144. löggjafarþing — 137. fundur
 25. júní 2015.
lokafjárlög 2013, 2. umræða.
stjfrv., 528. mál. — Þskj. 907, nál. 1245.

[11:19]
Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2013. Fjárlaganefnd var samhuga í þessu nefndaráliti og allir nefndarmenn í fjárlaganefnd skrifa undir það. Það er afar ánægjulegt að hér sé hægt að afgreiða mál frá Alþingi í mikilli sátt.

Mig langar aðeins að benda á það í upphafi að 27. apríl, fyrir tveimur mánuðum, var málið tilbúið og afgreitt út úr fjárlaganefnd. Það eru tveir mánuðir síðan og því er mjög bagalegt hvernig þingstörfin hafa gengið undanfarnar vikur. Þetta er eitt af þeim málum sem þarf að koma sem fyrst í gegnum þingið eftir að fjárlaganefnd hefur fjallað um það vegna þess að lokafjárlög á að afgreiða samhliða ríkisreikningi fyrir viðkomandi ár.

Fjárlaganefnd hefur fjallað um frumvarpið á tveimur fundum frá því að það gekk til nefndarinnar 18. febrúar sl. og nefndin kallaði til sín fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Tilgangur frumvarpsins er að staðfesta ríkisreikning ársins 2013 og er það með hefðbundnu sniði. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður afgangsheimilda og umframgjalda í rekstri ríkissjóðs fyrir árið 2013. Í frumvarpinu eru tvær lagagreinar auk gildistökugreinar. Annars vegar eru lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna frávika á ríkistekjum stofnana, þ.e. frávika frá áætlun fjárlaga og fjáraukalaga við uppgjör ríkisreiknings fyrir viðkomandi tekjulið, hins vegar gerðar tillögur um niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok 2013.

Í nefndarálitum með frumvörpum til lokafjárlaga undanfarin ár hefur nefndin vakið athygli á því að frumvarpið hefur aldrei verið lagt fram samhliða ríkisreikningi eins og þó er tiltekið í 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að gert skuli. Næst þessu komst frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2011 sem var lagt fram um fjórum mánuðum síðar en ríkisreikningur fyrir sama ár. Frumvarpið var nú lagt fram 3. febrúar sl., þ.e. um sjö mánuðum eftir framlagningu ríkisreiknings 2013.

Uppgjör á frávikum ríkistekna leiðir samtals til tillagna um hækkun fjárheimilda um rúmlega 1 milljarð á rekstrargrunni þar sem innheimta tekna reyndist meiri en áætlað var. Heildarheimildir ársins 2013 námu rúmum 595 milljörðum að meðtalinni viðbót vegna uppgjörs ríkistekna en útgjöldin voru rúmlega 592 milljarðar, þ.e. eða rúmlega 3 milljörðum kr. lægri en fjárheimildirnar. Tillögur um niðurfellingar fjárheimilda miðast við að í heildina falli niður umframgjöld upp á tæplega 10 milljarða umfram inneignir. Þar með eru nettó um 13 milljarða kr. heimildir umfram gjöld sem lagt er til að færist til næsta árs.

Í lögum um fjárreiður ríkisins kemur ekki fram hvort og þá hvernig skuli breyta fjárheimildum stofnana í þeim tilvikum þegar ríkistekjur eru bókfærðar hjá þeim og reynast aðrar en áætlað var í fjárlögum og fjáraukalögum. Sú venja hefur skapast að breyta fjárheimildum eftir á, í lokafjárlögum til samræmis við frávik reiknings frá áætlun. Fjárlaganefnd hefur beitt sér fyrir breyttu fyrirkomulagi uppgjörs á frávikum ríkistekna. Í þessu felst að afnema markaðar tekjur. Þær færðust því eingöngu á tekjuhlið fjárlaga en þess í stað yrði veitt ríkisframlag á gjaldahlið til þeirra stofnana sem áður nutu markaðra tekna. Meiri hluti nefndarinnar lagði fram frumvarp á síðasta þingi sem miðaðist við að afnema markaðar tekjur í heild sinni. Í tengslum við frumvarp um opinber fjármál sem nú er til umfjöllunar í þinginu, en virðist því miður ekki ætla að verða að lögum á þessu þingi, verður fyrirkomulag markaðra tekna tekið til endurskoðunar.

Tillögur í 2. gr. frumvarpsins um niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok 2013 fylgja að mestu meginreglum sem fylgt hefur verið um árabil og tilgreindar eru á bls. 77 í athugasemdum við frumvarpið. Þær felast meðal annars í því að árslokastaða á liðum almannatrygginga, vaxtagjalda, lífeyrisskuldbindinga og ýmsum öðrum liðum sem ekki falla undir hefðbundin rekstrargjöld er felld niður.

Fyrir bankahrun var algengt að afgangsheimildir í rekstri væru fluttar á milli ára, nær óháð því hve háar þær voru. Á síðustu árum hefur orðið sú breyting að fjármála- og efnahagsráðuneytið leggur aukna áherslu á að rekstrarafgangur umfram 10% af fjárveitingum ársins sé felldur niður. Nokkur dæmi eru um slíkt í frumvarpinu. Afgangur af stofnkostnaði og viðhaldi er aftur á móti yfirleitt fluttur óskertur á milli ára.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á að það er of mikið um að stofnkostnaðarframkvæmdir séu ekki í neinu samræmi við fjárheimildir ársins og er þá ýmist mjög mikill afgangur eða umframgjöld færð til næsta árs. Dæmi um það eru framkvæmdir á Alþingisreit, Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð og þátttaka í bókamessu. Það er mjög alvarlegt að svona verkefni, sem eru raunverulega einskiptisverkefni, fari svo mikið fram úr sem sjá má í nefndaráliti þessu.

Þess ber að geta, og hrósa þeim sem gera vel, að það er afgangur og hann er jafnvel miklu meiri en áætlanir fjárlaga miðuðust við. Það á við um geymsluhúsnæði safna og fleiri liði. Það þarf að sýna enn frekari aga í ríkisfjármálum, gera fjárlögin raunhæfari og miða við að útgjöld séu sambærileg við þær heimildir sem fjárveitingavaldið ákveður, þ.e. Alþingi sjálft.

Í frumvarpinu er smámisræmi á tveimur liðum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram misræmi á milli ríkisreiknings og frumvarpsins á tveimur liðum. Það er annars vegar liðurinn Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta og hins vegar Fjármálaeftirlitið. Jafnframt er boðað í frumvarpinu að gerðar hafi verið ráðstafanir til að leiðrétta misræmið í ríkisreikningi fyrir árið 2014.

Fjárlaganefnd leggur ekki til breytingar á frumvarpinu þrátt fyrir þau dæmi sem ég hef farið yfir en mælist til þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi forgöngu um að bæta úr þeim annmörkum sem nefndir eru í nefndarálitinu. Því leggur fjárlaganefnd til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Flutningsmenn að þessu nefndaráliti ásamt mér eru allir þeir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd, hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, Oddný G. Harðardóttir, 2. varaformaður fjárlaganefndar, Ásmundur Einar Daðason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Haraldur Benediktsson og Karl Garðarsson.



[11:28]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil gleðjast eins og hv. þingmaður yfir því að fjárlaganefnd hafi náð saman. Það er ekki mjög algengt að fjárlaganefnd sé saman á nefndaráliti en það var ágætt að það náðist í þessu frumvarpi.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að lokafjárlög 2013, sem staðfesta ríkisreikning 2013, séu í raun góður vitnisburður um hversu góðu búi ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Er hún ekki sammála mér um það að þetta sé einmitt góður vitnisburður um þau þáttaskil sem urðu með fjárlagafrumvarpinu árið 2013 og fjárlögum árið 2013? Er það ekki í raun merkileg niðurstaða sem ríkisreikningur sýnir og ekki síst í ljósi þess að þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við þá töluðu forustumenn stjórnarflokkanna þannig um stöðu ríkisfjármála eins og hér væri bara allt í kaldakoli.

