144. löggjafarþing — 102. fundur
 5. maí 2015.
meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti, ein umræða.
skýrsla meiri hl. stjórnsk.- og eftirln., 736. mál. — Þskj. 1255.

og 

meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti, ein umræða.
skýrsla minni hl. stjórnsk.- og eftirln., 735. mál. — Þskj. 1254.

[14:07]
Forseti (Kristján L. Möller):

Umræðan sem mun standa í eina og hálfa klukkustund fer fram eftir ákvæðum þingskapa um skýrslur.



[14:07]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag er Alþingi Íslendinga sett í afar sérkennilega stöðu, svo ekki sé meira sagt. Hér mæli ég fyrir meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem sett er fram við minnihlutaálit nefndarinnar sem er viðbrögð minni hlutans í nefndinni við áliti umboðsmanns Alþingis um málefni fyrrverandi innanríkisráðherra.

Virðulegi forseti. Ég finn þessari málsmeðferð hvergi stað í þingskapalögum og er hún einsdæmi í sögu þingsins. Vissulega skapar þessi ákvörðun forseta þingsins fordæmi til framtíðar en sýnir líka hversu brýnt það er að setja á fót lagaskrifstofu við þingið sem hefði meðal annars það hlutverk að skera úr um hvaða mál eru þingtæk og hver ekki.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég fór fram á það við þingfundaskrifstofu Alþingis í gær að breyta yfirskrift þskj. 1255, sem ég er 1. flutningsmaður á, úr skýrslu og yfir í álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni og fer ég fram á það við forseta að úr verði bætt strax.

Nú les ég álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um meðferð trúnaðargagna í innanríkisráðuneyti og embættisskyldur innanríkisráðherra, með leyfi forseta. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Karl Garðarsson, Haraldur Einarsson, Brynjar Níelsson og Sigríður Á. Andersen.

„Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lítur svo á að máli fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hafi lokið með áliti umboðsmanns Alþingis sem birt var 22. janúar 2015. Að auki hefur viðkomandi borið pólitíska ábyrgð með afsögn sinni sem ráðherra. Rétt er að geta þess að fyrrum aðstoðarmaður ráðherra hefur hlotið dóm fyrir brot í starfi.“

Virðulegi forseti. Ég ítreka niðurstöðu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Málinu er lokið.



[14:10]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er fyrsti talsmaður minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að skýrslu um svonefnt „lekamál“. Að skýrslunni standa auk mín hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir og Brynhildur Pétursdóttir.

Þetta er lokaþáttur í alllöngu ferli hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, en fram undir hið síðasta hef ég ekki orðið var við óeiningu innan nefndarinnar um málsmeðferðina þar til nú, þegar málið er afgreitt og til verður ríkisstjórnarmeirihluti í nefndinni undir forustu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem talar síðan fyrir meirihlutaskýrslu sem hér hefur verið lesin upp. Þar er vísað til þess að umboðsmaður Alþingis hafi sent frá sér sitt álit og þar með sé málinu lokið, en auk þess hafi ráðherrann fyrrverandi axlað pólitíska ábyrgð með afsögn sinni.

Hvoru tveggja vil ég mótmæla. Í fyrsta lagi tók hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, það fram í bréfi sem hún sendi frá sér við afsögn sína að afsögnin væri fyrst og fremst af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. Þar með er ekki sagt að afsögn í tengslum við þetta mál hafi ekki áhrif á pólitískar lyktir þess eins og reifað er í þessari skýrslu.

Í annan stað legg ég áherslu á að umfjöllun umboðsmanns Alþingis og álitsgerð hans er miklu þrengri en sú sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur haft með höndum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd byggir á þingskapalögum sem gerð var á grundvallarbreyting árið 2011, í kjölfar efnahagshrunsins, fyrst og fremst með það fyrir augum að efla aðhalds- og eftirlitshlutverk Alþingis og festa í lög ákvæði sem snúa að upplýsinga- og sannleiksgildi ráðherra gagnvart Alþingi.

Við segjum í álitsgerð okkar eða skýrslu um þetta lekamál að skýrslan taki „til upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi með hliðsjón af þingeftirliti og þingræðisreglunni; fjallað er um öflun trúnaðarupplýsinga og varðveislu slíkra gagna í ráðuneytum, þar með talið trúnaðargagna, og loks er umfjöllun um álit umboðsmanns Alþingis vegna frumkvæðisathugunar á samskiptum innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu“.

Þetta er sem sagt efni þessarar skýrslu sem ég er að mæla fyrir. Þetta mál, lekamálið, kom fyrst inn á borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hinn 10. desember árið 2013 og þá vegna frétta sem birtust í fjölmiðlum þess efnis að líkur væru á því að trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla. Ráðherrann fyrrverandi mætti þá fyrir nefndina. Málið kom upp að nýju 11. febrúar 2014, en þá vakti hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir athygli nefndarinnar á því að ríkissaksóknari hefði vísað máli er varðar meintan leka á persónuupplýsingum úr innanríkisráðuneyti til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundi nefndarinnar 13. maí 2014 kom málið enn upp á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en þá áréttaði ég sem formaður nefndarinnar að málinu væri ekki lokið í ljósi þess sem fram hefði komið fyrir nefndinni á Alþingi og í frásögnum fjölmiðla af rannsókn lögreglu.

Málið var síðan aftur tekið upp 22. ágúst 2014, enn í tengslum við meðferð málsins hjá nefndinni, en þá hafði ráðherra beðist undan málefnum dómsmála, lögreglu og ákæruvalds, auk þess sem umboðsmaður hafði verið að fjalla um málið. Það er einmitt það sem hafði gerst frá því að málið var tekið upp í maímánuði 2014 og seinni hlutann í ágúst þetta ár, að umboðsmaður Alþingis tók málið til skoðunar. Það gerði hann í lok júlímánaðar með bréfi til þáverandi hæstv. innanríkisráðherra og komst síðan að þeirri niðurstöðu 25. ágúst að hann mundi hafa frumkvæði að formlegri athugun á málinu.

