144. löggjafarþing — 89. fundur
 15. apríl 2015.
sérstök umræða.

málefni Íslandspósts.

[15:37]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Kveikjan að því að ég bað um þessa umræðu við hæstv. innanríkisráðherra var umfjöllun fyrir um mánuði um brot Íslandspósts á samkeppnislögum. Staða Íslandspósts á samkeppnismarkaði hefur verið rannsóknarefni Samkeppniseftirlitsins um langt árabil og liggja fyrir ansi, eða mjög skulum við segja, margar kvartanir á framferði Íslandspósts á samkeppnismarkaði. Mig langaði í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að aðgreina þurfi betur í rekstri Íslandspósts samkeppnisrekstur fyrirtækisins og tryggja að hann sé í samræmi við samkeppnislög og allt heilbrigt samkeppnisumhverfi og hins vegar þann rekstur fyrirtækisins sem er á grunni einkaleyfis og skyldu fyrirtækisins um alþjónustu.

Svo langar mig líka að spyrja ráðherrann út í eitt álitamál þessu tengt. Því er haldið fram í umkvörtunum til Samkeppniseftirlitsins að Íslandspóstur noti tekjur af einokunarstöðu sinni eða einkaleyfisþætti rekstrarins til að niðurgreiða samkeppnisreksturinn. Því neita forsvarsmenn Íslandspósts og í nýlegu viðtali sagði forstjóri Íslandspósts að því væri þveröfugt farið og samkeppnisreksturinn skilaði í raun hagnaði en einkaleyfisþátturinn ekki. Hins vegar er sú fullyrðing ekki studd í rekstraryfirliti í ársreikningi, það er ekki sundurgreint í ársreikningi hvaða þættir fyrirtækisins skila tekjum og Póst- og fjarskiptastofnun hefur gert athugasemdir. Það virðist því enn þá vera álitamál, og þá mjög alvarlegt álitamál, hvort Íslandspóstur noti einkaleyfisþátt rekstrar síns til að niðurgreiða samkeppnisrekstur.

Ég vil athuga hvort hæstv. ráðherra getur varpað einhverju ljósi á þetta. Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að innleiða á Íslandi tilskipun Evrópusambandsins um frjálsa póstflutninga en hún gekk í gildi fyrir allnokkru og mundi fela í sér afnám einkaleyfis á bréfum undir 50 gr. Svo langar mig einfaldlega að eiga smáorðastað við ráðherrann um þessa umgjörð alla saman. Við erum með Íslandspóst í opinberri eigu, eiginlega aðallega vegna þess að við erum með lög um póstflutninga, lög um póstþjónustu í landinu þar sem ákveðin póstþjónusta, bréfasendingar eru skilgreindar sem, að mér sýnist, grunnþjónusta sem þurfi að sinna. Það er til dæmis lögbundið að bera eigi út bréf í landinu hvern einasta virkan dag allan ársins hring. Það er lögbundið þarna að fólk eigi heimtingu á því að fá senda til sín til að mynda vörulista og alls konar hluti. Allur lagabálkurinn ber þess einhvern veginn vitni að vera skrifaður í veröld þar sem eru engir tölvupóstar. Við sinnum samskiptum núna með rafrænum hætti. Við eigum samskipti á Facebook, með tölvupósti og með öllum þeim leiðum, þar eru rafrænar undirskriftir. Það má því má halda því fram að þetta sé orðið fremur úrelt og ef það er ekki úrelt núna verður eftir fimm ár mjög úrelt að vera með heilan lagabálk þar sem gengið er út frá því að það séu grunnmannréttindi að fá til sín sent bréf skrifað með bleki. Það er hægt að sinna þeim grunnþáttum allt öðruvísi þannig að ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi að endurskoða löggjöfina og hvort ekki þurfi að endurskoða af hverju við þurfum að vera með fyrirtæki í opinberri eigu til að sinna þessu þegar við höfum internetið.

Bréfasendingar hafa minnkað um 51% frá aldamótum og svo ég tali út frá eigin dæmi eru 90% af því ruslpóstur. (Forseti hringir.) Þetta virðist vera orðið mjög úrelt og þurfa endurskoðunar við.



