144. löggjafarþing — 143. fundur
 1. júlí 2015.
almennar stjórnmálaumræður.

[19:53]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir og hefur hver þingflokkur tíu mínútur í fyrstu umferð, sex mínútur í annarri og sex mínútur í síðustu umferð.

Röð flokkanna verður þessi í öllum umferðum: Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkur, Björt framtíð og Píratar.

Ræðumenn flokkanna verða:

Fyrir Samfylkinguna tala Helgi Hjörvar, 9. þm. Reykv. s., í fyrstu umferð, í annarri Oddný G. Harðardóttir, 6. þm. Suðurk., og í þeirri þriðju Valgerður Bjarnadóttir, 11. þm. Reykv. n.

Ræðumenn Sjálfstæðisflokksins eru Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrstu umferð, Unnur Brá Konráðsdóttir, 4. þm. Suðurk., í annarri umferð, en í þriðju umferð Brynjar Níelsson, 5. þm. Reykv. n.

Fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð tala Svandís Svavarsdóttir, 5. þm. Reykv. s., í fyrstu umferð, Lilja Rafney Magnúsdóttir, 8. þm. Norðvest., í annarri, en í þriðju umferð Andrés Ingi Jónsson, 8. þm. Reykv. n.

Ræðumenn Framsóknarflokksins eru í fyrstu umferð Þórunn Egilsdóttir, 8. þm. Norðaust., Willum Þór Þórsson, 5. þm. Suðvest., í annarri, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þm. Suðurk., í þriðju umferð.

Fyrir Bjarta framtíð tala í fyrstu umferð Róbert Marshall, 6. þm. Reykv. s., í annarri Brynhildur Pétursdóttir, 10. þm. Norðaust., en í þriðju umferð Óttarr Proppé, 11. þm. Reykv. s.

Ræðumenn Pírata eru Helgi Hrafn Gunnarsson, 10. þm. Reykv. n., í fyrstu umferð, Birgitta Jónsdóttir, 12. þm. Suðvest., í annarri, en í þriðju umferð Jón Þór Ólafsson, 10. þm. Reykv. s.



[19:55]
Helgi Hjörvar (Sf):

Forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum fengið í vöggugjöf mikil forréttindi sem eru náttúra landsins og gríðarlegar auðlindir hennar. Við þurfum ekki nýtt Ísland, við þurfum nýtt lýðræði, því að það voru stjórnmálin sem með getuleysi og spillingu bundu endi á velgengni okkar. Og þó að fólk og fyrirtæki í landinu séu að rísa þá er pólitíkin það ekki.

Stjórnmálastarfið hefur dregist aftur úr um þekkingu, vinnubrögð og gæði. Hér sitjum við á miðju sumri eftir margra mánaða tilgangslitlar deilur um tillögur sem hvort eð er voru dregnar til baka. Mörg mál á vetrinum sýna hve stjórnmálastarfið er orðið lélegt; ramminn, fiskistofumálið, náttúrupassinn, Evrópusambandsbréfið og fleira klúður sem vekur fólki út öllum flokkum aulahroll.

Við þurfum að gera róttækar breytingar til bóta, m.a. tryggja rétt minni hluta og þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu og þrýsta þannig á um að meiri hluti á hverjum tíma virði skoðanir minni hluta og hafi samráð við þjóðina um þróun samfélagsins í stað sífelldra átaka um allt eða ekkert. Lekamálið minnir okkur á hættur ráðherraræðisins og nauðsyn þess að Alþingi, fjölmiðlar og fólk hafi tæki til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Tillögur stjórnlagaráðsins til þess að draga úr ráðherraræði og meiri hluta væru hér mikið framfaraskref.

Við þurfum líka að taka úr sambandi upptrekkta stjórnmálamanninn, þann stjórnmálamann sem svo oft hefur staðið í þessum ræðustól, stjórnmálamanninn sem allur heimurinn hefur gefist upp á, því að hann virðist sífellt vera að segja: Ég hef rétt fyrir mér og hinir eru hálfvitar. Þylur oft upp tölur til að sanna árangur sinn hvernig sem gengur. Allt er honum að þakka í samræmi við ýktar hugmyndir hans um mikilvægi sjálfs sín og áhrif. Við verðum að varast að verða sá stjórnmálamaður því að hann á ekkert erindi við nútímann. Við vitum sem er að þeir sem láta svona eru einsýnir, óvandaðir og ekki traustsins verðir.

Við getum á þessum fallegu sumardögum verið vonglöð því að svo virðist sem þrotlaust starf fólks og fyrirtækja í landinu í sjö ár sé nú að skila árangri. Að okkur, fólki úr öllum flokkum og utan flokka, úr öllum þjóðfélagshópum, öllum stéttum sé nú að takast að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl í sameiningu. Við eigum að vera þakklát fyrir það. En þær miklu fórnir, sem heimilin í landinu, ekki síst fátæk og skuldsett heimili, heimilin sem misstu vinnu, fyrirtæki og sparnað, hafa fært, leggja miklar skyldur á herðar okkar. Við eigum að tryggja það að við gerum betur núna. Til þess þurfum við gagngerar stjórnarfarsbreytingar.

Þeir sem engar breytingar vilja segja gjarnan: Já, en það var ekki stjórnarskráin sem setti okkur á hausinn. Satt er það. En það var stjórnmálakerfið, sem starfar eftir þeirri stjórnarskrá, sem gerði landið gjaldþrota, eitruð tengsl stjórnmála og viðskiptalífs, einkavinavæðing bankanna, skortur á peningastefnu og eftirliti, lausaganga spákaupmanna, allt þetta gerði okkur gjaldþrota. Og að afneita stjórnunarvandanum verður til þess að við gerum ekki nauðsynlegar breytingar til þess að sagan endurtaki sig ekki.

Margt hefur líka minnt á árið 2007 á þessu þingi. Við höfum fengið hér frumvörp um bankabónusa á ný, um myntkörfulán. Pólitísk afskipti af stjórnun fjármálafyrirtækja og tilraunir til þess að ná pólitískum tökum á eignarhlutnum í Landsbankanum — 2007. Seðlabankinn hækkar vexti meðan efnahagsráðherrann lofar skattalækkunum. Menn ræða sölu banka í tengslum við þrotabúin án þess að gera kröfur um dreift eignarhald. Bankarnir fara um og kaupa upp sparisjóði. Kannast einhver við það?

Hlutir ríkisins eru seldir án útboðs. Frændhygli og tengsl stjórnmála og viðskiptalífs valda áhyggjum og enn búum við við sama gjaldmiðil og 2007.

Fólkið og fyrirtækin í landinu, þau skila sínu. En stjórnmálin skila þeim að vinnudegi loknum þrefalt hærri vöxtum en í nágrannalöndum. Ungt fólk á erfitt með að eignast íbúð og fyrirtækin hugsa sig um. Við þurfum gagnsæi og reglur um tengsl stjórnmála og viðskipta. Við þurfum að skera upp allt of dýrt bankakerfi en umfram allt þurfum við að tryggja þá festu og þann aga sem fylgir peningastefnu, mynt og vöxtum eins og gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

En mest var þó stefnan um ójöfnuð árið 2007. Þetta þing hófst á því að hækka matarskatt á almenning en því lýkur á því að lækka veiðigjöld á útgerðina. Það sem gæti hafa orðið sjálfsögð og sanngjörn skuldaleiðrétting varð að ójöfnuði með því að leigjendur og námsmenn voru skildir út undan, og auðmenn fengu einn og hálfan milljarð úr ríkissjóði. Öryrkjar fá 3% hækkun meðan aðrir fá 30%. En allir þeir sem færðu fórnir eiga tilkall til batans siðferðilega séð. Hvenær ætlar ríka fólkið að skilja það að jöfnuður er bestur fyrir alla? Það er einfaldlega best að búa í löndum þar sem frelsi og jöfnuður ríkir. Þar eru lífskjör allra best.

Ójöfnuðurinn hefur líka spillt friði á vinnumarkaði. Samningar við einkareknar læknastofur ollu sundrungu og sköpuðu á endanum neyðarástand í heilbrigðiskerfi okkar. Ríkisstjórnin hafði á endanum ekki önnur ráð en að halda upp á afmæli kosningarréttar kvenna með því að afnema verkfallsrétt stórra kvennastétta. Samt er stærsta réttlætismálið í okkar samfélagi að eyða launamun milli karla og kvenna en ekki að auka hann.

En hvað sem líður mistökum okkar þá var líka margt gott árið 2007. Uppgangur á að vera góður og með gjörbreyttri stjórnmálamenningu með almannahagsmunum ofar sérhagsmununum getum við tryggt öllum mannréttindi og tækifæri. Með því að breyta markaðnum úr vondum herra í góðan þjón getum við aukið samkeppnina, jafnræði og bætt kjörin. Við getum skapað unga fólkinu tryggt húsnæði, mannsæmandi lífskjör, menntun og heilbrigðisþjónustu.

Stjórnmálabarátta almennings hefur skapað gríðarlegar framfarir um allan heim og gert hann að betri stað til þess að búa í. Við skulum ekki láta freka karlinn eyðileggja stjórnmálin fyrir okkur, því að lýðræðið getur gert vonir okkar að veruleika. Stærsta tækifærið er nýr dagur. Látum hann renna upp.



[20:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við lok þingstarfa er margt sem kemur upp í hugann um það hvernig þingstörfin hafa gengið fram að þessu sinni. Ég minnist ávarps forseta Alþingis við setningu þings 1. október 2013 þar sem hann vék að litlu trausti almennings á störfum þingsins og nefndi greinilegan vilja þingmanna til þess að efla það traust. Í þeim orðum fólst hvatning til okkar þingmanna, um leið áskorun um að fylgja þeim vilja eftir í verki. Það þing leið og nú er annað að renna sitt skeið á enda. Það er augljóst að við höfum misst sjónar á því hlutverki okkar og mikilvæga verkefni.

Eins og oft er hefur hvert okkar vafalítið skoðun á því hverju er um að kenna, jafnvel hverjum er um að kenna, að ekki hefur tekist betur til við að þróa þingstörfin og efla traust á þingstörfunum. En best fer á því að menn forðist að setja sjálfan sig í dómarasætið heldur leitist við, í samstarfi við aðra þingmenn, aðra flokka, að laða fram breytingar sem líklegar eru til að skila árangri á þessu sviði. Og án þess að ég geri einmitt það, að setjast í dómarasætið, ætla ég að nefna nokkra þætti sem ég tel ótvírætt að komi að gagni.

Fyrst vil ég nefna þá skoðun mína að það sé mikilvægt að mál lifi innan kjörtímabilsins í stað þess að þau þurfi að leggja fram að nýju á hverju þingi. Þetta er mál sem þarf reyndar að útfæra mjög vel, en þetta er breyting sem ég tel rétt að vinna að. Við þurfum einnig að ljúka endurskoðun á nokkrum þáttum stjórnarskrárinnar. Ég get tekið undir með þeim sem hér tók síðast til máls um að þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá eru hluti þeirra breytinga sem við ættum að vinna að og koma fram með á haustþinginu, kjósa um á Alþingi og binda síðan í stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári.

Það er afar mikilvægt að ræðutími verði afmarkaður betur en nú er á Alþingi. Forseti þingsins hefur bent á mikilvægi nefndastarfsins og að efling þess geti tryggt minni hlutanum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að með öðrum hætti en í löngum ræðum í þingsal. Ég tek mjög undir það sjónarmið. Fleira mætti nefna, svo sem eins og að forseti Alþingis hafi óskorað vald til að stýra þingstörfum í samræmi við starfsáætlun.

Góðir landsmenn. Þótt ég nefni eitt og annað sem við getum breytt í lögum eða reglum til að færa þingstörfin í betra horf og þróun lýðræðisins um leið er það ofar öllu að á Alþingi sé ávallt til staðar virðing fyrir því grundvallarhlutverki sem Alþingi gegnir í stjórnskipan okkar, að engan skugga beri á þann sameiginlega skilning okkar sem erum hér saman komin, á þann sameiginlega skilning okkar sem veljumst hér til starfa, að allir hafi ríka skyldu, án tillits til þess sem segir í lögum eða reglum, til að greiða fyrir framgangi þingstarfanna, haga málflutningi í þinginu með þeim hætti að það endurspegli mikilvægi þeirra mikilvægu starfa sem hér eru unnin og stjórnskipulega stöðu Alþingis, valdamestu stofnunar lýðveldisins. Því miður er það svo oft og tíðum að minnsta tiltrúin virðist berast héðan úr þessum ræðustól. Mesta gagnrýnin á Alþingi kemur oft héðan úr þessum ræðustól. Héðan hafa oft og tíðum harkalegustu orðin fallið um stöðu þingsins. En ég spyr: Hver á að efla virðingu þingsins ef ekki þeir sem hverju sinni hafa boðið sig fram, fengið umboð, tekið sæti á Alþingi, sem bera frá þeim tíma, ásamt með öðrum þeim sem hér sitja hverju sinni, ábyrgð á dagskrá þingsins og framgangi mála í þingsal? Hver annar ætlar að axla meiri ábyrgð en einmitt þetta fólk á hverjum tíma?

Vinna hefur staðið yfir við endurskoðun þingskapa. Nú þegar við stöndum á miðju þessu kjörtímabili tel ég rétt að þingflokkarnir taki því til viðbótar til sérstakrar umræðu sín í milli hvernig við ætlum betur að mæta væntingum landsmanna um að þingstörfin verði markvissari og skili meiri árangri fyrir landsmenn allra. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun koma af fullum heilindum og með ósvikinn vilja til að gera betur að því verki.

Góðir landsmenn. Árangur af störfum ríkisstjórnarinnar er að koma í ljós jafnt og þétt. Kaupmáttur landsmanna hefur vaxið stórum skrefum, verðbólga hefur verið lág, atvinnustig hátt á Íslandi. Við höfum lækkað skatta, afnumið almenn vörugjöld. Nú boðum við lækkanir á tollum. Allt er þetta til þess að styrkja stöðu heimilanna, styrkja stöðu launþeganna í landinu. Skuldaaðgerðir vegna heimilanna hafa komið til framkvæmda, aukið bæði ráðstöfunartekjur fólks og skuldastöðu heimilanna stórlega.

Höfuðstólslækkun fengu tæplega 94.000 einstaklingar í 57.000 fjölskyldum. Skuldir heimilanna, sem voru í hámarki árið 2009 þegar þær fóru í 126% af vergri landsframleiðslu, stefna í um 86%. Það sætir furðu hve margir hafa í þeim tilgangi að því er virðist að koma höggi á ríkisstjórnina gagnrýnt þessar aðgerðir, eins og mér finnst oft og tíðum nánast umhugsunarlaust. Það er eins og þeir hinir sömu hafi tapað algerlega sjónum á mikilvægi þess og þýðingu fyrir heimilin í landinu að þau ráði betur við skuldbindingar sínar. Skuldir heimilanna eru nú lægri en í Bretlandi og að verða áþekkar og í Noregi.