Þegar málið var komið til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis var ljóst að nefndin mundi ekki hafast að meðan svo væri, enda kemur það fram í bréfi umboðsmanns Alþingis þegar hann skilar áliti sínu í bréfi sem er dagsett 22. janúar, daginn áður en hann skilar frá sér, að hann hafi á þessum fullan skilning. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá mun ég í ljósi þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur lýst því að hún hafi ákveðið að bíða með boðaða umfjöllun sína um málefni fyrrverandi innanríkisráðherra, þ.m.t. umrædd samskipti við lögreglustjórann, þar til niðurstaða athugunar minnar liggur fyrir senda nefndinni afrit af álitinu.“ — Varð það hjálagt ásamt fylgiskjölum.

Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að þetta bréf sem er dagsett 22. janúar er ekki að finna í gögnunum, það eru mistök og það verður ráðin bót á því máli. Það er þegar komið á gáttina og á að vera hluti af málsskjölum sem eru hér til umfjöllunar.

Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að hann skili frá sér áliti en ekki skýrslu. Hann vísar til þess að með bréfi fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra til embættisins hafi orðið breyting á, enda hafi ráðherrann fyrrverandi varpað nýju ljósi á málið, breytt yfirlýsingum sínum sem þá urðu til þess að umboðsmaður ákvað að skila frá sér áliti en ekki skýrslu. Skýrsla til Alþingis er þess eðlis að hún kallar á á formleg viðbrögð sem álitsgerð gerir síður. Í bréfi innanríkisráðherrans fyrrverandi til umboðsmanns frá 8. janúar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Það voru mistök af minni hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir.“

Síðar er því lýst yfir að frásögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við umboðsmann Alþingis hafi að uppistöðu verið rétt. Síðan segir í niðurlaginu:

„Mér er einnig ljóst að þessi samskipti voru ekki að öllu leyti réttmæt af mér gagnvart lögreglustjóranum. Ég hef þegar, að viðstöddum umboðsmanni, rætt við Stefán og beðið hann afsökunar á þessum samskiptum og framgöngu minni í þeim.“

Þar með kemur einnig fram að ýmsar yfirlýsingar sem voru gefnar á Alþingi reyndust ekki réttar.

Ég tek fram að það kemur í ljós við skoðun á álitsgerð umboðsmanns Alþingis að hann segir að málið hefði tekið miklu skemmri tíma ef spurningum hans til ráðherrans hefði verið svarað sem skyldi. Svo var ekki. Það tafði málið og við leggjum á það áherslu í minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að umboðsmaður á rétt á því og við eigum rétt á því sem eftirlitsstofnun, Alþingi, að umboðsmanni sé svarað.

Þá kemur einnig fram að ráðherrann fyrrverandi eigi lögum samkvæmt að leita ráðgjafar hjá ráðuneyti sínu um framgang máls af þessu tagi. Það kemur fram hjá umboðsmanni Alþingis að svo hafi ekki verið gert sem skyldi, hann hafi ekki fengið sannfærandi upplýsingar um að svo hafi verið gert. Þetta skiptir að sjálfsögðu máli fyrir ráðuneytið og það fólk sem þar starfar.

Í greinargerðinni sem er uppistaða þessarar skýrslu er farið yfir gang málsins. Hann er rakinn, það er vísað í umræður sem voru á þingi bæði í skýrslunni sjálfri og svo fylgja þau með gögnum.

Við komumst síðan að þeirri niðurstöðu að mörgu hefði verið áfátt á umgengni hæstv. ráðherra fyrrverandi við þingið og einnig hvað varðar yfirlýsingar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Ég ætla að leyfa mér að lesa úr skýrslu okkar, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn áréttar að við umfjöllun um málið í þingsal hafi ráðherra sagt, um óformlegt minnisblað ráðuneytisins sem vitnað var til í frétt fjölmiðla, að ekki væru til nein sambærileg gögn í ráðuneytinu. Þá hafi ráðherra einnig sagt að þau gögn sem væru í ráðuneytinu færu víða, þ.e. til undirstofnana ráðuneytisins, lögmanna, Rauða krossins o.fl. Eftir birtingu dóms Hæstaréttar, þar sem fram kemur að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að minnisblað hafi verið útbúið í innanríkisráðuneytinu 19. nóvember 2013 vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitanda, hafi ráðherra upplýst fyrir Alþingi að í ráðuneytinu væri til samantekt, en ekki formlegt minnisblað, varðandi tiltekinn hælisleitanda. Loks hafi ráðherra skýrt frá því að í gangi væru tvö gögn, annars vegar samantekt ráðuneytisins og hins vegar gagn þar sem upplýsingum hefði verið bætt við sem ráðuneytið gæti ekki borið ábyrgð á.“

Síðan er vísað í fyrirspurnir á þinginu og segir áfram, með leyfi forseta:

„Fyrirspurnirnar lutu að því hvað ráðherra hefði gert til að kanna hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur hefðu getað farið til fjölmiðla frá ráðuneytinu. Minni hlutinn telur samkvæmt framangreindu að upplýsingagjöf ráðherra um tilurð og tilvist minnisblaðsins hafi verið misvísandi og ekki í samræmi við upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi.“

Ég vísa enn í okkar skýrslu, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur að þegar ráðherra sagði í þingsal að þau gögn sem væru í ráðuneytinu færu víða, m.a. til undirstofnana ráðuneytisins, lögmanna, Rauða krossins o.fl. aðila, hafi hún í reynd verið að ýja að því að starfsmenn þessara aðila auk lögmanna gætu hafa brotið gegn ákvæðum um þagnarskyldu. Slíkar yfirlýsingar hljóta að teljast alvarlegar af hálfu ráðherra og meiðandi fyrir hlutaðeigandi aðila. Í áliti umboðsmanns kemur einnig fram að í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2014 hafi ráðherra hringt í lögreglustjórann og gagnrýnt vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins. Sérstaklega hafi verið fundið að því að „fókusinn“ væri á aðstoðarmönnum ráðherra frekar en bara almennt á starfsmönnum ráðuneytisins og tilteknum upplýsingum í kröfugerð lögreglunnar sem fram komu í úrskurði héraðsdóms sem birtur var með dómi Hæstaréttar.“

