144. löggjafarþing — 114. fundur
 28. maí 2015.
störf þingsins.

[10:03]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu fatlaðs fólks og öryrkja í samfélaginu og þeirri braut sem Alþingi er á sem fjárveitingavald. Enn eina ferðina fáum við fréttir af því að túlkasjóður er tómur svo að fólk sem þarf að nýta sér túlkaþjónustu getur ekki tekið þátt í samfélaginu með eðlilegum hætti. Í langtímaáætlunum sést það þegar kemur að ríkisfjármálum að fyrst stóð til að hækka bætur almannatrygginga um 3,5% á þessu ári en niðurstaðan varð sú að Alþingi lækkaði þá upphæð niður í 3%, sem er náttúrlega skammarlegt, og að áætlanir gera ráð fyrir að árlegar hækkanir verði einungis 1% umfram verðbólguspár.

Þær jákvæðu fréttir eru nú að berast af vinnumarkaði að þar virðast samningar vera að takast, sem betur fer, um að lægstu laun muni hækka talsvert. Ég hef bara miklar áhyggjur af því að hér verði algjör kjaragliðnun, þ.e. að öryrkjar og fatlað fólk verði látið sitja algjörlega eftir. Til að svo verði ekki verðum við sem vinnum á Alþingi að sjá til þess að nægt fé verði tryggt inn í almannatryggingakerfið þannig að hægt sé að hækka bætur almannatrygginga svo að þeir sem þurfa að reiða sig á þær fjárhæðir geti lifað mannsæmandi lífi.



[10:05]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í fréttum þessa daga heyrum við af einstaklingum og fjölskyldum sem lent hafa illa í því sökum efnahagshrunsins. Við heyrum fréttir af því að 81% þeirra sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á Suðurnesjum á árunum 2008–2011 búi núna á leigumarkaði. Margir þeirra eiga erfitt með að fá leiguhúsnæði því að nafn þeirra er á svörtum lista hjá m.a. Creditinfo, sem gerir þeim erfiðar fyrir að fá þak yfir höfuðið. Það eru nefnilega leiguaðilar hér á landi sem vilja ekki leigja einstaklingum og fjölskyldum sem standa í þeim sporum.

Ef horft er í þessa tölu frá Suðurnesjum kemur fram að börn eru búsett á helmingi þessara heimila. 45% þeirra þurftu að skipta um skóla vegna aðstæðna, 32% þeirra misstu tengsl við vini, 15% þurftu að hætta í tómstunda- og/eða íþróttastarfi. Í sumum fréttum kemur fram að hluti þessara einstaklinga og fjölskyldna nýtti sér ekki þau úrræði sem í boði voru á síðasta kjörtímabili fyrir heimilin sem áttu í verulegum skuldavanda. Og hvers vegna ætli það hafi verið? Getur verið að úrræðin hafi verið ætluð verulega afmörkuðum hópi eða voru þau ekki nógu vel kynnt? Maður spyr sig.

Jafnframt kemur fram í fréttum, og er það afar alvarlegt mál, að þeir aðilar sem nýttu sér þau úrræði sem í boði voru, eins og t.d. greiðsluaðlögun, hafa verið settir á svartan lista. Í svari við fyrirspurn sem ég fékk fyrir nokkru eða á síðasta þingi kom fram að þeir sem hafa farið í greiðsluaðlögun eða sérstaka skuldaaðlögun séu merktir sem slíkir í fjármálakerfinu í allt að sjö ár þrátt fyrir að hafa verið búnir að ljúka sínu skuldaferli. Þessar staðreyndir sýna hversu mikilvægt það var að fara í almenna skuldaaðgerð alveg eins og Framsóknarflokkurinn lagði til strax frá árinu 2009 og varð að veruleika fyrir nokkru síðan. Þessar upplýsingar sýna líka hversu mikilvægt það er að við öll leggjumst hér á eitt til að koma húsnæðisfrumvörpum í gegnum þingið fjölskyldum til hjálpar og þeim heimilum sem standa í þessum sporum, þannig að einstaklingar hafi raunverulegt val um búsetuform (Forseti hringir.) á húsnæðismarkaði fjölskyldum til heilla.