[15:43]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fyrir að taka upp þessa umræðu hér sem ég tel mjög mikilvæga. Hann hreyfir við grundvallaratriðum í skipulagi á póstþjónustu í ræðu sinni og ég ætla að leitast við að svara þeim spurningum sem hann beinir til mín.

Fyrst aðeins gagnvart stöðunni eins og hún er í dag. Eins og hefur komið fram fer ríkið með einkarétt í póstþjónustunni og hefur falið Íslandspósti að annast hann. Einkaréttur er á dreifingu bréfa undir 50 gr, útgáfu frímerkja, uppsetningu póstkassa og á auðkenni Íslandspósts, þ.e. póstlúðrinum. Í innanríkisráðuneytinu er nú verið að vinna að breytingum á þessari löggjöf í heild sinni. Það kemur bæði til vegna tilskipunar Evrópusambandsins um afnám einkaréttar í póstþjónustu og einnig tel ég, og ég tek undir það með hv. þingmanni, þörf á því að fara yfir löggjöfina í heild sinni sem sjálfstætt álitamál. Sú vinna er í gangi. Þar er verkefnið þegar við lítum á alþjónustuna að skilgreina hvað það er sem telst grunnþjónusta í pósti, hvað það er sem þarf að vera í lagi, að bögglar komist heim til fólks á einhvern hátt o.s.frv., það þarf allt að skilgreina. Síðan eru eftir aðrir hlutir sem eru samkeppnisþættir og þá skiptir náttúrlega máli að samkeppni fái þrifist og það gerist ekki að fyrirtæki í opinberri eigu sé að vasast á samkeppnismarkaði. Það er mín afdráttarlausa skoðun að svo eigi ekki að vera en til þess að það sé hægt skiptir svo miklu máli að ljúka þessum skilgreiningum og ljúka grundvallarvinnu á löggjöfinni sjálfri. Það er verkefnið sem við þurfum að fara í núna.

Breytingarnar sem hafa orðið á samskiptaformi hafa að sjálfsögðu leitt til þess að rafrænar póstsendingar hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum og póstmagnið minnkað miklu hraðar en menn gerðu ráð fyrir þegar þessi lagasetning og breyting var gerð á póstmálum á tíunda áratugnum. Þessa tilskipun hefur tekið töluvert langan tíma hjá okkur að innleiða, það verður að segjast alveg eins og er, tilskipunin er nr. 6/2008 þannig að það er ekki hægt að segja að við höfum ekki haft rúman tíma til að hugleiða þetta mál. Ég held að mjög brýnt sé að við komum okkur áfram með þetta og ég legg mikla áherslu á að það verði gert. Póst- og fjarskiptastofnun gerði könnun árið 2012 meðal landsmanna um viðhorf til póstþjónustu. Það var dálítið áhugavert að fá niðurstöðurnar úr henni. Þar var meðal annars spurt hversu vel það mundi henta viðkomandi að fá póst þrisvar sinnum í viku, en ekki á hverjum degi eins og við þekkjum í dag. Svarið var, og þetta var auðvitað fólk af öllu landinu, að það þjónaði 60% svarenda mjög vel. Af því má ætla, að mínu mati, að í hugum fólks sé póstþjónusta fimm daga vikunnar ekki eins mikilvæg og hún var áður.

Það má alveg velta fyrir sér hvort með tilkomu rafræns pósts kunni að vera hægt að draga úr kostnaði við alþjónustuna með því að breyta þeim þáttum. Það þarf allt að skoða þegar að þessari vinnu kemur. Fram undan er sem sagt að afnema þann einkarétt og í þeirri vinnu þarf að gera sér grein fyrir því hvernig standa eigi undir kostnaðinum við alþjónustuna. Tilskipunin gerir ráð fyrir þremur möguleikum í því efni: Í fyrsta lagi jöfnunarsjóði þar sem aðilar á markaði skipta á milli sín kostnaðinum af alþjónustu, í öðru lagi útboði á þjónustu og í þriðja lagi að ríkið styrki þessa þjónustu með beinum framlögum alþjónustuveitanda.

