144. löggjafarþing — 97. fundur
 28. apríl 2015.
húsnæðissamvinnufélög, 1. umræða.
stjfrv., 697. mál (réttarstaða búseturéttarhafa og rekstur húsnæðissamvinnufélaga). — Þskj. 1171.

[17:59]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Í september 2013, eins og hefur svo sem komið fram hér fyrr í dag, skipaði ég verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Verkefnisstjórnin skilaði tillögum sínum með skýrslu í maí 2014, en á meðal þess sem verkefnisstjórnin lagði til var að löggjöf um húsnæðissamvinnufélög yrði endurskoðuð með það að leiðarljósi að starfsemi þeirra yrði efld svo slík félög styddu enn betur við nýtt framtíðarskipulag húsnæðismála. Nú mæli ég því fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við fulltrúa húsnæðissamvinnufélaganna Búseta, Búseta á Norðurlandi og Búmanna.

Meginmarkmið frumvarps þessa er að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi í samræmi við það markmið að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform þannig að einstaklingar geti í auknum mæli valið á milli eignar-, leigu- og búsetuíbúða. Frumvarpið hefur að auki nokkur viðbótarmarkmið, svo sem að auka vernd búseturéttarhafa, skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Því er líka ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga á Íslandi á sama tíma og leitast er við að auka svigrúm fyrir fjölbreytileika þeirra með því að fela þeim sjálfum ákvörðunarvald um ýmis atriði sem kunna að hafa áhrif á rekstur þeirra í samþykktum þeirra í stað þess að fjalla um þau með nákvæmum hætti í lögum. Í því felst einnig áhersla á eitt megineinkenni húsnæðissamvinnufélaga, en slík félög byggjast á þátttöku félagsmanna sinna og því er mikilvægt að þeir geti komið, og komi, að ákvörðunum sem hafa áhrif á hag félaganna til lengri og skemmri tíma.

Í þessu sambandi tel ég einkum mikilvægt að tryggja að réttarstaða búseturéttarhafa sé skýr, bæði við inngöngu í húsnæðissamvinnufélög og ekki síst við sölu búseturéttar. Í síðarnefnda tilvikinu er oftar en ekki um að ræða umtalsverða fjármuni fyrir venjulega fjölskyldu hér á landi sem jafnvel telur ævisparnaðinn. Tel ég mikilvægt að tryggja að sá lagarammi sem gildir um húsnæðissamvinnufélög stuðli að því að rekstur slíkra félaga sé sjálfbær sem því miður hefur ekki alltaf verið raunin hér á landi. Er sú fyrirætlan ekki síst ætluð til hagsbóta fyrir félagsmennina sjálfa.

Frumvarpinu er þannig ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi. Það eru lagðar til margvíslegar breytingar á gildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög sem er ætlað að stuðla að öruggari og sjálfbærari rekstri félaganna, en líka að húsnæðissamvinnufélög hafi svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði og hafi þannig möguleika á að haga reglum félagsins og rekstrarlíkani með þeim hætti sem félagsmenn telja hæfa félaginu. Er með frumvarpinu leitast til að skilgreina þau atriði sem húsnæðissamvinnufélög skuli útfæra nánar í samþykktum sínum með þeim hætti sem félagsmenn kjósa og telja hag félagsins best borgið til lengri eða skemmri tíma án þess að þau atriði séu fastákveðin í lögum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég undirstrika sérstaklega hér.

Frumvarpið gefur þannig svigrúm til að félagsmenn ákvarði sjálfir hvernig búseturéttargjald og búsetugjald sé ákveðið sem og framlög í aðra sjóði félaganna, svo sem viðhaldssjóð og hússjóði búsetufélaganna. Er því gert ráð fyrir, sem ég tel eitt af þýðingarmestu atriðum þessa frumvarps, að félagsmenn geti ákveðið hvort til dæmis búsetugjaldið skuli miðast við heildarkostnað félagsins af rekstri þess eða einstökum búsetuíbúðum. Gera gildandi lög eingöngu ráð fyrir síðarnefnda kostinum. Engu að síður er talið nauðsynlegt að lögfest verði tiltekin atriði sem stuðlað geti að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga ásamt því að veita rekstri þeirra aðhald. Meðal þess er lagt til að óheimilt verði að greiða fé úr húsnæðissamvinnufélögunum sem arð eða ígildi arðs og óheimilt er að kveða á um kaupskyldu félagsins á búseturétti. Reynslan hefur sýnt okkur að kaupskyldan hefur reynst félögunum of þungur baggi fyrir reksturinn og að betra væri að hafa það valkvætt fyrir félögin að leggja slíka skyldu á rekstur þeirra. Það kann að vera góður kostur í fyrstu sem síðar breytist í tálmynd sem getur reynst dýru verði keypt. Áhersla er þó lögð á að eldri samningar sem gerðir voru í tíð eldri laga eða hafa að geyma slík ákvæði halda gildi sínu eftir sem áður.

Þá er í fyrsta skipti kveðið á um reglulegar úttektir á fjárhag félaganna, skuldbindingum þeirra og starfsemi til að auðvelda félagsmönnum og stjórnum félaganna að fá yfirsýn yfir stöðu félaganna, þar á meðal framtíðarskuldbindingar þeirra.

Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði nánar á um skipun og hlutverk stjórna húsnæðissamvinnufélaga, en mikilvægt er að þeir sem taka að sér stjórnarsetu í slíkum félögum og félagsmenn átti sig á hlutverki stjórna húsnæðissamvinnufélaga. Það er líka lagt til að sett verði nánari ákvæði um framkvæmdastjóra húsnæðissamvinnufélaga til að skýra nánar skilin á milli ábyrgðar stjórnar annars vegar og framkvæmdastjóra hins vegar. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt þegar við höfum það í huga að stærstu húsnæðissamvinnufélögin eru ekki bara með hundruð milljóna undir, ekki milljarða, heldur tugi milljarða í verðmætum sem viðkomandi stjórnir og framkvæmdastjórar fara með. Ég tel því afar mikilvægt að félagsmenn húsnæðissamvinnufélaga séu líka vel upplýstir um eðli búseturéttar og þá fjárhagslegu áhættu sem kann að felast í þátttöku í slíkum félögum, einkum fyrir búseturéttarhafa enda þótt félagsmenn beri ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.

