144. löggjafarþing — 138. fundur
 29. júní 2015.
byggðaáætlun og sóknaráætlanir, 2. umræða.
stjfrv., 693. mál (heildarlög). — Þskj. 1167, nál. m. brtt. 1424.

[15:43]
Frsm. atvinnuvn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

Nefndin hefur fjallað um málið og hafa nefndinni borist umsagnir frá Byggðastofnun, Eyþingi, Ferðamálastofu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skaftárhreppi og Skipulagsstofnun.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Samhliða eru lagðar til breytingar á lögum um Byggðastofnun, m.a. í þá veru að fella brott ákvæði um byggðaáætlun og verði frumvarpið að lögum verður kveðið á um hana í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Markmið frumvarpsins, samanber 1. gr. þess, er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga og færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Ætlunin er að bæta verklag við gerð stefnumótunar og áætlanagerð á sviði byggðamála.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lagastoð verði rennt undir skipan stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál en í upphafi var hann á herðum óformlegs vinnuhóps á vegum forsætisráðuneytisins. Hópurinn er samráðsvettvangur allra ráðuneyta, enda ganga byggðamál þvert á verkefni ólíkra ráðuneyta. Þá er í 4. gr. kveðið á um sóknaráætlanir landshluta sem eru svæðisbundnar þróunaráætlanir hvers landshluta og er gerður samningur við ráðuneyti um fjárframlög. Verði frumvarpið að lögum verður verklag sem hefur mótast frá árinu 2011 fest í sessi en nú byggist það einungis á ákvörðun ráðherra hverju sinni.

Nefndin leggur til að landsskipulagsstefnu verði bætt við upptalningu í 4. gr. frumvarpsins. Landsskipulagsstefna telst ekki til skipulagsáætlana samkvæmt skipulagslögum og telur nefndin mikilvægt að tryggja samspil milli landsskipulagsstefnu og sóknaráætlana landshluta. Einnig er lagt til að málsliður þess efnis að Byggðastofnun geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags falli brott í 4. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins, enda gefa skipulagslög ekki kost á því að Byggðastofnun geti verið aðili að gerð svæðisskipulags.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í skjalinu.

Undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Kristján L. Möller, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Eldar Ástþórsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.



[15:45]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Framsögumaður þessa nefndarálits hefur farið ágætlega yfir það sem hér er verið að gera og breyta varðandi frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Fyrirvari minn á þessu máli gengur fyrst og fremst og nær eingöngu út á það að mér hefur ekki þótt vera settir nægir fjármunir í sóknaráætlanir. Landsbyggðin hefur í gegnum tíðina fengið margar góðar áætlanir um allt mögulegt milli himins og jarðar og frómar óskir í þeim efnum hafa komið frá hv. Alþingi, en það hafa ekki alltaf farið saman fjármunir og þau loforð eða væntingar sem hafa verið gefnar í áætlununum. Lög um sóknaráætlun hafa verið í gildi í þó nokkur ár. Það var verið að auka fjármagn í sóknaráætlanir stig frá stigi og voru miklar væntingar um að það mundi halda áfram eftir að þessi ríkisstjórn tók við, en því miður var raunin þveröfug og menn skáru hressilega niður þar þótt minni hlutanum tækist að ná einhverju til baka.

Eins mikilvægt og það er að samræma byggðaáætlun og ýmsar áætlanagerðir á sviði byggðamála og þá sóknaráætlun sem við höfum haft hér í nokkur ár þá er það alltaf þannig að það eru fjárlög hverju sinni sem segja til um það hvernig efndir eru og hvernig hægt er að uppfylla áætlanirnar. Ég held að þar standi hnífurinn í kúnni, það þarf miklu meira fjármagn að fylgja áætlununum, tryggt í fjárlagagerð hverju sinni, svo að hægt sé að vinna eftir þeim frómu loforðum og áætlunum sem lýst er í þeim fjölda áætlana sem gerðar hafa verið landsbyggðinni til framdráttar eða með þeirri stefnu að bæta þar atvinnu, styrkja byggð og auka menntun, styrkja svæðin heilt yfir.

