144. löggjafarþing — 113. fundur
 27. maí 2015.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn, frh. síðari umræðu.
stjtill., 516. mál (flutningastarfsemi, EES-reglur). — Þskj. 895, nál. 1058.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:17]

[15:13]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara vekja athygli þingheims á því að í hvert skipti sem rætt er um Evrópusambandið heyrast alltaf raddir um það að þetta sé skrifræðisbákn sem við eigum ekkert erindi í, það sé bara til þess að flækja líf okkar hérna, það sé miklu betra að við séum sjálfstæð eyþjóð hér í miðju Atlantshafi. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að það fer ekki alveg saman við það sem við erum að gera hér. Það er mikilvægt fyrir okkur, og það er líka mjög mikilvægt fyrir mig sem Evrópusinna, að geta komið hingað upp og horft framan í þingheim sem heldur fram mjög sterkum rökum gegn því að auka þetta samstarf en er á sama tíma að stimpla löggjöf sem er ekki samin af íslenskum þingmönnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:14]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af því að hér er mikið rætt um Evrópusambandið þá vil ég bara biðja menn að hugsa til þess hver stýrir Evrópusambandinu. Nú er það þannig að í hverju einasta aðildarlandi er það upplifun almennings og þjóðkjörinna fulltrúa að þeir stýri engu, afskaplega litlu. Nú er það reyndar ekki þannig að þingmenn viðkomandi landa semji þær reglugerðir því að vandinn og stærsta ástæðan fyrir lýðræðishallanum er sú að þetta er embættismannabandalag sem erfitt er að sjá hver stýrir. Hæstv. utanríkisráðherra fór hér sérstaklega yfir það að sem betur fer er afskaplega lítið sem við þurfum að renna í gegnum þingið í samanburði við þau lönd sem eru í þeirri stöðu að vera föst í þessu tollabandalagi. Ég held að það sé rétt, virðulegi forseti, af því að sumir eru alltaf að tala með öðrum hætti hér inni, að sú rödd fái að heyrast. Ég hvet menn til að kynna sé umræður um Evrópusambandið í þeim löndum sem eru í Evrópusambandinu. (ÖS: Heill þér, varaforseti.)



[15:16]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur aðalforseti, þá væntanlega. Mig langar aftur að koma hér inn á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi Evrópusambandið. Auðvitað er Evrópusambandið táknmynd og er í raun bara skrifræðisbákn, algert. Á þessum 20 árum EES-samningsins er búið að samþykkja rúmlega 117.000 gerðir innan Evrópusambandsins og af þeim hafa um það bil 8.500 verið innleiddar á Íslandi. Þannig að það hefði munað fyrir okkur ef við værum þarna inni og hefðum þurft að innleiða þetta allt saman og berjast við það. Ef ég man rétt þá er rúmlega helmingur, líklega í kringum 70%, allra fyrirtækja innan Evrópusambandsins, mjög óánægð með það regluverk sem þeim er búið þar. Það hefur gengið svo langt að það er sérstakur kommisar innan Evrópusambandsins sem á að reyna að vinda ofan af þessu rugli öllu saman sem búið er að samþykkja. Þannig að ég þakka bara guði fyrir að þetta ferli er komið á leiðarenda.



Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  samþ. með 50 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AME,  ÁPÁ,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FG,  FSigurj,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  JMS,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PVB,  PJP,  REÁ,  RR,  RM,  SÁA,  SII,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÖS.
2 þm. (JÞÓ,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
11 þm. (BjarnB,  BN,  EldÁ,  IllG,  JónG,  KLM,  SDG,  SIJ,  ValG,  VigH,  ÞórE) fjarstaddir.