144. löggjafarþing — 89. fundur
 15. apríl 2015.
niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, 1. umræða.
stjfrv., 698. mál (full niðurgreiðsla vegna flutnings og dreifingar). — Þskj. 1172.

[17:45]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1172, frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að frá og með árinu 2016 verði með auknum niðurgreiðslum tryggt að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Frumvarpið byggir m.a. á tillögum í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslu til húshitunar frá desember 2011. Sá starfshópur var skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, Rarik og Orkubúi Vestfjarða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, sérstaklega í þessum sal, að ástæður þessa frumvarps má rekja til þess að talsverður munur er á orkukostnaði eftir landsvæðum og hefur hann farið vaxandi. Annars vegar er húshitunarkostnaður mun hærri hjá þeim 10% landsmanna sem ekki búa við hitaveitu og þurfa að notast við rafhitun til hitunar íbúðarhúsnæðis og hins vegar er dreifikostnaður raforku talsvert hærri í dreifbýli en í þéttbýli. Ríkisvaldið hefur reynt að koma til móts við báða þessi þætti á undanförnum árum með sérstökum niðurgreiðslum sem ákvarðaðar eru í fjárlögum hverju sinni á grundvelli sérlagaheimilda. Er þar annars vegar um að ræða lög nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, en þau mæla fyrir um niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Hins vegar er um að ræða lög nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, en markmið þeirra er að stuðla að jöfnun þess kostnaðarmunar sem er við dreifingu raforku í þéttbýli og dreifbýli.

Með upptöku jöfnunargjalds á raforku, samanber lög um breytingu á lögum nr. 98/2004, sem samþykkt voru á Alþingi 3. mars sl., er tryggð full jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda í dreifbýli og þéttbýli frá og með árinu 2016. Eftir stendur að tryggja það að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði að fullu niðurgreidd. Með frumvarpi þessu er það lagt til. Er sú tillaga eins og áður segir í samræmi við niðurstöður í skýrslu starfshóps frá desember 2011 um breytingar á niðurgreiðslu til húshitunar, sem og frumvarps þess efnis sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi.

Enginn vafi er á því að hinn miklu húshitunarkostnaður sem um 10% landsmanna býr við hefur stuðlað að búseturöskun og veikt viðkomandi samfélög. Þessi þungi kostnaðarliður er í raun ávísun á lakari lífskjör og letur því fólk mjög til búsetu á þessum svæðum. Þetta stóra byggðamál snýst því ekki um stöðu landsbyggðar gagnvart höfuðborgarsvæðinu því að víða um land eru starfræktar ódýrar jarðvarmaveitur. Þetta snýst meira um jöfnun búsetuskilyrða almennt og jöfnun á möguleikum sveitarfélaga til að vaxa og dafna.

Þessi mál hefur oft borið á góma hér í þinginu og hefur almenn sátt verið um nauðsyn þess að jafna húshitunarkostnað á milli landsvæða. Bind ég því vonir við að samstaða geti náðst um framgang þessa þingmáls á Alþingi.

Efni frumvarpsins er tiltölulega einfalt og er í frumvarpinu fylgt þeirri tillögu sem framangreindur starfshópur lagði til, þ.e. að samkvæmt lögum nr. 78/2002 skuli flutningur til dreifingar á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verða niðurgreiddur að fullu. Frumvarpið var unnið af hálfu ráðuneytisins í samstarfi við Orkustofnun og voru drög að frumvarpinu send til kynningar til Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum.

Í greinargerð með frumvarpinu er umfjöllun um áhrif þess verði það að lögum, bæði almennt á raforkunotendur og ríkissjóð. Ríkissjóður ver nú um 1.282 millj. kr í beinar niðurgreiðslur á flutningi og dreifingu raforku til húshitunar, eða um 80% á kostnaði íbúa við flutning og dreifingu raforku. Til að fjármagna 100% niðurgreiðslur á dreifingu og flutning á raforku til húshitunar, eins og stefnt er að með frumvarpinu, þyrfti að hækka niðurgreiðslurnar um 215 millj. kr. miðað við núverandi stöðu eða í 1.497 millj. kr. Verði frumvarpið að lögum mun frá og með árinu 2016 þurfa að auka framlög á fjárlögum um það sem því nemur sem að framan greinir.

Hæstv. forseti. Ég tel að með frumvarpi þessu sé verið að stíga mikilvægt skref í þá átt að jafna orkukostnað eftir landsvæðum og þar með búsetuskilyrði til samræmis við það sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna og einnig til samræmis við tillögur úr fyrrnefndri skýrslu. Ég tel því að um þetta mál ættum við að geta náð góðri samstöðu á Alþingi.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.



[17:50]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og heiti því að innan atvinnuveganefndar, þeirrar nefndar sem fær þetta mál og ég sit í, mun ég leggja mikla áherslu á að við vinnum það hratt og vel og klárum það áður en þingi lýkur í lok maí.

Hæstv. ráðherra gat um þá vinnu sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar með skipun starfshóps sem fór yfir þessi mál og skilaði tillögum eins og hér er fjallað um. Ég vil segja að mér finnst það líka til eftirbreytni, og ráðherrar í núverandi ríkisstjórn ættu að gera það oftar, og reyndar við öll, að taka það sem vel hefur verið gert á liðnum árum og halda áfram með það líkt og hér er verið að gera. Vinna þessi hófst sem sagt í tíð síðustu ríkisstjórnar þó að við höfum ekki getað klárað málið, en ég minni þó á að í fyrsta skipti í 10 eða 12 ára sögu var á þeim erfiðleikatímum sem þá voru aukið fé til niðurgreiðslna um 230 millj. kr., ef ég man rétt.

Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið fram og þeirri leið sem fara á hvað þetta varðar til fullrar jöfnunar en bendi þó á að áfram munar mjög miklu milli húshitunar á köldum svæðum og síðan á hitaveitum á mörgum stöðum á landinu. En ástæða þess að ég kem í andsvar við hæstv. ráðherra er eingöngu það sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins. Þar segir það vanti 250 millj. kr. í niðurgreiðslupottinn til að gera það sem frumvarpið segir til um … (Gripið fram í: 215 millj. kr.) 215 millj. kr. Ég vona að ég hafi ekki verið að tala um milljarða. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig á að fjármagna þetta? Hvernig verður það fjármagnað við næstu fjárlagagerð? Í öðru frumvarpi sem við vorum að ræða voru um 220 millj. kr. inni, að mig minnir, sem áttu að falla niður vegna þess að við erum búin að leggja kostnað á aðra notendur til niðurgreiða dreifingu í dreifbýli. Er ekki tryggt að eitthvað af þeim peningum komi beint úr ríkissjóði, að ekki (Forseti hringir.) verði hækkaður kostnaður á aðra (Forseti hringir.) meira en búið er að gera?



[17:52]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi orð hv. þingmanns um að við höldum hér áfram vinnu sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar og um hvatningu til okkar um að gera og taka það sem gott er, þá get ég algerlega tekið undir með honum. Ég held að á síðasta kjörtímabili hafi einmitt verið ágætis þverpólitískt samkomulag hvað þetta mál varðar milli þáverandi stjórnarandstöðu og stjórnarflokka um hvernig leysa ætti úr þessum málum. Þess vegna held ég og ber væntingar til þess að hægt sé að klára þessi mál með þessum hætti.

Hvað spurningu varðar hv. þingmanns um fjármögnunina þá stendur til að féð komi úr ríkissjóði. Fyrirkomulagið tekur gildi frá og með árinu 2016 og verður það sett af hálfu ráðuneytis míns sem tillaga inn í fjárlagagerðina að féð komi beint úr ríkissjóði.



[17:54]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sá ekki ástæðu til að koma upp í annað andsvar vegna þess að hæstv. ráðherra svaraði alveg skýrt spurningu minni og var mér það svar mjög að skapi. Ég er sammála því sem ráðherrann sagði, að þeir peningar, þær 215 millj. kr. sem vantar til að fara í þessa jöfnun ættu að koma beint úr ríkissjóði. Því fagna ég og því er ég sammála. En ég hefði kannski ekki verið sammála því ef menn hefðu verið með einhverjar hugmyndir um að leggja frekari álögur á til dæmis íbúa í þéttbýli til að greiða niður kostnaðinn í dreifbýlinu. Ég vitna þar til þeirra orða sem ég hef haft um það mál og breytingartillagna sem ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerðum við frumvarp um jöfnun dreifikostnaðar í dreifbýli, sem orðið er að lögum.

Ég vil taka aftur upp þráðinn úr stuttu andsvari mínu í upphafi og vitna til þess að þessi vinna hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar með skipun starfshóps sem var skipaður fulltrúum sveitarfélaga á köldum svæðum þ.e. sveitarfélaga þar sem fólk borgar háan húshitunarkostnað hjá Rarik og Orkubúi Vestfjarða. Ég fagna því að áfram skuli vera haldið með þetta mál og tel það vera til eftirbreytni að þó að við skiptumst á skoðunum um stjórnmálaflokka og styðjum eða erum andvíg ríkisstjórnum er hægt í stjórnkerfinu og á Alþingi að halda áfram með góð mál sem unnin hafa verið upp í hendurnar á framkvæmdavaldinu sem gerir þessar tillögur. Þess vegna fagna ég því aftur að þetta frumvarp skuli vera komið fram og að við skulum ætla að fara í þessa jöfnun sem er svo mikilvæg. Það má líka segja að það sé til fyrirmyndar og mætti gera meira af því að í frumvarpinu er loksins Íslandskort í lit og settir bláir og grænir deplar inn á kortið til að merkja kyntar hitaveitur og þar bein rafhitun er, sem er kannski mjög táknrænt. Farið er í gegnum þetta og sýnd þróun orkuverðs o.fl. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það nema að í fskj. 1 í töflu á bls. 10 er tekið dæmi af því hvað það kostar að hita 180 fermetra einbýli. Orkunotkun til hitunar er 38.400 kílóvattstundir og þá sjáum við að hjá Rarik í þéttbýli með nýju kerfi með breytingunum sem gerðar voru í janúar eða febrúar og tóku gildi á þessu ári er talið að húshitunarkostnaður fyrir þetta tiltekna hús með þetta tiltekna magn af orku kosti tæpar 208 þús. kr. Sama verð er hjá Rarik í dreifbýli eftir breytinguna og eins hjá Orkubúi Vestfjarða í þéttbýli og dreifbýli.

En þegar við förum frá vinstri til hægri eftir töflunni komum við að höfuðborginni þar sem sambærilegur kostnaður við að hita húsnæði er 113 þús. kr., eða tæplega helmingi lægri en er á þessum svæðum. Meira að segja er talað um dýrar hitaveitur sem eru væntanlega nýjar hitaveitur sem þurfa að borga niður stofnkostnað o.s.frv. eða eru kannski ekki með eins mikið eða ekki eins heitt vatn og maður þekkir dæmi um þar er kostnaðurinn í kringum 185 þús. kr. Síðan er tekið dæmi af Ísafirði þar sem kostnaður á ári er 180 þús. kr. og Seyðisfirði og Höfn þar sem hann er 185 þús. kr. Að lokum er kostnaðurinn í Vestmannaeyjum 164 þús. kr.