Góðir landsmenn. Þrátt fyrir vaxandi kaupmátt og bjartari horfur hafa kjaradeilur verið áberandi það sem af er þessu ári. Um tíma stefndi í að um helmingur vinnumarkaðarins færi í verkfall, en samningar tókust á almennum markaði og aðkoma stjórnvalda með lækkun skatta, ásamt með öðrum aðgerðum, hjálpaði til við að binda enda á þær deilur.

Ég harma að ekki skuli hafa tekist samkomulag við Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga þrátt fyrir að viðræður stæðu yfir svo vikum skipti og ríkið hafi boðið um 20% hækkanir á þessu og næstu árum. Væntingar um að ríkið gæti samið fram úr og upp fyrir almenna markaðinn, sem þó hafði samið um verulegar hækkanir á næstu árum, voru án innstæðu.

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Alþingi hefur í sjálfu sér ekki falið í sér neinar lausnir. Það hefur ekki verið rætt um margt annað en að það eigi að ganga að öllum kröfum. Gagnrýnin hefur gengið svo langt að meira að segja vilji ríkisstjórnarinnar til að bæta kjör launþega með skattalækkunum, sem mæltust vel fyrir í röðum aðila vinnumarkaðarins, hafa mælst illa fyrir hér í þinginu.

Mér finnst jafnaðarmenn hafa talað sig í heilan hring í kjaramálum. Fram til þessa hafa þeir sagt: Aukinn jöfnuður skiptir öllu. Þegar hann mælist síðan mestur meðal þjóða á Íslandi segja menn að það þurfi að gera enn betur. Hins vegar þegar háskólamenntaðir stíga fram og vilja skilja sig frá öðrum launþegum styðja þeir það líka, á sama hátt og þeir kröfðust þess að samið yrði við lækna þegar þeir fóru fram á tugprósenta hækkanir og voru þó meðal þeirra sem best höfðu kjörin meðal ríkisstarfsmanna. Þeir segjast í öðru orðinu leggja áherslu á aukinn jöfnuð en styðja í hinu orðinu, hvað á maður að segja, allar kröfur allra hópa um betri kjör.

Rétt er að jöfnuður skiptir miklu fyrir samfélagssáttmálann á Íslandi, en hann getur ekki verið ávallt ofar öllu öðru. Stefna okkar sjálfstæðismanna hefur ætíð verið að lyfta öllum frá botninum. Ég tel að þær aðstæður sem hér hafa skapast, þær deilur sem hér hafa verið, sú þróun sem hefur verið undanfarna mánuði, sýni að það er leiðin til árangurs og framfara.

Góðir Íslendingar. Áætlun um afnám hafta hefur fengið góðar viðtökur, bæði innan þings og utan. Áður en þingi lýkur verður frumvarp um stöðugleikaskatt gert að lögum og málið í heild sinni mun valda straumhvörfum fyrir horfur í efnahagsmálum hér á landi. Sá skuggi sem höftin hafa varpað á stöðu efnahagsmála er þegar tekinn að hörfa og það birtir yfir. Betra lánshæfismat hefur verulega fjárhagslega þýðingu fyrir alla Íslendinga. En í vikunni hækkaði einmitt lánshæfiseinkunn ríkisins hjá Moody's. Þar var tekið fram að ástæðan væri kynning á vandlega undirbúnum aðgerðum til að losa fjármagnshöft, væntingar um betri skuldastöðu og aðhald í ríkisfjármálum og betra regluverk til að varðveita fjármálastöðugleika. Þetta er mikilvæg viðurkenning á stöðu íslensks efnahagslífs og ríkisfjármálanna.

Grunnstoðir atvinnulífsins standa vel, ferðamönnum fjölgar, jafnvel umfram bjartsýnustu spár. Eftirspurn eftir hreinni orku fer vaxandi. Fjölbreytni í iðnaðaruppbyggingunni eykst hröðum skrefum. Sjávarútvegurinn stendur vel. Fyrirtækin hafa styrkt sig mjög á undanförnum árum. Staða fiskstofnanna og þróun markaða hefur verið okkur hagstæð. Samkvæmt áætlunum í ríkisfjármálum munu skuldahlutföll ríkisins lækka verulega á næstu árum og hefur þá ekki verið tekið tillit til þeirra möguleika til enn frekari lækkunar skulda sem kunna að opnast við áætlun um afnám fjármagnshafta.

Þegar maður tekur alla þessa þætti saman og við Íslendingar lyftum okkur aðeins upp, lyftum upp höfðinu, lítum í kringum okkur, horfum til þess hvers konar vandamál herja á margar af nágrannaþjóðum okkar, öðrum þjóðum í Evrópu, fylgjumst með fréttunum frá degi til dags núna. Menn segja að sameiginlegur gjaldmiðillinn sé lausn allra vanda. En er það svo um alla Evrópu einmitt í dag? Mér sýnist ekki. Menn skoða atvinnustigið á Íslandi og bera saman við önnur lönd. Stöðu grunnatvinnuveganna. Hagvöxt. Við lifum nú eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið seinni tíma.

Að öllu því samanlögðu er algerlega augljóst að við Íslendingar höfum það í hendi okkar í dag að vinna áfram úr þessari stöðu, halda áfram að bæta lífskjörin fyrir þá sem bágust hafa kjörin, þar er styrkur okkar að vaxa hröðum skrefum um þessar mundir, til þess að gera betur á því sviði eins og fyrir alla aðra Íslendinga. Þess vegna segi ég: Staðan hefur sjaldan verið jafn björt og nú.



[20:17]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Góðir Íslendingar. Svo óvenjulega háttar til að eldhúsdagsumræður að þessu sinni eru í byrjun júlí og hafa aldrei í sögunni farið fram svo seint. Þingið hefur nánast rekið á reiðanum mánuðum saman og stjórnarmeirihlutinn á löngum köflum forustulaus. Forsætisráðherra er á sífelldum flótta frá samskiptum við þingið og samskiptum við þjóðina, fjöldamörg dæmi eru um mál þar sem hann hleypur héðan út eða svarar málefnalegri gagnrýni með skætingi, síðast nú í byrjun vikunnar í umræðum um samninga við kröfuhafa.

Meðan sundrung og óeining hafa einkennt störf ríkisstjórnarinnar hefur stjórnarandstöðunni tekist að standa saman í baráttunni fyrir betra samfélagi. Við í VG höfum lagt áherslu á að skapa forsendur fyrir þeirri samstöðu í fjölmörgum málum. Sundrung og óeining í okkar röðum var ekki til heilla á síðasta kjörtímabili og við vinstri græn höfum lært mikið af þeirri reynslu. Okkur hefur tekist að skapa samstöðu innan okkar eigin raða og ekki síður í stjórnarandstöðunni allri. Niðurstaðan er skýr árangur, ýmis óþurftarmál sem ríkisstjórnin ætlaði að þvinga í gegnum þingið hafa verið stöðvuð og ber þar hæst fordæmalausra breytingartillögu við rammaáætlun þó að dæmin séu miklu fleiri. Þetta tókst af því að við stóðum saman.

En stjórnarandstaðan hefur ekki bara verið samstæð í því að veita andspyrnu, hún hefur líka staðið saman að tillöguflutningi og sýnt með því frumkvæði að mikilvægum breytingum í átt til jafnréttis og lýðræðis. Stjórnarandstaðan stóð saman að breytingum á fjárlagafrumvarpinu með félagslegum áherslum og lagði líka fram tillögu um að setja Evrópusambandsmálin í lýðræðisfarveg. Öll höfum við talað fyrir auknu lýðræði, gagnsæi í jöfnuði, kvenfrelsi og umhverfissjónarmiðum þótt einhver áherslumunur sé á milli flokka.

Í meiri hlutanum í Reykjavík er þetta orðað svona í samstarfssáttmála VG, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata, með leyfi forseta:

„Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð.“

Þetta finnst mér gott leiðarljós, og leiðarljós til að vinna með áfram. Ríkisstjórnin aftur á móti hefur verið verkstjórnarlítil og ekki ráðið við að koma málum áfram. Þar er engin yfirsýn, ekki heildarsýn heldur er oft hver ráðherra settur í þá stöðu að berjast fyrir sínum málum og jafnvel eru dæmi um mál þar sem úthald ráðherrans til þess er ekki einu sinni fyrir hendi. Greinilegt er, og það hefur komið í ljós í vetur, að lítil samstaða er í stjórnarliðinu. Það er ágreiningur á milli stjórnarflokka, þar má nefna bankabónusa og Bankasýslu ríkisins, áherslur við stjórn fiskveiða, húsnæðismál o.fl. Stjórnarflokkarnir hafa ekki einu sinni getað komið sér saman um það hvernig eigi að fagna aldarafmæli íslenska fullveldisins og situr tillaga þar að lútandi föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

En við höfum líka verið ábyrg stjórnarandstaða, andstaða sem hefur sýnt því skilning þegar þörf hefur verið á því að kalla til þingfunda á óvenjulegum tímum eða mæla fyrir stórum málum eins og þeim sem nú eru í efnahags- og viðskiptanefnd og fjalla um samninga við kröfuhafa. Þannig erum við ólík þeirri stjórnarandstöðu sem var hér á síðasta kjörtímabili og setti sig á móti stórum málum og smáum, stundum sama hver þau voru.

Næsta skref okkar í VG er að halda áfram að leggja okkar lóð á þær vogarskálar að skapa samstöðu um nýja stjórnarstefnu byggða á heilindum, jafnrétti og lýðræði. Það þurfum við að gera með því að stöðva ofsagróða örfárra útgerða og flytja þá fjármuni til fólksins í landinu. Það gerum við með því að byggja landspítala sem við getum öll verið stolt af, með því að efla og styðja öll skólastig í stað þess að grafa undan menntakerfinu, reisa því skorður og ýta undir sundrungu. Sem dæmi má nefna að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri, þröngva ólíkum skólum í sama mót og sameina þá með valdboði. Það gerum við með því að skapa samstöðu um breytingar á stjórnarskrá, breytingar sem hefja lýðræðið til vegs, færa vald til fólksins og fá bæði náttúru og auðlindum veglegan sess. Umhverfis- og náttúruverndarmál eiga að vera í forgrunni á ný og kynjajafnrétti bæði í orði og á borði.

Við þurfum að hemja þensluna og nýta efnahagsbatann öllum til heilla, koma til móts við þá hópa sem höllustum fæti standa og útrýma fátækt á Íslandi. Hún á ekki að viðgangast.

Lýðræðið snýst ekki bara um já eða nei, einfaldan aðgang að ákvarðanatöku eða bara um kosningar eða atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum eða hjá þjóðinni allri. Lýðræðið snýst um að hafa rödd allt árið um kring og leiðir til að koma skoðunum og sjónarmiðum á framfæri, vettvang fyrir opna og lifandi umræðu. Lýðræðið varðar öll svið mannlífsins og býr yfir mörgum víddum. Í lýðræðissamfélagi þarf ekki bara kosningarrétt og tíðar atkvæðagreiðslur heldur líka óhindrað aðgengi að hvers konar menntun, öfluga fjölmiðla í almannaþágu og jöfn tækifæri allra þjóðfélagshópa til þátttöku. Allt eru þetta sígild baráttumál vinstri manna og félagshyggjufólks um allan heim. Fólk þarf greiðan aðgang að upplýsingum, góða menntun, fjölmiðla sem gagnrýna valdhafana, varpa skýru ljósi á peningaöflin og endurspegla fjölbreytt mannlíf. Það þarf að ryðja hindrunum úr vegi um samfélagið allt. Aðgengi er forsenda þátttöku og þátttaka er forsenda lýðræðis. Við erum ekki bara að tala um aðgengi að byggingum eða almannarými heldur líka að samtölum, aðgengi að umræðu, aðgengi að þeim vettvangi þar sem ráðum er ráðið, í valdastofnunum, á vinnustöðum, í félagasamtökum, á heimilum og í skólum. Stundum þar túlkun, stundum þarf textun, stundum þarf bætta hljóðvist, stundum þarf sérstakt tillit til fjölbreyttra þjóðfélagshópa. Lýðræðið má nefnilega ekki bara vera fyrir suma, það verður að vera fyrir alla. Þannig ber okkur að skipuleggja samfélagið og ryðja brautir eins og nokkurs er kostur.

Góðir landsmenn. Nú er kjörtímabilið hálfnað og þá fer að styttast í næstu þingkosningar. Nú er tímabært að fylkja liði um sambærilega framtíðarsýn þeirra sem ekki styðja hægri stefnu, gamaldags vinnubrögð, SMS-styrki, auðmannadekur, lagasetningar á kjaradeilur og aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Ísland á betra skilið.

Við í VG og félagar okkar í stjórnarandstöðunni höfum öll miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu. Kerfið er að þrotum komið. Stjórnvöld standa fyrir árásum á kerfið, starfsfólk þess og innviði. Heilbrigðisstarfsfólk sætir lagasetningu á kjarabaráttu sína og ekki er komið til móts við réttlátar kröfur BHM og hjúkrunarfræðinga um laun sem endurspegla menntun og þola samanburð við nágrannalöndin. Fremstu ráðamenn þjóðarinnar togast á um framtíðarsýn, byggingu landspítala er sífellt skotið á frest, starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar býr við skort á heildarstefnumörkun á meðan ríkisstjórnin daðrar við einkavæðingu og aukin notendagjöld í heilbrigðisþjónustunni. Dæmi eru um einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem ekki virðast valda verkefninu og sæta alvarlegri gagnrýni en fá að halda áfram með blessun ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma berast fréttir af eigendum þessara fyrirtækja að fjárfesta í fokdýrum einbýlishúsum. Þetta er að sjálfsögðu óþolandi og gengur þvert á vilja almennings en er um leið algjörlega í anda ríkisstjórnar hægri manna. Um þetta var ekki kosið í síðustu kosningum og þetta þarf að stöðva í þeim næstu, því fyrr, því betra. Þjóðin vill gott og öflugt heilbrigðiskerfi sem opið er öllum, hvernig og hvar sem við stöndum.

Forseti. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi aðhyllist greinilega hugmyndina um einfalt meirihlutaræði í gömlum stíl. Það endurspegla orð hvers ráðherrans á fætur öðrum og má rifja upp orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann sagði hér í ræðu: Meiri hlutinn ræður.

