144. löggjafarþing — 121. fundur
 7. júní 2015.
gjaldeyrismál, 1. umræða.
frv. efh.- og viðskn., 785. mál (reglur um fjármagnshöft, afnám undanþágna o.fl.). — Þskj. 1398.

[22:06]
Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er flutt af efnahags- og viðskiptanefnd en það er unnið í samstarfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands, sem hefur eftirlit með lögum um gjaldeyrismál og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyrismál. Ráðherra hefur farið þess á leit við efnahags- og viðskiptanefnd að nefndin flytji frumvarpið með það fyrir augum að það verði orðið að lögum sem fyrst og ekki síðar en fyrir opnun skrifstofu Seðlabankans á morgun.

Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið á fundi sem haldinn var í dag. Á fundinn komu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, seðlabankastjóri ásamt fleiri fulltrúum Seðlabankans sem kynntu efni frumvarpsins og svöruðu spurningum nefndarmanna afar skilmerkilega. Að lokinni þeirri kynningu ræddi nefndin málið og ákvað einróma að flytja frumvarpið. Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir gott starf og samstöðu við vinnslu málsins.

Ég mun nú rekja efni frumvarpsins í stórum dráttum en frumvarpið má finna á þingskjali 1398 ásamt ítarlegri greinargerð. Frumvarpinu er ætlað að treysta forsendur aðgerða ríkisstjórnarinnar til losunar fjármagnshafta og vega á móti þeirri áhættu sem getur skapast þegar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti tiltekinna aðila eru losuð á undan öðrum. Öðru fremur miða tillögur frumvarpsins að því að fella niður undanþágur sem fallin fjármálafyrirtæki hafa notið frá höftunum en einnig að girða fyrir ákveðin viðskipti sem grafið gætu undan markmiðum losunarferlisins. Samhliða eru lagðar til breytingar sem hafa þann tilgang að skerpa á ýmsum ákvæðum laganna að teknu tilliti til reynslu við framkvæmd haftanna og koma í veg fyrir sniðgöngu. Þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er einnig ætlað að standa vörð um stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Í frumvarpinu eru lagðar til eftirtaldar breytingar:

Í 1. gr. er lagt til að lögaðilum sem sæta slitameðferð og lögaðilum sem hafa lokið slitameðferð í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki verði óheimilt að eiga gjaldeyrisviðskipti, þar sem krónan er hluti af viðskiptunum, við aðra aðila en viðskiptabanka og sparisjóði hér á landi. Þessari takmörkun er þó ekki ætlað að eiga við þegar umræddir aðilar nota erlendan gjaldeyri við úthlutun til kröfuhafa sem eiga kröfur í innlendum gjaldeyri í tengslum við lok slita.

Hér á eftir í þessari ræðu verður yfirleitt látið nægja að tala einvörðungu um fallin fjármálafyrirtæki í stað þess að vísa til lögaðila í slitameðferð og lögaðila sem lokið hafa slitameðferð og lögaðila sem stofnaðir hafa verið í tengslum við efndir nauðasamninga umræddra aðila eins og gert er í einstökum greinum frumvarpsins.

Í a-lið 2. gr. er lagt til að fallin fjármálafyrirtæki skuli ekki njóta sérstakrar undanþágu sem félög innan sömu samstæðu njóta í tengslum við lánaviðskipti sín á milli. Það þýðir að samstæðulánaviðskipti þessara aðila lúta almennum skilyrðum sem gilda um lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila. Hliðstæð breyting er lögð til í 3. gr. frumvarpsins varðandi veitingu ábyrgða innan samstæðna þar sem fallið fjármálafyrirtæki er aðili að viðskiptunum.

Í b-lið 2. gr. er lagt til að skilyrði um tveggja ára lágmarkslánstíma, sem á við um lántöku innlendra aðila hjá erlendum aðilum í erlendum gjaldeyri, verði útfært nánar í þeim tilgangi að styðja við takmarkanir laga um gjaldeyrismál og fyrirframgreiðslu slíkra lána.

