144. löggjafarþing — 103. fundur
 11. maí 2015.
aðkoma ríkisins að lausn vinnudeilna.

[15:03]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Staðan á vinnumarkaði er orðin mjög alvarleg og áhyggjur okkar allra af henni aukast dag frá degi. Við heyrðum nú um helgina fyrst fleygt orðrómi um lagasetningu á verkföll sem er auðvitað fráleitt svar þegar vinnumarkaðurinn er allur í uppnámi. Það er víðtæk óánægja með skiptingu þjóðarauðsins og arðs af sameiginlegum auðlindum og við þurfum einfaldlega að tileinka okkar stjórnarhætti sem gera okkur kleift að flytja inn norræna velferð en ekki horfa á eftir því að fólk flytji út.

Ég átta mig á því eftir ítarlegar umræður um þetta í þinginu undanfarnar vikur að þetta mál er orðið ríkisstjórninni mjög erfitt. Ég ætla að segja fyrir mitt leyti að ég hef engan sérstakan áhuga á því að halda áfram að hamra það járn eða gera málið enn erfiðara fyrir ríkisstjórnina. Ég held að það sé orðið mikilvægt að við tökum höndum saman og reynum að styðja hvert annað í því að ná góðri niðurstöðu í þessari erfiðu stöðu.

Það er mjög mikilvægt að horfa þá til þriggja meginþátta, í fyrsta lagi húsnæðismála. Það verður að endurreisa vaxtabæturnar, það verður að byggja upp félagslegt húsnæði, það verður að byggja upp leiguíbúðir og gera leigjendur jafnsetta þeim sem búa í eigin húsnæði. Það liggur fyrir mýgrútur af tillögum um með hvaða hætti hægt er að gera þetta og ríkisstjórnin verður að taka af skarið. Í öðru lagi þurfum við skattaaðgerðir til að jafna kjörin. Það blasir við. Í þriðja lagi þurfum við þjóðarátak um samkeppnishæft atvinnulíf. Við þurfum að opna landið og gera góðum fyrirtækjum mögulegt að vaxa og greiða samkeppnishæf laun.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er hann ekki tilbúinn til að leggjast á árarnar og gera gangskör að því að leggja með þessum hætti grunn að lausn sem getur orðið til þess að varða veginn í þeim erfiðu deilum sem nú eru á vinnumarkaði? Er ekki kominn tími á útspil (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar að þessu leyti? (Forseti hringir.) Ég get lofað stuðningi okkar í Samfylkingunni við lausnir á þessum málum.



[15:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeim jákvæða tón sem ég heyri hér í fyrsta skipti í þó nokkuð langan tíma varðandi það að taka höndum saman til þess að leysa þessi mál. Ég nefni sem dæmi að þegar við vorum að létta sköttum af launþegum fyrir tveimur árum síðan þá var það alltaf reiknað í pítsusneiðar og sagt að það skipti engu máli. En við erum auðvitað að vinna áfram að breytingum, m.a. á skattkerfunum til þess að styðja við áframhaldandi kaupmáttaraukningu launþegahreyfingarinnar í landinu, hvort sem launþegar eru á almenna eða opinbera markaðnum.

Staðan í augnablikinu er þessi: Við höfum enga beina aðkomu að viðræðum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ. Þar á milli aðila er engin ákveðin krafa gagnvart ríkinu um tilteknar aðgerðir. Ég kannast við þá málaflokka sem hér eru nefndir eins og húsnæðismálin og við höfum rætt um hækkun leigubóta. Félagsmálaráðherra hefur farið fyrir þeirri umræðu. Við höfum rætt um breytingar á skattkerfinu, þær eru enn þá á dagskrá. En á meðan þessir aðilar eru ekki með sameiginlegar áherslur í viðræðum við ríkið er erfitt að koma fram og eiga frumkvæði að einhverri lausn.

Vandinn liggur meðal annars í því að hjá launþegahreyfingunni er engar sameiginlegar áherslur. Þær eru ýmist um hækkun lægstu launa, eða að menntun eigi að vera metin til launa, eða það þurfi að draga úr yfirvinnu og færa yfir á dagvinnutíma, eða eitthvað annað. Menn verða að koma sér saman um einhverjar megináherslur til að sé hægt að færa fram lausnir sem byggja á beinni aðkomu ríkisins.

Það stendur ekkert á ríkisstjórninni að hlusta eftir kröfum og við höfum átt fjölmarga fundi og höldum áfram að halda slíka fundi fyrir utan að eiga beinar viðræður við þá sem eru núna í verkfallsaðgerðum á opinbera sviðinu. Þar er sannarlega,(Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður nefnir, ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því úti í hvers konar óefni aðgerðirnar eru komnar.



[15:08]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, við í Samfylkingunni, og ég held ég geti talað fyrir alla stjórnarandstöðuna, erum tilbúin til þess að koma í þetta verkefni með ríkisstjórninni, en mér finnst þá þurfa eitthvert annað innlegg frá ríkisstjórninni en lýsingu eins og þá sem hæstv. ráðherra gaf hér á málinu eins og áhorfandi. Hann er auðvitað þátttakandi í að leysa það. Ef hann hefur áhyggjur af því að verkalýðshreyfingin og samtök launamanna komi sundruð til kjarasamningsgerðar er það í hans valdi að leggja á borðið tillögur sem geta dregið alla að borðinu. Þær liggja í þeim málaflokkum sem ég rakti áðan og sérstaklega í húsnæðismálunum. Það er engin ný sannindi. Við höfum rætt þetta hér árum saman. Það þarf grundvallarbreytingar, sérstaklega í húsnæðismálunum. Þær munu kosta peninga. Og hæstv. fjármálaráðherra hefur þetta núna í hendi sér.

Ég ítreka hvatningarorðin til hans. Það mun ekki standa á stjórnarandstöðunni í því að koma skynsamlegum lausnum á framfæri. Það eina sem ég hef áhyggjur af (Forseti hringir.) er að ríkisstjórnin hafi ekki burði til að koma málunum þannig áfram að það geti greitt (Forseti hringir.) fyrir úrlausn á vinnumarkaði.



[15:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er öllum ljóst að stéttarfélögin koma hvert á sínum forsendum að samningaborðinu að þessu sinni. Og þau eru ekki í beinum viðræðum við ríkið í öllum tilvikum, þau eru í viðræðum við atvinnurekendur. Þeirra heildarsamtök hafa ekki fengið umboð til þess að leiða viðræðurnar. Það er einfaldlega ekki rétt að það sé meginkrafan hjá öllum þessum hópum að það verði greitt úr húsnæðismálum.

Hér er nefnt að við þurfum að beita skattkerfinu frekar til jöfnuðar. Má ég vekja athygli á nokkrum staðreyndum varðandi skattkerfið. Ríkið hefur engar tekjur af tekjuskatti fyrr en laun eru komin upp í 240.000, engar tekjur. (Gripið fram í.) Það hefur ekkert fram að færa í tekjuskattinum fyrr en að laun eru komin þangað.

Í öðru lagi. Fyrstu fimm tekjutíundirnar skila engum tekjum til ríkisins ef tekið hefur verið tillit til vaxtabóta og barnabóta. Engum tekjum. Við erum nú þegar með kerfi, annars vegar tekjuskattskerfi og hins vegar bótakerfi, sem eru sérstaklega miðuð að kjörum þeirra sem eru í neðri tekjutíundunum fimm, upp í (Forseti hringir.) fimmtu tekjutíund af tíu. Ef við göngum mikið lengra en þetta (Forseti hringir.) þá erum við að kalla eftir frekari jaðarsköttum.