144. löggjafarþing — 99. fundur
 30. apríl 2015.
sérstök umræða.

fjarskiptamál.

[11:11]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þetta tækifæri að fá að hefja sérstaka umræðu við hæstv. innanríkisráðherra um viðhorf hennar til úrbóta á fjarskiptainnviðum og hvernig við getum aukið aðgengi allra að internetinu með nútímalegum og traustum tengingum og hvernig við getum jafnað tækifæri fólks til að nota og eiga rafræn samskipti, óháð búsetu, hvar sem er á landinu.

Ég vil í upphafi umræðunnar taka skýrt fram að almennt má segja um ástand fjarskiptamála hér á landi að það sé í þokkalega góðu lagi. Útbreiðsla fjarskipta er mjög góð. Það er ekki sjálfgefið og ekki einfalt úrlausnarefni í okkar landi þar sem við erum fámenn þjóð, með fjöll og dali. Notkun á netinu er bæði almenn og góð meðal þjóðarinnar og það er ríkt í okkar daglega lífi. Við nútímafólk getum varla án þess verið og langflestir, samkvæmt tölulegum staðreyndum, hafa tileinkað sér notkun á því og erum við meðal fremstu þjóða í þeim efnum. Enginn efast um gildi góðra og öruggra fjarskipta fyrir daglegt líf okkar. Öflugar nettengingar, þörf fyrir þær og mikilvægi þeirra er því stórt viðfangsefni út frá öryggi fjarskipta, út frá byggðamálum, út frá rekstri fyrirtækja og heimilishaldi. Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum um ákvörðun búsetu og úrslitaatriði um þróun byggðar. Góðar nettengingar eru fyrirtækjum ekki síður mikilvægar og samkeppnishæfni svæða og íbúðabyggða má því, ásamt öðrum grunnþáttum, mæla út frá ástandi fjarskipta.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að marka stefnu og veita aðhald, vera á sama tíma hvetjandi til átaka um leið og við gerum kröfu um og mótum framtíðarsýn. Almennt er ekki gert ráð fyrir því að hið opinbera stígi inn á hinn frjálsa samkeppnismarkað fjarskipta. Það er mjög flókið fyrir ríki og sveitarfélög að láta sig málefni fjarskiptamarkaðarins varða og við erum bundin þar á klafa mikils regluverks og laga. Neytendum skulu tryggð ákveðin réttindi og stjórnvöld eiga líka að veita markaðnum aðhald.

Í samræmi við núgildandi fjarskiptaáætlun skipaði fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, starfshóp um alþjónustu og yfirferð á regluverki alþjónustu og ekki síður átti hópurinn að koma með tillögur til úrbóta í fjarskiptamálum. Í hópinn voru skipaðir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, ráðuneyti byggðamála og frá ríkisstjórn og sá sem hér stendur, sem var formaður hópsins, var fulltrúi innanríkisráðherra. Hópurinn hefur nú skilað innanríkisráðherra skýrslu og ákveðnum tillögum. Tillögum okkar má í meginatriðum skipta í tvo meginþætti. Annars vegar eru tillögur sem snúa að breytingum á lögum og reglum um fjarskiptamarkaðinn og hins vegar tillögur sem eru undirstöður landsátaks í uppbyggingu fjarskiptainnviða og miða að því að öll heimili og fyrirtæki eigi kost á raunverulegum, góðum og traustum háhraðafjarskiptatengingum.

Herra forseti. Ef ég leyfi mér að rekja í sem stystu máli helstu tillögur okkar hóps má segja að fyrsta megintillaga okkar snúist um að skilgreina aðgang að breiðbandi eða fjarskiptatengingu með að minnsta kosti 100 megabæta tengihraða sem grunnþjónustu sem standi öllum landsmönnum til boða, óháð búsetu. Þetta er mjög stór ákvörðun og í raun og veru grundvallarákvörðun um það hvernig við getum sem þjóð undirbyggt stórkostlegar framfarir í uppbyggingu fjarskipta. Við viljum í annarri tillögu okkar setja það sem alþjónustumarkmið að tengihraði verði að minnsta kosti 100 megabæt og verði aðgengilegur 99,9% landsmanna árið 2020. Við leggjum til innleiðingu á reglugerðum og breytingum á lögum sem innleiða samnýtingu á veituframkvæmdum, en í þeim málum eru gríðarlega mikil sóknarfæri, bæði til að lækka kostnað við ljósleiðaralagnir og ná fyrr árangri. Við höfum líka metið og skilgreint átaksverkefni á landsvísu til fimm ára við uppbyggingu ljósleiðaraaðgangsneta á svæðum þar sem markaðsbrestur er til staðar. Við segjum landsátak vegna þess að þegar við höfum sett okkur þau markmið sem ég hef hér lýst þá snertir átakið öll sveitarfélög í landinu nema þau sem þegar hafa lagt út í ljósleiðaralagnir.