Minn fyrirvari gengur fyrst og fremst út á þetta. Ég mun fylgja því eftir við gerð fjárlaga og fylgjast vel með því hvernig það verður, hvernig fjármunir verða veittir til þeirra verkefna sem hér eru undir.



[15:49]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hvort rætt hafi verið í nefndinni um þann lýðræðishalla sem oft er í landshlutasamtökunum, sem úthluta styrkjum vegna sóknaráætlunar og fleiri. Landshlutasamtökin eða stjórnir þeirra eru yfirleitt skipaðar meirihlutafulltrúum úr sveitarfélögunum. Sem sveitarstjórnarmaður í gamla daga þá vorum við að ræða þennan lýðræðishalla, það voru ekki minnihlutafulltrúar í stjórn landshlutasamtaka, yfirleitt ekki, en það er hins vegar stjórn landshlutasamtakanna sem hefur mikið með það að gera hvernig er úthlutað úr sóknaráætlunum. Sums staðar eru þetta sérstök ráð, eins og menningarráð sem úthluta vegna menningarsamninganna. Ég velti fyrir mér hvort það hafi eitthvað verið rætt í nefndinni að huga þurfi að þessum lýðræðishalla þegar landshlutasamtökin fá aukin hlutverk og aukið vægi í stjórnsýslunni, að stjórnirnar séu þá með einhverjum hætti skipaðar bæði meirihluta- og minnihlutafulltrúum úr sveitarfélögunum sem standa að landshlutasamtökunum.



[15:50]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög góð ábending. Því miður kom þessi vinkill á málinu ekki til umræðu í atvinnuveganefnd. Þetta er stórmál því að auðvitað skiptir aðkoma pólitískt kjörinna fulltrúa að útdeilingu þess fjármagns sem kemur til landshlutasamtakanna til ráðstöfunar gífurlega miklu máli. Þetta eru oft og tíðum umtalsverðir fjármunir sem skiptir máli hvernig farið er með. Eins og hv. þingmaður nefnir er oftar en ekki sterkur pólitískur meiri hluti í stjórn landshlutasamtakanna og ég hafði kannski ekki hugsað það til enda að aðkoma minni hluta hverju sinni væri ekki tryggð þegar verið væri að ráðstafa fjármunum. Þetta er að sjálfsögðu mismunandi, eins og til dæmis með menningarsamninga þar sem auglýstir eru styrkir og stjórn yfir því til að úthluta og ýmislegt þannig. Ég tel alveg rétt að fara yfir þá þætti sem varða það hvernig fénu er útdeilt, að það nýtist sem best og að tryggð sé aðkoma þvert á flokka, því að tryggja verður lýðræðisleg vinnubrögð í þeim efnum. Í fjárlaganefnd eru auðvitað fulltrúar allra flokka að vinna að tillögum til fjárlaga og þótt menn greini á hefur minni hlutinn möguleika á að gera tillögur til breytinga sem auka og styrkja lýðræðislegar fjárveitingar.



[15:53]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í þessa umræðu sem snýr fyrst og fremst að því að hér er verið að sameina og gera verkferla skýra. Þetta snertir meðal annars hinar margumræddu sóknaráætlanir landshluta, sem er verkefni sem komið var á í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur reynst afar gott og við höfum fjallað mjög mikið og oft um í tengslum við fjárlögin. Það hefur svolítið þurft að berjast fyrir þeim krónum sem fara þangað inn og ætlun fyrrverandi ríkisstjórnar var að setja töluvert mikla peninga í þetta verkefni, sem hefur því miður ekki gengið eftir hjá núverandi ríkisstjórn.