Raunin er sú að það er neikvæð staða upp á 700 milljónir en fjárlög fyrir árið 2013 höfðu gert ráð fyrir neikvæðri stöðu upp á 3,7 milljarða. Raunstaðan varð betri en fjárlög höfðu gert ráð fyrir en í fjáraukalögum, sem samþykkt voru af stjórnarmeirihlutanum, var talað um að það yrði neikvæð staða upp á 19,7 milljarða. Þetta eru tölulegar staðreyndir. Ég ítreka bara spurningu mína: Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að ríkisreikningur 2013 og lokafjárlög 2013 séu góður vitnisburður um það að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við góðu búi?



[11:31]
Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég ætla að nota tækifærið og þakka fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd. Vinna fjárlaganefndar byggist eingöngu á faglegum nótum og pólitík er sjaldnast hleypt þar inn fyrir dyrnar þegar fjárlaganefnd er að vinnu. Það sýnir sig í þessu nefndaráliti hversu samheldin fjárlaganefnd er og hversu mikið og gott starf fer þar fram innan dyra því að allir nefndarmenn eru meðvitaðir um að verið er að fjalla um fjárreiður ríkisins.

Þingmaðurinn fer hér yfir það hvort þessi lokafjárlög séu ekki dæmi um það hversu góðu búi þessi ríkisstjórn tók við eftir kosningar. Jú, það má alveg segja það en þingmaðurinn veit jafn vel og sú sem hér stendur að settur var á stofn hagræðingarhópur og farið í að skera niður kosningaloforð Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þarna fyrir kosningarnar 2013. Það var heilmikið átak, ég viðurkenni það alveg. Maður var ekki alveg sætasta stelpan á ballinu, virðulegur forseti, þarna fyrsta árið þegar við þurftum að taka til baka allar fjárheimildir sem búið var að lofa hringinn í kringum landið. Við þurftum að rifta samningum og við þurftum að draga til baka fjárheimildir og annað slíkt. En sú vinna færði okkur líka þann árangur í fyrstu fjárlagagerðinni að loksins var hægt að skila ríkissjóði með afgangi.

Við vitum alveg hvernig þetta var hér á árum áður, ríkisstjórn kröfuhafa, sem sat hér á undan þessari ríkisstjórn, hafði farið í að skera niður allt heilbrigðiskerfið, fjárveitingar til Landspítalans, til ýmissa annarra viðkvæmra málaflokka sem núverandi ríkisstjórn er heldur betur að bæta upp. Það er mjög gleðilegt að geta komið til móts við þarfir bæði stofnana og landsmanna með þeim aukna árangri sem náðst hefur í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.



[11:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að fjárfestingaráætlunin, sem ég vænti að hv. þingmaður hafi verið að vitna í, um að ný ríkisstjórn hafi skorið niður, var að mestu leyti látin standa árið 2013 en niðurskurðurinn kom fram á árinu 2014. Núna erum við að tala um stöðuna eins og hún var árið 2013 og þá gerðist það að tekjur voru lækkaðar, veiðigjöldin voru lækkuð og virðisaukaskattur á gistingu settur aftur niður eins og almenningur greiddi matvæli þá aftur niður í 7%. Það munaði auðvitað um þá fjármuni, en samt sem áður er staðan svona góð.

Nú segja sumir: Já, það er vegna þess að það eru svo margir óreglulegir liðir þarna inni, við fengum 25 milljarða vegna arðs af Landsbankanum sem menn reiknuðu ekki með þó að það hefði mátt sjá það fyrir. En á móti kemur að 20 milljarðar voru teknir gjaldamegin út af skattkröfum. Það var bæði jákvætt og neikvætt, það núlluðust út óreglulegu liðirnir. Arion banki gerir ágæta greiningu á þessari stöðu og bendir á að ef við tökum óreglulegu liðina í burtu kemur árið 2013 út í plús upp á 9 milljarða sem er afar góður árangur vegna þess að árið 2009, ef við tökum óreglulega liði í burtu, var staðan neikvæð upp á 108 milljarða. Vissulega þurfti að skera niður og hækka gjöld.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því að þarna hafi þáttaskilin verið? Þarna gátum við farið að sjá til lands og plana til framtíðar eftir stórkostlegt efnahagshrun.



[11:35]
Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Það má vel vera að þarna hafi núllpunktinum verið náð, það má bara vel vera, enda var þá búið að skera allt inn að beini hjá síðustu ríkisstjórn. Ég fór yfir heilbrigðiskerfið hér áðan. Það var búið að skera niður lögbundnar greiðslur til ellilífeyrisþega og öryrkja, farið inn í grunnbæturnar. Jú, jú, líklega var ekki hægt að skera meira niður þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór frá völdum. Það getur vel verið að þarna hafi akkúrat verið þessi núllpunktur sem við tölum um sem þarf að vera í rekstri ríkisins.

En það voru kosningar 2013 og þar var skipt um ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega sýnt að hún ber hag landsmanna fyrir brjósti. Hér er talað um að ríkisstjórnin hafi afsalað sér skatttekjum. Mikið af þessum skatti sem hv. þm. Oddný Harðardóttir fór hér yfir var á þann hátt að það var raunverulega einskiptisskattur, má segja. Það stóð til, líka hjá ríkisstjórn kröfuhafanna, að afnema hann á ákveðnu árabili þannig að raunverulega vorum við bara að feta í fótspor fyrri ríkisstjórnar. Ég vona að við þurfum ekki að fá frekari gagnrýni á það að þessi ríkisstjórn hafi fylgt fyrri ríkisstjórn í ákvörðunartöku varðandi skattlagningu, en sú ríkisstjórn sem situr nú hefur farið í að lækka enn frekar skatta. Það er vitað að með lækkandi sköttum koma frekari tekjur í ríkissjóð og það er bara svo að eftir því sem skattarnir eru lægri þá skapar það ekki þann freistnivanda sem skapast við háa skattheimtu, að svíkja undan skatti.

Framtíðin er björt, þetta er dæmi um það. Fjárlaganefnd öll er á þessu nefndaráliti og ég fagna því einstaklega (Forseti hringir.) vegna þess að stjórnarandstaðan öll sat hjá við afgreiðslu lokafjárlaga 2012 sem sýnir raunverulega hvað stjórnarandstaðan og fráfarandi ríkisstjórnarflokkar höfðu litla trú á ríkisfjármálum 2012.



[11:37]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill biðja hv. þingmenn að spara stóryrðin. Það er vel hægt að koma á framfæri gagnrýni sinni án þess að grípa til stórra orða.



[11:37]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að reka slyðruorðið af forsetadæminu með því að setja ofan í við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún er eina manneskjan sem situr í þessum þingsölum sem tekur sér í munn landráðabrigsl og sakar beinlínis þingmenn annarra flokka um að vinna meðvitað gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er þess vegna sem hv. þingmaður á svona erfitt með að öðlast virðingu annarra þingmanna.

Hins vegar fólust söguleg tíðindi í umræðunum sem áttu sér stað áðan. Hv. þingmaður féllst á það, aðspurð, að núverandi ríkisstjórn hefði tekið við góðu búi. Það hefur hv. þingmaður aldrei gert áður, en það er auðvitað staðreynd. Þegar maður skoðar ríkisreikninginn sést að árangur síðasta ár síðustu ríkisstjórnar var býsna góður. Vitaskuld var það líka vegna þess að ný ríkisstjórn tók harðar á og skar niður, það er alveg rétt, en eigi að síður sýnir ríkisreikningurinn hversu vel síðasta ríkisstjórn starfaði. Þegar maður ber saman þennan ríkisreikning fyrir 2013 og síðan þá sem á undan voru kemur í ljós að á fimm árum hefur afkoman batnað jafnt og þétt milli ára. Hún var 2013 tæplega 120 milljörðum kr. betri en árið 2009. Telur ekki hv. þingmaður að ríkisstjórn kröfuhafanna hafi staðið sig vel í þessu?

Ég hafði nokkrar tæknilegar spurningar til hv. þingmanns en hún er þess eðlis að það er ekki hægt að eiga við hana málefnalegan orðastað. Hún fer alltaf út yfir öll mörk þannig að ég ætla að láta það bíða seinni ræðu minnar.