Ég vil því að þessu sögðu og að framkominni þessari skýrslu leggja fyrir hæstv. innanríkisráðherra eftirfarandi spurningar:

Hvert verður framhald á starfi ráðherrans í ljósi þessarar skýrslu?

Hvernig metur ráðherra ástand mála og þörf fyrir breytingar á regluverki?

Hvernig hyggst ráðherra taka næstu skref?

Hefur ráðherra tekið upp (Forseti hringir.) viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga? Í tillögum (Forseti hringir.) starfshópsins er sveitarfélögum í landinu ætlaður mjög stór verkþáttur í þessu landsátaki.



[11:17]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli sem er auðvitað gríðarlega spennandi og mikilvægt fyrir landið í heild. Í mínum huga er öruggt netsamband við umheiminn ein forsenda þess að menn hafi raunverulegt frelsi til búsetu og uppbyggingar ýmiss konar atvinnustarfsemi. Verkefni þess starfshóps sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni sem fyrrum innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, skipaði árið 2014 um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraðanettenginga var að koma með þær tillögur til úrbóta sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni. Þessi vinna er á grundvelli stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um að farið skuli í að efla fjarskiptakerfi í landinu til hagsbóta fyrir atvinnulíf og íbúa hér í landi.

Áform ríkisstjórnarinnar eru metnaðarfull og spennandi enda um að ræða, eins og ég segi, eitt stærsta atvinnu- og byggðamálið. Mikill stuðningur er við málið og eru næstu skref að útfæra það og koma því til framkvæmda.

Ísland stendur þó vel á sviði fjarskipta í samanburði við önnur lönd. Samkvæmt skýrslum Alþjóðaefnahagsráðsins er samkeppnishæfni Íslands á margan hátt góð. Þá stöðu má rekja til virkni á fjarskiptamarkaði en jafnframt til þess að stjórnvöld hafa gripið inn í þar sem þörf hefur krafist á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Þó má alltaf gera betur.

Ein grunnforsenda fjarskiptaáætlunar er að fjarskipti séu þjónusta sem fyrirtæki á markaði bjóða í samkeppni hvert við annað. Fjarskiptaáætlun tekur mið af því hlutverki stjórnvalda að sjá til þess að skýrar leikreglur greiði fyrir einkaframtaki og um leið að skyldur fyrirtækja á markaði og réttindi neytenda séu skýr. Uppbygging fjarskipta er fyrst og fremst verkefni markaðarins og fellur undir fjarskiptalöggjöfina, samkeppnislög og aðra löggjöf um fyrirtækjarekstur.

Á síðasta ári fjárfestu markaðsaðilar á fjarskiptamarkaði fyrir tæpa 8 milljarða kr. sem er mun hærri fjárhæð en árin á undan. Fjárfestingarnar eru fyrst og fremst í þágu fyrirtækja og almennings á markaðssvæðum sem ná til yfir 96% fyrirtækja og almennings sem nýtur almennt góðrar þjónustu fyrir vikið. Hins vegar eru ekki alls staðar næg skilyrði fyrir uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Þörf er fyrir aðkomu opinberra aðila til að tryggja góð og öflug fjarskipti fyrir þann hluta þjóðarinnar sem býr á þessum markaðsbrestssvæðum.

Þau úrræði sem opinberir aðilar hafa gegn þessum vanda eru til dæmis fjárframlög að uppfylltum ríkisstyrkjareglum og möguleg löggjöf. Helstu hindranirnar sem hér standa í veg fyrir uppbyggingu á háhraðanettengingum á markaðslegum forsendum eru landfræðilegar aðstæður og strjálbýli, en uppbygging á háhraðanettengingum er mun óhagkvæmari í dreifbýli en þéttbýli. Aftur á móti verður ekki fram hjá því litið að þörfin fyrir netið er alveg jafn rík ef ekki ríkari á þessum svæðum landsins til að rjúfa einangrun og tryggja öruggt fjarskiptasamband.

Ekki þarf að tíunda hér mikilvægi þess að landsmenn búi allir við öflugar og áreiðanlegar nettengingar. Gott aðgengi að netinu er mikilvægt skilyrði fyrir byggð og atvinnustarfsemi. Sífellt aukið framboð á opinberri þjónustu á netinu, menntun, upplýsingum og alls konar afþreyingu gerir það að ómissandi þætti í nútímasamfélagi. Sömuleiðis er netið undirstaða þess að fyrirtæki geti markaðssett sig og boðið vörur og þjónustu til sölu óháð staðsetningu.