Því er í frumvarpinu lagt til að efni samþykkta húsnæðissamvinnufélaga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra skuli kynntar félagsmönnum við gerð búsetusamninga ásamt réttindum búseturéttarhafa og skyldum og ekki síst eðli búseturéttargjaldsins sem kemur til greiðslu við kaup búseturéttar. Er þar meðal annars vísað til þess að verðmæti búseturéttar er háð aðstæðum hverju sinni og er því ljóst að verðmæti búseturéttar getur bæði hækkað og lækkað frá því að búseturéttargjaldið er reitt af hendi við gerð búsetusamnings og þar til búseturéttarhafi óskar á síðari stigum eftir að selja búseturétt sinn.

Mikilvægt er að búseturéttarhafi geri sér grein fyrir eðli búseturéttar að þessu leyti, en einnig að þeir geri sér grein fyrir að búseturéttargjaldið er ekki sérstaklega sérgreint í vörslu húsnæðissamvinnufélagsins eða tryggt að öðru leyti komi til gjaldþrots þess. Í ljósi þessa sem og að búseturéttarhafi nýtur ekki sérstakra trygginga fyrir búseturétti sínum og þeim fjárhagslegu verðmætum sem honum tengjast tel ég einnig mikilvægt og eðlilegt að fjárhæð búseturéttargjaldsins verði sett ákveðin takmörk í lögum. Með frumvarpi þessu er því lagt til að á sama tíma og gert er ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélögin ákveði sjálf í samþykktum sínum hvernig búseturéttargjaldið sé ákveðið verði kveðið á um að það geti að hámarki numið þeirri fjárhæð sem jafngildir þriðjungi af markaðsvirði viðkomandi búsetuíbúðar við kaup búseturéttar.

Með frumvarpinu er einnig leitast við að skýra réttarstöðu félagsmanna húsnæðissamvinnufélaga sem og félaganna sjálfra, svo sem við inngöngu félagsmanna í félagið, hjónaskilnaði og andlát félagsmanna, þar á meðal búseturéttarhafa, ábyrgðarskiptingu á viðhaldi fasteigna sem og réttarstöðu aðila við lok búsetusamnings.

Mig langar að nefna sérstaklega að lagt er til að búseturéttur erfist samkvæmt almennum reglum erfðalaga við andlát búseturéttarhafa, enda verður að gera ráð fyrir að verulegir fjármunir hafi verið lagðir fram við kaup á búseturétti ef litið er almennt til fjárhagslegra aðstæðna launafólks hér á landi. Í búseturétti felast því fjárhagsleg verðmæti sem almennt eru ekki talin svo persónuleg í eðli sínu að komi í veg fyrir að þau erfist milli manna. Lagt er til að erfingja sé heimilt að nýta sér búseturéttinn nema stjórn húsnæðissamvinnufélags færi fram gildar ástæður er mæli gegn því, en félaginu er heimilt að endurskoða — þetta er mjög mikilvægt — fjárhæð búsetugjaldsins sem kann að vera mikilvægt fyrir framtíðarrekstur þess. Nýti erfingi sér ekki búseturéttinn skal hann hins vegar selja hann samkvæmt þeim reglum sem gilda um sölu búseturéttar samkvæmt lögunum og samþykktum félagsins.

Virðulegi forseti. Í ákvæðum gildandi laga um húsnæðissamvinnufélög sem fjalla um lok búsetusamnings og þar með búseturéttar er gert ráð fyrir að búseturéttarhafi segi samningi upp með sex mánaða uppsagnarfresti. Gert er ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélag taki sjálfkrafa yfir búseturéttinn eftir að uppsagnarfrestur er liðinn ásamt þeim réttindum og skyldum sem honum fylgja og búseturéttarhafa beri að afhenda íbúðina óháð því hvort tekist hafi að selja búseturéttinn. Félaginu er þá heimilt að leigja út umrædda búsetuíbúð og getur félagið haft leigutekjur af íbúðinni, en sérstaklega er tekið fram í 2. mgr. 25. gr. laganna að fyrri íbúi skuli hafa forleigurétt óski hann þess. Virðist sem réttarstaða búseturéttarhafa sé nokkuð óljós í slíkum tilvikum og þá sérstaklega að því er varðar endurgreiðslu á andvirði búseturéttar. Það þykir einnig bagalegt í ljósi þess að gera verður ráð fyrir að þeir fjármunir sem viðkomandi lagði fram er hann keypti búseturéttinn, og mátti vænta þess að fá til baka að hluta eða að öllu leyti við sölu búseturéttarins, geti verið umtalsverðir. Þessu tel ég mikilvægt að breyta svo tryggja megi betur réttarstöðu búseturéttarhafa við þær aðstæður þegar búseturétturinn selst ekki frá því sem gildir samkvæmt 25. gr. gildandi laga. Því er lagt til að búseturéttarhafi haldi þeim rétti sem hann hefur greitt fyrir og haldi þannig áfram að njóta hans, hvort sem hann kýs að búa áfram í búsetuíbúðinni eða framleigja íbúðina þangað til búseturétturinn selst, enda sé íbúðin áfram í sölumeðferð hjá félaginu. Framleiga er þá alltaf háð samþykki húsnæðissamvinnufélagsins þar sem markmiðið er ávallt að nýta búsetuíbúð sem slíka en ekki sem leiguíbúð. Jafnframt verður ekki betur séð en að hagsmunir húsnæðissamvinnufélagsins séu tryggðir þar sem gert er ráð fyrir að viðkomandi búseturéttarhafi haldi áfram að sinna skyldum sínum gagnvart félaginu á þeim tíma er búseturéttur hans er í sölumeðferð, bæði er varðar greiðslu gjalda til félagsins og viðhalds á búsetuíbúðinni.

Þetta frumvarp hefur því að geyma mikilvægar breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög þar sem er leitast við að stuðla að sjálfbærum og öruggum rekstri húsnæðissamvinnufélaga, auk þess sem leitast er við að skýra betur og tryggja réttarstöðu félagsmanna og þá ekki síst búseturéttarhafanna. Ég tel nauðsynlegt að gera þessar breytingar á lögunum þannig að búseturéttarformið verði fest enn betur í sessi hér á landi en verið hefur hingað til. Það er skýrt í huga mínum að hér eigi fólk að geta valið um þrenns konar búsetuform, þ.e. eignar-, leigu- og búsetuíbúðir. Þetta er þá mikilvægur hlekkur til að slíkt val geti orðið fólki raunverulegt.

Það er eitt í viðbót sem ég vildi nefna því að það hefur aðeins verið umræða sem snýr að breytingunni á kaupskyldunni. Það er jafnframt ákvæði í frumvarpinu sem segir að þó að kaupskylda sé ekki til staðar getur stjórn, ef rekstur félagsins er með þeim hætti, tekið ákvörðun um að kaupa búseturéttinn af búseturéttarhafanum. Það verður að sjálfsögðu að byggjast á því að félagið hafi efni á því að kaupa búseturéttinn þannig að þar undir séu þá hagsmunir félagsins í heild sinni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.