[10:07]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sagði við manninn minn yfir morgunkaffinu að ég ætlaði að ræða um agaleysi í ríkisfjármálum undir liðnum um störf þingsins í dag. Hann sýndi lítil svipbrigði og sagði: Það mun nú ekki rata á forsíður dagblaðanna. Og það er rétt, það mun sennilega ekki rata á forsíður dagblaðanna, en það ætti hins vegar að vera á forsíðum dagblaðanna, vegna þess að agaleysi í ríkisfjármálum, skortur á langtímaáætlunum og skammsýni hefur slæmar afleiðingar fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.

Einn mælikvarði á aga í ríkisfjármálum er hversu vel tekst til að halda fjárlög og að frávik frá fjárlögum í fjáraukalögum sé sem minnst. Á síðasta kjörtímabili tókst að minnka þessi frávik verulega en því miður virðist sem allt sé að fara úr böndunum aftur og á sama stað og við vorum á fyrir hrun. Skortur á vandaðri stefnumótun er einkennandi fyrir núverandi hæstv. ráðherra og virðist sem lítill skilningur sé fyrir slíkri vinnu í núverandi ríkisstjórn og ljóst er að fjárlög 2015 munu ekki standast. Nýlegasta vísbendingin var kynnt í fjárlaganefnd í gær. Á fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 145 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þó að hver maður hafi séð, þegar stjórnarmeirihlutinn samþykkti fjárlög, að það mundi ekki duga nema fyrir örfáum verkefnum.

Nú hefur það komið í ljós að bæta á við 850 milljónum í ferðamannastaðina og 1,8 milljörðum í viðhald vega. Hvort tveggja gerði minni hlutinn tillögu um en meiri hlutinn felldi. Þetta sýnir, herra forseti, að skammtímahugsunin sem ríkir í hæstv. ríkisstjórn mun hafa aukinn kostnað í för með sér, bara hvað þetta varðar, því að ljóst er að ef við hefðum samþykkt þetta í desember og fólk hefði getað farið að skipuleggja verkin þá hefði það haft minni kostnað í för með sér en að skella þessu fram hér á miðju ári (Forseti hringir.) þegar ferðamenn eru byrjaðir að streyma til landsins.



[10:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var einmitt þannig að við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár rétt fyrir jólin var hvort tveggja gagnrýnt að fjármagn til uppbyggingar á ferðamannastöðum og í þjóðgörðum og til framkvæmda í vegamálum væri ófullnægjandi og óraunhæft lítið. Fjárlögin mundu ekki halda með þessum lágu tölum. Engu að síður lokaði stjórnarmeirihlutinn fjárlögunum eins og raun ber vitni. En nú berast sem sagt fréttir af ákvörðun í ríkisstjórn um að bæta 2,6–2,7 milljörðum kr., talsverðri fjárhæð, við ríkisútgjöld í þau brýnu verkefni, að sjálfsögðu ánægjulegt fyrir þeirra hönd, en aðferðafræðin getur tæpast talist sú sem flokkast undir vandaða stjórnsýslu eða agaða ríkisfjármálastefnu eða ríkisfjármálaframsetningu.

Ég vil því spyrja hæstv. formann fjárlaganefndar sem ég hef aðvarað um að ég vilji eiga við hana orðastað:

Í fyrsta lagi. Nú er þetta annað árið í röð sem framkvæmdir á ferðamannastöðum verða að uppistöðu til fjármagnaðar með aukafjárveitingu. Er það góð regla? Er það góð þróun?

Í öðru lagi. Hér er ekki aðeins verið að ákveða útgjöldin heldur skiptinguna niður á einstök verkefni fram hjá Alþingi og án umsagnarferlis. Er það góð aðferðafræði?