Nú er unnið að nánari útfærslum á þessum tillögum í ráðuneytinu. Það eru ekki svo margar vikur síðan ráðuneytinu bárust þær í hendur. Þar eru lagðar til ýmiss konar breytingar á lögum og reglum, auk þess sem fjallað er um þrjár mögulegar leiðir fyrir aðkomu ríkisins að uppbyggingu fjarskipta á markaðsbrestssvæðum. Þessar þrjár leiðir gera allar ráð fyrir umtalsverðu en mismiklu fjárframlagi og ábyrgð ríkisins á uppbyggingu fjarskiptainnviða. Meiri hlutinn mælti með leið tvö sem gerir ráð fyrir að ríkið taki ábyrgð á uppbyggingu fjarskiptainnviða með aðkomu og samstarfi við sveitarfélög. Lagt er til að framlag ríkisins verði 900 millj. kr. í fimm ár. Framlag notenda verði 250 þúsund fyrir hverja nettengingu sem geti hugsanlega notið styrks frá sveitarfélagi sem taki þá hluta notendagjaldsins.

Við höfum í ráðuneytinu hitt Samband íslenskra sveitarfélaga til að fjalla um efni skýrslunnar og fengið mjög jákvæð viðbrögð þaðan. Við höfum einnig hitt fulltrúa fjarskiptafyrirtækjanna og heyrt sjónarmið þeirra og almennt má segja að menn séu spenntir fyrir verkefninu. Það er síðan verkefni okkar í ráðuneytinu að ýta þessum metnaðarfullu markmiðum í framkvæmd. Ef að líkum lætur munum við sjá þess merki í fjarskiptaáætlun sem ég hyggst leggja fyrir þingið í haust.



[11:22]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og þakka svör ráðherra svo langt sem þau ná. Það þarf auðvitað að sjá fjarskiptaáætlunina sem kemur í framhaldi af þessum tillögum.

Við erum að glíma við viðvarandi vanda þó að það sé rétt sem hér hefur komið fram að að mörgu leyti stöndum við vel. Þó eru ákveðin svæði á landinu utan við þá þjónustu sem við viljum hafa um allt land. Þetta stafar upphaflega frá því þegar Síminn var seldur, þá gleymdu menn eða vildu ekki og töldu ekki hægt að halda grunnnetinu utan við söluna og tryggja þannig að dreifikerfið yrði til staðar í landinu í sameign þjóðarinnar. Síðan yrði þjónustan í samkeppni á því neti. Þá voru skilgreind markaðssvæði og síðan stofnaður fjarskiptasjóður til að bæta upp á þeim svæðum þar sem markaðurinn mundi ekki ráða við þjónustuna. Reyndin varð sú að vandræðin urðu hvað mest þar sem hafði verið skilgreint markaðssvæði og menn réðu svo ekki við það. Það hafði hins vegar verið búið ágætlega að þeim sem voru undir fjarskiptasjóði. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við vöndum okkur við það núna að ná utan um þetta og vísum þessu ekki alveg yfir á markaðinn eins og hæstv. ráðherra gerði hér, heldur reynum að tryggja það sem er aðalmarkmiðið, að það verði alþjónusta í sambandi við nettengingar um allt land.

Samfylkingin lagði á haustþinginu fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum. Þar er einmitt áskorun til innanríkisráðherra um að leggja fram tímasetta og kostnaðargreinda áætlun um uppbyggingu háhraðatenginga og hringtengingu ljósleiðara um land allt. Við styðjum að sjálfsögðu alla þá viðleitni sem hér kemur fram til að tryggja jafnræði á milli svæða og byggða í þessu landi og tryggja að allir hafi jafnan aðgang að háhraðanettengingum. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir heimilin í landinu, fyrir búsetuskilyrði og fyrir atvinnulífið á öllu landinu og þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til dáða varðandi framhaldið.



[11:24]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Uppbygging háhraðatenginga úti um land getur ekki eingöngu verið á markaðslegum forsendum. Þannig er það nú bara og þess vegna þarf ríkið að koma myndarlega inn í fjarskiptasjóð til að bæta þar úr. Þetta er mikið byggða- og atvinnumál eins og hér hefur komið fram. Þetta skiptir máli varðandi menntun, heilbrigðismál, viðskipti og svo ótal margt annað og unga fólkið vítt og breitt um landið segir þegar við þingmenn komum í heimsóknir út á land að þetta sé eitt af grundvallaratriðum svo það hafi hug á því að festa búsetu til framtíðar úti á landi. Við megum ekki draga lappirnar í því mikilvæga byggðamáli sem þarna er á ferðinni.