Ég er ekki búin að mynda mér neina endanlega skoðun á þessu en ég hallast að því að það sé á ábyrgð ríkisins að tryggja þessa grunnþjónustu, það sé hlutverk ríkisins, og það finnst mér eiga við á öllum sviðum mannlífsins, að passa hér upp á að innviðirnir og grunnarnir séu í lagi. Síðan eigum við, að mínu mati, að leyfa samkeppninni að njóta sín og ég tel að það sé mest til hagsbóta fyrir neytendur í þessu landi. Ég hygg að það eigi við á öllu landinu þótt við vitum svo sem að hér á höfuðborgarsvæðinu er auðveldara að komast í samkeppnina en annars staðar.

Þetta tel ég mikilvægt. Varðandi síðan verkefni mitt í innanríkisráðuneytinu er það hjá okkur að sjá um þennan faglega þátt póstþjónustunnar. Hlutabréfið í Íslandspósti er hins vegar í höndum fjármálaráðuneytisins þannig að skref sem stigin verða um skipulag fyrirtækisins og hvernig með það skuli fara í framtíðinni eru á forræði fjármálaráðuneytisins. En ég lýsi þeirri skoðun minni alveg eindregið að ég hef ekki séð það fyrir mér að ríkið (Forseti hringir.) ætli að fara að reka póstþjónustu til framtíðar. Það finnst mér ekki koma til greina.



[15:48]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir þessa umræðu þó að ég segi um leið að það væri virkilega þörf á að ræða málefni Póstsins almennt eða bara skilgreina hvað er grunnþjónusta árið 2015 og ef til vill skrifa ný lög um Íslandspóst núna. Ég þakka fyrir þessa umræðu en tel að hún þyrfti að vera lengri en í sérstakri umræðu. Hún er miklu stærra mál.

Eins og ég sagði: Hvað er grunnþjónusta? Það þarf að fara í gegnum það. Ef við förum í sögu Póstsins er hún ansi merkileg. Það var árið 1776 sem nafni minn, Kristján konungur VII., gaf út tilskipun um póstferðir hér á landi. Tveimur árum seinna hófust skipulegar póstsendingar milli Danmerkur og Íslands — ein ferð á ári. Það var svoleiðis. Síðan kom sérstök stjórn um pósthúsin, pósthús opnað 1873 o.s.frv. Við þekkjum Póst og síma frá 1935 og síðan þekkjum við að Pósti og síma var skipt upp 1998. Pósturinn er í dag að mínu mati fyrirmyndarfyrirtæki sem stendur sig mjög vel þó að það hafi þurft að draga úr þjónustu í dreifðum byggðum landsins varðandi daglegan útburð. Fyrirtækið hefur að mínu mati brugðist við því með upptöku hálfgerðra landpósta aftur. Við vitum hvernig þeir voru í gamla daga. Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, af því að deilurnar standa stundum um einkaréttinn á þessum 50 gr bréfum og léttari, sem fer sífækkandi og eru bara hverfandi, að það mun auðvitað koma upp eins og Síminn hefur brugðist við með því að taka upp frekari rafræn samskipti sem ég held að hafi frestast meðal annars út af hruninu og miklum breytingum.

Ég fagna þessari umræðu en vil segja það (Forseti hringir.) að úti um allt land um klukkan fimm í dag fara ótal bílar með böggla og póst frá Póstinum og það má nokkurn veginn treysta því, í 99% tilvika, að sendingarnar séu komnar til viðtakanda í fyrramálið. Það finnst mér fyrirmyndarþjónusta og Póstinum til mikils sóma.