Með þessari upptalningu sjáum við hversu geysilega mikill munur er þarna á. Þess vegna ber að fagna því að vísindamenn okkar, framkvæmdamenn og frumkvöðlar, hafi náð betri tökum á borunum eftir heitu vatni. Við höfum fundið vatn á stöðum þar sem við héldum áður að ekkert heitt vatn væri að finna og byggt þar hitaveitur þó að þær séu dýrar til að byrja með. Vonandi er það vegna þess að verið er að greiða niður stofnkostnað, rannsóknir og annað slíkt. En það er auðvitað sláandi hvað það er geysilega mikill munur þarna á. Munurinn verður aldrei jafnaður að fullu en þarna er sem sagt verið að jafna kostnaðinn á milli þéttbýlis og dreifbýlis á orkusvæði Rariks og Orkubús Vestfjarða þar sem þörfin er mest.

Það þarf ekki að orðlengja umræðu um þetta mál þegar kemur fram frumvarp sem jafn mikil sátt er um og ég held að verði um þetta eða ég er nokkuð viss um að svo verði. En ég vil segja varðandi tal um rannsóknir á fleiri svæðum og leit að heitu vatni, það er auðvitað mjög gott þjóðhagslega ef við finnum heitt vatn, að minnast á það hér sem lagt var til í tillögum starfshópsins, þ.e. lagt var til að heimiluð yrði lenging á stofnstyrkjaframlagi í allt að tólf ár ef þörf krefði. Það voru tillögur sem komu frá nefndinni og ef ég man rétt vorum við með frumvarp í atvinnuveganefnd undir lok síðasta kjörtímabils þó að ég muni nú ekki nákvæmlega hvað það var, það skiptir ekki máli, en nefndin tók sig til og breytti þessu ákvæði strax. Vonandi hefur hvetur það til rannsókna og eftir atvikum borana og leit að heitu vatni, sem þýðir þá vonandi hitaveitugerð ef vatn finnst, þar sem stofnstyrkjaframlagið í allt að tólf ár í staðinn fyrir átta hefur töluvert mikið að segja í þessum efnum.

Það þarf ekki að orðlengja mikið um þetta mál og ræða það hér við 1. umr. en eins og ég hef áður sagt skulu menn koma hingað upp og fylgja sínum skoðunum og ræða þetta mál, kosti þess og galla, ef einhverjir eru, sem er þá leiðbeinandi fyrir nefndina. En við fyrstu yfirsýn sýnist mér þetta vera mjög gott mál og ef ég má nú vera svolítið gamansamur í restina er þetta góð arfleifð frá síðustu ríkisstjórn til þessarar ríkisstjórnar sem fylgir því eftir og klárar það. Það færi vel á því að það væri gert á fleiri sviðum.



[18:01]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir það sem hér hefur verið sagt og þakka fyrir að frumvarpið er komið fram. Auðvitað get ég ekki annað en minnst á það í leiðinni að við Vinstri græn ræddum þetta mál mikið við fjárlagagerðina bæði núna og síðast og lögðum á það áherslu, enda höfðum við talið það vera eitt af forgangsmálum til jöfnunar búsetu. Við höfum fjallað töluvert um byggðamál á þinginu og jafnrétti til búsetu, ekki bara í vetur heldur mörgum sinnum áður. Jöfnun á húshitunarkostnaði á köldum svæðum er eitt af því sem skiptir þar gríðarlega miklu máli, og við sem það höfum prófað eða búið við þekkjum að það er ekki sá lúxus í boði að skrúfa frá sturtunni og láta heita vatnið renna mjög lengi eða að allir geti lokið við að fara í sturtu á sama klukkutímanum. Þess vegna er þetta eitt af því sem sem skiptir miklu máli fyrir okkur og við getum verið nokkuð sammála um.

Ég verð reyndar líka að taka undir það að ég er mjög ánægð með að unnið er samkvæmt þeim tillögum sem starfshópurinn skilaði í desemberskýrslu sinni árið 2011 þar sem var nú samt sem áður gert ráð fyrir að lagt yrði á gjald. Hér var ákveðið að gera það ekki og má svo sem spyrja: Af hverju ekki? Við veltum því upp fyrr í umræðu um það mál sem vísað var til áðan hvers vegna til dæmis stóriðjan væri ekki ein af þeim sem tækju þátt í rafmagnskostnaði í dreifbýli o.s.frv., af hverju ekki væri ákveðið að leggja til einhverja slíka gjaldtöku. Ég held að ég hafi ekki misskilið það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þar sem hann átti orðastað við hæstv. ráðherra í febrúar síðastliðnum og vitnaði þar í flokksþing Framsóknarflokksins og sagði, með leyfi forseta:

„Lagt verði á sérstakt jöfnunargjald sem verði notað til að greiða niður húsnæðiskostnað og flutningskostnað á raforku með það að leiðarljósi að jafna kostnað við húshitun á landsvísu.“

Það rataði svo inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sagði hv. þingmaður. Mér finnst það hljóma svolítið sérstakt miðað við að hér er svo ákveðið að fara aðra leið. Ég spyr því: Hvers vegna?