Ég lagði ásamt fleiri þingmönnum fram tillögu til þingsályktunar á síðasta þingi um að flýta háhraðatengingu í dreifbýli og að henni yrði lokið á næstu fjórum árum. Nú hefur sá starfshópur sem hér hefur verið getið um skilað frá sér tillögum og mér finnst mjög mikilvægt að þess sjái stað í þeirri fjarskiptaáætlun sem hæstv. ráðherra leggur fram í haust að myndarlega sé tekið á þessu máli.

Ég er ekkert allt of bjartsýn á að það verði. Ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára sem rædd var hér á dögunum gerir ekki ráð fyrir miklum fjármunum í samgöngur, fjarskipti eða aðra uppbyggingu. Þetta er undir þessari ríkisstjórn komið og dugar ekki að tala fjálglega um þessi mál ef engin meining er á bak við.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði í ágætri grein, með leyfi forseta:

„Það er framkvæmdakraftur í stefnu stjórnarflokkanna í þessu mikla framfaramáli“ sem snertir marga þætti. Það er (Forseti hringir.) vonandi að þau orð hans skili sér þá í fjárlögum og fjarskiptaáætlun hæstv. ráðherra.



[11:27]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli og ekki síður fyrir samstarfið í umræddum starfshóp. Það var ánægjulegt að vinna með hv. þingmanni að þessu mjög svo spennandi verki og þótt það hafi tekið um ár að skila af okkur þeirri vinnu sem okkur var falin ber þessi skýrsla þess merki að mikil vinna liggur að baki. Einnig vil ég þakka nokkrum embættismönnum sem unnu óeigingjarnt starf, og að öðrum ólöstuðum vil ég nefna sérstaklega umsjónarmann fjarskiptasjóðs, Ottó Winther, Sigurberg Björnsson hjá innanríkisráðuneytinu, Hrafnkel V. Gíslason hjá Póst- og fjarskiptastofnun, að ógleymdum þeim ráðherrum sem að málinu koma.

Þessi vinna mín með embættismönnunum gefur mér nýja sýn á embættismannakerfið sem oft er mikið umdeilt. Þessi metnaðarfulla skýrsla sýnir hvernig hægt er að virkja þá þekkingu og mannauð sem fyrir hendi er í kerfinu ef markmið og vilji stjórnvalda er skýr eins og hann hefur verið hjá þessari ríkisstjórn og skilar sér inn í störf þessa starfshóps. Að komin sé gróf kostnaðaráætlun á nánast hvern einasta sveitabæ á landinu er meira en við gerðum okkur vonir um í upphafi ferðar, og ekki bara það heldur raunhæf tillaga um að klára það verk árið 2020 í samstarfi við sveitarfélögin í landinu.

Sérstaklega er ánægjulegt hvað sveitarstjórnarmenn taka jákvætt í tillögurnar þó að einhver kostnaður og fyrirhöfn gætu lent á sveitarfélögunum. Allir gera sér grein fyrir því að svona háleit markmið nást ekki nema með samstilltu átaki hjá íbúum, sveitarfélögum og ríki. Enginn efast um hvað það er brýnt að koma á öflugri háhraðanettengingu á landinu öllu ef við á annað borð ætlum að halda landinu í byggð. Vona ég að samstaða verði í þessum sal um að forgangsraða þannig að byrjað verði á veikustu byggðunum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra að ráðherra er jákvæð í málinu og hefur reyndar alltaf verið. Á það bæði (Forseti hringir.) við um núverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi innanríkisráðherra og trúi ég því að hún fylgi málinu eftir eins og hún hefur getið hér í fjarskiptaáætlun og komi með þetta inn í þingið í haust.



[11:29]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Auðvitað er internetið ekkert annað en bóla en sem slík orðin ansi þrálát og ekkert fararsnið á henni. Það eru engar pólitískar deilur um það markmið sem skýrsluhöfundar lýsa hér í dag. Þetta hefur verið viðfangsefni stjórnmálanna í rúma tvo áratugi og getuleysi okkar í því að byggja upp þau svæði þar sem hefur verið markaðsbrestur er sýnidæmi um það hvernig regluverkið getur stundum orðið til trafala. Við þurfum að búa við kerfi sem gerir okkur kleift að tryggja öllum það nútímasamgöngukerfi sem netið er þannig að 100 megabæt fyrir 2020 finnst mér vera háleit og góð markmið sem ég styð. Auðvitað eiga stjórnmálin að ná saman um þetta verkefni.

