144. löggjafarþing — 92. fundur
 20. apríl 2015.
landsskipulagsstefna 2015–2026, fyrri umræða.
stjtill., 689. mál. — Þskj. 1163.

[17:17]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026. Tillagan er lögð fram í samræmi við ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, en með þeim lögum var í fyrsta skipti sett hér á landi ákvæði um landsskipulagsstefnu. Umhverfis- og auðlindaráðherra ber að leggja fram tillöguna til 12 ára.

Megintilgangur stefnunnar er að setja fram samræmda stefnu og þar með heildstæða sýn stjórnvalda um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum. Með því móti hafa sveitarfélög landsins aðgang að stefnu ríkisvaldsins sem varðar skipulagsgerð á einum stað. Þá er tillögunni ætlað að samþætta áætlanir sem unnar eru á vegum stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun.

Í landsskipulagsstefnu ber alltaf að fjalla um miðhálendi Íslands. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld vinni á árunum 2015–2026 að skipulagsmálum í samræmi við stefnuna. Þetta felur í sér meðal annars að þau taki mið af henni við gerð og breytingu skipulagsáætlana og samræmi skipulagsáætlanir landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar, þegar það á við.

Skipulagsstofnun hóf vinnu við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu á árinu 2013 að beiðni umhverfis- og auðlindaráðherra. Samhliða var skipuð ráðgjafarnefnd stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga um landsskipulagsstefnuna sem var Skipulagsstofnun og ráðherra til ráðgjafar og samráðs við starfið.

Tillaga að landsskipulagsstefnu var unnin í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök. Einnig var starfræktur sérstakur samráðsvettvangur við mótun stefnunnar sem í voru fulltrúar frá sveitarfélögum og samtökum þeirra, opinberum stofnunum, fyrirtækjum sem sinna uppbyggingu og rekstri grunngerðar og samtökum á sviði atvinnuvega og náttúru- og umhverfisverndar. Tillaga að landsskipulagsstefnu var auglýst af Skipulagsstofnun og kynnt opinberlega, auk þess sem hún var send út til umsagnar 180 aðila. Ánægjulegt er að segja frá því að Skipulagsstofnun bárust athugasemdir við tillöguna frá 73 aðilum með gagnlegum og góðum ábendingum sem sýnir skýrt mikinn áhuga á þessari vinnu.

Skipulagsstofnun skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að landsskipulagsstefnu ásamt fylgiskjölum og greinargerð um afgreiðslu tillögunnar 12. mars sl. að loknum kynningartíma. Tillaga þessi um landsskipulagsstefnu felur í sér fjórar meginstefnur: stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, stefnu um skipulag í dreifbýli, stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar og stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum.

Stefnan er byggð upp á þann hátt að fyrir öll viðfangsefni hennar eru lögð til grundvallar ákveðin leiðarljós. Leiðarljósin eru þau að skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að sjálfbærri þróun, skipulagið sé sveigjanlegt gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum og lífsgæðum fólks og styðji enn fremur samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.

Undir hvert viðfangsefni tillögunnar er sett fram eitt yfirmarkmið og síðan markmið sem varða einstaka efnisþætti eða málaflokka eins og byggð, náttúruvernd, orkuvinnslu eða samgöngur. Þá er lagt til að hverju markmiði sé fylgt eftir með tilteknum aðgerðum eða leiðum. Þar er annars vegar um að ræða tilmæli og aðgerðir sem beint er til sveitarfélaga við gerð skipulagsáætlana og hins vegar ýmis verkefni sem beint er til annarra stjórnvalda.

Ég ætla nú að gera grein fyrir hinum fjórum stefnum landsskipulagsstefnunnar og þar er fyrst að nefna stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu sem er ætlað að leysa af hólmi Svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 og tekur til sama landsvæðis. Í stefnunni er lögð áhersla á að viðhalda meginstefnu gildandi svæðisskipulags auk þess sem horft er til reynslunnar af framkvæmd þess. Jafnframt var tekið mið af þeim áætlunum sem fyrir hendi eru um landnotkun á miðhálendinu, svo sem áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, kerfisáætlun, samgönguáætlun og náttúruverndaráætlunum.

Yfirmarkmið stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu er að staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og að uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess. Í tillögunni eru lagðar til nokkrar leiðir eða aðgerðir til að stuðla að framfylgd markmiða stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu. Mikilvægt er að skipulags- og samgönguyfirvöld vinni að nánari greiningu á kostum varðandi þróun samgöngukerfis og útfærslu vega. Í tillögu að landsskipulagsstefnu er því gert ráð fyrir að sveitarfélög sem land eiga að miðhálendinu marki sér stefnu um þjóðvegi í aðalskipulagi í samráði við Vegagerðina.

