144. löggjafarþing — 103. fundur
 11. maí 2015.
náttúrupassi.

[15:32]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hugsað mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassann svokallaða, en til að rifja aðeins upp þá lagði hæstv. ráðherra loksins fram tillögu um náttúrupassa þegar ríkisstjórnin var búin að sitja í eitt og hálft ár, eða 9. desember sl. Það má segja að fjallið hafi tekið joðsótt og lítil mús hafi fæðst en því miður var hún andvana.

Þegar frumvarpið kom fram lögðust allir gegn því, sérstaklega ferðaþjónustan. Síðan gekk málið til nefndar 4. febrúar og 20. febrúar rann út umsagnarfrestur og komu margar umsagnir og flestallar neikvæðar. Steininn tók svo úr þegar formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, gaf í raun út fullkomið dánarvottorð á náttúrupassann í viðtölum um þetta mál. Það sem hann sagði meðal annars var að vegna þess hve mikill ágreiningur væri um frumvarpið eins og það lítur út þá væri ekki nokkur leið að vinna það eða fara með það í gegnum nefndina. Síðan er talað um að það sé verið að ræða aðrar leiðir, svo sem komugjöld, útfærslu á gistináttagjaldi, gjaldtöku af bílastæðum o.s.frv.

Virðulegur forseti. Eins og ég segi þá finnst mér að tíminn hafi verið ákaflega illa nýttur af hæstv. ráðherra til að koma þessu þarfa máli í farveg og í höfn vegna þess að hér við 1. umr. mátti skilja á fulltrúum allra flokka að mikil samstaða væri um að leggja eitthvert gjald á ferðamenn til að nota til að byggja upp ferðamannastaði, sem er mjög brýnt. Þess vegna segi ég: Það hefur verið gefið út dánarvottorð á frumvarp hæstv. ráðherra sem valdi, eins og ég sagði við 1. umr., langverstu leiðina, enda hefur það komið á daginn að nánast enginn mælir með þeirri leið.

Ég spyr því (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Hvað ætlar ráðherrann að gera (Forseti hringir.) í þessu máli? Hverjar verða tillögur hennar og ríkisstjórnarinnar um (Forseti hringir.) framhald þess?



[15:35]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Lýsing þingmannsins á þessu ágæta máli var ákaflega dramatísk. Ég er nánast algerlega ósammála þessari lýsingu og útleggingu þingmannsins. Burt séð frá því þá dagaði náttúrupassinn uppi í atvinnuveganefnd. Það er staðreynd málsins og mér þykir það miður að sjálfsögðu vegna þess að ég hafði og hef trú á þessari leið til tekjuöflunar en það náðist ekki samstaða um hana og það er staðreyndin í málinu.

Hv. þingmaður sagði að hann teldi að hægt væri að ná niðurstöðu um einhverja aðra leið. Hann nefndi komugjöld, gistináttagjald, bílastæðagjöld. Ég hvet hv. þingmann til að lesa þær umsagnir sem fram komu í málinu vegna þess að ef það er eitthvað sem kom fram þá var það að menn voru ekki að leggja til neina eina leið sem almenn samstaða var um. Því miður hefur það verið staðreyndin um þetta viðfangsefni í allt of langan tíma og þess vegna var það til dæmis óleyst eftir að hv. þingmaður var búinn að vera við stjórnvölinn í mörg ár — það var skilið eftir óleyst vegna þess að það er erfitt að ná samstöðu um þetta mál.

Það sem við erum að vinna að núna er það mikilvægasta í þessu öllu saman, viðfangsefnið fer ekkert í burtu frá okkur. Ríkisvaldið þarf að axla ábyrgð á þeim stöðum sem eru í eigu og umsjón ríkisins. Það er það sem við munum gera. Í millitíðinni, eða frá því að þetta mál hófst, hafa verið gerðar ýmsar breytingar á virðisaukaskattskerfinu, eins og þingmaðurinn þekkir, þar á meðal að fella niður undanþágur (Forseti hringir.) og taka fleiri þjónustuþætti í ferðaþjónustunni inn í … (Forseti hringir.) sem gefur frekari tekjur sem nýttar verða til að standa straum (Forseti hringir.) af innviðauppbyggingu vegna ferðamanna.



[15:37]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur í raun og veru ekki á óvart að hæstv. ráðherra komi hingað í ræðustól og fari að tala um að málið hafi dagað uppi einhvers staðar annars staðar en hjá henni sjálfri. Hér kom það skýrt fram að hæstv. ráðherra skilar algerlega auðu í þessu máli. Uppgjöf, hún hefur gefist upp á málinu. Er það þvermóðska? Já, að hluta. Er það meinbægni gagnvart gistináttagjaldinu sem komið var á á síðasta kjörtímabili, 100 kr., sem gefur 265 millj. á ári? Já, það held ég.

Það er meira undir en þetta. Það eru líka skilaboð til markaðarins um hvað við ætlum að gera árið 2016, 2017. Nú er árið 2016 farið og mér sýnist að kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar renni út án þess að ráðherra geti komið máli í gegnum þingið og komið því á sem mjög mikil sátt var um í sal Alþingis meðal þingmanna allra flokka, en það er ekki tillagan (Forseti hringir.) sem hæstv. ráðherra valdi illu heilli. Hún valdi vitlausustu og verstu leiðina (Forseti hringir.) og heldur sig við það vegna þvermóðsku í staðinn fyrir að útfæra gistináttagjaldið (Forseti hringir.) og hækka það upp í 400 kr. Þá væri heildarupphæðin komin sem hún ætlaði að ná í með hinum óskilgreinda, illa útfærða náttúrupassa.



[15:39]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst ekki um meinbægni mína. Eins og ég benti á áðan þá er það staðreynd málsins að ekki hafi náðst samstaða um eina einustu leið í þessu máli, sama hversu oft hv. þingmaður heldur því fram þá er það ekki rétt. Ég hvet hann aftur til að lesa umsagnirnar. (KLM: Atvinnuveganefnd gat ekki klárað málið.) Atvinnuveganefnd gat ekki tekið frumvarp um náttúrupassa og breytt því í frumvarp um komugjöld eða gistináttagjald vegna þess að það er á málasviði annarrar nefndar í fyrsta lagi, annars ráðherra og þess vegna er það þinglega séð ekki hægt.

Varðandi bílastæðagjöld, ef þingmaðurinn er mikill áhugamaður um þau, þá bendi ég honum á að þeir staðir sem um ræðir hafa fullar heimildir til að rukka fyrir bílastæði. (Forseti hringir.) Gjaldtökuheimild er í öllum þjóðgörðum landsins. Það eru hins vegar þjónustugjöld og verða væntanlega notuð til að þjónusta þessi bílastæði en ekki til að tryggja innviðauppbyggingu. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem þingmaðurinn verður að gera sér grein fyrir en varðandi ábyrgðina þá munum við að sjálfsögðu axla hana og tryggja innviðauppbygginguna. Það var … (Forseti hringir.)