En það er auðvitað mikilvægt að þetta rataði inn í samstarfsyfirlýsinguna, segir hér, ég vitna þar í hv. þingmann. Í kringum 10% landsmanna búa við þessa tegund af húshitun sem er auðvitað mjög dýr og tekur mikið af ráðstöfunartekjunum. Þess vegna er það vel að gjaldið lækki. Hér er sagan rakin aðeins frá því 2007 og sagt hversu mörg heimili hafa verið styrkt til bættrar einangrunar og varmadæluuppsetningar, þau eru 300. Lögin um breytinguna á niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar eru rakin og sagt að stofnstyrkjaframlagið hafi verið lengt í tólf ár þannig að allt skiptir það máli og er í rauninni mjög jákvætt.

Ég velti fyrir mér þessu með fjármögnunina af því að við í fjárlaganefnd erum að fjalla um ríkisfjármálaáætlun sem gilda á næstu fjögur ár. Frumvarpið er búið að fara í gegnum stjórnarflokkana og ríkisstjórn en ekki er gert fyrir slíkri útgjaldaaukningu í fjárlögum eða í fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun. Hvers vegna er það ekki gert þegar þetta liggur fyrir á undan hinu? Að sjálfsögðu vonast ég til þess að þetta nái fram að ganga og styð hæstv. ráðherra eindregið í því.

Ég held að það sem fjármálaráðuneytið gagnrýnir hér, þessi skýra breyting sem kveður á um skyldu ríkisins til að niðurgreiða húshitun, sé að ekki sé settur fyrirvari um svigrúmið. Fjármálaráðuneytið gagnrýnir að þetta eigi að fara í gegn, þ.e. að niðurgreiðslukerfið verði sjálfvirkt. Fjármálaráðuneytið vill hins vegar að tekin sé um það ákvörðun frá ári til árs við gerð fjárlaga og þá með einhverjum öðrum hætti en hér er lagt til, og að fara þurfi fram einhver sérstök umræða um það. Ég styð það hins vegar að þetta verði varanlegt og að þörfin hverju sinni komi fram og þetta renni þar svo inn. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta sé svona en ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er bara ánægð með að frumvarpið er komið fram og ég styð ráðherrann í að það nái fram að ganga. Ég velti hins vegar fyrir mér varðandi samstarfssamninginn eða yfirlýsinguna þar sem þetta kemur sérstaklega fram og eins að leggja eigi sérstakt jöfnunargjald á sem síðan er ákveðið að gera ekki hér.



[18:08]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að fá þetta mál inn í þingið og virðist vera mjög almenn samstaða um að vinna því brautargengi hér. Það hefur ágætlega komið fram hver er aðdragandi þessa máls og það hefur auðvitað átt sér langan aðdraganda, m.a. með þeim starfshópi sem vann að málinu og skilaði tillögum í skýrslu árið 2011. Það urðu töluverð vonbrigði þegar menn fóru svo að stíga skrefin til þess að fylgja þeim tillögum eftir að við skyldum ekki ná að ljúka jöfnun á húshitunarkostnaði og dreifikostnaði raforku að fullu. Þar kom líka upp ágreiningur um eina af tillögum nefndarinnar sem var um hverjir ættu að greiða jöfnunina. Gagnrýnt var að jöfnunargjaldið sem lagt var á skyldi ekki ná til stóriðjunnar og þar með létt meira á heimilunum, lægra jöfnunargjald lagt á þau eins og nefndin hafði gert tillögu um. Ég held að við skulum láta það liggja milli hluta. Eins og ég skil þetta frumvarp er viðbótin sem þarf til þess að ná fullri jöfnun 215 millj. kr. á næsta ári og mér skilst að það eigi að koma beint úr ríkissjóði, þ.e. ekki verði lagt á frekara jöfnunargjald til þess að fjármagna þann kostnað.

Á síðastliðnu hausti tók Samfylkingin sig til og lagði fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum. Það átti sér þann aðdraganda að segja má að við höfum sest niður og sagt upphátt og lagt á það mikla áherslu að það væri enginn jafnaðarmannaflokkur á Íslandi ef hann legði ekki áherslu á jöfnuð og jafnrétti á milli byggðarlaga, milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Í tillögu okkar voru talin upp ellefu atriði. Þetta atriði er eitt af þeim sem við lögðum til. Nú er hægt að krossa við það.

Mig langar aðeins að vekja athygli á öðrum þáttum sem er mikilvægt að fylgja eftir og tryggja að verði unnir í framhaldinu. Sumir þeirra eru í ferli og ber að fagna því, aðrir eru styttra komnir.

Í fyrsta lagi var rætt um það í tillögu okkar að nota aðferðafræði sóknaráætlana landshluta sem mikið hafði verið unnið í og var þverpólitísk samstaða um. Illu heilli var þeim hent út af borðinu við stjórnarskipti en þær hafa sem betur fer smátt og smátt verið að rata inn á borðið aftur vegna þess, eins og margt annað sem gerðist við stjórnarskiptin, að menn áttuðu sig á því að mikið af þeirri vinnu sem hafði verið unnin hafði verið unnin í býsna góðri sátt og þar að auki hafði aðferðafræðin verið afar vönduð. Sú vinna er að skila sér aftur inn á borðið þannig að þeir aðilar sem fjalla einmitt um málið, þ.e. heimaaðilar, fá tækifæri til að fjalla um sóknaráætlanir og hvernig fjárveitingum er dreift á viðkomandi svæðum.

Í öðru lagi var rætt um samgöngumálin. Það er ekki hægt að segja margt á meðan við höfum ekki séð nýja samgönguáætlun, en því miður held ég að sé algjört met hversu lítið er lagt til nýframkvæmda í samgöngumálum á þessu ári.