Því miður gerðist sá fáheyrði atburður í umhverfis- og samgöngunefnd í gær að tillaga Pírata um jafnt aðgengi að internetinu, þingsályktunartillaga sem er samstofna því máli sem hér er á ferðinni, var felld með liðssafnaði meiri hlutans, alveg ótrúleg og dæmalaus aðgerð sem var ekki rökstudd með neinu öðru en að það væri verið að vinna verkið á öðrum vettvangi. Ég hefði haldið að einmitt á þessu sviði þar sem hægt er að ná breiðri pólitískri samstöðu, þar sem breið pólitísk samstaða er mikilvæg, ættu menn að fagna því þegar aðrir koma með hugmyndir sem eru samstofna þeim sem verið er að vinna að, sérstaklega ef útséð er að það felur ekki í sér fjárútlát og er meira til þess að styrkja verkefnin. Píratar hafa sýnt sig sem stjórnmálaflokk sem hefur sérstakan áhuga á og leggur áherslu á þennan málaflokk (Forseti hringir.) og ætti frekar að vera nokkuð sem við (Forseti hringir.) í pólitíkinni tökum utan um og fögnum.



[11:31]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að taka tölvuna mína með í stólinn. Það er kannski smástílbrot en iPad-inn minn varð batteríslaus þannig að ég verð bara að gera þetta svona. Pappírinn er einhvers staðar annars staðar.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór af stað með mjög flott starf, ráðherra og þingmaðurinn. Þessi skýrsla liggur fyrir, vel og faglega unnin, frábært að sjá þessi háleitu markmið um að þetta aðgengi verði að veruleika varðandi þessa innviði, að það sé 100 megabæta lágmarksgrunnþjónusta um allt land, þ.e. að 99,9% landsmanna hafi aðgang að því 2020. Það verður orðinn eitthvað meiri hraði þá en samt sem áður eru 100 megabæt á sekúndu frekar gott. Jafnvel verður það alveg ágætt eftir fimm ár. Innviðirnir þýða náttúrlega að fólk hefur aðgang að þessu hraða neti en það sem hefur verið að gerast í Bandaríkjunum og Evrópu er mikill bardagi um lagalegu stöðuna, þ.e. að tryggja að fjarskiptafyrirtækin geti ekki mismunað fólki, stýrt því og skemmt samkeppnisstöðu, m.a. nýsköpunarfyrirtækja, með því að segja: Nei, þið verðið að borga ofboðslega mikið extra hérna. Ímyndum okkur að einhver væri að reka hótel og yrði að borga extra fyrir ákveðinn þrýsting á heita vatninu, annars væru gestirnir bara með óþægilega sturtu. Það er það sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er það sem baráttan hefur verið um úti í heimi.

Evrópa er farin að taka vel á þessu og Obama fór núna af stað með „Net Neutrality“ sem það er „basically“ kallað, leiðinlegt orð en þýðir að fjarskiptafyrirtæki mega ekki fokka okkur. Það sem Obama fór af stað með var að tryggja að fjarskiptafyrirtækin gætu ekki gert það. Þetta er það sem er verið að gera um allan heim. Eitt er mikilvægt, (Forseti hringir.) það að tryggja að innviðirnir séu til staðar, þetta er frábært, gott innlegg og góður þrýstingur í þá áttina en það tryggir líka réttarstöðuna, að fjarskiptafyrirtækin geti ekki verið að mismuna fólki inni á þessum (Forseti hringir.) … Það er það sem þingsályktunartillagan býður upp á og bíður bara eftir að Höskuldur sem hefur málið í sinni hendi aðstoði við(Forseti hringir.) að koma þessu …



[11:34]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur ágætlega fram í þessari umræðu hversu miklu máli það gæti skipt að skipa starfshópa með öðrum hætti en hér var gert þó að ég ætli ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem þar var unnin og þeirri niðurstöðu sem þar kemur fram. Þar velur ríkisstjórnin það helmingaskiptafyrirkomulag að skipa sem formann þingmann frá Sjálfstæðisflokknum og einn þingmann frá Framsóknarflokknum, síðan ekki fleiri. Síðan koma tillögur frá Samfylkingu, hér eru nefndir Píratar og aðrir sem hafa heilmikið inn í málið að leggja og Vinstri grænir. Þeir koma núna að málinu þegar skýrslan liggur fyrir. Í þessu felst engin gagnrýni á skýrsluna, eins og ég sagði, en þetta er mikil gagnrýni á vinnubrögðin þar sem menn skilja 50% þjóðarinnar eftir þegar verið er að fjalla um málin og undirbúa þau fyrir þingmál. Ég segi þetta bara til að menn hafi það í huga. Þetta er því miður gert svona miklu víðar. Það er forvitnilegt að bera þetta saman við þá áætlun sem unnin var um jöfnun húshitunarkostnaðar. Þar var formaðurinn frá Sjálfstæðisflokknum sem var í stjórnarandstöðu í tíð fyrri ríkisstjórnar og vinnubrögðin allt öðruvísi.

