144. löggjafarþing — 120. fundur
 5. júní 2015.
störf þingsins.

[11:01]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Stattu með taugakerfinu er átak sem gengur út á að koma taugakerfinu inn sem sjálfstæðu þróunarmarkmiði hjá Sameinuðu þjóðunum. Á 15 ára fresti setja Sameinuðu þjóðirnar ný þróunarmarkmið. Það gerðist síðast árið 2000 og það mun gerast að nýju í september á þessu ári. Að fá taugakerfið sem þróunarmarkmið mundi varpa alþjóðaathygli á vandann og auka fjármagn til vísindasviðsins í kjölfarið.

Stjórnvöld hafa undanfarið unnið að málinu á vettvangi hinnar sameinuðu þjóða, en róðurinn er þungur. Það gæti gert gæfumuninn ef hægt væri að beita sér á þeim forsendum að íslenska þjóðin geri ríkar kröfur til þess að þjóðir heims hrindi úr vör alþjóðlegu átaki til aukins skilnings á virkni taugakerfisins.

Í föstudagsblaði Fréttablaðsins er afar áhugavert viðtal við ungan mann, Pétur Kristján Guðmundsson, sem slasaðist illa. Hann tók það ekki í mál að hann yrði bundinn við hjólastól um aldur og ævi. Hann er sá eini í sögu Grensásdeildar með alvarlegan mænuskaða sem staðið hefur upp úr hjólastólnum. Hann segir sögu sína og frá þeim undraverða og ánægjulega árangri sem hann hefur náð. Saga hans hefur gefið mörgum von og minnir okkur enn og aftur á mikilvægi þess að við stöndum með taugakerfinu.

Einnig er vert að vekja athygli á því að fyrir ári samþykkti þingheimur þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu lækninga við mænuskaða sem sýnir að við sem hér störfum og stjórnvöld á Íslandi vilja standa með verkefninu. En oft er það grasrótin sem nær lengst. Við Íslendingar þurfum að standa með taugakerfinu og gera þar með mannkyninu mikinn greiða. Ég skora því á alla að fara inn á síðu átaksins, Stattu með taugakerfinu og skrifa undir. Gefum einstaklingum sem hafa verið í sömu aðstöðu og Pétur von um bata.



[11:03]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Verkfall ýmissa hópa í velferðarþjónustunni hefur nú staðið í á níundu viku. Ég nefni geislafræðinga, lífeindafræðinga, náttúrufræðinga, ég nefni ljósmæður og nú hafa hjúkrunarfræðingar bæst í hópinn. Þetta er grafalvarleg staða fyrir þá þjónustu sem þetta fólk sinnir og fyrir það sjálft og fjölskyldur þess.

Nú heyrast gamalkunnar vangaveltur um hvað valdi því að deilan er hlaupin í þann hnút sem raun ber vitni. Menn nefna brenglað samningaferli, viljaleysi launafólksins til samninga, en niðurstaðan er alltaf hin sama, að verkföll séu af hinu illa og í samræmi við það er reynt að grafa undan verkfallsréttinum. Verkfallsrétturinn og verkföll eru neyðarúrræði. En þau eru jafnframt öryggisventill í lýðræðisþjóðfélagi.

Fólk sem hefur verið frá vinnu og launalaust í á níundu viku er ekki að gera slíkt að gamni sínu. Það er að segja eins skýrt og hægt er að segja að það sé ekki reiðubúið að sinna störfum sínum, sinna þeirri þjónustu sem það hefur tekist á herðar, á þeim kjörum sem í boði eru. Þetta verður ríkisvaldið, þetta verður fjármálaráðuneytið, viðsemjandi þessara hópa, að skilja og setjast niður og ná samningum sem sátt getur orðið um og tryggir friðinn.

Ég spyr: Getur það verið að ríkisstjórn sem leggur fram frumvarp hér á Alþingi um að tryggja ofurtekjufólki í fjármálaheiminum bónusa ofan á ofurlaun sín, getur verið að slík ríkisstjórn ráðgeri lög á almennt launafólk í stað þess að setjast niður og ná samningum við það?