[11:39]
Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á að vita hvað ég sagði hér í fyrra andsvari sem varð til þess að ég var beðin um að gæta orða minna. Var það sú setning sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði sjálfur, um ríkisstjórn kröfuhafanna? (Gripið fram í.) Ég talaði ekki á nokkurn hátt í fyrra andsvari mínu um landráð eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en þessi þingstörf eru komin á einhvern stað sem ég bara átta mig ekki á hvernig á að taka á raunverulega. Hér flyt ég andsvar, svara spurningum þingmanna og ég er beðin að gæta orða minna. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur í ræðustól og talar um landráð o.s.frv. Ég minntist ekki einu orði á landráð, ekki einu orði. Það er misjafn leikurinn hér í þessum ræðustól, það er alveg klárt mál, en við sjáum alveg hreint hvernig þingmenn Samfylkingarinnar, sem hafa talað hér á eftir mér, þurfa að fá hrós fyrir störf fyrri ríkisstjórnar. Þeir koma hér upp og hæla sér, ekki síst hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem talar um að hér hafi verið gott bú. Að sjálfsögðu fagna ég því mjög á hvaða leið ríkisfjármál eru en við skulum líka átta okkur á því að það var Framsóknarflokkurinn sem barðist hér allt síðasta kjörtímabil á móti Icesave.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig ríkisfjármálin væru hefði krafa og ósk Samfylkingarinnar og Vinstri grænna orðið að veruleika, að landsmenn allir og skattgreiðendur hefðu þurft að taka á sig Icesave-klafann, ég veit ekki hvernig við stæðum þá, virðulegi forseti. Kannski á sama stað Grikkir, veit það ekki, kannski ekki af því að við erum svo heppin að vera með eigin gjaldmiðil og erum ekki í evrusamstarfinu.



[11:42]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka af öll tvímæli, hann hlustaði vel á ræðu hv. þingmanns og telur að í henni hafi alls ekki falist nein landráðabrigsl þannig að því sé komið til skila. Forseti vill einfaldlega, í anda góðrar þingvenju, hvetja með almennum hætti til þess að menn spari stóru orðin og er því ekkert sérstaklega beint til hv. 4. þm. Reykv. n. Þetta er almenn hvatning.



[11:42]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Mér rennur í skap undir þessari ræðu hæstv. forseta þingsins. Hann hefur enga sérstaka ástæðu til að tala um stóryrði við mig þegar hann hefur hérna nánast átölulaust …

(Forseti (EKG): Forseti var að taka fram að hann var ekki að víkja að því nema síður sé. Hv. þingmaður hefur ekki talað með þeim hætti hér í dag að það gefi neitt tilefni til þess þannig að það sé alveg skýrt af hálfu forseta.)

Hæstv. forseti lætur nánast átölulaust þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar hér um ríkisstjórn kröfuhafa. Í því felst ásökun um að fyrri ríkisstjórn hafi gengið erlendra hagsmuna. Hæstv. forseta ber við tilteknar aðstæður að taka kannski harðar á því en með þeim hætti að nánast slá bjöllu í hausinn á þeim þingmanni sem hér stendur.

Herra forseti. Ég ætlaði að koma hingað til að eiga orðastað um tiltekna hluti í þessu ágæta plaggi sem hv. þingmaður hafði framsögu fyrir áðan en það er mjög erfitt að eiga málefnalegan orðastað við hæstv. forseta. Ég tek því sem brigslum um landráð eða nærri því þegar hv. þingmaður kemur hér ítrekað og talar um ríkisstjórn kröfuhafa. Í því liggja ekkert annað en brigsl um það að fyrri ríkisstjórn hafi gengið erinda erlendra kröfuhafa. Í þeim efnum segi ég að hv. þingmaður ætti að líta sjálfri sér nær. Hún ætti að skoða hvernig fjölmiðlar eru farnir að fjalla um niðurstöðu samningamakksins úti í London milli fulltrúa Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, og kröfuhafa. Þorbjörn Þórðarson, einn af þeim sem hvað gleggst fjallar um fjármálaleg efni, talar um ofsagleði kröfuhafa og hann spyr hvað valdi ofsagleði kröfuhafa. Spurningin er svona: Er það vegna þess að þeir fengu svo góðan díl?

Þessu ætti hv. þingmaður að velta fyrir sér frekar en að saka aðra um landráð. Mér þykir miður að þurfa að eyða þessum tíma í þetta en ef hæstv. forseti hefur ekki manndóm í sér til að setja ofan í við hv. þingmann þá geri ég það. Ég ætla ekki að sitja undir þessu.



[11:44]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill nú gjarnan að þessar umræður þurfi ekki að taka á sig leiðinlega mynd. Forseti vildi einfaldlega árétta að hann vildi halda uppi góðri reglu og vísaði til ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur hér áðan og telur að hann hafi reynt að afgreiða málið með sanngjörnum og eðlilegum hætti.



[11:45]
Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að biðja um orðið á eftir og bera af mér sakir en ég ætla að segja það hér í þessu andsvari: Ég sagði aldrei að hér hefðu átt sér stað á síðasta kjörtímabili landráð. Aldrei. Ég sagði aldrei að hér hafi átt sér stað landráð, svo að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sé svarað hér í eitt skipti fyrir öll. Hann er að reyna að gera mig ótrúverðuga, hann um það, þetta er búið að vera þetta sama „skuespil“ hjá Samfylkingunni síðan ég settist á þing árið 2009. Framsóknarflokkurinn varð stærri í Reykjavík en Samfylkingin í kosningunum 2013 og það svíður, ég sé það. Það svíður.

Virðulegi forseti. Það er verst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson situr ekki í forsætisnefnd því að hann vill líka stjórna þinginu, ekki nóg með að Samfylkingin sé alveg hreint að tapa sér yfir því að hafa tapað síðustu kosningum, kosin í burt en reynir enn að stjórna tveimur árum seinna, þá vill hv. þm. Össur Skarphéðinsson líka stjórna þinginu. Hann svíður, sannleikurinn, ég veit það en ég sem þingmaður hef aldrei hlíft sannleikanum hér í þessu húsi. Aldrei. Auðvitað er þetta alveg óskaplega óþægilegt og erfitt fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að standa frammi fyrir því núna, þegar samningar við kröfuhafa eru í höfn, að sjá fram á það hverju ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur áorkað. Svo er hér talað um fjölmiðla, að það sé verið að flytja af því fréttir að það sé einhver ofsakæti hjá kröfuhöfum.

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að Facebook-síða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sé fjölmiðill, (ÖS: … Fréttablaðið.) alls ekki. Og já, þingmaðurinn vísar í Fréttablaðið, einmitt, við vitum nú alveg hvernig það allt saman er útbúið.

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að þessi umræða er komin niður á ansi súrt plan og fyrir því stendur hv. þm. Össur Skarphéðinsson.



[11:47]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er svolítið sérstakt að koma hér í ræðu um lokafjárlög eftir þessi orðaskipti sem hér hafa átt sér stað. Ég hrökk satt að segja við, forseti, þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um ríkisstjórn kröfuhafanna og gerði athugasemd við (Gripið fram í.) hæstv. forseta. Það kom mér á óvart, en hefði kannski ekki átt að gera það, að hv. þingmaður skildi ekki vegna hvers var verið að biðja hana um að haga orðum sínum með betri hætti. Hv. þingmaður áttaði sig ekki á því, það er mjög merkilegt.

Virðulegur forseti. Hér erum við að ræða lokafjárlög sem staðfesta ríkisreikning ársins 2013. Og eins og hér hefur komið fram þá sýna tölurnar, og hv. formaður fjárlaganefndar hefur staðfest það í andsvari, sem er sérstakt, að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við góðu búi, því að þótt tölurnar hafi sýnt þetta hafa forustumenn stjórnarflokkanna, ekki viljað viðurkenna það, en hér stendur þetta svart á hvítu.

