144. löggjafarþing — 140. fundur
 30. júní 2015.
veiðigjöld, 2. umræða.
stjfrv., 692. mál (veiðigjald 2015--2018). — Þskj. 1166, nál. m. brtt. 1485, nál. 1558, brtt. 1559.

[23:50]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012 (veiðigjald 2015–2018). Þetta er nefndarálit frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund út af þessu máli frá hagsmunaaðilum, fyrirtækjum, Samtökum í sjávarútvegi og fiskvinnslu auk verkalýðsforustu einstakra fyrirtækja og sveitarfélaga. Einnig komu Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga.

Í fyrri hluta nefndarálitsins eru rakin lög um veiðigjöld og frumvarpið eins og það liggur fyrir. Tel ég ekki ástæðu til að endurtaka það en kem inn í nefndarálitið þar sem segir að meiri hlutinn taki undir það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að mikilvægt sé að gjaldheimta í sjávarútvegi byggist ekki eingöngu á afkomu þeirra fyrirtækja sem best gengur, því að það getur vegið að fjölbreytileika greinarinnar. Áréttar meiri hlutinn ummæli í nefndaráliti meiri hluta á síðasta löggjafarþingi: „Meiri hlutinn telur mikilvægt að álagning veiðigjalda og innheimta þeirra verði ekki til þess að skapa óstöðugleika og óvissu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Umræða um auðlindagjald og sanngjarnan hlut þjóðarinnar í afrakstri sjávarútvegsins er áralöng. Hugmyndafræðin um álagningu veiðigjalda á svokallaðan umframarð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið deilumál og skapað átök um þá mikilvægu atvinnugrein sem sjávarútvegur er. Meiri hlutinn telur að hugmyndafræðilegur ágreiningur megi ekki leiða til þess að skapa óvissu í sjávarútvegi og því telur meiri hlutinn nauðsynlegt að ná frekari sátt um framtíðarfyrirkomulag þeirrar gjaldtöku sem hér um ræðir. Mikilvægt er að hafa í huga að há álagning gjalda af þessu tagi vinnur gegn því markmiði laga um stjórn fiskveiða að standa vörð um fjölbreytta útgerð og öflug byggðarlög.“

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu má gera ráð fyrir að álögð veiðigjöld fiskveiði árið 2014/2015 geti numið um 8,5 milljörðum kr. Samkvæmt frumvarpi þessu er áætlað að álögð veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2015/2016 geti numið allt að 10,9 milljörðum kr. Hækkun veiðigjalda milli ára er um 28% og leggst þungi hækkunar á botnfiskstegundir. Fram hefur komið að svo mikil hækkun, og þá sérstaklega hækkun veiðigjalds botnfiskstegunda, sé mikið áhyggjuefni. Má til dæmis nefna að yrði frumvarpið óbreytt að lögum mundi veiðigjald á þorsk hækka um 53,25% og ýsu um 47,84%. Búast má við því að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði enn frekari samþjöppun veiðiheimilda en þegar er orðin og líklegt væri að þungi gjaldsins væri of mikill á minni útgerðir sem fyrst og fremst veiddu botnfisk. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn rétt að fara gaumgæfilega yfir alla þætti málsins.

Meiri hlutinn telur rétt að þegar veiðigjaldsnefnd hefur lokið útreikningum á veiðigjaldi skv. d-lið 5. gr. frumvarpsins þá kynni hún atvinnuveganefnd þá útreikninga svo fljótt sem auðið er. Ætlunin er að hafa tækifæri til að skoða hvort verulegar breytingar hafi orðið á afkomu tiltekinna tegunda.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem fyrst og fremst miða að raunhæfri lækkun heildarveiðigjaldsins miðað við frumvarpið og að létt verði að nokkru á botnfisksútgerðum. Breytingunum má skipta í fimm hluta:

1. Lagt er til að í reiknigrunni veiðigjalda á botnfisk sé gert ráð fyrir 5% álagi í stað 20% af eftirfarandi: Öllum hreinum hagnaði (EBT) í söltun og herslu, og fyrir ferskfiskvinnslu og 78% af hreinum hagnaði (EBT) í frystingu (landfrystingu). Jafnframt er lagt til að í reiknigrunni veiðigjalda á uppsjávarfisk sé gert ráð fyrir 25% álagi í stað 20% af eftirfarandi: 22% hreins hagnaðar (EBT) í frystingu og öllum hreinum hagnaði (EBT) af mjöl- og lýsisvinnslu. Þessi breyting breytir hlutföllum milli botnfisks og uppsjávarfisks þannig að botnfiskur greiði lægra gjald að tiltölu.