[11:06]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hér upp undir störfum þingsins vegna þess að þau ánægjulegu tíðindi urðu í morgun í fjárlaganefnd að nálega sex ára vinnu er nú lokið, vinnu sem snýr að uppstokkun og endurnýjun á lögum um opinber fjármál. Þetta mál var búið að vera í vinnslu fyrri ríkisstjórnar hátt í fjögur ár og svo þegar kosningar gengu í garð árið 2013 og ný ríkisstjórn tók við völdum fór hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson í þetta mál og lagði fram í sínu nafni á haustdögum 2013.

Sú fjárlaganefnd sem nú starfar hefur haft málið til umfjöllunar í bráðum tæp tvö ár, fengið til sín erlenda og íslenska gesti og umsagnaraðila, unnið það í mjög góðri sátt allra flokka sem í fjárlaganefnd eru og þakka ég nefndarmönnum í fjárlaganefnd kærlega fyrir gott samstarf og vinnu, því það er ekki hægt að segja annað en vinnan hafi gengið mjög vel. Hún hefur einungis verið á faglegum nótum, pólitík skilin eftir fyrir utan dyrnar hjá fjárlaganefnd, þannig að mjög góð niðurstaða og samstaða hefur náðst í málinu og tekið tillit til allra sjónarmiða og það unnið fyrst og fremst á faglegum nótum en ekki pólitískum.

Það er því leiðinlegt að segja frá því, virðulegi forseti, að þetta mál breyttist í pólitískt mál í morgun því minni hluti fjárlaganefndar í heilu lagi sá sér ekki fært að vera á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Því tilkynni ég þingheimi að frumvarp um opinber fjármál kemur til umræðu í þinginu með tveimur nefndarálitum og er það mjög bagalegt miðað við hvað starfið hefur verið farsælt alveg þar til í dag.



[11:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þeirri áhugaverðu tillögu að eingöngu konur mundu skipa Alþingi, ef ég tók rétt eftir, jafnvel í tvö ár. Nú er það ekki ný hugsun að okkar málum væri jafnvel betur komið ef konur réðu meiru um hlutina. Ég minnist þess að á mikilli kreppuráðstefnu í París síðsumars 2009 á vegum OECD þegar heimurinn sleikti sárin eftir hrun nýfrjálshyggjukapítalismans, þá setti ég fram skylda hugmynd við mismikinn fögnuð, þetta var auðvitað mikil karlasamkunda. Ég lagði til að konur mundu stjórna heiminum í 50 ár og við sæjum til hvort ekki yrði friðvænlegra á hnettinum og meiri ábyrgð sýnd í efnahagsmálum ef konur fengju að ráða ferðinni. Ég held að það hefði verið athyglisverð tilraun.

En aftur að hugmynd hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem ég tek ekki sem gríni heldur sem alvöru og sem skilaboðum. Ég hef að minnsta kosti uppástungu um hvernig við gætum byrjað og hún er sú að við karlar á þingi og varamenn okkar svo langt sem til þarf víkjum sæti þannig að Alþingi verði eingöngu skipað konum á hátíðarfundinum 19. júní næstkomandi. Það væri vel við hæfi. Nógu oft og lengi hefur Alþingi eingöngu verið skipað körlum. Ég hygg að það mundi vekja nokkra athygli jafnvel út fyrir landsteinana ef heilt þjóðþing kæmi saman skipað eingöngu konum og það kjörnum konum, vegna þess að þetta mundi einfaldlega gerast með því að konur kæmu inn sem varamenn fyrir þá karla sem vikju. Tilbúinn er ég og skora á kollega mína sama kyns. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:10]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir brást við orðum mínum undir liðnum Störf þingsins á miðvikudaginn eins og að ég og ríkisstjórnin værum á móti því að fatlað fólk færi um íbúðarhúsnæði af því að ég vil sjá breytingar á byggingarreglugerðinni. Einnig hæddist hún að þingheimi með því að spyrja hvort við vissum hvað algild hönnun þýddi. Byggingarreglugerð snýst um mun meira en algilda hönnun. Reglugerðinni sem breyttist í ráðherratíð þingmannsins er búið að breyta þrisvar og flestir eru sammála um að hana þurfi að laga enn frekar.

