144. löggjafarþing — 140. fundur
 30. júní 2015.
alþjóðleg öryggismál o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 628. mál (erlend herskip og herloftför o.fl., breyting ýmissa laga). — Þskj. 1084, nál. 1474, nál. m. brtt. 1475.

[15:48]
Frsm. meiri hluta utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum sem varða alþjóðleg öryggismál o.fl.

Í nefndaráliti er gerð grein fyrir málsmeðferð í nefndinni og gestakomum. Þar kemur fram að með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum á tveimur meginsviðum, annars vegar um aðgang erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar innleiðingu alþjóðaskuldbindinga varðandi frystingu fjármuna og skyld mál sem varða þvingunaraðgerðir.

Nánar tiltekið, eins og segir í nefndarálitinu, eru í frumvarpinu reglur sem varða aðgang erlendra ríkisfara, sjófara jafnt sem loftfara, að íslensku yfirráðasvæði sem ætlað er að taki við af úreltri tilskipun frá 24. júlí 1939 sem hefur verið grundvöllur slíkra heimilda hingað til.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu ákvæði um fljótvirkari birtingu lista yfir hryðjuverkamenn og samtök þegar frysta þarf fjármuni þeirra. Meginalþjóðaskuldbindingar Íslands varðandi frystingu fjármuna hryðjuverkasamtaka stafa frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Á undanförnum árum hefur innleiðing á Íslandi á þessum skuldbindingum tekið um það bil þrjá mánuði að meðaltali. Peningaþvættisstofnunin, FATF, hefur ákveðið að þegar öryggisráðið breytir listum sínum yfir hryðjuverkamenn og samtök sem skylt er að frysta fjármuni hjá verði að innleiða þá breytingu í landslög umsvifalaust og í það minnsta innan tveggja til þriggja daga. Aðildarríki Peningaþvættisstofnunarinnar, t.d. Noregur, hafa leyst þetta með þeim hætti að vísa í löggjöf sinni beint á vefsíðu öryggisráðsins hvað varðar uppfærslu hryðjuverkalistanna, en birta þá ekki endilega í eigin stjórnartíðindum. Með frumvarpinu eru lagðar til hliðstæðar lagaheimildir.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að heimildir verði rýmkaðar til þess að beita þvingunaraðgerðum í samvinnu við samstarfsríki Íslands. Samkvæmt gildandi lögum getur ríkisstjórnin framkvæmt þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Lagt er til í frumvarpinu að þessi heimild verði útvíkkuð til þess að hægt sé að innleiða þvingunaraðgerðir samstarfsríkja og er þá átt við samstarfsríki Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Norður-Atlantshafsbandalagsins, NATO, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að heimilað verði að takmarka viðskipti með hrádemanta frá átakasvæðum (svokallaða blóðdemanta), svo og viðskipti með tól sem nota má til pyntinga eða við framkvæmd dauðarefsingar. Vísað er í greinargerð með frumvarpinu til Kimberley-ferlisins, alþjóðasamstarfs um að vinna gegn viðskiptum með demanta frá átakasvæðum og koma í veg fyrir að þeir séu notaðir til þess að fjármagna ofbeldisverk af hálfu uppreisnarhópa eða hryðjuverkasamtaka. Þar sem Ísland er aðili að samningum sem banna dauðarefsingu og pyntingar þykir rétt að banna viðskipti með tól sem nota má til pyntinga eða dauðarefsinga á sama hátt og gert hefur verið í nágrannalöndunum.

Í fimmta og síðasta lagi er með frumvarpinu lagt til að takmarka megi fjárfestingar í fyrirtækjum sem veita þjónustu eða framleiða hluti sem má nota í hernaðarlegum tilgangi. Í gildi eru lög sem kveða á um að leyfi þurfi fyrir útflutningi á þjónustu og vörum sem nota mætti í slíkum tilgangi. Þá gildir útflutningsbann til fjölda ríkja á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Eðlilegt þykir að setja takmarkanir á að erlendir aðilar, fyrst og fremst utan Evrópska efnahagssvæðisins, geti eignast meiri hluta í þeim fyrirtækjum á Íslandi sem framleiða umræddar vörur eða veita þjónustu sem bannað er að veita í tilteknum löndum. Að öðrum kosti er aukin hætta á að hægt verði að komast fram hjá gildandi lögum um eftirlit með útflutningi.

Í nefndarálitinu er að lokum gerð grein fyrir tveimur atriðum sem fengu nokkra umræðu á vettvangi nefndarinnar. Þar var meðal annars nokkuð fjallað um þá breytingu sem felst í rýmkuðum heimildum til þátttöku í þvingunaraðgerðum, þannig að Ísland geti tekið þátt í þvingunaraðgerðum í samvinnu við samstarfsríki. Eins og áður sagði er það svo samkvæmt gildandi lögum að ríkisstjórnin getur framkvæmt þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Fram komu dæmi um aðstæður þar sem til álita kom að samstarfsríki Íslands gripu til slíkra aðgerða en slík ákvörðun hefði ekki verið tekin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins eða annarra alþjóðastofnana. Ef til hefði komið hefði skort lagastoð fyrir þátttöku Íslands. Meiri hlutinn leggur áherslu á það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að þegar rætt er um samstarfsríki í þessu samhengi sé átt við samstarfsríki Íslands innan EES eða NATO.