Þessi árangur náðist eftir efnahagshrun, stórkostlegt efnahagshrun, og þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna glímdi við algjörlega fordæmalausar aðstæður. Þær má reyndar rekja til efnahagsmistaka Framsóknarflokksins fyrr á árum og Sjálfstæðisflokksins. Vinstri stjórnin náði á aðeins fjórum árum að snúa þessari stöðu við. Það þurfti að grípa til aðgerða sem voru ekki vinsælar, auðvitað þurfti að skera niður en það þurfti líka að afla tekna. Þessi blandaða leið var farin og hún skilaði árangri. Og af því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um heilbrigðiskerfið áðan þá er það sannarlega viðkvæmt kerfi og fór viðkvæmt inn í kreppuna vegna þess að góðærið hafði því miður ekki skilað sér til heilbrigðiskerfisins. Þegar það þurfti að skera niður eða beita aðhaldi í því kerfi eins og öllum öðrum útgjöldum ríkisins hafði það slæmar afleiðingar. En vinstri stjórnin hætti að skera niður í heilbrigðiskerfinu árið 2012 og náði að gefa til baka með fjárlögum 2013, sem betur fer. Og nú þarf að gefa betur í þegar ríkisfjármálin eru á slíkum stað sem raun ber vitni núna árið 2015. Það væri sannarlega gott ef hægri stjórnin gæti hugsað sér að nýta þennan mikla árangur vinstri stjórnarinnar til þess að efla velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almennt þær stoðir velferðarkerfisins sem þarf að styrkja eftir efnahagshrunið.

Forseti. Þótt ég vilji ekki vera bitur í þessum ræðustóli, þá var það þó þannig að hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili voru, leyfi ég mér að segja, eins og gjammandi hælbítar á eftir ríkisstjórninni þegar hún var að taka hér til eftir efnahagshrun og gerðu okkur sannarlega erfitt fyrir, en þrátt fyrir það náðist þessi góði árangur.

Í andsvari mínu áðan við formann fjárlaganefndar vitnaði ég í Markaðspunkta frá Arion banka sem gefnir voru út 18. ágúst, 2014. Þar er nefnilega ágætur samanburður og þar segir, með leyfi forseta:

„Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2013 var nýverið birt og er afkoma ríkissjóðs mun betri en gert hafði verið ráð fyrir.“

Síðan er rakið hvernig þetta hafi allt saman gengið fyrir sig. Við fjáraukalög árið 2013 þegar nýi stjórnarmeirihlutinn tók við hrópaði hann úlfur, úlfur, og sagði að hér væri allt í rjúkandi rúst og það þyrfti að skera meira niður. Og um leið og þeir sögðu það þá lækkuðu þeir tekjurnar, bæði veiðigjöldin og virðisaukaskatt á ferðaþjónustunni. Þó var alveg ljóst með virðisaukaskattinn af gistiþjónustu, sem átti að fara upp 14% 1. september 2013, að fyrirtækin höfðu gert ráð fyrir hækkun hans í verðlagningu sinni. Það var engin ástæða til þess að halda virðisaukaskattinum þannig að erlendir ferðamenn greiddu ekki virðisaukaskatt, neysluskatt af hótelgistingu í sama hlutfalli og almenningur greiðir fyrir nauðsynjar, fyrir mat og orku. Þetta var því undarleg ráðstöfun. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kom hér í ræðustól vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og staðfesti það að gisti- og hótelfyrirtækin höfðu gert ráð fyrir þessari hækkun í sínum gjaldskrám og það var engin ástæða til þess að taka þetta af. Og þrátt fyrir þá verðlagningu fjölgaði ferðamönnum meira en nokkru sinni. Svona var þetta.

Forseti. Mig langar til að nota tíma minn í fyrstu ræðu minni til að fara yfir nokkra punkta úr riti um ríkisbúskapinn sem gefið var út haustið 2012 sem sýnir þáttaskilin. Við jafnaðarmenn horfðum á þessi þáttaskil og vildum nýta árangurinn til þess að byggja upp samfélag í anda jafnaðarmanna, í anda réttlætis og jafnræðis. En því miður fengum við ekki, eins og margoft hefur verið sagt hér í þessum sal, það brautargengi. Það voru aðrir flokkar kosnir til þess að fara með þennan árangur, því miður, leyfi ég mér að segja.

Það sem byrjað var á að gera þegar sást til lands og hægt var að skipuleggja fram í tímann var að bæta hag barnafjölskyldna. Það var gert með því að gera áætlun um að lengja fæðingarorlofið í eitt ár, nokkuð sem hægri stjórnin ákvað að taka til baka. En þetta sáu jafnaðarmenn fyrir sér sem mjög mikilvægt skref og að við hefðum borð fyrir báru til þess að fara þá leið. Hægri stjórnin vildi frekar lækka veiðigjöldin og virðisaukaskatt á erlenda ferðamenn.

Annað sem við gerðum var að hækka barnabætur um 30%, eða við gerðum ráð fyrir því að hækkunin yrði 30%, það var í okkar áætlunargerð. Það var vegna þess að alls staðar, allar greiningar sýndu að þær fjölskyldur sem stóðu verst haustið 2012 eða á árinu 2012 voru barnafjölskyldur. Það skipti engu máli hvort það voru barnafjölskyldur sem skulduðu í húsnæði eða voru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið eða voru leigjendur, þessi hópur stóð verst og þess vegna þurfti að beina fjármunum til hans fyrst tækifæri var til þess, og það var gert. Hægri stjórnin sagði hins vegar fyrir fjárlögin 2014, í fjárlagafrumvarpi 2014, að hún vildi standa vörð um þessa hækkun sem gerð var á árinu 2013 og það gerði hún með því að verðbæta hana ekki, og það er auðvitað ekkert annað en niðurskurður. Sem aðgerð til þess að milda áhrif á hækkun á mat var settur inn milljarður í barnabætur, en þegar upp var staðið þá náði það ekki einu sinni raungildinu sem áætlað var og Alþingi samþykkti fyrir árið 2013. Það var því ekki hægt að tala um þá mótvægisaðgerð við matarskatt sem alvöruaðgerð. Síðan var líka viðmiðum breytt þannig að barnabætur byrja nú að skerðast við 200 þús. kr. hjá einstaklingi, sem er náttúrlega skammarlega lágt. Barnabætur byrja að skerðast um leið og tekjurnar eru orðnar 200 þús. kr. og þegar tekjurnar eru 500 þús. kr. falla þær niður. Þetta er því ekki í anda barnabótahugsunar eins og norrænu samfélögin setja það upp, þar sem hugmyndin er sú að barnabætur séu skattafsláttur til þess að jafna stöðu barnafjölskyldna. Í flestum norrænum ríkjum eru barnabætur ótekjutengdar en við erum langt frá því að vera komin þangað. En þangað ættum við að stefna og sú var hugsunin með því skrefi sem tekið var árið 2013.

Það sem okkur þótti mikilvægt að gera til þess að geta byggt almennilega upp velferðarstoðirnar, þó að við höfum verið byrjuð að gefa til baka í heilbrigðiskerfið eins og ég sagði áðan, reyndar í menntakerfið líka, framhaldsskólakerfið, var að ná auknum tekjum af auðlindunum. Það var afar mikilvægt fyrir þjóð í þeirri stöðu sem við vorum í og erum að við fáum tekjur af auðlindum okkar. Þess vegna var samþykkt frumvarp um veiðigjöld á síðasta kjörtímabili sem hækkaði þau umtalsvert og áttu síðan í þrepum að hækka meira. Útgerðin hefur svo sannarlega staðið undir þeim hækkunum. Og þegar hér var verið að endurskoða veiðigjöldin á árinu 2013 komum við í stjórnarandstöðunni með breytingartillögu sem laut að því að halda upphæðinni en að gefa minni útgerðum meiri afslátt, og það var sjálfsagt að gera það, en að þeir sem gætu svo sannarlega greitt hærri veiðigjöld mundu gera það. Það skiptir máli fyrir okkur að fá beinar tekjur af auðlindum okkar. En einhvern veginn virðist sú ríkisstjórn sem nú starfar ekki átta sig á þessu og vilja flækja málin og haga þeim þannig að það séu stjórnmálamenn sem ákveði hvað útgerðin greiðir af auðlindinni sem hún nýtir.