Í þriðja lagi. Það sama á við um vegamálin. Hér er ekki aðeins verið að ákveða upphæðina heldur er ákveðið í hvaða tilteknu nýframkvæmdir í vegamálum hún skuli fara, fram hjá samgönguáætlun sem ekki hefur litið dagsins ljós og væntanlega án aðkomu samgönguráðs. Er þetta sú stjórnsýsla sem við viljum sjá?

Í fjórða lagi vil ég spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Hvernig rímar þetta við markmiðin um að bæta stjórnsýslu og aga vinnubrögð samkvæmt frumvarpi um opinber fjármál sem er einmitt hér til meðhöndlunar í þinginu? Hvaða einkunn fengi (Forseti hringir.) það mælt á mælikvarða þess sem frumvarpið gengur út á?



[10:12]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þess ber að geta í upphafi að fyrir þinginu liggur nýtt frumvarp um opinber fjármál. Í dag er áætlunin að ræða hér ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára þar sem lagðar eru línurnar um áherslur ríkisstjórnarinnar til framtíðar.

Þeir þingmenn sem hafa fylgst með fjárlagaumræðunni vita að ég er mikill talsmaður þess að fjáraukalögin séu notuð í lágmarki, en þær breytingar sem hafa verið kynntar núna snúa að því að ríkisstjórnin stendur við þá stefnu að forgangsraða í þágu innviðanna. Flestir ættu að vita að viðkvæmir ferðamannastaðir liggja undir skemmdum þannig að ég tel að þessu fjármagni sé vel ráðstafað. Við vitum alveg hvers vegna þetta er til komið núna, það er vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag í þinginu um afgreiðslu um frumvarp um náttúrupassa.

Varðandi fjármagn til Vegagerðarinnar þá fagna ég því mjög því að ástand vegakerfis landsins eftir síðasta kjörtímabil er vægast sagt í molum, því engu fjármagni var varið í þann málaflokk á síðasta kjörtímabili. [Hlátur í þingsal.] Að auki var farið með aukningu til Vegagerðarinnar (Forseti hringir.) milli 2. og 3. umr. í þinginu fyrir síðustu áramót þannig að það er alveg ljóst hvert þessi ríkisstjórn stefnir.

Hvað varðar matið á því að búið er að eyrnamerkja þetta fjármagn til ákveðinna staða þá hefur sú vinna farið fram innan ráðuneytanna, að finna hvar þörfin er og hvar brýnasta þörfin er, þannig að það er gert á mjög faglegum grunni, þetta er ekki gert bara eitthvað út í loftið. Í máli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kynnti þessar aðgerðir fyrir fjárlaganefnd þá kom það skýrt fram að þetta væri einskiptisaðgerð sem mundi nýtast í þessa málaflokka með þessum hætti og ég fagna því.



[10:14]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ræddi í gær áform ríkisstjórnarinnar um að setja meiri peninga núna í uppbyggingu ferðamannastaða og ætla ekki að hafa um það fleiri orð en get þó ekki alveg orða bundist því að það eru auðvitað engin rök að um einskiptisaðgerð sé að ræða. Ég get þá alveg sem fjármálaráðherra farið og pantað þúsund styttur sem verður dritað út um allt land og sagt að það sé einskiptisaðgerð og sett hana á fjáraukann. Það eru náttúrlega rök sem halda ekki vatni.

Það sem ég ætlaði að ræða hér er frumvarp sem Siv Friðleifsdóttir flutti þegar hún sat á þingi og er um breytt þingsköp. Ég hef mikið velt því fyrir mér að endurflytja það mál og hef rætt við Siv og við erum alveg sammála og eins fleiri þingmenn, veit ég, um að við þurfum að reyna að koma einhverjum böndum á ræðutímann, þ.e. skipuleggja hann fyrir fram þannig að starf okkar verði markvissara og reyna líka að koma í veg fyrir óþarfamálþóf, getum við sagt. Það gengur hins vegar ekki ef minni hlutinn fær engin vopn í hendur, svo ég noti líkingamál. Píratar hafa talað fyrir því að þingið geti fengið það vald að skjóta málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, einn þriðji hluti þingmanna. Það gæti verið það vopn sem minni hlutinn þarf á að halda og mundi pína stjórnvöld hverju sinni til að setjast niður með minni hlutanum og fara yfir stöðuna og reyna að ná sátt í málum, því að það hefur nú ekki gengið svo vel að særa formenn stjórnarflokkanna til samtals við okkur eins og staðan er í dag.

