144. löggjafarþing — 113. fundur
 27. maí 2015.
samningur hafnríkja til að uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar, síðari umræða.
stjtill., 451. mál (aðgangur erlendra skipa að höfnum). — Þskj. 686, nál. 1221.

[10:46]
Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

Í nefndarálitinu er gerð grein fyrir vinnu nefndarinnar við málið en í stuttu máli má segja að þingsályktunartillagan feli í sér að ríkisstjórninni verði heimilað að fullgilda fyrir Íslands hönd samning hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar sem undirritaður var í Róm 22. nóvember 2009.

Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er fyrsti bindandi alþjóðasamningur á sviði fiskveiða síðan úthafsveiðisamningurinn var gerður árið 1995. Við gerð samningsins var tekið mið af og litið til óbindandi leiðbeininga FAO um hafnríkisaðgerðir, sem voru helsta fyrirmynd hafnríkisreglna sem Ísland, ásamt öðrum strandríkjum við Norður-Atlantshaf, hefur innleitt, samanber lög nr. 22/2007, um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Markmið samningsins er að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar. Aðilar að samningnum eru hlutaðeigandi hafnríki en samningurinn gildir gagnvart skipum sem ekki sigla undir fána hafnríkisins. Í samningnum er mælt fyrir um skyldu ríkja til að beita ólíkum stjórntækjum í því skyni að ýta undir ábyrgar fiskveiðar, svo sem með lokun hafna gagnvart skipum sem eru „svartlistuð“ af svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum, málsmeðferð til að knýja fánaríki til ábyrgðar í erlendum höfnum, setningu tiltekinna lágmarkskrafna um upplýsingamiðlun, eftirlitsaðgerðir, fyrirbyggjandi ráðstafanir, stuðning við þróunarríki og samvinnu. Undanþága hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um takmarkaða heimild skipa til að koma til hafnar vegna neyðaraðstæðna gildir eftir sem áður.

Við umfjöllun í utanríkismálanefnd kom fram að hér á landi sé löng reynsla af beitingu hafnríkisaðgerða í því skyni að torvelda ólöglegar veiðar. Ísland hafi verið í fararbroddi ábyrgra strandríkja, ásamt öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf. Fullgilding samningsins ætti því ekki að hafa miklar breytingar eða kostnað í för með sér hér á landi. Hins vegar er áréttað að samningurinn og fullgilding hans sé mikilvæg til að auka alþjóðlega samvinnu um þessi málefni. Einnig kom fram við umfjöllun málsins, svo þess sé getið, að frumvarp til innleiðingar samningsins í íslensk lög sé til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, en nefndin fékk málið til umsagnar og gerði ekki athugasemdir við fullgildingu samningsins af sinni hálfu.

Undir nefndarálitið skrifa, ásamt þeim sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Vilhjálmur Bjarnason, Elín Hirst, Katrín Jakobsdóttir, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.



[10:50]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti þess því miður ekki kost að vera við alla umfjöllun utanríkismálanefndar um málið en styð það fullkomlega. Mér virðist að málið sé þannig vaxið að það styrki stöðu okkar gagnvart sjóræningjaveiðum til dæmis á Reykjaneshryggnum. Ég minnist þess, af því að það er þessi hæstv. forseti sem nú situr hér bak mér, að þegar hann sat í stóli sjávarútvegsráðherra sýndi hann mjög vaska afstöðu gagnvart þeim sem þar fóru með rangindum á hendur Íslendingum og stálu þar fiski, en þetta er háttsemi sem enn er við lýði og enn í dag sætum við búsifjum vegna þessa.

Mig langar þess vegna til að spyrja hv. þingmann hvort hér sé ekki komið sterkara vopn en ella. Skil ég það ekki rétt að þessi samningur gefur okkur beittari klær til að krafsa gagnvart slíku? Eins og hv. þingmaður veit eru þar líka stórveldi sem hafa ekki hagað sér eins og best væri á kosið í bakgarði okkar þarna. Telur þá ekki hv. formaður utanríkismálanefndar að eftir að Íslendingar hafa með þessum hætti sýnt afstöðu sína, að þingið hefur veitt heimild til að fullgilda samninginn, þá sé rétt að við beitum að minnsta kosti þeim anda sem í honum er til að freista þess að hrinda af höndum okkar þessum, mér liggur við að segja sjóræningjum sem eru þarna alveg uppi í íslenskri efnahagslögsögu og gerum það hið fyrsta?



