144. löggjafarþing — 137. fundur
 25. júní 2015.
meðferð sakamála og lögreglulög, 2. umræða.
stjfrv., 430. mál (skipan ákæruvalds, rannsókn efnahagsbrotamála o.fl.). — Þskj. 660, nál. m. brtt. 1157.

[15:07]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu stóra máli er varðar héraðssaksóknara. Megintilgangur þessa frumvarps er annars vegar að ákvörðun um málshöfðun flytjist að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara og hins vegar að verkefni embættis sérstaks saksóknara flytjist til héraðssaksóknara. Þá felst í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að áfram verði tveggja þrepa ákæruvald hér á landi en ekki þriggja eins og við höfum áður rætt hér í þessum þingsal og búið var að lögfesta með lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Æðsti handhafi ákæruvalds verður ríkissaksóknari en embætti héraðssaksóknara verður saksóknar- og lögregluembætti á lægra ákæruvaldsstigi. Embættið mun annast þau verkefni á sviði rannsóknar og ákærumeðferðar efnahagsbrota sem embætti sérstaks saksóknara gegnir í dag, auk þeirra viðbótarrannsókna sem þörf er á í málum frá embætti skattrannsóknarstjóra. Þá er gert ráð fyrir því að héraðssaksóknari annist móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, og var þetta nokkuð rætt í nefndinni, sem og fjármögnun hryðjuverka og að þetta verkefni verði flutt frá peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra. Þá er lagt til að eitt af verkefnum embættis héraðssaksóknara verði að vinna að endurheimt og upptöku ólögmæts ávinnings af hvers kyns refsiverðri háttsemi í tengslum við lögreglurannsóknir við embætti hans og önnur lögregluembætti. Það er gert ráð fyrir því að verkefni ríkissaksóknara við stjórn rannsókna á kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi starfsmanna lögreglu verði fært til héraðssaksóknara og verkefni sem nú snúa að rannsóknum á brotum gegn valdstjórninni verði færð frá almennum lögregluembættum til embættis héraðssaksóknara.

Við fjölluðum talsvert í nefndinni um lögreglurannsóknir en í 25. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum á 8. gr. lögreglulaga. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að gera þyrfti skýra grein fyrir samvinnu milli héraðssaksóknara og lögreglustjóra, svo sem heimildum héraðssaksóknara og lögreglustjóra til framsendinga mála á milli embætta. Við tökum undir þau sjónarmið og leggjum því til ákveðnar breytingar á þessari tilteknu grein frumvarpsins.

Það var talsvert fjallað um 3. mgr. a-liðar 25. gr. frumvarpsins sem varðar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í umsögn ríkislögreglustjóra var bent á það að í frumvarpinu væri hvorki með skýrum hætti gert ráð fyrir úrvinnslu slíkra tilkynninga né miðlun upplýsinga til annarra þar til bærra yfirvalda. Var þar vísað til tilskipana Evrópusambandsins og tilmæla frá alþjóðlegum framkvæmdahópi, FATF, en þar birtast okkur alþjóðleg og leiðandi viðmið um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun brotastarfsemi. Við tókum undir þær ábendingar að skilgreina mætti betur hlutverk fyrirhugaðrar skrifstofu varðandi peningaþvætti og lögðum til ákveðnar breytingar þar að lútandi.

Þá tel ég rétt að minnast á það að í nefndinni var talsvert fjallað um að nauðsynlegt væri að kveða á um aðskilnað milli þeirra starfsmanna embættisins sem vinna við móttöku, greiningu og rannsókn tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og annarra starfsmanna embættisins, áður en slíkar tilkynningar hafa verið metnar og sendar formlega til rannsóknar vegna ætlaða refsilagabrota. En við bendum á að í 2. mgr. a-liðar 1. mgr. 25. gr. eru héraðssaksóknara falin sömu verkefni og sérstökum saksóknara hafa verið falin í núgildandi lögum. Því eru ekki gerðar neinar breytingar á í því efni, þ.e. að verkefni fyrirhugaðs embættis verða þau sömu á sviði rannsóknar skatta- og efnahagsbrota og nú eru hjá sérstökum saksóknara.

Við förum í nefndaráliti okkar talsvert yfir rannsókn skattalagabrota og við bendum á að frumvarpið hefur engar breytingar í för með sér á samspili skattrannsóknarstjóra og lögreglu varðandi rannsóknir skattamála frá því sem nú er.