Viðhorf af þessu tagi eru beinlínis skaðleg fyrir lýðræðið. Með þessu er látið eins og valdið sé ósnertanlegt og að gagnrýni eigi ekkert erindi. Menn láta eins og viðhorf þeirra og verk séu hafin yfir umræðu og hafin yfir rökræður. Hugmyndin er að hægt sé að setja minni hlutann til hliðar, takmarka möguleika hans til að koma sinni sýn á framfæri, stytta ræðutímann og hefta og takmarka málfrelsið. Almenningur er hunsaður og menn vísa í kosningar sem óskorað og varanlegt umboð sem ekki megi efast um. Gjarnan er þá talað um að ekki skuli tekið mark á skoðanakönnunum, að mótmæli byggi á misskilningi, að mótmæli séu sett fram á röngum stað eða á röngum tíma. Skemmst er að minnast mótmælanna 17. júní sem forsætisráðherra þjóðarinnar ákvað að taka ekki til sín á nokkurn hátt en reiði og gremja almennings er raunveruleg og mikilvægt er að hlusta eftir henni. Kannski er það okkar mikilvægasta verkefni, að hlusta í stað þess að halda lofræður, upphefja eigin verk, flokka og þjóð.

Góðir Íslendingar. Þessi þingvetur hefur fært okkur öllum mikilvægan lærdóm. Niðurstaðan verður að vera endurmat á vinnubrögðum okkar og verklagi hér á Alþingi. Meira og opnara samtal verður að eiga sér stað og meiri hlutinn verður að leggja af valdbeitingu og yfirgang. Þau mál sem hér hafa valdið flestum árekstrum hafa flestöll verið brotin á bak aftur þannig að afrakstur stjórnarflokkanna er lítill sem enginn. Tuddapólitík og meirihlutaræði verður að vera liðin tíð.

Óheft markaðsöfl og peningahyggja eru hvarvetna til bölvunar, ógna jöfnuði og mannréttindum um allan heim. Þau leiða til styrjalda, neyða fólk til fátæktar, valda hnattrænni hlýnun og spilla umhverfi okkar, náttúru og auðlindum. Við sjáum öll hve erfitt er að vinda ofan af þeim skaða sem þessi öfl valda um allan heim ekki síður en hér á landi og það minnir okkur á að baráttan við auðvaldið er barátta án landamæra. — Góðar stundir.



[20:27]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ágætu Íslendingar. Nú þegar kjörtímabilið er hálfnað er gott að staldra við, taka stöðuna, líta um öxl, skoða það sem áunnist hefur um leið og litið er fram á veginn. Ísland er alveg hreint ágætt en ekki fullkomið frekar en nokkurt annað land á jörðinni. Af dægurmálaumræðunni má þó jafnvel láta hvarfla að sér að hér ríki eymdin ein því að það virðist auðveldara að fjalla um það sem er neikvætt en trúa á það jákvæða þótt raunin sé að hér megi benda á ýmsar jákvæðar staðreyndir sem við sem þjóð getum verið stolt af og glaðst yfir. Það er hlutverk og skylda okkar allra að vinna að því að bæta samfélagið og skila því í betra ástandi til komandi kynslóða. Þetta held ég að sé markmið og hugsjón allra þeirra sem setjast inn í þennan sal. Eðlilega greinir okkur þó á um leiðir.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru af kjörtímabilinu hefur verið unnið ötullega að þessu markmiði. Eitt af því sem hvað mest gildi hefur þegar litið er til undanfarinna ára er að tekist hefur að koma á stöðugleika í efnahagsmálum eftir erfið áföll. Það er mesta kjarabót allra, og þá sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu, að verðbólga haldist stöðug og í lágmarki og að kaupmáttur rísi jafnt og þétt. Á undanförnum tveimur árum hafa þessi markmið náðst. Það er góður árangur sem allt samfélagið nýtur góðs af. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið, atvinnuleysi hefur minnkað og hagur atvinnulífsins vænkast svo einhver dæmi séu nefnd.

Í samhengi við skynsamlega stefnu í ríkisfjármálum hefur hinn forni fjandi launafólks, verðbólgan, hopað og þarf nú að leita um tíu ár aftur í tímann til að finna sambærilegt stöðugleikatímabil. Þá hafa ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðað að því að auka ráðstöfunartekjur landsmanna. Sem bæði eykur möguleika á sparnaði og bætir aðgang að vörum og þjónustu.

Það er sérstakt fagnaðarefni að leiðréttingin, ein stærsta efnahagsaðgerð síðari ára, er nú komin til framkvæmda. Nýleg skýrsla fjármálaráðuneytisins um framkvæmd hennar sýnir að þar hefur allt staðið sem stafur á bók frá því að aðgerðin var kynnt og er líklega leitun að aðgerð í íslenskri stjórnmálasögu þar sem staðið hefur verið við allar fjárhæðir og tímafresti.

Þá er ánægjulegt að sjá í skýrslu fjármálaráðherra staðfestingu á því sem fram kom í kynningu aðgerðanna, að þeir sem lægstar hafa tekjurnar fá hlutfallslega mest úr aðgerðunum og munar þar miklu gagnvart hinum tekjuhærri. Með leiðréttingunni hafa heildarskuldir heimilanna lækkað um 40 prósentustig á síðustu fjórum árum miðað við landsframleiðslu ársins 2014. Það hlýtur að muna um það.

Og nú hefur áætlun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um afnám fjármagnshafta loks litið dagsins ljós, áætlun sem hefur verið fagnað af flestum hér heima og nýtur trúverðugleika á erlendri grundu sem staðfest er með til dæmis hækkun Moody's á lánshæfi Íslands. Farsæld framkvæmd þeirrar áætlunar gefur fyrirheit um betri aðstæður hér á landi fyrir almenning, fyrirtæki og fjárfesta og mun, ef vel tekst til, gefa færi á enn meiri uppbyggingu en nú þegar er orðin.

Góðir landsmenn. Veturinn hefur verið um margt strembinn og augljóst að mikil uppsöfnuð þreyta og óþol er í fólki eftir langvarandi álag. Væntingar manna um batnandi hag eru miklar. Hlutirnir ganga kannski ekki eins hratt og margir vona en við höfum sem betur fer séð, bæði á hagtölum hér innan lands og í alþjóðlegum samanburði, að hagur okkar vænkast hægt og sígandi. Miklu hefur verið áorkað þó að mögulega hafi væntingar verið um meira.

Við viljum byggja landið upp til framtíðar. Til þess þarf að hafa skynsemi í öndvegi við allar ákvarðanir. Undangengin reynsla okkar af hinu svokallaða íslenska efnahagsundri minnir á að í þeim málum er bólumyndun og flas ekki til fagnaðar. Sígandi lukka er best. Mestu skiptir að fólk fái viðspyrnu og kraft til að ná sér á strik. Slíkt verður aðeins til með stöðugleika í efnahagslífinu þannig að fólk geti treyst því að dagurinn á morgun verði svipaður og dagurinn í dag, að ekki sé von á kollsteypu að óvörum. Markmið stjórnvalda er að veita þessa viðspyrnu svo landsmenn fái frið til að byggja upp líf sitt til framtíðar. Það er auðvitað margt óunnið enda þótt mikill árangur hafi náðst.

Góðir landsmenn. Við sem þjóð höfum verið svo lánsöm að hafa náð tökum á sjávarútvegi landsins. Það er ólíkt mörgum öðrum þjóðum í kringum okkur. Fiskstofnar eru sjálfbærir og íslenskur fiskur er eftirsóttur á erlendum markaði. Árangur íslensks sjávarútvegs byggist á mikilli eljusemi fólks sem starfar í greininni og öflugri virðiskeðju. Það er einfaldlega ekki nóg að eiga skip til að búa til verðmæti. Það þarf að kunna að veiða fiskinn, það þarf að kunna að verka fiskinn og það þar að kunna að selja fiskinn. Virðiskeðjan nær því allt frá veiðum til öflugrar markaðssetningar og sölu á erlenda markaði. Það getur verið ágætt að horfa á hlutina í örlítið stærra samhengi en við eigum til með að gera dagsdaglega. Þar getum við séð að íslenskur sjávarútvegur er eini sjávarútvegurinn innan OECD sem er ekki ríkisstyrktur. Sjávarútvegurinn hérlendis greiðir nefnilega háar upphæðir til ríkisins en er ekki á framfæri hins opinbera eins og víða finnst dæmi um.

Það er ekki, og verður aldrei, einkamál sjávarútvegsins sjálfs að honum vegni vel til lengri eða skemmri tíma. Slíkt verkefni er sameiginlegt markmið atvinnugreinarinnar sjálfrar og stjórnvalda hverju sinni. Nauðsynlegt er að skapa umhverfi sem hvetur til fjárfestinga, nýsköpunar og hagkvæmni í greininni sjálfri. Vissulega getum við alltaf gert betur og það reynum við svo sannarlega að gera áfram.

Það er hins vegar alveg ljóst að við munum ekki ná neinum árangri með að kollvarpa núverandi kerfi í heild sinni, heldur verður það gert í litlum og markvissum skrefum líkt og stefnt var að í því makrílfrumvarpi sem lá fyrir þinginu í vor. Um frumvarpið náðist ekki sátt hér innan húss þrátt fyrir að þar hafi verið mætt öllum þeim kröfum sem fram komu, bæði innan þings og utan. Það er umhugsunarvert að flokkar geti ekki stutt frumvörp þar sem komið er til móts við sjónarmið þeirra á sama tíma og flokksmenn þeirra kvarta iðulega undan samráðsleysi. Sem dæmi má nefna afstöðu eins flokks sem fór eftir því hvort til svara var formaður eða varaformaður. Ástæðan fyrir hringlandahættinum virðist fyrst og fremst sú að nota óvissu um skipulag veiðanna sem barefli í pólitískum slag. Slík afstaða er ábyrgðarlaus og ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis.

Ágætu Íslendingar. Það er grundvallaratriði að við Íslendingar viljum skapa aðstæður fyrir blómlega byggð um allt land. Til þess þarf að huga að mörgu, bæði umgjörð og innviðum. Samgöngur og aðgangur að þjónustu og netsambandi eru þar okkar mikilvægustu verkefni. Vinna er nú hafin við undirbúning ljósleiðaratengingar allra heimila á landinu og tekin hafa verið mikilvæg skref í átt að jöfnun húshitunarkostnaðar um allt land. Á næstu þremur árum verður 112 milljörðum varið í samgönguverkefni og strax í ár verður 1.800 milljónum varið til brýnna verkefna í vegagerð.

Þótt samgöngur séu vissulega mikilvægur þáttur í samfélaginu krefst nútíminn þess að fólk geti litið á það sem raunhæfan möguleika að starfa hvar sem er á landinu og verið í góðu fjarskiptasambandi. Það vitum við öll sem búum á landsbyggðinni að jafnrétti verður að nást í þessum málum. Það er mikilvægt fjölskyldunnar vegna, heimilanna, atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Innviðir verða að vera traustir svo byggja megi áfram blómlega byggð um land allt, til sjávar og sveita.

Örugg netsamband skýtur stoðum undir það að skólar geti haft meiri samvinnu, fundir geti verið haldnir án kostnaðarsamra ferðalaga, bændur og aðrir atvinnurekendur geti sinnt vinnu sinni og skyldum. Nefna má ótal margt sem hangir á spýtunni, en hér vil ég líka nefna fjarheilbrigðisþjónustu, mál sem var til umfjöllunar á Alþingi í dag.

Við þurfum sterka innviði í samfélagið. Við lifum í landi sem er ríkt af auðlindum og okkur ber að nýta þær af hófsemd og sjálfbærni. Við erum með umhverfisvæna orkuframleiðslu, nýsköpunarfyrirtæki blómstra nú sem aldrei fyrr, sjávarútvegur er öflugur og ferðaþjónusta vex. Þetta aflar okkur mikilla tekna sem geta nýst til að skapa viðvarandi velferð í landi þar sem við erum öll sammála um að enginn eigi að þurfa að líða skort. Áframhaldandi ábyrgð í efnahagsmálum og atvinnuuppbyggingu um land allt er lykillinn í því verkefni.

Góðir Íslendingar. Við höfum sýnt að við getum tekist á við stór verkefni. Enn er verk að vinna, tækifærin eru til staðar og okkur ber að nýta þau af ábyrgð. Íslenskt samfélag er samvinnuverkefni. Vinnum saman.



[20:37]
Róbert Marshall (Bf):

Góðir Íslendingar. Vigdís Finnbogadóttir forseti var á dögunum heiðruð með eftirminnilegum hætti. Síðast sá ég Vigdísi í Melabúðinni þar sem hún var að gefa ungum manni sem vinnur í kjötborðinu fyrirmæli um fiskinn sem hún var að kaupa. Þetta var konan sem sagði: „Nei, það á ekki að kjósa mig af því ég er kona, það á að kjósa mig af því ég er maður og innan orðsins maður er bæði karl og kona“. Það er varla hægt að orða þessa hugsun betur. Þetta var skoðun Vigdísar og svo var hún forseti í 16 ár. Í samfélagi okkar verða menn forsetar og svo aftur venjulegt fólk í Melabúðinni. Í samfélagi okkar fer vægi skoðunar, sé hún ekki byggð á meiðandi fordómum, ekki eftir því hver hefur hana. Skoðanir okkar á eðli og inntaki forsetaembættisins hafa jafnt vægi; mín skoðun, Vigdísar og unga mannsins í kjötborðinu í Melabúðinni. Samt er það svo að núverandi forseti er allt öðruvísi forseti en Vigdís var. Embættið er allt annað.

Hvernig má það vera í samfélagi okkar þar sem skoðanir og atkvæði eiga að hafa jafnt vægi að einn maður geti breytt einni mikilvægustu valdastofnun samfélagsins eftir sínu höfði? Og sem meira er, haft ákvörðunarrétt byggðan á geðþótta og ólíkri röksemdafærslu á því hvaða málum þjóðin fær að segja álit sitt á, enda er það svo að það er á köflum erfitt að sitja þegjandi hér í salnum undir ræðum Ólafs Ragnars Grímssonar. Manni finnst stundum að þingmenn ættu að geta farið í andsvör. Ef forsetinn ætlar að vera pólitískur á hann að lúta lögmálum stjórnmálalegrar rökræðu þar sem sjónarmiðum er andmælt með efnislegum rökum. En bendir þetta ótrúlega misræmi sem er á milli túlkunar Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar á eðli og inntaki forsetaembættisins ekki til þess að eitthvað sé að í grunnlögum samfélags okkar, að þau þurfi að skýra? Það finnst mér.