[15:51]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Íslandspóstur er opinbert hlutafélag eins og komið hefur fram og að fullu í eigu ríkisins. Þannig vil ég sjá hann áfram. Fyrirtækið hefur einkarétt á dreifingu á bréfapósti upp að 50 gr en hefur ekki ásælst það að halda þeim einkarétti áfram. Fyrirtækið er í samkeppnisrekstri í annarri póstdreifingu, eins og við þekkjum, og fram hefur komið að fyrirtæki sem starfa á sama markaði telja að Íslandspóstur nýti sér stærð sína í skjóli einkaleyfis og stærðar og skapi óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart þessum keppinautum sínum. Málið snýst um að samkeppnisreksturinn fjármagni einkaréttinn en Íslandspósti er skylt að skipta kostnaði við rekstur fyrirtækisins niður á samkeppnishluta og einkahluta. Eftirlitsstofnanir eins og Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið hafa eftirlit með rekstri Íslandspósts og ágreiningur hefur lengi verið við aðila á samkeppnismarkaði. Ég tel að þar horfi menn svolítið á það að fleyta rjómann þar sem hægt er en hafi minni áhuga á að sinna alþjónustu eins og Íslandspósti ber að gera. Samskiptin á milli Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins vegna kærumála samkeppnisaðila hafa velkst í kerfinu í mörg ár og lítið komið út úr því sem segir ákveðna sögu. Þessi mál eru núna í sáttafarvegi sem Samkeppniseftirlitið hefur sett þau í og beðið er eftir niðurstöðu. Eins og ég hef spurnir af bendir margt til að þetta sé stormur (Forseti hringir.) í vatnsglasi en ég tel mikilvægt að skýra rekstrarumhverfi Íslandspósts til að ekki þurfi áfram að koma til svona árekstra við hinn almenna markað.



[15:53]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu um málefni Íslandspósts. Félagið hefur verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði og ár, ekki síst vegna meintra samkeppnisbrota. Þannig hefur Íslandspóstur verið sakaður um að brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga sem kveða á um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og fjárhagslegan aðskilnað á ríkisrekstri og samkeppnisrekstri. Nokkur mál eru enn þá hjá Samkeppniseftirlitinu vegna þessa.

Á opinbert hlutafélag að vera í samkeppnisrekstri? Það er ekkert algilt svar til við því, en Íslandspóstur tengist fjölda fyrirtækja og ýmissi starfsemi sem flokkast undir samkeppnisrekstur. Félagið á til dæmis 100% hlut í Samskiptum ehf., 66% hlut í Frakt ehf., 100% hlut í Gagnageymslunni ehf., 100% hlut í ePósti ehf., 100% hlut í Trönum ehf., sem heldur utan um eina fasteign, 20% hlut í Interneti á Íslandi hf. og 5% hlut í Sendli ehf. Íslandspóstur tengist samkeppnisrekstri í gegnum fjölpóst, flutningsþjónustu, sendibílaþjónustu, flutningsmiðlun, hraðflutninga og rekstur vörugeymslu, auk þess sem félagið stundar lánastarfsemi til dótturfélaga.

Það er orðið brýnt að fá niðurstöðu í rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Við verðum að fá niðurstöðu í ásakanir um að Íslandspóstur hafi niðurgreitt samkeppnisrekstur með tekjum frá rekstri sem einkaréttur er á. Viðskiptablaðið hefur meðal annars fullyrt að stjórn Íslandspósts hafi sjálf áætlað að 282 millj. kr. á núverandi verðlagi hafi verið notaðar af tekjum einkaréttar á tímabilinu 2009–2011 til að greiða niður samkeppni á frjálsum markaði sem hefur ekki með svokallaða alþjónustukvöð fyrirtækisins að gera. Þessi fullyrðing hefur verið borin til baka af stjórn Íslandspósts.

Íslandspóstur hefur ákveðnum skyldum að gegna varðandi dreifingu pósts um land allt og það má ekki gleymast í umræðunni. Kostnaður vegna (Forseti hringir.) þess að það þarf að uppfylla þessar skyldur hefur aukist til muna á sama tíma og bréfum hefur fækkað. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt að skilgreina hlutverk félagsins upp á nýtt og þar með kröfur sem gerðar eru til þess. Breytt þjóðfélag kallar á breytt félag.