[18:12]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ræðuna. Þetta er allumfangsmikið frumvarp og miklar breytingar sem verið er að gera á lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Þarna er verið að rýmka heimildir til sjálfsákvörðunar félaganna til þess að gefa meiri sveigjanleika þannig að félögin fái sjálf að ákveða rekstrarmódel, en jafnframt er dregið úr hlutverki ráðuneytisins varðandi samþykktir félaganna. Þær verða nú ekki staðfestar af ráðuneytinu heldur eingöngu hjá ríkisskattstjóra. Það kann að vera ágætisfyrirkomulag.

Ég velti fyrir mér í ljósi þess að nokkur húsnæðissamvinnufélög, ekki öll, hafa farið illa og standa höllum fæti: Hver verður í því hlutverki að hafa eftirlit með þessum félögum? Það eru auðvitað stjórnir í félögunum, stjórnin ber ábyrgð og svo er það félagsmanna að spyrja stjórnina ef eitthvað fer úrskeiðis. Hver er eiginlegur eftirlitsaðili á vegum opinberra aðila með þessum félögum? Verið er að draga úr hlutverki ráðuneytisins og ekki er frumvarp í þinginu núna um sérstaka húsnæðisstofnun sem sem gæti þá verið til þess fallin að fara með húsnæðisstefnu stjórnvalda og húsnæðismál. Ég held ég láti þetta duga í bili. Hvernig verður eftirliti hins opinbera háttað með þessum félögum?



[18:14]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eitt lykilhugtakið í samvinnuhugsjóninni er sjálfsábyrgð. Það er talað um samfélagslega ábyrgð, en það er líka talað um sjálfsábyrgð. Hver félagsmaður í samvinnufélagi þarf að gera sér grein fyrir því að þátttaka hans og virkni skiptir lykilmáli í því að það gangi vel hjá félaginu. Þannig er þetta ólíkt því sem er með hefðbundið leigufélag eða leigusamband, því að hér eru það félagsmennirnir sjálfir sem taka ákvörðunina og kjósa sér stjórn félagsins. Þó að velferðarráðuneytið hafi haft það hlutverk, samkvæmt núgildandi lögum, að staðfesta samþykktirnar hefur ráðuneytið ekki haft eftirlit með starfsemi þessara félaga. Það var niðurstaða okkar að líkt og með önnur rekstrarform sé það þannig að til þess að geta skráð félag sem húsnæðissamvinnufélag þarf að leggja fram samþykktir og þá er það fyrirtækjaskrá sem hefur það hlutverk að fara yfir það hvort samþykktirnar séu í samræmi við þau lög sem gilda um viðkomandi rekstrarform.

Niðurstaða okkar var sú að með því að koma með þá þætti sem snúa að úttektinni, og líka þessar auknu kröfur um skyldu félagsins til að upplýsa félagsmenn þegar þeir undirrita samning um búseturéttinn, ættu félagsmenn að gera sér betur grein fyrir því að ákvarðanir þeirra varða ekki bara félagið, þetta varðar þeirra eigin íbúð, þetta varðar raunar hvernig staðan verður og ábyrgðin er þá þeirra.



[18:16]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er satt, þetta eru auðvitað samvinnufélög með sjálfsábyrgð. Það er alveg rétt að í frumvarpinu er kveðið á um þessa úttekt á að minnsta kosti þriggja ára fresti umfram ársreikninga þar sem félagsmenn geta fylgst með þróun mála og upplýsingaskyldu við kaup á búseturétti eða inngöngu í félagið. Það er líka þannig að hægt er að skrá börn í félagið og greiða félagsgjald þó að þau megi ekki kaupa búseturétt fyrr en við 18 ára aldur. Það er kannski fjöldi fólks sem er með rétt í félaginu án þess að eiga búseturétt.

Þeir sem eiga búseturétt eru með mikla fjárhagslega hagsmuni þarna. Það má spyrja sig í ljósi sögunnar hvort ekki sé ástæða til að skapa meira traust á þessu kerfi sem við viljum að verði almennara hér á landi, að fólk geti treyst því. Fólk er misvel til þess fallið að fylgjast með fjárhag félaga. Þú ert í félaginu af því þú vilt tryggja þér þak yfir höfuðið, en þú ert kannski ekki sérstaklega vel til þess fallinn að fylgjast með fjárhag félagsins eða koma auga á ef eitthvað er að fara úrskeiðis í rekstrinum. Ég endurtek að ég tel að ástæða kunni að vera til að vera með virkara opinbert eftirlit og þá líka skýrari upplýsingar um hvernig úttektinni skuli komið til skila, að það séu einhverjir opinberir aðilar sem fái hana og hvernig hún skuli kynnt félagsmönnum.



[18:19]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé bara eitt af því sem nefndin verður að skoða í meðferð málsins, þær ábendingar sem hv. þingmaður kemur hér með. Ég legg áherslu á að þetta er mjög viðamikið frumvarp. Það er verið að gera stórar efnislegar breytingar á lögunum. Við þekkjum það alveg í ljósi sögunnar að breytingar sem maður kannski taldi að væru ekki svo stórar, þegar verið var að afgreiða þær, reyndust hafa gífurleg áhrif. Hér eru, eins og ég talaði um, tugir milljarða sem geta verið undir í einu félagi og þess vegna er þarna viðleitni til að gera auknar kröfur til stjórnar, auknar kröfur til framkvæmdastjóra, auknar kröfur til félagsmannanna sjálfra, að átta sig á því hvað þau eru að gera þarna. Að sama skapi verður ábyrgð einstaklingsins aldrei meiri en búseturétturinn sjálfur eða gjaldið sem greitt er fyrir búseturéttinn. Þar með er það líka takmarkað gagnvart öðrum skuldbindingum félagsins. En þetta er eitthvað sem ég veit að nefndin mun fara vel yfir.



