144. löggjafarþing — 112. fundur
 26. maí 2015.
yfirvofandi verkfall í ferðaþjónustu.

[14:18]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra veit sjálfsagt eru yfirvofandi fleiri verkföll og eins og hæstv. ráðherra veit sjálfsagt líka er það ástand þegar farið að hafa neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn. Það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort eitthvað hafi verið rætt í ríkisstjórn eða eitthvað gert til þess að bregðast við því að þessi mikilvægasta atvinnugrein landsins, eða í það minnsta ein af þeim allra mikilvægustu, verði fyrir sem minnstum skaða vegna yfirvofandi verkfalla.

Eins og hæstv. ráðherra veit sjálfsagt eru málavextir þeir að það þarf ekki meira en nokkurt umtal um komandi verkföll til að það hafi áhrif á ákvörðun erlendra ferðamanna um hvaða áfangastað þeir velja sér. Fólk sér ekki fyrir sér í fríinu að fara að hanga lengi á flugvöllum og hanga lengi neins staðar og eiga í vandræðum með að gera einföldustu hluti vegna verkfalla. Það kemur hingað til þess að fara í frí, ekki til þess að vinna hér með okkur gegn verkföllum eða að kjarabótum eða neinu slíku, þannig að það hefur mjög neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er nýr iðnaður sem þolir ekki endilega mörg áföll. Mörg lítil fyrirtæki þola ekki mörg áföll. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til þess í fyrsta lagi að hið háa Alþingi taki sig til og ræði málin með það að markmiði að takmarka eftir fremstu getu þann skaða sem yfirstandandi verkföll og komandi verkföll munu hafa á iðnaðinn. En ég velti því líka fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn sé að gera eitthvað í málaflokknum og sé á einhvern hátt búin undir það að þessi mikilvægi iðnaður verði fyrir teljandi skaða vegna verkfalla sem verður vonandi sem minnstur í nánustu framtíð.



[14:19]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hér sérstaklega um ferðaþjónustuna og þá stöðu sem þar er uppi vegna yfirvofandi verkfalla og hvort stjórnvöld hafi gert eitthvað sérstakt til þess að bregðast við því.

Að mestu leyti er ferðaþjónustan á vegum almenna markaðarins. SA semur að miklu leyti við verkalýðsfélög varðandi ferðaþjónustuna. Hins vegar hafa stjórnvöld, eins og komið hefur fram, lýst sig reiðubúin til þess að koma að þeim samningum á ýmsan hátt, þ.e. við höfum lýst okkur reiðubúin til þess að skoða fjölmarga ólíka þætti en viljað að það sem stjórnvöld leggja til sé til þess fallið að verja hér efnahagslegan stöðugleika, og þá á ég ekki hvað síst við verðlagsstöðugleika, þ.e. stuðli ekki að verðbólgu sem skaðar náttúrlega launþega mest af öllu. Við höfum líka lagt áherslu á að niðurstaða kjarasamninga verði til þess að verja jöfnuð í landinu og auka hann heldur en hitt, og þar af leiðandi stutt þá viðleitni sem notið hefur allmikils stuðnings, heyrist mér, bæði hjá hluta launþega og atvinnurekenda, að sérstaklega þurfi að huga að stöðu þeirra lægst launuðu. Í ferðaþjónustunni eru allmörg störf sem teljast til láglaunastarfa eða eru að minnsta kosti undir meðaltekjum. Þau falla þá undir þá áherslu stjórnvalda að menn reyni sérstaklega að rétta hlut þeirra sem borið hafa minnst úr býtum.

Stjórnvöld eru því reiðubúin til að koma þarna að og tilbúin að skoða ýmsar leiðir til þess, en fyrst og fremst viljum við koma í veg fyrir að verðbólga fari úr böndunum vegna þess að það bitnar verst á lágtekjuhópum.



[14:21]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Svo ég orði það skýrt var ég að þessu sinni ekki að inna hæstv. ráðherra eftir einhverjum lausnum á kjaradeilum innan ferðamannaiðnaðarins. Ég held að erlendum ferðamönnum sé í meginatriðum sama um verðbólgu svo lengi sem þeir telja að gengið sé ekki of óhagstætt.

Það sem er hins vegar farið að gerast nú þegar er að ferðamannaiðnaðurinn er farinn að bíða skaða af umtalinu um komandi verkföll og vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar, að því er virðist vera, og auðvitað hins háa Alþingis. Það eitt og sér, þ.e. það sem virðist vera aðgerðaleysi hefur mjög neikvæð áhrif á hvernig erlendir ferðamenn líta á landið.

Það sem ég er að reyna að velta upp hérna er að við þurfum að mínu mati einhvers konar viðbragðsáætlun við þeim skaða sem ferðamannaiðnaðurinn verður fyrir, og ég velti fyrir mér viðhorfi hæstv. ráðherra gagnvart því, ekki lausn á verkföllunum sjálfum, heldur viðbragðsáætlun til þess að við getum komið þeim skilaboðum skýrt til erlendra ferðamanna og þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í ferðamennsku að hér sé í fyrsta lagi eitthvað gert til þess að reyna að forðast verkföll og í öðru lagi að að þeim loknum, eða hvernig sem þetta fer allt saman, sé ríkið reiðubúið til að eiga nógu góð samskipti við (Forseti hringir.) aðila ferðamannaiðnaðarins þannig að það sé auðveldara að hvetja erlenda ferðamenn til þess að koma hingað aftur.



[14:23]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld hafa sýnt ferðaþjónustunni og markaðssetningu Íslands stuðning á ýmsan hátt og munu gera það áfram og verði þörf á einhverju sérstöku átaki í þeim efnum verða stjórnvöld eflaust enn á ný reiðubúin til þess að taka þátt í því. Mikilvægast er þó að ferðaþjónustufyrirtæki fái þrifist, að við búum þeim það umhverfi hér að þau geti þrifist og geti greitt almennileg laun. Það mikilvægasta í þessu er því að þegar niðurstaða næst í kjarasamningum verði hún til þess fallin annars vegar að gera fyrirtækjunum kleift að starfa hér áfram með þokkalegum árangri og hins vegar að greiða sæmileg laun. Þó að ferðamenn hafi ekki áhyggjur af verðbólgu að mati hv. þingmanns þá tengist verðbólga jú gengi, eins og hann kom aðeins inn á, en við getum ekki litið fyrst og fremst til þess að ferðamenn hafi áhyggjur af verðbólgu eða ekki. Við hljótum að líta til þess að hér sé hægt að búa fólki þau kjör að það geti starfað (Forseti hringir.) í ferðaþjónustu og byggt hana upp til framtíðar.