Fjárfestingaráætlunin var nánast í heilu lagi felld niður en þó ekki alveg, en það sem skipti máli voru byggðaverkefnin, það voru framlög til sóknaráætlunar sem voru reyndar látin standa á árinu 2013 en voru svo skorin niður á árinu 2014 um 75%. Það er byggðastefna hægri manna, hún birtist mjög glögglega í þessari áherslu gagnvart sóknaráætlun landshluta. Að vísu þegar frumvarpið fyrir árið 2014 kom fram áttu þetta að vera aðeins 15 millj. kr. en með breytingartillögum urðu þetta 115 millj. kr. Það sama gerðist svo í frumvarpinu fyrir árið 2015, þá voru það aftur bara 15 millj. kr. Þetta eru byggðasjónarmið hægri manna í hnotskurn.

Virðulegi forseti. Við erum sammála því þegar hægri stjórnin talar um að það sé mikið forgangsverkefni að lækka skuldir og það skiptir mjög miklu máli fyrir skulduga þjóð að ganga á nafnvirði skuldanna. Það eru reyndar ekki sýnilegar áætlanir til þess að lækka nafnverð nema bara sala á eignarhlut í Landsbankanum sem er ekki í augsýn, og svo að hafa lægri gjaldeyrisvaraforða og síðan er núna talað um stöðugleikaskattinn og við vonum sannarlega að hann verði til þess að lækka skuldir en ekki til þess að fara í einhver gæluverkefni rétt fyrir kosningar og auka þenslu. En það er afar mikilvægt að greiða niður skuldirnar og ég tek undir það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Enn og aftur vil ég segja að þessi plögg hér sem við ræðum nú, lokafjárlög sem eru staðfesting á ríkisreikningi 2013, eru góður vitnisburður um hvernig staðan var þegar hægri stjórnin tók við. Afkomubati ár hvert var umtalsverður og við höfðum gert ráð fyrir í áætlunum okkar að hann yrði umtalsverður á þessu kjörtímabili líka. Það hefur hins vegar komið í ljós að afkomubatinn er óverulegur og í áætlunum sem koma fram í ríkisfjármálaáætluninni sem hér liggur fyrir þinginu óafgreidd, kemur einnig í ljós að sú áætlun hægri stjórnarinnar að afkomubatinn verði lítill, hann verður umtalsvert minni en á síðasta kjörtímabili. Að sumu leyti er það vegna þess að það er forgangsverkefni hjá þeim eða hefur verið hingað til að lækka skatta og gjöld á þá sem standa sannarlega undir því að greiða skatta og gjöld, og hægri stjórninni finnst líka mikilvægt að gefa svolítinn afslátt af auðlindum þjóðarinnar en taka frekar á þegar kemur að velferðarkerfinu. Í ríkisfjármálaáætluninni er gert ráð fyrir niðurskurði upp á 5,5 milljarða næstu fjögur árin og auðvitað er mjög erfitt að fara í slíkan niðurskurð í kerfi sem hefur þolað slíkan niðurskurð eins og á síðasta kjörtímabili og var óumflýjanlegur. Núna höfum við hins vegar val og hægri stjórnin velur að skera áfram niður um 1–1,5% næstu fjögur árin.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[12:05]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla líka að taka þátt í þessari umræðu um lokafjárlög fyrir árið 2013. Það er alltaf svolítið skondið að ræða kannski gömul mál og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það þótt fólk takist hér á um þá tíð þegar ríkisstjórnarskipti eiga sér stað, að fólk vilji fá sitt sanngjarna kredit fyrir þá vinnu sem það lagði til málanna og ég held að það eigi við um alla flokka.

Mér þótti miður hvernig umræðan hófst hér áðan og tel það afskaplega erfitt og get illa sætt mig við það að fólki sé brigslað um að ganga erinda erlendra kröfuhafa en bera ekki hag landsmanna fyrir brjósti, þ.e. Íslendinga, því það var það sem hér var sagt. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði líka að núverandi ríkisstjórn bæri hag landsmanna fyrir brjósti og var þá væntanlega að ýja að því að þeir sem á undan sátu hafi ekki gert það.

Ég tel ekki að fyrrverandi ríkisstjórn hafi staðið ein að því hvernig og hversu vel gekk í rauninni hægt og sígandi að komast upp á við. Það er auðvitað fólkið í landinu sem stendur á bak við það. Það er náttúrlega svo með ríkisstjórn á hverjum tíma að hún hefur á bak við sig fólk sem þarf að lifa við þær ákvarðanir sem teknar eru. Sem betur fer tók fólkið mjög virkan þátt í því með okkur árin eftir hrun að aðstoða við það og tók á sig ýmsar byrðar vegna þess að landið var nánast gjaldþrota.

Því er gjarnan borið við þegar talað er um skattamálin að verið sé að fylgja ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar. Ég hefði þá gjarnan viljað sjá það gert sem oftast en ekki bara stundum því að það er kannski það sem birtist manni í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, að sumt er afnumið ef það hentar og passar inn í einhverja stefnu og sagt að það sé vegna þess að það hafi verið sett á tímabundið. En svo eru aðrar stefnur og aðrar ákvarðanir kannski ekki eins hentugar og þess vegna er þeim þá ekki fylgt, þ.e. þeim sem teknar voru af fyrri ríkisstjórn.

Engin launung er á því að tekið var við betra búi en gert var ráð fyrir og það endurspeglast meðal annars í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem núverandi fjármálaráðherra hefur lagt fram. Þar er að finna súlurit sem sýnir þetta ágætlega. Þess vegna segi ég, án þess að vera í einhverju togi um það, að ekkert óeðlilegt er við það, því að mjög erfiður tími fór í hönd eftir hrunið, að fólk vilji að minnsta kosti fá sinn skerf í því, en ekki að sagt sé um það að það hafi ekki unnið vinnuna sína í þágu þjóðarinnar. Ég kæri mig að minnsta kosti ekki um það.

Varðandi það að fjárlaganefndin standi öll að þessu áliti, þá er þetta auðvitað eitthvað sem er búið og gert. Við höfum gert grein fyrir ákveðnum athugasemdum og öðru slíku og ekkert óeðlilegt við það þegar verið er að taka eitthvað saman eftir á að hér komi sameiginlegt nefndarálit. En við gerum athugasemdir við mörg atriði. Við höfum staðið að því og þeirri orðræðu í fjárlaganefnd að vera samhent í að reyna að lagfæra og bæta hvernig ákvarðanir eru teknar. Þess vegna kemur það á óvart og veldur vonbrigðum, og ég trúi ekki öðru en meiri hlutinn sé mér sammála um það, að þær ákvarðanir sem voru teknar og komu inn í þingið um daginn varðandi til dæmis vegamál, innviði og annað slíkt skuli hafa farið fram hjá bæði formanni og varaformanni fjárlaganefndar og þeim samgönguyfirvöldum sem eiga um það að fjalla. Ég tel það ekki góða stjórnsýslu frekar en annað og gagnrýni það. Og af því að við erum alltaf að tala um að reyna að bæta áætlunargerðina, þá held ég að það hljóti að vera eitt af því sem við viljum ekki að sé gert með þessum hætti. Það kemur auðvitað inn á fjáraukann sem núverandi formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa talað gríðarlega mikið um að eigi ekki að nýta með þeim hætti sem gert hefur verið í áratugi, því miður, og ég tek undir það. Mér finnst að ekki eigi að gera það og ég vona að við þurfum ekki að standa oft frammi fyrir slíku.

En það sem er kannski gagnrýnt töluvert í áliti okkar er hvernig hlutirnir eru færðir. Það vantar þetta samtímabókhald, að það sé fært um leið og hlutirnir gerast en ekki að verið sé að leiðrétta liðina mörgum mánuðum síðar, hvort sem um er að ræða inneignir, gjaldfærslur eða eitthvað slíkt, og jafnvel eru lokafjárlögin notuð að einhverju leyti sem hálfgerð fjáraukalög vegna þess að verið er að leiðrétta, lagfæra, fella niður og ýmislegt í þeim dúr. Ég held að það sé eitt af því sem við viljum breyta.