Ég held að þessi tvö mál hangi saman, frumvarpið sem Siv var með sem er mjög gott, finnst mér, og hugmyndin sem Píratar hafa kannski verið hvað duglegastir við að halda á lofti, sem er að við þingmenn, Alþingi, getum skotið málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef engar áhyggjur af því að það yrði ofnotað, ég held að engin hætta sé á því, en ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki eitthvað sem við ættum að skoða og ekki bíða eftir því að einhver allsherjarendurskoðun á þingskapalögum fari fram. Það tekur allt of langan tíma.



[10:16]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi verið léttara yfir þinghaldinu í gær eftir að hæstv. forseti tók þá ákvörðun að fresta um sinn umræðu um rammaáætlun. Í það minnsta er hægt að segja að það hafi verið tilbreyting að ná samfelldri umræðu um mál þar sem hv. þingmenn tóku til óspilltrar efnislegrar umræðu og vil ég nota tækifærið og taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa hrósað virðulegum forseta fyrir vikið.

Eins og hæstv. forseti tilkynnti er málið áfram á dagskrá en frestað og vonandi nýtum við hv. þingmenn tímann vel á meðan og vinnum þeim málum framgang sem hafa beðið umræðu. Ekki veitir af þar sem listinn er langur og fjöldamörg mál liggja fyrir. Þá eru enn mál að koma úr nefndum og von á mikilvægum málum inn í þingið eins og húsnæðisfrumvörpum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og frumvörpum sem lúta að losun gjaldeyrishafta frá hæstv. fjármálaráðherra.

Staðan á vinnumarkaði á auðvitað hug okkar allra og það skiptir afar miklu að vel takist til. Vissulega eru jákvæðar vísbendingar um að það sé að rofa til og ánægjulegt í því samhengi að sjá samningsdrög VR, Flóabandalagsins og fleiri við Samtök atvinnulífsins þar sem áherslan er á að hækka lægstu laun og verja millitekjur. Það eru þau markmið sem var lagt upp með þannig að það er vissulega mjög ánægjulegt að sjá og heyra þær jákvæðu fréttir.

Þá er frestun Starfsgreinasambandsins á verkfalli til að auka á bjartsýnina og vonandi koma fljótlega jákvæðar fréttir af samningafundum hins opinbera, en full ástæða er til að vaka vel yfir áhrifum langvarandi verkfalla á heilbrigðiskerfið.



[10:19]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur setið að völdum í tvö ár eru margar góðar vísbendingar um þróun í þjóðfélaginu. Allir hagvísar eru jákvæðir, séð er fram á hagvöxt upp á 4% næstu tvö ár, atvinnuþátttaka hefur aldrei verið meiri á Íslandi, hér hafa þúsundir starfa verið sköpuð á síðustu tveimur árum, atvinnuleysi minnkar, atvinnuuppbygging er farin af stað eftir stöðnun. Nú treysta menn sér til að byggja upp í ferðaþjónustunni, menn treysta sér til þess að fjárfesta í fiskveiðum og -vinnslu með tilheyrandi umsvifum hjá verktökum og fyrirtækjum sem eru í framleiðslu á fiskvinnslutækjum. Verðbólga hefur ekki verið jafn lág samfellt síðan mælingar hófust, má segja. Skuldir heimila hafa lækkað umtalsvert og munar þar miklu um vel heppnaða skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar sem hefur komið heimilum með meðaltekjur og lægri tekjur mjög til góða. Síðan berast fréttir af því að nú hilli undir skref í að afnám gjaldeyrishafta geti farið að hefjast.

