144. löggjafarþing — 140. fundur
 30. júní 2015.
áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla, síðari umræða.
stjtill., 775. mál. — Þskj. 1362, nál. m. brtt. 1494 og 1546.

[18:32]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Nefndin fékk á fund sinn fjölda aðila, þar á meðal frá sveitarfélögum, hagsmunaaðilum og Landssambandi smábátaeigenda og öðrum smábátafélögum auk Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í tillögunni felast nokkrar breytingar frá þeirri ráðstöfun sem nú gildir. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga, um stjórn fiskveiða, eru til ráðstöfunar 5,3% af úthlutun aflamagns kvótasettra tegunda til tiltekinna verkefna sem lögin kveða á um. Heildarmagn fyrir næsta fiskveiðiár er rúm 30 þús. tonn. Í tillögunni er lagt til að strandveiðiheimildir verði sambærilegar og á yfirstandandi fiskveiðiári, eða um 8.600 tonn, að skel- og rækjubætur verði minnkaðar um þriðjung og að byggðakvóti verði minnkaður en aukið við aflamark Byggðastofnunar. Lagt er til að aflaheimildir til línuívilnunar verði óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári, að 300 tonnum af þorski verði ráðstafað til frístundaveiða og að hætt verði að ráðstafa heimildum til áframeldis á þorski. Einnig er lagt til að þær makrílheimildir sem eru til ráðstöfunar verði seldar til veiða á grunnslóð og að 800 tonnum af síld verði ráðstafað til smábáta undir tiltekinni stærð en til þess þarf að gera breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Í lögunum er mælt fyrir um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar til sex ára sem sæti endurskoðun á þriggja ára fresti. Þar sem unnið er að skýrslu um þær aðgerðir sem tillagan nær til og hagkvæmni þeirra leggur meiri hlutinn til að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar sæti endurskoðun á 145. löggjafarþingi.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á tillögunni. Lagt er til að 9 þús. tonn fari til strandveiða og verða þær heimildir því auknar um 400 tonn frá yfirstandandi fiskveiðiári. Nokkurt jafnvægi þykir vera komið á strandveiðar, fjöldi báta helst nokkuð stöðugur á milli ára og festa komin í útgerðarmunstrið. Afleidd áhrif strandveiða þykja nokkur á þær byggðir sem helst er gert út frá, einkum í höfnum og með þjónustu við strandveiðimenn. Arðsemi af veiðunum sjálfum er hins vegar neikvæð samkvæmt úttekt Hagstofunnar sem birt er í ritinu, „Hagur veiða og vinnslu“, og er því mikilvægt að horfa til niðurstöðu væntanlegrar úttektar á atvinnu- og byggðaáhrifum strandveiða í þeirri greiningu sem nú er unnið að og getið er um hér framar. Aflamagn til strandveiða síðustu þrjú fiskveiðiár er sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 er eftirfarandi:

Lagt er til að allt að 2 þús. tonnum verði ráðstafað til rækju- og skelbóta og verði því óbreytt frá yfirstandandi fiskveiðiári. Aflamagn getur hins vegar aukist eða minnkað miðað við afla í innfjarðarrækju. Aflamagn til skel- og rækjubóta síðustu þrjú fiskveiðiár er sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 er eins og kemur fram í þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Varðandi hinn almenna byggðakvóta er lagt til að allt að 7.353 tonnum verði ráðstafað til svokallaðs almenns byggðakvóta og verði því ámóta og á yfirstandandi fiskveiðiári. Magn er þó háð því hver endanleg ákvörðun ráðherra verður eftir mat á heildarmagni því sem til ráðstöfunar er til þessara aðgerða eftir skiptimarkað Fiskistofu. Í úttekt Vífils Karlssonar, „Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar, janúar 2015“, í þeim sjávarþorpum sem eiga undir högg að sækja og eru jafnframt með samninga um sérstakan byggðakvóta Byggðastofnunar, er niðurstaðan sú að almennur byggðakvóti á þessum stöðum hafi ekki haft áhrif til aukinnar byggðafestu. Mikilvægt er að ljúka úttekt sem nær yfir alla notendur almenns byggðakvóta og meta áhrif á alla þá staði sem njóta þessa úrræðis. Aflamagn til byggðakvóta síðustu þrjú fiskveiðiár kemur fram í þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Lagt er til að allt að 5.400 tonn fari til aflamarks Byggðastofnunar og því verði aukið við þær aflaheimildir sem stofnunin hefur til ráðstöfunar til að styðja við sjávarþorp í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Magnið er þó háð óvissu um magn úr skiptimarkaði Fiskistofu. Fyrstu vísbendingar eru um að úrræðið, sem nú hefur verið við lýði í tvö ár, kunni að vera árangursríkara en mörg þeirra úrræða fiskveiðistjórnarkerfisins sem nú eru til staðar til atvinnu-, félags- og byggðastyrkingar. Það er ljóst að fleiri byggðir en Byggðastofnun hefur þegar gert samninga við falla undir skilgreiningar verkefnisins. Þýðingarmikið er að farið verði ítarlega yfir þau viðmið og skilgreiningar sem um verkefnið gilda, til dæmis fólksfjöldatakmarkanir, og skilgreiningu á sjávarþorpi í vanda. Skoða þarf ítarlega tillögur til úrbóta sem koma fram í áðurnefndri skýrslu Vífils Karlssonar, í því skyni að gera verkefnið árangursríkara og markvissara. Aflamagn til sérstaks byggðakvóta Byggðastofnunar hefur verið ákveðið síðustu tvö fiskveiðiár sem segir í þeim töflum sem ég vitna til og fylgja nefndarálitinu.

Lagt er til að 5.700 tonn fari til línuívilnunar og aukast þær aflaheimildir því lítillega frá yfirstandandi fiskveiðiári. Enn er lögð áhersla á að gerð verði úttekt eftir sjávarbyggðum á því hvar línuívilnun hefur afgerandi áhrif sem atvinnu-, félags- og byggðaaðgerð. Greindar verði leiðir til þess að línuívilnun færist í einhverjum mæli yfir á báta með beitningarvélar án þess að hafa verulega neikvæð áhrif á þær byggðir þar sem úrræðið skiptir hvað mestu máli, til dæmis með aukinni byggðatengingu ívilnunarinnar. Leitað verði leiða til að setja vinnsluskyldu á línuívilnunarafla. Þannig má nútímavæða veiðiskapinn án þess að veikja byggðaáhrif aðgerðarinnar. Aflamagn til línuívilnunar hefur verið eins og fram kemur í töflum og áætlun fyrir árið 2015/2016 eins og fram kemur í töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Meiri hlutinn leggur til að magn til frístundaveiða verði aukið um 100 tonn frá yfirstandandi fiskveiðiári og fari í 300 tonn. Aflamagn til frístundaveiða hefur verið síðustu þrjú fiskveiðiár sem segir í þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu og jafnframt áætlun fyrir næsta fiskveiðiár.

Lagt er til að heimildir til áframeldis á þorski verði minnkaðar um helming frá því sem nú er og gerir nefndin ráð fyrir því að þær falli í kjölfarið niður, þ.e. á þarnæsta fiskveiðiári. Að jafnaði hefur 500 tonnum af þorski verið ráðstafað til áframeldis þorsks í sjókvíum. Ákvæðið var sett inn til bráðabirgða í lögum nr. 85/2002 með það að markmiði að skapa tækifæri til aukinnar þekkingar á þorskeldi og fýsileika þess, á meðan kynbætur færu fram, þannig að aleldi gæti farið fram á þorski. Ákvæðið hefur verið framlengt nokkrum sinnum. Ljóst er að þróun í fiskeldi er ekki til áframeldis á þorski og kynbætur hafa ekki orðið að veruleika sem menn vonuðu. Aflamagn til áframeldis á þorski hefur verið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 er eftirfarandi ár og verður fyrir komandi fiskveiðiár eins og segir í töflum sem fylgja nefndarálitinu.

Meiri hlutinn leggur síðan til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem koma fram í nefndaráliti.



