144. löggjafarþing — 137. fundur
 25. júní 2015.
dagskrá næsta fundar.

[10:32]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Eins og tilkynnt var á þingfundi í gær hefur forseta borist dagskrártillaga sem er svohljóðandi:

„Við undirrituð gerum það að tillögu okkar í samræmi við 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga að dagskrá næsta fundar verði svohljóðandi:

1. Óundirbúinn fyrirspurnatími.

2. Staðan á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

3. Sérstakar umræður um verðtryggingu. Málshefjandi er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og til andsvara verður forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

4. Sérstakar umræður um fyrirhugaðar skattbreytingar og jöfnuð í samfélaginu. Málshefjandi er Steingrímur J. Sigfússon og til andsvara verður fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson.

5. Sérstakar umræður um öryggi sjúklinga í kjölfar fjöldauppsagna heilbrigðisstarfsfólks. Málshefjandi er Jón Þór Ólafsson og til andsvara verður heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson.

Við óskum eftir því að þessi tillaga verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta bréf rita Katrín Júlíusdóttir, Jón Þór Ólafsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.



[10:33]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dálítið óvenjulegt að koma hérna þriðja daginn í röð, eiginlega á hnjánum, til að biðja þingheim um aðstoð við það að við þingmenn stjórnarandstöðunnar getum fengið að taka sérstakar umræður hér á dagskrá við hæstvirta ráðherra. Það er það eina sem við erum að biðja um. Dagskrártillaga okkar felst í því að menn taki núna fram fyrir umræðu um almenn dagskrármál sérstakar umræður. Ein hefur beðið frá því í janúar, önnur hefur beðið frá því í febrúar, munnlega skýrslubeiðnin hefur beðið frá því í maí og síðan er ein ný. Þetta er það eina sem við erum að biðja um og ég spyr mig hvers vegna menn greiði ítrekað atkvæði gegn þessu. Það tekur tvo klukkutíma að afgreiða þennan þátt mála, þetta er sá hluti sem við þingmenn — verkfæri sem okkur eru færð samkvæmt þingsköpum til að hafa eftirlit með starfsemi framkvæmdarvaldsins og því sem þar er að gerast en þingmenn leggjast hér fyrir það í heilan mánuð að við (Forseti hringir.) getum tekið sérstakar umræður á dagskrá. Og til hvers? Bara til að sýna vald sitt gagnvart minni hlutanum? Við erum að biðja ykkur um að styðja okkur í því að fá þessar (Forseti hringir.) sérstöku umræður á dagskrá. Það er það eina sem við biðjum um.



[10:34]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. forseti Alþingis hefur vanrækt að virkja lögbundið eftirlitsverkfæri þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þess vegna leggjum við fram þessa tillögu, meiri hluti þingsins getur virkjað það, getur leyft okkur að eiga tvo klukkutíma í að ræða mjög mikilvæg málefni líðandi stundar, eins og hættuástandið í heilbrigðiskerfinu. Búið er að samþykkja samninga en þeir verða örugglega felldir. Við þurfum að ræða það, við þurfum að ræða hvað var í boði í þessum samningum. Hver er stefna stjórnvalda varðandi heilbrigðiskerfið? Við þurfum að fá tækifæri til að ræða þessi mál. Það er enginn hérna inni sem er ekki sammála um það að mikilvægt sé að ræða þetta. Þið hafið heimildina til að setja þetta á dagskrá. Ég trúi ekki að þið gerið það en við berum samt sem áður upp þessa tillögu og munum halda áfram að bera hana upp þannig að þið hafnið því gegn ykkar eigin samvisku.