Varðandi pólitíska ábyrgð og ráðherraábyrgð í þessu efni vísa ég enn í minnihlutaskýrsluna, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur að afskipti ráðherra af rannsókn málsins hafi verið alvarleg og í hæsta máta ámælisverð en með vísan til strangra skilyrða laga um ráðherraábyrgð, í ljósi yfirlýsinga ráðherra gagnvart umboðsmanni Alþingis í tengslum við málið, telur minni hlutinn ekki forsendur til frekari skoðunar á þessum þætti málsins.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Málið sem hér er til umfjöllunar er margþætt og snertir margar grundvallarreglur í stjórnskipun landsins, m.a. eftirlit með valdhöfum, meðferð valds, þ.m.t. samskipti ráðherra við undirmenn, yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir stjórnvalda, mannréttindi, meðferð trúnaðargagna í stjórnsýslunni, skráningu gagna, traust á stjórnsýslunni og upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og umboðsmanni Alþingis.

Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að þeir sem eru skipaðir, settir, kjörnir eða ráðnir til að sinna störfum í þjónustu almennings þurfi ætíð að lúta aðhaldi í sínum störfum hvort sem það er frá kjörnum fulltrúum, þeim sem njóta þjónustunnar, fjölmiðlum eða öðrum. Þá er mikilvægt að ráðherrar beiti því valdi sem þeim er falið með hliðsjón af framangreindum forsendum og séu meðvitaðir um rétt og stjórnskipulegar skyldur kjörinna fulltrúa til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.“

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Allir eiga sinn rétt. Fyrrverandi ráðherra á þann rétt að farið sé með hans mál af sanngirni og á réttmætan hátt. En það eru fleiri sem eiga sinn rétt, þeir sem njóta þjónustu stjórnsýslunnar þar sem er að finna upplýsingar um þá, þar sem á að gæta trúnaðar. Starfsmenn stjórnsýslunnar eiga líka sinn rétt og Alþingi á sinn rétt. Þingmenn eiga sinn rétt. Þingmenn sem beina spurningum til framkvæmdarvaldsins, til ráðherra, eiga sinn rétt líka og Alþingi þarf að standa á þeirra rétti, ekki síður en annarra.



[14:25]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem fram kom í máli framsögumanns stjórnarmeirihluta flokkanna í þessu máli, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, að þessi skýrsla snúist um álit umboðsmanns. Þessi skýrsla snýst einmitt ekki um það heldur um samtal þingsins við hæstv. fyrrverandi ráðherra um þetta mál. Álit umboðsmanns fjallar um afskipti innanríkisráðherra af sakamálarannsókn sem er allt annað mál. Hins vegar var ítrekað spurt um þetta í þinginu og svör voru misjöfn eins og við vitum öll. Þess vegna er ég sammála því að við eigum að ræða þetta hér nú. Auðvitað endar þetta mál eins og öll önnur.

Ég vil í upphafi máls míns segja líka, svoleiðis að það sé alveg á hreinu, sérstaklega af því að sumir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nefndu að hér væri einhver pólitískur hráskinnaleikur í gangi, að ég mótmæli því. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er falið það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og þar með stjórnsýslunni fyrir hönd Alþingis. Því fylgir að taka fyrir og athuga það sem talið er hafa farið úrskeiðis innan stjórnsýslunnar. Að sinna því hlutverki er ekki pólitík í þeim anda sem oft er talað um þegar fólk segir að eitt og annað sé bara pólitík. Þá er oftast átt við að einhverjir séu að reyna að ná sér niðri á einhverjum öðrum. Það skiptir einmitt meginmáli að þessi nefnd reyni að hefja sig upp fyrir vinnubrögð af því tagi.

Það eru ýmsar hliðar á þessu máli sem við fjöllum um nú. Umboðsmaður tók málið til frumkvæðisathugunar vegna meintra afskipta innanríkisráðherrans fyrrverandi og aðstoðarmanna hans af sakamálarannsókn. Þeirri athugun umboðsmanns lauk í janúar og skilaði hann áliti til Alþingis. Í því áliti komu fram ýmsar athugasemdir við framgöngu hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra og aðstoðarmanna hans og bent var á ýmis atriði í stjórnsýslunni sem betur mættu fara og huga þyrfti að. Til dæmis fékk núverandi innanríkisráðherra mann til að fara yfir það sem sneri að því ráðuneyti og ég man ekki betur en að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að þar þyrfti ekki að breyta sérstaklega verkferlum. Enn er þó alveg óljóst hvernig forsætisráðuneytið ætlar að bregðast við athugasemdum sem varða siðareglur ríkisstjórnar og til dæmis erindisbréf aðstoðarmanna. Þetta eru dæmi sem umboðsmaður Alþingis tók, en við erum ekki að fjalla um það álit hér þó að það sé náttúrlega náskylt mál.

Ég ætla að fjalla um framgöngu hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra gagnvart þinginu og hvernig okkur í þinginu gekk að fá upplýsingar um hvað hefði rauninni gerst í þessu máli. Í mínum huga er reyndar umhugsunarvert að það þurfti, eins og ég segi, sakamálarannsókn til að leiða fram sannleikann í þessu máli. Ég held að það hljóti að vera okkur flestum hér umhugsunarefni, ef ekki öllum. Ég nefndi þetta reyndar við kunnáttumann í þessum efnum og hann svaraði sem svo að kerfið hefði virkað og spurði hvort ég væri ekki ánægð með það. Auðvitað er ég ánægð með að kerfið virkaði, ég hefði þó frekar kosið að þingið hefði fengið skýrari svör og þá hefði kannski mátt komast hjá sumum þeim dramatísku atburðum sem urðu síðar.