Þess vegna, og af öðrum mikilvægum ástæðum, höfum við í Bjartri framtíð verið áhugafólk um stjórnarskrárbreytingar, um nýja stjórnarskrá. Við vorum þátttakendur í löggjöf og atburðarás á síðasta kjörtímabili sem leiddi af sér mikla áfangasigra í stjórnarskrármálinu, þótt það sé langt frá í höfn. Við lögðum ásamt öðrum fram hugmynd sem fól í sér að hægt verður með einfaldari hætti en áður að framkvæma stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum á næsta ári. Það var til að bjarga ferlinu og líka til að tryggja jafnvægi milli ólíkra skoðana. Það þarf nefnilega einnig að taka tillit til þeirra sem vilja litlar breytingar á stjórnarskrá. Þeir sem telja það mikil svik að ekki skyldi vera lokið við nýja stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili verða að horfa til þess hvernig núverandi þingmeirihluti hefði afgreitt þær breytingar. Hann hefði aldrei samþykkt þær. Þeir sem vilja nýta meirihlutaræði til að knýja í gegn nýja grunnlöggjöf í landinu geta ekki í sama orðinu talað um sig sem fulltrúa nýrra tíma í íslenskri pólitík, því að þar birtist sú gamaldags pólitísk sem einkennt hefur þingstörfin síðustu vikur og mánuði og felst í því að tala helst ekki við minni hlutann fyrr en í lengstu lög. „Meiri hlutinn ræður“ er sú pólitík kölluð og hún er óraveg frá þeirri hugsun að skoðun hvers og eins skipti jafn miklu máli. Í meirihlutavaldinu felst getan til að setja dagskrána, raða niður í stóla, skipa ríkisstjórn, en það núllar ekki út skoðanir minni hlutans. Það er af og frá. Með valdinu fylgir sú ábyrgð að taka tillit til ólíkra sjónarmiða.

Það er sögulegt tækifæri sem við fáum á næsta ári til að marka stefnuna, að velja forseta og breyta stjórnarskránni. Úrslitastund að mörgu leyti. Þá rennur upp dagur þar sem við getum ákveðið hvers lags framtíð við viljum. Þá skiptir máli að valkostirnir séu alvöru, að stjórnarskrárbreytingarnar sem hægt verður að kjósa um marki ekki endalok ferlis heldur upphaf nýrrar endurreisnar þar sem grunnlögin og valdastofnanirnar endurspegla fjölbreytileika samfélags okkar og setja stefnuna, að nýr forseti styðji við þá þróun og sem þátttakandi í breytingunum en ekki þröskuldur.

Það er á persónulegri ábyrgð okkar allra að ákveða framtíðina. Það er atkvæði þitt sem horfir á þessa útsendingu sem leggur grunninn að samfélagi okkar. Það ert þú sem sérð þetta á netinu sem markar stefnuna, þú sem dreifir þessu á Facebook sem ákveður að þín skoðun skipti jafn miklu máli og skoðanir þingmanna, ráðherra og forsetans. Það eruð þið sem eruð að hlusta sem kusuð þetta þing. Ef þið eruð óánægð verðið þið að kjósa betur næst, vanda valið og ekki láta glepjast af loforðaflaumi. Gerist pólitísk. Lesið stefnur. Gaumgæfið orð. Það kostar vinnu að taka þátt í lýðræðinu.

Hvaða rugl var þessi leiðrétting? 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu leiðréttingu. Þvílíkt bruðl. Þetta er mín skoðun. Hún er ekki dónaskapur. Hún er jafn rétthá skoðunum annarra. Það er krefjandi áskorun að tala um pólitík án þess að rífast. Við Íslendingar þurfum svolítið að vanda okkur í því. Það er oft vondur mórall hérna og við þurfum að laga það. Hvernig? Ekki með því að tala minna saman heldur með því að tala meira saman. Það er pólitík okkar í Bjartri framtíð.

Hér í þinginu hefur allt verið í steik síðustu vikur. Ég fullyrði að hlutirnir væru ekki svona ef Björt framtíð væri við völd. Við mundum ekki stjórna svona.

Ítrekað hafa stór deilumál verið lögð hér fram án nokkurs samráðs eða samtals og afleiðingin er pattstaða. Stjórnarandstaðan hefur sem betur fer getu til þess að stöðva mál og afstýra slysum og hefur sýnt það, síðast í rammaáætlun, að hún hefur burði og samstöðuaflið til þess að gera það.

Í dag greiddum við atkvæði um færslu Hvammsvirkjunar í Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk. Um þá afgreiðslu eru skiptar skoðanir í hópi þingmanna Bjartrar framtíðar. Sumir með og aðrir, eins og ég sjálfur, á móti. Það sem mest er um vert er að tillagan hefur hlotið umfjöllun verkefnisstjórnar um rammaáætlun og hún mælt með flutningi hennar milli flokka, sem er meira en sagt verður um aðra kosti sem meiri hlutinn í þinginu vildi flytja í nýtingu. Þótt ég vilji ekki breyta landslagi og farvegi Þjórsár meira en orðið er og sé ekki sannfærður um afleiðingarnar á vistkerfi Þjórsár get ég ekki annað sagt en að málið hafi verið metið og skoðað í samræmi við reglur, þær reglur sem við höfum ákveðið. Afstaðan til virkjunarkosta hefur orðið að skurðarási umhverfismála á Íslandi, skiptir máli en ætti ekki eingöngu að skipa fólki í bása; umhverfisverndarsinna eða ekki.

Hugmyndir okkar í Bjartri framtíð um umhverfismál einkennast af áherslum á vistvænar samgöngur og nálæga þjónustu borgarþorpsins þar sem gangandi og hjólandi umferð er gert hátt undir höfði. Umhverfismál eru að okkar mati skipulagsmál, lífsstíls- og neytendamál. Þau eru lýðheilsa og þau eru samfélagslega og viðskiptalega hagkvæm. Þau eru hvorki vinstri né hægri. Þau eru alltumlykjandi og byggja, líkt og skoðanir okkar á samfélagsmálum, jafnt á ábyrgð einstaklinga sem og fyrirtækja, sveitarfélaga og samfélagsins alls. Í borgarþorpinu verður hverfið þitt eins og lítill bær úti á landi og íbúarnir líta á það sem skyldu sína að beina viðskiptum sínum þangað, kjósa með veskinu, því að annars fer þessi þjónusta úr hverfinu. Við viljum nýta og fara vel með, stöðva sóun. Bættar samgöngur, þéttari og sterkari byggðarkjarnar í öllum landshlutum eru umhverfismál. Persónuleg ábyrgð okkar allra skiptir máli. Það sem við gerum mótar umhverfi okkar. Við getum borið ábyrgð á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og neysluvenjum okkar. Við getum horft á úrgang sem dýrmæta auðlind. Við getum fullnýtt afurðir sem falla til við vinnslu matvæla á sjó og landi. Við getum bætt flokkun á heimilisúrgangi. Við ættum að koma á samræmdu flokkunarkerfi á landsvísu. Við getum eflt lýðheilsu og hvatt fólk til orkusparandi ferðamáta og vistvænna innkaupa. Við getum beitt sjálfbærum nálgunum til að bæta og nýta betur umhverfi borga og bæja. Við getum eflt umhverfisvitund. Við verðum að hugsa um vatnið okkar, loftið og moldina. Afstaða okkar til virkjana ræður því ekki hvort við erum græn eða ekki, það er persónuleg ábyrgð okkar að vera græn og umhverfisvæn.

Björt framtíð er nýr flokkur. Kannski á það fyrir okkur að liggja að verða eins og gömlu flokkarnir. Eitt er og verður öðruvísi, og virðist kannski ekki vera stórt atriði, en í Bjartri framtíð er ekki staðið upp og klappað þegar formenn hafa flutt ræðu. Sá vandræðalegi kjánahrollur er sniðgenginn af ásetningi, ekki vegna þess að formenn okkar flytji ekki stórkostlegar ræður, það gera þeir, heldur vegna þess að skoðanir allra eru jafn merkilegar. — Góðar stundir.



[20:47]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Jæja, virðulegi forseti, nú er kominn sá dagur hveim við lýsum liðnu Alþingi á einhverjum örfáum mínútum. Það er svo sem ágæt þjálfun í því að gera óþolandi langa sögu óþolandi stutta, en í því skyni að fyrirbyggja ásakanir um málþóf skal ég bara vera snöggur að því að gorta.

Píratar hafa lagt fram frumvarp um afnám gagnageymdar, frumvarp um skilyrði símahlustunar og aðgangs að fjarskiptaupplýsingum, frumvarp um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög, frumvarp um líftíma þingmála á Alþingi — merkilegra mál en margir gera sér grein fyrir — frumvarp um frestun nauðungarsölu, frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra, frumvarp um útleigu veiðiréttar og sölu veiðileyfa, frumvarp um hagsmunaárekstra alþingismanna, frumvarp um skilyrði fyrir símahlustun lögreglunnar (þ.e. skilyrði símahlustunar og sambærilegra úrræða), frumvarp um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana, frumvarp um afnám banns við guðlasti. Þingsályktunartillögur um stofnun samþykkisskrár, fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum — annað mál sem virðist ekki það stórtækt en er mjög mikilvægt og gott — sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu, fordæming pyndinga leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem maður hefði haldið að ætti auðvelda leið hérna í gegn, jafnt aðgengi að internetinu, sem allir ættu að vera sammála um, hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda og síðast en ekki síst, besta þingmál í heimi, endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Þetta er síðan fyrir utan ýmist andstöðu eða stuðning við ýmis önnur mál, sérstakar umræður, fyrirspurnir og þess háttar þingstúss. Nóg af gorti.

Fyrst vil ég nefna að fólk utan þingflokksins á þakkir skilið fyrir aðstoð við gerð þessara mála. Ég veit svo sem ekki hvað fólki finnst um þessi afköst en ég verð þó að segja að síðustu mánuði hefur ótrúlegur tími og vinna farið til spillis. Annar hver dagur er eins og lokasena í þætti af „Game of Thrones“, maður veit það eitt að líklega er einhver fullkomin skelfing í þann mund að eiga sér stað. Í rauninni er ekki annar dagskrárliður en fundarstjórn forseta til að ræða slík mál ítarlega og undir þeim kringumstæðum sem við höfum búið við undanfarna mánuði er eðlilegt að um fundarstjórn forseta séu fluttar margar ræður enda hver þeirra aðeins ein mínúta og heyrir til undantekninga að á þær sé hlustað. Þó er einnig mjög margt gagnrýnivert við störf þingsins, virðulegi forseti. Í sjálfu sér er það ekki endilega fundarstjórn sitjandi forseta hverju sinni sem hefur verið hvað gagnrýniverðust þótt hún hafi vissulega lengi verið gagnrýniverð á köflum, heldur fyrst og fremst hvernig fundarstjórn þróast með tímanum út frá gildandi þingsköpum, stjórnarskrá og þeirri staðreynd að forseti þingsins er einnig þingmaður ríkisstjórnarflokks með tilheyrandi pólitískum afleiðingum.

Með þeim orðum tel ég mig hvorki draga úr virðingu né innræti virðulegs forseta heldur bendi ég á staðreynd. Þyki hún óþægileg ætti það að segja okkur eitthvað. Þó ætla ég ekki að drag úr því að hér tíðkast einnig svokallað málþóf, sem er reyndar uppnefni og auðvelt að rugla saman við eðlilega og langa umræðu. Það væri vanvirðing við dómgreind kjósenda að láta eins og stjórnarandstaðan stundi ekki málþóf. Píratar hafa tekið þátt í því eins og okkur er reyndar skylt að gera ef við ætlum að vinna að þeirri stefnumótun sem við erum kjörin til að vinna að. Eins furðulega og það kann að hljóma er það beinlínis lýðræðisleg skylda minnihlutaflokks að stunda málþóf. Ef fólki hér inni þykir það fráleitt er það í góðum félagsskap því að það þykir mér og okkur í Pírötum einnig. Það breytir því ekki að þetta er það eina sem við höfum, svo gef oss miskunnsamara vopn og vér skulum því með glöðu geði heldur beita.

Það liggur í augum uppi að ef meiri hlutinn á alltaf að ráða í skjóli eins eða tveggja bókstafa frá kjósendum á fjögurra ára fresti getur minni hlutinn, sem þó vegur um 40% þingsins, alveg eins farið heim til sín eftir kosningar. Væri það málefnalegt? Væri það lýðræðislegt?

Í fyrstu ræðu minni á hinu háa Alþingi sagði ég að við mundum sigra með því að sannfæra. Ég trúði því þá og hluti af mér trúir því enn þá. En deilurnar sem þrífast hér á Alþingi við þessi þingsköp og þessa stjórnarskrá eru ekki til þess að vekja manni von um að slíkt sé í boði í þeim mæli sem ætti að vera. Sú von er farin að minna á draumóra. En þá segi ég eins og hæstvirtur tónlistarmaður John Lennon: Það má kalla mig draumóramann en ég er ekki sá eini.

Við gætum alveg farið í þann leik að bera saman umræður um fundarstjórn forseta á þessu kjörtímabili við endalausar fimm mínútna ræður sitjandi stjórnarliða á seinasta kjörtímabili, en sá leikur væri til einskis. Málþóf er raunverulegt, kerfislægt vandamál sem ég veit ekki til þess að Píratar hafi nokkurn tímann talið sig yfir hafna. Ekkert okkar er yfir það hafið, ekki þegar vantraustið ristir svo miklu dýpra en ágreiningur um einstaka málefni.

Forseti. Við verðum að horfast í augu við að við treystum ekki hvert öðru. Það þarf að höggva á hnútinn og enginn er til þess betur fallinn en þjóðin sjálf. En vel á minnst, virðulegi forseti, lausnin á þeim vandamálum sem rísa vegna valdþjöppunar og ofurvalds er einföld og augljós: meiri aðkoma almennings milli kosninga.

Ef við ætlum, minni hluti og meiri hluti, að láta hvort við hitt eins og barn í frekjukasti, eins og við gerum, getum við líka látið eins og fleiri séu á staðnum, ýmist að þrífa eftir okkur, mata okkur eða úti að vinna hörðum höndum fyrir okkur, yfirvald sem er stærra og sterkara en við sjálf og fullfært um að útkljá deilur okkar, íslenska þjóðin.

Hver veit nema hún mundi hlusta meira á okkur ef við hlustuðum meira á hana? Ég skil mætavel að fólk treysti okkur illa fyrir málefnum sínum ef við treystum ekki því sjálfu fyrir þeim heldur.

En ljúkum þessu nú á jákvæðum nótum, virðulegi forseti, eins og hæstvirtur tónlistarmaður Jónas Sigurðsson söng með virðulegri hljómsveit, Ritvélum framtíðarinnar, með leyfi forseta:

Hleypið mér út úr þessu partýi,

hér er allt í steik.

Hleypið mér út úr þessum flókna látbragðsleik

sem endar hvergi eins og Góði dátinn Svejk.

Hleypið mér út með rakettureyk.

Með rakettureyk.

Það er ekki auðvelt að vera fastur í þessu paranormalíseraða partýi.

Við erum eins og hótel og gestir okkar eru hugmyndir allra hinna.

Einar fara og aðrar koma síðar í dag

og alltaf bætast nýjar ranghugmyndir í skörðin.

Við rembumst við að lána pening

fyrir aðra

til að keyra áfram neysluna.

Og til að kaupa nýja hluti

fyrir aðra

til ýta undir þensluna.

Svo þessi endalausa vinna

fyrir aðra

til að borga fyrir veisluna.

Og aldrei kemurðu upp úr til að anda.

Nú stendur einhver upp í salnum og segir:

„En lífið er bara svo flókið!“

Ég segi nei!