Allt eru þetta jákvæðar vísbendingar og jákvæðar fréttir og til þess fallnar að auka fólki bjartsýni og blása því baráttuanda í brjóst. Það er því full ástæða til þess að fagna öllum þessum góðu vísbendingum sem blasa við í þjóðlífinu og þær eru gott veganesti inn í sumarið.



[10:21]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði að tala um allt annað mál en ég hyggst fjalla um núna vegna þess að mér eiginlega ofbýður það sem formaður fjárlaganefndar kemur fram með hér og svarar ekki þeim spurningum sem til hennar er beint. Hv. þingmaður talar mikið um aga í ríkisfjármálum og hvernig ber að fara með þau. Við í minni hlutanum styðjum hana í því, en við getum ekki fallist á að það sem hér var verið að gera endurspegli þann aga.

Það er líka athugunarvert þegar hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar ber það upp hér að náttúrupassinn hafi átt að verða tekjulindin sem varð til þess að ekki voru settir fjármunir í til dæmis Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, þá er það bara ekki þannig. Náttúrupassinn kom fyrir það fyrsta seint inn, en honum var auðvitað ætlað að skila tekjum inn í ríkissjóð sem þarf svo heimild í fjárlögum til að nýta, hvert svo sem þeir peningar hefðu átt að fara og á hvaða staði. Það að svara því ekki að hér sé gengið fram hjá þinginu, algjörlega, í ákvarðanatöku, þ.e. hvert fjármunirnir eiga að fara og í hvaða verkefni þeim er varið, það finnst henni greinilega boðlegt. Okkur finnst það ekki.

Í annan stað þegar hún talar um að ekki hafi verið settir fjármunir í samgönguframkvæmdir á síðasta kjörtímabili þá verður manni eiginlega orða vant. Ég held að settir hafi verið einir 80 milljarðar á síðasta kjörtímabili í samgönguframkvæmdir. Hins vegar hefur ekkert verið gert það sem af er þessu kjörtímabili. Héðinsfjarðargöngin voru kláruð, farið var í Hófaskarð, byrjað var á Suðurlandsvegi, Dettifoss, Norðfjarðargöngin svo fátt eitt sé nefnt. (Gripið fram í: Vestfjarðaleið.) Já, það eru svo mörg verkefni. Það er eins og stundum hefur verið sagt, það verður örugglega sett Íslandsmet í framkvæmdum, en það verður hins vegar Íslandsmet í því að gera ekki neitt núna í samgönguframkvæmdum.

Hæstv. forseti sagði á fundi þingflokksformanna, ég held á þriðjudaginn, að gert væri ráð fyrir að samgönguáætlun kæmi fram og ég spyr: Hvar er hún? Á að ganga fram hjá Alþingi í þeim ákvarðanatökum? Það er ekki boðlegt. (Gripið fram í.) Er hún komin?



[10:23]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill upplýsa að samgönguáætlun var dreift í gær og tilkynnt héðan af forsetastóli.



[10:23]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stjórnarliðar hafa verið að koma hingað upp og mæra afrek ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé nú ekki hægt að hrósa sér mikið af þeim, það má kannski þakka fyrir að hún hafi ekki eyðilagt meira en gert hefur verið á þeim tveimur árum sem hún hefur verið við völd og að árangur fyrri ríkisstjórnar sé sem betur fer að skila sér í lágri verðbólgu og atvinnuuppbyggingu í landinu. Stundum finnst manni eins og ríkisstjórninni finnist að hún hafi fundið upp hjólið frá og með árinu 2013, að það hafi bara ekkert verið þar á undan og menn hafi ekki þurft að takast á við efnahagshrun í landinu.

