

Ég spyr eins og formaður VA gerði: Steig enginn fram á hluthafafundinum í HB Granda til varnar íslensku fiskvinnslufólki?

En það er ekki bara íslenskt fiskvinnslufólk sem berst fyrir hækkun á smánarlegum launum, heldur fólk í ýmsum stéttum sem heldur samfélagi okkar á floti. Ég er hrædd um að það fari um ferðaþjónustuaðila ef það kemur til verkfalls. Til að halda því til haga er starfsfólk til dæmis veitinga- og gistihúsa í launaflokki 5 hjá Starfsgreinasambandinu og fær þá á bilinu 208–215 þús. kr. í mánaðarlaun. Hvaða útspil ætlar ríkisstjórnin að leggja til þannig að hægt sé að koma í veg fyrir algjört kaos í þjóðfélaginu? Ætlar hún að fjölga seðlabankastjórum og leyfa hærri bónusa til toppanna í fjármálafyrirtækjum? Eða hvað annað stendur fólki til boða sem berst með lægstu launin?

Ég verð að vitna að lokum, virðulegi forseti, til þess sem Hrafn Jónsson sagði í Kjarnanum.

„Það virðist samt engu skipta hversu mikið af andafitu efri þrepin troða í sig — það ógnar engum stöðugleika — en um leið og skúringakona á Akranesi biður um meira en 2,8% hækkun á 214.000 krónurnar sínar þá leggjast allar plágur Egyptalands á okkur.“



[15:06]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Það var ekki við því að búast að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fögnuðu tilkynningu forsætisráðherra um afnám hafta og svokallaðan stöðugleikaskatt sem gæti skilað ríkissjóði (Gripið fram í.) hundruðum milljóna kr. Það bjóst enginn við því að fánar yrðu dregnir að húni hjá þeim aðilum, hvað þá að þeir mundu fagna aðgerð sem ætti undir venjulegum kringumstæðum að vera hafin yfir stjórnmála- og dægurþras. Fyrstu viðbrögð snerust almennt um nafnið „stöðugleikaskattur“ og af hverju búið væri að breyta nafninu „útgönguskattur“ sem notað hefði verið í umræðunni. Þetta kallar maður auðvitað að kunna að skilja aðalatriði frá aukaatriðum. Auðvitað skiptir nafnið á skattinum miklu meira máli en skatturinn sjálfur, tilgangur hans og hverju hann mun skila okkur og næstu kynslóðum.

Þetta er sú málefnalega umræða sem stjórnarandstaða þessa lands býður landsmönnum upp á. Hér vil ég þó að vissu leyti undanskilja nokkra þingmenn stjórnarandstöðunnar, m.a. formann Vinstri grænna, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem hefur séð ljósið og tekið undir nauðsyn á slíkum skatti.

Það sem landsmenn þurfa að spyrja og fjölmiðlamenn ættu að spyrja er hverra erinda þessir ágætu stjórnarandstöðuþingmenn ganga. Hvaða hagsmunir ráða því að sumir þeirra hafa á undanförnum mánuðum komið hvað eftir annað upp í ræðustól, kvartað undan málsmeðferð og fundið stöðugleika- eða útgönguskatti flest til foráttu? Það er full ástæða til að skoða þessar ræður sérstaklega og í raun ætti að prenta þær út og dreifa. Þjóðin á kröfu á að vita hver afstaða einstakra stjórnarandstöðuþingmanna er til afnáms hafta. Þetta er vitneskja sem verður að liggja fyrir til að menn geti tekið upplýsta ákvörðun fyrir næstu kosningar. Svörin liggja fyrir í ræðum sem fluttar hafa verið úr þessum stól.