[18:39]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, frá minni hluta atvinnuveganefndar sem eru sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, og Kristján L. Möller sem er fjarverandi.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal ráðherra ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns til næstu sex ára. Þar sem unnið er að úttekt á áhrifum þeirrar ráðstöfunar sem ákvæðið mælir fyrir um er gert ráð fyrir því að tillaga þessi gildi aðeins næsta fiskveiðiár, þ.e. 2015/2016, og hefur meiri hlutinn lagt til breytingu þess efnis. Leggur minni hlutinn til breytingartillögu í þá veru til að hnykkja á því.

Meiri hlutinn hefur lagt til nokkrar breytingar á tillögunni. Þær eru eftirfarandi: að aflamagn til strandveiða aukist um 400 tonn frá yfirstandandi fiskveiðiári, að 2 þús. tonnum verði ráðstafað til rækju- og skelbóta og verði því óbreytt frá yfirstandandi fiskveiðiári, að almennur byggðakvóti verði svipaður að magni og á yfirstandandi fiskveiðiári, að aflamark Byggðastofnunar verði aukið frá því sem nú er og sömuleiðis að línuívilnun aukist lítillega. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að aflamagn til frístundaveiða verði aukið og að heimildir til áframeldis á þorski verði minnkaðar um helming í stað þess að þær falli brott líkt og mælt er fyrir um í tillögunni.

Fram hefur komið að unnið er að úttekt á ráðstöfun aflamagns sem er meðal annars nýtt í þeim tilgangi að styrkja byggðir landsins. Minni hlutinn telur rétt að horfa til þeirrar úttektar en auka samt sem áður það aflamagn sem gengur til strandveiða og aflamarks Byggðastofnunar á næsta fiskveiðiári. Slíka aukningu er unnt að leggja til með því að taka af heildaraflaaukningu fyrir næsta fiskveiðiár.

Nokkur sveitarfélög hafa ályktað í þá veru að taka undir sjónarmið Landssambands smábátaeigenda um að styrkja þurfi strandveiðarnar með auknum afla. Þau sveitarfélög eru Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Fjallabyggð og fleiri má nefna í því sambandi. Minni hlutinn telur strandveiðar afar mikilvægan þátt í fiskveiðistjórnarkerfinu og bendir á að skorað hefur verið á nefndina að auka heildarafla strandveiða. Bent var á fyrir nefndinni að auka þyrfti viðmiðunarafla til strandveiða svo ekki þyrfti að stöðva veiðar á svæði A í hverjum mánuði líkt og verið hefur undanfarin ár. Fram komu sjónarmið fyrir nefndinni um að umsvif og atvinna mundi aukast í sjávarbyggðum ef aukið yrði við strandveiðar. Einnig var bent á að arður af strandveiðum rynni að mestu til þeirra samfélaga sem ættu að njóta nálægðar sinnar við fiskimið, m.a. þar sem laun og kostnaður við slíka þjónustu skilaði sér til viðkomandi svæðis. Þá var bent á við umfjöllun nefndarinnar um málið að strandveiðar væru einföld og sanngjörn byggðaaðgerð þar sem smærri sjávarbyggðir nytu nálægðar við fiskimið.

Minni hlutinn telur brýnt að fram fari úttekt á byggða- og félagslegum áhrifum strandveiða á byggðir landsins. Minni hlutinn leggur til breytingu á tillögunni í þá veru að aflamagn til strandveiða verði aukið um 1 þús. tonn frá því sem meiri hlutinn leggur til, þ.e. að heildaraflaaukning fyrir næsta fiskveiðiár verði nýtt til strandveiða ásamt því að auka aflamark Byggðastofnunar.

Hvað varðar skel- og rækjubætur vill minni hlutinn undirstrika mikilvægi þess að sett verði sólarlagsákvæði á þær í þeirri vinnu sem fer fram í framhaldinu, þ.e. áður en ráðherra leggur næst fram tillögu á Alþingi á grundvelli 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða. Nokkur eðlismunur er á bótunum og telur minni hlutinn að taka verði tillit til þess hvernig hefur verið farið með bæturnar og hver tilgangur þeirra var upprunalega. Fram hefur komið að líkur hafi aukist á að skel muni veiðast að nýju í Breiðafirði og telur minni hlutinn að taka skuli tillit til þess.