En ég ætlaði að koma hingað upp vegna þess að nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í kjaramálum virðist vera það að fara að hræra í skattkerfinu og fella niður miðþrepið. Þetta þrepaskipta skattkerfi, sem sett var á í tíð síðustu ríkisstjórnar, er til þess að jafna kjörin í landinu og mæta ólíkum tekjuhópum. Það má alveg segja að hreyfa megi eitthvað við skattprósentu og hreyfa eitthvað við þrepunum, það er ekkert að því, en það er bara grjóthörð hægri stefna að ætla að afnema skattþrep og þýðir ekkert annað en að skattbyrðin léttist á þeim tekjuhærri en þyngist á þeim tekjulægri. Með því að fækka þeim er verið að fara aftur í fyrra horf eins og var í stjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þar sem skattbyrði á þeim tekjulægstu, á millitekjuhópum, hækkaði gífurlega, það eru bara tölulegar staðreyndir sem sýna það. Við skulum ekki gleyma því að skattar eru ekki bara einhver skattpíningartæki vondra stjórnarherra hverju sinni. Við erum að nota skattana til að byggja upp velferðarkerfi, samgöngur í landinu og menntakerfið. Við skulum ekki gleyma því. Þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) ætlar greinilega að skera niður áfram í menntakerfinu, velferðarkerfinu og samgöngunum með því að lækka skatta á þá tekjuhærri um tugi milljarða.



[10:26]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er margt gott að gerast í þjóðfélaginu. Samningar á almenna vinnumarkaðnum eru að nást. Ég fagna því sérstaklega að lægst launaða fólkið er að fá verulega búbót, fiskvinnslufólkið sem virkilega á launahækkanir skilið er að ná þeim markmiðum sem það setti fyrir þessa samninga og ég hef oft rætt hér um.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin leggst á árarnar í samningaviðræðunum og hæstv. fjármálaráðherra kemur inn á réttu augnabliki, yfirvegaður með gott innlegg sem við fögnum öll. Þar á meðal eru breytingar á skattkerfinu sem munu verða til þess að þeir sem hafa millitekjur munu fá aukinn kaupmátt, það er til mikilla bóta. Þá eru líka uppi hugmyndir um að lækka eða taka af tolla og önnur gjöld á innflutningi sem er auðvitað mikilvægt að skili sér til neytenda. Það er gríðarlega mikilvægt, ég legg áherslu á það.

Við hljótum öll að fagna því að settir eru 1,8 milljarðar í vegaframkvæmdir á þessu ári og 850 milljónir í uppbyggingu ferðamannastaða. Ég held að það hljóti að vera fagnaðarefni, við hljótum að geta tekið undir það. Mér finnst mjög mikilvægt að Vegagerðin fái þá peninga til umráða sem þarna eru settir fram.

Ég vil líka taka undir þá umræðu sem ég hef heyrt, að við þurfum aðeins að átta okkur á því hvað við ætlum að malbika mikið á hálendinu. Við eigum ekki að malbika hér endalaust út um allar trissur, við þurfum auðvitað að taka þá umræðu hvað eigi að malbika mikið af landinu. Ætlum við að malbika norður yfir Sprengisand? Hafa menn áhuga á því? Ég held að við þurfum að skoða hvaða stefnu við ætlum að taka í því.

Virðulegi forseti. Ég vona að þær jákvæðu bylgjur sem nú verður vart við á vinnumarkaði og í samfélaginu eigi líka erindi hingað inn í þingsal og stuðli að jákvæðu og góðu andrúmslofti við að klára þingstörfin.



[10:28]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að hér komi hv. þingmenn og fullyrði að skorið hafi verið niður í velferðarkerfinu í tíð núverandi ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Rétt.) Það getur hver og einn — heyrðu, hv. þingmaður sem gengur hér fram hjá er einfaldlega bara að skrökva. Það getur hver sem vill kynnt sér það mál með því að fletta upp í fjárlögum. Sá sem trúir því að með því að hækka skatta þýði það endalaust meiri tekjur, ég hvet þá viðkomandi til að skoða þjóðfélög sem við viljum alls ekki bera okkur saman við.