Ágætur varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, kallar viðbrögð stjórnarandstöðunnar við afnámi hafta kómískt leikrit eftir 52 mánaða verkleysi fyrri ríkisstjórnar í grein í Morgunblaðinu í dag. Það má taka undir (Forseti hringir.) þetta. Óli Björn Kárason segir líka, með leyfi forseta:

„Eðli máls samkvæmt hafa áætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám hafta og uppgjör eða slit þrotabúa (Forseti hringir.) bankanna ekki verið gerðar opinberar. Slíkt væri fullkomlega óábyrgt og gæti skaðað (Forseti hringir.) hagsmuni almennings, íslenskra fyrirtækja og ríkissjóðs.“



[15:09]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur aðeins borist í tal sú ákvörðun sem tekin var af eigendum og stjórnendum Granda um launakjör stjórnarinnar þar. Það er auðvitað fagnaðarefni að það sé svigrúm til þess að hækka laun umtalsvert en það verður að segja eins og er að hér er verið að hækka við kolranga hópa. Það er ánægjulegt að þetta svigrúm sé fyrir hendi vegna þess að öllum er auðvitað löngu ljóst að það er veruleg þörf á kjarabótum en auðvitað ekki til stjórnarmanna eða stjórnenda í fyrirtækjum, enda sýnir samanburður við Norðurlöndin og kjör þar að í þeim enda launastigans erum við ágætlega samkeppnishæf. Kjörin hjá meðal- og lágtekjufólki á Íslandi standa langt að baki nágrannalöndunum. Þess vegna er eðlileg og sjálfsögð krafa að það góða svigrúm sem stjórnendur og eigendur Granda hafa staðfest að er til staðar til launahækkana í landinu verði nýtt til þess að lyfta sérstaklega lægstu laununum og þá ekki síst þeim sem eru með undir 300 þús. kr. á mánuði. Hver maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig í ósköpunum er yfir höfuð hægt að lifa á þeim á Íslandi árið 2015.



[15:11]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að tvær framsóknarkonur, hv. þingmenn, komu hingað í gær og töluðu um röflið í okkur í minni hlutanum langar mig aðeins að taka stöðuna. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum nýta tímann vel í þingsal, en nú þegar líður að þinglokum hefst leikritið sem snýst eiginlega um það að minni hlutinn veit ekkert í hvað stefnir, hvaða mál verða tekin á dagskrá og hvaða mál koma inn. Meiri hlutinn ranghvolfir augunum og skilur ekkert í því að það sé málþóf í gangi, enda kannast þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðvitað ekkert við málþóf, vita ekkert hvað það er. Skipulagið á allri dagskránni er í hálfgerðu uppnámi. Ég hef ekki hugmynd um dagskrána fram undan og hvaða mál koma inn í þingið. Mun hæstv. félagsmálaráðherra koma með sín mál? Verður sumarþing? Hvað er hér í gangi?

Við viljum öll leggja góðum málum lið og koma þeim í gegn. Vandamálið er að hæstv. forseti þarf að hafa dagskrárvaldið, en hann hefur það ekki því að hann er framlenging á framkvæmdarvaldinu. Þegar fer að líða að þinglokum fara fram samningafundir í hinum og þessum herbergjum þar sem allir eru orðnir dauðþreyttir og ruglaðir og virðast ekki endilega vita hvað fer fram á þeim nema hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, sem hefur verið í þeirri stöðu að vera bæði þingflokksformaður og formaður.

Ég spyr: Af hverju erum við ekki að semja núna? Af hverju erum við ekki að ræða dagskrána fram að þinglokum núna? Ef við ætlum að semja um einhver mál, hvaða þingmannamál við viljum fá inn eða hvernig þetta á að fara fram, af hverju erum við þá ekki að ræða það núna? Ég kalla eftir því.

Ég skora á framsóknarkonurnar tvær að taka þetta samtal við sína forustu því að það er á ábyrgð stjórnvalda að þingstörfum hér vindi vel fram og að við klárum þetta þing. Það er ekki á ábyrgð okkar í stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í.)

Ég frábið mér allt tal um eitthvert röfl. Ég tel mig bara málefnalega þegar ég kem upp í ræðustól og tel (Forseti hringir.) að það séu þingmenn almennt.