[10:52]
Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi málið sem slíkt fela efnisatriði samningsins kannski ekki í sér nýjar heimildir fyrir íslensk stjórnvöld miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum, þ.e. við höfum í meginatriðum tekið upp þær reglur og viðmiðanir sem samningurinn felur í sér nú þegar. Það að fullgilda samninginn fyrir okkar hönd og innleiða hann með formlegum hætti í íslenska löggjöf styrkir auðvitað stöðu okkar, við getum sagt á alþjóðavettvangi. Eins og í öðrum efnum skiptir máli fyrir okkur að sem flestir séu með, taki þátt í þeirri sameiginlegu stefnumörkun sem í samningnum felst. Þannig er ég sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að gagnvart þeim veiðum sem hann vísar til í máli sínu verður staða okkar vissulega sterkari þó að samningurinn feli ekki í sér sem slíkur nýjar heimildir eða áður óþekktar fyrir íslensk stjórnvöld að því marki sem lögsaga þeirra nær til.



[10:53]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir prýðilegt svar. Það kann að vera rétt að þessi samningur færi okkur ekki ný vopn í hendur til að takast á við sjóræningjaskip, en ég orðaði það þannig, þ.e. í anda þessa samnings. Fyrst við erum á þeim tímamótum að samþykkja heimildir ríkisstjórnarinnar til að fullgilda hann þá tel ég kannski að við mættum reka af okkur slyðruorðið og notfæra okkur andann sem í þessu er til að skoða málin upp á nýtt.

Eftir því sem ég best veit hefur það verið þannig að þeir sem hafa stundað það sem ég hika ekki við að kalla veiðiþjófnað — þetta eru stofnar sem erlendar þjóðir langt að komnar sækja í og eiga sannarlega enga hlutdeild í eins og karfastofnana sem þarna halda til, við verðlaunum þessar þjóðir með því að selja þeim vistir, veita þeim skjól, sem við mundum alltaf gera, selja þeim olíu í okkar höfnum af því að Íslendingar hafa af því tekjur, en þær eru samt að stela frá okkur útsæðinu. Þess vegna finnst mér að við þurfum að taka fastar á því og við höfum reyndar rætt það. En telur ekki hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar að við þessi tímamót mætti kannski fá hæstv. utanríkisráðherra, sem við sjáum allt of sjaldan, í okkar góðu nefnd og ræða þessi mál við hann?

Málið er líka það, ef ég man rétt skortir enn þá töluvert upp á að samningurinn taki gildi á alþjóðavísu vegna þess að ekki eru nógu mörg ríki búin að fullgilda hann. Ég man ekki tölurnar, ég held að við séum kannski 12. eða 13. ríkið, eitthvað svoleiðis. Þurfum við ekki sem fiskveiðiþjóð að ræða það?



[10:55]
Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi hina beinu spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín um að ræða þessi mál við hæstv. utanríkisráðherra þá tek ég undir að ástæða er til þess, og jafnframt hæstv. atvinnuvegaráðherra sem fer með marga þætti í framkvæmd þessara mála eins og menn þekkja. Ég tel að fullt tilefni væri til þess að eiga fund við þá um þessi efni.

Það sem hv. þingmaður vekur líka athygli á varðandi stöðu samnings af þessu tagi er það auðvitað hárrétt að til að þessi samningur taki formlega gildi þarf tiltekinn fjöldi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að gerast aðili að honum og fullgilda hann og það að við skulum stíga þetta skref núna hlýtur að fela í sér ákveðna hvatningu til annarra að gera hið sama.

Það er síðan almennt um þetta mál að fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð skiptir mjög miklu máli að löggjöf sem gildir um höfin og réttindi og skyldur ríkja þar sé sem skýrust. Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda um langt skeið að vera í fararbroddi í sambandi við að, við getum sagt koma lögum yfir veiðar á úthafinu og þarf ekki að fara mörgum orðum um þá miklu hagsmuni sem í því eru fólgnir fyrir okkur miðað við staðsetningu landsins og efnahagslega hagsmuni af fiskveiðum að sem flestir taki þátt í þessu og að reglur af þessu tagi séu virtar af sem flestum þjóðum.



[10:57]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að við erum að ljúka því að samþykkja heimild til ríkisstjórnarinnar til þess að fullgilda þennan samning. Þetta er samningur sem skiptir sjávarútvegsríki eins og Ísland miklu máli. Í sögulegu tilliti má segja að við eigum töluvert mikið í þessum samningi. Ef maður skoðar sögu hans er hann í reynd afleggjari af úthafsveiðisamningnum sem sennilega var samþykktur árið 1996 og hann aftur á móti varð til upp úr umræðu sem Íslendingar, ekki síst, stóðu fyrir á hinni frægu Ríó-ráðstefnu á sínum tíma 1992. Þá var Ísland í hópi ríkja sem beittu sér sérstaklega fyrir sjálfbærum sjávarútvegi, lagði Ísland áherslu á að það yrði með einhverjum hætti gripið til ráðstafana til þess að draga úr sókn í bæði flökkustofna og víðförula stofna, þ.e. stofna sem höfðu festi bæði innan og utan lögsagna ýmissa ríkja. Á þessum tíma fór ýmislegt saman, í fyrsta lagi dvínandi stofnar innan efnahagslögsögu margra ríkja, aukin tækni og vannýttur skipastóll sem leiddi til þess að það var stóraukin sókn í þessa stofna. Það var að framsýni Íslendinga og ýmissa strandríkja sem efnt var til viðræðna sem leiddu svo til úthafsveiðiráðstefnunnar sem aftur leiddi til samningsins, að mig minnir 1996. Í honum eða meðfram honum var rætt um nauðsyn þess að geta gert samning af því tagi sem við erum að staðfesta núna. Hann er mjög góður og veitir okkur ýmiss konar bjargir til þess að fara gegn þeim sem með rangindum stunda veiðar á stofnum sem þeir eiga ekki tilkall til.