Í a-lið 4. gr. er lagt til að heimild innlendra aðila til þess að kaupa erlendan gjaldeyri til greiðslu samningsbundinna afborgana af láni í erlendum gjaldeyri hjá því innlenda fjármálafyrirtæki sem veitti viðkomandi lán verði háð því skilyrði að lánið sé eigi til skemmri tíma en tveggja ára eða að lán hafi verið veitt vegna greiðslu til erlends aðila vegna vöru- og þjónustuviðskipta.

Í b-lið 4. gr. eru lagðar til takmarkanir á heimildum innlendra aðila til kaupa á erlendum gjaldeyri hjá innlendum fjármálafyrirtækjum vegna afborgana af lánum og greiðslna til erlendra aðila vegna áfallinna ábyrgða. Annars vegar er lagt til að í tilviki lána og ábyrgða sem veitt eru innan samstæðna verði það skilyrði sett fyrir gjaldeyrisviðskiptunum að slík lán eða ábyrgðir standi í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti eða lán sem ábyrgð er veitt fyrir uppfylli skilyrði 3. mgr. 13. gr. g. Hins vegar er lagt til að föllnum fjármálafyrirtækjum verði ekki heimilað að eiga slík gjaldeyrisviðskipti nema hlutaðeigandi lán eða ábyrgðir hafi verið veitt í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti.

Í c-lið 4. gr. er lagt til að tilgreindar greiðslur sem ekki eru til þess fallnar að viðhalda eðlilegu samningssambandi milli lántaka og lánveitanda falli utan hugtaksins „samningsbundin afborgun“ með hliðsjón af því að fjármagnshreyfingar vegna samningsbundinna afborgana og gjaldeyrisviðskipti þeim tengd eru að meginstefnu til undanskildar takmörkunum laga um gjaldeyrismál.

Í 5. gr. er lagt til að tilgreindar fjárfestingar sem beint eða óbeint tengjast fjárfestingum í afleiðum eða kröfum á fallin fjármálafyrirtæki verði ekki meðhöndluð sem nýfjárfesting. Fjárfestar sem koma með nýtt erlent fjármagn til landsins hafa á grundvelli sérstaks ákvæðis í lögunum haft heimild til að fara aftur óhindrað með sömu fjármuni úr landi ásamt ávöxtun. Þá er í 5. gr. frumvarpsins áréttað að skilaskyldur erlendur gjaldeyrir teljist ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris.

Í 6. gr. er lagt að sérstakar undanþágur sem lögaðilar í slitameðferð hafa notið frá þeim takmörkunum sem tilgreindar eru í 13. gr. e, 1. mgr. 13. gr. f, 13. gr. g og 13. gr. h laganna falli brott. Eftir sem áður munu þessir aðilar geta sótt um undanþágur frá fjármagnshöftunum með vísan til 1. mgr. 7. gr. og 13. gr. o laga um gjaldeyrismál líkt og aðrir aðilar. Þessar takmarkanir varða fjárfestingar í framseljanlegum fjármálagerningum og peningakröfum í erlendum gjaldeyri, lánaviðskiptum milli innlendra og erlendra aðila og ábyrgðir sem veittar eru vegna greiðslna til erlendra aðila. Þá er lagt til að umræddir aðilar verði áfram undanþegnir skilaskyldu á erlendum gjaldeyri í öðrum tilvikum en þeim sem varða lántöku í erlendum gjaldmiðlum.

Að lokum er í 7. gr. lagt til að lögin taki þegar gildi. Vegna eðlis ákvæða frumvarpsins er talið nauðsynlegt að lögin bindi alla þegar við birtingu þeirra. Og þar sem nefndin flytur málið er lagt til að málið gangi ekki til nefndar á milli 1. og 2. umr.