[15:13]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að nefna að einhverju leyti það sama og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi, að vinnubrögðin á Alþingi eru ansi fyrirsjáanleg. Það þýðir ekki að þau séu fyrirsjáanleg að því leyti að maður geti skipulagt sig, heldur fyrirsjáanleg að því leyti að maður getur eiginlega ekkert skipulagt sig. Nú er komið fram yfir þá dagsetningu sem okkur er gefin til að leggja fram ný þingmál, skiljanlega, en samt lítur út fyrir að það gætu komið ný þingmál. Það er boðað þingmál, ef ég skil rétt sem ég er alls ekkert viss um að sé tilfellið, um stöðugleikaskatt sem hv. þm. Karl Garðarsson kvartaði undan áðan að stjórnarandstaðan væri ekki að hrópa húrra fyrir. Mig langar að útskýra hvers vegna það er. Það er vegna þess að sú umræða sem þarf að eiga sér stað til að maður skilji fyrirbærið hefur ekki átt sér stað. Að hluta til hefur sú umræða ekki átt sér stað vegna þess að hæstvirtir formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru ekki til staðar til að svara spurningum á mánudaginn var. Við fórum yfir þetta á þeim tíma. Enn og aftur fyrirsjáanlegt og því miður heldur dæmigert.

Nú stefnir í að meira verði að gera en starfsáætlun segir til um — eins og mátti búast við. Sömuleiðis að við eigum erfitt með að sjá með meira en örfárra daga fyrirvara hvað lendi á fundum nefnda, hvað þá þingfundi. Seinna meir á sér hér stað meira og meira brölt á þinginu þar til að því kemur að menn semja um hvað eigi að komast í gegn og hvað ekki. Þetta er óttalegt brölt og þetta er svona trekk í trekk.

Ég legg til að við gerum eitthvað í því til að laga þetta. Ég vænti þess að allir vilji laga þetta vegna þess að hér kvartar stjórnarandstaðan yfir meiri hlutanum og meiri hlutinn yfir minni hlutanum. Viljum við ekki leysa þetta? Það er nefnilega hægt að leysa þetta. Við þurfum bara að vilja það. Við þurfum að sýna þann vilja í verki þannig að ég legg til að við höldum sumarþing að þessu sinni, klárum þessi mál og hefjumst handa við að bæta þau.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[15:15]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Undir liðnum störf þingsins fyrr í þessari viku ræddum við, fleiri en einn og fleiri en tveir, um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Ég vil horfa á flugvöllinn í Vatnsmýrinni sem samgönguæð og ég velti fyrir mér hvað eigi að ráða för þegar hann er annars vegar. Ég vil jafnframt láta þess getið að ég er þeirrar skoðunar að virða eigi skipulagsvald sveitarfélaga. Það er hins vegar spurning þegar kemur að flugvellinum í Vatnsmýri hvort vegi þyngra hagsmunir Reykjavíkurborgar, hagsmunir Valsmanna ehf. eða hagsmunir þjóðar. Ef við stöndum frammi fyrir því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni höfum við ekki hér annan varaflugvöll fyrir millilandaflug nema á Egilsstöðum og/eða Akureyri. Flug vestan frá Ameríku nýtir sér ekki þá flugvelli ef ekki er hægt að lenda í Keflavík. Það er algjörlega kristaltært. Þar með erum við að stefna, ef svo fer sem horfir, í það minnsta þeirri flugáætlun í uppnám.

Fyrir utan það er glapræði að ætla að velta því fyrir sér að fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni séum við að leita að stað á höfuðborgarsvæðinu til að setja hundruð milljóna í nýjan flugvöll. (Gripið fram í: Milljarða.) Milljarða. Við erum ekki að því. Þá er innanlandsflugið farið til Keflavíkur. Það er eins gott að við höfum þessar (Forseti hringir.) staðreyndir á hreinu.



[15:18]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og fordæmt það sem var að gerast hjá HB Granda, þ.e. að hækka stjórnarlaun þar um 33% á sama tíma og fiskvinnslufólki eru boðin 3,3%. En ég vil vekja athygli stjórnarþingmanna á því að hér á eftir á að ræða makrílfrumvarp þar sem makríllinn er færður í aflahlutdeild og þá er verið að færa viðkomandi fyrirtæki 15–20 milljarða eign (Gripið fram í.) í þjóðarauðlindinni okkar. Skoðum þetta í samhengi og ræðum það vel í dag. Ég skora á viðkomandi þingmenn að koma í þá umræðu.

