144. löggjafarþing — 110. fundur
 21. maí 2015.
kjarasamningar og misskipting eigna í samfélaginu.

[12:53]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í fréttum í gær var áhugavert viðtal við ríkissáttasemjara, Magnús Pétursson, þar sem hann benti á að stór deilumál í samfélaginu hefðu áhrif á kjaraviðræður. Hann nefndi átök meðal annars um skiptingu auðlindanna, skiptingu arðsins af auðlindunum, átök og ágreining milli hópa, þ.e. hvað varðar það að fólk teldi ýmsa hópa betur setta en aðra þannig að það væri ágreiningur um fjölmargt í samfélaginu, sagði ríkissáttasemjari. Með leyfi forseta vitna ég í hann: „… sem ég er alveg sannfærður um að hefur áhrif á stöðu kjaraviðræðna …“

Hæstv. ráðherrar, forustumenn stjórnarflokkanna, hafa ítrekað talað fyrir því að það sé ekki ríkisstjórnarinnar að koma að kjarasamningum þó að að sjálfsögðu sé ríkið einn af aðalviðsemjendunum í þeim kjaradeilum sem standa yfir við BHM. Það eru þau sjónarmið sem hafa heyrst. Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka látið hafa það eftir sér að jafnvel sé jöfnuður orðinn of mikill í samfélaginu og það geti verið vandamál inn í þessar kjaradeilur.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann telji um þessi orð ríkissáttasemjara sem segir í raun að það séu hin pólitísku átök sem snúast um auðlindirnar. Ég get bara þýtt það á mannamál: Það snýst um veiðigjöldin og lækkun þeirra, það snýst um orkuskattinn, það snýst um það hvernig við tökum gjald af þeim sem nýta auðlindirnar, hvernig við skilum því til almennings. Hæstv. fjármálaráðherra birti grein í gær, sem mér fannst mjög jákvæð, þar sem hann talaði fyrir stjórnarskrárbreytingu um sameiginlegt auðlindaákvæði. En til að slíkt ákvæði sé virt í raun skiptir máli að almenningur njóti arðsins af þessum auðlindum. Þegar ríkissáttasemjari setur þessi sjónarmið fram, annars vegar að hér séu uppi stórpólitísk átök um auðlindirnar í landinu og hins vegar um ójöfnuð í samfélaginu, sem er vissulega þegar við lítum á eignastöðuna í samfélaginu þar sem ríkustu 10% eiga 70% eignunum, að það sé undirliggjandi, telur þá ekki hæstv. ráðherra rétt (Forseti hringir.) að stjórnvöld grípi til einhverra aðgerða til að breyta því til að skapa aukna sátt í samfélaginu?



[12:55]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá hv. þingmanni að sáttasemjari hafi verið að gefa það í skyn að kjarabaráttan að þessu sinni sé óvenjulega pólitísk, að það séu alls konar pólitískar áherslur sem séu í raun ráðandi í samtali aðila í milli. Ég hef ekki orðið var við það sjálfur og veit ekki nákvæmlega hvað er átt við. En eflaust er það rétt að það skiptir máli hvernig sátt ríkir almennt í samfélaginu þegar gengið er til kjaraviðræðna.

Það sem ég get sagt um þessa þætti eins og til dæmis nýtingu auðlindanna í landinu er að það hafa aldrei skilað sér meiri tekjur í ríkissjóð af nýtingu auðlindanna með beinum og óbeinum hætti en gera þessi árin, árið í ár, og við væntum að gerist á næsta ári, meðal annars vegna þess að það kerfi um stjórn fiskveiða sem við höfum tryggir hámarksverðmætauppbyggingu auðlindarinnar. Við sjáum það til dæmis á vísitölu Hafrannsóknastofnunar um stærð þorskstofnsins. Við höfum aldrei í Íslandssögunni haft meiri arð beint og óbeint af nýtingu orkuauðlindanna í landinu. Aldrei. Og það skilar sér til ríkisins.