[22:13]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Okkur í efnahags- og viðskiptanefnd var gert viðvart um það eftir hádegi í dag að mat Seðlabankans væri að þörf væri á því að herða reglur sem geta að óbreyttu gefið slitabúum möguleika á því að reyna á þanþol gildandi laga um gjaldeyrishöft. Við höfum fengið upplýsingar um málið. Það er niðurstaða okkar í Samfylkingunni að standa að flutningi málsins í samræmi við þá meginstefnu sem við mörkuðum og ég gerði grein fyrir úr þessum ræðustól þegar ég mælti fyrir frumvarpi því sem varð að lögum nr. 127/2011, um gjaldeyrismál. Þegar við lögfestum heimildir Seðlabankans til að setja reglur um gjaldeyrismál gerði ég þinginu viðvart um það að til þess kynni að koma að þingið þyrfti oftar að koma að því að breyta þeim reglum í samræmi við tillögur Seðlabankans. Við viljum þess vegna axla ábyrgð með stjórnarmeirihlutanum á þessum tillögum og treystum mati Seðlabankans á þeirri nauðsyn sem að baki liggur.

Það er vert að hafa í huga stöðuna sem við búum við nú og gerir okkur sem þjóð kleift að taka á haftavandanum og þeim vanda sem greiðsluútflæðishættan úr hinum föllnu fjármálafyrirtækjum skapar. Ástæðan fyrir því að við getum tekið á þeim vanda er sú lagabreyting sem gerð var hér 12. mars árið 2012 þegar eignir hinna föllnu fjármálafyrirtækja voru að öllu leyti felldar undir gjaldeyrishöftin. Því miður var þá ekki samstaða um málið í þingsal eins og er nú og þeir sem þá voru í stjórnarandstöðu greiddu frumvarpinu ekki atkvæði; sjálfstæðismenn greiddu meira að segja atkvæði á móti því. Það frumvarp tryggði íslenskri þjóð samningsstöðu gagnvart slitabúunum og tryggði að við gætum gætt almannahagsmuna. Ég vona að sú ríkisstjórn sem nú situr fari vel með þá samningsstöðu.

Við höfum ekki til fulls yfirsýn yfir það hvað ríkisstjórnin hyggst kynna á morgun. Mér finnst það ámælisvert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa kallað stjórnarandstöðuna að því borði. Frá okkar hendi hefur alltaf verið útrétt hönd til samstarfs um þetta mikla þjóðarhagsmunamál. Mér finnst heldur ekki bragur á því fyrir hönd Alþingis að ríkisstjórnin hyggist kynna tillögur opinberlega á morgun áður en þær hafa fyrst verið kynntar á Alþingi Íslendinga. Ég held að við öll í þessum sal hljótum að geta tekið undir þá meginkröfu að þjóðþinginu sé sýnd sú virðing að ríkisstjórnin komi með þær mikilvægu tillögur fyrst inn í þennan þingsal.

Við í Samfylkingunni erum tilbúin að vinna áfram sem hingað til að úrlausn þessara mikilvægu mála með þjóðarhag að leiðarljósi. Við munum styðja ríkisstjórnina taki hún skynsamleg skref til þess að nýta þá samingsstöðu sem við erum mjög stolt yfir að hafa skapað með lagasetningunni 12. mars 2012.



[22:18]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kom hér áðan hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni þá rekur þetta mál sig í reynd aftur til þess að reglur um fjármagnshöft, sem Seðlabankinn hafði áður heimild til að setja á grundvelli laga um gjaldeyrismál, voru færðar inn í lög á árinu 2011. Það þótti traustara að byggja fjármagnshöftin á lögum en ekki einföldum reglum. Það leiddi til þess að Alþingi hefur síðan ítrekað þurft að koma að því að uppfæra þessi lagaákvæði, styrkja þau eða reyna að koma í veg fyrir mögulegar sniðgönguleiðir. Þetta frumvarp er af þeim toga. Það felur í reynd í sér fyrirbyggjandi aðgerðir til að loka raunverulegum eða hugsanlegum — ég get næstum sagt fræðilegum leiðum sem einhverjir kynnu að reyna að nýta sér eða eru jafnvel að undirbúa að nýta sér í þessum töluðum orðum fyrir fram.