Í öðru lagi finnst mér ástæða til að ræða hér um „andstöðu“ okkar við hugmyndir um stöðugleikaskatt. Ég hef til dæmis aldrei tjáð neina andstöðu við hann. Ég styð það að við leysum afnám gjaldeyrishaftanna. Til þess er búið að stofna samráðshóp sem allir stjórnmálaflokkar eiga að koma að. Ástæðan fyrir að okkur setur hljóða er sú að við höfum ekki hugmynd um hvað er verið að leggja á borðið. Við höfum ekki hugmynd um hvert er verið að stefna. Er verið að fara núna út með skattlagningu með svipuðum hætti og var lagt upp með árið 2011?

Það er líka umhugsunarefni að flokkar sem hér koma og berja sér á brjóst út af þessu stóðu gegn því eða sátu hjá þegar þrotabúin voru sett undir gjaldeyrishöft árið 2013, eða hvenær var það? (Gripið fram í: 2012.) 2012. Framsókn sat hjá. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Það er algjör forsenda þeirra hugmynda sem hér eru uppi á borðinu. Ræðum þetta hreinskilnislega. Þetta er löngu hafið yfir einhverjar pólitískar deilur. Við erum öll í sama liðinu við að finna bestu lausnirnar. Það þarf ekkert að berja sér á brjóst út af þessu, við erum í sama liði hvað það varðar.

Við viljum upplýsingar og umræðu og við viljum fá að vera með í því sem verið er að gera. Sá hópur sem er að vinna þar á bak við á vegum allra stjórnmálahópa hefur sýnt að hann er traustsins verður, getur þagað og gætt trúnaðar. Það er meira en hægt er að segja um aðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:20]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrirsögn greinar sem birtist í DV föstudaginn 10. apríl síðastliðin vakti athygli mína, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Þetta er stórt samfélag.“

Hér er um að ræða spilaklúbb á höfuðborgarsvæðinu, að líkindum ólöglegan. Í greininni segir að háar fjárhæðir skipti um hendur og þessir klúbbar auglýsa starfsemi sína grímulaust á samfélagsmiðlum. Slík starfsemi er óheimil og refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum en án sannana geta yfirvöld lítið aðhafst. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir ákvæði hegningarlaga gætir þversagnar í lögum þar sem ýmis fjárhættuspil eru heimiluð á grundvelli sérlaga og þess utan er hægt að stunda fjárhættuspil á vefsíðum sem eru vistaðar utan íslenskrar lögsögu og eftirlit því ómögulegt.

Virðulegi forseti. Þetta er staðan, gildandi löggjöf er þannig að hér þrífst starfsemi án eftirlits í eins konar svartholi, engar tekjur í ríkissjóð og réttarverndin er engin.

Í nefndri grein kemur meðal annars fram dæmi um uppsafnaðar skuldir einstaklings upp á 5 millj. kr. Virðulegi forseti. Ég hef nú í tvígang lagt fram frumvarp um spilahallir en störf þingsins ganga þannig að ég hef ekki enn sem komið er fengið að mæla fyrir því. Markmiðið með frumvarpinu er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra, að setja slíkri starfsemi almenna lagaumgjörð þannig að hún fari fram undir opinberu eftirliti. Þetta mál snýst um öryggi, réttarvernd og eftirlit, að uppræta ólöglega spilastarfsemi, skýr skilaboð um það hverjir eiga erindi, snýst um ríkistekjur, snýst um afþreyingu í ferðaþjónustu. Ég tel að það sé full ástæða fyrir löggjafann að taka þetta mál á dagskrá.