Það sem mig langaði til að bæta við inn í umræðuna var að vart hefur orðið óþreyju hjá mjög mörgum sveitarfélögum og sum hver þeirra standa þannig að þau treysta sér til þess að fara í flýtiframkvæmdir varðandi lagfæringu á nettengingum og alþjónustunni á svæðinu. Mig langar aðeins að heyra frá bæði hv. málshefjanda, Haraldi Benediktssyni, og eins hæstv. ráðherra um það hvernig verði farið með þessi sveitarfélög. Þetta má ekki verða til þess að við vísum málinu inn í fjarskiptaáætlun, það tefjist sem þar er að gerast, þær lagfæringar sem eru að fara í gang á þessum svæðum, vegna þess að menn óttist að þeir verði út undan hvað varðar fjárveitingar. Mig langar að heyra aðeins sjónarmiðin hvað þetta varðar vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að allri þessari framkvæmd verði hraðað, ég tek undir það sem kom fram í umræðunni, það væri ráð að snúa sér fyrst að þeim sveitarfélögum (Forseti hringir.) þar sem ástandið er verst.



[11:36]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir hennar framlag til hennar. Eins og hér hefur komið fram er þetta afskaplega gott dæmi um viðfangsefni þar sem þverpólitískt samráð er algjört grundvallaratriði. Stefnumörkun má ekki vera þannig í þessum málaflokki að hún þoli ekki kosningar og breytingar á ríkisstjórn eða meiri hluta o.s.frv. Ég óska eiginlega bara eftir því að hæstv. ráðherra tjái sig um það í lokaaðkomu sinni að umræðunni. Það er ekki til fyrirmyndar að við séum að ræða skýrslu sem er sett fram af meiri hlutanum í einhverjum skilningi og við séum að ræða tillögu til þingsályktunar sem borin er fram af VG eða tillögu Pírata sem var í raun og veru hafnað í umhverfis- og samgöngunefnd í gær. Þetta er bara svo stórt mál að við erum í raun og veru að tala um lífskjör í landinu og möguleika til þess að halda byggð í því. Það snýst líka um það að landið sé aðgengilegt, spennandi, valkostur víðar en á höfuðborgarsvæðinu, að það sé spennandi valkostur fyrir einstaklinga, fyrir fólk og fyrirtæki, fyrir stjórnsýslu og sprotafyrirtæki, fyrir nýsköpun o.s.frv., að þetta séu aðgengilegir innviðir og samkeppnishæft lagaumhverfi eins og Píratar hafa lagt áherslu á varðandi réttarstöðuna. Píratar hafa sérhæft sig sérstaklega í þessum málaflokki og eigum við ekki þá að nýta okkur það þverpólitískt, allt þingið, og njóta þess þegar tilteknir þingflokkar leggja meiri áherslu á tiltekinn málaflokk en annan þegar ekki er um að ræða pólitískan ágreining? Er ekki skynsamlegt að gera það þannig?

Ég bið hæstv. ráðherra að kommentera á það með hvaða hætti sé hægt að koma þessu máli á þá braut að við tökum það áfram þverpólitískt í samráði allra flokka til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag (Forseti hringir.) þvert á flokka. Annað er bara ekki ábyrgt.



[11:39]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er sérstaklega ánægð með að fá þessa umræðu hér í dag, nú þegar umræða um skýrslu starfshóps hæstv. innanríkisráðherra um landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða hefur aðeins náð að þroskast. Vinna hópsins og skýrsla hans skilar okkur vel á veg í stefnumótun en í framhaldi af henni þarf að taka ákvarðanir og þess vegna var gott að heyra að hæstv. ráðherra er byrjaður að vinna úr tillögunum og hvet ég til þess að áfram verði unnið hratt og vel.

Það er einkum þrennt sem kemur upp í samræðum úti um landið um þessi mál í kjölfar skýrslunnar, það er mikilvægi þess að skýra samskipti og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um verkefnið fram undan, það er stefnumörkun varðandi eignarhald á dreifikerfinu, ljósleiðaranum, því að nú þegar er eignarhaldið mjög flókið og það er breyting á ríkisstyrkjareglum.

Eignarhaldið er flókið. Nú þegar höfum við eignarhald þar sem sveitarfélög eiga ljósleiðarann, þar sem ljósleiðarinn er sameign sveitarfélaga og fjarskiptafyrirtækja og þar sem fjarskiptafyrirtækin eiga ljósleiðarann jafnvel þó að sveitarfélög hafi lagt fjármagn til verksins. Það er mjög mikilvægt að marka stefnu þarna og ég óska eftir sýn ráðherrans á það. Það kemur inn á réttarstöðuna sem fleiri þingmenn hafa minnst á í umræðunni um hvar notendur koma til með að standa.