2. Við ákvörðun veiðigjalda verði miðað við 33% af heildarreiknigrunni botnfisks og uppsjávarfisks í stað 35% af reiknigrunni þessara tegunda. Þessi breyting hefur í för með sér nokkra lækkun heildarveiðigjalda.

3. Lagt er til að 10 kr./kg viðbótargjald á makríl falli brott, bæði þar sem líkur eru á að frumvarp um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl taki nokkrum breytingum í meðferð þingsins þar sem gert er ráð fyrir að svonefnd sex ára regla falli brott og auk þess virðist óvissa á makrílmörkuðum og við veiðar hans nú ekki geta réttlætt viðbótarskattheimtu af þessu tagi.

4. Í því skyni að koma til móts við smærri útgerðir sem bera meiri þunga veiðigjalda en áður er lögð til veruleg breyting á svokölluðu frítekjumarki. Lagt er til að hver gjaldskyldur aðili eigi rétt á því að fá 20% afslátt af fyrstu 4,5 millj. kr. álagðs veiðigjalds og 15% afslátt af næstu 4,5 millj. kr. álagningarinnar. Þeir aðilar sem njóta réttar til lækkunar veiðigjalds skv. 7. mgr. d-liðar 5. gr. frumvarpsins, eiga ekki rétt á þessum afslætti, fyrr en sá réttur er uppurinn, og reiknast afsláttur af því veiðigjaldi sem lagt er á eftir þann tíma. Samkvæmt þessari tillögu getur hámarksafsláttur numið 1.575 þús. kr. og er meginmarkmið hans fyrst og fremst að rétta stöðu smárra og millistórra útgerða sem stunda botnfisksveiðar.

5. Loks er í aðlögunarskyni lagt til að staðgreiðslu veiðigjalda verði seinkað um tvo mánuði í byrjun þannig að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. frumvarpsins skuli fyrsta greiðslutímabil veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2015/2016 vera frá 1. september 2015 til 31. desember 2015 og fyrsti gjalddagi 1. febrúar 2016. Er þetta fyrst og fremst lagt til svo að Fiskistofa og tollstjóri hafi rýmri tíma til undirbúnings staðgreiðslunnar.

Undir þetta álit skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Fjóla Hrund Björnsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem þar greinir um.



[23:56]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012 (veiðigjald 2015–2018).

Minni hlutinn gagnrýnir harðlega hversu seint frumvarpið var lagt fyrir þingið en því var útbýtt á síðasta degi framlagningar þingmála, samkvæmt 3. mgr. 37. gr. þingskapalaga, þ.e. 1. apríl sl. Mælt var fyrir málinu 16. apríl, atvinnuveganefnd sendi það til umsagnar 24. apríl og veitti frest til þess að skila umsögn til 30. apríl. Fulltrúar ráðuneytisins komu á fund nefndarinnar 21. apríl og kynntu frumvarpið. Í kjölfarið voru nokkrir fundir haldnir í nefndinni þar sem umsagnaraðilar og gestir komu til að ræða málið. Síðan liðu um það bil fjórar vikur þar til málið var næst rætt. Fulltrúar ráðuneytisins komu fyrir nefndina 16. júní og kynntu veigamiklar breytingar á frumvarpinu sem lúta að því að lækka veiðigjöld frá því sem lagt er til í frumvarpinu. Þær voru sendar til umsagnar og ræddar með gestum 18. júní. Málið var svo á dagskrá 23. júní og lagði formaður til á fundi nefndarinnar 24. júní að það yrði afgreitt frá nefndinni.

