144. löggjafarþing — 99. fundur
 30. apríl 2015.
stytting náms til stúdentsprófs.

[11:04]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér á dögunum sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í ræðustól Alþingis: Meiri hlutinn ræður. Það má svo sem til sanns vegar færa að þannig er það þegar gengið er til atkvæða um þingmál, þó að líka megi velta fyrir sér hvort áskorunin í lýðræðinu snúist kannski frekar um að tryggja að raddir sem flestra nái að heyrast, stuðla að sátt og samráði í samfélaginu og vaða ekki yfir minni hlutann og þá sem best þekkja til. 25. febrúar 2014 sagði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson:

„Ég ætla mér að stytta framhaldsskólana og mun gera það.“

Þetta er sams konar pólitík og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsir, pólitík sem snýst um það að ráða, að skipa fyrir og vaða yfir, hlusta ekki og er eitt dæmi af mörgum. Við skulum staldra aðeins við í þessari fyrirspurn við styttingu framhaldsskólans. Nú hefur komið fram að það er í raun send út tilskipun úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að stytta beri framhaldsskólann niður í þrjú ár og þar með draga úr vali og fjölbreytni á framhaldsskólastiginu, að steypa kerfið í sama mót með miðlægum hætti með tilskipun, þrátt fyrir að hjá meiri hlutanum á sínum tíma, 2008, við afgreiðslu framhaldsskólalaga hafi komið fram, með leyfi forseta:

„Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu. Ekki er kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs í gildandi lögum og telur meiri hlutinn að ekki sé þörf á slíku í frumvarpi þessu.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða stefnumörkun liggur að baki því að þvinga fram styttingu, óháð rökstuðningi? Hvaða máli skiptir samráð í huga menntamálaráðherra í stórum málum? Er ég þá líka að tala um fleiri mál eins og Menntamálastofnun, sameiningu Tækniskólans og (Forseti hringir.) Iðnskólans í Hafnarfirði og fleiri mál sem hæstv. ráðherra hefur nálgast með þessum hætti.



[11:07]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst vil ég segja að þegar kjarasamningar voru gerðir síðast við framhaldsskólakennara þar sem laun framhaldsskólakennara hækkuðu umtalsvert hafði ég lýst því yfir að forsenda þess að hægt væri að ráðast í slíkar kauphækkanir væri meðal annars kerfisbreytingar í framhaldsskólakerfinu. Þá lá fyrir að átt væri við að horfið væri frá fjögurra ára kerfi og farið til þriggja ára kerfis. Í þeim kjarasamningum voru gerðar breytingar sem auðvelduðu slíkar breytingar á framhaldsskólakerfinu, m.a. með því að skólaárið var lengt og afnumin skil á milli prófa á kennslutíma. Sú stefna sem ég vinn eftir hefur legið fyrir um langa hríð. Hún er reyndar ekkert ólík þeim stefnuatriðum eða áherslum sem koma fram hjá BHM, í menntastefnu þeirra samtaka, sem snúa einmitt að því að stytta námstímann að stúdentsprófi. Það er mikilvægt kjaraatriði fyrir menntafólk í landinu.

Hvað varðar val og fjölbreytileika þá er nú þegar hægt að skoða muninn á skólum sem eru þriggja ára skólar, t.d. Kvennaskólanum og Tröllaskagaskólanum. Báðir bjóða upp á þriggja ára nám en eru mjög ólíkir, rétt eins og skólinn í Mosfellsbæ er ólíkur þessum tveimur skólum, rétt eins og skólinn uppi í Borgarnesi er ólíkur þessum skólum. Allt eru þetta þó þriggja ára skólar. Auðvitað verður áfram bæði val og fjölbreytileiki í íslenska framhaldsskólakerfinu, rétt eins og það er í öllum öðrum löndum sem byggja á slíku námskerfi. Það er ekki svo að eina landið þar sem boðið er upp á fjölbreytileika sé á Íslandi vegna þess að hér sé fjögurra ára kerfi. En munum það að núverandi kerfi hefur skilað þeim árangri að við Íslendingar sitjum kirfilega á botninum þegar kemur að námsframvindu (Forseti hringir.) og brotthvarfi. Það er ástæða til að breyta núverandi kerfi.



[11:09]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Í sjálfu sér hlýtur að blasa við öllum að það er verið að auka einsleitni í kerfinu með því að hverfa frá þeim möguleika að bjóða upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Þar með er verið að auka einsleitni í kerfinu og draga úr vali. Að halda öðru fram er útúrsnúningur.

Því spyr ég: Hvað er það sem ráðherra óttast í því að leyfa Menntaskólanum í Reykjavík að halda sig við fjögurra ára nám til stúdentsprófs? Menntaskólinn í Reykjavík hefur ítrekað óskað eftir því með rökstuddum hætti að fá undanþágu frá tilskipun ráðherra um styttingu. Ég spyr hvort ráðherra sé fáanlegur til þess í nafni fjölbreytileika, vals og sveigjanleika, sem ég hélt að væri tónlist í eyrum hæstv. ráðherra, að koma til móts við óskir Menntaskólans í Reykjavík þar um.



[11:10]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram að með því að farið er úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi er ekki verið að vinna málið þannig að allir skuli klára á þremur árum og enginn annar möguleiki sé til staðar, rétt eins og í fjögurra ára kerfi eru möguleikar fyrir nemendur til að vera lengur í námi en tekur fjögur ár. Það mun ekki breytast þannig að áfram verður sá sveigjanleiki.

Hvað varðar málefni Menntaskólans í Reykjavík má ljóst vera að við getum ekki stillt framhaldsskólakerfinu okkar upp út frá einum skóla. Ég er heldur ekki viss um að Menntaskólinn í Reykjavík vilji vera til dæmis eini skólinn með fjögurra ára nám, þ.e. frá 16–20 ára, ég er ekki alveg viss um að svo sé, enda snúa þær hugmyndir sem ég hef heyrt frá þeim skóla ekki að því. Þær hafa snúið meira að því að eiga möguleika á að taka krakka beint úr 10. bekk inn í skólann. Skólinn væri í svolítið sérstakri stöðu ef aðrir skólar sem skólinn keppir við um nemendur bjóða upp á þriggja ára nám til að klára stúdentsnámið og þeirra nemendur geta þá, þegar þeir standa á 19 ára aldursárinu, hafið nám í háskóla, en þeir sem koma út úr Menntaskólanum í Reykjavík þurfa að (Forseti hringir.) koma ári síðar. Ég er ekki viss um að það væri gott fyrir Menntaskólann í Reykjavík.