Við fjölluðum talsvert í nefndinni um handhafa lögregluvalds og hverjir ættu að hafa það vald. Um það er fjallað í 26. gr. frumvarpsins og mig langar að benda á að við munum taka málið inn í nefnd á milli umræðna til að fara betur yfir þetta atriði. Ég geri ráð fyrir því að það muni koma breytingartillaga frá nefndinni hvað þetta varðar og því tel ég ekki rétt að reifa það nánar hér, en mun gera það í nefndinni, fjalla betur um það þar og fara svo yfir þá breytingartillögu þegar þar að kemur hér í þingsalnum.

Við fjölluðum talsvert um kærur á hendur lögreglu. Í 28. gr. frumvarpsins er lagt til að héraðssaksóknara verði falið það verkefni sem ríkissaksóknari hefur nú, að taka við kærum um refsivert brot starfsmanns lögreglu við framkvæmd starfa hans og fara með rannsókn málsins. Það var talsvert mikið fjallað um þetta atriði. Við bentum á það að 30. desember sendi umboðsmaður Alþingis innanríkisráðherra, sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu, bréf þar sem var komið á framfæri ábendingum er lutu að eftirliti með störfum lögreglu. Ráðherrann skipaði nefnd um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Þar er nefndinni falið að leggja mat á núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögur að breyttu verklagi og lagabreytingum, eftir því sem við á. Búast má við því að nefndin skili af sér og við þurfum að taka umræðu um þær niðurstöður í nefndinni þegar þær tillögur líta dagsins ljós. Nefndinni var falið að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem felst í móttöku og afgreiðslu kvartana og kæra vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni vegna athugasemda ríkissaksóknara við störf lögreglu og frumkvæðiseftirlit með störfum lögreglu. Þessari nefnd ber einnig að horfa til þess hvernig þessum málum er háttað hjá nágrannaríkjunum. Við í allsherjar- og menntamálanefnd ræddum þetta talsvert og hefðum kannski viljað fjalla nánar um þetta og gera nú þegar frekari breytingar, en við teljum rétt að bíða eftir að nefndin skili af sér og fögnum því að þetta sé til skoðunar og bendum á að mjög mikilvægt sé að þessari vinnu verði hraðað.

Það er alveg ljóst að frumvarp af þessari stærðargráðu hefur í för með sér talsverðar breytingar varðandi fjárhag þeirra stofnana sem hér um ræðir. Það komu fram ýmsar athugasemdir um þetta. Þar sem lögreglustjórum verður falið að höfða sakamál vegna fleiri brota en þeir gera nú töldu nokkrir umsagnaraðilar að frekari fjárheimildir þyrftu að koma til í ljósi stöðunnar hjá embættunum en þar væri mikill málahalli, sérstaklega hjá embætti ríkissaksóknara. Embættið hefur komið til okkar í nefndinni og lýst því hvernig staðan er og það er alveg ljóst að þar er talsverður bunki af málum. [Kliður í þingsal.] Get ég fengið aðeins betri þögn hérna til hliðar í salnum?

Það kemur fram hjá okkur að miklu skiptir að þessu nýja embætti séu tryggð nægileg úrræði og nægilegur mannskapur til að sinna þessum mikilvægu verkefnum sem embættinu er ætlað að taka við. Jafnframt er mjög mikilvægt að þeirri þekkingu sem byggst hefur upp varðandi saksókn í efnahags- og skattalagabrotum sé viðhaldið og að breytingarnar hafi ekki í för með sér að frekari dráttur verði á afgreiðslu og rannsókn mála og málsmeðferðartíminn lengist ekki enn frekar. Það er auðvitað von okkar að þegar þessar breytingar eru um garð gengnar þá gangi þetta allt saman smurt fyrir sig, en það er alveg ljóst að á meðan á breytingunum stendur er auðvitað nokkur hætta á því að það dragi úr málshraða og þess vegna er nauðsynlegt að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir ákveðnum gildistökutíma. Við lögðum til í nefndaráliti okkar, sem var afgreitt út úr nefnd í lok mars, að gildistökunni yrði frestað til 15. júlí. Það er ljóst að þetta er hitt atriðið sem nefndin ætlar sér að skoða á milli umræðna og ljóst að við þurfum að breyta gildistökuákvæðinu enn á ný vegna þess að við erum fallin á tíma. Það tekur auðvitað tíma að framkvæma þessar breytingar.

