144. löggjafarþing — 100. fundur
 4. maí 2015.
notkun úreltra lyfja.

[15:10]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í fréttum hafa í kringum 200 sjúklingar greinst með lifrarbólgu og þeim standa einungis til boða lyf sem þykja úrelt bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þau eru vissulega ódýrari í innkaupum, en aukaverkanir eru miklar og miklu minni svörun. Það kom líka fram að hluti þessa hóps er afar veikur og getur í rauninni ekki beðið. Nú er það svo að lifrarbólga C er einn algengasti lifrarsjúkdómur á Vesturlöndum og ein algengasta ástæða skorpulifur og lifrarbilunar og algengasta orsök lifrarígræðslu. Það kom fram hjá Sigurði Ólafssyni sem er yfirlæknir og sérfræðingur í meltingarsjúkdómum að honum þyki algjörlega óásættanlegt að fólk með lifrarbólgu C fái ekki tilskilin lyf og það eigi sér enga hliðstæðu í nágrannalöndunum.

Nú er lyfjaafgreiðslunefnd farin að hafna umsóknum um sjúkrahúslyfin, þ.e. svokölluð S-merkt lyf, á grundvelli þess að ekki sé lengur svigrúm til þess á fjárlögum ársins í ár. Þetta er staða málsins þrátt fyrir að Ísland sé nú þegar eftirbátur nágrannaþjóðanna, sem lýsir sér fyrst og fremst í því að alvarlega veikir sjúklingar hér á landi njóta ekki sömu meðferðarúrræða og sjúklingar annarra þjóða og hafa því miður ekki gert um nokkurra ára skeið. Það er vissulega þannig og kom fram á fundi fjárlaganefndar í morgun þegar velferðarráðuneytið kom þar í heimsókn að S-merkt lyf verða innan fjárhagsramma enda engin ný lyf tekin inn. Það þýðir að nýrnasjúklingar, fólk með lifrarbólgu eða með krabbamein, fá ekki ný lyf sem þeim gætu annars staðið til boða. Nú er ég að tala um lyf sem tekin hafa verið í notkun annars staðar á Norðurlöndunum eða Bretlandi, ekki lyf sem við erum fyrst að prófa.

Í ljósi umræðunnar um helgina og samtals okkar hæstv. ráðherra um ríkisfjármálaáætlun sem við áttum fyrir helgi þá langar mig til þess að spyrja ráðherrann hvort hann sé enn þá sannfærður um að búið sé að ná jafnvægi í S-merktum lyfjum, eða hvort hann taki undir með þeim sem ég vitnaði í (Forseti hringir.) og telji að það þurfi að innleiða ný lyf.



[15:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Það er ekki á borði fjármálaráðherrans að taka ákvörðun um hvaða lyf eru á innkaupalistanum sem S-merkt lyf, en það er hins vegar sjálfsagt að gera grein fyrir því að það hefur lengi verið vandi hvað varðar S-merktu lyfin að sjúkrahúsin hafa farið fram úr fjárheimildum. Hér segir hv. þingmaður að menn muni halda fjárlög á þessu ári vegna þess að ekki verði ný lyf tekin inn. Þá segi ég: Nei, menn munu halda fjárlög á þessu ári varðandi þennan lið vegna þess að menn eiga að halda fjárlög á hverju einasta ári varðandi slíka liði. Það er ástæðan.

Ef verið er að bera undir mig þá spurningu hvort ég vilji að útveguð séu betri lyf fyrir þá sem hafa lifrarbólgu C þá segi ég: Já, ég vil endilega að við fáum sem allra best lyf fyrir þá sjúklinga og aðra sjúklinga sem þurfa á dýrum lyfjum að halda, við þurfum að gera við þá sem allra best á sama tíma og við höldum áætlun í ríkisfjármálunum.