Það er hins vegar ljóður á ráði þessa samnings, sem alla vega var lokið 2006 og við Íslendingar ásamt fulltrúum átta annarra þjóða, einmitt þegar ég var utanríkisráðherra, skrifuðum undir hann í Róm, að síðan hefur lítið gerst varðandi hann. Þá voru það níu ríki sem rituðu undir hann og rétt að rifja upp að Ísland var í svokölluðum kjarnahópi strandríkja sem undirbjuggu þennan samning, þannig að skylt er skeggið hökunni í því efni, en samningurinn þarf hins vegar að fá fullgildingu 25 ríkja til þess að hann taki gildi. Síðan við rituðum undir hafa ekki mörg ríki til viðbótar fullgilt, þ.e. mér telst svo til að með Íslendingum séu ríkin orðin 12, kannski þó ekki nema 11, en það þarf 25 til þess að hann taki gildi.

Þá er ég þeirrar skoðunar að við þessi sérstöku tímamót sé tvennt sem Íslendingar eigi að gera, og tímamótin felast þá í því að við erum hér að veita heimild til staðfestingar af okkar hálfu formlega til ríkisstjórnarinnar. Þessir tveir þættir felast í því í fyrsta lagi að ég tel að við í utanríkismálanefnd eigum að fá til fundar við okkur utanríkisráðuneytið, ég stakk upp á utanríkisráðherra, til þess að ræða það hvernig við getum a.m.k. beitt anda þessara laga gagnvart þeim sem hafa verið að veiða alveg upp í efnahagslögsögunni, dansa á henni, og eins og hæstv. forseti veit, stundum inn fyrir hana. Á þessum síðustu árum finnst mér að við höfum kannski ekki alveg staðið nægilega vel á verðinum. Þetta er nauðsynlegt.

Hv. formaður utanríkismálanefndar hefur í þessari umræðu sagt á móti að hann telji kannski ekki síðra að fá til fundar hæstv. landbúnaðar- og sjávarúvegsráðherra. Ég tek undir það. Af þeim tveimur, miðað við reynslu nefndarinnar af þeim, tel ég að sá maður yrði ekki síðri til þess að koma málum Íslands fram, svo það sé sagt algjörlega skýrt. Þannig að ég mælist til þess að utanríkismálanefndin ræði það mál við ráðherrana.

Það er annað sem ég tel líka að við þurfum að ræða við þessa ágætu ráðherra tvo. Eins og ég sagði áðan vantar verulega upp á að nægilega mörg ríki fullgildi þennan samning til þess að hann taki gildi. Ég hef líka rakið það að Íslendingar eiga með vissum hætti part af frumburðarréttinum gagnvart þeim samningi. Ég tel líka að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hafa verulegan hag af því að umferð á úthafinu sé þannig að þar fari menn ekki um rænandi og ruplandi.

Þess vegna er mikilvægt að það sé ríki eins og Ísland sem tekur frumkvæði að því að fá til stuðnings við samninginn fleiri ríki. Það er seinna atriðið sem ég tel að utanríkismálanefnd eigi að ræða við þá tvo hæstv. ráðherra sem hafa verið nefndir, utanríkis- og sjávarútvegsráðherra; hvernig hyggst Ísland og getur beitt sér fyrir því að fleiri ríki fullgildi samninginn á þann hátt sem við erum hér að gera? Þetta er mál sem beinlínis varðar hagsmuni Íslands. Tímamótin eru þau að við erum að gera þetta formlega og þá er eðlilegt að við notum þau tímamót til að skoða hvernig við getum styrkt samninginn og þar með styrkt okkar eigin hagsmuni og hvernig við getum líka notað ýmisleg efnisleg ákvæði í honum sem vissulega, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson hefur bent á, eru nú þegar sitruð inn í ýmiss konar annan rétt á Íslandi. En við eigum samt að nota þetta til að skoða hvernig getum við betur varið hlut Íslands gagnvart þeim sem eru að djöflast í okkur á vetri hverjum suður á Reykjaneshrygg og stela frá okkur fiski.