144. löggjafarþing — 100. fundur
 4. maí 2015.
aðgangur landsmanna að háhraðatengingu.

[15:25]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að taka upp þráðinn frá sérstakri umræðu í síðustu viku um jafnt aðgengi landsmanna að internetinu. Við píratar erum með þingsályktunartillögu þess efnis sem liggur núna inni í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur verið svolítið tregt að hreyfa við henni þar, en við gerum okkar besta til að sjá hvort ekki sé hægt að finna einhvern flöt á því máli, sér í lagi í ljósi þess að nú er komin skýrsla frá starfshópi innanríkisráðherra sem heitir Ísland ljóstengt. Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór fyrir þeim hópi. Þetta er mjög góð skýrsla og aðgerðaáætlanir þar til að tryggja að innviðirnir sjálfir sem tryggja netþjónustuna séu til staðar.

Jafnframt er annað mjög gott sem kemur fram í skýrslunni, í fyrsta lið að aðgangur að háhraðafjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standi öllum landsmönnum til boða óháð búsetu. Grunnþjónustuatriðið er mjög mikilvægt en í þessu hérna er talað um aðallega óháð búsetu. Ég sé ekki annað í skýrslunni þar sem kemur að tryggja það sem er kallað nethlutleysi sem er akkúrat vinkillinn sem við píratar höfum tekið sem þýðir að þegar maður er kominn með þetta grunnnet upp og hraðinn sem á að vera 100 megabæt á sekúndu 2020 sé til staðar, já, en að fjarskiptafyrirtækin geti ekki takmarkað hraðann á öðrum forsendum. Réttarstaðan verður að vera trygg.

Þetta er það sem þingsályktunartillaga okkar pírata miðar að og segir í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar að sé fullt tilefni til að grípa til ráðstöfunar til að koma í veg fyrir þessa þætti og mikilvægt að Alþingi hugi að umræðunni um nethlutleysi í þessum efnum.

Það er rosalega gott sem er í gangi, vinnan er byrjuð og það er byrjað að kalla þetta grunnþjónustu og fara í þá áttina. Ég (Forseti hringir.) hefði viljað styðja við þessa vinnu með því að þingið ályktaði að það skyldi tryggja þessa réttarstöðu, nethlutleysið. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hann (Forseti hringir.) sjái það eitthvað sem trufli eða jafnvel hafi stuðning við starfið að þetta sameiginlega verk okkar tryggi þessa hagsmuni.



[15:27]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt úr umræðunni hér í síðustu viku um fjarskiptamál að það var almennur samhljómur í þingsal um mikilvægi þess að ljúka við uppbyggingu á fjarskiptanetinu sem og það að hér séum við að tala um grunnþjónustu alveg með sama hætti og við erum að tala um vegi sem við keyrum á um landið. Það er mjög mikilvæg niðurstaða sem er sameiginleg að mínu mati hjá þingmönnum hér. Og að því er núna unnið af hálfu stjórnvalda á grundvelli þessarar skýrslu sem hv. þingmaður nefndi. Því er ekki lokið, þ.e. að finna hvaða leiðir verða farnar, en viljinn stendur alveg skýr til þess að þetta verði gert. Og ég hef verið eindregið þeirrar skoðunar að hérna sé um að ræða eitt mesta frelsismál fólks til búsetu og vinnu hér í landi, að geta ráðið sjálft hvar það býr og geta stundað sína atvinnustarfsemi þaðan. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem er mikill vilji af hálfu þessarar ríkisstjórnar til að halda áfram með.

Að sjálfsögðu fögnum við því öll að það fáist frekari stuðningur við slík mál í þinginu og að umræða sé góð í þinginu, en það er hins vegar ekki mitt verkefni að forgangsraða málum í nefndum, það er náttúrlega á vettvangi þingmanna að gera það. Ég er ekki svo lánsöm að vera ein af þessum 63 þingmönnum þannig að ég mun ekki hafa afskipti af því með hvaða hætti þingnefndir forgangsraða sínum störfum. Það þykir mér ekki vera mitt hlutverk.

Ég get þó sagt aftur að það mikilvægasta í þessu öllu er að við erum sammála um þessi grunnviðmið. Síðan snýst þetta allt um fé eins og við ræddum. Við þurfum að fá peninga til að gera hlutina. Orð eru dýr, eins og hv. þingmaður veit, þannig að við skulum passa okkur á að lofa ekki upp í ermina á okkur heldur tryggja fjármuni svo hægt sé að fara í verkið. Þá er ég viss um að til lengri tíma litið verði um að ræða eitt mesta frelsismál sem við höfum séð lengi.



[15:29]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mjög ánægjulegt að heyra. Ég vil taka meira inn í umræðuna umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar þannig að þetta sé alveg skýrt af því að formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, vildi fá að hafa aðeins meiri umræðu um þetta í nefndinni út frá réttarvinklinum þannig að það virðist ekki hafa komist alveg nógu vel til skila. Við verðum að vona bara að það klárist í nefndinni að taka þennan réttarvinkil inn, samanber það sem kemur fram í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar:

„Enn fremur til að tryggja að umferðarstýringar í fjarskiptanetum verði ekki til þess að útiloka tilteknar þjónustur og koma þannig í veg fyrir nýsköpun og samkeppni“ en dæmi um þetta eru náttúrlega erlendis. Þetta er svo mikilvægt.

Það sem ég er að reyna að gera hérna er að vekja máls á og skapa sem sagt velvilja fyrir því að við klárum þetta í umhverfis- og samgöngunefnd og spyr bara hvort það sé ekki gott að fá sérþekkingu (Forseti hringir.) pírata hvað þetta varðar, réttarstöðu hvað þetta varðar, inn í alla þessa vinnu.



[15:30]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Þingsalurinn er vettvangur þingmanna til að koma sínum skoðunum á framfæri og það var gert hérna í sérstakri umræðu um daginn og það er verið að gera það í umhverfis- og samgöngunefnd. Ef ég skil þetta mál rétt er það enn til umfjöllunar. Því er ekki lokið í nefndinni eftir því sem mér skilst. Eins og ég segi stjórnar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson skútunni þar og hann er betur til þess fallinn að útskýra vinnulagið í umhverfis- og samgöngunefnd, ég hef bara ekki hugmynd um hvernig það er.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það skiptir máli að við ræðum þessi netmál í heild sinni og rödd pírata er svo sannarlega mjög kröftug þar, það er ekki nokkur vafi á því og það vitum við hér sem störfum í þessum sal.

Aðalatriði í málinu er að við þurfum að koma okkur áfram í þessari grunnþjónustu. Það verkefni sem blasir við mér í þessum stóli sem ég sit í núna er að koma því verki áfram en umræðunni um þessi netmál lýkur aldrei.