[18:20]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð á þessu mikla frumvarpi. Mig langar að spyrja ráðherra nokkurra spurninga um atriði sem ég sé ekki stað í frumvarpinu. Mig langar að spyrja hvort ráðherrann hafi leitt hugann að því hvort setja þyrfti eitthvað inn í frumvarpið sem stuðlaði að lækkun byggingarkostnaðar og/eða til að auðvelda hagkvæma fjármögnun leigu- og búseturéttar fyrir ungt fólk og meðaltekjuhópa, sem kýs að vera hreyfanlegt á þessum húsnæðismarkaði. Þetta er fyrsta spurningin.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka hvort hann telji að það þurfi að skoða það, og koma því inn í þetta frumvarp, að herða á skyldum og ábyrgð sveitarfélaga varðandi skipulagslega umgjörð leigu- og búsetumarkaðar sem ákveðið er að eigi að vera til framtíðar.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti hugsað sér að þær breytingar verði gerðar að einstaklingar geti stofnað húsnæðissamvinnufélög um byggingu og rekstur leiguíbúða og þeir megi vera færri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og þá í meira eða minna samstarfi við ríki, sveitarfélög og/eða aðra velvildaraðila.

Þetta eru kannski þættir sem ekki er tekið á í frumvarpinu, en mig langar að spyrja ráðherrann hvort þetta hafi verið rætt og hvort ráðherrann hafi íhugað að taka slíkt inn.



[18:22]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir spurningarnar. Ég held að það sé eitt af því sem nefndin þarf að fara vel yfir en við erum að leggja hér til ákveðið svigrúm sem snýr að fjármögnun félaganna. Það má lesa í gegnum löggjöfina um húsnæðissamvinnufélög að menn hafa gert ráð fyrir því að húsnæðissamvinnufélög væru fyrst og fremst fjármögnuð í gegnum Íbúðalánasjóð. Með breytingunni erum við ekki að gera ráð fyrir því að fjármagnið komi fyrst og fremst þaðan. Þar er líka svigrúm til þess annars vegar að fjármagnskostnaður við félagið endurspeglist á hverja íbúð eða heildarkostnaðurinn við félagið. Mér skilst að það geti gefið ákveðið svigrúm fyrir félög að bjóða upp á mismunandi leiðir gagnvart mismunandi hópum, en ég er viss um að félögin sjálf munu fara betur í gegnum það á fundi ef óskað er eftir umsögnum frá þeim sem ég efast ekki um.

Því til viðbótar tel ég líka rétt að það séu ekki bara hagnaðarlaus leigufélög sem geti fengið stofnframlög heldur að stofnframlög geti líka farið til húsnæðissamvinnufélaga, en þá þurfa félagsmenn hins vegar að uppfylla skilyrði sem snúa að tekjum og eignamörkum því að hugsunin með þeim er fyrst og fremst að huga að þeim sem eru með lægri tekjurnar. Það er mjög rík afstaða hjá mér að stuðningur hins opinbera eigi þá að beinast gagnvart þeim sem eru með lægstu tekjurnar.

Varðandi það sem spurt var um hvað varðar fjöldann sem getur stofnað húsnæðissamvinnufélag, hér er talað um 15. Það er eitt af því sem nefndin þarf að vega og meta. Við vorum að horfa til samræmis við samvinnufélagslöggjöfina. Síðan vil ég líka benda á önnur lög sem snúa að byggingarsamvinnufélögum. Þau voru nýtt töluvert hér á árum áður þar sem einstaklingar tóku sig saman og byggðu saman, en síðan var því breytt og leyst upp þannig að fólk eignaðist sitt húsnæði.



[18:24]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svarið eða svörin. Spurning númer tvö var hvort það hefði komið til að herða á skyldum og ábyrgð sveitarfélaga varðandi skipulagða umgjörð leigu- og búseturéttarmarkaðar sem væri áætlað að stæði til framtíðar. Þá kemur kannski að því, eins og ráðherrann reyndi að svara í lokaorðum sínum, að þetta er spurning um höfuðborgarsvæðið og aftur landsbyggðina og dreifbýli, hvort þessi lög ná að koma til móts bæði við landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Það er ljóst að það nær til höfuðborgarsvæðisins, þar er ekki vandamál að búa til félag sem í eru 15 einstaklingar. Það gæti reynst erfiðara í smærri sveitarfélögum á landsbyggðinni og þá hugsar maður og veltir upp þessari spurningu: Er þá rétt að þau sveitarfélög þurfi að sækja um undanþágu frá lögum? Er þá ekki rétt að gera alveg eins ráð fyrir því í lögunum að lækka þessa höfðatölu, þessa 15, vegna þess að ég held að það geti verið sveitarfélög vítt og breitt um landið, dreifð byggðarlög, sem munu ekki geta uppfyllt þessi skilyrði. Þá er svolítið sérstakt fyrir löggjafann að fara af stað með jafn viðamikið frumvarp og þetta er og ætla svo smæstu sveitarfélögunum að fara að leita að undanþágu frá lögunum. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessu hafi verið velt upp og hvort hann sjái eitthvað því til fyrirstöðu að því verði breytt í þá veru.



[18:26]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Að hluta til snýr spurningin að ábendingu sem við höfum verið að fá varðandi það úrval af íbúðarhúsnæði sem sveitarfélög bjóða upp á. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum vel yfir það, tengt skipulagslögum, og ég held að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm til þess í dag að gera kröfu á sjálf sig um fjölbreytni þegar kemur að mismunandi íbúðarhúsnæði. Það getur líka snúið að því að gera kröfur um stærð, til dæmis á þeim íbúðum sem eru byggðar á ákveðnum lóðum sem verið er að úthluta. Það eru fordæmi þekkt um það, til dæmis frá New York og London, þar sem ekki er bara horft á það sem snýr að stærð heldur líka að tekjum fólks sem er að fara í íbúðirnar.

Þetta er okkar tillaga, að hafa þessa 15 félagsmenn sem lágmark, en það er mikilvægt að hlusta á það sem umsagnaraðilar segja og heyra líka frá sveitarfélögunum sjálfum, hvernig þau telja aðstæður vera. Það var byggt óvarlega víða hringinn í kringum landið í félagslega íbúðakerfinu. Sem betur fer erum við búin að ná utan um þann vanda að mestu leyti. En ég held að það sé líka mikilvægt að hafa í huga að allar þær ákvarðanir sem við erum að taka núna, sem snúa að húsnæðismálum, hafa áhrif til langrar framtíðar. Þannig að ég treysti því og ég veit að nefndin mun vinna þetta vel.



[18:28]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Umrætt frumvarp er byggt á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála en eins og fram hefur komið skipaði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra umrædda verkefnisstjórn í september 2013 og skilaði hún tillögum í maí 2014.