Nú hringir einhver inn í þáttinn og segir:

„Maður verður að vera raunsær.“

Ég segi nei!

„Maður verður að passa sig að gera ekki mistök til að falla ekki í áliti hinna.“

Nei!

Ég hef fengið nóg af þessu rugli.

Tökum þetta upp á annað plan.



[20:54]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Á okkur jafnaðarmönnum brennur að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun. Við viljum styrkja velferðarkerfið okkar og jafna kjör fólksins í landinu. Ástandið í heilbrigðiskerfinu er grafalvarlegt. Við stöndum frammi fyrir því að á fjórða hundrað heilbrigðisstarfsmanna hafa sagt upp störfum úti um allt land en flestir á Landspítalanum. Erfiðleikar vegna skorts á heilbrigðisstarfsmönnum blasa við. Lög á kjaradeilur og hótanir um niðurskurð eru ekki til að bæta ástandið.

Í ríkisfjármálaáætlun sem meiri hluti þingsins samþykkti í gær segir að ef kaupmáttaraukning launa ríkisstarfsmanna fari yfir 2% á ári verði niðurskurður í starfsmannafjölda eða vinnumagni til að mæta þeim kostnaði. Engar líkur eru á að þessi fyrirætlan stjórnvalda muni auka starfsánægju heilbrigðisstarfsmanna, árangur í starfi eða stuðla að minni starfsmannaveltu. Nær væri að stjórnvöld fyndu leiðir til þess að sætta sjónarmið og meta mikilvægi starfanna fyrir samfélagið og að þau áttuðu sig á að aðgerðir, og aðgerðaleysi þeirra eftir atvikum, eru lífshættulegar. Þetta ástand grefur undan heilbrigðiskerfinu, einni mikilvægustu stoð samfélagsins.

Og það er ástæða til að hafa áhyggjur því að heilbrigðiskerfið kom ekki vel undan góðærinu svokallaða fyrir hrun þegar tækifæri voru til uppbyggingar. Niðurskurður í kjölfarið varð því sársaukafyllri en hann hefði þurft að verða. Á sama tíma hefur sjúklingum fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Allt þetta hefur aukið álagið á heilbrigðisstarfsfólkið okkar og það á betra skilið en að fá hótanir frá ríkisstjórninni um enn frekara vinnuálag í stað kjarabóta.

Spyrja má hvort verið sé að svelta heilbrigðiskerfið til að ýta undir einkarekstur en áform ríkisstjórnarinnar um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu munu vafalítið veikja heilbrigðiskerfið, einkum sjúkrahúsin. Áformin eru í andstöðu við þjóðarvilja því að þjóðin vill reka heilbrigðiskerfi sjálf og tryggja öllum aðgang án tillits til efnahags.

Sömu sögu er að segja í menntakerfinu okkar. Í stað þess að auka framlög til framhaldsskólanna í kjölfar kjarabóta framhaldsskólakennara ákvað hægri stjórnin að setja fjöldatakmarkanir á bóknámsbrautir þannig að þeir sem hafa náð 25 ára aldri eiga ekki lengur möguleika á því að ljúka bóknámi í heimabyggð. Þess í stað skulu þeir sækja einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði og kostnaður vegna námsins margfaldast.

Með fullri virðingu fyrir því starfi sem þar er unnið munu ekki allir geta flust búferlum landshorna á milli til að ljúka framhaldsskólanámi með þessum skilyrðum. Gott aðgengi að skólum hefur jákvæð áhrif á menntunarstig þjóðarinnar og þar með framleiðni og hagvöxt. Auk þess styrkir menntun félagslega stöðu fólks. Hindranir sem settar eru í veg þeirra sem vilja sækja sér menntun er því arfavitlaus aðgerð og engum jafnaðarmanni gæti dottið slíkt í hug enda opnuðu jafnaðarmenn framhaldsskólana fyrir fólki í atvinnuleit þegar atvinnuleysið var sem mest hér á síðasta kjörtímabili.

Ef stefna ríkisstjórnarinnar fær að festast í sessi erum við, þessi fámenna þjóð, komin með þrefalt kerfi bóknáms á framhaldsskólastigi sem allt er rekið með ríkisframlögum, á vegum opinberra framhaldsskóla, einkaskóla og símenntunarmiðstöðva. Afleiðingarnar verða því miður veikara skólakerfi þegar kröftum er dreift með þessum hætti og fátæklegra námsframboð. Framhaldsskólum úti um land hlýtur að fækka og þar með versnar aðgengi allra sem sækjast eftir framhaldsskólanámi, líka ungmenna á aldrinum 16–19 ára. Þetta finnst okkur jafnaðarmönnum ekki góð byggðastefna eða framtíðarsýn.

Helstu hagfræðingar heims hafa lýst yfir skipbroti frjálshyggjustefnunnar og brauðmolakenningar hennar og hvetja nú þjóðir til að stuðla að auknum jöfnuði. Með margþættum rannsóknum á lífskjörum um allan heim hafa fræðimenn sýnt fram á að samfélög sem byggð eru upp í anda jafnaðarmanna eru bestu samfélögin. Þar er best hugað að uppvexti barna og hlúð að þörfum þeirra sem eldri eru. Í samfélögum þar sem jöfnuður er mestur er fólk almennt heilsuhraustara og sáttara við lífið og þar er glæpatíðni lægst. Það eru samfélög sem sannarlega eru þess virði að berjast fyrir.

Það var draumur okkar jafnaðarmanna að sá árangur sem náðist við endurreisn efnahags og samfélags á síðasta kjörtímabili yrði nýttur til að auka jöfnuð enn frekar og til að stuðla að jafnrétti og réttlæti í samfélaginu. Áhrifamestu tækin til jöfnunar eru þrepaskipt tekjuskattskerfi þar sem allir sem það geta leggja sanngjarnan hlut til samfélagsins, líka þeir sem hafa mest handanna á milli, sem og góðar barnabætur til að jafna stöðu barnafólks, húsnæðisbætur og bætur almannatrygginga sem halda í við launaþróun og tryggja stöðu þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur. Og aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og skólum óháð efnahag ásamt því að innheimta sanngjarnar tekjur af auðlindum þjóðarinnar til að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og velferð.

Kæru landsmenn. Eftir efnahagsáfallið 2008 var efnt til þjóðfundar og umræðu meðal þjóðarinnar um þau gildi sem endurreisa ætti samfélagið á og um endurskoðun á stjórnarskrá. Meginstef í allri þeirri vinnu var ákall eftir jöfnuði og jöfnu aðgengi allra að menntun og heilbrigðisþjónustu. Það er og hefur alltaf verið markmið okkar jafnaðarmanna. — Góðar stundir.



[21:00]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Forseti. Góðir Íslendingar. Það eru forréttindi að vera treyst af kjósendum fyrir því verkefni að sitja á Alþingi Íslendinga. Hér tökumst við á um hugmyndir og tökum ákvarðanir sem móta samfélagið okkar til framtíðar.

Ég get ekki staðið hér í kvöld án þess að minnast látins félaga og vinar, Péturs H. Blöndals, sem lést fyrir skömmu og sat á þinginu fram að því. Pétur var duglegur eldhugi, óhræddur við að standa á eigin sannfæringu, óháð því hvort það skapaði honum vinsældir eða ekki. Hann brann fyrir mál eins og jafnrétti, mannréttindi, málefni eldri borgara og öryrkja og trúði á frelsi einstaklingsins í víðasta skilningi. Þá eiginleika Péturs að standa fast á eigin sannfæringu, bera virðingu fyrir skoðunum annarra og vera óhræddur við að taka erfiðar ákvarðanir ættu allir góðir þingmenn að tileinka sér.

Líkt og Pétur barðist fyrir vil ég búa í landi jafnra tækifæra þar sem allir einstaklingar eiga jafna möguleika á því að skapa sín eigin tækifæri og njóta ávaxta eigin verka. Samfélagið okkar samanstendur af fólki með margvíslegar hugmyndir og mismunandi krafta. Þessar hugmyndir og þennan kraft á fólk að geta nýtt sér á sínum forsendum, ekki á forsendum stjórnmálamanna eða kerfisins. Ég vil búa í opnu og lýðræðislegu samfélagi sem stendur vörð um mannréttindi allra, óháð þjóðfélagsstöðu, skoðunum, kyni eða efnahag.

Ísland á að vera draumaland ungs fólks til að búa í. Á því kjörtímabili sem nú er hálfnað höfum við tekið mörg góð skref í rétta átt, unnið ötullega að því að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika sem er forsenda annarra þátta. Mikilvægustu verkefnin fram undan eru frekari einföldun skattkerfisins og afnám tolla, aukið jafnrétti, skilvirkara húsnæðiskerfi og losun gjaldeyrishafta.

Baráttan fyrir auknu jafnrétti krefst framlags beggja kynja og fólks úr öllum flokkum. Aukið jafnrétti er efnahagsmál. Fyrirtækin í landinu hafa ekki efni á öðru en að nýta krafta og hæfileika kvenna jafnt sem karla. Reynsla fyrirtækja sem hafa treyst konum til æðstu metorða sýnir það.

Aukið frelsi einstaklinga og atvinnulífs er besta leiðin að bættum lífskjörum. Aðeins með vexti getum við aukið velferð samfélagsins. Það á að vera grundvallarstef í öllum okkar störfum að hagsmunir atvinnulífsins og heimilanna fari saman, enda eru þessir hagsmunir hvor sín hliðin á sama peningnum.

Það er í atvinnulífinu sem verðmætin verða til, verðmætin sem standa undir lífskjörum okkar allra, menntun og velferð. Og til að auka vöxtinn þurfa einstaklingar og fyrirtæki að búa við frelsi, frelsi til að velja sjálf í hvað tekjurnar fara, frelsi til að velja sér nám og starf við hæfi og frelsi til að tjá skoðanir sínar í ræðu og riti.

Ramminn sem stjórnmálin skapa á að hvetja fólk til framtakssemi. Það á að borga sig að vinna. Ef við missum sjónar á því markmiði að veita fólki og fyrirtækjum frelsi vegna þess að við erum svo upptekin við að ákveða í hvað á að ráðstafa þeim fjármunum sem í ríkiskassann koma töpum við bæði frelsinu og fjármununum. Við eigum ekki að vera hrædd við að veita fyrirtækjum landsins auknar heimildir, t.d. til að ráða til sín erlenda sérfræðinga. Við verðum að sjá tækifærin sem í því felast að taka á móti nýjum Íslendingum sem hér vilja stofna heimili og taka þátt í okkar samfélagi.

Aukið frelsi í viðskiptum bætir möguleika atvinnulífsins til að vaxa og þróast og leiðir af sér aukna samkeppni neytendum til hagsbóta. Á undanförnum áratugum hafa margir góðir áfangar náðst varðandi aukið viðskiptafrelsi og hefur hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum. Nú er svo komið að til undantekninga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Einkasala ríkisins á áfengi er þar undantekning en við höldum áfram að vinna að afnámi einokunar þar.

Í lok þessa þingvetrar sjáum við loks ávexti þess starfs sem lagt hefur verið af mörkum undanfarna mánuði hér í þinginu. Ýmis framfaramál hafa þegar verið samþykkt en önnur þurfa að bíða betri tíma. Mesti styrinn hefur staðið um breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar við rammaáætlun sem fól í sér að setja virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og Hagavatnsvirkjun í nýtingarflokk. Virkjunarkostirnir sem um ræðir í Þjórsá eru afar vel rannsakaðir og fyllilega tímabært að taka ákvörðun um hvort þá eigi að nýta eða vernda. Við þurfum á orkunni að halda til að byggja upp frekari atvinnutækifæri til að bæta lífskjör landsmanna.

Stærsta verkefni íslenskra stjórnmálamanna á næstu mánuðum er að afnema gjaldeyrishöftin. Það er því sérstaklega ánægjulegt að við erum lögð af stað í þá vegferð að afnema höftin undir styrkri stjórn fjármálaráðherra og í góðu samstarfi allra flokka hér á þinginu. Megum við bera gæfu til að taka þau skref á næstu missirum saman. Það er slík samstaða sem landið okkar þarf á að halda. Frjáls úr höftum eru okkur allir vegir færir.

Þegar losun hafta er náð væri vel við hæfi að fara með lokavers ljóðsins „Ísland“ eftir Guðrúnu Auðunsdóttur frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum:

Þegar sól á vorsins vegi

vermir bæði storð og lá,

fagnar þjóðin fögrum degi

frelsisins, sem nú má sjá.

Þá er hátíð helgra vætta,

hjörtun full af kærleiksyl.

Samspil allra Íslands ætta

austri frá og norðurs til.

Góðar stundir.



[21:07]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það þing sem nú lýkur störfum hefur einkennst af átökum um hvernig samfélag við viljum að sé á Íslandi. Viljum við í kjölfar kreppu að hér rísi samfélag jöfnuðar eða mun þjóðin verða leidd af hægri öflunum aftur inn í misskiptingu og ójöfnuð sem átti stóran þátt í því að hér féll spilaborgin árið 2008?

Á Íslandi búum við í landi allsnægta en samt eru ýmsar brotalamir og ójöfnuður sem okkur ber að uppræta. Við erum ríkt samfélag með gnótt af auðlindum bæði til lands og sjávar og allar forsendur eru til þess að hér ríki jöfnuður í lífskjörum meðal íbúa landsins og til að sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi hafi jöfn tækifæri á að nýta hæfileika sína sem best í þjóðfélaginu.

Veruleikinn er annar fyrir allt of stóran hóp, því miður. Á Íslandi búa allt of mörg börn við fátækt. Aukin fátækt meðal barna er sár og er þjóðfélagslegt mein. Fátæktin er mun líklegri hjá börnum einstæðra foreldra, atvinnulausra, lágtekjufólks og hjá börnum innflytjenda. Slík þróun getur haft langtímaafleiðingar fyrir börnin. Hætt er við að þau börn sem foreldrar geta ekki veitt eðlileg lífsgæði verði ekki þess umkomin að nýta hæfileika sína sem skyldi í framtíðinni. Við sem samfélag verðum að bæta stöðu þeirra sem minnst mega sín. Fátækt má ekki líðast meðal þjóðar sem er svo rík en misskiptingin endurspeglast í því að 70% eigna þjóðarinnar er í eigu 10% landsmanna.

Sú ríkisstjórn sem lækkar skatta á þá efnamestu og fellur frá þrepaskiptu skattkerfi, lækkar veiðigjöld á útgerðina og hækkar svo matarskattinn á almenning í landinu stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem leggur til að bankabónusar verði aftur teknir upp í fjármálakerfinu, að aukin gjaldtaka verði í heilbrigðiskerfinu, að atvinnuleysisbótatímabilið verði stytt og aðgangur að framhaldsskólakerfinu verði takmarkaður stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að halda áfram að afhenda fáum útvöldum náttúruauðlindir landsins á silfurfati eins og makrílinn stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að hunsa allar leikreglur með skammtímagróða að veganesti og nýta dýrmætar náttúruperlur landsins sem skiptimynt fyrir stóriðjuuppbyggingu stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem notar yfir 80 milljarða í skuldaniðurfærslu þar sem þeir tekjuhæstu fengu 1,5 milljarða í niðurfellingu og 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu lækkun sinna lána — sú aðgerð stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem sker niður fjármuni til velferðarkerfisins, samgöngumála, menntamála og til landshlutaverkefna, eins og sóknaráætlunar, stuðlar ekki að jöfnuði í landinu.