Það má svo líka velta fyrir sér að þau opinberu fjármál sem hafa verið til umræðu gera það að verkum að þetta fer að vera með síðustu skiptunum, þ.e. ef þau fara óbreytt í gegn, sem við fjöllum um og getum haft áhrif á, þ.e. það sem fram kemur í lokafjárlögum, af því að hér getum við tekið þetta inn í nefnd og rætt og gert athugasemdir við, en við getum það ekki verði frumvarp um opinber fjármál að óbreyttu að lögum. Það er eitt af því sem við höfum aðeins velt fyrir okkur, þ.e. umfjöllunin. Þá kemur sú umfjöllun ekki, hún er í rauninni bara tilkynnt í fjárlaganefnd en ekki rædd í þinginu. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að valdið fjarlægist um of ef þessi breyting kemur til með að eiga sér stað. Það eru í rauninni um þúsund færslur hér undir sem við verðum þá að láta frá okkur, þ.e. umfjöllunina um það allt. Það er eitt af því sem við eigum að taka heiðarlega umræðu um. Viljum við hafa það þannig eða einhvern veginn öðruvísi? Það er alveg óhætt, af því að nú er frumvarp um opinber fjármál komið hingað inn, að velta því fyrir okkur hvaða breytingar og áhrif það hefur, m.a. í tengslum við lokafjárlög.

Í þessu tiltekna frumvarpi til lokafjárlaga eru tekin nokkur dæmi. Það vantar að fært sé á samtíma og í rauntíma ýmsar fjárheimildir, og svo er verið að fara fram úr í ýmsum liðum sem eftiráskýringar koma við og fjárlög ekki virt. Það er mjög bagalegt að við stöndum frammi fyrir því að það sé gert með þeim hætti, með vitund og ég vil segja heimild ráðherra og ráðuneyta hverju sinni. Ef það væri ekki gert þá færu liðir væntanlega ekki fram úr.

Ég hef aðeins gagnrýnt líka, þrátt fyrir að ég sé að tala um að við fjöllum ekki um lokafjárlög með þessum hætti til framtíðar, að frumvarpið og fjárheimildirnar og hvernig þetta er sett fram sé ekki aðgengilegt. Ef þú ætlar að lesa eitthvað til dæmis í fylgiskjali 2 sem er aftast á bls. 121 í lokafjárlögunum og bera það saman við bls. 28, þá kemur ekki fram hvaða fjárhæðir lagt er til að verði fluttar yfir heldur kemur bara lokastaða og þú veist í rauninni ekki hvort lagt er til að fjárheimildir verði fluttar yfir sem koma fram í lokadálkinum, heldur sérðu einungis lokaniðurstöðuna. Þetta er óaðgengilegt og það er eitt af því sem við eigum að ræða. Við þurfum að nálgast það með þeim hætti, ef það verður í einhverju slíku formi, að við höldum áfram að ræða það, hvernig við getum gert það auðveldara fyrir ekki bara okkur sem sitjum í fjárlaganefnd og fáum auðvitað töluverða umfjöllun við að skilja það, heldur líka aðra þá þingmenn og aðra sem vilja yfir höfuð gefa sér tíma til að lesa þetta. Því til viðbótar er ekki sérstaklega auðvelt fyrir þingið að átta sig á því til dæmis að textinn sem kemur við greinarnar er kannski ekki mjög skýr varðandi fjárheimildirnar sem lagt er til að flytjist yfir á milli ára. Það er til dæmis ekki yfirlit yfir ólokin verkefni og svo þekkjum við dæmi þess að ár eftir ár eru bæði plúsar og mínusar fluttir yfir á milli ára á sömu liðunum og við höfum kannski ekki neinar skýringar á því. Af því að ég hef talað mikið um Vegagerðina þá eru fluttir yfir tæpir 1,8 milljarðar á framkvæmdalið Vegagerðarinnar og maður veltir fyrir sér hvort það þyrfti ekki að koma fram í texta, eða einhvers staðar annars staðar, hvaða framkvæmd það var sem ekki var unnt að fara í og var frestað, hvort margar framkvæmdir séu á bak við þetta, eða hvernig þetta er. Að sama skapi er, eins og kemur fram í ríkisreikningi, neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar vegna þess að ágreiningur er á milli ráðuneyta hvernig ber að fara með það. Það er líka eitt af því sem er í rauninni óásættanlegt að hangi inni sem slíkt.

Á bls. 38 er til dæmis lagt til að felldur verði niður styrkur til nýsköpunarfyrirtækja og það er ekki rökstutt, bara sagt að halli sé 105 millj. Það kemur ekki fram í ríkisreikningi af hverju það er og eins og við vitum er óheimilt að veita hærri fjárframlög en koma fram í fjárlögunum. Því má spyrja: Hvers vegna voru veittir hærri styrkir en fjárlög heimiluðu eða hvar eru þær heimildir? En síðan er það fellt niður, og þá með hvaða heimild? Það er hluti af því sem vert er að spyrja um.

Af því að ég talaði um samtímabókhald þá er öll starfsemi ríkisins á ólíkum fjárlaganúmerum. Vegagerðin er á einu og aðrir liðir undir henni eru á undirnúmerum. Eins og ég sagði áðan með framkvæmdirnar og afganginn, þetta myndar svo sem líka hluta af betri afkomu ríkissjóðs af því að þá er gjaldfærslunni frestað, en svo kemur hinum megin einhvers staðar það markmið fjárlaganna um að framkvæma þetta eða hitt, en það hefur ekki náð fram að ganga einhverra hluta vegna.

Við höfum rætt mikið um hálkuvarnir og snjómokstur á þjóðvegunum, þar hafa áætlanir verið í lágmarki til allt of margra ára. Eðli málsins samkvæmt er tæpur milljarður sem verður neikvæður hjá Vegagerðinni. Sumir hafa sagt að þeir skilji ekki hvers vegna ekki er hægt að áætla betur fyrir þessu. Það er kannski að einhverju leyti vegna þess að Vegagerðin, eins og aðrar stofnanir, er sett í þá þröngu stöðu að hafa ekki eins háan ramma og hún þyrfti, og þess vegna er alltaf verið að reyna að áætla allt í lágmarki, og þess utan vitum við ekki hvort vetur verður snjóþungur eða hvort mikið verður um ísingu, því að risastór hluti af þessu er líka nefnilega orðinn til vegna hálkuvarna. Þær hafa aukist alveg gríðarlega. Við fengum skýringar á því í fjárlaganefnd um salt sem var keypt en reyndist svo ekki nægilega gott o.s.frv. Allt kostar þetta peninga. Allt salt til dæmis var bara uppurið í landinu, þannig að margt vindur upp á sig sem ekki er fyrirséð. Svo hafa gríðarlega snjóþungir vetur verið sem hafa orðið til þess að farið er fram úr áætlunum.

Ef við drögum allt saman hjá Vegagerðinni, eins og kemur fram í samantektinni, þá er plús upp á 754 millj. kr. Það kemur til út af frestun á framkvæmdum. Hallinn á þjónustunni er rúmar 900 millj. kr., hallinn á styrkjum til sérleyfishafa og ferja 266, innanlandsflugs 15 o.s.frv., en af því að hitt er svo stór tala þá verður þetta niðurstaðan. En það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna er ekki bara þessar tölulegu hliðar heldur það að skýringarnar eru ekki til staðar. Ef maður mundi vilja fletta sig í gegnum þetta ár frá ári, velta fyrir sér hvaða framkvæmdir eða þjónusta eða eitthvað var ekki veitt, gekk ekki eftir eða fór fram úr áætlun, þá getur maður ekki lesið sig til um það og mér finnst það vera mjög bagalegt.

Virðulegi forseti. Þetta var nú kannski að fara aðeins ofan í einhverja tiltekna liði af því að þetta, eins og hér var rakið áðan, á að flytja samhliða ríkisreikningi en hefur ekki tekist fram til þessa og þess vegna kannski notað að hluta til eins og fjáraukalög og ýmsar færslur settar fram sem ætti ekki að gera. Hér var líka tekið fram og aðeins rakið áðan að staðan sem við vorum að kýtast um áðan, þ.e. á milli ríkisstjórna, er staðfest í Markaðspunktum Arion banka og hún er staðfest í ríkisfjármálaáætlun núverandi fjármálaráðherra og í sjálfu sér allt í lagi að því sé haldið til haga.