[15:56]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í samtali við Fréttablaðið fyrr á árinu, það er á forsíðu 2. mars, kemur fram hjá Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að þessi mál um samkeppnislagabrot beinist öll, eftir því sem hann segir, að þessum eina risa á markaði sem hefur þessa sérstöku stöðu. Jafnframt segir hann, með leyfi forseta:

„Þetta er eins og keðja, því þegar það bætist við nýtt erindi þá kemur nýr vinkill sem skýrir tafirnar að hluta. Þá þarf að stíga til baka með langt komin mál og hefja skoðun þess að hluta upp á nýtt.“

Þetta er nokkuð sem ráðherra ætti kannski að skoða. Er það virkilega þannig með fjársvelta stofnunina sem forstjóri nefnir að það sé hagkvæmt fyrir þá sem fremja samkeppnislagabrot að halda því bara áfram? Þá koma kvartanir og þá þarf bara að byrja málið upp á nýtt. Það er einkennileg staða ef það er hagur þeirra sem fremur samkeppnislagabrot að halda áfram að fremja brotin. Þetta útskýrir að hluta hvers vegna ferlið hefur tekið sjö ár, frá 2008 er búið að vera að vinna þessi mál. Menn byrjuðu á einhverju máli 2008, svo var bara nýtt brot, ný kvörtun, og af því að þessi mál tengjast þarf að hefja málið að hluta upp á nýtt. Þetta er mjög einkennileg staða. Ráðherra þarf að fara ofan í saumana á þessu, jafnvel þyrftu nefndir þingsins að kalla eftir svörum um þetta.

Eitt sem mig langar að fá að vita frá ráðherra er hvar þessi heildarlöggjöf er stödd. Hverjir geta haft áhrif á hana núna, hverjir geta komið að henni og sent inn erindi og ábendingar? Það eru örugglega margir sem mundu vilja vita það. Hvenær megum við búast við því að þingið fái að sjá slíkan lagabálk?



[15:58]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Eitt af vandamálunum felst í því að bréfum fækkar og póstlúgum fjölgar og sá rekstur að bera út póst í öll hús alltaf stendur einfaldlega ekki undir sér. Ef ég skil rétt er tilbúin reglugerð sem felur í sér möguleika á hagræðingu og því að lækka dreifingarkostnaðinn með því að bera sjaldnar út. Könnun á viðhorfi neytenda hefur sýnt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að þeir setja sig ekki í raun upp á móti því að fá póstinn sjaldnar en ef ég skil rétt strandar þessi reglugerð á því að það er verið að bíða eftir innleiðingu á einhverri ESB-tilskipun.

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi, hvort reglugerðin sé tilbúin og hvort ráðherra geti þá sett hana eða á hverju strandar þarna. Ef neytendur hafa ekkert á móti því að fá póstinn sjaldnar sem getur sparað fyrirtækinu hlýtur það að vera fyrsta skref.

Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að ríkið eigi almennt ekki að standa í samkeppnisrekstri og það þurfi ekki að vera nauðsynlegt til að standa undir einhverju öðru sem er dýrara, eins og að dreifa pósti. Mér finnst það engin rök. Þá gætu öll fyrirtæki og stofnanir á vegum ríkisins farið með sömu rökum í einhvern rekstur við hliðina á starfseminni. Sundlaugar gætu sett upp verslanir með sundbolum og sundgleraugum og bókasöfn gætu farið í samkeppni við ritfangaverslanir og bókabúðir og þar fram eftir götunum. Sundlaugar selja reyndar sælgæti, íspinna og annað sem mér finnst að þær ættu ekki að gera, en það er önnur saga.

Ég er fylgjandi því sem hér hefur komið fram, að við eigum að skoða hvort ríkið eigi (Forseti hringir.) að reka þessa þjónustu.



[16:00]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil sem aðrir þakka hv. málshefjanda umræðunnar þessa þörfu umræðu um Íslandspóst og um póstþjónustu almennt. Ég tek undir mjög margt af því sem kom fram í hans máli um breytta tíma, rafvæðingu bréfa, internetþjónustu og slíka hluti. Ég held að við þurfum að ræða framtíð póstþjónustunnar mjög mikið einmitt í því sambandi.