Í örstuttu máli aðeins nánar um fjárhagslegu áhrifin. Það komu fram áhyggjur varðandi ríkissaksóknara og að það þyrfti að líta sérstaklega til þeirra auknu verkefna sem embættinu væri ætlað að sinna. En megintilgangurinn með frumvarpinu er að styrkja eftirlitshlutverk ríkissaksóknara með framkvæmd ákæruvalds hjá lægra settum ákæruvaldshöfum. Þetta eftirlitshlutverk felur í sér aukin verkefni hjá embættinu og við teljum að ef gert verður ráð fyrir minni tilfærslu fjárheimilda frá ríkissaksóknara til hins nýja embættis þá verði að mæta því með nýjum fjárheimildum til hins nýja héraðssaksóknaraembættis.

Við teljum að fjárþörf ákæruvaldsins í heild eftir þessar breytingar sem frumvarpið felur í sér sé metin með varfærnum hætti. Við teljum því brýnt að þær forsendur sem við reifum hér og sem birtast okkur í kostnaðarmatinu verði endurmetnar þegar lögin verða komin til framkvæmda og menn hafa áttað sig betur á því hvernig gengið hafi að innleiða breytingarnar og hver fjárþörfin sé þegar búið verður að vinna á þeim stabba mála sem nú bíða.

Frú forseti. Eins og ég hef sagt áður þá óska ég eftir því að þetta mál gangi aftur til nefndar vegna þessara tveggja atriða sem við ætlum okkur að skoða nánar, þ.e. varðandi hverjir það eru sem eru handhafar ákæruvalds og eins varðandi gildistökudagsetninguna.



[15:17]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál sem er viðamikið, eins og hv. þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar kom inn á. Við þurfum að taka það inn á milli umræðna, m.a. út af tveimur hlutum, eins og hún fór réttilega yfir. Annars vegar þarf að fara yfir það hverjir eru handhafar lögregluvalds og hins vegar er tíminn er varðar gildistöku þessara laga í rauninni útrunninn. Þetta snýr líka að því sem ég hef fjallað um á öðrum stað og varðar að leggja niður embætti sérstaks saksóknara, sem mér finnst ekki kominn tími á að gera, ekki frekar en Bankasýsluna.

Það er samt mjög margt gott í þessu áliti og frumvarpinu. Ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara um fjármögnun þess því að mér finnst þetta millidómstig sem við erum að setja á laggirnar geta komið til með að verða mjög gott og stytt verkferla til muna, sem ég held að sé þörf á hér á landi, að það verði vonandi ekki eins þungt í vöfum.

Það kemur líka fram í álitinu að ríkissaksóknari taki yfir mun fleiri verkefni en verið hefur fram til þessa. Þess vegna er mikilvægt að tryggja það að fjármunir fylgi. Það er verið að tala um ansi mikla fjármuni nú þegar sem fara í embætti ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara sem eru auðvitað með þung mál sem enn þá er verið að vinna. Við erum eftir á með mjög mörg mál hjá ríkissaksóknara, sérstaklega er varða kynferðisbrot gagnvart börnum.

Ríkissaksóknari hefur komið bæði til fjárlaganefndar og allsherjar- og menntamálanefndar og sagt að það þurfi aukna fjármuni til þess að tryggja meiri málshraða í þeim málum sem fyrir liggja. Þess vegna held ég að þrátt fyrir að þeir fjármunir sem eiga að myndast við það að embætti sérstaks saksóknara verði lagt niður, eins og hér er aðeins rakið, þá þurfi að koma mikið meira til. Hér er talað um 325 milljónir. Það er ekki gert ráð fyrir þeim. Ég átta mig því ekki alveg á því hvernig þetta á að fúnkera til áramóta og í framhaldinu verður væntanlega, á næsta ári, gert ráð fyrir auknum fjárframlögum. Mér finnst aðalmálið vera, með því að gera þetta svona, að við erum í rauninni að samþykkja að leggja aukið álag á ríkissaksóknara án þess að ætla að borga nægilega fyrir það. Embættið er nú þegar illa statt er varðar málshraða, eins og ég sagði varðandi kynferðisafbrot gegn börnum. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum koma þeim málum sem allra hraðast í gegnum ferlið.