[10:35]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þar sem sumarþing heldur áfram eins og enginn sé morgundagurinn held ég að kominn sé tími til að taka tillit til óska stjórnarandstöðunnar um að fá á dagskrá sérstakar umræður sem hafa beðið allt frá því í janúar og febrúar, og svo nýja brýna umræðu um öryggi sjúklinga í kjölfar fjöldauppsagna sem er aldeilis brýnt að taka til umræðu hér. Þær umræður sem beðið var um, sérstakar umræður, eru um verðtryggingu og jöfnuð í samfélaginu. Þetta eru brýn málefni sem við þurfum að ræða. Út af hverju er ekki hlustað á stjórnarandstöðuna? Út af hverju treysta þeir ráðherrar sem þarna eiga í hlut sér ekki til að koma hingað og ræða þessi mál við alþingismenn? Hvað stendur í mönnum með það? Það hlýtur að vera réttmæt krafa hjá stjórnarandstöðunni að fá svona mál á dagskrá sem eru ekki stór hluti af þeim tíma sem Alþingi hefur til umræðna. (Forseti hringir.) Við bara gerum þá kröfu að þessum óskum okkar sé mætt.



[10:36]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er langt um liðið síðan ég bað um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um áform Framsóknarflokksins um að afnema verðtryggingu. Þetta var eitt stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins sem leiddi til mikilla væntinga en við höfum ekkert séð í þeim efnum. Við erum farin að upplifa stýrivaxtahækkanir vegna undirliggjandi verðbólgu og síðan eru ófyrirsjáanlegar afleiðingarnar af afnámi fjármagnshafta þannig að það er mjög brýnt að við tökum þessa umræðu svo fólk í landinu viti hvað fram undan er á lánamarkaði.

Síðan tel ég mjög mikilvægt að við ræðum stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir að nú hafi náðst samningar vita allir sem í einhverjum tengslum eru við heilbrigðiskerfið að það er gríðarleg óánægja meðal hjúkrunarfræðinga. BHM er ekki búið að ná neinum samningum og það er alls óvíst (Forseti hringir.) að allar þær uppsagnir sem nú hafa komið fram verði dregnar til baka. Þetta verðum við að ræða hér því að þetta er stóralvarlegt ástand.



[10:38]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir upplýsingum um það frá forseta hvenær sérstök umræða var síðast tekin hér á dagskrá. Ég held að það muni koma þingmönnum á óvart hversu langt er síðan það var. Það er verið að troða á réttindum okkar, þingmanna stjórnarandstöðunnar, til þess að eiga samtal við ráðherrana. (JÞÓ: Rétt.) Hvers vegna hefur til dæmis hæstv. fjármálaráðherra ekki verið tilbúinn að taka sérstaka umræðu við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um jöfnuð í samfélaginu og áhrif skattbreytinga síðan í janúar?

Virðulegi forseti. Þetta gengur auðvitað ekki. Núna í heilan mánuð meðan engin starfsáætlun hefur verið í gildi hafa engar slíkar umræður verið teknar á dagskrá. Finnst mönnum það í alvöru allt í lagi? Stjórnarmeirihlutinn mætir bara hér samkvæmt dagskipun á hverjum morgni og heldur áfram að troða á okkar rétti með því að greiða atkvæði gegn þessum tillögum. Hafið þið lesið það sem við erum að biðja um? (Forseti hringir.) Þetta er sjálfsögð ósk okkar um að tveir tímar af þinghaldinu verði núna nýttir í það að gefa okkur þann rétt að fá að nýta okkur sérstakar umræður.



[10:39]
Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð lögðum fram ósk um það síðastliðið haust að fá að ræða í sérstakri umræðu tjáningarfrelsið á Íslandi í ljósi nýlegra dóma fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í málsókn blaðamannsins Erlu Hlynsdóttur gegn íslenska ríkinu. Frá því að við lögðum þá beiðni fram hefur hún unnið eitt mál í viðbót fyrir Mannréttindadómstólnum. Það er í rauninni alveg sjálfsagður réttur og sjálfsögð krafa þegar menn halda dagskrá hér áfram mörgum vikum eftir að starfsáætlun þingsins hefur lokið sem felur í sér að menn hafi tiltekinn rétt, að það sé bara á hlið stjórnarmeirihlutans, þ.e. stjórnarmál séu á dagskrá dag eftir dag en í engu tekið tillit til minni hlutans og óskar hans um að fá að ræða tiltekin mál sem upp koma í samfélaginu öðruvísi en að það sé undir liðnum Störf þingsins (Forseti hringir.) eða um fundarstjórn forseta. Þetta er sjálfsögð ósk sem hér er borin fram.