Ég hef kynnt mér vel algilda hönnun í byggingarreglugerð og mér finnst hún ósanngjörn. Í stað þess að leitast við að hafa íbúðir algildar skal hafa allar þannig. Algild hönnun er sérstaklega ósanngjörn fyrir unga fólkið sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er jafn ósanngjarnt að byggja allt íbúðarhúsnæði fyrir hjólastóla eins og að byggja ekkert húsnæði fyrir fatlað fólk. Byggingarkostnaður hefur hækkað um allt að 25%, allt að 4–5 milljónir af minni íbúðum, og sá kostnaður lendir hvað harðast á ungu fólki sem leitar að sinni fyrstu íbúð á viðráðanlegu verði. Síðastur manna tala ég fyrir því að fatlaðir hafi ekki góðan aðgang að íbúðarhúsnæði. Bretar hafa farið þá leið að hafa ákveðið hlutfall af byggðum íbúðum aðgengar fyrir fatlaða. Ég held að vert sé að skoða það. Hins vegar á allt opinbert húsnæði undantekningarlaust að vera aðgengt öllum. Barátta talsmanna fatlaðra hefur verið um opinbert húsnæði og skammarlegt að það sé ekki í lagi árið 2015.

Fleira í reglugerðinni en algilda hönnun finnst mér þurfa að endurhugsa, sem dæmi einangrun, loftræstingu og rými utan íbúðar. Húsbyggingar eru á ábyrgð eigenda, ekki framkvæmdaraðila eða sérhæfðs fólks. (Forseti hringir.) Einnig vantar gæðakerfi bygginga.



[11:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eldri borgarar og örorkulífeyrisþegar hafa lýst óáægju sinni með skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, að þær leggist ekki með þeim. Tekjuskattskerfið er einfaldað og stórir hópar njóta ekki ávinnings breytinganna enda er hvergi gert ráð fyrir því að einfaldara skattkerfi sé réttlátara skattkerfi, heldur þvert á móti.

Stefna hægri stjórnarinnar að einfalda skattkerfið er sett fram í ríkisfjármálaáætluninni sem við ræðum í dag og lögð var fram á Alþingi 1. apríl og hæstv. forsætisráðherra samþykkti væntanlega í ríkisstjórninni. Því vekur það athygli að hæstv. forsætisráðherra sagði í þessum sal þann 15. maí síðastliðinn að skattbreytingar sem skoðaðar væru í tengslum við kjarasamninga sneru ekki að því fletja út skattkerfið heldur væru í raun til þess fallnar að fjölga skattþrepum. Raunin varð önnur enda ríkisstjórnin búin að samþykkja fækkun skattþrepa í ríkisfjármálaáætluninni.

Annað mál sem snýr að þeim sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga er að í ríkisfjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 1% umfram verðbólgu á ári á árunum 2016–2019, en laun ríkisstarfsmanna um 2%, en hækkunin verður ef að líkum lætur meiri. Samkvæmt lögum um almannatryggingar skulu bætur almannatrygginga, meðlög, framfærslulífeyrir samkvæmt barnalögum og elli-, örorku- og slysalífeyrir breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og við ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Ég er ekki viss um, herra forseti, að hv. stjórnarþingmenn geri sér grein fyrir því að með stuðningi við ríkisfjármálaáætlunina séu þeir að samþykkja að brjóta lög um almannatryggingar og auka á misskiptingu og ójöfnuð, en afstaða þeirra til málsins kemur væntanlega fram í umræðunum hér í dag.



[11:15]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að ýmsir hafa talið ójöfnuð og misskiptingu í þjóðfélaginu vaxandi vandamál langar mig til að benda á staðreyndir sem koma fram á vef Hagstofunnar. Þar kemur fram að tekjur á Íslandi dreifðust jafnar milli fólks árið 2014 en áður hefur sést í lífskjararannsókn stofnunarinnar sem fyrst var framkvæmd árið 2004. Mælieiningar sem notast er við er fimmtungsstuðull og Gini-stuðull, þeir mæla dreifingu tekna, og hafa þessir stuðlar ekki mælst lægri í lífskjarannsókninni.