Minni hlutinn áréttar andstöðu sína við það hversu seint frumvarpið kom fram og hversu langur tími leið án þess að málið væri tekið fyrir í nefndinni. Hér er um stórt, veigamikið og flókið mál að ræða sem þarfnast lengri umræðu og ítarlegri gagna. Minni hlutinn beinir því til ráðherra að leggja lagafrumvörp af þessu tagi fyrr fyrir þingið en raun ber vitni.

Veiðigjöld voru fyrst lögð á árið 2004 og hafa álögð gjöld og þróun þeirra verið eins og fram kemur í eftirfarandi töflu sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í hér en vísa til.

Eins og sjá má hafa veiðigjöld hækkað á síðustu árum. Allir stjórnmálaflokkar hafa ályktað á landsfundum sínum að sanngjarnt sé að leggja á hóflegt veiðileyfagjald sem endurgjald til þjóðarinnar fyrir afnot atvinnugreinarinnar af auðlindinni. Deilan snýst því um hvað sé hóflegt og sanngjarnt gjald, svo og aðferðafræði við álagningu þess. Þetta verður viðfangsefni Alþingis næstu árin og er mikilvægt að ná sem mestri sátt um bæði aðferðafræði við álagningu svo og upphæð gjaldsins.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um álagningu veiðileyfagjalda miðað við þá aðferðafræði sem samþykkt var af núverandi stjórnarmeirihluta á síðasta löggjafarþingi. Á einum af fyrstu fundum nefndarinnar komu fram upplýsingar um hækkun gjaldanna fyrir næsta ár miðað við framangreinda aðferðafræði.

Frá því að núverandi stjórnarmeirihluti tók við völdum er enn verið að handstýra álagningu veiðigjalda. Sú aðferðafræði að byggja á afkomustuðlum fisktegunda endurspeglar ekki afkomuna enda liggja upplýsingar, t.d. um rekstur fyrirtækja, ekki fyrir. Í frumvarpinu er horfið frá því að reyna að ná utan um auðlindarentuna og er aðferðafræði ráðherra sú að skattleggja greinina handvirkt eftir því hversu mikið á að ná út úr henni hverju sinni.

Gjaldstofn veiðileyfagjalds fyrir næsta fiskveiðiár byggist á tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2013. Þær tölur má meðal annars sjá í töflu sem fylgir frumvarpinu, svo og breytingar milli ára. Síðan er vísað til tveggja taflna varðandi rekstraryfirlit fiskveiða 2009–2013 og rekstraryfirlit fiskvinnslu 2009–2013. Eins og fram kemur í töflu þessari má sjá að afkoma veiða og vinnslu batnaði að meðaltali milli þessara ára um 26% í fiskveiðum og að meðaltali um 34% í fiskvinnslu. Eins og áður er getið um eru þessar afkomutölur ársins 2013 að meginhluta álagningarstofn veiðigjalda fyrir fiskveiðiárið 2015/2016.

Fram hefur komið að stærstu fyrirtækin í botnfisks- og uppsjávarveiðum geti hæglega borið hærri veiðigjöld enda er afkoma þeirra góð. Hins vegar er brýnt að mæta minni og meðalstórum fyrirtækjum. Minni hlutinn leggur því til breytingartillögu, sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali, þar sem mælt er fyrir um aukna afslætti sem fyrst og fremst skuli gagnast minni og meðalstórum fyrirtækjum. Heildarafslættir af veiðigjaldi samkvæmt tillögu minni hlutans nema um 500 millj. kr. versus 300 millj. kr. sem meiri hlutinn leggur til að veiðigjöld verði lækkuð fyrir meðalstór og minni útgerðir.