Ójöfnuður er líka milli landshluta hvað varðar aðgang að ýmiss konar þjónustu, menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngum, háhraðatengingu, orkuverði og vöruverði, svo eitthvað sé nefnt. Gert er ráð fyrir því í áætlun að íbúum hér á höfuðborgarsvæðinu fjölgi á næstu 25 árum um 70 þús. manns. Það eru tæp 90% af þeirri mannfjölgun sem Hagstofan spáir fyrir um á landinu öllu næstu 25 árin. Þessar spár ættu að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni, ekki bara okkur landsbyggðarfólki heldur einnig öllum þeim sem vilja sjá byggðina í kringum landið hafa möguleika á því að vaxa og dafna.

Það getur ekki verið góð þróun fyrir litla og fámenna þjóð að hér þróist borgríki með tilheyrandi kostnaði fyrir höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld verða að bregðast við með öllum ráðum svo við stöndum ekki frammi fyrir hnignun byggðanna vítt og breitt um landið bæði til sjávar og sveita. Landsbyggðin hefur ýmis tækifæri, bæði varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu og nýsköpun er víða í gangi, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði og ýmiss konar frumkvöðlastarfsemi er víða um land sem styðja á við. En það er ekki hægt að afgreiða fækkun fólks á landsbyggðinni með því að segja að hún sé eitthvert náttúrulögmál. Fullt af ungu og menntuðu fólki vill setjast að utan höfuðborgarsvæðisins og það fólk sem býr utan þess vill vera þar áfram ef þjónustustig er álíka og á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að ríkisvaldið hafi verið sofandi gagnvart íbúaþróun á landsbyggðinni á síðustu áratugum og hafi sífellt komið með einhverjar smáskammtalækningar þegar áföllin hafa dunið yfir. Stór hluti af vanda veikra byggða á landsbyggðinni er til kominn vegna ákvarðana stjórnvalda, eins og hið alræmda kvótakerfi sem hefur hyglað þeim stóru og sterku.

Ég hóf ræðu mína á að ræða ójöfnuð og hann er víða að finna bæði á meðal fólks og á milli landsvæða. Rannsóknir virtra fræðimanna hafa sýnt fram á að ójöfnuður innan samfélaga leiðir til hnignandi hagvaxtar og hnignandi efnahagslífs. Vinstri græn eru flokkur sem vill auka jöfnuð í samfélaginu, láta náttúruna njóta vafans, efla velferðarkerfið og byggja upp innviði landsins. Við höfum sýnt það með störfum okkar í vetur að við látum ekki ólýðræðisleg vinnubrögð yfir okkur ganga og munum ekki átakalaust láta þessa ríkisstjórn vinna skemmdarverk á velferðarkerfinu eða öðrum þeim stoðum sem jöfnuður mun byggjast á. — Góðar stundir.



[21:14]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Í kappleik stjórnmálanna er tekist á um leiðir að markmiðum sem miða að því að bæta lífskjör heillar þjóðar. Tilvera okkar frá einum degi til þess næsta er í húfi. Í þeirri keppni á enginn að þurfa að tapa. Hvernig metum við árangurinn af störfum og framgöngu okkar á Alþingi og ríkisstjórnarinnar? Hverju höfum við áorkað nú þegar við erum hálfnuð með þetta kjörtímabil? Nú er staður og stund til að fara yfir hvað hefur verið gert, hvers vegna og til hvers.

Heimilin eru undirstaða og drifkraftur efnahagslífsins og ríkisstjórnin setti heimilin í forgang. Skuldsett hagkerfi er þunglamalegt og því var lagt upp með að vinna sérstaklega á skuldum heimila og ríkissjóðs en leggja ávallt áherslu á efnahagslegan stöðugleika.

Við skulum nú meta árangurinn á grundvelli markmiða sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

1. Koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Hvers vegna? Ná niður skuldum ríkissjóðs, lækka vaxtagreiðslur og vinna að stöðugleika.

2. Ná niður skuldum heimila. Til hvers? Til að auka ráðstöfunartekjur þeirra.

3. Aðgerðaáætlun til að losa um fjármagnshöftin. Til hvers? Freista þess að leysa viðkvæma stöðu þjóðarbúsins og þann greiðslujafnaðarvanda sem steðjar að okkur.

Hvert er stöðumatið nú þegar við metum þetta hér á hálfnuðu kjörtímabili, í hálfnuðum kappleik, og skoðum hvernig til hefur tekist?

Kæru landsmenn. Við höfum komið böndum á ríkisfjármálin og skilað fjárlögum með afgangi hvort ár í stað halla og skuldasöfnunar sex ár þar á undan. Sérlega ánægjulegt er að sjá tekjurnar 2014 vel umfram áætlun fjárlaga. Efnahagsleg staða íslensku þjóðarinnar hefur þannig verið að styrkjast og einkennist af því að hér hefur náðst sögulegur efnahagslegur stöðugleiki með lægri verðbólgu, minna atvinnuleysi, auknum kaupmætti, aukinni eftirspurn í hagkerfinu og hagvexti sem skilar sér í jákvæðum áhrifum á afkomu ríkissjóðs. Þannig hefur ríkisstjórnin náð því markmiði sínu að koma ríkisrekstrinum í jafnvægi og skapað skilyrði til lengri tíma til að minnka álögur á heimilin og atvinnulífið og stuðla að aukinni fjárfestingu til framtíðaruppbyggingar í hagkerfinu. Miklu máli skiptir að fylgja eftir þeim árangri að vinna að lækkun skulda ríkissjóðs og styrkja þannig stöðu hans enn frekar.

Snúum okkur að lækkun skulda heimilanna. Það var sett í hefðbundið stefnumótunarferli þegar ríkisstjórnin tók við stjórnartaumunum. 18 mánuðum síðar hafa 57 þús. heimili fengið lækkun á höfuðstól húsnæðislána og 34 þús. einstaklingar sóttu um séreignarsparnaðarleiðina og geta ýmist nýtt þann sparnað án skattgreiðslu til niðurgreiðslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána eða sparað til íbúðakaupa. Þau heimili sem ekki voru lengur með eftirstöðvar húsnæðislána en áttu rétt á lækkun fengu sérstakan persónuafslátt sem nýtist næstu fjögur árin. Saman virkuðu þessar tvær leiðir, skuldaniðurfellingin og séreignarsparnaðarleiðin, vel á efnahagslífið þar sem þær vega hvor aðra upp. Þegar ráðstöfunargeta heimilanna eykst virkar einkasparnaðurinn sem dempari á móti.

Skuldir heimilanna hafa því lækkað hratt, hraðar en í nágrannalöndum okkar, og eru nú til jafns við það sem þær voru árið 2004. Erum við að uppfylla þessi markmið? Já, kæru landsmenn. Það að ná tökum á ríkisfjármálunum og framkvæma skuldaleiðréttingu þegar á fyrri hluta kjörtímabilsins er sannarlega mælanlegur árangur, árangur í formi þess að uppfylla loforð og tengd markmið.

Mikil vinna fór þegar í gang í upphafi kjörtímabils við að greina þann greiðslujafnaðarvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust við slit fallinna fjármálafyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins. Gríðarlega vönduð og góð vinna hefur nú birst í formi ígrundaðrar áætlunar um losun fjármagnshafta sem allir sameinast um að vinna ötullega að svo hún nái fram að ganga landi og þjóð til heilla. Úrlausn slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja án neikvæðra áhrifa á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins er mikilvægasta úrlausnarefnið hér og nú. Áætlunin hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun, bæði hérlendis og erlendis. Dæmi um þann trúverðugleika sem áætlunin nýtur er nýleg hækkun á lánshæfi Íslands.

Kæru landsmenn. Við þessa miklu aðgerð skiptir mestu máli að eyða áhættu, verja stöðugleikann og efnahagslega velferð þjóðarinnar.



[21:21]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þingheimur. Kæra þjóð. Eftir að ég byrjaði í stjórnmálavafstri hef ég verið að velta fyrir mér þeirri tilhneigingu okkar mannfólksins að líta þannig á að þegar hlutirnir ganga vel hjá okkur, þegar eitthvað heppnast, sé það okkur að þakka en ef eitthvað fer úrskeiðis, gengur ekki upp, leitum við að sökudólgum, kennum utanaðkomandi aðstæðum um.

Við viljum sem sagt helst ekki líta í eigin barm. Þessi tilhneiging er sérstaklega áberandi meðal stjórnmálamanna. Það er kannski vegna þess að við þurfum öðrum fremur að sannfæra fólk um ágæti okkar, réttlæta tilvist okkar, og þá getur verið mjög freistandi að eigna sér allt sem vel er gert en kenna öðrum um mistökin. Ég hugsa oft um þetta þegar ég heyri suma stjórnarliða og ráðherra halda því fram að hér hafi orðið einhver stórkostleg vatnaskil í kosningunum 2013, eins og við værum hér í djúpri kreppu og hagvöxtur hefði beinlínis stöðvast ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu ekki komið eins og frelsandi englar. En það er auðvitað ekki þannig, efnahagslegar aðstæður skýrast af óteljandi þáttum og á marga þeirra höfum við stjórnmálamenn engin áhrif. Það er ekki eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra fari í þyrlu út á miðin og hreki makrílinn inn í íslenska lögsögu. Makríllinn kemur eins og honum þóknast og hann getur farið aftur. Sama á við um ferðamennina þótt við höfum eflaust aðeins meiri áhrif á ferðamannastrauminn.

Vaxtastig og staða í helstu viðskiptalöndum hefur áhrif á okkur, heimsmarkaðsverð á olíu hefur til dæmis valdið því eða er meðal þess sem veldur því að verðbólgan á Íslandi hefur verið mjög lág. Stjórnvöld hafa þakkað sér þetta lága verðbólgustig en hverjum er það þá að kenna þegar verðbólgan eykst? Ég hlakka til að heyra þær útskýringar þegar þar að kemur.

Mér finnst líka annað einkenna stjórnmálin. Það er mjög freistandi að mála hlutina sterkum litum, málin eru annaðhvort svört eða hvít, góð eða vond. Fólk í stjórnmálum á að hafa skýrar og sterkar skoðanir, tala tæpitungulaust, og ég skil að vissu leyti þá kröfu, en sjálfri finnst mér oft svo margar hliðar á málum og stundum hálfvandræðalegt hvað ég er hálfgildings sammála sumu og sumpart á móti öðru. Ég vil þó taka fram að ég var alfarið á móti skuldaniðurfellingunni og ég var alfarið á móti því að hætta aðildarviðræðum við ESB og ég þakka guði fyrir að ítrekaðar tilraunir hæstv. utanríkisráðherra hafa ekki borið tilætlaðan árangur.

Ég er eiginlega komin á þá skoðun eftir tvö ár á þingi að vissulega skipti máli hvaða stefnu flokkar hafa, og þjóðin ákveður í kosningum hversu langt hún vill fara ýmist til vinstri eða hægri og hvaða stefnumál hún vill sjá ná fram að ganga, en mér finnst ekki síður skipta máli að okkur auðnist að velja fólk til valda sem sýnir auðmýkt gagnvart starfinu, fólk sem skilur mikilvægi þess að leita samstöðu þvert yfir flokkslínur, fólk sem lítur ekki á stjórnmál sem stríð. Það er fullt af svoleiðis fólki á þingi. Ég get í sannleika sagt að ef ég mætti kjósa í persónukjöri væri fólk úr öllum flokkum á mínum lista.

Við í Bjartri framtíð viljum leggja okkur fram um að vera málefnaleg og leggjast ekki í einhverja flokkadrætti heldur koma fram af virðingu við kollega okkar. Við reynum að leggja gott til. Ég verð bara að viðurkenna að það er heilmikil áskorun og erfiðara en ég hélt. Ég hef meira að segja setið á aftasta bekk og gólað, verið með frammíköll þegar mér líkaði ekki eitthvað sem ræðumaður sagði. Ég nota tækifærið hér til að biðjast afsökunar á því og ætla að taka flokksfélaga minn úr Bjartri framtíð, hv. þm. Eldar Ástþórsson, á orðinu en í fyrr í dag stakk hann upp á því hér í þingsal að við hættum alfarið frammíköllum sem engu skila.

Ég ætla að enda á að viðra áhyggjur mínar af þeirri upplausn sem ríkir á Alþingi. Mér finnst þingstörfin sífellt í uppnámi, okkur virðist fyrirmunað að plana eitt eða neitt fram í tímann og við eigum að heita æðsta stofnun landsins. Mér finnst þetta óásættanlegt og þessu verðum við að breyta. Þá verða stjórnarherrarnir að líta í eigin barm. Málflutningur hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, hérna áðan vekur mér smávon í brjósti.

Við skuldum þjóðinni einfaldlega að á þessum vinnustað ríki þokkalegur friður. Í raun ætti markmiðið að vera að Alþingi væri sem minnst í fjölmiðlum. Það væri merki um að allt gengi vel, að hér væri vinnufriður. Það eru nefnilega átökin sem þykja fréttnæm.



[21:26]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Kæri forseti. Elsku þjóð. Þetta þingár hefur um margt verið sérstakt, þungbært og átakaþrungið og afar óskilvirkt. Ég verð að viðurkenna að vonbrigði mín með stjórnarfarið og stjórnsýsluna á Íslandi eru djúpstæð. Ég er ekki ein um þessi vonbrigði. Vonbrigði þjóðarinnar hafa endurspeglast í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Við lifum á sögulegum tímum því að vantraustið sem ríkir á milli þjóðarinnar og okkar sem vinnum hér á Alþingi er gríðarlegt. Það er umhugsunarefni sem mér finnst að við þingmenn verðum að taka með okkur heim þegar þingi verður slitið á næstu dögum. Síðan ber okkur að koma til baka í haust, vonandi endurnærð og full staðfestu um að græða rofið sem er á milli þings og þjóðar. Það getum við gert með því að temja okkur þau gildi í orði og verki sem þjóðin kom sér saman um á þjóðfundinum árið 2010 þegar fjallað var um nýja stjórnarskrá en þau voru jafnrétti, lýðræði, heiðarleiki, mannréttindi, réttlæti og ábyrgð. Þessi gildi hafa ekki verið fyrirferðarmikil á yfirstandandi þingi.

Úti í samfélaginu er ákall um breytta forgangsröðun, um heiðarlegri vinnubrögð, um ábyrgð og aðhald, um jafnrétti og réttlæti, um aukna aðkomu að lýðræðislegum ákvarðanatökum.