Veigamesta breytingin sem Alþingi gerði á lögunum frá 2011 var að sjálfsögðu nefnd lagasetning aðfaranótt 12. mars 2012. Það má halda því fram með gildum rökum að það sé næstmikilvægasta lagasetningin á Íslandi frá hruni bak neyðarlögunum sjálfum. Í því frumvarpi var tvennt. Það var annars vegar mjög hliðstætt ákvæði því sem hér er verið að færa í lög af ýmsum toga, að koma í veg fyrir og loka sniðgönguleið sem þá var augljóst að menn voru farnir að nýta sér, þ.e. þeir keyptu upp húsbréf rétt áður en þau komu á gjalddaga og uppgreiðslan var síðan undanþegin gjaldeyrishöftum eða fjármagnshöftum eins og aðrar sambærilegar afborganir og greiðslur af gildum skuldbindingum. En hitt sem var í lögunum var miklu mun stærra og þýðingarmeira, þ.e. að færa eignir föllnu bankanna og föllnu fjármálafyrirtækjanna inn fyrir gjaldeyrishöftin en þau höfðu verið undanþegin fram að því. Það er í reynd síðan forsenda alls sem unnið hefur verið í sambandi við greiningu á stöðu búanna, greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins samfara slitum þeirra eða uppgjöri o.s.frv.

Það fór svo, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason rakti, að stjórnarandstaðan á þeim tíma greiddi ýmist atkvæði gegn frumvarpinu eða sat hjá. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn því eftir að hafa fyllt þinghúsið af erlendum kröfuhöfum fyrr um kvöldið og Framsóknarflokkurinn sat hjá.

Nú má vel segja að það hafi ekki verið hægt að ætlast til þess að allir áttuðu sig á því hversu gríðarlega afdrifarík og mikilvæg þessi lagasetning var. Ég skal segja sem einn af aðstandendunum að ég áttaði mig á þeim tíma ekki á því hversu óhemjumiklir hagsmunir voru í húfi fyrir Ísland að ná þeirri lagasetningu í gegn. Ég efast um að Seðlabankinn hafi á þeim tímapunkti áttað sig á því hvílík þjóðarnauðsyn það var að fara í þessa breytingu. En það var gert og ég tel að það sé ástæða til þess að nefna Seðlabankann í því sambandi og hrósa því sem vel er gert. Þarna stóð Seðlabankinn vaktina eins og honum bar og lagði til tímanlega nauðsynlegar, óumflýjanlegar og óhemjumikilvægar breytingar á lögum. Sama er Seðlabankinn í raun og veru að gera í dag. Hann er að koma til Alþingis og biðja um tilteknar, mikilvægar forvarnaaðgerðir í þessum efnum.

Ólíkt höfumst við að. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum styðja þetta frumvarps og stöndum að flutningi þess vegna þess að fyrir því standa sterk rök að gera þær ráðstafanir sem þar eru lagðar til. Það er mjög mikilvægt að loka öllum mögulegum sniðgönguleiðum áður en næstu skref hefjast með flutningi mikilvægra frumvarpa sem við væntum að komi hingað inn og það hefur orðið enn mikilvægara en ella þessa helgi. Það þarf að koma hér fram, herra forseti, að Seðlabankinn tilgreindi sérstaklega sem ástæðu fyrir nauðsyn þessarar lagasetningar hér í kvöld eða nótt leka í DV sem varð á föstudagsmorguninn var þegar þar var slegið upp að í vændum væri frumvarp um 40% stöðugleikaskatt á eignir fallinna fjármálafyrirtækja, jafnvel þar sem skattandlagið væru allar eignir þeirra búa. Þetta hefur leitt skjálfta yfir kerfið og menn hafa síðan fundið aukinn þrýsting á það að hjáleiðir væru í undirbúningi eða skoðaðar til þess að sleppa út með fjármuni áður en til skattsins kæmi.