Skortur er á heildstæðri yfirsýn yfir núverandi húsakost og þjónustuframboð á miðhálendinu. Því er lagt til að Skipulagsstofnun hafi, í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélög sem land eiga inn á hálendið, forgöngu um skráningu mannvirkja og þjónustu á hálendinu. Í tillögu þessari er unnið á grundvelli þeirrar meginhugmyndar svæðisskipulags miðhálendisins að viðhalda skuli víðernum þess. Vegna þessa er lagt til að Skipulagsstofnun hafi, ásamt Umhverfisstofnun, forgöngu um reglulega uppfærslu á korti af umfangi og þróun mála á miðhálendinu. Vegna aukins ferðamannastraums til landsins er afar mikilvægt að fyrir liggi mat á uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu. Því er lagt til að Skipulagsstofnun safni, í samvinnu við Ferðamálastofu, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög sem land eiga inn á hálendið, upplýsingum um þörf fyrir breyttar áherslur í mannvirkjagerð.

Önnur meginstefna er skipulag í dreifbýli og það er nýmæli. Á undanförnum árum hafa orðið talsverðar breytingar á landnotkun í dreifbýli, samhliða breytingum í landbúnaði. Aukin áhersla er meðal annars á skógrækt og akuryrkju, samhliða aukinni þekkingu og hlýnandi veðurfari. Þá hefur uppbygging ferðaþjónustu í dreifbýli aukist auk almennt aukinnar útivistar. Því er ljóst að ýmiss konar áskoranir blasa við á komandi árum varðandi skipulag landnotkunar í dreifbýli, svo sem í landbúnaði, náttúruvernd, landgræðslu, skógrækt og ferðamennsku.

Í stefnu um skipulag í dreifbýli er gert ráð fyrir að skipulagið gefi kost á fjölbreyttri nýtingu lands, svo sem til ræktunar og ferðaþjónustu og útivistar í sátt við náttúru og landslag. Nánari markmið koma svo fram undir umfjöllunarefni um sjálfbæra byggð í dreifbýli, umhverfis- og menningargæði, sjálfbæra nýtingu landbúnaðarlands, ferðaþjónustu í sátt við náttúru og umhverfi, orkumannvirki og örugga afhendingu raforku í sátt við náttúru og umhverfi, sjálfbærar samgöngur, trygg fjarskipti og skipulag með tilliti til náttúruvár og loftslagsbreytinga. Til að framfylgja stefnu um skipulag í dreifbýli er meðal annars lagt til að umhverfis- og auðlindaráðuneytið standi fyrir gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands til notkunar við skipulagsgerð og aðra stefnumörkun um landnýtingu. Mikil þörf er fyrir slíkar leiðbeiningar í ljósi þess að margt bendir til þess að landbúnaðarframleiðsla muni aukast í framtíðinni, ekki síst vegna aukins ferðamannastraums til landsins. Þá er fyrirsjáanlegt að aukin eftirspurn verði eftir því að reisa vindmyllur í dreifbýli. Þar sem nýting vindorku er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum hérlendis kallar það á þekkingaröflun og þekkingarmiðlun um skipulagslega nálgun og umhverfisáhrif. Er því í tillögunni lagt til að Skipulagsstofnun standi fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga um skipulag vindorkunýtingar, í samstarfi við hlutaðeigandi stofnanir.

Þriðja meginstefna landsskipulagsstefnu fjallar um stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar en hún tekur til hins byggða umhverfis, einkum þéttbýlis, og samspils þess við nærliggjandi vinnusóknar- og þjónustusvæði. Um er að ræða stefnu sem annars vegar fjallar um búsetumynstur í landinu í heild og hins vegar um innri gerð þéttbýlis og gæði hins byggða umhverfis. Yfirmarkmið stefnunnar er að þróun þéttbýlis og fyrirkomulag byggðar stuðli að sjálfbærni með áherslu á gæði í hinu byggða umhverfi og markvissu og samþættu skipulagi byggðar og samgangna. Nánari markmið koma fram undir umfjöllunarefni um heildstætt búsetumynstur og jafnvægi í byggðaþróun, sjálfbæru skipulagi þéttbýlis, gæði hins byggða umhverfis, samkeppnishæfum samfélögum og atvinnulífi, sjálfbærum samgöngum og tryggum fjarskiptum í sátt við umhverfið.

Ljóst er að með því að hlúa að vexti og viðgangi meginkjarna í hverjum landshluta er lagður sterkari grundvöllur fyrir fjölbreyttri þjónustu og atvinnulífi í hverju héraði sem býður upp á þau nútímalífsgæði sem við gerum kröfu um. Meðal þeirra verkefna sem tillagan gerir ráð fyrir er að við skipulagsgerð sveitarfélaga og gerð sóknaráætlana landshluta verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra.