Sem betur fer hefur okkur auðnast á undanförnum árum að bæta í framlög til Landspítalans og við höfum getað haldið í við vöxt kostnaðar vegna S-merktra lyfja þrátt fyrir að við höfum haft stóru fjárlagagati að loka. Ætli við séum ekki með á þessu ári rúma 3 milljarða umfram það sem rann til Landspítalans þegar við tókum við árið 2013 og þar eru S-merktu lyfin. Þetta er flókinn málaflokkur. Það er ekki einfalt að taka einstök lyf og segja: Þetta er lyfið sem okkur vantar núna og afgreiða eitt lyf í einu, heldur þarf að hafa sérþekkingu til þess að meta heilt yfir hvar helst brennur í þessum málum. Því miður stöndum við frammi fyrir því sama og aðrar þjóðir: Við getum ekki keypt öll nýjustu, dýrustu lyfin við öllum mögulegum sjúkdómum.



[15:14]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að spyrja hann er sú að fjármunirnir eru undir fjármálaráðuneytinu komnir, velferðarráðuneytið óskar eftir fjármunum, Sjúkratryggingar óska eftir fjármunum, og það er fjármálaráðuneytið sem gefur á endanum græna ljósið. Það er alveg ljóst að hægt er að lengja líf sjúklinga, við vitum það, með því að bjóða upp á nýrri lyf en gert hefur verið. Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. fjármálaráðherra er sú að við áttum samtal um akkúrat þetta varðandi ríkisfjármálaáætlunina sem hann lagði fram. Ráðherrann taldi að S-merkt lyf væru komin í jafnvægi og taldi ekki beinlínis þörf á, fyrir næstu árin sem hann lagði fram áætlun um, auknu fjármagni í þennan lið. Því er ég ekki sammála.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra því þetta er undir honum komið líka, ekki einungis heilbrigðisráðherra. Þess vegna finnst mér skipta máli hvaða leið hæstv. ráðherra vill fara, hvaða aðferð hann vill nota. Telur hann að það þurfi að auka fjármagn í þennan lið? Ég geri mér alveg grein fyrir því að hann (Forseti hringir.) vex okkur yfir höfuð ef við gerum ekki eitthvað til að stemma stigu við því og geri mér líka grein fyrir því að við getum ekki innleitt öll lyf. En (Forseti hringir.) við höfum ekki innleitt ný lyf mjög lengi vegna fjárhagsstöðu okkar og það er augljóslega komið að þeim tíma að við þurfum að gera það.



[15:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í þeirri ræðu sem hv. þingmaður vísar til þá tók ég fram að við værum búin að ná utan um kostnaðinn vegna S-merktra lyfja og ég teldi ekki að kostnaðurinn væri vanáætlaður. Það hafði verið sérstakt vandamál að við höfum alltaf farið fram úr áætluðum kostnaði, t.d. þegar flokkur hv. þingmanns var í ríkisstjórn fórum við alltaf fram úr í S-merktu lyfjunum í raunverulegum kostnaði borið saman við það sem þingið hafði afgreitt. (BjG: Það eru níu mánuðir eftir af árinu.) Það er stjórnenda Landspítalans og þeirra sem bera ábyrgð á þessum málaflokki sérstaklega, sjúkrahússlyfjanna, að forgangsraða í þessum efnum. Þetta er faglegt úrlausnarefni. Það kemur ekki inn á borð fjármálaráðherrans að flokka lyf inn á svona lista. Það er alrangt sem hv. þingmaður segir að þetta sé með einhverjum hætti málefni fjármálaráðherra. Fjárheimildirnar eru afgreiddar af þinginu.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir hálfsorglegt þegar menn koma hér (Forseti hringir.) og hvetja til þess að stofnanir fari fram úr fjárlögum. Bara sjálfsagt og endilega með stuðningi ráðherranna. (BjG: Það gerði ég ekki.) Það er það sem hv. þingmaður er að segja. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður spyr eftir því (Gripið fram í.) hvort ég ætli ekki að gefa því blessun mína að menn fari fram úr fjárlögum. (Gripið fram í.) vegna þess að (Forseti hringir.) það vanti einhver tiltekin lyf. Það var akkúrat það sem þú sagðir. (BjG: Rangt.)

(Forseti (KLM): Forseti vill biðja þingmenn að halda sig við ræðustólinn þegar fyrirspurnir eru settar fram.)