Innanríkisráðherra mætti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 10. desember 2013. Á þeim fundi kom fram að upplýsingar um hælisleitendur færu víða og af því tilefni óskaði ég eftir sérstakri umræðu um málið í þinginu og spurði hvaða upplýsingum væri almennt safnað þá og hverjir gerðu það. Það var fróðlegt í þessu dæmi að það dróst nokkuð að sú umræða færi fram. Ýmsir voru á því að þingið væri að tefja fyrir því eða eitthvað svoleiðis en ég vil í þessari umræðu segja að það var ekki svo. Málið hafði eðlilegan framgang og kom á dagskrá undir lok janúar. Í þeim umræðum spurði ég ráðherrann hvort hún hefði látið fara fram athugun á því hverjir gætu hafa lekið minnisblaðinu og hvort það hefði komið frá einhverri undirstofnun innanríkisráðuneytisins.

Í svari sínu sagði innanríkisráðherra meðal annars, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi spurði hv. þingmaður hverjir safni eða varðveiti fyrrgreindar upplýsingar. Það gera Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, einstaka embætti lögreglustjóra, félagsþjónustan víða um land, lögmenn hælisleitanda og eftir atvikum sálfræðingar og læknar. Innanríkisráðuneytið fær umrædd gögn en aðeins þegar úrskurðir Útlendingastofnunar eru kærðir til ráðuneytisins, annars ekki.

Hvað varðar hins vegar úrskurði ráðuneytisins sjálfs eru þeir sendir til ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar, Rauða krossins sem og lögmanns viðkomandi hælisleitenda. Hvað varðar aðgang að umræddum gögnum hafa starfsmenn framangreindra stofnana aðgang að þeim …“

Virðulegi forseti. Það liggur í hlutarins eðli að svörin vöktu virkilega upp þær spurningar hvort þessi umræddu gögn hefðu þá farið út úr einhverjum af þeim stofnunum sem vitnað var til, en það kom svo sem ekki fram.

Síðan segir ráðherrann í þessu svari sínu:

„Þingmaður spyr einnig um fréttir þess efnis að trúnaðargögn um einstaka hælisleitendur hafi verið afhent úr innanríkisráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Til að svara því ítreka ég það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ráðuneytið hefur með margvíslegum hætti kannað hvort trúnaðargögn hafi verið send úr ráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Í framhaldi af kvörtun lögmanns hælisleitanda var það gert með samtölum við starfsmenn, skoðun á gagnagrunni ráðuneytisins, samanburði á þeim gögnum sem til eru í ráðuneytinu og um hefur verið fjallað í fjölmiðlum samhliða því sem rekstrarfélag Stjórnarráðsins gerði sjálfstæða athugun á því hvort ætla mætti að tölvutæk trúnaðargögn vegna málsins hefðu farið úr ráðuneytinu.

Niðurstaða þessara athugana er að ekkert í gögnum ráðuneytisins bendi til þess að trúnaðargögn hafi verið send til aðila sem ekki eiga rétt á þeim lögum samkvæmt.“

Virðulegi forseti. Það er sannarlega umhugsunarvert í ljósi sakamálarannsóknarinnar sem síðar fór fram og hófst einhvern tímann um þetta leyti eða skömmu seinna að samantekt sem ráðherrann fyrrverandi kýs að kalla svo, sem var svo gott sem samhljóða minnisblaðinu sem sent var á fjölmiðla, var send ráðherra 19. nóvember 2013. Það kemur fram í sakamálarannsókninni. Þess vegna hlýtur maður að hugsa: Hvernig fór þessi athugun rekstrarfélags Stjórnarráðsins fram? Af því hljótum við að læra að ef slík mál koma upp aftur þarf að fara fram ítarleg rannsókn en ekki kattarþvottur af því tagi sem hér virðist hafa verið.

Í skriflegu svari við fyrirspurn okkar Marðar Árnasonar sem dagsett var í janúar en barst seint og um síðir, þ.e. 13. maí, kom enn einu sinni fram að ekki væri formlegt minnisblað heldur samantekt um mál hælisleitenda í ráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekkert annað en orðhengilsháttur að tala um samantekt en ekki formlegt minnisblað. Slíkur orðhengilsháttur eykur ekki á traust. Um þetta segir í skýrslu okkar minni hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að við umfjöllun mála á Alþingi hefur ráðherra frumkvæðisskyldu sem felst í að veita þinginu þær upplýsingar sem ráðherra hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu. Minni hlutinn telur ljóst af dómi Hæstaréttar að ráðherra hafði fengið sent umrætt minnisblað 19. nóvember 2013 og þar með megi ætla að hann hefði haft upplýsingar um að í ráðuneytinu hafði verið útbúið minnisblað vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitanda. Minni hlutinn undirstrikar að þær upplýsingar höfðu verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu þar sem í fyrirspurnum þingmanna fólst sá skilningur að fjölmiðlaumfjöllun byggðist á gögnum frá innanríkisráðuneytinu eða undirstofnunum þess. Fyrirspurnirnar lutu að því hvað ráðherra hefði gert til að kanna hvernig gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitendur hefðu getað farið til fjölmiðla frá ráðuneytinu. Minni hlutinn telur samkvæmt framangreindu að upplýsingagjöf ráðherra um tilurð og tilvist minnisblaðsins hafi verið misvísandi og ekki í samræmi við upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi.“

Virðulegi forseti. Enn verður að telja að innanríkisráðherrann fyrrverandi hafi skautað léttilega yfir atburðarásina þegar hún var spurð í júní 2014 um fréttir af því að lögreglan hefði rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hefði látið fjölmiðla hafa hið óformlega minnisblað en þá sagðist hún ekki þekkja rannsóknina og það væri óeðlilegt að hún þekkti einstaka þætti hennar. Í áliti umboðsmanns kemur hins vegar einmitt fram að hún hafi fylgst náið með framgangi rannsóknarinnar.