Einnig er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun vinni samræmda greiningu á vinnusóknar- og þjónustusvæðum stærstu þéttbýlisstaða og kortlagningu virkra borgarsvæða í samstarfi við Byggðastofnun, innanríkisráðuneytið, Vegagerðina, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Kem ég þá að síðustu meginstefnunni en það er skipulag á haf- og strandsvæðum. Þetta er nýtt viðfangsefni hér á landi. Skort hefur heildstæða yfirsýn yfir starfsemi á haf- og strandsvæðum við landið og því hefur verið kallað eftir heildstæðu skipulagi fyrir þau. Innleiðing skipulags haf- og strandsvæða hér við land helst í hendur við sams konar þróun í löndunum í kringum okkur, en bæði vestan hafs og austan hafa ríki verið að innleiða slíka skipulagsgerð á síðustu árum til að stuðla að sjálfbærri nýtingu og takast á við hagsmunaárekstra um nýtingu einstakra haf- og strandsvæða. Umfang og fjölbreytni atvinnustarfsemi á haf- og strandsvæðum Íslands hefur aukist á síðustu árum. Fyrir utan hefðbundna starfsemi og nýtingu, eins og fiskveiðar, flutninga, efnistöku, siglingar, frárennsli og sæstrengi, hefur ýmis önnur starfsemi rutt sér til rúms eins og fiskeldi, skelrækt, ferðatengd starfsemi og rannsóknir á orkuvinnslu.

Takmörkuð yfirsýn er yfir starfseminni sem nú fer fram á haf- og strandsvæðum við landið og umfang hennar, en frumgreining á nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum við Ísland var unnin á Skipulagsstofnun árið 2012.

Heildstæð öflun upplýsinga um sjótengda starfsemi og svæði sem hafa verið vernduð eða nýting þeirra á einhvern hátt takmörkuð er ein af undirstöðum skipulagsgerðar á haf- og strandsvæðum og mun styðja við sjálfbæra nýtingu auðlinda þeirra. Þá er nauðsynlegt að farið verði í frekari stefnumörkun um skipulagsmál haf- og strandsvæða þar sem fjallað verði heildstætt um nýtingu og vernd þeirra, svo sem veiðar, sjávareldi, orkuvinnslu, sjóvarnir, efnistöku og vernd viðkvæmra svæða.

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði árið 2014 starfshóp til að vinna að gerð lagafrumvarps um skipulag hafs og stranda en hópnum er ætlað að móta umgjörð um stjórnsýslu skipulags haf- og strandsvæða, helstu stjórntæki við skipulagsgerðina og landfræðilega afmörkun þeirra. Miðað er við að frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða verði lagt fram á haustþingi 2015. Stefna um skipulag haf- og strandsvæða sem nú er sett fram tekur mið af því að lagaumgjörð skipulagsmála á haf- og strandsvæðum er enn í mótun.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni tillögu þessarar til þingsályktunar og legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[17:32]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá þetta mál fram. Eftir þessu hefur verið beðið af ýmsum enda er megintilgangur landsskipulagsstefnu, eins og kemur fram í 10. gr. skipulagslaga, að setja fram samræmda stefnu um landnotkun sem byggist á stefnumörkun ríkisins á ýmsum sviðum. Þannig geta sveitarfélögin haft greiðan aðgang að því hvað stjórnvöld eða ríkið er að hugsa hverju sinni. Þetta er einnig gert til þess líka að samræma það sem sveitarfélögin eru að gera sín á milli en í samskiptum við ríkið. Margt er ágætt og gott hér og nefndin á síðan eftir að fara betur yfir einstaka þætti.

Mig langar að taka dæmi um texta sem mér finnst ágætur, það er á bls. 8, um sjálfbært skipulag þéttbýlis. Þar er verið að fjalla um skipulag byggðar og lagt til að það verði stefna ríkisins að skipulag byggðar skuli stuðla að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. Það er líka fjallað nánar um þetta í greinargerð. Það sem vekur áhuga minn á þessum þætti málsins er að þetta er í mjög góðum takti við það sem gert hefur verið í Reykjavíkurborg, stefnumörkunina sem hefur átt sér stað þar, og þá hugmyndafræði sem býr að baki þeirri vinnu við skipulagsmál sem þar hefur átt sér stað.