Það kom ítarlega fram í samræðum okkar við viðkomandi aðila að þetta væri í rauninni óásættanlegt, en almennt eru aðilar þessara mála sáttir við það ferli sem er verið að fara í, þ.e. þessa breytingu. Sumir vildu ganga lengra og fara í þriðja dómstigið sem er ekki í boði núna en var búið að teikna upp og gera ráð fyrir. Ég held að við þurfum að setjast aðeins yfir það. Ég á alla vega erfitt með að samþykkja þetta óbreytt að því leyti er varðar fjármögnunina.

Ég tek undir það sem formaður nefndarinnar sagði að það er mjög mikilvægt einmitt í þeim skiptum sem verða þegar annað embættið verður lagt niður og verkefnin verða flutt yfir að það gangi snurðulaust fyrir sig út af mannauði, þekkingu og öðru slíku sem hefur myndast á þeim sérstöku málum sem hafa komið inn til sérstaks saksóknara. Þessum eftirhrunsmálum er ekki lokið og enn eru stór mál í gangi, eins og við þekkjum úr fjölmiðlum. Sérstakur saksóknari taldi, þegar hann kom á okkar fund, að það þyrfti ár til að ljúka þeim málum og hann var þá ekki að tala um önnur mál sem embættinu hafa borist á þessum tíma heldur einungis þessi stóru mál.

Mér sýnist að við séum komin vel áleiðis inn á árið til þess að þetta geti tekið gildi. Það þarf hvort sem er að endurskoða fjárhaginn. Það er auðvitað spurning hvort við komum með tillögu um að vísa þessu hreinlega í fjáraukalög eða hvort við ætlum bara að láta duga að taka það fram hérna og tryggja það í rauninni ekki betur en hér er gert. Það er ekki nóg að réttarbæturnar verði til staðar, mér finnst líka að það þurfi að vera til staðar sá hraði sem þarf að vera á málum ef þetta á að virka sem skyldi. Það er jú tilgangurinn að auka málshraða á sem flestum málum og að þau þurfi ekki öll að fara alla leið til Hæstaréttar. Það er í rauninni tilgangurinn að héraðsdómstólarnir geti tekið þau fyrir, klárað málin og það þurfi ekki að fara áfram heldur sé hægt að ljúka þeim á fyrri stigum. Til þess þarf auðvitað mannskap og hann fáum við ekki án þess að hafa fjármuni.

Frú forseti. Ég ætla ekkert að tala neitt lengur um þetta. Ég segi eins og formaðurinn, við tökum þann lið sem snýr að handhöfum lögregluvalds, sem við ræddum töluvert mikið og höfum ákveðið að taka inn til endurskoðunar aftur, og ræðum þegar breytingarnar verða komnar fram, sem ég held að verði til bóta.



[15:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er hið ágætasta mál. Ég er einn af þeim sem vilja ganga heldur lengra í átt að eftirliti með lögreglu og mér finnst mjög mikilvægt að hafa þrjú dómstig, en að því sögðu þá ber þetta mál auðvitað einkenni þess að það er nefnd að störfum eins og í mörgum öðrum málaflokkum þannig að maður tekur kannski ekki inn allar breytingar sem maður mundi vilja akkúrat á þessu stigi. Sem betur fer eru þessi mál í stöðugri athugun og sífellt verið að reyna að bæta sem mér finnst mjög gott. Mér finnst nauðsynlegt að taka fram við umræðu um þetta mál að við píratar höfum lagt fram þingsályktunartillögu um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu þar sem við sjáum fyrir okkur sjálfstæða stofnun sem sér um það verkefni og hefur það að hlutverki að hefja athugun að eigin frumkvæði og taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum. Sömuleiðis er alveg þess virði að nefna að þetta er algjörlega að lögreglumönnum ólöstuðum í sjálfu sér.