[15:22]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samtök sem kalla sig Hálendishópinn og samanstanda af Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Ferðafélagi Íslands, Framtíðarlandinu og fleiri samtökum bjóða til hálendishátíðar í Háskólabíói annað kvöld. Þar eru allir velkomnir og frítt inn. Eru þessi samtök að vekja athygli á hálendi okkar og hversu mikil þjóðargersemi það er. Því miður eru ekki allir meðvitaðir um hvers virði ósnortið hálendi er og stofnanir ríkisins eins og Landsnet og Vegagerðin hafa verið með mikinn þrýsting á að leggja þar samhliða línur og veg sem mundu brjóta upp hálendið og eyðileggja ásýnd þess. Við þekkjum vinnu meiri hluta atvinnuveganefndar við að taka út fyrir sviga og fram hjá vinnu við rammalöggjöfina virkjunarkosti á hálendinu sem eru á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs, eins og Skrokköldu. Allt þetta er skemmdarstarfsemi á hálendi Íslands sem við Íslendingar eigum að kunna að meta og varðveita því að við bætum ekki úr því eftir á. Hálendið er á sama stalli og margar aðrar þjóðargersemar erlendis sem fjöldi ferðamanna skoðar og nýtur.

Við eigum að hafa þroska til að standa vörð um þessa gersemi okkar. Sem betur fer er vitundarvakning í landinu, almenningur í landinu er að vakna, en vitundarvakningin þarf að ná (Forseti hringir.) til margra inni á Alþingi og stofnana ríkisins því að það er skömm að því hve mikil barátta er fyrir því að eyðileggja hálendið.



[15:24]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Á fundi greiningardeildar Arion banka í morgun komu fram margar vísbendingar um að bjart sé fram undan í efnahagsmálum á Íslandi á næstu missirum og árum. Fram kom meðal annars að hagvaxtarhorfur hér á landi eru betri en í helstu viðskiptalöndum. Tekur greiningardeildin þar með undir niðurstöðu í nýlegu áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessu efni. Í álitinu kemur fram að mikill þróttur er fram undan í atvinnuvegafjárfestingu, einkum í kísilverum og hótelbyggingum. Rétt er einnig að geta um meiri fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu þar sem bjartsýni og kraftur ríkir á ný eftir að ofsköttun undanfarandi ára hefur linnt auk þess sem afli hefur aukist og hækkandi verð er á flestum veigamestu mörkuðum. Einkaneysla hefur tekið við sér og útlit er fyrir að töluverður vöxtur verði í einkaneyslu í nánustu framtíð. Samfara þessari þróun er verðbólga í sögulegu lágmarki og margt bendir til að svo geti orðið áfram ef kjarasamningar verða með þeim hætti sem hagkerfið þolir.

Helstu varnaglar sem greiningardeildin setur við spána eru annars vegar afleiðingar af losun hafta og hins vegar af þróun kjaramála í landinu. Það er því sérstök ástæða til að fagna því sem fram hefur komið af hálfu ríkisstjórnarinnar undanfarna daga varðandi losun hafta. Þau öruggu og föstu skref sem forsætisráðherra boðaði á nýliðnu flokksþingi Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið undir á síðustu dögum eru ástæða til bjartsýni um að vel geti tekist til í þessu efni. Að vísu heyrast úrtöluraddir frá mörgum þeim sem fá í hnén þegar taka þarf stórar ákvarðanir. Það er eins og við er að búast og svo sem engin ný tíðindi.

Sem betur fer er nú við völd í landinu ríkisstjórn sem þorir, vill og getur tekið ákvarðanir í erfiðum úrlausnarefnum. Full ástæða er samt til að hafa áhyggjur af stöðu kjarasamninga en von mín stendur til að aðilar nái saman um farsæla lausn. Í því efni er rétt að benda á samþykkt nýliðins flokksþings Framsóknarflokksins um kjaramál þar sem segir, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn styður baráttu láglaunafólks fyrir bættum kjörum. Á liðnum árum hefur almenningur tekið á sig byrðar en nú hefur rofað til í efnahagsmálum þjóðarinnar. Tillögur um 300 þús. kr. lágmarkslaun eru sanngjörn mannnréttindakrafa. Flokksþingið hvetur stjórnvöld til að hefja vinnu við styttingu vinnuviku í samráði við aðila á vinnumarkaði. Áherslur Framsóknarflokksins á auknar gæðastundir fjölskyldunnar (Forseti hringir.) og mannsæmandi kjör eru grundvöllur að eftirsóknarverðu samfélagi allra.“