Í þriðja lagi var rætt um veiðigjaldið og að sjávarbyggðirnar fengju hlutdeild í þeim tekjum. Þetta hefur oft verið rætt og annar stjórnarflokkurinn a.m.k. hefur verið með þær hugmyndir líka. Þegar við förum í umræðuna um veiðigjaldið er mikilvægt að þessi möguleiki verði ræddur.

Fjórði liðurinn var um ívilnunarlöggjöf vegna nýfjárfestinga. Hæstv. ráðherra iðnaðarmála hefur það mál til meðferðar og þingið raunar í augnablikinu, en lögð var áhersla á það í tillögu okkar að löggjöfin yrði skoðuð sérstaklega með tilliti til uppbyggingar á landsbyggðinni, eða landsbyggðunum eins og við segjum.

Síðan kemur fimmti liðurinn sem er sá liður sem hér er til umræðu, þ.e. jafna húshitunarkostnað að fullu og fara eftir þeim tillögum sem lagðar voru fram af starfshópnum 2011.

Í sjötta lagi eru tillögur um Íbúðalánasjóð, að koma ónýttu húsnæði án tafar í notkun. Mér sýnist nú lítið hafa gerst í því. Í sjöunda lagi er tillaga um að sveitarfélögum verði gert kleift að fá hlutdeild í tekjum af ferðamönnum til þess að gera þeim fært, sérstaklega í landsbyggðunum, að skapa segla eins og það er kallað, þ.e. að skapa spennandi tilboð fyrir ferðamenn í viðkomandi sveitarfélögum. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt. Það eru mörg svæði sem þurfa aðhlynningar við. Ég verð að segja það að hæstv. ráðherra og stjórnarflokkarnir hafa lent í ógöngum með náttúrupassann, en miðað við þær tekjur sem ferðaþjónustan skapar og mikilvægi hennar fyrir þjóðarbúið í augnablikinu held ég að menn ættu að byrja á því að setja strax út fjármagn til að hægt sé að undirbúa að gera bragarbót á þeim ferðamannastöðum sem þurfa helst lagfæringar við. Um leið er mjög mikilvægt að fylgja því eftir að hægt verði að dreifa ferðamönnum, ef maður getur orðað það þannig, vinna að því að ferðamenn eigi kost á því að fara víðar og bæta þjónustuna úti á landsbyggðinni. Raunar hefur þetta komið fram. Ég var á fundi hjá Vinnumálastofnun þar sem verið var að ræða um atvinnuhorfur á Íslandi næstu tvö ár, 2015–2017. Þar kom fram, sem kom mér á óvart, að aukningin í vinnuafli, þ.e. fjölda sem stundar vinnu, var um 2.700 manns á síðasta ári og 96% af þeim voru í ferðaþjónustu. Í umræðum á þeim fundi kom klárlega fram það viðhorf að aukningin í ferðaþjónustu verður að eiga sér stað úti á landsbyggðinni. Það kallar á atvinnustefnu og einnig aukna menntun í ferðamannaiðnaðinum, og sú menntun þarf að eiga sér stað úti á landsbyggðinni, til að tryggja að viðkomandi aðilar starfi þar og byggi upp bæði menntun, þekkingu og gæði í ferðaþjónustu í landsbyggðunum.

Áttundi punkturinn hjá okkur var uppbygging á háhraðatengingum og hringtengingum ljósleiðara um allt land. Sú vinna er í fullum gangi. Ég veit að hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur leitt þá vinnu og fyrirheit hafa verið gefin um fyrstu fjárveitingar í þá framkvæmd. Því ber að fagna og við munum styðja frekari uppbyggingu hvað það varðar.

Níundi liðurinn tengist þessu mál hér beint, en það er raforkuöryggi. Á nokkrum svæðum á landsbyggðunum er raforkuöryggi ekki til staðar. Vestfirðir hafa til dæmis ítrekað verið nefndir í því samhengi. Það eru fleiri staðir þar sem ekki eru hringtengingar og ef rafmagn fer af getur tekið býsna langan tíma að koma því á aftur. Ég veit að unnið er að þessu, en hversu hratt það gengur hef ég ekki nýjustu fréttir af.

Í tíunda lagi er það jöfnun flutningskostnaðar. Þrátt fyrir veikburða fjárhagsstöðu ríkissjóðs eftir hrunið þá var loksins komið á jöfnun flutningskostnaðar en það þarf að þróa þær styrkveitingar eða það kerfi betur.

Að lokum eru það almenn ákvæði um að við verðum að gæta að menntun um allt land sem og að tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu um allt land. En það eru blikur á lofti, sérstaklega varðandi menntunina. Sumir af landsbyggðarskólunum eru í mikilli hættu bæði vegna styttingar náms og vegna þeirra breytinga sem eru að verða á þátttöku 25 ára og eldri í menntakerfinu.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir skiptir gríðarlega miklu máli fyrir byggðir á svokölluðum köldum svæðum sem eru einkum á Austurlandi, Snæfellsnesi og Vestfjörðum eins og hér kemur fram. Snæfellsnesið utanvert hefur búið við þetta í mörg ár og borgað gríðarlega háan húshitunarkostnað. Sama gildir nánast um öll byggðarlög á Vestfjörðum, annaðhvort eru menn þar með kyndistöðvar, jafnvel með olíu eða með rafmagni sem þeir hafa þurft að borga gríðarlega mikið fyrir. Ég hvet ráðherra og Alþingi raunar til dáða þannig að við fylgjum þessu eftir og mögulegt verði að ljúka þessum störfum.