Ég sat í verkefnisstjórninni og var það bæði lærdómsríkur og skemmtilegur tími og ég vil nota þennan vettvang til að þakka það traust sem mér var veitt til að vinna að þessum mikilvægu málum. Nokkur gagnrýni hefur komið fram á að langur tími hafi liðið frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér þar til þessi frumvörp, er varða leigumarkaðinn, litu dagsins ljós. Í því samhengi vil ég segja að um er að ræða flókin mál og í vinnunni hefur einstaklega mikið samráð verið haft við hina ýmsu hlutaðeigandi aðila sem hafa mismunandi sjónarhorn og mismunandi sjónarmið varðandi þessa þætti.

Ekki þarf að horfa lengra en aftur til síðasta kjörtímabils þegar mikil og góð vinna átti sér stað í nefndum og við skýrsluskrif er varða hugmyndir og tillögur að bættum leigumarkaði en engin frumvörp litu dagsins ljós. Það sýnir að þetta er afar flókið ferli og horfa verður til ýmissa mismunandi þátta og mismunandi sjónarhorna einstaklinga og félaga. Frumvarpið, sem hér um ræðir, er um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög en það er eitt af fjórum frumvörpum er varða leigumarkaðinn.

Eitt af þessum fjórum frumvörpum var hér í 1. umr. í þinginu fyrr í dag og þar átti sér stað mikil og góð umræða um málið. Því hefur nú verið vísað til velferðarnefndar þingsins en það fjallar um breytingar á húsaleigulögum. Eins og fram hefur komið eru tvö frumvörp af fjórum stopp eins og er í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu og fjalla þau um húsnæðisbætur, sem er stóraukinn stuðningur við þá sem eru á leigumarkaði, og einnig fjalla þau um stofnstyrki til leigufélaga sem eru rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Þessi fjögur frumvörp tengjast öll og hafa ákveðna snertifleti og því væri afar gott ef öll frumvörpin í einu kæmust á ákveðnum tímapunkti til umræðu í velferðarnefnd þingsins. Frumvarpinu sem hér um ræðir verður vísað til velferðarnefndar þingsins og ég er þess fullviss að góð samstaða muni ríkja milli nefndarmanna og samstaða um að klára frumvarpið vel.

Ég ætla í ræðu minni að fara örlítið í þann kafla frumvarpsins er lýtur að athugasemdum við greinar þess. Frumvarpið sem hér um ræðir fjallar um breytingar á lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög, með síðari breytingum, en frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði fulltrúa húsnæðissamvinnufélaga, Búseta hsf., Búseta á Norðurlandi hsf. og Búmanna hsf. Auk þessa var mikið samráð haft í vinnu verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, mikið af undirhópum störfuðu undir stjórninni sjálfri þar sem ýmsir hagsmunaaðilar og hlutaðeigandi aðilar komu að borðinu og unnu með stjórninni.

Meginefni frumvarpsins er ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi, en mikilvægt er að markmiðið með rekstri slíkra félaga sé að sem flestir geti búið við öryggi í húsnæðismálum og að jafnræði ríki meðal félagsmanna þeirra við kaup á búseturétti. Ég fagna því verulega að frumvarpið sé komið fram og miklar breytingar á því, því að það er afar mikilvægt að styrkja grunn þessara félaga. Það er góð hugmynd að baki þessu búsetuformi og afar mikilvægt að allir þeir sem eru á húsnæðismarkaði búi við raunhæft val í húsnæðismálum, hvort þeir vilji vera á leigumarkaði, búa í eigin húsnæði eða fara þá millileið sem húsnæðissamvinnufélögin bjóða upp á.

Í frumvarpinu segir:

„… mikilvægt [er] að húsnæðissamvinnufélög hafi svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði hér á landi og hafi þannig möguleika á að haga reglum félagsins og rekstrarlíkani með þeim hætti sem félagsmenn telja hæfa félaginu. Er með frumvarpinu leitast við að skilgreina þau atriði sem húsnæðissamvinnufélög skulu útfæra nánar í samþykktum sínum með þeim hætti sem félagsmenn kjósa og telja hag félagsins best borgið. Lagt er til að nákvæmari ákvæði verði í samþykktum húsnæðissamvinnufélaga um fjármál þeirra, þar á meðal um stofnsjóð þeirra, rekstrarsjóð, varasjóð og viðhaldssjóð þar sem hlutverk þessara sjóða eru nánar skilgreind sem og hvernig þeir eru fjármagnaðir.“

Samkvæmt frumvarpinu er að vissu leyti verið að færa ákveðið vald í hendur félagsmanna húsnæðissamvinnufélaganna fremur en að mælt sé fyrir um það með skýrum hætti í lögum. Það er afar mikilvægt, í ljósi sögunnar og í ljósi atburða sem hafa átt sér stað innan ákveðinna húsnæðissamvinnufélaga hér á landi, að félagsmenn félaganna hafi meira vald, séu upplýstir betur um alla fjárhagslega stöðu félagsins o.fl. Segjum að félag eigi til dæmis í ákveðnum rekstrarvanda eða einhvers konar þannig atriði komi upp að þá séu félagsmenn upplýstir um stöðuna áður en allt fer í kaldakol.

Þetta er ákveðin rammalöggjöf og félagsmenn hvers félags geta haft áhrif á hvernig samþykkt hvers félags er út af fyrir sig. En það er afar mikilvægt, þar sem einstaklingar eru að setja mikla fjármuni, margir jafnvel ævisparnaðinn, í þessi félög, að þeir hafi um það að segja hvaða ákvarðanir stjórnir félaganna taka. Ég hef setið nokkra fundi hjá ákveðnum húsnæðissamvinnufélögum þar sem þessi lög hafa verið til umræðu og hjá ákveðnu félagi, sem hefur átt í rekstrarvanda, hefur verið mikil ánægja með að ákvörðunarvaldið sé fært meira til félagsmanna upp á gagnsæi og að vörður sé staðinn um ákvörðunartöku.