Ef við skoðum athugasemdir við frumvarpið kemur fram, varðandi sjálfbært skipulag þéttbýlis, að áhersla er lögð á að blanda atvinnustarfsemi, tengja hana íbúðabyggð, stytta vegalengdir vegna daglegra athafna og lækka þannig kostnað samfélagsins vegna innviða, svo sem gatna og veitukerfa, skapa skilyrði fyrir almenningssamgöngum og öðrum valkostum um ferðamáta. Þetta finnst mér mjög gott og ég er ánægð með þetta og kannski ekki síst vegna þess að þetta er í góðu samræmi við þá stefnumörkun sem hefur átt sér stað hjá borginni og núverandi meiri hluta þar.

Þá langar mig líka að nefna að ég fagna því að hér sé verið að fjalla um — þetta hefur komið fram áður í annarri mynd en það er sama, þetta er að koma hér fram — þann þátt sem snýr að skipulagi á haf- og strandsvæðum. Þetta hefur okkur sárlega vantað, eyríki sem er með jafnstóra efnahagslögsögu og við erum með. Okkur hefur vantað samræmi á milli ákvarðanatöku ólíkra aðila þegar kemur að haf- og strandsvæðum. Þetta er atriði sem skiptir máli og ég veit að nefndin þarf að skoða þetta. Til hefur orðið töluvert mikil sérfræðiþekking á þessu sviði, t.d. í stofnun Háskóla Íslands á Ísafirði. Þar hefur töluvert verið um þetta fjallað. Ég er ánægð með að þetta skuli vera komið hingað inn og að við séum að fara að fjalla um breytingar á því hvernig við nálgumst skipulag á haf- og strandsvæðum.

Þá langar mig að koma að því sem mér þykir ekki síst skipta máli í þessu og það er skipulag miðhálendisins. Í þessari tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu er verið að fjalla um skipulag á miðhálendi Íslands. Í 1. kafla segir að standa verði vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og við uppbyggingu innviða á miðhálendinu verði að taka tillit til þess. Um þetta er fjallað í nokkrum atriðum sem öll eru ágæt. Mig langar að nefna það hér að ég tel engu að síður, og við í Samfylkingunni, að ganga megi lengra í þessu. Við ályktuðum og mikil vinna hefur verið unnin hvað þessi mál varðar í málefnastarfi í Samfylkingunni. Á síðasta landsfundi okkar, sem haldinn var í lok mars á þessu ári, var ályktað sérstaklega og nokkuð ítarlega um þjóðgarða á miðhálendinu, og ég held að við hljótum að stefna að því að hafa þjóðgarða á miðhálendinu. Hér kemur fram að menn hafa viljað draga ákveðna línu utan um miðhálendið og ég tel að við eigum að stíga skrefið alla leið og hreinlega vinna okkur í þá átt að það verði þjóðgarður.

Við lýstum yfir stuðningi við tillögu náttúruverndarsamtaka um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu vegna þess að með þjóðgarði má tryggja varðveislu hinna miklu náttúruverðmæta miðhálendisins og tryggja að merkileg náttúra verði sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir alla. Við viljum að svæði miðhálendisins verði allt ein skipulags- og stjórnunarheild með aðild sveitarfélaga og annarra umhverfisstjórnvalda og fulltrúa félagasamtaka almennings. Þá viljum við einnig að unnin verði verndaráætlun fyrir miðhálendið í heild og hálendið skilgreint eftir flokkun Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, verndarþörf, kostum fyrir útivist og ferðaþjónustu og annarri nýtingu sem samrýmist náttúruvernd og truflar ekki starfsemi þjóðgarðsins. Þá skiptir líka máli að frekari uppbygging virkjana og orkuflutnings, sem ekki fellur að verndarhlutverki þjóðgarðsins, verði útilokuð og að samgöngur á svæðinu miðist fyrst og fremst við verndargildi þjóðgarðsins og þarfir gesta hans. Einnig verði mannvirki vegna ferðaþjónustu, annarrar landnýtingar og rannsóknarstarfs takmörkuð sem unnt er við jaðar þjóðgarðsins eins og menn nálgast málið hér. Mér sýnist, miðað við það sem lagt er til hér, að það gæti verið eðlilegt skref að ganga alla leið í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum segja að þetta er heilmikil stefna og gríðarlega margt gott í henni. Við eigum eftir að fjalla vel um þetta í umhverfis- og samgöngunefnd. Mig langar engu að síður að nefna það að ég hef áhyggjur af því að þegar við hér í þinginu samþykkjum þingsályktunartillögur um atriði sem skipta máli og við teljum að framkvæmdarvaldið taki alvarlega þá verður stundum því miður lítið úr aðgerðum. Við erum dálítið brennd af því að ríkisstjórnin er með í höndunum samþykkt frá Alþingi um rammaáætlun þar sem þingið hefur lagt í það mikla vinnu að fara í gegnum og samþykkja flokkun á ákveðnum kostum í verndar- og nýtingarflokka. Samt er það þannig að nú eru tvö ár liðin frá því að hún var samþykkt og engar hreyfingar eru í þá átt að menn setji fjármuni í að framkvæma verndun og friðlýsa þau svæði sem eru í verndarflokknum. Það gengur ekki.