Heildarálagning veiðileyfagjalds þetta fiskveiðiár, þ.e. 2014/2015, er talin verða 9,45 milljarðar kr. eða 20,3% af hreinum hagnaði (EBT) veiða og vinnslu árið 2012 samkvæmt töflunni hér að framan. Að teknu tilliti til tímabundinna lækkunaráhrifa vegna ákvæðis til bráðabirgða er áætlað að heildarveiðileyfagjald til ríkissjóðs þetta fiskveiðiár verði 8 milljarðar kr., eða um 17,2% af hreinum hagnaði (EBT) veiða og vinnslu árið 2012 samkvæmt töflunni. Ef notaður er sami hlutfallsútreikningur fyrir komandi fiskveiðiár og reiknað út frá afkomu veiða og vinnslu árið 2013 gæfi það ríkissjóði um 10,4 milljarða kr. í veiðileyfagjald án þess að lögfest væri sérstakt gjald fyrir makríl, um 1,5 milljarðar kr.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10,8 milljörðum kr. í veiðileyfagjald á komandi fiskveiðiári, þ.e. 2015/2016, miðað við sama aflamagn og var notað í áætlun um veiðileyfagjöld á yfirstandandi fiskveiðiári, auk þess sem reiknað er með tæplega 1,5 milljörðum kr. í tekjur af sérstöku álagi á makríl þannig að heildarálagning veiðigjalds yrði 12,3 milljarðar kr. Frá þessari upphæð dragast áðurnefndir tímabundnir afslættir svo og áætlað frítekjumark, þ.e. um 1,4 milljarðar kr. Heildartekjur ríkissjóðs vegna frumvarpsins voru því áætlaðar 10,9 milljarðar kr. á næsta fiskveiðiári, 2015/2016.

Áætluð veiðigjöld fiskveiðiárið 2015/2016, samkvæmt upphaflegri áætlun um magn afla í hverri fisktegund en breyttu gjaldi eins og meiri hlutinn leggur til, hefði orðið 9.543 millj. kr. brúttó, þ.e. án frítekjumarks og án lækkunar vegna skuldaafsláttar. Samkvæmt ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um heildarafla fiskveiðiárið 2015/2016 eru veiðigjöld áætluð 9.604 millj. kr. brúttó.

Minni hlutinn styður hvorki fram komnar breytingartillögur meiri hlutans né frumvarpið í heild sinni enda er það að fullu á ábyrgð meiri hlutans sem að auki hefur unnið breytingartillögur sínar til lækkunar án nokkurrar aðkomu minni hlutans eða nefndarinnar í heild. Ákvörðun og aðferðafræði við álagningu veiðileyfagjalds fyrir komandi þrjú fiskveiðiár eru því alfarið á ábyrgð meiri hlutans.

Minni hlutinn telur brýnt að þar til endanleg niðurstaða um útreikninga liggur fyrir sé rétt að leggja veiðigjöld aðeins á til eins árs. Minni hlutinn leggur til breytingartillögu í þá veru auk breytingartillögu um afslætti líkt og framar er getið. Gerð er grein fyrir breytingartillögum minni hlutans í sérstöku þingskjali sem ég geri nú grein fyrir en breytingartillaga minni hlutans í atvinnuveganefnd er á þessa leið:

„1. 6. mgr. d-liðar 5. gr. orðist svo:

Greiðsluskyldir aðilar greiða veiðigjald sem hér segir:“ — Og þá er lýst hvernig afslættirnir myndast. —

„a. Greiða skal 5,50 kr. á þorskígildiskíló af afla undir 50 tonnum.

b. Af afla frá og með 50 tonnum og allt að 100 tonnum skal veita 50% afslátt.

c. Af afla frá og með 100 tonnum og allt að 200 tonnum skal veita 33,33% afslátt.

d. Af afla frá og með 200 tonnum og allt að 600 tonnum skal veita 25% afslátt.“

— Í þeim afslætti sem þarna er lýst eru sem sagt 500 milljónir. —

„2. 11. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2015/2016 sem hefst 1. september 2015.

Um álagningu og lokainnheimtu veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2013/2014 fer þó samkvæmt ákvæðum laganna óbreyttum.“

Undir þetta nefndarálit og þá breytingartillögu sem hér hefur verið kynnt rita hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem hér stendur, og hv. þm. Kristján L. Möller.