[15:27]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 10. apríl sl. bárust fréttir af því að Norðurlöndin hygðust enn auka samstarf sitt á sviði hernaðarmála vegna, eins og þar er sagt, aukinnar ógnar frá Rússum. Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkis- og varnarmálaráðherra landanna segir að hin aukna samvinna eigi einkum að felast í fleiri sameiginlegum heræfingum, meiri samvinnu á sviði iðnaðarframleiðslu, þar á meðal hernaðartengdri framleiðslu, og samstarfi á sviði gagnasöfnunar og úrvinnslu á öllum sviðum. Hlutverk Íslands er gamalkunnugt, að leggja til land undir heræfingar. Mér sýnist að því miður séu Norðurlöndin að færa sig inn á hernaðarvæddari slóðir í sinni utanríkispólitík sem og samstarfi sem að þessu sinni er rökstudd með vísan í eitt tiltekið ríki, ríki sem þegar er beitt efnahagsþvingunum og sem fulltrúi VG í utanríkismálanefnd hefur lýst miklum efasemdum um.

Ég hlýt að spyrja: Er þetta það sem við viljum stefna að í norrænu samstarfi eða er þessi yfirlýsing ekki tilefni til þess að við stöldrum aðeins við? Er þetta gott innlegg til friðarumleitana í heiminum, að auka vígvæðingu og auka þannig á vígbúnaðarkapphlaup milli austurs og vesturs? Ég tel í það minnsta að við séum á kolrangri leið og raunar kemur fram í frétt á RÚV, þar sem sagt er frá yfirlýsingu ráðherranna, að norskur hernaðarsérfræðingur og ráðgjafi norska varnarmálaráðherrans reikni með að Rússar taki yfirlýsinguna óstinnt upp og muni túlka hana sem ögrun.

Alþingi þarf að mínu viti að ræða þessi mál og hvert stefnir og hef ég því óskað eftir sérstakri umræðu um þetta mál við hæstv. utanríkisráðherra.



[15:29]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar til að skora á þingið að við höldum sumarþing, einfaldlega vegna þess að þegar ég fer yfir öll þau miklu mál sem eiga að fara í gegnum þingið á örfáum dögum sýnist mér mjög brýnt að við stundum hér fagleg vinnubrögð, að við förum ekki með flókin mál sem varða alla landsmenn, t.d. stöðugleikaskattinn, í gegnum þingið þegar við höfum í raun og veru bara úr kvöld- og næturfundum að spila. Ég tek því heils hugar undir það sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir ræddi áðan undir þessum dagskrárlið. Ég tel mjög brýnt að við byrjum að ræða það hvernig störfum þingsins verður háttað og leggjum til hvenær sumarþingið verður haldið þannig að við getum skipulagt störf okkar. Við þurfum að taka fyrir stöðugleikaskatt, húsnæðisfrumvörp, seðlabankafrumvarp þar sem fjölga á seðlabankastjórum og virkjunarkosti út fyrir rammann. Hér eru verkföll, hér á að fara að taka fyrir makríl- eða fiskveiðistjórnarfrumvörp. Við erum að tala um bankabónusa þar sem ljóst er að stjórnarflokkarnir eru ekki alveg einróma og síðan eru það að sjálfsögðu öll þingmannamálin. Hér hafa margir þingmenn, bæði hjá meiri hluta og minni hluta, kvartað yfir því að þeirra mál komist ekki á dagskrá.

Þess vegna finnst mér einsýnt, forseti, að nú þegar verði boðað til fundar með formönnum flokkanna þar sem farið verður yfir störfin sem og að þetta verði sérstaklega tekið fyrir á þingflokksformannafundi nk. mánudag. Mig langar til að skora á þingmenn, hvort sem þeir eru í meiri hluta eða minni hluta, að þrýsta á að við byrjum að undirbúa fagleg vinnubrögð á Alþingi.