Hitt atriðið sem fékk nokkra umfjöllun á fundi nefndarinnar var það hvort ákvæði frumvarpsins gætu með einhverjum hætti tekið á svokölluðu fangaflugi, eins og dæmi eru um frá síðari árum. Fram kom að ákvæði frumvarpsins varðandi ríkisloftför fælu ekki í sér breytingar frá núgildandi framkvæmd en styrktu hins vegar lagalegan grundvöll þeirrar framkvæmdar. Möguleikar íslenskra yfirvalda til að bregðast við ólögmætu fangaflugi með ríkisloftförum væru undir því komnir að viðkomandi ríki veitti annað hvort fyrir fram fullar upplýsingar um flugið, farþega og tilgang flugs eða að ábendingar bærust um slíkt eftir öðrum leiðum. Væri ekki um slíkt að ræða væru það helst lögreglu- og tollyfirvöld sem hefðu möguleika til eftirlits á flugvöllum, þó að teknu tilliti til hugsanlegs úrlendisréttar. Slíkar heimildir lögreglu og tollgæslu væru hins vegar ríkari gagnvart borgaralegu flugi, en dæmin sem við þekkjum frá undanförnum árum um bandarísku fangaflugin snúast einmitt um flutning fanga með flugvélum sem voru skráðar á einkafyrirtæki og báru þess ekki með nokkrum hætti merki að um ríkisloftför væri að ræða Tilvik af því tagi falla því utan gildissviðs þessa frumvarps og verður ekki séð að með breytingum á þessu frumvarpi væri með neinum hætti hægt að taka á slíkum tilvikum. Þarna er fyrst og fremst um það að ræða að lögreglu- og tollayfirvöld hafa ákveðnar heimildir sem eiga við, en óraunhæft er að ætla að lagabreytingar sem slíkar geti tryggt það að slík tilvik komi ekki upp þó að dæmin frá undanförnum árum séu auðvitað þess eðlis að menn hafa meiri vara á sér en ella.

Að þessu loknu legg ég og meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Minni hluti nefndarinnar hefur lagt fram nefndarálit og breytingartillögur þar sem annars vegar er fjallað um skyldu ráðherra til þess að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um heimildir sem veittar eru til erlendra ríkisloftfara, og hins vegar um samráð við sveitarfélög þar sem erlend ríkisskip óska eftir viðkomu áður en hann veitir slík leyfi. Það er mitt mat að þessar breytingartillögur minni hlutans séu óþarfar. Annars vegar getur utanríkismálanefnd ávallt kallað eftir upplýsingum frá ráðherra um þau mál sem að þessu snúa og óþarfi að leggja þá skyldu á að ávallt verði upplýst um öll tilvik þar sem slík leyfi eru veitt, en sé tilefni til að mati utanríkismálanefndar Alþingis er hægt að kalla eftir þessu.

Varðandi samráðsskyldu við sveitarfélög er það mitt mat að þó að slíkt samráð geti hugsanlega átt við í einstökum tilvikum sé ástæðulaust að leggja þá skyldu á ráðherra að hafa samráð í öllum tilvikum við sveitarfélög í þessum efnum, enda er það svo að veiting heimilda af þessu tagi er utanríkismál og satt best að segja, með fullri virðingu fyrir sjálfræði sveitarfélaganna, verður ekki hægt að líta svo á að þau reki sjálfstæða utanríkisstefnu.