Þann 6. maí 2014 spurðu tveir hv. þingmenn ráðherrann fyrrverandi um þetta mál, þær Bjarkey Gunnarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir. Hluti af svari til þeirrar síðarnefndu var eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég hef upplifað þetta mál, og ætla ekkert að fara yfir það nákvæmlega hér, sem pólitískan spuna að hluta til og sem pólitískt ljótan leik. Ég mun útskýra það síðar.“

Virðulegi forseti. Nú er ég ábyggilega ekki sú eina sem hef velt fyrir mér hvað fyrrverandi hæstv. ráðherra hafi átt við með þessum orðum. Það er einmitt ein af þeim spurningum sem ég hefði gjarnan viljað spyrja hv. þingmann ef hún hefði orðið við beiðni okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að mæta til fundar við nefndina eftir að umboðsmaður Alþingis skilaði áliti sínu. En hún gerði það ekki og hlýt ég því að spyrja nú.

Hv. þingmaður hefur mætt í viðtal eftir að hún settist aftur á þing þar sem hún útskýrði afstöðu sína til málsins og taldi meðal annars að það hefði verið taktískt af sér að segja sig frá ráðherraembættinu þegar rannsókn á embætti hennar hófst. Í mínum huga hefur þetta aldrei snúist um taktík eða verið það sem kallað er pólitískt mál, málið snerist um að alvarlegt trúnaðarbrot átti sér stað þegar persónuupplýsingum var lekið til fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu. Það var brotinn trúnaður eins og maður hefur verið dæmdur fyrir, þ.e. að leka trúnaðarupplýsingum. Eftirleikurinn var síðan að komast að sannleikanum um hvað hefði gerst. En það tók á sig ýmsar myndir þar sem menn komu ekki hreint til dyranna heldur létu þvert á móti að því liggja að þeir sem spyrðust fyrir um málið gengju annarlegra erinda. Mér finnst hv. þingmaður skulda okkur hér að útskýra eins og hún kvaðst reyndar mundu gera: Hvað átti hún við þegar hún talaði um ljótan pólitískan leik?



[14:38]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi umræða núna gefur okkur kannski smáástæðu til að ræða almennt um hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hvernig henni ber að afgreiða mál sem til umfjöllunar eru tekin o.s.frv. Það mál sem hér er til umræðu kom fyrst í desember 2013 ef ég man rétt inn á borð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar ákveðinn fjöldi stjórnarandstöðuþingmanna í nefndinni vildi ræða leka á trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu. Engin athugasemd var í sjálfu sér gerð við að fara í einhvers konar umfjöllun um leka á trúnaðarupplýsingum og það var rætt lítillega.

Síðan er það rætt lítillega aftur í febrúar 2014 þegar hafin er lögreglurannsókn, þ.e. málið er komið á það stig að lögregla er að fara að rannsaka lekann á trúnaðarupplýsingum. Ráðherrann kom fyrir nefndina og upplýsti um eitt og annað hvað ráðuneytið hefði sjálft gert til að reyna að upplýsa málið. Það var fjallað um málið í nefndinni í maí þegar fréttir birtust í fjölmiðlum um lögreglurannsóknina sjálfa og síðan er málið tekið aftur síðar til umfjöllunar í nefndinni eftir að umboðsmaður Alþingis ákveður að fara í frumkvæðisathugun á samskiptum ráðherrans við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Þetta voru oft litlar og fátæklegar umræður, rætt það sem hafði komið fram í fréttum. Eins og kemur kannski fram í yfirlitinu í þessu máli var til athugunar eða umfjöllunar hjá nefndinni annars vegar leki á trúnaðarupplýsingum og hins vegar embættisskyldur ráðherrans.

Nú þegar málinu vindur fram kemur auðvitað niðurstaða í lekann á trúnaðarupplýsingum. Það er gefin út ákæra, það er dómsmál, þar er rakinn nákvæmlega og upplýstur lekinn á trúnaðarupplýsingum. Það liggur fyrir.

Umboðsmaður Alþingis gefur út álit um samskipti ráðherrans við lögreglustjórann og gerir ýmsar athugasemdir við þau samskipti. Ég var ekki endilega sammála öllu sem kom fram í niðurstöðu umboðsmanns en hann er mikilvægur fyrir þingið og fyrir nefndina og hann kemst að þessari niðurstöðu og við fylgjum henni. Þeim anga málsins lýkur með þessu áliti umboðsmannsins, þ.e. það eru engar forsendur fyrir nefndina til að gera eitthvað meira með það í sjálfu sér eða lekann sem slíkan sem hvort tveggja er upplýst. Þá spyr maður sig: Hvernig á nefndin að afgreiða þessa umfjöllun sem var? Meiri hlutinn telur rétt að vísa bara í þær staðreyndir sem liggja fyrir. Auðvitað geta menn síðan rætt það eins og þeim sýnist. Það eru hvorki forsendur til að gera skýrslu um það né það sem umboðsmaður Alþingis komst að í sinni athugun.

Eftir stendur, og sennilega það sem veldur því að ekki náðist einhugur í þessari nefnd, það að gerð er ítarleg skýrsla um samskipti ráðherrans við þingið sem hafði auðvitað verið rætt bæði á þinginu og lítillega í nefndinni eða að einhverju leyti. Menn hafa auðvitað mismunandi skoðanir á því en út frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem þarf að hafa trúverðugleika og traust verður hún að hafa forsendur til að taka afstöðu eins og minni hlutinn gerir í þessu máli.

Ég lít ekki svo á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að setja sig í hlutverk dómara og ákveða hér hver er að segja ósatt og hver er að segja eitthvað misvísandi. Við getum haft mismunandi skoðanir á því. Ef nefndin á að fara í slíkt hlutverk og ákveða eitthvað slíkt þarf að fara fram alvörurannsókn á því, annaðhvort að nefndin fái einhvern til þess eða geri það sjálf að einhverju leyti, því að þegar við erum að meta hvort einhver ráðherra hafi ekki uppfyllt sannleiksskyldu sína gagnvart þinginu þurfum við að skoða hvað má segja í hverju tilviki, hvað eru trúnaðarupplýsingar. Það þarf að skoða hvað ráðherrann vissi á hverjum tíma. Frá hverju var eðlilegt að segja ekki, t.d. um rannsókn máls ef hún vissi eitthvað um hana? Við höfðum engar forsendur til að efast um að ráðherrann hefði gefið Alþingi upplýsingar í samræmi við vitneskju hennar á hverjum tíma.