Það er athyglisvert að skoða umsögn fjármálaráðuneytisins. Ég vona að það álit trufli ekki framgang málsins. Talað er um að þetta kosti 215 millj. kr. á árinu 2016 og það hefur komið fram fyrr í umræðunni, en ekki er gert ráð fyrir því í útgjaldaramma í fjárlögum eða í nýframlagðri fjögurra ára ríkisfjármálaáætlun. Ég treysti bara á að það verði leiðrétt þannig að ekki verði áhöld um það. Auðvitað er alltaf fyrirvari á fjárveitingum þegar þær þurfa að koma frá Alþingi, að Alþingi tryggi að þær verði inni á næsta ári þannig að hægt verði að standa við loforð og fyrirheit sem gefin eru með þessu lagafrumvarpi.



[18:18]
Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég verð, eins og aðrir þingmenn sem talað hafa hér á undan, að fagna því sérstaklega að þetta mál sé komið fram og fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra hefur mælt fyrir því. Þetta mál er í beinu framhaldi af samþykkt okkar frá 3. mars 2015 þar sem við stigum það skref að jafna gjaldskrár í flutningi og dreifingu rafmagns milli dreifbýlis og þéttbýlis, eitt af þessum, í stóra samhenginu, litlu málum sem skipta svo miklu máli fyrir landsbyggðina. Þetta byggir á margra ára baráttu og margra ára vinnu. Ég vil sérstaklega nefna Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum, nefndastarf sem bæjarstjórinn í Snæfellsbæ fór fyrir, Kristinn Jónasson.

Ég ætla að rifja það upp hér að fyrsta haustið sem ég sat í fjárlaganefnd og við tókum á móti sveitarstjórnum, sem gerðu athugasemdir og komu fram sjónarmiðum sínum við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp á þeim tíma, stóð upp úr þeim mörgum þessi setning: Það á að flytja frumvarpið sem Einar Kristinn Guðfinnsson hefur flutt um jöfnun húshitunarkostnaðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Núverandi forseti hæstv. Alþingis hafði þá kjörtímabilið á undan flutt ásamt fleirum frumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar, þannig að margir hafa lagst á sveif í þeirri baráttu að stíga þessi skref. Ég vil rifja sérstaklega upp þessi sjónarmið sveitarfélaganna og fjárlaganefndar það haustið.

Það má segja að með samþykkt þessa frumvarps sé gjaldið fyrir raforkuna dregið enn sterkara fram í dagsljósið en áður. Nú er flutningskostnaðurinn ekki að trufla það lengur. Auðvitað vaknar þá umræðan um mismunandi orkukostnað og mismunandi aðstæður byggðanna. Það er eðlilegt að við þurfum að takast á við þá umræðu í framhaldinu. En það má svo sem gera margt til að lækka orkuverð og orkukostnað. Í fyrsta lagi má, fyrir íbúa, leita hagkvæmari innkaupa á rafmagni. Það hafa verið aðgerðir í þá veru að létta fólki kaup á varmadælum og lækka orkukostnað heimilanna með þeim hætti, þannig að mörg fleiri úrræði eru til, en hann hleypur ekki alveg frá okkur þessi mismunur sem verður á milli landsvæða þegar þetta hefur gengið í gildi og verður bara önnur umræða og annað verkefni að fást við það.

Það má líka segja að ekki megi deyfa hvatann til að leita hagkvæmari orkukosta til lengri tíma eins og að stunda jarðhitaleit eða finna aðra orkugjafa til að hita húsnæði. Það er afskaplega fín lína þarna á milli því að hitaveitur á þeim svæðum sem nú eru að leggja hitaveitur eru óskaplega dýrar. Þó að við gerum ekki lítið úr þeirri breytingu sem varð hér á fyrra kjörtímabili, um 12 ára framlag til að styrkja slíkar hitaveitulagnir, þá er kostnaður íbúa á þeim svæðum sem nú eru að leggja slíkar hitaveitur gríðarlega mikill og mögulega getur þetta með einhverjum hætti deyft þátttökuviljann í því. Þá er líka mikilvægt að við missum ekki sjónar á því hvernig við viljum nýta þær orkulindir sem við höfum í landinu og tryggja þátttöku í notkun þeirra og í nýbyggingu á þeim hitaveitum.

Ég fagna sérstaklega ákvæði í þessu frumvarpi sem fjallar um að nota orðið „eldsneyti“ frekar en „olía“. Ég held að það sé löngu tímabær breyting því að þannig háttar einfaldlega til að til eru margir fleiri orkugjafar, meira að segja á Íslandi, en bara olía, heitt vatn og rafmagn. Ég vil nefna reka. Ég hef komið í félagsheimili í sveit þar sem fjörurnar voru fullar af viði, en félagsheimilið kalt og illa kynt vegna þess að það var dýrt að kynda það. Orkan lá í raun nokkra metra frá félagsheimilinu. Í framhaldi af þessu skrefi mætti hugsa sér annars konar verkefni, hvatningu til að byggja upp slíkar orkunýtingaraðferðir, hvort sem við erum að ræða um við eða mó eða slíka hluti. Síðan er eitt sem mér finnst gaman að minna á — má vera að ég sé farinn að ryðga í tölum, ég hef þá bara fyrirvara á því sem ég ætla að segja hér. Mér leyfist vonandi, frú forseti, að nefna orðið mykja í ræðustól á Alþingi, en þá erum við að tala um aðra orkugjafa sem sveitirnar geta nýtt sér. Með einföldum búnaði má nýta metan sem hægt væri að leysa úr haughúsi í 40 kúa fjósi og gæti það gefið orkugildi sem samsvarar 4.000–6.000 lítrum af olíu. Þetta er gríðarlega mikil orka sem með einföldum búnaði og einföldum hætti mætti nýta til að hita vatn og búa þar með til hringrás að hitaveitu á viðkomandi bæ.

