144. löggjafarþing — 134. fundur
 22. júní 2015.
kjarasamningar heilbrigðisstétta.

[15:46]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir að ríkisstjórnarmeirihlutinn tók þá óheillavænlegu ákvörðun að beita lagasetningu á verkföll fyrir rúmri viku hefur það gerst að hátt í 200 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum. Fyrir lá áður að um 20% ljósmæðra höfðu aflað sér staðfestingar á menntun til að geta leitað sér að störfum annars staðar og geislafræðingar hafa verið í verkfalli vikum saman.

Aðildarfélög BHM og hjúkrunarfræðingar verða ekki vör við mikla hreyfingu í samningamálum. Það var gefinn frestur til mánaðamóta til að ná samningum. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða fyrirmæli ríkisstjórnin hafi gefið samninganefndinni. Hefur ríkisstjórnin gert einhverja gangskör að því að auka svigrúm samninganefndar ríkisins til þess að ná samningum við hjúkrunarfræðinga og við aðildarfélög BHM nú meðan enn er tækifæri til þess?

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra líka: Hvar eru efndir á þeim yfirlýsingum sem hann gaf þegar gengið var frá samningum við lækna í janúarmánuði um viðbótarfjárveitingar til heilbrigðiskerfisins sem hvergi sér stað, hvorki í ríkisfjármálaáætlun né í neinum tillöguflutningi á Alþingi Íslendinga? Hafa þeir fjármunir verið afhentir eða yfirvöldum heilbrigðismála gert viðvart að þar sé viðbótarfé að finna.

Að síðustu: Með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir því að taka á þeirri skelfilegu stöðu sem upp er komin þegar heilbrigðiskerfið er í uppnámi? Allar (Forseti hringir.) viðvaranir okkar hafa reynst réttar. Það var (Forseti hringir.) mikið óheillaskref að leggja út í þá löggjöf sem (Forseti hringir.) ríkisstjórnarmeirihlutinn fór í.



[15:49]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður þekkir hvernig samningar ganga fyrir sig á opinberum vinnumarkaði. Ráðherrar eru ekki á fundum dagsdaglega með samningsaðilum eða gefa fyrirskipanir um að það eigi að gera þessar breytingar eða hinar. Menn leggja ákveðnar meginlínur sem samninganefnd ríkisins svo fylgir. Hér hafa verið lagðar ákveðnar meginlínur í samningum, ekki bara á opinbera markaðnum heldur á almenna markaðnum líka. Meginlínurnar eru þær að við viljum halda áfram að auka kaupmátt — við viljum halda áfram að auka raunverulegan kaupmátt, m.a. til þess að stéttir eins og hjúkrunarfræðingar fái betri kjör og fáist þá heldur til þess að vinna hér á landi áfram. Það er engin lausn á málum að fara í hækkanir sem skila sér eingöngu í aukinni verðbólgu, efnahagslegum óstöðugleika og fyrir vikið lakari kjörum fyrir alla hópa. Þess vegna liggur fyrir að eftir að samningar náðust á almenna markaðnum var í rauninni merki gefið um hvað væri hægt í samningum og sem betur fer er hægt að ná mjög mikilli kaupmáttaraukningu áfram, meðal annars fyrir heilbrigðisstéttir, ekki hvað síst. Þar erum við að ræða um prósentur sem eru langt, langt umfram það sem menn sjá nokkurs staðar annars staðar. Hvergi annars staðar í Evrópu og allra síst á Norðurlöndunum geta menn vænst viðlíka launahækkana eins og verið er að bjóða á Íslandi. Sem betur fer lítur út fyrir að megnið af þessum hækkunum muni skila sér í raunverulegri kaupmáttaraukningu. Við förum ekki að fórna því núna með því að leggja þann ávinning sem hefur náðst í rúst, eyða honum með því að setja hér verðbólguna á skrið og efnahagslífið á hliðina. Við munum standa vörð um kaupmáttinn fyrir allar stéttir í landinu.



[15:51]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra kemur sér ekki undan því að stjórnvöld gefa línu í málum sem þessum. Hæstv. forsætisráðherra gaf línu í janúarmánuði þegar samið var við lækna og yfirlýsingar voru gefnar um auknar fjárveitingar í heilbrigðiskerfið og að semja ætti við lækna og það yrði samið við þá á tilteknum forsendum vegna þess að þeir væru mikilvægir heilbrigðiskerfinu.

Aðrar stéttir, fjölmennar kvennastéttir sem eru engu að síður mikilvægar heilbrigðiskerfinu, upplifa ekki að fá sambærilega samninga og úrlausn nú.

Ég hlýt að ítreka fyrirspurn mína til hæstv. forsætisráðherra: Hvar eru peningarnir sem hæstv. forsætisráðherra lofaði í janúarmánuði í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins? Hvar sér þeirra stað í ríkisfjármálaáætlun? Hvar sér þeirra stað í tillöguflutningi hér? Með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra tryggja að heilbrigðisþjónustan í landinu virki þegar við horfum fram á (Forseti hringir.) uppsagnir sem hann verður að taka (Forseti hringir.) ábyrgð á?



[15:52]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég bendi hv. þingmanni á það sem ég taldi reyndar að hann hlyti að vera búinn að sjá, nógu oft hefur verið bent á það, að framlög til heilbrigðismála, þar með talið til Landspítalans, hafa aldrei verið jafn mikil og nú. Eftir gríðarlegan niðurskurð á síðasta kjörtímabili sem nam 30 milljörðum kr. erum við nú ekki aðeins búin að vinna upp þann niðurskurð heldur hafa viðbæturnar verið slíkar að framlögin hafa aldrei verið jafn há og nú. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu standa við það að fylgja eftir þeim yfirlýsingum sem hún hefur gefið um áframhaldandi uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu því að ekki veitir af eftir niðurskurð síðasta kjörtímabils.

Hvað varðar svo þá stöðu sem uppi er vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga þá vona ég og biðla til heilbrigðisstarfsfólks almennt að taka þátt í því að auka kaupmátt áfram og ná með því mestu kjarabótum sem þessar stéttir eða nokkrar aðrar stéttir hafa staðið frammi fyrir á Íslandi um áratugaskeið.