Við getum líka rætt um Íslandspóst sérstaklega og reynt að átta okkur á við hvaða vanda hann er að fást. Það er verðugt verkefni. Ég átta mig á kostnaðinum við að dreifa pósti fimm daga vikunnar úti í sveitum og mundi sem sveitamaður segja að það væri miklu verðmætara að fá póstinn nær heimilinu þrjá daga í viku þurran, en ekki blautan og skemmdan settan í póstkassa einhvers staðar úti á vegi fimm daga vikunnar, með fullri virðingu fyrir starfsmönnum Póstsins. Ég hef mikla samúð með þeim í baráttunni við ófærð á vegum í vetur.

Það er í sjálfu sér bara ákvörðun og mér finnst alveg tímabært að við förum að ræða að taka þá ákvörðun að færa póstþjónustuna meira yfir á markaðinn. Við getum gætt hagsmuna samfélagsins, okkar þegnanna, með því að skilgreina alþjónustuna eins og við viljum að grunnþjónustan líti út, þ.e. grunnþjónusta póstþjónustunnar, hvort sem við köllum hana alþjónustu eða einhverjum öðrum nöfnum. Við höfum fullt færi á að skilgreina hana sjálf og það er raunverulega verkefnið sem við þurfum á að halda.

Við höfum verið kaþólskari en páfinn í þessu sem svo mörgu öðru þegar við tölum um vanda Íslandspósts. Regluverkið gefur miklu meira rými á að hleypa fyrirtækinu út úr óheyrilegum kostnaði við dreifingu á pósti á suma staði en er í dag. Aðalmálið í þessari umræðu er að við áttum okkur á því að í framhaldi af afnámi einkaréttarins getum við talað um á hverju við þurfum við að halda (Forseti hringir.) og hvernig við ætlum að skilgreina alþjónustu og rétt þegnanna.



[16:02]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kom að því í minni fyrri ræðu að ástæður þessarar sérstöku umræðu eru meðal annars kvartanir sem hafa borist til Samkeppniseftirlitsins um starfsemi Póstsins og þá alveg sérstaklega um 50 gr bréfin. Þar er ágreiningur við önnur fyrirtæki sem vilja komast inn á markaðinn en þetta er enn meint samkeppnisbrot, það hefur ekki verið dæmt í því. Ég segi fyrir mitt leyti, sem fyrrverandi samgönguráðherra sem hefur oft þurft að taka á þessu máli, m.a. að taka þá ákvörðun að afnema ekki einkaréttinn 2008 sem var svo staðfest síðar í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það var líka út af ástandinu í landinu. Pósturinn er í opinberri eigu og þrátt fyrir að hér hafi verið talað um að hann sé hluthafi í mörgum fyrirtækjum má alveg deila um hvað hann eigi að vera í mörgum. Ég vil samt ítreka að Pósturinn sinnir mjög góðri starfsemi og er með mjög góða þjónustu. Þó að Pósturinn sé í ríkiseigu, og það er ekki slæmt, veitir hann meðal annars samkeppni um góða þjónustu á flutningi á bögglum og pökkum. Er eitthvað að því? Viljum við frekar hafa bara tvö fyrirtæki, Flytjanda og Landflutninga, eða hvað þau heita? Nei, ég er ekki á því.

Pósturinn hefur ætlað að fara lengra en ég veit núna um svokallaðan ePóst. Allt er þetta breytingum háð og þetta er mikið að breytast, samanber fækkun bréfa sem eru alltaf aðalumræðuefnið um starfsemi Póstsins, og þá verður bara að taka á því, virðulegi forseti. Þessi starfsemi er orðin mjög lágt hlutfall þó að hún kosti mikið. Þá (Forseti hringir.) eru deilurnar um hver sé kostnaðurinn við 50 gr bréfin versus hitt. Bókhaldið, Samkeppniseftirlitið og Pósturinn verða að komast að niðurstöðu um það vegna þess að það á auðvitað að vera alveg skýrt í bókhaldinu.