Mig langar líka að beina til ráðherrans spurningu um hvenær við megum vænta innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/61/EB, um lækkun kostnaðar við uppbyggingu á háhraðanetum, (Forseti hringir.) sem getur aukið möguleika til samnýtingar rekstraraðila.



[11:41]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það var svolítið upplýsandi og mikilvæg reynsla að fara á fund með sveitarstjórnarmönnum í síðustu kjördæmaviku uppi í Kjós sem er bara rétt við borgarmörkin, mikil sveitasæla þar. Þar er sem sagt það lélegt internetsamband að fólk getur í raun og veru ekki haldið almennilega uppi atvinnurekstri þar sem þarfnast einhverra gagnaflutninga. Ég heyrði dæmi af manni þar sem var að reyna að stunda einyrkjastarfsemi í arkitektúr og honum var það eiginlega ókleift uppi í Kjós vegna þess að það var ekki hægt að hala niður stórum PDF-teikningum nema byrja á því snemma að morgni og vænta þeirra svo síðdegis. Þetta er bara uppi í Kjós og þetta er auðvitað óviðunandi. Ég held að það sem við verðum að átta okkur á, og ég held að allir séu farnir að átta sig á því og að það sé algjör samstaða um það, að gott aðgengi að internetinu er orðið alveg jafn mikilvægt og að hafa veg, rafmagn og vatn. Þetta er orðin ein af grunnþörfum nútímasamfélagsins á 21. öldinni.

Ég hef til dæmis heyrt ágætissögur af Ástralíu sem er strjálbýlt land en hefur tekið það mjög alvarlega að fara í uppbyggingu á þessum fjarskiptum. Við Íslendingar eigum ágæta sögu í því að fara í uppbyggingu á innviðum eins og hitaveitu. Ég hvet okkur öll, hvet ráðherrann til að fara í uppbyggingu á internetaðgengi, fjarskiptum, af sömu röggsemi og farið hefur verið oft og tíðum í aðra uppbyggingu (Forseti hringir.) á innviðum á Íslandi. Það er áhyggjuefni sem hér hefur verið komið inn á að í ríkisfjármálaáætlun eru eiginlega engir auknir peningar í opinberar fjárfestingar. Það er smááhyggjuefni að það vantar upp á röggsemina.



[11:44]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þingsályktunartillaga Pírata hefur svolítið strandað í umhverfis- og samgöngunefnd, annað forgangsmál okkar á þessu þingi, það fór til nefndarinnar 24. september og hefur verið þar, gestakomur eru búnar, drög að nefndaráliti er tilbúið og við hljótum nú að finna einhverja lausn þar sem hægt er að klára það vegna þess að þessi tillaga hérna, tillaga sem framsóknarmenn hafa verið með og þessi skýrsla sem við höfum verið að ræða miða að því að styrkja innviðina. Það er grundvallaratriði. Við tryggjum ekki samkeppnisstöðu á markaði nema réttarstaðan sé trygg samhliða. Þetta er „Net Neutrality“. Obama er búinn að höggva á hnútinn eins og ég hef nefnt áður og er farinn af stað að leysa málið í Bandaríkjunum. Í Evrópu eru menn að leysa þetta mál. Við þurfum að tryggja þetta á Íslandi líka. Ef við ætlum að tryggja samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja sem eru að nýta sér upplýsingatækni og internetið verðum við að tryggja þetta líka. Það eina sem píratar eru að gera er að styðja við þá vinnu sem þegar er farin af stað hjá stjórnarflokkunum.

Í umsögn um mál okkar pírata frá Póst- og fjarskiptastofnun — ég bið hæstv. innanríkisráðherra að hlusta á það. (Innanrrh: Ég er að hlusta.) Já. Takk. Í lokaorðum umsagnarinnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Málefni notenda intemetsins eru sífellt meira í brennidepli. Samkvæmt óinnleiddu Evrópuregluverki fjarskipta frá árinu 2009 er aðgangur að interneti nú flokkaður sem hluti af lágmarksmannréttindum innan ESB. Mikilvægt er að tryggja öllum landsmönnum slík réttindi og að settur verði reglurammi um það hvort og með hvaða hætti markaðsaðilar geti að öðru leyti haft áhrif á það hvernig borgarinn nýtir sér internettenginguna.“ — Þetta er lykilatriði. — „Því telur stofnunin mikilvægt að Alþingi hugi að umræðunni um nethlutleysi með ofangreint í huga.“

Ég trúi ekki öðru en að við getum (Forseti hringir.) fundið lausnina á … formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, tryggi það að koma þessu í gegn. Þá styrkjum við alla þessa vinnu sem stjórnarflokkarnir hafa verið í.