[15:31]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir á þingi ekki taka nægjanlega alvarlega þá alvarlegu stöðu sem uppi er í samfélaginu. Hér eru verkföll búin að vera í gangi frá því í síðustu viku með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir heilbrigðiskerfið og mikilvægar stofnanir í samfélaginu. Við sjáum yfirvofandi verkföll, það er verið að greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir hjá stórum hópi launafólks í landinu — og hvað erum við að gera hér? Ef stjórnarandstöðuþingmenn taka þetta mál hér upp og óska eftir því að forustumenn ríkisstjórnarinnar komi hingað eftir páska og ræði þetta við okkur segja stjórnarþingmenn að við séum að röfla, að þetta sé bara óttalegt röfl.

Virðulegi forseti. Þetta eru málin sem við eigum að vera að ræða hér, með hvaða hætti við getum mætt kröfu þess fólks sem með réttu kallar eftir betri lífskjörum, bættri lífsafkomu, og við á Alþingi höfum fjölmörg verkfæri í höndunum sem við getum notað til að mæta þeirri kröfu. Og hvað gerum við hér á meðan? Menn standa í ræðustóli, segja stjórnarandstöðuna röfla, segja stjórnarandstöðuna hafa annarlegar hvatir eða ganga erinda einhverra hagsmunaafla hvað varðar höftin, þegar það eina sem óskað er eftir eru upplýsingar, að menn komi hingað í salinn, veiti upplýsingar, segi okkur hvað er á seyði, ræði við okkur um þessi stærstu hagsmunamál þjóðarinnar og um lífsafkomu og bætt lífskjör fjölda fólks í þessu landi, fólks sem kallar á það að við hlustum og svörum kröfum þess.

Virðulegi forseti. Þetta er til háborinnar skammar. Það er kominn miðvikudagur og við höfum ekki séð forsætisráðherra og við höfum ekki séð fjármálaráðherra hér í húsi.



[15:33]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar áhyggjur af þróun mála varðandi Reykjavíkurflugvöll. Á nýliðnum umhleypingasömum vetri, vonandi er hann liðinn, hefur mikilvægi flugbrautarinnar sem liggur frá norðaustri til suðvesturs, svokallaðrar neyðarbrautar, komið skýrt í ljós. Má þar til dæmis nefna að sunnudaginn 8. mars lentu áætlunarvélar níu sinnum á brautinni. Flugfélög, einstaklingar, fyrirtæki og opinberar stofnanir hafa orðið fyrir umtalsverðum kostnaði vegna tíðrar röskunar á flugi í vetur og ekki væri kostnaðurinn og röskunin minni ef brautirnar væru færri.

Það er því mikil kaldhæðni að nú, þegar hillir undir vorið, skuli vera hafist handa við framkvæmdir sem leiða til þess að leggja þarf neyðarbrautina af. Getur þjóðin leyft sér það meðan ekki er búið að finna aðrar lausnir í flugvallarmálinu? Eða eigum við ekki von á fleiri erfiðum vetrum?

Mikið hefur verið gert úr skuldbindingum höfuðborgarinnar við fasteignafélagið Valsmenn. En hverjar eru skuldbindingar borgarinnar við þjóðina? Hvaða skuldbinding felst í þeim samningi sem Reykjavíkurborg hefur gert við þjóðina með sínum skipulagsáætlunum í gegnum tíðina þar sem flugvöllurinn, sem gefinn var þjóðinni, hefur lengst af verið inni á áætlunum? Hvað þarf til að virkja bótaréttinn sem kveðið er á um í 51. gr. skipulagslaga? Gæti lokun flugvallar í fullum rekstri í óþökk eigenda skapað bótaábyrgð Reykjavíkurborgar gagnvart ríkinu eða jafnvel lokun einstakra flugbrauta orðið grundvöllur að bótaábyrgð Reykjavíkurborgar ef rekstrarskilyrði flugvallarins skerðast? Þarf borgin að bæta þjóðinni flugvöllinn og hefur borgin bolmagn til þess að greiða fyrir nýjan flugvöll eða er ætlast til þess að ríkið geri það? Er vilji og möguleiki fyrir því að á næstu árum þurfi að forgangsraða fjármagni til samgöngumála (Forseti hringir.) í að byggja nýjan flugvöll?