Það þýðir ekki bara að horfa á nýtingarflokkinn af því að menn eru áhugasamir um hann og leggja allt kapp á að koma honum í ferli. Menn þurfa að horfa með sama hætti á verndarflokkinn. Það þýðir ekki að við hér í þinginu samþykkjum fína stefnu og þingsályktunartillögu sem kveður á um mikilvæga hluti og síðan fari það eftir áhugasviði ríkisstjórnar hverju sinni eða ráðherra hvað er framkvæmt. Það þarf að vera jafnvægi í hlutunum. Takist okkur að samþykkja tillögu um landsskipulagsstefnu vona ég að hún verði til þess að styðja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í því að hefjast handa við að friðlýsa þau svæði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar; það verður líka að gerast eigi eitthvert traust að vera til rammaáætlunarferlisins. Ég ætla ekki að fara í umræður um það hvað mér finnst um breytingartillögurnar við rammaáætlun, sem liggja fyrir þinginu, heldur ætla ég eingöngu að beina sjónum að því sem hér er rætt um og þá verndarflokkinn. Við erum orðin svolítið brennd af þessu og ég vona svo sannarlega að með þessu fái hæstv. ráðherra vind með sér til að hefjast handa við að vinna með verndarflokkinn eins og þingið ákvað á sínum tíma.



[17:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta þingmál er komið fram. Ég hef nú lýst eftir því nokkrum sinnum hér á þingi í vetur í samhengi við önnur mál sem uppi eru — ég kem kannski að því betur á eftir. Hér er mikil vinna og metnaðarfull, held ég að megi segja, og ánægjulegt að forveri hæstv. núverandi umhverfisráðherra ákvað strax haustið 2013 að fylgja eftir því starfi sem hófst á síðasta kjörtímabili með setningu laganna og 10. gr. um að landsskipulagsstefna skuli unnin og þá með þeirri tillögu sem þáverandi umhverfisráðherra lagði fram á þingi en náði ekki afgreiðslu rétt fyrir kosningar 2013.

Að uppistöðu til er ég mjög sáttur við framsetninguna á þessu máli. Hér er fjallað á ákaflega fallegan hátt um málið, þetta er fallega orðað allt og vel meint og enginn efast um það. Spurningin er kannski meira sú hvaða bit sé í þessu, hvaða raunveruleg áhrif þetta hafi þegar til stykkisins kemur varðandi framkvæmdaáform versus verndun og friðun og þá sérstaklega miðhálendisins án þess að ég geri lítið úr þeim þáttum öðrum sem tillagan tekur til.

Hér er að sjálfsögðu lagt upp með það, í 1. tölulið í 1. kafla, að allt skipulag og landnotkun skuli stuðla að sjálfbærri þróun og einnig að þetta sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum. — Ég strögglaði aðeins við þetta orð seigla en ég þykist vita að það sé þýðing á enska orðinu „resilience“. Kannski er það viðurkennd þýðing en eitthvað stóð það samt í mér að nota þetta orð um þetta fyrirbæri, en ég held að ég skilji hvað verið er að fara.

Um skipulag á miðhálendi Íslands, svo að ég staldri nú aðallega við það, segir, með leyfi forseta:

„Staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess.“

Þetta er allt gott og gilt. Og fyrsti liður, um víðerni og náttúrugæði, hljóðar svo:

„Viðhaldið verði sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna hálendisins, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.“

Svo er þessu fylgt frekar eftir og eins og plaggið eðlilega ber með sér, sem stefnumótun af hálfu ríkisins, þá færist það í hendur sveitarfélaga, sem eiga land inn á miðhálendið eða fara með skipulagsvaldið með þeim takmörkunum sem lög og þá þessi stefna setja, að útfæra það og taka mið af þessu í áætlunum sínum, enda séu þau þá í stöðu til þess. Það vekur þá strax spurningar, til dæmis um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaganna og gagnvart þessu plaggi. Hver er staðan?