Þess vegna gat nefndin í raun og veru ekki verið einhuga í skoðun sinni. Auðvitað þarf hún heldur ekkert að vera það. Við erum búin að fá upplýsingar um það sem mestu máli skiptir varðandi lekann á trúnaðarupplýsingunum, varðandi samskipti ráðherrans við lögreglustjórann og síðan höfum við hvert sínar skoðanir á því hvaða skilning við eigum að leggja í svör hennar á ákveðnum tíma, hvað ráðherrann hafi verið að meina, hvað væri eðlilegt að hún segði og hvað hún hefði mátt segja. Meðan slík skoðun hefur ekki farið fram, meðan enginn þar til bær aðili hefur gert rannsókn tel ég ekki rétt að nefndin setji sig í þá stöðu að vera dómari í málinu.

Það hefur margoft verið komið að máli við mig og ég spurður af hverju ég tæki ekki upp mál frá síðasta kjörtímabili þar sem fjármálaráðherra sagði þinginu ósatt um hvað hefði verið að gerast í samningaviðræðum við kröfuhafa bankanna. Menn geta haft einhverjar skoðanir á því. Ég get alveg — (Gripið fram í.) Við getum tekið fleiri mál. Ég tek þetta bara sem dæmi, það er alltaf verið að biðja um það.

Þetta á ekki að fara í þann farveg að í hvert sinn sem kemur frétt um einhvern ráðherra, að einhver hafi skoðun á einhverju sem er kannski löngu liðið, setji nefndin sig í dómarasæti um það að fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn hafi sagt hér ósatt og vísi í einhver gögn í því. Við vitum aldrei hvað lá að baki, við vitum það að minnsta kosti ekki núna. Við gætum hugsanlega fundið út úr því, en viðkomandi er ekki einu sinni ráðherra lengur og ég held að menn eigi almennt að fara mjög varlega í að nefndin setjist í slíkt dómarasæti sem gerir ekkert annað en að setja hér allt í uppnám. Ég held að það sé ágætt fyrir þingmenn að huga að því, en það er ekkert mál mín vegna að menn komi í þingsal og deili um svör ráðherrans, hafi sína skoðun á þeim, en ég er ekki tilbúinn að nefndin fari í þetta hlutverk.



[14:48]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt um hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég verð að segja að mér finnst mjög mikilvægt að hún taki þetta mál og klári það eins og við erum að gera hér, þ.e. þessa þinglegu meðferð. Nefndinni ber beinlínis að hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra. Það má vel vera að eitthvað hafi verið gert á síðasta kjörtímabili sem nefndin hefði átt að skoða, það breytir í sjálfu sér engu fyrir mig varðandi þetta mál, annaðhvort hefur nefndin þetta hlutverk eða ekki. Við getum ekki farið aftur í tíma, við verðum bara að horfa fram á við.

Það þarf ekkert að rekja þetta mál, það hefur svo sem verið gert hér, þetta er sorgarsaga og alvarlegt mál að mörgu leyti. Fyrir það fyrsta er leki á trúnaðarupplýsingum úr stjórnsýslunni, viðkvæmum persónuupplýsingum er lekið. Það er ástæða til að taka það mjög alvarlega og það var gert.

Mér finnst þetta mál líka ótrúlegt dæmi um sóun á tíma og peningum og væri fróðlegt að vita hvað það hefur kostað í beinhörðum peningum ef við tökum inn í biðlaun, lögreglurannsókn rekstrarfélagsins, vinnu umboðsmanns við málið, alla vinnu, tíma, orku sem hefur farið í það hjá starfsmönnum ráðuneytisins líka sem hefur verið eytt í vitleysu þá mánuði sem málið stóð yfir, eins jafnvel líka einhver kostnaður vegna almannatengsla og annars sem skattgreiðendur sjá um að greiða.

Við erum líka að tala um ráðherra sem sýnir dómgreindarleysi. Kannski má segja að það að ráða aðstoðarmann sem reynist innilega ekki starfi sínu vaxinn sé ekki gott, en það er kannski ekki hægt alveg að koma í veg fyrir slíkt. Það er óheppilegt en það sem er verra er að þegar svona mál kemur upp er mjög mikilvægt að ráðherra stígi til hliðar og skapi frið um embættið. Fyrrverandi hæstv. ráðherra hefur viðurkennt að það hefði hún átt að gera.

Það er líka alvarlegt að þegar ráðherra bregst trausti setur stjórnmálin niður. Það er vont fyrir stjórnmálin. Það er alls ekki til í mér að hlakka yfir óförum félaga minna hér í öðrum stjórnmálaflokkum vegna þess að það skiptir máli fyrir okkur öll að við stöndum okkur vel og við eigum að vera sem minnst í fjölmiðlum vegna þess að það þýðir að við séum að gera eitthvað rétt. Mér finnst þetta því líka vont fyrir stjórnmálin.

Annað merkilegt er að pólitíkin þvælist mjög mikið fyrir okkur í þessu máli sem kemur í ljós alltaf þegar talað er um að fólk sé í liði.

Alþingi á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég hef aldrei skilið af hverju meiri hlutinn á ekki líka að vera í því hlutverki að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, alveg sama þótt ráðherrar, framkvæmdarvaldið, tilheyri sömu flokkum. Af því að menn eru alltaf að tala um síðasta kjörtímabil skulum við tala aðeins um síðasta kjörtímabil og prófa að snúa dæminu við. Ef ráðherra Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar hefði lent í nákvæmlega sama máli, af hverju hef ég á tilfinningunni að fólk sem vill hér helst ekki ræða þetta mál, segir að því sé lokið, væri sótrautt í ræðustól Alþingis? Þá mundi þetta horfa allt öðruvísi við. Svona er þetta. Fólk sér í gegnum þetta og þetta er ótrúverðugt. En þannig er það. Ég held að við bætum ekki stjórnmálin fyrr en við verðum hreinskilin hvað þetta varðar. Ég ætla rétt að vona að ef ráðherra Bjartrar framtíðar mundi haga sér svona og ég væri stjórnarþingmaður mundi ég ekki sitja þegjandi undir því. Ef ég gerði það ætti ég að hætta í stjórnmálum.