En í restina held ég að ég taki aðeins dæmi um Atvinnuleysistryggingasjóð af því að þetta á að leggja fram saman. Þar er í ríkisreikningi sýndur mismunurinn sem er bundinn í eigið fé en er ekki sett á höfuðstól. Það eru mörg slík dæmi. Ég spurði ráðherra í ræðu minni, þegar hann loks mælti fyrir frumvarpinu, því að við tókum þetta fyrir í nefndinni áður en mælt var fyrir því, um landlækni og Lýðheilsusjóð á bls. 76 og það var rakið í nefndarálitinu hvers vegna sá mismunur er. Mismunurinn er vegna þess að Lýðheilsusjóður er gerður upp undir fjárlagalið landlæknis en er samt sem áður sérstakur fjárlagaliður. Ég held að hinn almenni þingmaður átti sig ekki á þessu. Svo er spurning um hversu ítarlega fólk vill fara ofan í hlutina, en ég held að þingmenn geri of lítið af því að sitja yfir og fara ofan í fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög. Ég held að það væri afar mikilvægt og mundi skýra ýmislegt fyrir þeim þingmönnum sem eru ekki í fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, en þær fara svolítið í tekjuhliðina.

Ég vil ljúka máli mínu á því að segja að ríkisstjórnin sú fyrri og þessi sem nú situr hafa sem betur fer báðar það að markmiði að lækka skuldir ríkissjóðs. Það kemur fram í riti sem fylgdi með og var gefið út haustið 2012, Ríkisfjármálastefna og þjóðhagsáætlun. Þar er sérstaklega tekið fram, með leyfi forseta:

„Því verður það áfram forgangsmál að lækka jafnt og þétt skuldir ríkisins eftir að heildarjöfnuði hefur verið náð.“

En við stöndum frammi fyrir því að til þess eru notaðar mjög ólíkar aðferðir af hálfu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem sat áður.



[12:25]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég skil vel að hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur þyki skrýtið að hafa umræðu um lokafjárlög í því sem hún kallaði þessu sérkennilega andrúmslofti sem leikur um þessa umræðu, en við hverju er að búast þegar hv. formaður fjárlaganefndar hefur umræðuna á því að brigsla tveimur stjórnmálaflokkum um að hafa meðvitað gengið hagsmuna erlendra afla gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar? Við þær aðstæður er ákaflega erfitt að eiga vitræna málefnalega umræðu. En hv. formaður fjárlaganefndar ræður því auðvitað sjálf með hvaða hætti hún haslar völlinn fyrir þessa umræðu.

Mér fannst margt ákaflega athyglisvert sem hv. þingmaður sagði, sérstaklega þegar kemur að tærleika og gagnsæi fjárlagafrumvarpsins. Þar finnst mér sem menn hafi ekki lært af umræðum fyrri ára, hugsanlega vegna þess að við gefum okkur alltaf svo lítinn tíma til að fara yfir þetta. Sem betur fer höfum við góðan tíma til þess í dag að ræða það með ýmsu öðru.

Fyrst vil ég segja að ég er ekki alveg sammála því þegar hv. þingmaður segir að bæði núverandi og fyrri ríkisstjórn hafi sýnt einbeittan vilja til að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er alveg rétt í tilviki fyrri ríkisstjórnar. Það er alveg rétt að því er varðar beina túlkun orða sem falla af hálfu núverandi ríkisstjórnar. En þegar maður les það plagg sem hv. þingmaður vísaði til, þ.e. ríkisfjármálaáætlunina, þá kemur einfaldlega í ljós að núverandi ríkisstjórn beinlínis byggir á þeim grunni að ætla ekki að lækka skuldir þangað til kemur að lokum tímabilsins sem áætlunin nær út, nema einungis með því sem við getum kallað óreglulegum liðum eða einskiptisaðgerðum, þ.e. sölu eignarhluta. Telur hv. þingmaður ekki að það sé áhyggjuefni?



[12:27]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel að það sé vilji til þess og kannski, eins og ég sagði áðan, til að lækka skuldir ríkissjóðs. Vissulega er það svo að ríkisfjármálaáætlunin sýnir því miður allt of lítinn afgang miðað við hversu gott ég tel búið hafi verið sem tekið var við. Afkoman í lok 2013 er heldur betri en núverandi forkólfar voru búnir að gefa til kynna og það er án inngripa ríkissjóðs, það er án þess að við tökum tillit til arðgreiðslu og annars slíks af hálfu Seðlabankans. Eins og ég sagði áðan staðfesta Markaðspunktar Arion banka á þessum tíma þetta, að frádregnum óreglulegum liðum.

Það er auðvitað athyglisvert sem kemur fram í ríkisfjármálaáætluninni að til dæmis sé ekki gert ráð fyrir byggingu Landspítalans fyrr en alveg í lokin, þá er gert ráð fyrir hönnun og einhverju slíku. Ég tel að við gætum þurft að standa frekar í fæturna. Það er hagræðingarhópur hér að störfum eða hann skilaði áætlunum um hvernig þau vildu sjá ríkisbúskapinn vera og það hefur eitthvað af því gengið eftir. Það að lækka skuldir virðist vera minna forgangsatriði en í rauninni að fækka ríkisstofnunum og fækka starfsfólki hjá ríkinu, það virðist vera meginmarkmiðið.

Ég hef náttúrlega ekki frekar en hv. þingmaður mikla trú á þeirri stefnu sem hér er rekin þar sem fólk afsalar sér tekjum í stórum stíl og sú skattstefna sem hefur verið boðuð stenst ekki þegar á er litið.



[12:30]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti á sínum tíma sæti í fjárlaganefnd. Þá þegar voru umræður um að það þyrfti að gera gögnin sem liggja undir vinnu fjárlaganefndar betur úr garði til að þau væru skiljanlegri. Það gildir ekki síst um lokafjárlög sem oft hafa verið gagnrýnd fyrir að mjög erfitt er að skilja hlutina sem að baki liggja.

Nú ætla ég ekki að gera neinar sérstakar kröfur til núverandi forustu fjárlaganefndar um nútímaleg vinnubrögð en eigi að síður velti ég því fyrir mér þegar ég hlusta hér á framsögu, fer yfir nefndarálitið, hvort meiri hluti fjárlaganefndar lítur á sig sem einhvers konar stimpilpúða fyrir fjármálaráðuneytið.

Ef við tökum til dæmis það sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir drap á, yfirfærslu heimilda, kemur í ljós í nefndarálitinu að það er stefna sem kemur frá fjármálaráðuneytinu um það með hvaða hætti á að færa vannýttar heimildir á milli ára. Það kemur fram, að vísu ekki með berum orðum en má lesa á milli línanna, að fjárlaganefnd virðist ekkert vera sérlega ánægð með þetta og hún setur á laggir sérstakan vinnuhóp sem fer í tiltekin dæmi og óskar eftir skýringum hjá fjármálaráðuneytinu. Svo kemur einhver niðurstaða sem er bersýnilega undirorpin gagnrýni af hálfu nefndarinnar en nefndin leggur ekki til neinar breytingartillögur. Telur hv. þingmaður ekki að kominn sé tími til að nefndin taki sér ákveðið frumkvæði og fari að fylgja eigin stefnu í stað þess að láta rétta sér línuna hráa úr fjármálaráðuneytinu?

Í öðru lagi: Telur hún ekki að kominn sé tími til að fjárlaganefnd taki sér tak og reyni að temja sér nútímalegri vinnubrögð varðandi framsetningu? Ég nefni sem dæmi þær fjárlagaheimildir sem fluttar eru milli ára, eins og hv. þingmaður rakti með dæmum, það var ekkert á bak við það heldur einungis samtalan. Þetta er mjög ógreinilegt. Telur hv. þingmaður að það sé borin von að núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hunskist til að koma sér inn í nútímann?