[16:05]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er sama hversu gott internetið er, það leysir ekki Íslandspóst af hólmi. Þannig er það bara. Íslandspóstur hefur virkilega verið að þróa sig og hefur, eins og hv. þm. Kristján Möller nefndi, verið að þróa rafrænt umhverfi í ePósti. Ég tel mikilvægt að það sé tryggt áfram að Íslandspóstur haldi uppi góðri þjónustu um allt land og sinni alþjónustuskyldu sinni. Við vitum að ef einkarétturinn verður afnuminn þarf þá að skoða fleiri leiðir til að styrkja fyrirtækið í því að þjóna öllum landsmönnum. Mér hefur litist best á að einhvers lags jöfnunarsjóður mundi leysa það af hólmi frekar en að fara í útboð að einkavæðingu eins og líka hafa verið hugmyndir um. Íslandspóstur hefur virkilega verið að hagræða. Mörgum hefur þótt þar nóg um, sérstaklega á mörgum stöðum úti á landsbyggðinni sem standa veikt fyrir, og það hefur oft haldist í hendur við það að fjármálafyrirtæki hafa lagt upp laupana, Íslandspóstur kominn með þjónustu sína þangað inn og þar af leiðandi hafi hann hætt að vera með útibú á mörgum stöðum. Í staðinn hefur verið þjónusta landpósta. Eins og ég hef fregnir af hefur hún reynst bara vel. Menn hafa verið gagnrýnir á það í byrjun, en það hefur komið í ljós að það hefur verið góð þjónusta.

Ég tek undir orð hv. þm. Kristjáns Möllers, Íslandspóstur er líka í stærri flutningum og hefur veitt aðilum eins og Landflutningum og Flytjanda virkilega samkeppni sem ég held að mikil þörf sé á. En það er eins og það er, þegar ríkið stígur með einhvern rekstur aðeins á litlu tána á einkaaðilunum æpa þeir og veina en hafa engan áhuga á (Forseti hringir.) öðru en að fleyta rjómann ofan af því sem best gerist. Þetta held ég að hv. þingmenn ættu að hugsa aðeins um og ekki fara að tala niður þetta fyrirtæki sem þjónar öllu landinu og er grunnþjónusta.



[16:07]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni Íslandspósts og ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal fyrir innlegg hennar og svör. Þetta er verðskulduð umræða, málefni Íslandspósts hafa eðli máls samkvæmt verið á borði eftirlitsaðila og þó nokkuð hefur borið á því, sérstaklega undanfarnar vikur, að málefni fyrirtækisins hafa verið í fjölmiðlum.

Hér hefur komið fram að Íslandspóstur hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 gr en um leið hvílir sú lögbundna skylda á fyrirtækinu að veita öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli sambærilega þjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Þegar upp er staðið er það mín skoðun að grunnþjónustan skipti öllu máli og hvaða ákvörðun verði tekin um þann ágreining sem hefur komið fram í umræðunni um skörun samkeppnisrekstrar og einkaréttarins. Helsta gagnrýni og athugasemdir eftirlitsaðila undanfarin ár snúa einmitt að því að fyrirtæki ná ekki að skilja fullkomlega þarna á milli. Það er grafalvarlegt mál, ef rétt er, að verið sé að flytja kostnað af samkeppnisrekstri yfir á einkaréttinn. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar hefur forstjóri fyrirtækisins sagt að þessu sé þveröfugt farið. Auðvitað þarf að greina þennan ágreining, en það blasir við að taka þarf þá vandasömu ákvörðun hvort ríkið eigi yfir höfuð að standa að rekstri Íslandspósts, í það minnsta í óbreyttri mynd, en um leið verðum við að verja grunnþjónustuna (Forseti hringir.) og jafnræði verðs og gæða um allt land.



[16:10]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna. Í fyrsta lagi verður að útkljá það deiluefni hvort Íslandspóstur noti tekjur af einkaleyfisþættinum til að niðurgreiða samkeppnisreksturinn eða ekki. Það er óviðunandi að ársskýrsla fyrirtækisins skuli ekki svara þessari spurningu. Hún gerði það til 2012, þá kom fram í ársreikningum að það var þannig, einkaleyfisþátturinn niðurgreiddi samkeppnisreksturinn, þess vegna höfum við umkvartanirnar. Þetta er óviðunandi. Við eigum að taka það alvarlega þegar ríkisfyrirtæki verða uppvís að samkeppnisbrotum. Íslandspóstur er í sáttameðferð núna vegna samkeppnisbrota. Það þýðir í mínum kokkabókum að hann hafi orðið uppvís að samkeppnisbrotum. Það er fólk í landinu sem vill kannski taka að sér að flytja týndan farangur fyrir Icelandair til heimila og fyrirtækja í landinu. Þetta er það sem Íslandspóstur gerir með samningi við Icelandair. Það er fólk í landinu sem vill kannski standa að fjölpósti og bögglasendingum og hinu og þessu, stofna til gagnageymslu og þar fram eftir götunum. Þetta er allt saman rekstur sem Íslandspóstur er í núna, hugsanlega í krafti einkaleyfis síns. Þetta er vont fyrir frjálst samkeppnisumhverfi í landinu og ég fagna því að hæstv. ráðherra er sammála mér um þetta.