Ég tel, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra væri maður að meiri að biðja nú stjórnarandstöðuna afsökunar á þeim ósæmilegu ásökunum sem hann hafði uppi hér í okkar garð og einkum hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að við værum að skemma fyrir þessu ferli með leka. Það vorum að minnsta kosti ekki við sem lákum í DV á föstudaginn (Utanrrh.: Ertu viss?) var. — Já, það er ég viss um, hæstv. utanríkisráðherra, því að samráðsnefnd um afnám gjaldeyrishafta hefur ekki verið kölluð saman í sex vikur. Við höfum þurft að lesa DV eins og aðrir eiðsvarnir nefndarmenn í samráðsnefndinni því að í okkur hefur ekki verið kallað. Þarna er hins vegar á ferðinni hættulegur og skaðlegur og raunverulegur leki sem enginn átti sér stað í fyrra tilvikinu. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra væri maður að meiri, það er lengi von á einum, ef hann bæði nú stjórnarandstöðuna og hv. þm. Árna Pál Árnason sérstaklega afsökunar (BirgJ: Heyr, heyr!) og útskýrði frekar fyrir okkur hvernig það getur gerst að út úr hinu lokaða ferli til undirbúnings frumvarpa um afnám gjaldeyrishafta skuli koma skaðlegur leki af því tagi beint í gegnum nafngreindan blaðamann DV og á forsíðu þess blaðs. Þessi leki hefur aukið þrýstinginn á að gripið sé til allra mögulegra ráðstafana til að loka hugsanlegum sniðgönguleiðum. Þetta er líka mikilvæg aðgerð til þess að Alþingi hafi síðan eðlilegt ráðrúm til að vinna með þau stóru mál nær þau koma fram og þurfi ekki að kasta til höndunum við þá vinnu. Það má ekki vera tímapressa eða þrýstingur á Alþingi að klára þau risavöxnu mál undir því að menn séu mögulega að virkja einhverjar færar sniðgönguleiðir og koma fjármunum fram hjá skattinum, bak gjaldeyrishöftunum og úr landi.

Herra forseti. Eins og ég hef sagt munum við styðja þetta frumvarp og stöndum að flutningi þess. Ég ætla ekki tímans vegna að rekja hér einstök efnisatriði frumvarpsins, það gerði hv. þm. Frosti Sigurjónsson ágætlega í framsöguræðu sinni. Á mannamáli má segja að þetta snúist um að fallin fjármálafyrirtæki eða fjármálafyrirtæki sem hafa verið fjárhagslega endurskipulögð með nauðasamningum og hvers kyns dótturfélög eða einingar þeim tengdar eða önnur sem slíkir aðilar kynnu að reyna að stofna á næstu dögum verði ekki tæki til þess að með samstæðulánveitingum, ábyrgðum, með því að smíða fjármálagerninga, með því að finna sér mótaðila hér heima og erlendis, að öllum slíkum hugsanlega mögulegum leiðum verði lokað. Við verðum að vona að það hafi tekist að róa hér fyrir hverja vík, a.m.k. flestar víkur, og reiða okkur á vinnu Seðlabankans í þeim efnum. Það er algerlega ástæðulaust að draga fjöður yfir það að málið er flókið og við höfum ekki haft langan tíma til að setja okkur inn í einstök ákvæði þess. Í grunninn snýst málið um það sem ég hef hér reynt að draga saman á mannamáli. Ég vænti þess að allir hv. þingmenn séu sammála um að loka öllum slíkum leiðum.



[22:27]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og aðrir þeir sem hér hafa talað tel ég að það sé ákaflega mikilvægt að það takist sem best samstaða með stjórn og stjórnarandstöðu í kringum þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til þess að aflétta gjaldeyrishöftum. Ég tel að það sé vandasamasta verkefnið sem Alþingi og framkvæmdarvaldið hafa hugsanlega staðið frammi fyrir frá lýðveldisstofnun. Sannarlega vildi ég geta sagt það að ég mundi styðja heils hugar þau frumvörp sem við eigum eftir að sjá. Ég vonast til þess að geta gert það.

En ég er í þeirri undarlegu stöðu að ég hef ekkert fengið að sjá af þeim. Enginn hefur spurt þingið. Það hefur ekki einu sinni verið kynnt fyrir samráðsnefndinni. Nú heyri ég hér í dag að það á að kynna þetta fyrir fjölmiðlum áður en það verður kynnt fyrir þinginu. Látum það nú vera.