Ef forsvarsmenn sveitarfélags með land inn á miðhálendið segja: Við teljum okkur bundna af því, samkvæmt samþykktri landsskipulagsstefnu, að heimila ekki svona mannvirkjagerð á því svæði sem fellur undir miðhálendið eða víðernið, þá kemur bara einhver kerfisáætlun og segir: Heyrðu, jú, víst samt, af því að það er hún sem ræður en ekki ákvörðunarvald sveitarfélagsins. Meðal annars af þeim ástæðum hafði ég lýst eftir því hvort þessi tillaga væri ekki að koma og ég tel eðlilega röð á hlutunum að hún sé afgreidd fyrst og að Alþingi fari vel ofan í saumana á þeim viðmiðum sem hér eru sett, þeirri stefnu sem hér er fest, því að hún á að vera útgangspunktur allra annarra aðila eins og ég vil nálgast þetta. Og ég tel að það sé líka andi laganna. Fyrst er hún mótuð og síðan taka sveitarfélögin mið af henni og síðan, þá eftir atvikum, er kerfisáætlun unnin með hliðsjón af henni líka. Hér segir áfram:

„Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði víðerni og önnur sérkenni og náttúrugæði hálendisins sem minnst.“

Þarna stoppaði ég nú. Mér finnst eitthvað vanta upp á að þetta sé nógu metnaðarfullt. Ég spyr: Hefði ekki frekar mátt nota orðalagið „nema brýna nauðsyn beri til“ — og þá sé þeirri skerðingu alltaf haldið í lágmarki þannig að menn þurfi virkilega að rökstyðja hvers vegna framkvæmdir eru nauðsynlegar þó að þær hafi í för með sér skerðingu á ósnortnum svæðum og víðernum? Ég held að það eigi að glíma aðeins við sterkara orðalag þarna og snúa sönnunarbyrðinni dálítið við meira en þarna er gert, finnst mér. Þetta er bara eins og það sé einhver kvarði — „sem minnst“ er það 20%, 30% eða hvað, nálgast þetta bara einhvern út frá því, útgangspunkturinn er að þetta á ekki að skerða. Við viljum verja þetta og vernda eins og hægt er. Ef upp koma aðstæður þar sem mjög brýnir almannahagsmunir kalla á að eftir sem áður séu mannvirki leyfð eða framkvæmdir þurfi að rökstyðja það mjög vel og menn þurfi að hafa fyrir því að sýna fram á að í þá framkvæmd sé ráðist á þann veg að röskunin sé eins lítil og hún getur mögulega orðið.

Eins er þetta með það sem kemur í framhaldinu í tölulið 1.1 sem er lykilatriði þessa máls að mínu mati:

„Á svæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni miðhálendisins.“

Þessu er ég hjartanlega sammála. Þetta er í sjálfu sér mjög í anda meginnálgunarinnar í svæðisskipulagi miðhálendisins sem notast hefur verið við fram að þessu. Betur er komið inn á þetta í kafla 1.2.1, til dæmis í sambandi við ferðaþjónustuna þar sem segir:

„Uppbygging ferðamannaaðstöðu verði takmörkuð á miðhálendinu og megináhersla lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi hálendisins.“

Jaðarmiðstöðvar úti í hálendisbrúninni utan sjálfs meginhálendisins — þannig, svo að dæmi sé tekið, nálguðust menn hlutina þegar stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var undirbúin og miðstöðvunum í þeim þjóðgarði var valinn staður, að þær skyldu vera í hálendisbrúninni eða utan sjálfs miðhálendisins af því að menn vilja ekki meiri háttar mannvirkjagerð uppi á sjálfu hálendinu, hótel eða annað því um líkt. Jú, hálendismiðstöðvar eru nokkrar til staðar, skálasvæði og fjallasel og afmarkaðri þættir. Þetta tel ég vera alveg rétta nálgun, það vantar ekkert upp á það.

En mér sýnist líka, ef við ætlum að lifa upp til þessa orðalags, að við hljótum að spyrja okkur: Þarf þá að ræða frekar um háspennulínur og uppbyggðan veg yfir Sprengisand? Það er ekki takmörkuð mannvirkjagerð, það er sko langt frá því. 240 kílóvatta risavaxin háspennumöstur, eru það ekki. Ég neyðist bara til að vera praktískur og spyrja: Hvað þýða þessi orð? Ávísun á hvað eru þau í ákvarðanatöku, eftir atvikum átökum um þessa hluti inn í framtíðina? Gildir þetta orðalag að við ætlum ekki að leyfa annað en takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða — vegslóði er ekki uppbyggður vegur í staðli, það er alveg á hreinu, samkvæmt þeirri íslensku sem ég kann — og umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni hálendisins og það mundu uppbyggðar hraðbrautir og risavaxnar háspennulínur gera. Þarf frekari vitna við? Eigum við þá ekki, góðir félagar, að samþykkja þessa tillögu fyrst, bíða með hitt, hóa í Landsnet og biðja þá að fara að góðu fordæmi Vegagerðarinnar, sem er hætt frekari vinnu að umhverfismati á vegi yfir Sprengisand? Það er búið að leggja það til hliðar enda voru aldrei sterk rök fyrir því hjá síblankri Vegagerðinni að fara að eyða peningum í það sem er ekki einu sinni á áætlun hjá henni næstu 15–20 árin.