Þrátt fyrir að verið sé að opna á meiri þátttöku félagsmanna er mjög mikilvægt að ákveðinn hluti sé samt sem áður í lögum, en í frumvarpinu segir:

„Engu að síður er talið nauðsynlegt að lögfest verði ákvæði um tiltekin atriði sem stuðlað geti að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga ásamt því að veita rekstri þeirra ákveðið aðhald. Er til dæmis lagt til að kveðið verði á um að óheimilt verði að greiða fé úr húsnæðissamvinnufélagi til þeirra sem að félaginu standa sem arð eða hvers konar ígildi arðs en þess í stað er gert ráð fyrir að rekstrarafgangi verði varið til vaxtar og viðhalds félagsins, svo sem til niðurgreiðslu lána þess. Enn fremur er lagt til að mælt verði fyrir um að húsnæðissamvinnufélögum verði óheimilt að kveða á um kaupskyldu félagsins á búseturétti í samþykktum sínum og búsetusamningum.“

Þarna komum við líka að mikilvægu atriði, það eru mörg húsnæðissamvinnufélög sem hafa afnumið kaupskyldu fyrir einhverjum árum en þó er það eitthvað misjafnt á milli félaganna. Sýnt hefur verið fram á, þegar ákveðið ástand er á markaðnum, að það geti verið íþyngjandi fyrir fjárhag félagsins að þurfa að kaupa félaga út úr félaginu. En eins og fram kom í ræðu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra þá getur það komið fram í samþykktum félagsins að ef fjárhagur félagsins leyfir og verulegt svigrúm sé til staðar sé undir vissum kringumstæðum hægt að kaupa út.

Í frumvarpinu, það sem viðkemur lagalegri hlið þess, segir að:

„Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um skyldu húsnæðissamvinnufélags til að framkvæma reglubundnar úttektir á fjárhag sínum, skuldbindingum og starfsemi félagsins en slík reglubundin úttekt gæti leitt til þess að unnt verði að grípa inn í fjármál húsnæðissamvinnufélags áður en í óefni er komið í rekstri þess. Má ætla að slíkar úttektir nýtist félögum í því skyni að upplýsa félagsmenn um stöðu félagsins hverju sinni.“

Því miður virðist einhver misbrestur hafa orðið á þessum þáttum hingað til.

Lagt er til að nánar verði kveðið á um skipun og hlutverk stjórna húsnæðissamvinnufélaga. Það þykir mikilvægt bæði fyrir þá aðila sem taka að sér stjórnarsetu í húsnæðissamvinnufélögum og fyrir félagsmenn alla. Jafnframt er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélög fjalli í samþykktum sínum nánar um hlutverk og val stjórna. Lagt er til að beinlínis verði kveðið á um að þeir sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd húsnæðissamvinnufélags megi ekki gera þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins, enda forsenda reksturs húsnæðissamvinnufélaga að allir félagsmenn séu þátttakendur í félaginu á jafnréttisgrundvelli. Þetta ákvæði hefur, á þeim fundum sem ég hef setið, fengið afar góð viðbrögð, um upplýsingaskyldu og þátttöku félagsmanna.

Jafnframt er talað um það í frumvarpinu og lagt til að búseturéttargjald geti að hámarki numið þeirri fjárhæð sem jafngildir þriðjungi af markaðsvirði viðkomandi búsetuíbúðar við kaup búseturéttar. Með frumvarpinu er jafnframt leitast við að skýra réttarstöðu félagsmanna húsnæðissamvinnufélaga sem og félaganna sjálfra, svo sem við inngöngu félagsmanna í félagið og ef hjónaskilnaðir verða, andlát og þess háttar.

Það eru ýmsir fleiri þættir þarna, þetta er mjög viðamikið frumvarp. Þarna er jafnframt lagt til hvernig eigi að haga málum varðandi þá sem eru 18 ára og yngri, ef foreldrar skrá börn sín í húsnæðissamvinnufélög, hvernig það eigi að vera, hvernig sé með réttindi við andlát maka og margt fleira. Ég held að það verði mjög gagnlegt og gott að fá frumvarpið til velferðarnefndar þingsins. Því ber að fagna að mikið samráð hefur verið haft við marga aðila við vinnslu frumvarpsins. Verði frumvarpið að lögum munu áhrif laganna einkum felast í því að húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði með því að haga reglum sínum og rekstrarlíkani á þann hátt sem best hentar hverju og einu félagi. Þannig eru líkur á að starfsemi húsnæðissamvinnufélaga eflist, sem mun leiða til þess að einstaklingar geti í auknum mæli haft raunverulegt val um búsetuform. Ég lít á það sem stærsta tilgang þessa frumvarps, þessara laga, að einstaklingar hafi val um búsetuform en við séum ekki öll steypt í sama formið. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og okkur henta mismunandi leiðir.



[18:41]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ýmsar úrbætur sem eflaust má finna í frumvarpinu á starfsumhverfi húsnæðissamvinnufélaga.

Ég kem hingað upp til að inna hv. þingmann Framsóknarflokksins eftir því hvað líði niðurfærslu skulda í þeim félögum í samræmi við þær aðgerðir sem farið var í gagnvart því fólki sem er í eigin húsnæði. Á síðasta ári höfum við verið að bíða eftir því að fólkið í þessum félögum fái sömu meðferð, njóti sömu réttinda og aðrir á húsnæðismarkaði. Við höfum átt hér inni fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, frá því í janúarmánuði og nú er næstum því kominn maí og enn hefur hann ekki treyst sér til að svara þeirri spurningu.

Ég þykist vita að þetta brenni nú á í kjördæmi hv. þingmanns og spyr hana þess vegna: Hvað líður leiðréttingu fyrir það fólk sem er í húsnæðissamvinnufélögunum og sannarlega fékk á sig mikla hækkun á þeim lánum og greiðslubyrði sem það býr við?



[18:43]
Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir andsvarið. Leiðrétting eða höfuðstólsniðurfærsla, aðgerð ríkisstjórnarinnar, fór til einstaklinga, hún fór ekki til lögaðila. Hins vegar erum við að vinna að frumvörpum sem eru til bóta fyrir húsnæðissamvinnufélög og einhver þeirra geta jafnvel nýtt sér ákvæði þeirra húsnæðisfrumvarpa er koma fram og eru komin fram, m.a. þetta, til endurfjármögnunar, og það hefur komið fram á fundum hjá ákveðnum húsnæðissamvinnufélögum. Auk þess er frumvarp á leiðinni í þingið er varðar húsnæðisbætur eða húsnæðisstuðning til þeirra sem eru á leigumarkaði, og maður vonar svo sannarlega að það geti orðið þeim einstaklingum til bóta sem búa í kerfinu.



[18:44]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er hv. þingmaður að segja að fólkið sem er í Búseta eða öðrum húsnæðissamvinnufélögum eigi ekki að fá höfuðstólsniðurfærslu eins og aðrir á húsnæðismarkaði, að tekin hafi verið ákvörðun um það? Maður hlýtur að spyrja: Er engin alvara á bak við orð sumra framsóknarþingmanna og -ráðherra um mikilvægi leigumarkaðar eða húsnæðissamvinnufélaga? Eru engir fjármunir sem fylgja þeim orðum? Er eina framlagið það að snikka eitthvað til löggjöfina í kringum þetta en skilja fólk eftir með stökkbreyttu lánin í húsnæðissamvinnufélögum, snikka löggjöfina eitthvað til í kringum leigumarkaðinn en koma ekki með neina peninga inn í stofnstyrki eða húsnæðisstuðning? Frumvörpin sem hv. þingmaður var að vísa til um slíkan stuðning sem þau félög gætu nýtt sér eru föst í fjármálaráðuneytinu, vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur ekki gengið frá neinum fjárveitingum til að fylgja þeim frumvörpum eftir.