Talandi um sátt. Hvað getur ríkisstjórnin gert til þess að skapa meiri sanngirni svona almennt í þjóðfélaginu? Ja, þessi ríkisstjórn greip til þess að skattleggja fjármálafyrirtækin langt umfram það sem fyrri ríkisstjórn gerði þannig að skattar á fjármálafyrirtæki, þar með talið slitabú, skila núna 38 milljörðum á ári umfram það sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Setjum það í samhengi við raforkuskattinn sem fyrri ríkisstjórn sagði að yrði tímabundinn skattur og hann er að renna út núna um næstu áramót. Hann er upp á tæpa 2 milljarða. Það þarf um 20 ár af slíkum skatti til þess að ná upp í bankaskattinn sem þessi ríkisstjórn lagði á og hann er tekinn á hverju ári.

Það er því sannarlega auðvelt að benda á dæmi bæði um það hversu mikill arður kemur af auðlindunum (Forseti hringir.) beint og óbeint til þjóðarinnar og sérstakar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem ættu (Forseti hringir.) að verða til þess fallnar að skila til þjóðarinnar auknum (Forseti hringir.) ávinningi af því sem er að gerast í samfélaginu.



[12:57]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra byrjaði nú á því að draga það í efa þegar ég vitnaði til orða ríkissáttasemjara. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra horfði á viðtalið, en ríkissáttasemjari sagði það hreint og klárt að samningar væru ekki reikningsdæmi nema að hluta til, að þeir snerust líka um hvað þætti sanngjarnt í samfélaginu. Það eru þessi pólitísku álitamál sem ég nefni. Ég bið nú bara menn að virða það þegar maður vitnar í fólk, að það sé með réttum hætti gert. Þar hljóta auðvitað að vakna stórar spurningar.

Ég spurði hæstv. ráðherra meðal annars út í misskiptingu eigna í samfélaginu, hvort honum þætti það eðlilegt að ríkustu 10% ættu 70% af auðnum í samfélaginu. Hvort hann teldi virkilega að jöfnuðurinn væri orðinn of mikill. Ég er nokkuð sannfærð um að fólkinu sem veitir okkur þau völd að sitja hér, fólkinu sem sinnir sínum daglegu störfum úti í samfélaginu, finnst ekki þessi jöfnuður orðinn of mikill. Það er hluti af þeirri ólgu sem er úti í samfélaginu og það eru þær kröfur sem fólk setur hér fram í ræðu og riti, af því að eins og ríkissáttasemjari segir, kjarasamningar eru ekki (Forseti hringir.) reikningsdæmi nema að hluta til. Það skiptir máli að skapa sátt um hvernig (Forseti hringir.) við skiptum gæðunum, herra forseti.



[12:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég var eingöngu að vekja athygli á því að í kjaraviðræðum semja menn um kaup og kjör, svo tökum við ákvarðanir hér á Alþingi um það hvernig við skipum málum um stjórn fiskveiða, nýtingu auðlindanna og um marga aðra slíka hluti. Þeir hlutir eiga ekki erindi inn á borð til ríkissáttasemjara. Ég trúi því ekki að hann hafi verið að meina að við samningaborðið væri verið að takast á um hvernig við ættum að skipta arðinum af nýtingu auðlindanna. Það var það sem ég sagði. (Gripið fram í.)

Varðandi jöfnuðinn. Ég hef aldrei sagt að hér væri orðinn of mikill jöfnuður. Ég sagði í umræðum um þessi mál fyrir skömmu hér á þinginu að í kröfum einstakra stéttarfélaga kæmi fram sú skoðun að ekki væri umbunað nægilega fyrir þekkingu og í þeim orðum liggur meðal annars að sumar stéttir njóti ekki launahækkana í samræmi við það sem þær hafa lagt á sig í námi og við öflunar þekkingar. Í því felst meðal annars sú skoðun að hér sé mögulega orðinn of mikill jöfnuður. Það voru ekki mín orð, það er nokkuð sem hægt er að draga ályktun af miðað við framstilltar kröfur. (Forseti hringir.)

En við þurfum svo sem (Forseti hringir.) ekkert að leita langt yfir skammt um hvort mikill jöfnuður er á Íslandi eða ekki, okkur berast reglulega skýrslur um (Forseti hringir.) það. Hér er einhver mesti jöfnuður í heimi þannig að ekki getur það nú verið vandamálið. (Gripið fram í.)