Þó að við náum þeim áfanga sem hér er undir blasa við fjölmörg önnur tækifæri og fjölmörg önnur verkefni. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Við í atvinnuveganefnd förum yfir umsagnir og sjónarmið sem fram koma í meðförum málsins frá þeim sem veita umsögn.

Enn og aftur segi ég: Ég fagna því sérstaklega að við séum að ná þessum áfanga. Hann skiptir gríðarlega miklu máli á mörgum svæðum á landinu og er gott dæmi um það hvernig ríkisstjórnin nálgast það verkefni sitt að jafna sem best búsetuskilyrði í landinu. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Guðbjartur Hannesson, fjallað að vísu um fjölmarga aðra þætti og pósta sem við getum örugglega verið sammála um þvert á flokka í þessum ræðustól að þurfi að nást, en hér er hillir alla vega undir einn áfanga.



[18:25]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum áfanga að jöfnun á húshitunarkostnaði landsmanna. Ég get, eins og aðrir hv. þingmenn, fagnað því að frumvarpið hafi verið lagt fram og búið sé að taka þá ákvörðun, eða leggja til af hæstv. ráðherra, að full niðurgreiðsla komi til vegna flutnings og dreifingar á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis fyrir þá sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma. Það er vissulega mikill og góður áfangi.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni erum við ekki búin að ganga götuna til enda varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar allra landsmanna. Það verkefni bíður okkar og við verðum að halda áfram að vinna að því að sú jöfnun verði til staðar. Gífurlegur munur er á kjörum fólks, varðandi kostnað við að kynda upp hýbýli, eftir því hvar á landinu það býr. Við ræddum einhvern tímann jöfnun á dreifingu á rafmagni. Þá lögðum við til, ég og hv. þm. Kristján Möller, eins og hv. þingmaður kom inn á, að stórfyrirtækin yrðu með í þeirri jöfnun. Það náðist ekki fram og var eingöngu um að ræða jöfnun innan dreifiveitna og tel ég að það hafi verið slæm niðurstaða.

Hér er lagt til að ekki verði haldið áfram að jafna innbyrðis í kerfinu hvað varðar niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði varðandi flutninginn frá þeim sem geta ekki nýtt beinar hitaveitur heldur eru með fjarvarmaveitur — að ríkissjóður komi þar inn og hæstv. ráðherra hefur kynnt að það verði fjármagnað og tryggt sé að slíkt verði lagt til í næstu fjárlagagerð. Það er vissulega áfangi sem ég held að við munum reyna að koma eins hratt í gegnum þingið og við getum. Málið fer til atvinnuveganefndar þar sem við setjum þetta vonandi á forgangslista, ég hef ekki trú á öðru en þverpólitísk samstaða sé um að það verði gert.

Ég er aðeins hugsi yfir töflunni sem er sett upp sem fylgiskjal og verð að viðurkenna að ég hef ekki haft nægan tíma til að skoða það mál sem slíkt. Ég sé að samanburðurinn er á milli ýmissa staða, hvort sem orkusalinn er Rarik, Orkubúið eða dýr hitaveita, þá er miðað við ákveðna orkunotkun svo að samanburðurinn innbyrðis er algjörlega réttur. En þær stinga mig aðeins þær tölur sem koma hér fram, um að á Ísafirði, eftir þessa breytingu, nýtt kerfi, kosti rúmar 180.000 kr. að kynda 180 fermetra einbýli, miðað við ákveðna orkunotkun, og lækki úr rúmum 213.000 kr., það eru töluverðir fjármunir, lækkunin á upphæðinni.

Þó maður eigi ekki að vera sjálflægur í ræðustól Alþingis þá hef ég áður getið þess að ég bý á Suðureyri og á þar einbýlishús. Á ársgrundvelli kostar 300.000 kr. að kynda það og samt er það minna en það 180 fermetra hús sem þarna er haft sem viðmið. Mér finnst þetta svolítil blekking, ef horft er á það hvað það kostar í veruleikanum að kynda húsnæðið. Dregin er upp sviðsmynd af 100 fermetrum í fjölbýli, 140 fermetra raðhúsi og 180 fermetra einbýli. Því miður er þetta, held ég, ekki veruleikinn á þessum köldu svæðum. Samanburðurinn stendur eftir sem áður fyrir sínu þar sem verið er að tala um sambærilega notkun á milli Reykjavíkur og þessara staða úti á landi í orkunotkun í kílóvattstundum.

Ég vil lýsa ánægju minni með það að á þessum ágæta degi — fyrrverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, á afmæli, hún er 85 ára, ég nota tækifærið til að óska henni til hamingju með daginn — komi fram frumvarp frá ríkisstjórninni sem hægt er að fagna. Ekki átti það við um frumvarpið sem var flutt hér á undan, en það er gott að hægt sé að ljúka deginum í ánægju með þetta frumvarp.



[18:32]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra sérstaklega þetta frumvarp. Ég fagna því og er stoltur af því að þessir tveir flokkar skuli standa við það kosningaloforð sitt að jafna að fullu húshitunarkostnað á landinu.