Það er ágætt og gott út af fyrir sig að verkferlarnir eða það sem snýr að stýrihópi og ferli og öðru slíku verði sett í einhvern fastan ramma, sem byggir þá á þeirri reynslu sem nú þegar er fengin. Það eru samt uppi áhyggjur, ég hef þær a.m.k., sérstaklega þegar kemur að menningarsamningunum.

Það var umdeilt að skella öllum þessum samningum saman undir vörumerkinu „Sóknaráætlun“. Ég tel að það sé greinilega farið að koma niður á verkefnunum nú þegar og það hefur fyrst og fremst með fjárveitingarnar að gera. Sá lýðræðishalli sem var verið að ræða áðan er eitt af því sem er misjafnt, það hvernig búið er um hjá hverjum fyrir sig, hverju kjördæmi fyrir sig eða á starfssvæði þeirra sem um þetta sjá, sem ég man ekki í augnablikinu. Á mínu starfssvæði eru það meðal annars Eyþing og Austurbrú sem hafa séð um þetta.

Afleiðingar þess hversu mikið hefur verið skorið niður er varðar þetta verkefni eru þær að menningarfulltrúar eru mjög víða komnir í hálfar stöður og mér hefur borist til eyrna að það hafi í för með sér að samstarfið verði ekki eins þétt og öflug og það er ekki lögð eins mikil áhersla á starf þeirra og viðbúið að fjari meira undan en við viljum.

Ég verð þó að segja að ánægjulegur atburður átti sér stað á föstudaginn var á Akureyri. Þá var ég viðstödd afhendingu styrkja úr uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra sem tók við af menningarráði Eyþings og vaxtarsamningi Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu undir þessu heiti, Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra. Það bárust 168 umsóknir og 93 af þeim fengu verkefnastyrki í menningu, 15 í stofn- og rekstrarstyrki menningar og 60 umsóknir bárust svo í atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluta sjóðsins. Það var ánægjulegt að sjá að í þeim hluta var töluvert af konum sem hefur verið minna um undanfarin ár. Úthlutað var 82 millj. kr. í þessi menningar-, nýsköpunar- og atvinnuþróunarverkefni og var þetta afskaplega ánægjuleg og góð stund.

Betur má ef duga skal. Ef þetta á að geta orðið jafn frjótt og því var ætlað, þ.e. allir þeir þættir sem þarna eru undir, þá þarf auðvitað að leggja til aukið fé. Það er ekki bara ég, það eru margir aðrir sem hafa af því áhyggjur að þegar þetta er komið undir einn hatt muni eitthvað undan láta. Það virðist sem starf menningarfulltrúa sé það sem fyrst og fremst gefur eftir, a.m.k. nú í byrjun.

Við þurfum því að fylgja þessu enn þá betur eftir núna þegar það styttist í að við förum að fjalla um fjárlög aftur, því að þingið er orðið svo langt. Ég held að við þurfum að standa fast í fæturna gagnvart því ef við viljum sjá þessa styrki og þennan stuðning og þetta starf í sveitarfélögunum, sem þau eru svo afskaplega ánægð með sjálf og hafa ítrekað lýst yfir, m.a. á fundum með fjárlaganefnd og vildu fá í þetta aukna fjármuni og hafa haft ákveðnar efasemdir um sumt af því sem gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar og varðar þau mál.

Varðandi það að festa ferlið í sessi með því að setja það í lög þá er það í sjálfu sér ágætt, en við þurfum að huga að því að styðja og styrkja enn þá betur við menninguna í þessum hluta þannig að menningarfulltrúar geti verið starfandi víðs vegar um land í meira en hálfu starfi, því að eins og við vitum og kom berlega í ljós á Akureyri á föstudaginn er gríðarlegur fjöldi sem sækir í þetta og út úr því koma alls konar gróskumikil verkefni sem styrkja og styðja við einyrkja í raun alls staðar á starfssvæðum. Ég held að þetta sé eitt af því sem getur viðhaldið byggð í hinum dreifðari byggðum landsins, að fólk geti nýtt sér tækifæri eins og þau sem er að finna í gegnum þetta ferli.