[10:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég bind ekki miklar vonir við að stjórnarmeirihlutinn í þingsal greiði atkvæði með þessari dagskrártillögu, en ég geri þá kröfu til þingmanna að gera þá grein fyrir því út af hverju þeir treysta sér ekki í þessa umræðu. Út af hverju treystir hæstv. ráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér ekki til að ræða afnám verðtryggingar? Út af hverju treystir hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson sér ekki til þess að fara í sérstaka umræðu um jöfnuð í samfélaginu í kjölfar fyrirhugaðra skattbreytinga? Út af hverju, hæstv. ráðherra? Út af hverju treystir Kristján Þór Júlíusson, hæstv. ráðherra, sér ekki til að koma núna og ræða alvarlega stöðu sem upp er komin í heilbrigðismálum í kjölfar fjöldauppsagna hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum? Út af hverju? Hvers konar framkoma er þetta gagnvart þingheimi? Við eigum að standa hérna í allt sumar og ræða óskalista (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutans en menn treysta sér ekki í heiðarlega umræðu um svona brýn mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:42]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka fram að hann hefur verið mikill áhugamaður um að koma á sérstökum umræðum eftir því sem hægt hefur verið og tekur undir það að það er eðlilegur þáttur í starfi þingsins að fram fari sérstakar umræður um brýn mál sem kallað er eftir. Hann mun freista þess í næstu viku að slíkar umræður geti farið fram og reynir að ná samkomulagi um það við þingflokksformenn og aðra sem málið varðar.

Forseti hafði auðvitað ekki gert sér í hugarlund að þinghaldið mundi tefjast eins og raunin hefur orðið á og það er skýringin á því að ekki hefur verið lögð áhersla á umræður af því tagi sem hér er kallað eftir. Forseti mun í næstu viku freista þess að við komum á einhverjum sérstökum umræðum.



[10:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel að þingstörf þessa dagana ættu að miða að því að binda saman þetta þing og ljúka þingstörfunum. Við erum svo sem að reyna að eiga samtal um það hvernig það geti gerst en við erum komin, eins og hér hefur verið sagt, langt fram yfir starfsáætlun. Hvers vegna er það? Það er meðal annars vegna þess að menn hafa nýtt sér svo ríkulega tjáningarfrelsið hér á þessu vori. Hér sé ég að menn hrista hausinn. (Gripið fram í: Hvenær …?) — Mætti ég fá að tjá mig í eina mínútu án þess að vera truflaður? 2.500 ræður um fundarstjórn forseta frá áramótum, tæplega 50 klukkustundir í að ræða fundarstjórn forseta. Og menn kvarta undan því að fá ekki að ræða við ráðherra. Ég er mættur hér til þess að svara óundirbúnum fyrirspurnum og ég veit ekki til þess að það hafi verið einhver skortur á því að maður hafi sýnt vilja til að taka sérstakar umræður. En þegar menn hafa tekið þingið nánast í gíslingu með fullkomlega óeðlilegum hætti og sett hér allt í uppnám er óskaplega (Forseti hringir.) einkennilegt og ótrúverðugt að menn komi í kjölfarið og segi: Af hverju getum við ekki fengið að ræða við ráðherrana? [Kliður í þingsal.]



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[10:44]

Dagskrártillaga  felld með 27:16 atkv. og sögðu

  já:  BirgJ,  BjG,  BP,  EldÁ,  GStein,  HHj,  JÞÓ,  KJak,  KaJúl,  LRM,  ÓP,  RM,  SII,  SSv,  VBj,  ÖS.
nei:  AME,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  FHB,  FSigurj,  GÞÞ,  HBK,  HE,  IllG,  LínS,  REÁ,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SBS,  UBK,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
20 þm. (ÁPÁ,  ÁsmD,  EyH,  GuðbH,  HarB,  HHG,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KÞJ,  KLM,  OH,  PVB,  RR,  SDG,  SJS,  SÞÁ,  ValG,  VigH,  ÖJ) fjarstaddir.