144. löggjafarþing — 112. fundur
 26. maí 2015.
um fundarstjórn.

frestun umræðu um rammaáætlun.

[20:03]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu forseta og tel að hún sé mjög skynsamleg og geti greitt fyrir þingstörfum. Við höfum marglýst því yfir að við erum tilbúin til efnislegrar umræðu um þau mál sem liggja fyrir þinginu og viljum gjarnan eiga hana við stjórnarmeirihlutann um þau fjölmörgu mál sem hér bíða úrlausnar. Það er mjög gott að við getum einhent okkur í það.

Það er líka rétt sem hæstv. forseti segir að það mál sem um ræðir, breytingartillagan við rammaáætlun, fer ekkert frá okkur. Það þarf að finna á því máli lausn sem samrýmist góðum framgangi laga um rammaáætlun og við hljótum að ætla okkur svigrúm næstu daga til þess að ræða það við stjórnarmeirihlutann.



[20:04]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir hörð orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fagna því að forseti þingsins hafi tekið mark á þeim málflutningi sem hér hefur staðið yfir í þessum sal undanfarna daga og vikur og frestað umræðu um þetta mál. Ég vonast til þess að tíminn fram undan verði nýttur til þess að skoða öll þessi mál í hinu stærra samhengi þannig að þingið verði ekki aftur sett í þá neyðarlegu stöðu sem það hefur verið í undanfarna daga og vikur.



[20:04]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Eftir deilur undanfarna daga og margar ræður þar sem ég hef lýst yfir óánægju minni með fundarstjórn forseta er mér það mikið gleðiefni að koma upp núna og lýsa yfir ánægju með ákvörðun forseta. Mér finnst hún skynsamleg og þetta er góð fundarstjórn. Við setjum hér deilumálið til hliðar og finnum því uppbyggilegri farveg. Í þessari ákvörðun liggja stór og góð tækifæri fyrir okkur öll til þess að bæta nú þann brag sem verið hefur á þingstörfunum, að efla hér samstöðu. Það eru fjölmörg mál sem við getum rætt hér og væntanlega fjölmörg mál sem eru væntanleg frá ríkisstjórninni sem eru aðkallandi. Það eru kjaradeilur í landinu. Við getum rætt þær og reynt að koma með uppbyggilegt innlegg til lausnar á því öllu saman. Í þessari góðu ákvörðun liggja mikil tækifæri þó að málið fari ekki frá okkur. Hafðu þökk fyrir.



[20:06]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér töluðu á undan og fagna þessari fundarstjórn mjög, ég er mjög ánægður með hana, virðulegi forseti. Ég vona og ætlast reyndar til þess af okkur öllum að við nýtum þetta tækifæri til þess að líta fram á veginn með því hugarfari að reyna að greiða hér fyrir þingstörfum og reyna að halda hlutunum í lagi. Það mun ekki standa á þeim sem hér stendur að tala um önnur mál og taka þátt í meðferð þingsins á öðrum málum án þess að þetta þvælist fyrir okkur á meðan á þessu stendur. Ég átta mig á því að málið getur komið til umræðu aftur, en ég fagna því mjög að hér sé gert hlé á umræðu um það þannig að við getum tekist á við önnur mál. Ég vona að við nýtum öll tækifærið til þess að reyna að láta það hafa sem minnst áhrif á vinnu okkar á meðan þetta hlé stendur yfir.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[20:07]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel nú eðlilegt eftir tveggja vikna þóf að koma hér upp og þakka forseta kærlega fyrir að taka stjórnina í þinginu. Ég vil þó minna á að óháð dagskrá þingsins hefst hér eftir innan við fjórar klukkustundir verkfall hjúkrunarfræðinga. Ég hef verulegar áhyggjur af því ástandi og það er svo langt því frá að ég sé ein um það. Ég held að landsmenn séu almennt uggandi yfir þróuninni. Landlæknir lýsti yfir miklum áhyggjum í sjónvarpinu í kvöld. Ég ætla að endurtaka óskir mínar um að beiðni um munnlega skýrslu hæstv. forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði verði tekin fyrir á morgun svo við getum rætt með hvaða hætti Alþingi getur komið að því eða hvað ríkisstjórnin er að ráðgera til þess að leysa úr þeirri alvarlegu (Forseti hringir.) krísu sem upp er komin í heilbrigðiskerfinu.



[20:08]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa ánægju minni yfir því að komin er ákveðin þíða í störf þingsins og var kominn tími til. Ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun að taka þetta mál af dagskrá og taka fyrir önnur mál sem hafa beðið þess mjög lengi að komast á dagskrá. Við skulum bara vona að starfsandinn sem virðist vera kominn á jákvæðari og uppbyggilegri brautir á Alþingi haldist áfram og að menn sjái tilgang í því að tala saman og leita lausna og komast að niðurstöðu um erfið mál sem okkur greinir á um. Ég held að við getum það alveg og getum tekið þau stóru mál sem bíða afgreiðslu þingsins áður en því lýkur og forgangsraðað þeim og unnið úr þeim með minni (Forseti hringir.) hlutanum.



[20:09]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill árétta í lok þessarar umræðu um fundarstjórn forseta að hann vonar auðvitað eins og aðrir að þetta hafi verið farsæl ákvörðun en minnir á, eins og hann nefndi í upphafi, að ekki er sopið kálið — forseti treystir sér varla til að segja „þótt í ausuna sé komið“. Það er auðvitað heilmikið verkefni fram undan og þetta mikla deiluefni sem litað hefur störf þingsins undanfarna daga er ekki farið frá okkur, langt í frá. En með því að taka á dagskrá á morgun óumdeild mál telur forseti að það sé vísbending um að við séum að reyna að ná saman til þess að létta okkur róðurinn fram undan.