144. löggjafarþing — 119. fundur
 4. júní 2015.
sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans.

[10:31]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég var með beiðni um sérstaka umræðu varðandi það að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði og setja hann undir Tækniskóla Íslands, en ég ætla að nota fyrirspurnatímann til þess að fara aðeins yfir það mál og raunar önnur sem hæstv. ráðherra hefur staðið að.

Varðandi það mál var gerð sérstök fýsileikakönnun. Gefinn var mánuður til þess að skoða ákveðið mál, bara sameiningu tveggja skóla. Ráðherra tók strax ákvörðun um að fara í það mál óháð öllu öðru, en þá kom í ljós að lítið sem ekkert samráð hafði verið haft við sveitarfélagið eða starfsmenn Iðnskólans í Hafnarfirði. Síðan kom lögfræðiálit í framhaldinu þar sem segir að þetta gangi ekki með þessum hætti, því sækja þurfi lagalega heimild á Alþingi til þess að sameiningin geti gengið eftir. Það kom í framhaldi af því þegar sameina átti Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands, en hæstv. ráðherra var rekinn til baka með það mál. Við sáum bréf um sameiningar framhaldsskóla á Norðurlandi sem sent hafði verið til skólanna. Það var allt borið til baka. Þá vaknar upp sú spurning og gagnrýni og sú hugsun: Bíddu, á hvaða vegferð er hæstv. ráðherra með menntamálin okkar?

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra:

Í fyrsta lagi: Hefur ráðherra undirbúið það að koma með mál Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans á Alþingi? Stendur til að fylgja þeirri ákvörðun eftir? Kemur ekki til greina að skoða aðra möguleika áður en tekin verður endanleg ákvörðun hér í þinginu?

Í öðru lagi: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að iðn- og verknámi og starfsnámi verði hagað á næsta ári? Það tengist þessu máli. Verið er að taka mikilvægar ákvarðanir. Hvaða aðrar sameiningar á skólum eru í skoðun?

Í þriðja lagi: Er það ætlun hæstv. ráðherra að reka menntakerfið, framhaldsskóla og háskóla, sérstaklega framhaldsskólann, á óbreyttri fjárveitingu eins og hún var eftir hrunið? Það hafa sáralitlar viðbætur komið. Komið hafa launahækkanir, komið hafa hækkanir vegna nemendaígilda, en það virðist eiga að mæta því fullkomlega með niðurskurði á fjölda nemenda. Það er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni.

Auðvitað eru það fleiri mál, meðal annars mál sem tengjast (Forseti hringir.) samþykktum í tengslum við kjarasamninga, sem varða menntamálin. Ekkert af því er til umfjöllunar á Alþingi.



[10:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi sameiningu Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði er það mikill misskilningur hjá hv. þingmanni og ég bið hann endilega að færa ítarlegri rök í seinna andsvari sínu fyrir því að lögfræðiálitinu hafi verið sagt að farið væri á svig við lög með einhverjum hætti. Eina sem þar kemur fram er það sem hefur lengi verið vitað og liggur fyrir í öllum slíkum verkefnum, þ.e. að það þarf síðan auðvitað að fá fjárheimildir hjá þinginu í gegnum fjárlög. Annað kom nú ekki fram í þessu lögfræðiáliti en að ef breyta á algjörlega um notkun á því húsnæði sem um er að ræða þarf að gera alveg sérstakar ráðstafanir þess vegna. En svo er ekki. Áfram verður skólahald í þessu húsnæði í Hafnarfirði, á þessu sviði, þ.e. í iðnnáminu og það verður öflugra en áður var. Við vitum öll um þann vanda sem Iðnskólinn í Hafnarfirði hefur lengi verið í og sem ekkert hefur verið gert í, en hér er lagt upp með að efla stórefla iðnnám í Hafnarfirði. Það verður haldið áfram með það. En það er að sjálfsögðu rétt sem fram kemur í lögfræðiálitinu, að málið mun síðan koma til þingsins þegar er gengið verður frá fjárheimildum. Þá hefur hv. þingmaður öll tækifæri til þess að fjalla um þetta mál.

Hvað varðar iðn- og verknám á næsta ári eða næstu árum vil ég gera grein fyrir því, eins og ég hef reyndar gert hér áður, að staðið hefur yfir viðamikið samstarf og samvinna á milli okkar í menntamálaráðuneytinu, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Alþýðusambandsins, BSRB og kennaraforustunnar um breytingar á því sviði. Þar hafa vinnuhópar verið að störfum mánuðum saman og er farið að glitta í niðurstöðurnar hvað það varðar. Mikið samstarf hefur verið þar á milli og er augljóst að það þarf að gera eitthvað. Við getum ekki verið með það fyrirkomulag áfram sem verið hefur til langs tíma, sem hefur skilað okkur allt of fáum nemendum inn í þetta kerfi.