[15:57]
Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni utanríkismálanefndar tilraun hans til að rekja tillögur minni hluta sem var kannski full vel í lagt hjá hv. formanni, en ég mun nú fara yfir þær. Við höfum rætt þetta mál í nefndinni. Eins og kom fram í máli fyrri ræðumanns skilar 1. minni hluti sérnefndaráliti og breytingartillögum. Undir þær skrifa sú sem hér stendur og hv. þm. Óttarr Proppé. Þar eru annars vegar lagðar til breytingartillögur sem miða að því að auka gagnsæi og samráðsskyldu og hins vegar að skilgreina betur hugtakið „þvingunaraðgerðir“ í síðari breytingartillögu. Ég mun aðeins fara yfir rökstuðning fyrir því og fara yfir nefndarálit 1. minni hluta.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum sem lúta annars vegar að aðgangi erlendra ríkisfara að íslensku yfirráðasvæði og hins vegar innleiðingu alþjóðaskuldbindinga um frystingu fjármuna og aðrar þvingunaraðgerðir. Það er rétt að það komi fram að breytingar hvað varða aðgang erlendra ríkisfara er ekki hægt að kalla róttækar og raunar var það mat eins umsagnaraðila, Isavia, sem annast umsjá flugumferðar, að þarflaust væri að ráðast í slíkar lagabreytingar. Það er mat 1. minni hluta að nýta hefði mátt tækifærið úr því að verið er að gera breytingar á lögum og gera raunverulegar breytingar, þannig að ráðherra verði annars vegar gert skylt að upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um þau leyfi sem hann veitir erlendum ríkisloftförum, en hér liggur fyrir að ráðherra getur lögum samkvæmt ákveðið á hvaða stöðum erlend ríkisloftför geta átt viðkomu og hvernig ferðum þeirra skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis. Þarna er verið að skerpa á heimild sem er til staðar nú þegar í lögum, en hugmyndin er sú að hér sé aukið gagnsæi skrifað inn í lögin þannig að það verði eðlilegur hluti af slíkum leyfisveitingum að upplýsa utanríkismálanefnd. Hins vegar er lagt til að ráðherra verði gert skylt að hafa samráð við viðkomandi sveitarfélag ef hann hyggst veita erlendu ríkisskipi leyfi til að hafa viðkomu í höfn.

Ástæða þess að 1. minni hluti leggur þetta til er að slík atvik hafa komið upp þar sem sveitarfélög hafa lýst þeirri skoðun sinni að þau óski ekki eftir til að mynda að fá herskip í hafnir sínar. Þau hafa enn fremur lýst sig kjarnorkuvopnalaus svæði og þótt hv. formaður utanríkismálanefndar telji ekki eðlilegt að sveitarfélög reki sjálfstæða utanríkisstefnu þá er það svo að þetta eru mikilvægar ákvarðanir sem koma inn á borð sveitarfélaga þar sem mikilvægustu ákvarðanir sem varða nærsamfélagið eru teknar, því er ekki nema sjálfsögð kurteisi, mundi ég segja, að hæstv. utanríkisráðherra á hverjum tíma hafi samráð við sveitarfélög áður en hann veitir leyfi til þess að viðkomandi skip hafi viðkomu í höfnum þeirra, í ljósi þess að þarna geta auðvitað komið upp árekstrar. Að setja inn slíka samráðsskyldu mundi ég fremur telja breytingu til þess að bæta almenna stjórnsýsluhætti og efla samráð ríkis og sveitarfélaga, sem því miður er allt of bágborið.

Þannig að hér eru þessar tvær breytingartillögur sem fyrst og fremst snúast um aukið samráð, aukið gagnsæi.

Hvað varðar þann hluta frumvarpsins sem lýtur að þvingunaraðgerðum gerir 1. minni hluti athugasemdir við að hér eru notuð hugtökin „ríkjahópar“ og „samstarfsríki“, þ.e. ekki er gerð krafa um að ákvörðun um þvingunaraðgerðir sé tekin á vegum alþjóðastofnana heldur er vitnað til ríkjahópa og samstarfsríkja sem eru óskilgreind. Nú liggur fyrir að meiri hluti hv. utanríkismálanefndar telur að sá skilningur liggi í þessum orðum að þetta séu ríki innan þeirra alþjóðastofnana sem við tilheyrum nú þegar, en ég vil þó nefna það að í 1. umr. um málið á þingi var bent á þá sögulegu staðreynd að slíkur ríkjahópur var einmitt búinn til undir yfirskriftinni bandalag staðfastra þjóða, en mætti líka kalla hann bandalag viljugra þjóða, þegar ráðist var inn í Írak, en sú innrás reyndist feigðarflan eins og hefur komið fram æ síðan og naut einskis stuðnings meðal þjóðarinnar. Þó að ráðherra hafi bent á í þeirri umræðu að hann telji slíkan stríðsrekstur ekki falla undir hugtakið „þvingunaraðgerðir“ hefur hugtakanotkun í alþjóðastjórnmálum gjarnan verið ansi teygjanleg og má kannski segja að þar séu alþjóðastjórnmálin lík innanlandsstjórnmálunum. Þar nægir að nefna loftárásir á Líbíu sem gengu undir nafninu framkvæmd loftferðabanns og mætti því örugglega teygja hugtakið „þvingunaraðgerðir“ þar yfir.

1. minni hluti telur því rétt að það sé fastneglt í lög að slíkar þvingunaraðgerðir séu ekki af hernaðarlegum toga. Það ætti þá að taka af öll tvímæli um það hvað felst í þvingunaraðgerðum og leggur minni hlutinn þess vegna til að á eftir orðunum „þvingunaraðgerðir sem“ í 3. gr. komi: ekki geta talist af hernaðarlegum toga og.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda lengri tölu um þetta mál en legg þetta fram og endurtek að undir álitið skrifa hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, framsögumaður, og Óttarr Proppé.