Tíminn leyfir því miður ekki að ég fari yfir fleiri hluti eins og ég hefði gjarnan viljað. Skipulag í dreifbýli — þar eru margir mjög góðir hlutir varðandi nýtingu landbúnaðarlands, ferðaþjónustuna og sátt við umhverfið. Svipað má segja um aðra þætti eins og búsetumynstur og skipulag hafs og stranda. Ég tel að það sé mjög góður grunnur í þessari tillögu til að vinna þetta til enda en auðvitað ýmsir hlutir sem ástæða er til að fara betur ofan í.



[17:52]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð að það beri að fagna því að búið sé að leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á árinu 2015 til ársins 2026. Með henni gefst okkur tækifæri til að móta heildarsýn í skipulagsmálum og síðast en ekki síst að samræma, þegar hin svokallaða skipulagsskylda kemur til framkvæmda, það þannig að sveitarfélögum er skylt að líta til þessarar landsskipulagsstefnu. Þess vegna langar mig sérstaklega að vekja athygli á því sem stendur í greinargerð með þingsályktunartillögunni um áhrif landsskipulagsstefnu á skipulagsgerð sveitarfélaga. Þar segir:

„Landsskipulagsstefna er stefnuskjal sem er gert ráð fyrir að sé fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags og taka mið af henni við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á þeim.“

Einnig segir hér um hlutverk landsskipulagsstefnu:

„Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum, nr. 123/2010, segir að um leið og lögð sé áhersla á forræði sveitarfélaga á skipulagsmálum sé með ákvæðum um landsskipulagsstefnu jafnframt viðurkennd þörf á að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Gerð landsskipulagsstefnu sé innleidd til að skapa vettvang fyrir ríkisvaldið til að setja fram skipulagsstefnu og leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.“

Nú er augljóst að með þessu er farið inn á það vald sem sveitarfélögum er skapað varðandi skipulag. Nú hafa þau orð verið sögð úr þessum ræðustól að skipulagsvaldið sé heilagt. Ég held að flestir séu sammála um að svo er alls ekki og við getum séð þess stað í þessu frumvarpi að að sjálfsögðu er það ríkið sem leggur línurnar þó að taka verði tillit til skipulagsskyldunnar sem sveitarfélögin hafa. Menn hafa nefnilega misskilið 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er fjallað um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og hann viðurkenndur nema annað sé ákveðið með lögum. Þetta stjórnarskrárákvæði segir okkur einfaldlega að það er löggjafinn sem ákveður hvað er á forræði sveitarfélaga og hvað er á forræði ríkisins. Áðan voru þeir nefndir þessir sérstöku þjóðgarðar sem við höfum en þar með er ríkið á vissan hátt að takmarka skipulagsvaldið á þessum svæðum hjá sveitarfélögum.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að Reykjavíkurflugvöllur hefur verið mikið í umræðunni. Mönnum finnst hart að skipulagsvaldið yrði fært undir Alþingi. Ég hef bent á að öllum finnist eðlilegt að Keflavíkurflugvöllur sé skipulagður af hálfu ríkisins og hef ekki heyrt nokkurn mann mæla með því að það vald verði fært undir sveitarfélögin á Reykjanesi. Ég hef líka bent á að Svíar fóru þá leið, varðandi þjóðhagslega mikilvæg samgöngumannvirki, að tiltekin skilgreind mikilvæg svæði voru einfaldlega tekin frá sveitarfélögunum og færð undir skipulagsvald ríkisins.

Það er gríðarlega mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig 78. gr. stjórnarskrárinnar virkar í raun og veru. Ég vona að ekki verði ágreiningur um það, þegar við samþykkjum þessa landsskipulagsstefnu, að hún komi á einhvern hátt til með að takmarka skipulagsskyldu sveitarfélaga. Ég held að allir séu sammála um þá þörf sem er til staðar, þ.e. að ríkið komi með öfluga landsskipulagsstefnu, sem er svo sannarlega hér á ferðinni, en við stöndum ekki frammi fyrir því að sveitarfélögin, sérstaklega þau sem eiga land uppi á miðhálendi, geti farið út og suður með sitt skipulag, það sé ekkert samræmi og að við getum ekki fylgt því sem stjórnvöld á hverjum tíma vilja stefna að sérstaklega varðandi náttúruvernd. Núverandi ríkisstjórn og núverandi umhverfisráðherra hafa staðið sig mjög vel í þá veruna. Að sjálfsögðu er hægt að gera betur og þessi þingsályktunartillaga er mjög vel til þess fallin.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna því að málið er komið til fyrri umr. Við munum fá það til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og vonumst til þess að hægt verði að afgreiða það fljótt og örugglega og greiða atkvæði um það síðar á þessu vorþingi.



