144. löggjafarþing — 101. fundur
 4. maí 2015.
um fundarstjórn.

fjarvera ráðherra í fyrirspurn.

[17:27]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér var að ljúka dagskrárlið sem eru fyrirspurnir á fundi sem hæstv. forseti sleit áðan. Ég verð að segja að ég held að ég hafi bara aldrei séð það gerast að hv. þingmaður eigi orðastað við hæstv. ráðherra sem fer út úr þingsal áður en hann svarar hv. þingmanni í síðara svari undir slíkum lið. Var ráðherra að fara á fund? Var hann að fara að tala við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða Sameinuðu þjóðirnar eða hvað? (Gripið fram í: Súkkulaðikakan.) Hann var að fara að fá sér köku, virðulegur forseti. Ég verð bara að segja að mér finnst þetta með algjörum ólíkindum. Ég bara spyr forseta hvort þetta geti talist til sóma í þinginu að dagskrárliðurinn sé hunsaður með þessum hætti af hæstv. forsætisráðherra.



[17:27]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við þekkjum auðvitað þennan hæstv. forsætisráðherra, sem verið hefur um skamma hríð, að því að sýna hér ítrekað ótrúlega óvirðingu gagnvart samstarfsfólki sínu í þinginu og fyrir það að skorast undan því mánuðum og missirum saman að ræða við þingmenn efni sem þeir óska eftir að fá að ræða við hæstv. forsætisráðherra og er auðvitað bara sjálfsagt að verða við. Nú þegar forsætisráðherrann fæst til þess að koma og svara fyrirspurn getur hann ekki einu sinni séð sóma sinn í því að ljúka umræðunni og hlusta á síðara innleggið frá þeim sem spyr hann sem vill til að er líka formaður í stjórnmálaflokki. Um langt árabil hefur það nú talist siðvenja hér að formenn stjórnmálaflokka sýndu hver öðrum virðingu í samskiptum í þinginu.

Það er óhjákvæmilegt en að forsætisnefnd (Forseti hringir.) … þessa lítilsvirðingu gagnvart þinginu og samstarfsmönnum sínum á Alþingi sem forsætisráðherra sýnir æ ofan í æ.



[17:29]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum Helga Hjörvar og Svandísi Svavarsdóttur í þessum efnum. Mér finnst með ólíkindum að menn skuli ekki að minnsta kosti sýna þá virðingu hér í salnum að klára samtalið.

Sömuleiðis vil ég segja varðandi þá sérstöku umræðu sem fram fór áðan um kjaramálin þar sem einn hv. þingmaður missti gersamlega stjórn á skapi sínu hér í ræðustól og gargaði yfir þingheim og barði í pontuna þannig að maður hefur bara aldrei heyrt annað eins og hefur síðan ekki einu sinni þá sómatilfinningu til þess að klára umræðuna, að vera í salnum, yfirgefur bara salinn eftir einhver óhljóð og læti, það er ekki sæmandi að menn komi svona fram og láti síðan eins og það sé í lagi. Þetta er ekki í lagi. Þetta er bara langt frá því að vera í lagi.



[17:30]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég væri alveg hættur að verða hissa á lítilsvirðingu hæstv. forsætisráðherra gagnvart þinginu en í þetta sinn varð ég pínulítið hissa. Þetta er óvenjuleg tegund af lítilsvirðingu en hins vegar verð ég að viðurkenna að ég er orðinn svolítið þreyttur á því að þurfa að koma hingað og lýsa því að ég sé ekki hissa á því hvernig forsætisráðherra komi fram við þingið. Það er fullkomlega mannlegt að gera mistök, kannski af og til og útskýra þau síðan eða eitthvað því um líkt, en þetta er skýrt mynstur. Nú hljóma ég eins og biluð plata, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er skýrt mynstur og hefur verið það frá upphafi. Þetta er stanslaust og linnulaust, þetta er óþolandi, þetta er Alþingi til mikils ósóma og mér finnst enn þá skrýtnara að hæstv. forsætisráðherra sé þá ekki kominn hingað inn til að alla vega útskýra hvert hann hafi farið eða hvað hafi gerst. Við getum öll fyrirgefið, það er ég viss um, en það þarf að sýna smá virðingu, (Forseti hringir.) bara smá. Það væri heilmikið í þessu samhengi.