Það er líka talað um að málinu sé lokið vegna þess að ráðherra sagði af sér. Mér finnst mjög leiðinlegt að ráðherra, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafi endað sinn ráðherraferil svona vegna þess að ég hafði og hef að mörgu leyti álit á Hönnu Birnu. Ég veit að hún hefur gert margt gott í stjórnmálum. Mér fannst þetta sorglegt, en það eru kjósendur sem dæma um framhald hv. þingmanns í stjórnmálunum. Ég get hins vegar ekki séð að það sé hægt að segja að málinu sé lokið af því að ráðherra segir af sér eins og það sé einhver allsherjarsyndaaflausn. Það er auðvitað ekki þannig. Ráðherra getur sagt af sér vegna þess að viðkomandi ráðherra nýtur ekki lengur trausts sinna flokksmanna eða embættið er rúið trausti og það þarf að breyta því.

Eins er með álit umboðsmanns Alþingis. Ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill ræða málið áfram gerir hún það alveg óháð því að umboðsmaður hafi skilað sínu áliti. Það er ekkert endilega einhver lokapunktur. Ég mundi segja að þessi umræða hér væri lokapunktur á þinglegri meðferð þessa máls.

Ef maður reynir að sjá eitthvað jákvætt við málið er það það að lögreglan rannsakaði glæpinn og upplýsti hann, dómstólar dæmdu, umboðsmaður skoðaði málið að eigin frumkvæði og rökstuddi álit sitt vel. Stofnanirnar stóðu sig vel. Ég hef reyndar aldrei skilið úttekt rekstrarfélags Stjórnarráðsins. Það hlýtur að vera eitthvað sem þarf að skoða nánar. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á er eiginlega verra að vera með einhvern kattarþvott. Þá hefði verið betra að sleppa því bara að fara í rannsókn.

Ekki má gleyma þætti blaðamanna sem upplýstu um málsatvik sem við í þinginu náðum ekki fram og höfðum ekkert aðgengi að. Þeir stóðu vaktina. Maður gæti næstum því haldið því fram að traust okkar til mikilvægra stofnana hefði aukist en því miður hefði traust á stjórnmálin að sama skapi minnkað.



[14:55]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati og væntanlega fleiri hér inni eitt óþægilegasta málið sem við höfum rætt á Alþingi. Eitt af því allra leiðinlegasta sem ég veit um, bæði í mínu eigin fari og annarra, er tilhneiging okkar mannfólks til að dæma hvert annað. Mig langar ekki að dæma nokkurn mann og mér leiðist þegar fólk dæmir hvert annað. En þegar kemur að málum sem þessum er grundvallaratriði að við lærum af fortíðinni, lærum af þeim mistökum sem við höfum gert. Ég geri mistök. Við gerum öll mistök, alls konar mistök, fagleg mistök, pólitísk mistök, persónuleg mistök. Ég reyni hins vegar að sjá þegar ég geri þau og ég geri mitt besta til að bæta úr þeim og auðvitað viðurkenna þau fyrir sjálfum mér og öðrum, fyrst auðvitað sjálfum sér, annars kemst maður ekkert áfram. Það er þannig. Við getum ekki lært af þessari reynslu ef við viðurkennum ekki afneitunina og meðvirknina sem við höfum orðið vitni að síðan þetta lekamál kom upp þann 20. nóvember 2013.

Ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar og þáverandi hæstvirts ráðherra létu allan tímann eins og þetta væri einhver tilbúningur fjölmiðla og hunsuðu þær staðreyndir sem komu fram aftur og aftur — við hvert fótmál. Ekkert af því sem ég hef notað til að mynda mér skoðun á þessu máli kemur frá fjölmiðlum annað en lekinn sjálfur, þ.e. fréttaumfjöllunin 20. nóvember 2013. Við hvert fótmál hef ég reynt að túlka staðreyndirnar hæstv. þáverandi ráðherra í vil. Við hvert fótmál hef ég gert ráð fyrir því að fjölmiðlar séu að æsa fólk upp, byggja á ósannindum sem geta orðið til við alls konar tækifæri. Eins og ég sagði áður eru mistök mannleg, en hér voru gerð mjög alvarleg mistök við hvert einasta fótmál. Það var ekki bara afneitunin á lekanum sjálfum og það var ekki bara hin svokallaða innri athugun sem eftir á lítur ekki út sem neitt annað en hvítþvottur. Við verðum að horfast í augu við það. Það lýtur ekki bara að ósamræmi dómskjala við fullyrðingar þáverandi hæstv. ráðherra og þessa innri athugun sem ég fer vonandi meira út í síðar ef tíminn leyfir, það eru samskiptin við lögreglustjórann og síðan auðvitað viðbrögðin eftir á við öllu saman. Það var alltaf gert lítið úr því, alltaf eins lítið og mögulegt var. Ég legg til að það séu mistök ofan á mistökin öll.

Nú er rétt að geta þess að álit umboðsmanns Alþingis varðaði ekki lekamálið svokallaða í heild, það varðaði eingöngu samskipti hæstv. ráðherra við lögreglustjórann, Stefán Eiríksson. Það er meira í lekamálinu til að læra af en bara það. Ef það væri eini lærdómurinn birti minni hlutinn kannski ekki 24 blaðsíðna skýrslu, eða 166 með fylgiskjölum, borið saman við þessar þrjár setningar frá hv. meiri hluta. Við verðum að spyrja okkur: Hvað höfum við lært?