Í þriðja lagi hvað varðar fjárveitingar eins og þær hafa verið hér, eins og þær voru í hruninu vil ég benda á að gripið var til þeirra aðgerða af hálfu síðustu ríkisstjórnar að draga um 2 milljarða út úr framhaldsskólakerfinu og rekstri framhaldsskólakerfisins. Á sama tíma voru opnaðir nýir skólar en ráðist var í fjölmörg ný verkefni önnur sem ekki komu beint að rekstri skólanna eins og til dæmis Nám er vinnandi vegur (Forseti hringir.) sem nýttist ákveðnum hluta framhaldsskólanna. (Forseti hringir.) Þar voru settir inn gríðarmiklir fjármunir. Það var rými til þess sem ég hefði talið skynsamlegra að nota með öðrum hætti.

En vissulega er það rétt, virðulegi forseti, verið er að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi. Það mun fækka nemendum og árgangarnir eru líka að minnka. Það er eðlilegt að við (Forseti hringir.) sjáum þá færri nemendur í kerfinu.



[10:36]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er einmitt þetta með að það þarf fjárheimildir og það þarf samþykktir til þess að leggja niður stofnanir, breyta húsnæði og þarna er verið að ráðstafa líka húsnæði sem sveitarfélögin eiga að hluta. Ákvörðunin er síðan tekin af ráðherra einum eftir stutta vinnu án nokkurs samráðs eða umfjöllunar og síðan á að vinna úr því eftir á. Það er það sem verið er að gagnrýna og er ekki til fyrirmyndar á einn eða neitt hátt. Ég hef heyrt ræðu hæstv. ráðherra um að það eigi að stórefla, stórefla, stórefla, en ég hef aldrei séð hvað á að gera til þess. Það er rétt að verið er að vinna að skýrslu varðandi starfsnámið og iðn- og verknámið, en hvað á að gera í haust? Það er komin stytting á námi til stúdentsprófs og fram kom á fundi sem við áttum m.a. með skólameisturum á Norðurlandi vestra, þ.e. í kjördæminu, að það er nánast reiknað með því að skólarnir þar verði reknir á þeim lágu fjárveitingum sem hæstv. ráðherra var að lýsa áðan frá fyrrverandi ríkisstjórn, það á ekkert að hækka þær. Samt á að borga hærri kennaralaun og hærra fyrir nemendaígildi, en það á að skera niður nemendafjöldann og þjónustuna að öðru leyti.

Það eru ekki nein töfrabrögð sem geta leyst þetta (Forseti hringir.) án þess að leggja inn aukna peninga þannig að falleg orð fleyta okkur ekki mjög langt. Það er allt (Forseti hringir.) í upplausn á landsbyggðinni (Forseti hringir.) vegna tilviljunarkenndra geðþóttaákvarðana ráðherra.



[10:38]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það eru engar töfralausnir til. Þess vegna menn að grípa til aðgerða. Við stöndum frammi fyrir því og það er ekkert hægt að breyta því til dæmis að það eru minni árgangar, það er fækkun í árgöngunum. Það er líka staðreynd að með því að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi fækkar nemendum, en um leið eru líka tækifæri til þess að hækka framlagið á nemanda að meðaltali.

Ég vil benda á að árið 2012, held ég að það hafi verið, voru meðalframlögin á verðlagi ársins 2014 um það bil 890.000 kr. á nemanda í kerfinu. Við erum þó komin með það upp í rétt rúmlega eina milljón, 1.000.100 kr. tæplega, það munar um það. Það munar vegna þess að þar með er orðið meira svigrúm til þess að reka skólana.

Hvað varðar síðan sameiningu þeirra skóla sem hér voru nefndir, Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði, vil ég bara benda hv. þingmanni á það og hann getur þá skoðað það sjálfur, að það eru fjölmörg fordæmi fyrir því hvernig staðið er að sameiningu slíkra stofnana. Það hefur alltaf legið fyrir og er ekkert nýtt í því, ekkert óvenjulegt, ekkert óeðlilegt, að síðan kemur alltaf til kasta Alþingis hvað varðar fjárheimildir í gegnum fjárlög, en það er ekki með öðrum hætti en alltaf hefur verið, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.