Ég bið um að þingmaðurinn sé alveg skýr um það: Liggur sem sagt fyrir ákvörðun um það að þeir sem búa í Búseta eða öðrum húsnæðissamvinnufélögum njóti ekki jafnræðis á við aðra á húsnæðismarkaði og fái ekki niðurfærslu á stökkbreyttum húsnæðislánum sem hvíla á þessum húsnæðissamvinnufélögum?



[18:46]
Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í orðum mínum áðan náði skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar ekki til lögaðila, húsnæðissamvinnufélög flokkast undir slík félög. Þessi umræða var tekin í kringum — það hefði nú verið ágætt ef hv. þm. Helgi Hjörvar hefði verið hér í salnum til að hlusta á það sem ég er að segja, en hann fór.

Já, ég ætla bara að endurtaka orð mín, við tókum sem sagt þessa umræðu í umræðunni um skuldaaðgerðirnar en við vonum svo sannarlega að frumvörp um húsnæðisbætur og stofnstyrki komi sem fyrst inn í þingið þeim einstaklingum til hagsbóta er þau varða.



[18:47]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Markmið frumvarpsins er, líkt og kemur fram í athugasemdum sem fylgja því, að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa í samræmi við það markmið stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum og hafi raunverulegt val um búsetuform. Ég tel það í sjálfu sér ekkert annað en jákvætt, enda auki það valkosti fólks þegar kemur að húsnæði eða búsetuformi eða fyrirkomulagi.

Þá segir einnig í fyrrgreindum athugasemdum að mikilvægt sé að húsnæðissamvinnufélög hafi svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði og hafa þannig möguleika á að haga reglum félagsins með þeim hætti sem félagsmenn þess sjálfir telja æskilegt eða passa sínu félagi. Markmiðið er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra í framsöguræðu hennar, áðan að stuðla að sjálfbærum og öruggum rekstri húsnæðissamvinnufélaga.

Frumvarpið er mjög tæknilegs eðlis, verð ég að segja, og tekur á hlutum eins og því hvert hlutverk stjórnar er, fjallað er um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Þar er talað um félagsaðild og fjallað um fyrirkomulag ársreikninga, skýrslu stjórnar og hvað það er sem á að koma fram þar, og líklega ekkert nema gott um það að segja að á því sé tekið í frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Það er hins vegar ekkert komið inn á hvernig koma eigi til móts við búseturéttarhafa húsnæðissamvinnufélaga varðandi niðurfærslu skulda. Þetta er hópur sem fær greiddar vaxtabætur en fékk ekki leiðréttingu á lánum sínum í stóru 80 milljarða kr. skuldaniðurfellingu hæstv. ríkisstjórnar og er ekki að sjá á þessu frumvarpi að hann eigi að fá neitt frekar að þessu sinni, þrátt fyrir það sem hafa verið gefin ákveðin áheit um í umræðunni og eitthvað ýjað að, að mögulega verði tekið á því í frumvörpum sem við höfum ekki fengið að sjá á enn þá og eru enn stödd i kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu. Það er auðvitað ekki nógu gott og veldur þeirri sem hér stendur ákveðnum vonbrigðum. En líkt og kemur fram í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins með þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir því að lögfesting á því tiltekna frumvarpi leiði til neinna útgjalda fyrir ríkissjóð.

Eins og ég segi eru þetta mér talsverð vonbrigði, en hvað varðar frumvarpið og það sem þó er í því sýnist mér, svo langt sem það nær, það til þess fallið að skerpa á rammanum um rekstur húsnæðissamvinnufélaga og styrkja þar með réttarstöðu búseturéttarhafa. Eins og ég sagði áðan er frumvarpið mjög tæknilegs eðlis og því verður mjög áhugavert að sjá þær umsagnir sem eiga eftir að berast hv. velferðarnefnd vegna frumvarpsins. Ég tel mjög mikilvægt að við sem sæti eigum í hv. velferðarnefnd förum vel yfir þær því að líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan geta breytingar sem við fyrstu sýn virðast léttvægar reynst afdrifaríkar og því mjög mikilvægt að fá umsagnir þeirra sem best þekkja til reksturs húsnæðissamvinnufélaga, þekkja það umhverfi hvað best og hafa jafnvel eigin reynslu af því að vera búseturéttarhafi í slíku samvinnufélagi.

Það eru vonbrigði að hér er ekkert fjallað um það hvernig koma eigi til móts við búseturéttarhafa hvað varðar niðurfærslu skulda, því að það er hópur sem er enn þá óbættur og hefur ekki notið góðs af þeirri gríðarlega miklu millifærslu af peningum sem hefur þegar farið til eigenda íbúðarhúsnæðis, en er engu að síður fólk sem situr uppi með breytt lán og þarf auðvitað að borga leigu inn í húsnæðissamvinnufélög sín í takt við það.



[18:54]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér eins og fram hefur komið um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Er það í anda húsnæðisstefnu stjórnvalda að efla húsnæðissamvinnufélagaformið og gera því hærra undir höfði á íslenskum húsnæðismarkaði og freista þess að efla traust á því félagaformi og auka valfrelsi landsmanna í húsnæðismálum og tryggja betur húsnæðisöryggi.

Fram kom í andsvörum sem flokksbróðir minn, hv. þm. Helgi Hjörvar, átti frumkvæði að að ekki stendur til að mæta þeim heimilum sem urðu fyrir skuldahækkunum vegna verðbólgu í kjölfar hrunsins og hruns íslensku krónunnar þann skaða með sama hætti og þeim sem eru með séreign í sínu húsnæði en ekki leigufélögunum. Er það gríðarleg mismunun gagnvart fólki eftir búsetuformi. Ég held ég minni á það hér enn eina ferðina að af þeim 80 milljörðum sem eiga að fara í það að lækka skuldir heimilanna fara 51 milljarður til 30% tekjuhæstu heimilanna. Þetta er þá skýr forgangsröðun um það hvaða heimili eru þess verðug að njóta félagslegs réttlætis hægri stjórnarinnar.

Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir benti á er þetta svona tæknilegt frumvarp. Þetta er eiginlega frumvarp sem krefst þess að það sé lesið mjög náið samhliða fyrirliggjandi lögum. Auðvitað er það alltaf gert með lagafrumvörp, en hér þarf að leggja vinnu í að setja saman frumvarpið og lögin til að auðvelda skilning á þeim breytingum sem verið er að gera. Ráðherra kom inn á það að þetta eru breytingar sem munu geta haft ófyrirséðar afleiðingar. Auðvitað hefur ráðherra lagt málið upp þannig að það sé sem best úr garði gert en hyggja þurfi að því við meðferð málsins í nefndinni að það sé örugglega ekki verið að gera breytingar sem geti haft ófyrirséðar afleiðingar. Við munum fara ítarlega yfir það og senda málið til fjölmargra umsagnaraðila.

Við fyrstu yfirferð mína á málinu hef ég einna helst áhyggjur af eftirliti með rekstri húsnæðissamvinnufélaga, að það séu einhverjir opinberir aðilar sem sinni því eftirliti. Svo þarf að meta hversu umfangsmikið það á að vera og hvernig því sé best fyrir komið. Þarna eru fjárhagslegir hagsmunir fólks í húfi og húsnæðisöryggi og því eðlilegt að hið opinbera taki ábyrgð eða sé fólki til halds og trausts varðandi það að verja hagsmuni þess. Það er líka verið að draga úr hlutverki ráðuneytisins sem var svo sem ekki mikið. Það var meira á orði en á borði.

Það er annað atriði sem ég vildi aðeins koma inn á sem gerir það einmitt að verkum að óþægilegt er að vera ekki að fjalla um öll þessi frumvörp samhliða, því að hér er verið að breyta því að ekki á að tilgreina Íbúðalánasjóð sérstaklega sem lánveitanda heldur fellur Íbúðalánasjóður þar með undir aðrar lánastofnanir. Það breytir auðvitað engu ef það er tryggt, en við vitum ekki um framtíð Íbúðalánasjóðs og hvernig starfsemi hans á að vera háttað. Það kemur fram í frumvarpi sem kemur víst ekki fyrr en í haust. En það er náttúrlega mikilvægt að tryggðar séu lánveitingar til félaga sem þessara sem geta svo líka fjármagnað sig á almennum markaði. Við vitum ekki á þessari stundu hvort ríkisstjórnin ætlar sér að greiða fyrir stofnstyrkjum til þessara félaga. Það er bagalegt að fjalla um þetta mál án þess að fjármögnunarhliðin, bæði tækifæri þeirra til fjármögnunar og fjármögnun af hálfu hins opinbera, liggi fyrir.

En málið gengur nú til nefndar. Eins og ég greindi frá í ræðu minni um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum munum við í nefndinni leggja kapp á að geta unnið þessi mál sem best og munum hefja þá vinnu strax í næstu viku og meta. En ég vona að á meðan við erum að fjalla um þetta frumvarp komi það mál sem við bíðum eftir, fjármögnunarþátturinn, því að það skiptir auðvitað sköpum til að markmið hæstv. ráðherra nái fram að ganga, sem er að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði og tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna.



[19:01]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna um frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Það eru örfá atriði sem ég vildi nefna í lokin í ljósi þess sem hefur komið fram við umræðuna.

Töluvert er síðan umræðan um skuldaleiðréttinguna var tekin fyrir hér í þinginu. Þar lá fyrir að hún væri hugsuð fyrir einstaklinga, lánveitingar til einstaklinga. Ef einstaklingar voru með verðtryggð lán áttu þeir rétt á skuldaleiðréttingu. Þeir sem voru með lán vegna kaupa á búseturétti áttu þar af leiðandi líka rétt á því að fá skuldaleiðréttingu. Því til viðbótar, eins og fram kom í framsöguræðu minni, í frumvarpinu og í lögunum sjálfum og ekki er verið að breyta því, er ábyrgð búseturéttarhafa takmörkuð við búseturéttinn sjálfan, þannig að þeir sem eru félagsmenn og kaupa búseturétt bera sem einstaklingar ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins.

Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að velferðarnefnd fari vel yfir þær breytingar sem hér er verið að leggja til sem snúa að fjármögnun félaganna. Það er verið að opna fyrir það að í staðinn fyrir að fjármagnskostnaður og annar kostnaður sem tengist stakri búseturéttaríbúð endurspeglist í búsetukostnaðinum við búseturéttinn og síðan búseturéttargjaldið megi hann endurspegla heildarkostnaðinn við félagið. Þar af leiðandi gefur það félögunum ákveðið svigrúm til að fara í fjárhagslega endurskipulagningu hjá sér og þá í einhverjum tilvikum bæta verulega stöðu einstakra búseturéttarhafa. Þetta er eitthvað sem ég held að nefndin þurfi að fara mjög vel yfir, þau ákvæði sem varða þetta.

Þarna er líka verið að opna fyrir það að ekki sé fyrst og fremst horft á Íbúðalánasjóð sem fjármögnunaraðilann fyrir þessi félög, heldur að horfst í augu við þá þróun sem hefur verið þar sem aðrir lánveitendur hafa verið að ryðja sér til rúms á húsnæðislánamarkaðnum. Eftir að við erum búin að samþykkja þessar breytingar á lögunum mun það vonandi endurspeglast í því að þessi félög verði enn betri skuldarar þannig að lánveitendur séu þá tilbúnir til að fjármagna þau verkefni sem félögin horfa til.

Það er erfitt að ræða frumvarp sem ekki er komið fram, en ég hef hins vegar alltaf lagt upp með það — það var umræða sem við tókum á sínum tíma og tengdist breytingu á Íbúðalánasjóði, þegar við vorum að ræða um það hvað leigufélög væru — að þegar horft sé til stuðnings við félagslega húsnæðiskerfið eigi húsnæðissamvinnufélögin rétt á stuðningi líka þannig að það getur líka haft áhrif á stöðu viðkomandi félags. En þá komi á móti ákveðnar skyldur sem tengjast tekjum og eignum viðkomandi, þeirra sem eru í viðkomandi félögum.

Ég veit að menn munu vinna þetta vel í nefndinni og vanda sig. Þetta er stórt frumvarp og það er von mín og trú að það muni gera að verkum að húsnæðissamvinnufélög eflist hér á Íslandi. Ég vona svo sannarlega að þegar frumvarpið kemur aftur úr velferðarnefnd verði hver einasti nefndarmaður orðinn sannfærður samvinnumaður.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.