[11:46]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir í þessum umræðum en leyfi mér að bregðast við ákveðnum þáttum sem komið hafa fram. Ég vil segja aðeins um stefnumörkun og sérhæfingu stjórnmálaflokka að Sjálfstæðisflokkur getur þá orðið sérhæfður í sjávarútvegsmálum ef vilji er fyrir verkaskiptingu í þeim efnum, en ég er ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum sem komu fram með því að segja þetta. Vegna orða hv. þingmanns sem hér talaði áðan vil ég þó segja að það er einmitt megintillaga okkar að skilgreina þessa háhraðatengingu, breiðbandstengingu, sem grunnþjónustu. Í því felast réttindi fyrir neytendur, borgarana. Það er grundvallarmál og við getum sagt að við séum á svipuðum slóðum og Obama eins og hv. þingmaður lýsir hér.

Þetta er ekkert sérstakt verkefni fyrir Ísland. Þau ríki sem við berum okkur oftast saman við og búa við álíka lagaumhverfi á fjarskiptamarkaði eru að fást við nákvæmlega sömu hluti, hvernig þau byggja upp fjarskiptainnviði með samfélagslegum styrk.

Samnýting eða stefnumörkun skiptir nefnilega mjög miklu máli því að í stefnumörkun felast líka mikil tækifæri til að samnýta með öðrum framkvæmdum. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Fyrir ekki löngu síðan var boðinn út einn leggur af svokallaðri hringtengingu, ljósleiðaratengingu, á Vestfjörðum og þar er samleið með framkvæmdum Orkubús Vestfjarða sem þýðir að tilboðið í verkið er ekki nema 33% af upphaflegri kostnaðaráætlun. Stefnumörkun skiptir máli og samlegðaráhrif með öðrum veituframkvæmdum skipta gríðarlega miklu máli. Það er einmitt þess vegna sem þessi stjórnarmeirihluti og ríkisstjórn hefur þegar hafið uppbyggingu á fjarskiptainnviðum með því að hafa í fjárlögum þessa árs lagt til verulega aukna fjármuni til að styrkja hringtengiverkefni.

Vegna spurninga Guðbjarts Hannessonar segir í ályktun Alþingis um byggðamál frá vori 2014 að fyrst eigi að horfa til þeirra byggða í áherslum ályktunarinnar á fjarskiptainnviði og uppbyggingu á fjarskiptum á þessi veikari svæði. Starfshópurinn markaði ekki sérstaklega stefnu í þeim efnum (Forseti hringir.) en dregur saman nokkur álitaefni í lok hans. Fyrst og fremst vil (Forseti hringir.) ég þakka fyrir þessa umræðu.



[11:48]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Auðvitað kemur ekki á óvart að menn séu sammála um að brýnt sé að ná árangri á fjarskiptasviðinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar um langan tíma að þetta sé eitt mikilvægasta frelsismál sem við stöndum frammi fyrir sem íbúar í þessu landi, að geta ráðið því sjálf hvar við búum. Það er rétt sem hér hefur komið fram, við erum ekki bara að tala um byggðir fjarri höfuðborgarsvæðinu, það eru markaðsbrestir í nágrenni okkar líka. Ég hygg að við séum öll sammála um þetta og nú þurfum við bara að leita leiða til að leiða málið áfram. Það er á forræði mínu, a.m.k. í bili, að vinna úr þeim tillögum sem hér koma fram og síðan mun þeirra sjá stað í þinginu.

Ég tek undir það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði þegar hann stal af mér orðinu í lokaræðu sinni þar sem ég ætlaði að tala um samlegðaráhrif út af veituframkvæmdum. Það er mjög mikilvægt. Við þurfum að fara í veituframkvæmdir víða um land og það er náttúrlega alveg ómögulegt að verið sé að grafa skurði hlið við hlið og auka stórkostlega kostnað þegar hægt er að ná miklum samlegðaráhrifum og nýta þær brautir til að leggja fjarskiptakapla um leið. Við þurfum að líta á þessi kerfi öll heildstætt. Við þurfum að líta á vegina, rafmagnið og fjarskiptin, þetta er allt saman orðið hluti af grunnþjónustu. Það er enginn lengur að tala um að þetta sé neinn lúxus. Verkefnið núna er að koma því áfram.

Ég veit að allir eru óþolinmóðir og menn hafa verið óþolinmóðir í langan tíma. Auðvitað snýst þetta allt um fjármagn. Tillagan hér er sú að ríkið komi myndarlega að málum og það er það verkefni sem blasir við fram undan.