Ég vona að við lærum eitthvað af þessu, en ég óttast að það eina sem við höfum lært sé að þegar hæstv. ráðherra segir engin sambærileg gögn meini hann næstum því nákvæmlega sömu gögn, að þegar ráðherra segir að umrædd gögn hafi hvorki verið unnin með vitund né að ósk ráðherra eða skrifstofu ráðherra meini hann að gögnin hafi borist með tölvupósti til ráðherra, aðstoðarmanna og skrifstofustjóra, daginn fyrir lekann. Það er svona ósamræmi sem við erum að ræða og það er ekki hægt að líta fram hjá því, sama hversu mikið maður reynir.

Ég skora á hæstv. fyrrverandi ráðherra og alla stuðningsmenn hans að setja sig í spor mín. Hvað á ég að halda? Hvað á mér að finnast? Hvernig á ég að túlka þessi gögn hvað best ég get í vil hæstvirtum fyrrverandi innanríkisráðherra og í vil þeim aðilum sem að þessu máli koma? Ég reyni eins og ég get en ósamræmið stingur í augun. Það er algjörlega óumflýjanlegt. Það er ekki hægt að afneita því nema með því að grafa undan trúverðugleika og auka á þá tortryggni sem allt þetta mál hefur þegar valdið.

Sömuleiðis óttast ég að við höfum lært að þegar innri athugun á sér stað hjá ráðuneyti taki hún ekki til innihalds tölvupósta eða opinna bréfa ráðuneytisins. Eins og kemur fram í dómskjölum var minnisblaðið, þessi gögn sem síðar komu í ljós að voru ekki bara mjög sambærileg heldur næstum því nákvæmlega sömu gögn og birtust í frétt mbl.is þann 20. nóvember 2013, sent af skrifstofustjóra innanríkisráðuneytisins með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra klukkan 17.17 hinn 19. nóvember 2013. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2014.

Sömuleiðis kom fram 2. maí 2013 í dómi Hæstaréttar að minnisblaðið hefði verið vistað um kl. 17 þriðjudaginn 19. nóvember 2013 á opnu drifi ráðuneytisins þannig að sérhver starfsmaður hefði getað nálgast það en fréttir byggðar á því hefðu birst í fjölmiðlum daginn eftir. Þetta er Hæstiréttur, virðulegi forseti, þetta er ekki fjölmiðill sem ég hef eftir.

Einhverjum mánuðum síðar, eftir innri athugun, fundust engin sambærileg gögn hjá ráðuneytinu. Hvernig eigum við að trúa þessu, virðulegi forseti? Hvað eigum við að læra af þessu annað en að vantreysta og tortryggja kerfi sem við þurfum að geta treyst?

Það er ekki til bóta hvernig meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur tekið á málinu, ég ætla aðeins út í það síðar, því að það heldur áfram sem við eigum víst að hafa lært eða ég vona að við þurfum ekki að læra þegar fram líða stundir, t.d. að þegar ráðherra segist ekkert vita um rannsóknina og í þokkabót að það væri mjög óeðlilegt ef hann vissi eitthvað mikið um rannsóknina, sem við skulum taka trúanlegt, eigi hann í raun við að hann stundi bein samskipti við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Hvort sem það er til að hjálpa til við rannsóknina eða ekki eru það afskipti. Við vitum eins og kom í ljós að það var þekking á málinu. Eigum við að læra að þegar ráðherra segist aðstoða lögreglu við rannsókn meini hann kvartanir yfir umfangi rannsóknarinnar og yfirlýsingar um að rannsaka þurfi rannsóknina? Eru þetta lexíurnar sem við eigum að þurfa að fara með inn í framtíðina? Eigum við að hafa lært það eitt af þessu máli að treysta hvorki né trúa? Ég óttast að svo sé.

Aftur leiðist mér ofboðslega mikið að tala um fólk af tortryggni en það eru lausir endar í málinu. Þáverandi háttvirtur lögreglustjóri á Suðurnesjum, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lét upplýsingar í hendur Gísla Freys Valdórssonar og burt séð frá þeim skýringum sem sá háttvirti lögreglustjóri hefur gefið gerðist það líka að fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra skipaði þennan lögreglustjóra sem lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu án auglýsingar sem vissulega er lagaheimild fyrir og allt í góðu með það, lagalega séð — en það vekur tortryggni. Sú afneitun sem heldur áfram hvað þann þátt málsins varðar veldur áfram tortryggni og mun halda áfram að valda tortryggni þar til við horfumst í augu við hvað það er sem hefur gerst á þessu ári sem þetta svokallaða lekamál átti sér stað.

Allt sem snertir þetta mál er orðið tortryggilegt vegna þess eins hvernig viðbrögðin hafa verið af hálfu fyrrverandi hæstv. ráðherra, hæstv. ríkisstjórnar og nú hv. meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Þrjár setningar voru nóg til að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segði allt sem sá meiri hluti vildi segja, í reynd eins og hv. 2. þm. Reykv. s. sagði áðan, með leyfi forseta:

„Málinu er lokið.“

Nei, virðulegi forseti, málinu er ekki lokið. Ég óttast að því ljúki aldrei. Ég óttast að þetta mál verði laus endi það sem eftir er af stjórnmálasögunni. Enn einn, af nógu er að taka, því miður.

Sömuleiðis velti ég fyrir mér þegar hv. 5. þm. Reykv. n. segir í pontu að hann líti ekki svo á að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að setja sig í hlutverk dómara heldur ætti hún að stofna til einhverrar rannsóknar eða einhvers slíks. Gott og vel, virðulegi forseti, gerum það þá frekar en að afgreiða málið með þremur setningum þar sem við segjum einfaldlega: Málið er búið. Sýningin er búin, förum öll heim. Það gengur ekki, virðulegi forseti. Það er með þetta háa Alþingi eins og allt sem virðist snerta þetta mál, það vekur tortryggni. Við megum ekki við öllu meira af henni.

Þetta mál er í skásta falli fullkomið klúður frá upphafi til enda, í versta falli einhver orð sem ég ætla ekki að láta falla í pontunni að svo stöddu. Við hvert fótmál voru gerð mistök, við hvert fótmál grafið undan trúverðugleika þess kerfis sem við stólum öll á að geta treyst, við hvert fótmál meðvirkni og afneitun.