Íslandspósti er kannski vorkunn. Veröldin er einfaldlega að breytast. Maður þarf ekki annað en að lesa lagabálkinn um póstþjónustuna til að sjá að það er ekki langt þangað til hann verður úreltur þannig að fyrirtækið neyðist kannski til að bögglast í þessum samkeppnisrekstri.

Hver er framtíðin í þessu? Ég held að grunnþjónustunni verði sinnt með rafrænum hætti. Ég held að það sé rosalega mikilvæg grunnþjónusta að byggja upp internetið einfaldlega eins og við erum að gera, ljósleiðarakerfið úti um land allt, (Forseti hringir.) þannig að allir séu í samskiptum. Síðan er vaxandi eftirspurn eftir netverslun og alls konar bögglasendingum því tengdum. Við eigum einfaldlega að leyfa fyrirtækjum á frjálsum markaði að keppa um hylli neytenda í þessu efni. Ég segi: Byggjum upp Íslandspóst, seljum fyrirtækið og notum andvirðið til að byggja upp einfaldlega rafræn samskipti á Íslandi.



[16:12]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Íslandspóstur starfar á grundvelli þeirrar löggjafar sem um hann gildir og hann þarf auðvitað að gera það. Að lögum hefur hann þessu einkahlutverki að gegna og hann stendur að sjálfsögðu við það sem í lögunum segir.

Varðandi deilur um samkeppnisbrot verður það að vera til meðferðar hjá viðeigandi yfirvöldum. Það er mjög brýnt að úr því verði leyst. Auðvitað er óheimilt að niðurgreiða samkeppnisrekstur með einkaleyfinu, það liggur alveg fyrir. Um þetta er ágreiningur þar sem fyrirtækið hafnar því, ágreiningur sem ég get ekki lagt mat á, en þar til bær yfirvöld verða að komast að niðurstöðu um það. Það varpar hins vegar ljósi á það hversu brýnt það er ef við lítum til framtíðarskipulags þessara mála og þá er það mín eindregna skoðun að við þurfum að ljúka við að skilgreina þessa alþjónustu, koma okkur saman um þær grunnþarfir sem ríkið þarf að standa við að sé sinnt og síðan á ríkið að mínu mati ekki að vasast í samkeppnisrekstri. Mín skoðun er sú að þegar undirbúningi og lagasetningu er lokið og menn búnir að slípa þetta til sé kominn sá tímapunktur að það eigi að selja Íslandspóst. Það er það sem ég sé fyrir mér í framtíðinni að verði gert.

Ég vil núna fara að undirbúa það gagnvart innanríkisráðuneytinu að fara í þær lagabreytingar sem þarf á sviði póstmála en ég ítreka að hlutabréfið um Íslandspóst er ekki í innanríkisráðuneytinu, það er í fjármálaráðuneytinu. Engu að síður er það okkar að skilgreina þessa þætti.

Ég á von á því að ég geti lagt fram lagafrumvarp um þetta á komandi þingi. Það er enn í vinnslu í ráðuneytinu. Stórir þættir um fjármögnun alþjónustu standa út af borðinu. Síðan þarf það að fara í kynningu áður en það verður lagt hér fram þannig að athugasemdir berist o.s.frv. Ég held að það sé mjög brýnt að við eigum þá góða umræðu um það á komandi vetri hvernig þessum skipulagsmálum (Forseti hringir.) verður best háttað.