Fimmtungsstuðullinn sýnir að tekjuhæsti fimmtungurinn var með þrisvar sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti en stuðullinn var hæstur árið 2009 eða 29,6. Gini-stuðullinn væri 100 ef einn einstaklingur hefði allar tekjur samfélagsins en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. Nýjasta árið, 2013, býður upp á alþjóðlegan samanburð, sýnir að Ísland var með lægsta Gini-stuðul og fimmtungsstuðul í Evrópu á eftir Noregi. Þá kemur einnig fram að árið 2014 er hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun það lægsta sem sést hefur í lífskjararannsókninni.

Þá ætla ég líka að leyfa mér að vitna í orð Gylfa Zoëga prófessors í hagfræði, en hann skrifar í Vísbendingu 10. mars, með leyfi forseta:

„Hagstjórn hefur gengið vel undanfarin missiri, þó að leynt fari. Atvinna hefur aukist, kaupmáttur launa sömuleiðis, skuldir heimila og fyrirtækja minnkað, hlutfall skulda ríkis af landsframleiðslu er á niðurleið. Skuldir sveitarfélaga dragast saman, afgangur er á viðskiptum við útlönd, erlendar skuldir lækka. Með peningastefnunni hefur dregið úr sveiflum í þjóðarbúskapnum. Verðbólga er sáralítil og hefur haldist undir markmiði undanfarið rúmt ár.“

Auðvitað má alltaf gera betur. En þegar staðreyndir eru skoðaðar er greinlega margt á réttri leið í þjóðfélaginu sem leitt er af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.



[11:17]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í frétt í Morgunblaðinu í gær var talað um fækkun tilboða í verklegar framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar. Það er frétt sem kemur því miður ekki á óvart. Vegagerðin hefur þurft að hafna óraunhæfum tilboðum vegna þess að þeim fækkar sem bjóða í og þeir eru jafnvel bara einn eða tveir sem hafa boðið í verk. Verktakabransinn hefur hrunið eftir hið alvarlega hrun sem hér varð. Hver er ástæðan? Fjöldi mannorðsmorða var framinn á saklausum einstaklingum og fyrirtækjum í verktakabransanum eftir hrunið. Tæki voru tekin af einstaklingum og seld á hrakvirði og gengið var nærri fjölskyldum og einstaklingum. Afleiðingarnar eru að bankar og fjármálastofnanir og opinberir aðilar elta saklaust fólk næstu 10–15 árin vegna aðstæðna sem fólk hafði ekkert með það að gera að koma sér í. Kennitölur þeirra eru komnar á svartan lista.

Virðulegi forseti. Er ekki kominn tími til að hreinsa mannorð þessara einstaklinga og fyrirtækja og gera það fólk gilt í samfélaginu? Hrunið má ekki fylgja þessu fólki um ókomin ár. Jafnvel bankar hafa skipt um kennitölur og það hefur engin áhrif á ógnarhagnað þeirra.

Virðulegi forseti. Ég hvet okkur þingmenn og ráðherra til að beita okkur svo að þessir einstaklingar og fjölskyldur þeirra losni undan skugga hrunsins sem það fólk átti engan þátt í að skapa og þrautaganga þess haldi ekki áfram næstu 10–15 ár.



[11:19]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Við sem hér störfum í umboði þjóðarinnar vinnum hart í umræðu í þingsal og í nefndum og við erum einbeitt að vinna að mikilvægum málum og búin að sprengja af okkur upphaflega starfsáætlun þingsins. Á sama tíma hafa staðið yfir kjarasamningar og vinna við áætlun um losun gjaldeyrishafta er á lokametrum þess að koma inn í þingið til að hefja það sem kalla má framkvæmdafasa þeirrar áætlunar.

Fyrir viku voru undirritaðir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum sem ná til ársins 2018, samningar sem ná til um 70 þús. launamanna. Þar náðust meðal annars fram þau markmið að lægstu launin eru hækkuð mest, verða 300 þús. kr., og hlutfallsleg hækkun er síðan stiglækkandi upp launastigann.

Framlag hæstv. ríkisstjórnar vó þungt til þess að ná þessum meginmarkmiðum, en hún lagði til viðamiklar aðgerðir, m.a. í velferðar- og húsnæðismálum, með auknu framboði af félagslegu húsnæði og aðgerðir til handa efnaminni leigjendum, og í skattamálum með breytingum á tekjuskatti til aukningar á ráðstöfunartekjum og heildarlækkunaráhrifum upp á 16 milljarða.

Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á þá mikilvægu áskorun sem við stöndum frammi fyrir, að viðhalda stöðugleika. Í framlagi til kjarasamninga var lögð áhersla á að bæta samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs. Við losun gjaldeyrishafta er rík áhersla á hagsmuni almennings, að losun hafta raski ekki stöðugleikanum. Það er ljóst að allir aðilar lögðu verulega af mörkum til að ná markmiðum kjarasamninga og það mun reyna á alla aðila, allt þjóðfélagið, fyrirtækin og heimilin og hið opinbera, að tryggja áframhaldandi stöðugleika. Það er okkar stærsta áskorun.



[11:21]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við lok samnings á almennum vinnumarkaði eða hluta hans kom ríkisstjórnin að og lagði meðal annars fram tillögu um þjóðhagsráð. Ég ætla rétt að vona, virðulegur forseti, að þetta þjóðhagsráð fari meðal annars yfir það með hvaða hætti við getum hagað samningsgerð á almennum vinnumarkaði og samningsgerð hjá opinberum starfsmönnum þannig að við fáum, eins og hér hefur verið rætt, sambærilegt módel kjarasamningsgerðar og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og það verði forgangsverkefni þjóðhagsráðs að ráðast í slíkt.

Þar að auki, virðulegur forseti, langar mig að nefna, þótt það sé sárt fyrir vinstri menn, að það voru jafnt aðilar vinnumarkaðarins sem og verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins sem sögðu já við einföldun skattkerfis eins og boðið var af hálfu ríkisstjórnarinnar. Verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins sögðu já við slíku vegna þess að þeir aðilar treysta því og trúa að það sé til hagsbóta fyrir þá sem þeir eru að semja fyrir.

Einnig er í vinnslu heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, en hér kalla menn eftir því að jafnt öryrkjar sem eldri borgarar fái samsvarandi tekjuhækkanir og þeir sem fengu þær í nýgerðum almennum kjarasamningi. Það fer fram heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að leiðarljósi að gæta hagsmuna þessara hópa, ellilífeyrisþega og öryrkja. Leyfum þeirri vinnu að ljúkast áður en við köllum hástöfum á eitthvað annað.



[11:23]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að tala aðeins um störf þingsins. Ég veit að einhverjir hv. þingmenn eiga eftir að taka ræðu mína inn á sig en ég vona að ég fái tækifæri til að flytja hana án frammíkalla.

Eins og umhverfið hefur verið á þessum vinnustað er það varla orðið boðlegt fyrir fólk að eiga að vinna við það, gróusögur, kýtingar, uppnefni, baktal og leiðindi. Ég hef alltaf verið þakklát fyrir þau gildi sem foreldrar mínir sendu mig með út í lífið, meðal annars að kurteisi kostaði ekkert, að ég ætti að bera virðingu fyrir mér eldra fólki og koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Þessi gildi vil ég hafa áfram að leiðarljósi, en því miður gerir hegðun margra hv. þingmanna það mér mjög erfitt fyrir. Ég geri mér ekki miklar vonir um að allt breytist eftir þessa ræðu mína, en ef við eigum að sitja saman í þessum sal verðum við að fara að taka upp betra háttalag. Til að mynda væri það strax til bóta ef maður þyrfti ekki að sitja undir bölvi og dónaskap í sinn garð og flokksfélaga frá næstu sessunautum. Ef hv. þingmönnum líkar svona illa við ákveðið fólk, legg ég til að þeir færi það tal inn á þingflokksfundi sína eða bakherbergi í húsinu. Ef þetta væri einhver annar vinnustaður og mér dytti í hug að kalla samstarfsfélaga mína hryggleysingja, lindýr, talibana, dólga og einræðisherra, ef ég mundi líkja þeim við menn sem framið hafa hræðilega glæpi, fjöldamorð eða annað sem setur svartan blett á heimssöguna, þá væri ekki lengi verið að kalla mig inn á teppið.

Því, herra forseti, legg ég til að hv. þingmenn fari aðeins að skoða gildi sín og mannleg samskipti á þessum vinnustað. Einnig legg ég til að við látum öll af frammíköllum, því að það er jú bara lágmarkskurteisi að grípa ekki frammí fyrir fólki.