Það sem ég velti fyrir mér er þetta sérkennilega augnablik í þingsögunni. Þetta er í fyrsta skipti sem Alþingi er kvatt saman á sunnudegi. Það hefur aldrei gerst á lýðveldistímanum fyrr. Það hlýtur að vera eitthvað mjög mikilvægt. Jú, það er þetta frumvarp, en ríkisstjórnin er búin að vera mánuðum saman að undirbúa þetta. Hvers vegna er þá sem nauðsynlegt er að gera þetta núna í kvöld? Af hverju var það ekki gert í síðustu viku þegar þingið sat hér dag eftir dag til klukkan tólf? Og nú allt í einu dettur skýringin fram. Hún kemur af munni hv. þingmanns sem talaði hér áðan og var á fundi í efnahags- og skattanefnd. Og hver er skýringin?

Bara til þess að ég fái það algerlega á hreint þá spyr ég hv. þingmann: Er það svo að Seðlabankinn hafi gefið það sem eina af skýringunum fyrir nauðsyn þess að það þurfti að ráðast í þetta eftir hádegið í dag, samanber það sem formaður Samfylkingarinnar sagði, að það er leki úr herbúðum ríkisstjórnarinnar? Er það þess vegna sem þingið er kallað saman á sunnudagskvöldi? Mig langar bara til þess að fá þetta á hreint vegna þess að það var sagt hér þannig að þingið skilji þá við hvað er að fást.



[22:29]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem fram kom í ræðu minni. Ég taldi það og tel það óumflýjanlegt að gera öðrum hv. þingmönnum hér í salnum grein fyrir því þegar um er að ræða röksemdir fyrir því að mál sé flutt með svo óvenjulegum hætti sem raun ber vitni. Nú er auðvitað ekki venjan almennt á þingfundum að vitna í ummæli eða afstöðu gesta á lokuðum nefndarfundum í þinginu, en þegar um er að ræða forsendur máls af þessu tagi þá fyndist mér ekki rétt að þegja yfir því að já, við höfum fyrir því orð seðlabankastjóra að þessi leki í DV á föstudagsmorguninn hafi skapað óróleika, aukið þrýstinginn og geri það að verkum að menn vilji ekki bíða lengur með það að drífa þessa löggjöf í gegn og samanber gildistökuákvæðið þá öðlast þau þegar gildi og bíða ekki venjulegrar birtingar þannig að vel fyrir klukkan átta í fyrramálið verða þau væntanlega orðin að lögum til þess að girða algerlega fyrir það að í smíði séu einhverjir þeir gjörningar, einhver þau „instrúment“ sem menn gætu hugsanlega notað til þess að koma einhverjum fjármunum í burtu á næstu klukkutímum og sólarhringum.



[22:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir hreinskilnina. Ég tel að það sé algjörlega hárrétt mat hjá honum að þingið hafi þurft að fá að heyra þetta. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður, ég tel mikilvægt að við náum samstöðu um þetta mál. Þetta er flókið mál, það er lagatorf sem hér liggur fyrir, og ég hef hvorki forsendur til að skilja það til hlítar né tóm eða tíma til að brjóta það til mergjar. Ég treysti ríkisstjórninni í þessum málum. Ég treysti hv. þm. Frosta fyrir þessu líka. Þeir sem hafa komið að málinu telja bersýnilega að þetta sé mikilvægt og vegna hagsmuna Íslands ætla ég að styðja málið eins og það var lagt hér fyrir.

Hins vegar er algjörlega nauðsynlegt að menn hafi á hreinu að það var nauðsynlegt að kalla þingið saman í fyrsta skipti í lýðveldissögunni á sunnudagskvöldi vegna þess að ríkisstjórnin heldur ekki upplýsingum. Þess vegna þarf að kalla þingið saman, vegna þess að frá ríkisstjórninni leka upplýsingar sem geta skaðað hagsmuni Íslands. Þarf ekki hæstv. forsætisráðherra að svara því?

Hins vegar verð ég að taka undir að það má segja að með þessu sé heldur farin að gildna torfan undir DV. DV hefur að minnsta kosti ritað sig inn í Íslandssöguna — út af því er í fyrsta skipti kvatt til þingfundar á sunnudegi.