Hér ræðum við um fundarreglur hjá okkur alþingismönnum. Það er mjög æskilegt ef við getum náð saman um einhverjar breyttar reglur, við höfum reynt það áður, til að gera þingstörfin skipulagðari. Við skulum hins vegar hafa það í huga að ekki er nóg að breyta reglunum, viðhorfið verður að breytast líka. Ef menn nota fundarstjórn forseta eins og gert er núna þá er það auðvitað misnotkun á því og það skiptir ekki máli hversu mikið við breytum því, það er bara hrein og klár misnotkun á því tæki. Það vekur athygli mína að þingflokkur Bjartrar framtíðar sem sagðist ekki ætla að stunda málþóf hefur allur tekið þátt í því að undanskildum hv. þm. Óttari Proppé.

En ég ætla að ræða tvennt á þessum mínútum. Á forsíðu Morgunblaðsins er stórfrétt um að bankarnir hafi verið seldir án lagaheimildar. Þetta er umsögn Bankasýslu ríkisins, þeirrar sem mikið hefur verið rædd hér, og ég held að þetta þurfi að skoða. En líka hafa að undanförnu verið greinaflokkar um lobbíista fyrir erlenda kröfuhafa hér á landi. Ég held að við verðum að stíga þau skref eins og aðrar þjóðir sem gera það, að viðkomandi lobbíistar verða að tilkynna sig, þeir verða að láta vita fyrir hverja þeir starfa. Það er gert í þeim Evrópuríkjum sem við viljum bera okkur saman við og sömuleiðis í Bandaríkjunum. Það er augljóst að því miður hafði hæstv. forsætisráðherra rétt fyrir sér þegar hann talaði (Forseti hringir.) um það hvernig kröfuhafarnir unnu hér á landi. Við verðum að hafa meira gagnsæi í þessu og ég mun beita mér fyrir því.



[10:30]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson virtist hafa töluvert mikið út á fundarstjórn forseta að setja á síðasta kjörtímabili þegar hann kom 215 sinnum í ræðustól til að ræða um fundarstjórn, þannig að talandi um misnotkun á því fyrirbæri þá þurfa menn kannski eitthvað að líta í eigin barm. En batnandi mönnum er best að lifa.

Virðulegi forseti. Þann 19. maí síðastliðinn óskuðum við í þingflokki Samfylkingarinnar og síðan stjórnarandstaðan eftir því að munnleg skýrsla yrði gefin hér um stöðuna á vinnumarkaði af hæstv. forsætisráðherra. Ég vil spyrja hvers vegna ekki hefur verið orðið við því. Ég veit ekki til þess að okkur hafi heldur verið svarað um það hvenær og hvort þeirri beiðni verður svarað og hvort við henni verði orðið. Ég tel mjög mikilvægt að við förum að ræða þessi mál hérna inni. Þó að samningar séu að nást á hinum almenna markaði eru enn þá deilur milli ríkisins og opinberra starfsmanna. Sömuleiðis heyrum við af því að ríkisstjórnin sé núna að hugsa um að snúa af þeirri braut að horfa á skattkerfið sem tekjujöfnunartæki og fara að taka miðþrepið út. Það væri þess vegna mikilvægt að við fengjum að eiga hér samtal um þetta allt saman. Ef ekki núna, hvenær þá, að forsætisráðherra léti nú svo lítið að koma hingað í þingsal og eiga við okkur þingmenn samtal um þessi stærstu mál sem á döfinni eru?

Ég hef áhyggjur af þeirri þróun ef menn ætla að fara að fækka skattþrepum og hverfa frá þeirri stefnu að nýta skattkerfið sem tekjujöfnunartæki, ekki síst í ljósi þeirra orða sem komið hafa fram meðal annars hjá OECD þar sem þeir settu fram í skýrslu sinni í desember síðastliðnum þá afstöðu að hagkerfi heimsins í hinum vestræna heimi væru öflugri ef ekki væri fyrir svona (Forseti hringir.) mikla misskiptingu sem einkennir (Forseti hringir.) þau eins og t.d. í Bretlandi. Við ætlum ekki að hlusta á þau viðvörunarorð, heldur ætlum (Forseti hringir.) við að keyra inn á braut hægri stefnunnar og frjálshyggjunnar aftur. Ég hef áhyggjur af því.