Fordæmalaus hegðan og valdhroki margra ráðherra þessarar ríkisstjórnar hefur svo sannarlega ekki aukið tiltrú almennings á að hægt væri að treysta stjórnmálamönnum. Ekki hefur verið vilji til að draga lærdóm af mistökum heldur fjarar viðstöðulaust undan og ekkert lát virðist þar á. Segja má að það hafi byrjað að halla verulega undan fæti þegar utanríkisráðherra ákvað að sniðganga þingið, þingræðið sjálft, og senda bréf til Brussel sem átti að marka endalok aðildarviðræðna við Evrópusambandið þrátt fyrir að því hafi verið lofað fyrir kosningar að þessa ákvörðun fengi þjóðin að taka.

Það getur verið að hæstv. forsætisráðherra hugnist ekki þau gildi, eins og hefur komið fram í orðræðu hans, um þá ógn sem gæti stafað af því ef Píratar mundu koma á þeim breytingum sem eru í raun í samræmi við niðurstöðu þjóðfundar 2010.

Við, sem samfélag, þurfum líka að ráðast í grundvallarkerfisbreytingar með gildi þjóðfundarins að leiðarljósi. Til að það sé hægt þurfum við að vita á hvaða vegferð við erum sem þjóð. Í hvernig samfélagi viljum við búa eftir 50 ár? Enginn einn veit það en í markvissri samræðu við aðra getum við fundið leiðarstefið að takmarkinu.

Það er nefnilega ekki hægt að fara í neinar grundvallarbreytingar nema í samvinnu við ykkur, þjóðina. Píratar gera sér grein fyrir því að við erum ekkert án ykkar og það er okkar einlæga stefna að þú ráðir, kæri Íslendingur, að þú ráðir fleiru en að kjósa fulltrúa á þing, að þú fáir tækifæri til að taka þátt í að móta þitt framtíðarland í samvinnu við aðra.

Við þingmenn verðum að nýta tímann vel hér á þingi til að tryggja að forgangsraðað verði í velferðarmálin og að undirstöður heilbrigðiskerfisins verði lagaðar á næstu tveimur árum. Það eru nefnilega allt of margir Íslendingar sem hafa það ekki gott og hafa búið við langvarandi skort. Við eigum að laga það sem og öll þau mannréttindabrot sem maður heyrir af, sem eru eins og látlaust og gruggugt fljót sem streymir inn í pósthólfin okkar og við höfum engan rétt á að hunsa.

Ég vil að lokum fara aðeins yfir grunnstefnu Pírata sem allar ákvarðanir okkar á Alþingi eru teknar í samhengi við, undantekningarlaust.

Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn þeirra eru. Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun. Réttur einstaklinga til að leita þess að verða upplýstir skal aldrei skertur. Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda. Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert. Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum og að réttur hvers og eins sé sterkur. Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri. Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi. Til friðhelgi telur réttur til leyndar, nafnleysis, og sjálfsákvörðunarréttar. Leynd á aldrei að ná lengra en þörf er til að vernda einstaklinginn, en aldrei svo langt að það hafi áhrif á aðra einstaklinga. Nafnleysi hefur ekki þann tilgang að skjóta einstaklingi undan ábyrgð. Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvarðanatöku. Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, á því formi sem er hentugast upp á notagildi upplýsinganna. Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir. Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni og rétt til vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar. Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga. Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga. Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gagnsærrar stjórnsýslu. Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og að efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.

Ég vil í blálokin lýsa ánægju minni yfir því hvað ræðurnar hér í kvöld hafa markast af einlægum vilja, vona ég, til að auka og efla borgaraleg réttindi og aðkomu almennings að ákvarðanatöku og styrkingu og eflingu lýðræðis. Ég vona að verk fylgi þessum orðum. — Góðar stundir og takk fyrir að hlusta.



[21:34]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Góðir landsmenn. Það hefur verið hinum hefðbundnu stjórnmálum, þ.e. pólitískt skipuðum nefndum og Alþingi, um megn að endurskoða stjórnarskrána. Þess vegna var samþykkt hér á Alþingi í júní 2010 að úthýsa verkefninu, ef ég má orða það þannig. Skipuð var stjórnlaganefnd, haldinn þjóðfundur og stjórnlagaráð skilaði tillögum að nýrri stjórnarskrá. Erlendur fræðimaður kallaði þetta lýðræðislega tilraun í eyru mín ekki alls fyrir löngu.

Lyktir stjórnarskrármálsins á síðasta kjörtímabili voru mörgum okkar lítt að skapi. Mörg vorum við hundfúl og óánægð en í stjórnmálasamstarfi gagnast lítið að skella hurðum og það gagnast alls ekki neitt að vera lengi í fýlu. Verði sjónarmið undir er affarasælast að safna vopnum sínum og bíða þess að tækifæri gefist til að koma hugðarefnum sínum á framfæri og til framkvæmda.

Stjórnarskrárnefnd skipuð fulltrúum stjórnmálaflokkanna á Alþingi hefur nú setið að störfum síðan haustið 2013. Þetta er ekki fyrsta stjórnarskrárnefndin sinnar tegundar. Frá lýðveldisstofnun hafa fjórar stjórnarskrárnefndir starfað. Stjórnarskráin er samt enn að meginstofni sú sem samþykkt var árið 1944 og rekja má til dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849.

Fjögur mál hafa verið á dagskrá nefndarinnar síðan haustið 2013. Það eru ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, ákvæði um umhverfisvernd og ákvæði um framsal valdheimilda til alþjóðlegra stofnana.

Á næstu vikum mun koma í ljós hvort samkomulag næst í nefndinni. Verði svo er eðlilegt að gera ráð fyrir að næsta haust verði lagt fyrir þingið frumvarp sem geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum sumarið 2016. Bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var við stjórnarskrána hér vorið 2013 gerir okkur þetta kleift.

Það hefur komið fram í máli þingmanna hér fyrr í kvöld að vonir eru bundnar við að stjórnarskrárbundinn réttur til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslum geti orðið forsenda þess að koma á bæði skaplegri umræðuhefð í þinginu og skaplegri samskiptum meiri og minni hluta. Það er sannarlega ekki vanþörf á.

En takið eftir að stjórnarskrárnefndin er aðeins að skoða fjögur ákvæði stjórnarskrárinnar sem alls er 81 grein. Þetta eru að sönnu veigamikil ákvæði og þau eru öll ný. Stjórnarskrártillaga stjórnlagaráðsins var 114 greinar. Núverandi stjórnarskrárnefnd er því alls ekki að endurskoða stjórnarskrána, ekki hingað til að minnsta kosti, heldur ræða þessi fjögur ákvæði.

Margir áhugamenn um endurskoðun stjórnarskrárinnar óttast að verði henni breytt á miðju kjörtímabili muni afturhaldsöfl láta þá breytingu nægja og ýta öðru til hliðar því að varla er hægt að kalla það endurskoðun að nefnd skoði fjögur ákvæði, þótt það taki hátt í tvö ár. Þess vegna er nauðsynlegt að stjórnarflokkarnir geri nú, þegar við hefjum seinni hluta kjörtímabilsins, grein fyrir afstöðu sinni til endurskoðunar stjórnarskrárinnar.

Hver er afstaðan til mannréttindakafla hennar? Er ekki nauðsynlegt að endurskoða hann eftir 20 ár eins og framfarir í þeim málaflokki eru? Er ekki þörf á að festa rétt til upplýsinga í stjórnarskrá? Og er ekki nauðsynlegt að stjórnarskrárbinda frelsi fjölmiðla, eins áhrifamiklir og þeir eru í nútímaþjóðfélagi? Erum við sátt við atkvæðamisvægið í landinu? Teljum við réttlátt að þeir sem búa norðan Hvalfjarðarganganna hafi rúmlega tvöfaldan atkvæðisrétt á við þá sem búa sunnan þeirra?

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sem meðal annars á að efla mannréttindi og lýðræði gerir athugasemdir við kosningakerfið hér á landi. Öryggis- og samvinnustofnunin segir að atkvæði allra eigi að vega jafnt og að munurinn megi ekki að vera meiri en 10%. Hér fer hann upp í allt að 250%.

Stjórnlagaráðið gerði tillögur um að efla völd þingsins á kostnað framkvæmdarvaldsins. Sú tillaga kom í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gagnrýndi mjög ráðherraræði hér á landi, ráðherraræðið sem því miður er enn við lýði og jafnvel í algleymingi þessi missirin. Ég nefni bara fiskistofuævintýrið, bréfið til Evrópusambandsins og flutning á stjórnsýslu safnamála frá menntamálaráðuneyti til að koma til móts við áhugamál forsætisráðherrans.

Í vinnunni við stjórnarskrárbreytingar á síðasta kjörtímabili liggur mikil fjárfesting. Í afrakstri þessarar vinnu eigum við mikinn fjársjóð. Við eigum ekki bara að nota þann fjársjóð, okkur er skylt að gera það. Það má ekki verða að vinna við fjögur ný stjórnarskrárákvæði verði til þess að endurskoðun stjórnarskrárinnar allrar gleymist og verði lögð til hliðar.

Ef ákvæði í stjórnarskrá eru tré er stjórnarskráin öll skógur. Ég segi, virðulegi forseti: Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum. — Góðar stundir.



[21:40]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Það fór eins og ég óttaðist, að ræðutími minn mundi skerðast. Ég er samt ekki í fýlu út af því, það voru það góðar ræður hjá mínum flokksmönnum. Ég þarf að leggja ræðunni minni sem átti auðvitað að vera tímamótaræða og geyma hana til betri tíma en af því að ég er sjálfhverfur eins og við flest hér ætla ég aðeins að ræða um okkur.

Ég hef lengi velt fyrir mér af hverju tiltrú landsmanna á okkur fer minnkandi ár frá ári. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki af því við höfum stjórnað illa, ekki af því að við gætum ekki hagsmuna þjóðarinnar. Hér varð hrun alls fjármálakerfisins fyrir sjö árum. Hvernig hefur okkur tekist að vinna úr því? Það voru ekki lélegir stjórnmálamenn sem unnu úr því. Ríkisstjórn Geirs Haardes lagði grunninn með neyðarlögum og stóð sig frábærlega vel. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stóð sig bara líka vel að mörgu leyti. Ég hefði viljað gera margt öðruvísi og öllum eru mislagðar hendur en þetta tókst vel og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kláraði síðan það sem upphaflega var lagt upp með hvað varðar fjármálakerfið og á hrós skilið fyrir það.

Núverandi ríkisstjórn hefur líka staðið sig vel, bara mjög vel. Hér hefur verið gífurlegur uppgangur, góðar ákvarðanir teknar og þeim fylgt eftir með vönduðum vinnubrögðum. Frábært starf. Tiltrúin minnkar samt alltaf. Af hverju gerist það? Getur það verið bara af því hvernig við högum okkur akkúrat hér? Ég hef ekkert á móti átökum í stjórnmálum. Ég held að það eigi að vera átök. En við verðum að kunna að fara í þessi átök. Hugmyndir skipta máli og það hvernig við störfum. Þetta er allt mikilvægt. Við verðum að standa okkur betur í því.

Ég hef verið frekar ósáttur síðustu vikurnar. Mér finnst stjórnarandstaðan hafa haldið okkur svolítið í gíslingu, búið til ný orð eins og að meirihlutaræði væri bara úrelt og þingræðið sömuleiðis. Stjórnarandstaðan er með nálægt því jafn mikið fylgi og stjórnin og þá á stjórnarandstaðan að fá að ráða jafn miklu, en þetta gengur ekki svona fyrir sig og á ekki að gera það.

Svo segir jafnvel sama fólkið: Hér þarf fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Hver eru nú völd minni hlutans í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu? Núll.

Við eigum hins vegar að tala saman og við eigum að hlusta. Það kemur margt gott út úr samræðunni og margt sem við tökum upp, stjórnin frá stjórnarandstöðunni. Við munum gera það áfram en við verðum að bæta okkur sjálf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[21:44]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Herra forseti. Góðir áhorfendur. Mikilvægasta hlutverk okkar sem sitjum hér á þingi, mikilvægasta hlutverk allra þeirra sem stunda stjórnmál, er að hlusta. Og það nægir ekki að verða bara við kröfunni um að hlusta á fjögurra ára fresti þegar kosningabaráttan bankar upp á.

En það getur verið erfitt að hlusta þegar það eina sem heyrist utan frá er þögn. Undanfarnar vikur og mánuði hefur ótrúleg orka leyst úr læðingi á Íslandi. Þessi orka snýst um að úthýsa þögninni, varpa ljósi á samfélagsmein, hrópa á réttlátara og betra samfélag.

Hér á ég auðvitað við kvennabyltinguna sem gegnir ýmsum nöfnum, samfélagsbylgju sem tók að rísa á Twitter undir yfirskriftinni #FreeTheNipple og hefur síðan tekið á sig ýmsar myndir, byltingu sem er að mestu borin uppi af ungum konum.

Þótt sá sem hér stendur sé búsettur alla leið suður á meginlandi Evrópu leyndi krafturinn í #FreeTheNipple sér ekki þegar bylgjan reis.

Mér brá. Ég hafði ekki áður áttað mig á því hvað hrelliklám, ein tegund af kynferðislegu rafrænu ofbeldi, er stór hluti af lífi ungra kvenna, hversu margar höfðu virkilega upplifað það á eigin skinni og hversu margar hafa búið í stöðugum ótta við að viðkvæmum myndum af þeim væri deilt með hverjum sem er, hvenær sem er, hvar sem er — og án þeirra samþykkis.

Mér brá af því að þótt ég vissi af vandanum hafði ég ekki áttað mig á því hversu útbreiddur og hversu alvarlegur þessi vandi væri. En ég fylltist á sama tíma mikilli von og gríðarlegu stolti þegar ég sá þúsundir ungra kvenna standa saman, allar sem ein gegn óværunni, fastar fyrir og óhræddar.

Forseti. Við megum öll vera stolt af þeim.

#FreeTheNipple-bylgjunni fylgdu svo margar aðrar sjálfsprottnar byltingar gegn þögninni. Sú nýjasta er mögulega sú sterkasta, þá voru konur hvattar til að deila reynslu sinni af ofbeldi í hópi annarra kvenna á Facebook. Umræðan barst okkur körlunum síðar þegar sögur og myndir fóru að flæða um allt. Þolendur ofbeldis merktu sig appelsínugulum andlitum og gul andlit urðu táknmynd allra hinna sem þekkja þolendur ofbeldis, okkar allra hinna.

Appelsínugulu andlitin voru ótrúlega mörg, svo mörg að mér leið helst eins og náttúruhamfarir hefðu orðið. En í náttúruhamförum hefðu viðbrögðin ekki staðið á sér, í náttúruhamförum skipuleggja stjórnvöld fjöldahjálparmiðstöðvar, þau bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna. Þau laga einfaldlega það sem lagað verður.