[22:32]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að til frekari skýringar sé rétt að taka fram að sumt af því sem hér er verið að leggja til í frumvarpinu er til að loka hugsanlegum sniðgönguleiðum sem mönnum hefur verið ljóst um nokkurt skeið að væru í sjálfu sér fræðilega til staðar. Seðlabankinn hefur engin merki séð þess að þær smugur væru nýttar þannig að að sumu leyti er þetta aðgerð af því tagi sem án nokkurra sérstakra tilefna eða án nokkurs leka hefði væntanlega verið skynsamlegt að gera. Þá má auðvitað spyrja: Af hverju voru menn ekki aðvaraðir um það fyrr? Af hverju var til dæmis ekki samráðsnefndin kölluð fyrr að þessu borði hvað þetta varðar?

En frumvarpið er líka flutt að gefnu tilefni, frumvarpið er flutt vegna hluta sem Seðlabankinn hefur séð og orðið áskynja undanfarna sólarhringa og þess vegna er þörfin að drífa það í gegn. Og það er mat manna að helgin hafi sem sagt verið óróleg að þessu leyti.



[22:33]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég sá á vefmiðlum að það var svona talsverð eftirvænting ríkjandi fyrir þessum sunnudagsfundi og sumir vefmiðlar boðuðu beina útsendingu frá fundinum. Ég býst við að þær fjölskyldur sem ákváðu að poppa og hafa það kósí og horfa á þessa útsendingu hafi kannski orðið fyrir svolitlum vonbrigðum.

Hér er auðvitað ekki um neitt sérstaklega stórt mál að ræða eða merkilegt. Þetta er bara eitt af þeim málum sem hafa þurft að koma fyrir þingið með talsverðum hraði fyrir opnun markaða, eins og það kallast, til að stoppa upp í göt í lögum um gjaldeyrismál eða stoppa upp í göt í gjaldeyrishöftunum. Þessi lagasetning sem við þurfum stundum að ráðast í er auðvitað einn besti vitnisburðurinn um hversu afleitt það er að búa við þessi höft og þurfa að vera í þessari eilífu viðureign við stóra aðila með stórar fjárhæðir sem vilja koma þeim út úr landi þrátt fyrir höftin. Þetta bar brátt að en hér er sem sagt, kæru landsmenn og þið sem horfið á beinu útsendinguna, ekki verið að afnema höftin. Hér er í rauninni verið (Gripið fram í: Herða á þeim.) að herða á þeim, eins og hv. þingmaður kallar hér. Og það kann að hljóma þversagnarkennt, en það þarf sem sagt að stoppa upp í götin, herða þarf á höftunum áður en þau eru losuð, svo að þær aðgerðir um afnám hafta sem okkur verða væntanlega kynntar á morgun beri tilætlaðan árangur.

Við í Bjartri framtíð styðjum frumvarpið og stöndum að því, þó að alla jafna vilji maður fá lengri tíma til að setja sig inn í flókin mál og alla jafna vilji maður lesa eitthvað annað á sunnudögum en svona frumvarp sem er æði tyrfið. En við skiljum nauðsyn þessarar lagasetningar og skiljum flýtinn. En ég verð samt að segja í ljósi umræðunnar sem fór fram hér áðan, að það er auðvitað skrýtið að fundur sé á sunnudagskvöldi. Þetta er í fyrsta skipti sem þing er kallað saman á sunnudagskvöldi, og það á sjómannadaginn. Það er auðvitað út af því að ríkisstjórnin missti stjórn á atburðarásinni og það sáum við í leka í DV á föstudagsmorgun, og best að halda því til haga að það er áhyggjuefni. Ég vona að atburðarásin sem við sjáum um hin stóru frumvörp um afnám hafta verði betri. Og ég auglýsi jafnframt, eins og aðrir kollegar mínir hér í þinginu, eftir meira samráði í þeim efnum. En ræður um afnám hafta hyggst ég flytja síðar.