[17:59]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir og tek heils hugar undir þau lokaorð hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hér áðan að málið komist fljótt til nefndar, verði þar í góðum höndum nefndarmanna og að vel verði unnið að því. Ég hef trú á að svo verði. Ég þakka þingmönnum fyrir undirtektirnar en þetta er í fyrsta skipti sem hér á Alþingi er mælt fyrir landslagsskipulagsstefnu. Það er rétt, sem líka hefur komið fram, að slík stefna hefur áður verið samin þó að þessi sé með svolítið breyttu sniði, en þetta er í fyrsta skipti sem við mælum fyrir svona merkilegu plaggi sem er með heildarsýn yfir landið og setur sér áðurnefnd fjögur meginmarkmið og hvernig eigi að vinna úr því.

En auðvitað er, eins og fram kom í máli manna, eitt og annað sem menn bæði fagna en vilja kannski einnig fá nánari skilgreiningu á. Þetta er það víðfeðmt að mér datt ekki annað í hug en svo væri. Sérstaka ánægju hafði ég samt af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um orðið seiglu, því að þetta stóð líka í þeirri sem hér stendur. Þetta gamla orð, seigla, er fallegt íslenskt orð og stendur fyrir ákveðið viðnám; einhver er seigur og seiglast áfram, gefur ekki eftir. En þetta getur líka haft víðtækari mynd. Það er gaman ef gömul orð geta öðlast nýja vídd og merkingu í íslenskri tungu. Það auðgar íslenskt mál og ekki veitir af um þessar mundir. Ég hafði sérstaklega gaman af því að þingmaðurinn skyldi geta um þetta.

Það var sannarlega líka rétt hjá þeim þingmanni að mikil vinna hefur verið lögð í þessa þingsályktunartillögu, gríðarleg vinna. Það er búið að halda ótal fundi og ekki bara á einum stað heldur hefur verið farið um allt land. Menn voru jafnvel beðnir um að rissa upp hvernig þeir sæju fyrir sér landið líta út skipulega séð og flokka það niður. Þær myndir eru til í bæklingi sem hægt er að fá. Þetta er því virkilega ánægjuleg og skemmtileg vinna og gríðarlega mikil, svo að því sé til skila haldið.

Mig langar til að fletta upp á bls. 25 og áfram á bls. 27. Þar er til dæmis fjallað um ferðaþjónustu í sátt við náttúru og umhverfi og jaðarmiðstöðvar. Þær eru núna fjórar og talað er um að sá fjöldi verði áfram. Þá er skilgreint hvernig þessar fjórar jaðarmiðstöðvar geti byggst upp og hvaða þjónustu geti boðið. Við getum ekkert horft fram hjá því að með auknum ferðamannastraumi verður að vera hægt að bjóða upp á ýmsa möguleika og þjónustu en þessar jaðarmiðstöðvar mega bjóða upp á gistingu á hótelum, gistiheimilum eða í gistiskálum.

Síðan koma hálendismiðstöðvar, þær eru taldar upp níu og tíundað hvar þær eru. Þá komum við að skálasvæðum, þau eru ein 33 sem þarna eru tilnefnd og síðan er fjallað um fjallasel. Hér segir, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun um staðsetningu nýrra fjallaselja skal tekið mið af því að fjarlægð milli jaðar- og hálendismiðstöðva, skálasvæða og fjallaselja sé jafnan hæfileg dagleið fyrir göngufólk.“

Þannig er komið inn á göngugarpana sem aðeins hefur verið minnst á hér. Ég var farin að sjá þetta þannig fyrir mér í gær þegar ég var að velta ferðum göngufólks fyrir mér þar sem ekki eru skálasvæði, hvaða þjónustu menn geta haft þar sem ekki eru skálar eða sel, hvort þurrsalerni væru lausn á afskekktum stöðum.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég vonast til að vinnan í nefndinni verði árangursrík og að menn samþykki þetta án mikilla breytinga. Það er von mín því að yfir þessu hefur verið legið þannig að ég vonast til að þingmenn þurfi ekki miklu að breyta.

Ég þakka enn og aftur fyrir góðar undirtektir og vonast eftir góðri samvinnu um landsskipulagsstefnuna.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.