Tvennt annað tel ég gríðarlega mikilvægt til þess að bæta réttarstöðu borgaranna gagnvart lögreglu og það er annars vegar að það sé ekki mannekla í lögreglunni og hins vegar að menn fái almennilega borgað. Ég fullyrði hiklaust að mikið álag, mannekla og það að lögreglumenn upplifi starf sitt sem vanþakklátt auki líkurnar á leiðinlegum samskiptum við borgarana. Þetta er auðvitað allt saman bara fólk. Ég þekki það bara af vinnu minni hérna, ef ég er undir miklu álagi og tímapressu og finnst allt vera ósanngjarnt og óþolandi þá er miklu erfiðara að vera málefnalegur í sínum málflutningi, miklu erfiðara að vinna skipulega og faglega og af einhverjum heilindum þegar maður er í aðstæðum þar sem maður upplifir vanþakklæti og skilningsleysi. Mér finnst því mjög mikilvægt að það komi alveg skýrt fram að hugmyndin um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu er ekki í sjálfu sér gagnrýni á lögregluna heldur miklu frekar tillaga að því hvernig verði best búið um þetta þannig að réttindi borgaranna séu sem best tryggð og sömuleiðis að lögregla hafi sem besta leiðsögn og bestu tækifærin til þess að veita sína þjónustu án þess að það komi til leiðinlegra samskipta við borgarana. Þannig að ég vil undirstrika það að allar slíkar hugmyndir eru ekkert bara fyrir borgarana gegn lögreglunni, heldur einnig fyrir lögregluna sjálfa. Enda þótti mér mjög vænt um það þegar ég flutti málið að hv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er fyrrverandi yfirlögreglumaður kom á eftir mér og tók undir þingsályktunartillöguna. Mér þótti mjög vænt um það, enda er þetta eins og ég segi ekki síst fyrir lögregluna sjálfa. Hún hefði sjálf mjög gott af því í sínu starfi að sjálfstæð stofnun væri til leiðsagnar og mörg af þessum vafaatriðum yrðu skýrð.

Ég vil meina að í litlu samfélagi eins og er á Íslandi eigum við oft við að etja alls konar vandamál sem fengju kannski öðruvísi meðferð í samfélögum sem eru mun stærri og fjölbreyttari. Ég held að á Íslandi almennt, ekki bara innan lögreglunnar, heldur almennt, sé tilhneiging í hverjum iðnaði, á hverjum starfsvettvangi innan tiltekinna hópa til að það skapist einhvers konar vináttumenning og það gerir held ég sjálfsskoðun stofnana af ýmsu tagi, ekki bara lögreglunnar heldur líka Alþingis og margra annarra, miklu erfiðari en ella og í raun og veru óhnitmiðaðri. Af þeim ástæðum meðal annars tel ég mjög skynsamlegt að hafa sjálfstæða stofnun fyrir þessa hluti.

Það er einhvern veginn líka þannig að fólk sér ekki sjálft sig eins og annað fólk sér það. Maður sér bara út um augun eins og ég segi stundum. Það sama gildir um lögregluna, nema að lögreglan er sérstök stofnun að því leyti að hún er eina stofnunin sem hefur beinlínis heimild til þess að beita ofbeldi. Það er vitaskuld vegna þess að það er nauðsynlegt eins og allir vita. En þess vegna er einmitt mikilvægt að við spörum ekki þegar kemur að því að vernda réttindi borgaranna gagnvart slíkum stofnunum. Þá ítreka ég enn og aftur að þetta er algjörlega hugsað til þess að hjálpa lögreglunni að vinna sín störf í sem mestum friði og í sem mestri samvinnu við borgarana, sérstaklega þá erfiðu. Ef þeir skjólstæðingar sem lögreglan upplifir sem erfiða eða hreinlega eru erfiðir, við vitum það alveg að það er til erfitt fólk, ef það fólk upplifir réttarstöðu sína sem sterka, ef það upplifir málaflokkinn þannig að það hafi greiðan aðgang að aðstoð við að leita réttar síns, ekki bara vegna meintra lögbrota sem einstaka lögreglumenn gætu framið heldur einfaldlega hvort rétt hafi verið staðið að hlutunum og hvort rétt vinnubrögð hafi verið höfð í heiðri, þá gerir það hlutina auðveldari. Það er eitt af því sem tillaga okkar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu felur í sér, það er að rannsaka einnig og athuga vinnubrögðin einfaldlega, alveg óháð því hvort þau séu beinlínis lögbrot eða ekki.

Það er í raun og veru ekki fleira sem mig langaði að segja um þetta mál. Ég held að það sé til bóta þótt mikið verk sé eftir. Ég hlakka til að sjá hvað kemur úr vinnu hv. nefndar sem fjallar um málaflokkinn eins og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar fór inn á hérna áðan. Þá býst ég fastlega við því að sú þingsályktunartillaga sem ég nefndi þurfi að koma til aftur á næsta þingi þar sem hún verður væntanlega ekki afgreidd á þessu þingi sökum tímaskorts.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.