Ef ég vitna í frumvarpið segir þar að með upptöku jöfnunargjalds á raforku, samanber lög um breytingu á lögum nr. 98/2004, sem samþykkt voru á Alþingi 3. mars 2015, sé tryggð full jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra nota í dreifbýli og þéttbýli frá og með árinu 2016. Eftir stendur að tryggja að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Með þessu frumvarpi er það lagt til. Ég fagna því. Þetta er glæsilegt frumvarp með fallegum myndum af landinu í lit og góðum töflum og línuritum.

Enginn vafi leikur á því að hinn mikli húshitunarkostnaður sem um 10% landsmanna búa við hefur stuðlað að búseturöskun og veikt viðkomandi samfélög. Þessi þungi kostnaðarliður er í raun ávísun á lakari lífskjör og letur fólk mjög til búsetu á þessum svæðum. Þetta byggðamál snýst ekki um stöðu landsbyggðar gagnvart höfuðborgarsvæðinu, því að víða um land eru starfræktar ódýrar jarðvarmaveitur. Það snýst meira um jöfnun búsetuskilyrða almennt og jöfnun á möguleikum sveitarfélaga til að vaxa og dafna, eins og segir hér.

Líkt og í ljósleiðaramálunum, þar sem við stefnum að því að jafna skilyrði hjá fólki hvar sem það býr, ætlum við okkur með bæði þessu frumvarpi um húshitun og því sem við ætlum að gera í fjarskiptamálunum að jafna möguleika fólks. Í frumvarpinu segir líka: „Samtals er því áætlað að hækkunarþörf niðurgreiðslna til húshitunar samkvæmt frumvarpinu verði um 215 millj. kr. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins komi til framkvæmda 1. janúar 2016.“

Enn fremur ætla ég að fagna því sem stendur hérna í umsögn frá fjármálaráðuneytinu, að samkvæmt núgildandi lögum hafi umfang niðurgreiðslna til húshitunar hingað til ráðist af því hversu mikið fjármagn Alþingi hefur veitt til þessa málaflokks í fjárlögum hverju sinni.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að skýrt verði kveðið á um skyldur ríkisins til að niðurgreiða húshitun en ekki settur fyrirvari um það svigrúm sem heimildir fjárlaga veiti þannig að niðurgreiðslukerfið verði sjálfvirkt með þeim hætti að öllum kostnaðarbreytingum í raforkudreifingu verði mætt sjálfvirkt án þess að taka þurfi sérstaka ákvörðun um fjárheimildina með fjárlögum. Við þurfum því ekki að treysta því að fjárlaganefnd komi með fjármuni. Því ber að fagna.

Að lokum fagna ég frumvarpinu aftur og er stoltur af því að þessir tveir flokkar skuli standa við enn eitt kosningaloforðið.



[18:36]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fagna, líkt og félagar mínir hafa gert. Þetta er stór áfangi sem við erum að ná í að jafna búsetuskilyrði um landið. Eins og við þekkjum hefur verið talsverður munur á orkukostnaði eftir landsvæðum og þekkja það margir á eigin skinni. Ég þarf svo sem ekki að rekja söguna meira en gert hefur verið og ég ætla ekki að lengja umræðuna en það er gaman að segja frá því sem raundæmi að sveitungi minn flutti í höfuðstaðinn, sá hversu allt var auðvelt þar og mikill munur var á öllum reikningum varðandi rekstur á húsi. Glaður borgaði hann lága reikninga varðandi húshitunarkostnað, en komst svo að því að hann hafði verið að borga fyrir alla sameignina. Samt var hann að borga minna en fyrir hús sitt í heimabyggð sinni. Þetta er dæmi um það hvernig hlutirnir eru í raun.

Það er mikið fagnaðarefni að við skulum vera að stíga þetta skref. Þegar höfum við stigið ákveðið skref í átt að fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku með upptöku jöfnunargjalds á þá raforku sem fer til dreifiveitna landsins. Í þessu frumvarpi er verið að leggja lokahönd á að koma til framkvæmda þeim tillögum sem lagðar voru fram í áðurnefndri skýrslu starfshópsins frá 2011. Hér er langt ferli að baki sem ég bind vonir við og ég trúi því statt og stöðugt að við munum leiða það til lykta og vera sammála um að bæta búsetuskilyrði til muna í landinu. Ég hlakka til þeirrar vinnu.



[18:38]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur farið fram. Hún staðfestir það sem mig grunaði og vonaði, að um þetta mál gæti náðst breið pólitísk samstaða.

Ég hef ekki miklu við að bæta en vil þó þar sem fjárveitingar á fjárlögum og í ríkisfjármálaáætlun bar á góma koma inn á það að, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller, gert verður ráð fyrir þessum kostnaði í fjárlagatillögum ráðuneytis míns við fjárlagagerðina fyrir næsta ár, enda er gert ráð fyrir þessum kostnaði frá og með næsta ári en ekki á þessu ári. Upphaflega stóð til að gera þetta í tveimur skrefum, þ.e. ég ætlaði að koma með þingsályktunartillögu til að fá fram afstöðu þingsins til þessara málaflokka, en eftir að hafa m.a. svarað fyrirspurnum og rætt málin oft og ítrekað á þinginu tókum við þá ákvörðun í ríkisstjórninni að gera þetta í einu skrefi, að koma fram með frumvarpið, og það verður að sjálfsögðu gerð breyting á þeirri langtímafjárhagsáætlun sem er til meðferðar í þinginu til samræmis við það.

Ég vildi koma því að og þakka aftur fyrir umræðuna. Ég vonast til þess að við getum afgreitt þetta frá þinginu í góðri sátt innan tíðar.