Minni hlutinn telur brýnt að almennum byggðakvóta verði ráðstafað á þann veg að gagnist bæði veiðum og vinnslu í landi og gangi þangað sem þörfin er mest. Að mati minni hlutans mun þurfa að endurskoða byggðakvótann og líta meðal annars til þess hvort eingöngu dagróðrabátar eigi að nýta hann.

Við í minni hlutanum fögnum auknu aflamarki Byggðastofnunar og leggjum til að það verði aukið eins og kemur fram í breytingartillögum okkar. Tilgangurinn er að úthluta fiskveiðikvóta til útgerða í byggðarlögum sem hafa átt verulega undir högg að sækja, geta ekki með góðu móti sótt fram á öðrum sviðum og eru fjarri öflugum vinnumarkaðssvæðum. Fyrir liggur mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar frá Vífli Karlssyni frá janúar 2015 sem er að finna á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Minni hlutinn bendir á að línuívilnun skiptir fjölda byggðarlaga miklu máli og er oft hluti af þeim aðgerðum sem Byggðastofnun setur upp fyrir fyrirtæki sem gera samning um sérstakt aflamark hennar. Minni hlutinn telur rétt að horft verði til úttektarinnar á gagnsemi línuívilnunar fyrir veikari sjávarbyggðir og líka skuli litið til þess að um er að ræða umhverfisvænar og sjálfbærar veiðar. Minni hlutinn telur þó tilefni til endurskoðunar á línuívilnun í ljósi þess að beitningarvélar í báta af öllum stærðum hafa þróast mikið undanfarið.

Minni hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að frístundaveiðar nýtist ferðaþjónustufyrirtækjum sem stunda sjóstangveiði. Ekki má koma til þess að almenni byggðakvótinn gangi inn í frístundaveiðipottinn. Tilvik hefur komið upp þar sem almennur byggðakvóti var nýttur í frístundaveiðar og tekur minni hlutinn undir óánægju þess efnis, sem kom fram hjá sjómönnum.

Hvað varðar áframeldi á þorski telur minni hlutinn brýnt að þau fyrirtæki sem það stunda fái svigrúm til að endurskipuleggja rekstur sinn og tækifæri til að sýna fram á að ekki sé útséð með að áframeldi á þorski borgi sig.

Minni hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að ákveðnu aflamagni sé ráðstafað samkvæmt ákvæði 5. mgr. 8. gr. laganna til að styrkja byggðir landsins. Telur minni hlutinn þó að hlutfallið mætti vera mun hærra en 5,3% eins og það er í dag og leggur til að hugað verði að slíkri breytingu í þeirri vinnu sem fram undan er í ráðuneytinu.

Minni hlutinn telur að aðgerðir af þessu tagi skuli einkum nýtast minni og veikari sjávarbyggðum og telur brýnt að mörkuð verði stefna fyrir þær byggðir og reynt að auka byggðafestu veiðiheimilda verulega og meta hversu miklum heimildum nauðsynlegt er að ráðstafa, þá einkum aflamarki Byggðastofnunar. Minni hlutinn telur brýnt að til verði öflugur leigupottur ríkisins sem auki möguleika útgerða á að styrkja rekstrargrundvöll sinn.

Fram hefur komið að tillaga þessi muni einungis gilda fyrir næsta fiskveiðiár, þ.e. fiskveiðiárið 2015/2016. Minni hlutinn telur brýnt að í þeirri vinnu sem er fram undan og lýtur að því að undirbúa ályktun fyrir næstu sex fiskveiðiár þar á eftir verði aðkoma minni hluta þingmanna eða minni hluta stjórnarandstöðunnar tryggð. Slíkt samráð telur minni hlutinn afar mikilvægt, ekki aðeins til upplýsingar heldur einnig til að taka til greina tillögur sem koma frá minni hlutanum svo að unnt verði að ná sem víðtækastri sátt um ályktunina.

Minni hlutinn bendir á að við undirbúning þessarar tillögu áttu fulltrúar allra þingflokka kost á að sækja upplýsingafundi um málið og telur minni hlutinn það hafa verið jákvætt.

Jafnframt bendir minni hlutinn á að ráðherra getur ákveðið sjálfstætt að úthluta makríl án þess að stofninn verði hlutdeildarsettur en nú lítur út fyrir að frumvarp um stjórn veiða Norðaustur-Atlantshafsmakrílsins verði ekki að lögum.