[12:32]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um gömul mál og þá er margt sem erfitt er að breyta, þ.e. þeim hlutum sem orðnir eru. Það sem hægt er að gera og af því að fjárlaganefnd er svo vel sett af góðum minni hluta sem veitir væntanlega meiri hlutanum aðhald. Við höfum setið í þessum vinnuhópi ásamt formanni nefndarinnar og stundum varaformanni og við höfum reynt að fara svolítið djúpt ofan í þessa hluti. Það má gera betur og við höfum rætt við ráðuneytin, þannig að ég held og vil ekki gera lítið úr því að nefndin er einhuga í því að reyna að spyrna við fótum og fá ráðherra og ráðuneyti til að standa sig betur í áætlanagerð og öðru slíku en reyndin hefur verið í allt of langan tíma.

Það hófst með skýrslu Ríkisendurskoðunar, vinnuhópur var settur af stað 2009 og 2010 vegna ríkisreiknings þeirra ára. Nú erum við búin að vera að fjalla um endurskoðun ársins 2011 og 2012 þannig að við höfum verið að fara ofan í athugasemdir sem hafa komið fram árum saman. Ég hef von um að það verði ráðuneyti og ráðherra til aðhalds en auðvitað þurfa heimildir að vera sýnilegri. Ég tek undir þetta og segi það aftur að mér finnst að það eigi að gera þær sýnilegri svo að allir séu meðvitaðir um hvað sé á ferðinni hverju sinni og við vitum um hvað við erum að fjalla.



[12:34]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir mjög efnismikla og góða ræðu. Það er líka mjög ánægjulegt að núna sjáum við svart á hvítu að fjárlagaárið 2013 skilaði afgangi upp á 9 milljarða ef litið er til undirliggjandi rekstrar. Það þýðir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tókst að stoppa upp í 120 milljarða kr. gat. Það er ekkert smáræði á fjórum árum, á sama tíma og allt samfélagið nötraði vegna bankahruns krónunnar, fyrirtæki fóru unnvörpum á hausinn og heimilin voru föst í skuldafeni. Þetta var mjög flókinn og erfiður tími en okkur tókst að rétta ríkissjóð af og hækka þar með skuldasöfnun, sem auðvitað kostar okkur mjög mikið í vaxtagreiðslum árlega. Eins og við sögðum alltaf: Við ætlum að breyta vöxtum í velferð. Niðurskurðurinn stefndi að því.

Þá velti ég fyrir mér eftir þennan frábæra árangur hvort það sé ekki áhyggjuefni að líta til ríkisfjármálaáætlunar sem nú liggur fyrir þinginu. Þar virðast vera mjög vanáætluð þau útgjöld sem nauðsynleg eru til að við getum rekið hér samfélag sem telst til nútímavelferðarsamfélags. Ég velti fyrir mér, er það svo að árangrinum sem við sjáum í þessum lokafjárlögum sé ógnað með ósjálfbærri tekjulækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar?



[12:37]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þetta andsvar. Það kom fram hjá formanni fjárlaganefndar í framsögu frekar en andsvari áðan um skattalækkunarstefnuna að hún teldi að sýnt væri að hún skilaði samfélaginu eða ríkinu auknum tekjum. Ég fór ágætlega yfir þessa brauðmolakenningu um daginn. Það var nýleg góð rannsókn, stór og mikil rannsókn frá Cambridge-háskóla gerð opinber hér og hún hrindir skattstefnu hægri manna algerlega. Þess vegna tek ég undir að þetta sé eitthvað sem við eigum því miður eftir að bíta úr nálinni með, ef svo heldur fram sem horfir og hægri stefnan fær að halda áfram.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra vegna ríkisfjármálaáætlunarinnar, af því að við höfum til að mynda glímt við sjúkrahúslyfin og samninga á milli sjúkratrygginga og spítalans varðandi S-merkt lyf og það hefur komið fram að jafnvægi sé náð og ekki verði framúrkeyrsla á þessu ári. Nú er ég ekki að halda því fram að þetta sé liður sem getur vaxið út í hið óendanlega og allt það en við erum að tala um að fólk fær ekki lyf sem getur orðið til þess að það lifi, til þess að það eigi sér líf, vegna þess að sjóðurinn er tómur sem á að borga þau. Ég spurði ráðherrann því hvort hann teldi ekki að komin væri uppsöfnuð þörf vegna eftirhrunsáranna og líka vegna þess að á góðæristímanum voru ekki settir neinir sérstakir peninga í þetta. Hann gat ekki svarað því öðruvísi en að hann teldi að jafnvægi væri náð, sem ég er ekki sammála.



[12:39]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo að umræða um skattamál og ríkisfjármál er oft ansi tæknileg, sem er synd af því að þetta eru ákaflega spennandi og áhugaverðir málaflokkar, ríkisfjármálastefna og skattstefna segja okkur mikið um það samfélag sem býr að baki.

Ég heyrði að hv. formaður fjárlaganefndar sagði áðan að eftir því sem skattarnir væru lægri þeim mun meiri væru tekjur ríkissjóðs. Við fengum líka að heyra þetta þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur stjórnuðu síðast Íslandi og þá, til að fá þá kenningu til að virka, til að sýna fram á að þetta rugl væri rétt, var þaninn hér efnahagur landsins sem endaði með því að hann sprakk, Ísland varð því næst gjaldþrota af þeirri stefnu. Nú er verið að keyra hana í gang aftur og það er óskiljanlegt að flokkar, gamlir flokkar sem hafa lengi verið við völd á Íslandi, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, skuli ekki hafa þá burði, sem er alvarlegt fyrir lýðræðið, að endurskoða þessa stefnu sína. En við sjáum hvað er að gerast. Hvað þarf til að þessi gamla kenning þeirra geti aftur farið að virka í smátíma, þangað til allt fer í kaldakol aftur? Jú, í rammaáætlun þarf að smeygja fram hjá nýjum virkjunarkostum, utan við hið lögbundna ferli, því að það þarf að fara að þenja hagkerfið umfram það sem eðlilegt og mögulegt er miðað við efnahagslegt umhverfi. Það er með þeim hætti og ég óttast að lokafjárlögin 2013 séu ekki tónninn sem er sleginn fyrir næstu fjögur ár á eftir. Svo verður það okkar verkefni að vinda ofan af því aftur.



[12:41]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega ekki alltaf gaman að vera í því hlutverki að þurfa að skafa upp, moka flórinn, eins og við þurftum að gera eftir áratuga samstarf þeirra flokka sem nú ráða ríkjum. Ég tek undir að það er margt í hagkerfinu og við í stjórnarandstöðunni erum ekki þau einu sem hvetja til þess að menn geri sér ekki of miklar væntingar og annað slíkt og það er mikilvægt þessa dagana þegar verið er að fjalla um afnám eða losun hafta, því að það er ekki verið að afnema höft, það er verið að búa til ferli til losunar. Og þá sér ráðherra fjármála tækifæri til að segja: Nú ætlum við að fara að lækka skatta. Það gerir ekkert annað en að segja við alla sem stjórna fjármálum: Bíddu nú við, þá þurfum við að skoða hvort verðbólgan hækkar ekki og þurfum við ekki að hækka vexti o.s.frv.?

Ég held því miður að sú skattstefna sé þannig að hún setji okkur lóðbeint aftur á þann stað sem við vorum, ef fram heldur sem horfir. Það er ekki bölsýni eða svartsýni. Þetta hefur sýnt sig. Það er staðreynd. En menn ætla samt að reyna þetta aftur þrátt fyrir að hafa beðið þetta gríðarlega skipbrot.

Ég tek undir þetta með hv. þingmanni og hef sagt frá því þegar ég kom fyrst inn á þing og fór að fjalla um fjárlögin. Það kom mér á óvart hvað það voru alltaf fáir í þingsal og ég veit að það eru ekki endilega mjög margir að fylgjast með, af því að þetta er eitthvað sem fólki, mörgu hverju, finnst ekki skemmtilegt. Kannski er það einmitt okkar hlutverk að draga þau upp úr tæknilegum umræðum og færa yfir í þetta mannlega, þetta sammannlega, eins og hvað þessi tala þýðir sem er þarna á blaði, hún þýðir að það verða ekki veitt sjúkrahúslyf eða eitthvað slíkt. Ég held að við þurfum að taka okkar til og breyta umræðunni.