[17:31]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það nær sífellt nýjum hæðum, hrokinn og yfirlætið sem forsætisráðherra þessa lands sýnir okkur, samstarfsfólki sínu. Málið sem hér var rætt var lagt fram 13. nóvember á síðasta ári og nú sá forsætisráðherra ástæðu til þess að mæta í þingsal og ræða það við formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en hann hafði augljóslega ekki tækifæri eða tíma til að ljúka þeirri umræðu vegna þess að hann var hér frammi að fá sér kaffi og köku. Hvert telur hann að hlutverk sitt sé sem ráðherra í ríkisstjórn? Er það ekki að eiga hér samskipti við þingmenn eða er það eitthvað allt annað?

Hér er talað um samskiptaörðugleika, óvirðingu og ýmislegt fleira sem manni dettur í hug. Það er alveg óhætt að segja að hæstv. forsætisráðherra leggur ekkert af mörkum til að liðka fyrir þingstörfum, svo mikið er víst.



[17:32]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra sýni þinginu, sjálfum sér og þjóðinni vanvirðingu með svona háttalagi, að sitja hér ekki undir þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir bar fram og ljúki þeirri umræðu eins og venja er hér á þingi. Hæstv. forsætisráðherra liggur svo á að komast í kökur hér frammi að mér varð hugsað til þess að svona eru margir gírugir að ná stærstum hluta af þjóðarkökunni, af því að við vorum að ræða um kjaramálin hérna áðan, svo ég tengi aðeins inn í þá umræðu. En það er með ólíkindum að menn sitji hér ekki og ræði mál til enda og ljúki þeim heldur sé þeim svo mikið mál að ná sér í sneið af kökunni. Erum við á hv. Alþingi eða erum við stödd einhvers staðar allt annars staðar? Ég bara spyr.



[17:34]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga og förum með löggjafar- og fjárveitingavald, og við höfum líka eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Það hlutverk rækjum við með fyrirspurnum af ýmsu tagi, meðal annars og í tíma eins og þessum, sem er venjulega á mánudögum, með undirbúnum fyrirspurnum til munnlegs svars. Það er ótrúleg vanvirðing við þetta hlutverk okkar að klára ekki svör við slíkum fyrirspurnum og kannski í anda þess þegar stjórnarþingmenn koma hér upp og telja helst upp hversu oft við kvörtum í minni hlutanum og tala um að við gösprum og blöðrum þegar við rækjum hlutverk okkar. Ég óska eftir því að hæstv. forseti taki það upp við hæstv. forsætisráðherra að hann virði leikreglurnar í þessum sal. Ekki veitir af (Forseti hringir.) að Alþingi starfi í samræmi við reglur og hefðir.



[17:35]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina bón til virðulegs forseta, og sömuleiðis hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að það vill svo til að hann er hér í þingsal, eins og hann er svo duglegur við, um hvað þingheimur á að gera varðandi þessa hegðun hæstv. forsætisráðherra. Ef við komum hingað í pontu og kvörtum yfir hegðun forsætisráðherra, sem almættið veit að við gerum mikið af, er kvartað undan því að við kvörtum og það ýmist kallað tafir eða hvað, nokkuð sem við höfum nákvæmlega enga ástæðu til að gera nú frekar en svo oft áður.

Hvað eigum við að gera? Eigum við að biðja hæstv. forsætisráðherra um að vinsamlegast vera hérna og ljúka umræðu sem hann ætti samkvæmt öllum þeim hefðum sem ég þekki að gera? Eigum við að grátbiðja hann? Eigum við að — (Gripið fram í.) Hvað eigum við að gera, virðulegi forseti? Okkur vantar svar, þetta gengur ekki.