Minni hlutinn leggur til breytingu á breytingartillögu meiri hlutans þess efnis að aukið verði við magnið til strandveiða um 1 þús. tonn og þá breytast jafnframt aðrir töluliðir smávægilega.

Jafnframt leggur minni hlutinn til breytingu til að hnykkja á því að tillagan gildi aðeins fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Minni hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað orðanna ,,fiskveiðiárunum 2015/2016–2020/2021“ í 1. málslið komi: fiskveiðiárinu 2015/2016.

2. Í stað 1.–11. töluliðar komi sjö nýir töluliðir, svohljóðandi:

1. 10 þús. tonnum til strandveiða.

2. Allt að 1.800 tonnum til rækju- og skelbóta.

3. Allt að 6.928 tonnum til byggðakvóta.

4. Allt að 5.400 tonnum til aflamarks Byggðastofnunar — sem er þó nokkuð mikil aukning, hátt í 2 þús. tonn.

5. 5.375 tonnum til línuívilnunar.

6. 300 tonnum til frístundaveiða.

7. 200 tonnum til áframeldis á þorski.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir og Kristján L. Möller.



[18:51]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil aðeins ítreka það sem hefur komið fram í nefndarálitum og eiginlega í báðum nefndarálitum, hjá minni og meiri hluta. Í lögunum er mælt fyrir um að ráðherra leggi fram þingsályktunartillögu á sex ára fresti, en við leggjum til að hún verði endurskoðuð að ári á þeim forsendum að betri gögn verði komin þá. Í úttekt Vífils Karlssonar, „Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar“, kemur í ljós að sú útfærsla aflamarks Byggðastofnunar virðist gefa betri raun til þess að efla búsetu en hinn venjulegi byggðakvóti þar sem almennur byggðakvóti hefur ekki haft þau áhrif á aukna byggðafestu sem ætlast var til. En stutt reynsla er komin á þetta form þannig að nefndin telur æskilegt að fá aðeins nánari reynslu á þessa útfærslu. Þess vegna eru ekki lagðar til miklar breytingar í ár á milli þessara potta. En aðeins er áherslan samt í þá veru að aukið er mest í aflamark Byggðastofnunar þar sem í rauninni er verið að úthluta kvóta á vinnslur á viðkomandi stöðum.

Þá verði einnig greindar leiðir til þess að línuívilnun færist yfir í einhverjum mæli á báta með beitningarvélar án þess að það hafi verulega neikvæð áhrif á byggðir þar sem úrræðið skiptir hvað mestu. Með aukinni byggðatengingu á línuívilnun eru menn svona að ætla það að línuívilnunin muni gagnast betur þannig. Í dag má segja að þessi útfærsla á línuívilnun hefti í rauninni framþróun í smærri byggðarlögum, þeim byggðarlögum sem við ættum kannski að leggja áherslu á að styrkja, það er spurning hvort það sé af hinu góða.

Það má líka benda á að kannski er ekki mjög viskulegt, eins og reynslan er á línuívilnun í dag, að beitt sé hér á suðvesturhorninu og línan keyrð norður á Siglufjörð eða austur á firði. Jafnvel eru dæmi um að beitningarvélar séu teknar úr bátum á suðvesturhorninu áður en þeir fara norður eða austur. Svo er verið að keyra línuna fram og til baka á hverjum einasta degi.

Eftir árið er þess vænst að gögn liggi fyrir hvað af þessum pottum gagnast best fyrir þessar byggðir og þá verði hægt að koma með þriggja ára áætlun og jafnvel til sex ára.

Einnig vil ég fagna því að horfið var frá því að skerða rækju- og skelbætur. Það var ósanngjörn leið, ég get alveg tekið undir það eins og kom fram í umsögnum, þar sem þeir aðilar sem hafa fengið þær bætur höfðu látið þorskveiðiheimildir á móti þeim skelkvóta sem þeir fengu og var svo í rauninni færður niður í núll.

En ég fagna þessu og í rauninni er tiltölulega lítill ágreiningur um þessi mál í nefndinni. Ég hef þá trú að eftir árið verði enn meiri samhljómur þegar niðurstöður frá þessum góðu aðilum liggja fyrir.