Að lokum legg ég áherslu á að við reynum að komast að niðurstöðu um Vestfjarðaveg 60 um Teigsskóg sem fyrst.



[11:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við mættum nú öll hlusta á þá brýningu hv. þingmanns sem hér talaði á undan.

Ég ætla ekki fara að leiðrétta allt það sem hér hefur komið fram sem er ekki alveg rétt, en þó verð ég að segja, svo það sé alveg skýrt, að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið með frumvarp til að tryggja bónusa. Því miður er það þannig að bónusar í fjármálafyrirtækjum tíðkast eins og menn þekkja. Menn geta haft allar skoðanir á ýmsum frumvörpum, en það er ekki verið að tryggja bónusa.

Ég vil taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem nefndi það að búið er loksins að taka út úr hv. fjárlaganefnd frumvarp um opinber fjármál sem hefur verið í vinnslu í mörg ár hjá mörgum ráðherrum og þá sérstaklega síðustu tvö árin. Haldnir hafa verið 25 fundir í hv. fjárlaganefnd þar sem farið hefur verið yfir málið á þessu ári og fimm fundir á síðasta vetri. Búið er að fara í tvær utanlandsferðir til að kynna okkur þau mál sem þarna eru á ferðinni, bæði núverandi hv. fjárlaganefnd og líka síðasta hv. fjárlaganefnd. Farið var til Svíþjóðar til að kanna það hvernig málum er háttað þar og í rauninni má segja að sænska módelið sé sú fyrirmynd sem hér er lagt upp með. Kallaðir hafa verið til sérfræðingar, sérstaklega frá AGS, sem komið hafa með sínar athugasemdir og tillögur. Sem betur fer hefur verið efnislega góð samstaða um málið í nefndinni.

En stóra málið er að þetta er ekki bara það sem snýr að því sem er samþykkt í lögunum. Ef við ættum að ná því markmiði sem stefnt er að í lögunum þá þýðir það það að við þyrftum að vera með breytt verklag og breytta umræðu um opinber fjármál, ekki bara hér innan þings, heldur líka í fjölmiðlum. Það er bara þannig að í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þá dugar það ekki að vera með óábyrgan tillöguflutning eða óábyrgar tillögur þegar kemur að opinberum fjármálum. Þá verða viðkomandi einstaklingar (Forseti hringir.) eða stjórnmálamenn bara blásnir út af. Ég vona, virðulegi forseti, að við fáum að ræða þetta í þaula því að það er mjög (Forseti hringir.) mikilvægt.



[11:27]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera orð landlæknis, sem hann lét falla fyrir einum eða tveimur dögum í viðtali, að mínum, þar sem hann sagðist, með leyfi forseta, „dást að umburðarlyndi sjúklinga sem bera harm sinn í hljóði í verkfalli heilbrigðisstarfsmanna“. Ég hef þungar áhyggjur af þessu verkfalli sem nú hefur staðið í níu vikur. Það eru nærri 2.000 starfsmenn Landspítalans sem eru í verkfalli og róðurinn er verulega þungur. Þessi kjaradeila mun hafa áhrif löngu eftir að hún leysist. Safnast hafa upp rannsóknargögn sem þarf að fara yfir, 9.000 sýni, og ég veit ekki hvað hefur ekki verið gert, búið að breyta endurkomum o.s.frv.

Ég tek undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér áðan í ræðu sinni að verkfallsrétturinn sé neyðarréttur og neyðarúrræði. Það er alveg rétt, hann er heilagur, hann er neyðarúrræði. Og þess vegna spyr ég mig sem sagt hvernig honum er beitt í þessu tilfelli því það virðist færast í vöxt að verkfallsrétturinn sé notaður til þess að valda þriðja aðila, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér og ekki á aðild að deilunni, sem mestum skaða. Þetta er sorgleg þróun sem verður að breytast.

Áhrif verkfallsins á sjúklinga og aðstandendur þeirra eru algjörlega óþolandi. Ég skora því á alla hlutaðeigandi að leysa þessa deilu með hverjum þeim hætti sem þarf til þess að þessu ástandi í heilbrigðiskerfinu linni. Það er algjörlega óþolandi og það er okkur öllum til minnkunar og vansa.