[22:37]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það frumvarp sem liggur hérna fyrir þingi fengum við að sjá í efnahags- og viðskiptanefnd fyrst í dag, um fimmleytið, og höfum þar af leiðandi ekki haft mikinn tíma til að setja okkur inn í það. Við áttum þó góðan fund í nefndinni þar sem starfsfólk Seðlabankans sem vann að þessu frumvarpi með starfsfólki ráðuneytisins kynnti okkur það og við gátum fengið að spyrja þannig að ef við treystum dómgreind þessa starfsfólks hvað þetta varðar virðist þetta mjög ábyrg aðgerð. Það er í rauninni ekki verið að breyta neitt um eðli haftanna í sjálfu sér, þetta eru áfram fjármagnshöft. Það er ekki verið að færa þetta inn í gjaldeyrishöft, þ.e. ekki verið að færa þetta inn á það að takmarka gjaldeyrisviðskipti þegar kemur að sölu eða kaupum á vöru og þjónustu. Þetta eru áfram fjármagnshöft. Það eina í rauninni sem er verið að gera er að minnka undanþágur sem þrotabúin hafa haft sem hafa verið allt of miklar í gegnum tíðina, allt of miklar. Jafnræðisreglan hefur verið þeim í vil, þ.e. ef það á að vera jafnræði hafa þau fengið miklu meiri undanþágur en aðrir Íslendingar, lífeyrissjóðir o.s.frv., sem hafa líka þurft að búa við þessi höft. Það er bara verið að taka af þessar undanþágur og það er mikilvægt þó að það væri ekki nema bara til að gera það, þó að það væri ekki núna fram undan að við værum að fara að losa um fjármagnshöftin. En það er sér í lagi nauðsynlegt að gera það einmitt þegar við erum að fara að losa.

Það hefur komið fram í máli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gegnum tíðina að þegar menn losa um fjármagnshöft sé mjög mikilvægt að það ferli allt saman geti flotið, þ.e. að það séu ekki göt, ekki lekar, að skipið leki ekki þegar við erum að fara af stað í þá háskaför sem losun hafta er. Það er ábyrgt ef þetta er gert eins og lagt er af stað með, og minn skilningur á því er þótt hann sé ekki djúpur, og eins og kom fram í máli Seðlabankans og ráðuneytisins.

Áhrifin sem leki eða hvað við tökum mikið út úr hagkerfinu, að kaupa gjaldeyri fyrir krónur, getur haft á þetta ferli sem við erum að fara í við losun hafta hljóða upp á 80–140 milljarða. Ef ekki er stoppað í þessi göt geta slitabúin tekið út 80–140 milljarða. Bara svo við skiljum samhengi þessara talna hefur þúsund sinnum lægri upphæð áhrif á gengissveiflur. Það væri mjög óábyrgt að bregðast ekki við, jafnvel þó að það séu ekki endilega miklar líkur á því að þetta sé notað eru áhrifin slík að það væri mjög óábyrgt að reyna ekki að stoppa í þau göt áður en við förum af stað í þessa ferð.

Aukaverkanir á aðra aðila eru óveruleg. Í frumvarpinu sem menn geta lesið sést að þau eru óveruleg. Þótt þessar undanþágur séu ekki sjálfgefnar lengur er verið að tryggja að þetta hafi ekki nein veruleg áhrif á þá sem eru bara í venjulegum rekstri, jafnvel þótt þrotabúin ætluðu ekki að nýta sér þessar glufur, þetta er bara ef menn ætla að fara að nýta sér glufurnar.

Ég tel málið ábyrgt. Þetta er nauðsynlegt inn í þá framtíð sem við stefnum inn í. Ég get hreinlega samt sem áður ekki kafað það djúpt í málið til að meta það og jafnvel þótt ég hefði tíma er ég ekki viss um að ég hefði sérþekkingu á því þannig að ég sjálfur mun ekki greiða atkvæði með því en ég tala fyrir þessu sem ábyrgri aðgerð. Ef vel er gert eiga þeir sem sömdu þetta frumvarp og þeir sem leggja það fram heiður skilinn.



Frumvarpið gengur til 2. umr.