[10:33]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir gerði í gær að umtalsefni rassvasabókhald ríkisstjórnarinnar þegar kemur að úthlutun fjármuna til ferðamannastaða, 850 milljónir sem menn hafa ákveðið af örlæti sínu að setja í þann málaflokk á síðustu dögum þingstarfa þrátt fyrir mjög málefnalega gagnrýni minni hlutans í aðdraganda fjárlaga á síðasta ári, sem var um það að ekki væri nægilegt fjármagn sett í þetta, ekki væri verið að undirbyggja eða plana eða undirbúa ákvarðanatöku um ráðstöfun fjármuna nægilega vel.

Til að undirstrika sleifarlagið í rekstri núverandi ríkisstjórnar þá er hér dreift, þegar tveir dagar eru eftir af starfsáætlun Alþingis, tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Hvenær átti eiginlega að fjalla um þá tillögu, virðulegur forseti? Hvenær sáu menn fyrir sér að umhverfis- og samgöngunefnd mundi taka hana til efnislegrar umfjöllunar? Af hverju er verið að fífla þingheim með þessum hætti? Til hvers er verið að gera þetta? Er ekki eðlilegra að forsætisráðherra sendi bara út SMS til Vegagerðarinnar um hvað eigi að gera? Það að dreifa svona áætlun á næstum því lokadegi þingsins er auðvitað ekkert annað en lítilsvirðing við þingið. Það er algjör lítilsvirðing við umhverfis- og samgöngunefnd, það er í raun og veru verið að segja, og líka með tillögum ríkisstjórnarinnar um framlög til ferðamannastaða, að ríkisstjórnin treysti ekki (Forseti hringir.) þinginu til að fjalla um þessi mál. (Forseti hringir.) Henni finnst þetta bara ekkert koma þingmönnum við (Forseti hringir.) á nokkurn einasta hátt. Hvenær átti að fjalla um samgönguáætlun?



[10:35]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er jákvætt og fagnaðarefni ef verkalýðshreyfingunni er að takast að knýja fram skattalækkanir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þær skattalækkanir ná til fólks sem er með yfir 309 þús. kr. á mánuði og upp úr tekjuskalanum, mest auðvitað fyrir þá sem eru með 700 þús. kr. og meira. Það undirstrikar enn frekar það sem ég lagði áherslu á í gær, sem er mikilvægi þess að tekið verði á kjörum örorku- og ellilífeyrisþega í framhaldi af þessum aðgerðum vegna þess að röksemdir eru fyrir því að nota skattbreytingar fyrst og fremst til að bæta kjör millitekjuhópanna vegna þess að lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum er að fá mestu hækkanirnar út úr samningunum. En það þýðir að tugir þúsunda Íslendinga fá hvorki kjarabætur út úr skattbreytingunum né út úr kjarasamningunum. Það er það fólk sem fyrst og fremst þarf að treysta á Tryggingastofnun ríkisins og kannski óverulegar fjárhæðir úr lífeyrissjóðum, þ.e. öryrkjar og ellilífeyrisþegar sem hvorki fá þær hækkanir sem lægst launaða fólkið er að fá né njóta nokkurra skattalækkana því að þeir eru undir 309 þús. kr. Ég brýni þingheim þess vegna enn til þess að sá hópur, öryrkjar og ellilífeyrisþegar, með 300 þús. kr. og minna í tekjur á mánuði verði ekki skilinn eftir þegar búið er að taka á þeim málum sem snúa að millitekjuhópnum í skattamálum og því að mjaka lægstu laununum á lengri tíma upp í 300 þús. kr. sem allir eru sammála um að sé nauðsynlegt.