[11:30]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Nú hafa verkföll BHM staðið í tæpar níu vikur og hjúkrunarfræðingar hafa verið í verkfalli í um eina og hálfa viku. Því miður er ekki að sjá að neitt sé að þokast í samningaviðræðum og enn dapurlegra er að ekki er að sjá mikinn samningsvilja, hvorki hjá hæstv. fjármálaráðherra né hæstv. heilbrigðisráðherra. Þegar læknar fóru í verkfall fyrir ekki svo löngu var mikil áhersla lögð á að semja. Þegar samningar tókust var birt yfirlýsing stjórnvalda, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands. Eins og lesa má á vef velferðarráðuneytisins var áherslan þar lögð á mikilvægi heilbrigðiskerfisins og vilja til að styrkja það og bæta. Hvar er sú áhersla núna?

Það er alveg ljóst að heilbrigðiskerfið okkar þolir ekki það ástand sem nú ríkir. Heilbrigðiskerfið okkar þolir ekki að starfsfólkinu sem þar vinnur finnist það og vinnuframlag þess ekki vera metið að verðleikum þegar kemur að launakjörum og starfsumhverfi. Meðan á þessum verkföllum stendur lesum við hins vegar um það í dagblöðum hvernig verið er að byggja upp einkarekna kjarna sem sinna eiga heilbrigðisþjónustu. Með því er verið að færa peninga úr sameiginlegum sjóðum til einstaklinga sem ætla að græða peninga á veikindum annarra. Er það þangað sem við viljum fara með íslenskt heilbrigðiskerfi? (LRM: Nei.) Þessari spurningu verðum við sem hér inni erum að svara því að það erum við sem tökum ákvarðanir um það hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað.



[11:32]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hryggir mig að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafi ákveðið í morgun að taka út frumvarp um opinber fjármál í ágreiningi. Við höfum verið í samningsumleitunum undanfarna daga til þess að fullklára megi málið en hér fagna þau því að þetta hafi gerst með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg að þakka vel unnin störf ef menn telja sig ekki þurfa að taka tillit til þeirra þátta sem gera málið enn betra. Það er ekki nóg að telja fundi, það þarf líka að skoða árangur og það þarf líka að virða það sem þar kemur fram. Það er eiginlega ótrúlegt við þinglok að ákveðið skuli að rjúfa frið, sem annars hefði verið í boði, um svo gríðarlega mikilvægt mál. Breytt umræða og verklag, hvernig á það að eiga sér stað þegar fólk ákveður þetta með þessum hætti? Við í minni hluta fjárlaganefndar lögðum fram bókun í morgun eftir að hafa, eins og ég sagði, verið í samningsumleitunum undanfarna daga um að geyma málið til haustsins þar sem það yrði þá eitt af fyrstu málum sem yrði vonandi afgreitt í víðtækari sátt en hér er gert.

Það er almennur velvilji hjá okkur í minni hlutanum gagnvart þessu frumvarpi en við teljum að því sé ekki fulllokið. Það er ákveðið kynningarefni sem við teljum að þurfi að verða til fyrir þingflokkana, upplýsingar um fjölda og umfang málefnasviða og málefnaflokka liggja ekki fyrir fyrr en í haust. Þetta er hluti af kjarnaupplýsingum sem þurfa að vera til staðar og snýr að þinglegri meðferð málsins sem er afar mikilvægt í þessu samhengi, fjárlagafrumvarpsins og undirbúningnum. Þetta hefur verið lengi í bígerð hjá færustu sérfræðingum en það er ekki alveg komið á endastöð.

Að lokum vil ég segja að við afgreiðslu málsins í morgun lágu breytingartillögurnar heldur ekki fyrir í endanlegu formi, en þær eru á bilinu 25–30 talsins. Ekki er búið að fara yfir þær í heilli samfellu, rýna þær svo að fullnægjandi sé og leita umsagna faghópanna sem stóðu að þessu hér í upphafi.

Ef markmið frumvarpsins á að ná fram að ganga á vinnulag að vera í samræmi við faglega ferla málsins. Það er (Forseti hringir.) ekki gert hér, sem er afskaplega miður.