En hver voru viðbrögðin þegar þagnarmúrinn brast? Þau voru lítil, og að minnsta kosti ekki í neinu samræmi við umfang vandans.

Góðir landsmenn. Öll þekkjum við þolendur ofbeldis og öll þekkjum við gerendur. Að því leytinu verða viðbrögðin við kvennabyltingunni alltaf önnur en við náttúruhamförum. Okkur nægir nefnilega ekki að fá bara almannavarnir til að rigga upp fjöldahjálparmiðstöð og semja aðgerðaáætlun fyrir þolendur ofbeldis, eins og eftir stóran jarðskjálfta.

Þótt yfirskrift nýjustu bylgjunnar hafi verið #þöggun og #konurtala væru það til lengdar litið algjörlega ófullnægjandi viðbrögð að láta okkur nægja að hjálpa þolendum ofbeldis að opna sig um reynsluna. Það nægir ekki bara að leyfa þeim að tala. Svo þurfum við líka að gæta að hinni hliðinni sem er líklega erfiðasti hlutinn, þegar við hlustum þurfum við að horfast í augu við gerendurna.

Þegar Íslendingar upplifa stór áföll bregðast þeir við. Við erum svo lánsöm að hafa byggt upp innviði til að takast á við flest það sem náttúran lætur okkur finna fyrir. Sjaldan er spurt um verðmiða þegar þarf að byggja upp eftir jarðskjálfta eða jökulhlaup, en af hverju er sálfræðiþjónusta stífð úr hnefa til þolenda kynferðisofbeldis? Í þeirri umræðu sem kemur reglulega upp um að rafbyssuvæða lögregluna virðist kostnaður aldrei vera sami þröskuldurinn og þegar ræddar eru leiðir til að stórefla kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Hverju sætir? Við höfum varið milljörðum til að verjast snjóflóðum, en hvaða upphæðum hefur verið varið til að fræða lögregluþjóna og dómara um eðli og meðferð kynferðisbrotamála? Hvers vegna gengur ekki hraðar að fjölga kvenkyns dómurum? Hvar eru forvarnasjóðirnir og forvarnaátökin sem ættu að vera stöðugt í gangi? Hvar eru rannsóknirnar á umfangi og þjóðhagslegum áhrifum ofbeldis, rannsóknir á því hvers vegna svo mikill fjöldi kvenna í okkar góða samfélagi hefur orðið fyrir nauðgun, kynferðisofbeldi og áreitni?

Nú þurfum við öll að hlusta; ríkisstjórnin, þingið og þjóðin. Og við þurfum að bregðast við. Við þurfum að mæta kröfum byltingarinnar. Stöndum með stelpunum okkar. Þær — og strákarnir — eiga það skilið.

Þið öll þarna úti, takk fyrir byltinguna.



[21:51]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Liðinn þingvetur hefur verið afar viðburðaríkur. Menn hafa tekist á í þingsal, yfirleitt á kurteislegan og yfirvegaðan hátt en það brennur þó enn við að menn láti hér öllum illum látum. Ásýnd þingsins er ekki góð og hún batnar ekki með slíku háttalagi. Gróft orðalag og persónulegar árásir eiga alls ekki heima í þingsal. Þessu verðum við að breyta og þessu getum við breytt.

Samfélagsumræðuna má líka færa til betri vegar. Á dögunum las ég ágæta grein á baksíðu Fréttablaðsins eftir Jón Sigurð Eyjólfsson. Fyrirsögn greinarinnar er „Ekki er Ísland fjarska fallegt“. Blaðamaðurinn gerir ímynd Íslands að umtalsefni sínu, hvernig Ísland birtist fólki sem býr erlendis og upplifir landið einungis í gegnum netið. Birtingarmynd okkar ástkæra lands er þar afar neikvæð en svo lýsir blaðamaðurinn reynslu sinni þegar hann kemur til landsins og er í návígi við land og þjóð. Þá upplifir hann gleði og vinsemd. Lokaorð greinarinnar eru síðan þessi:

„Það er ekkert að marka þetta béskotans internet.“

Það er einmitt það. Það er nefnilega gott að búa á Íslandi. Við sem hér erum veljum að búa á eyjunni grænu. Við getum búið hvar sem er, á stað þar sem veðrið er betra, þar sem vextir eru lægri, ávextir ódýrari og mannlífið fjölbreyttara. En við veljum að búa hér. Veðrið mætti reyndar vera betra. Vextir mættu eða ættu öllu heldur að vera lægri. Við þurfum virkilega að vinna að umbótum á húsnæðiskerfinu og það væri óskandi að neytendalán væru ekki verðtryggð.

En við megum ekki gleyma að þakka fyrir það sem við höfum og það sem vel er gert því að þakklætið er vanmetið. Bjartsýnin ein og sér leysir þó ekki verkefnin. Við þurfum að vera einbeitt og samstiga við úrlausn þeirra. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar setti á oddinn að komið yrði til móts við skuldsett heimili og lagði fram aðgerðaáætlun í tíu liðum sumarið 2013. Ein af þessum tíu aðgerðum var að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán heimilanna. Leiðréttingin var sanngjörn jafnræðisaðgerð sem þjóðin sjálf valdi að farið yrði í í kosningunum 2013.

Góðir Íslendingar. Óveðursskýin yfir landinu eru á hröðu undanhaldi. Það glittir víða í heiðan himin og sólargeislar eiga greiðari aðgang að landinu en áður. Aðgerðaáætlun um afnám hafta er einn af þessum sólargeislum. Almenn ánægja ríkið með áætlunina. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem kemur okkur öllum til góða.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins er annað stórverkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á. Ríkisframlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri og árlegt fé til tækjakaupa á Landspítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012. Framlög til annarra heilbrigðisstofnana hafa einnig verið aukin. Sóknin er hafin.

Endurskoðun á almannatryggingakerfinu stendur yfir og er komin langt á veg. Verðbólgan hefur verið lítil sem engin um langt skeið og kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Höfum það í huga.

Kæru landsmenn. Þrátt fyrir allt pólitískt karp held ég að við getum öll verið sammála um að árangur ríkisstjórnarinnar er bara nokkuð góður þegar horft er á heildarmyndina. Þrátt fyrir ágætt ástand eigum við þó að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátara samfélag og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.

Eitt og eitt þungbúið ský sveimar þó enn yfir höfðum okkar. Breytingar á húsnæðiskerfinu eru til dæmis orðnar mjög aðkallandi. Markmið okkar er að tryggja möguleika allra á að búa við öryggi og tryggja jafnræði í aðgangi að íbúðalánum óháð búsetu. Því miður tókst ekki að klára þau frumvörp sem unnið hefur verið að í velferðarráðuneytinu síðustu tvö árin en ég geri ráð fyrir að frumvörpin og afrakstur þeirra birtist okkur strax á haustdögum. Góðir hlutir gerast hægt, en viljinn er svo sannarlega fyrir hendi.

Annað verkefni sem er orðið mjög aðkallandi er afnám verðtryggingar. Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar á neytendalánum hefur skilað niðurstöðu í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnin verði frumvörp á þeim grundvelli.

Góðir Íslendingar. Frá því að ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við hefur hagvöxtur á Íslandi verið einn sá mesti í Evrópu. Ríkið er hætt að safna skuldum sem skapar tækifæri til frekari fjárfestinga í innviðum samfélagsins. Böðum okkur í sólargeislunum, ræktum það góða innra með okkur og sendum kærleiksríkar hugsanir út í alheiminn. Það skilar sér í meiri lífsgæðum og betra samfélagi fyrir okkur öll. — Góðar stundir.



[21:57]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Elsku landsmenn. Nú líður að lokum þessa þings og þá er tilefni til að spyrja sig: Höfum við gengið til góðs? Eins og við höfum heyrt í kvöld sýnist sitt hverjum en ég leyfi mér að fullyrða að þessi vetur hafi einkennst af ólgu, bæði hér á Alþingi sem og víðar í samfélaginu. Það er ekkert skrýtið, það eru allir komnir með hundleiða á ástandinu.

Í vikunni hitti ég gamlan mann á rölti mínu í kringum þinghúsið og barst talið að þingstörfunum. Eins og maður heyrir oft þótti honum þrefið á Alþingi óþolandi og síðan sagði hann að við þingmenn þyrftum bara, með leyfi forseta, „að haga okkur eins og menn“. Þetta vakti athygli mína. Hvað þýðir það í þessu samhengi að haga sér eins og maður? Okkur finnst öllum að það liggi í augum uppi en það er kannski ekki jafn einfalt og það virðist.

Á dögunum minntist ég á það í ræðu hérna að ég hefði upplifað sumarkomuna í birkiskógi við Breiðafjörð. Þar heyrðist ekki mannsins mál fyrir fuglasöng og þótt ég skilji ekki fuglamál upplifði ég gleði í fuglasöngnum sem hafði góð áhrif á mig. Fuglarnir settu mér tóninn án þess að vera meðvitaðir um það. Það fékk mig til þess að hugsa um Alþingi, að hér situr alls konar fólk. Við ræðum mikilvæg mál, Alþingi er málstofa og þessi málstofa er meira að segja mjög áberandi. Henni er sjónvarpað og helstu fjölmiðlar fylgjast vel með. Þannig senda umræður á þingi tón út í samfélagið. Það er ekki bara hvað við erum að ræða sem skiptir máli heldur líka hvernig við gerum það.

Þingmennskan er þjónustustarf. Okkur ber að vinna að almannahagsmunum en ekki einkahagsmunum, og ekki bara okkar kjósenda eða okkar kjördæmis heldur allra Íslendinga, líka þeirra sem eru ófæddir í dag. Þegar við hugum að framtíðinni er það ekki bara út frá efnahagslegum forsendum, það snýst ekki síður um mannréttindi, um umhverfismál og um réttláta skiptingu auðs og tækifæra.

Þetta er mikil ábyrgð. Þegar við stofnuðum flokkinn okkar nefndum við hann Bjarta framtíð til að minna okkur á þessa ábyrgð og ekki veitir af. Í önnum þingstarfa og baráttunni um málefni dagsins í dag er hægt að týna stóru myndinni. Alþingi er valdastofnun, bæði beint og óbeint. Alþingi var stofnað á öðruvísi tímum en ríkja í dag, áður en samgöngur, samskiptaleiðir og menntun urðu jafn aðgengileg og almenn og nú er orðið. Margar hefðir og venjur í okkar störfum bera þess merki hvernig fólk umgekkst vald við aðrar aðstæður. En eðli valdsins hefur breyst með breyttum tímum. Krafan um aukið samráð og þátttöku almennings í valdinu er hávær alls staðar í samfélaginu og fullkomlega eðlileg. Alþingi verður að svara þessu kalli. Það verður að vinna áfram að endurskoðun stjórnarskrár og að því að uppfæra þingsköp og vinnubrögð á Alþingi.

Fyrir nokkrum árum var ég í vinnuferð í Lundúnum og eftir langan morgun við bókainnkaup fór ég með kollega mínum á veitingahús í mat. Við borðið við hliðina á okkur settist kall. Hann var klæddur í einhvers konar hermannabúning, alsettur medalíum og með uppsnúið yfirvararskegg, reffilegur kall og hundgamall. Við tókum tal saman og upp úr kafinu kom að kallinn, sem var 96 ára gamall, hafði barist í skotgröfunum á vesturvígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann var á leiðinni í þinghúsið að taka þátt í minningarathöfn. Hann sagði okkur að þetta hefði vissulega verið mjög ömurleg reynsla en að hann hefði verið heppinn, að liðsforinginn sem var yfir honum hefði staðið fyrir dansæfingum á frívöktum. Ég sé þá enn fyrir mér, einkennisklædda kalla með skrautleg yfirvararskegg að dansa í neðanjarðarbyrgjum meðan sprengjurnar flugu yfir. Kallinn sagði að aðalatriðið við dans væri að athyglin væri alltaf á dansfélaganum, að dansinn yrði aldrei góður nema dansfélaginn fengi að skína. Velheppnaður dans væri samvinnuverkefni og þessi lærdómur hefði nýst honum betur en nokkuð annað á langri ævi.

Mér finnst þessi lexía eiga við hér á Alþingi. Það má segja að málefnaleg átök í stjórnmálum, sem eru jú hlutverk okkar, séu eins konar dans og þá skiptir máli hvernig við dönsum. Oft finnst mér okkur takast vel upp. Mörg mál hafa komist í gegn á þessum þingvetri en mörg mál hefur líka dagað uppi. Sá sem hér stendur er ekkert jafn ánægður með öll þessi mál og sitt sýnist hverjum.

Afdrif þessara mála hafa ekki síst farið eftir því hvernig málin hafa verið unnin og undirbúin, hvernig samtalið milli flokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu hefur verið, þ.e. hvernig hinn pólitíski dans hefur verið stiginn. Við þurfum að hafa kjark, ekki til þess að beita valdi og snúa andstæðinga okkar niður, við þurfum að hafa kjarkinn til þess að dansa vel og vinna að niðurstöðum sem sem flestir geta sætt sig við. Fyrst og fremst þurfum við þó að hafa kjarkinn til þess að láta dansinn alltaf snúast um almannahagsmuni og framtíðina. Við eigum ekki bara að dansa kringum gullkálfinn, við eigum að dansa um virðinguna, um gleðina og ástina.

Að lokum vil ég þakka forseta og alþingismönnum fyrir veturinn. Ég vil einnig sérstaklega þakka starfsfólki Alþingis fyrir frábær störf og sérstaklega fyrir þolinmæðina á þessu furðulega sumarþingi síðustu vikurnar. — Góðar stundir, góða ferð og góða skemmtun.



[22:03]
Jón Þór Ólafsson (P):

Kæru landsmenn. Það hefur staðið yfir fullkominn stormur fyrir fylgisaukningu Pírata að undanförnu. Síðustu mánuði hefur ekki mikið blásið frá hægri eða vinstri, það hefur verið sterk norðanátt. Stjórnmálaumræðan hefur mikið til snúist um valdhroka, spillingu og óheiðarleika. Eftirspurn hefur því aukist eftir gegnsæi og beinna lýðræði. Hún hefur aukist eftir aðhaldi með kjörnum fulltrúum og meiri aðkomu landsmanna að ákvarðanatöku um það sem þá varðar.

Með norðanáttina í seglunum hafa Píratar risið hratt og ítrekað mælst stærsti flokkur landsins. Við teljum að þessar tölur endurspegli vilja landsmanna til að breyta, ekki fólki, heldur stjórnkerfi landsins, stjórnskipan Íslands.

Á þjóðfundinum 2009 kom saman 1.231 landsmaður, valinn af handahófi, til að safna saman hugmyndum og tillögum að því samfélagi sem Íslendingar vilja sjá vaxa og dafna á komandi árum. Af þeim 30 þús. tillögum og hugmyndum sem fram komu var heiðarleiki afgerandi mikilvægasta gildið í hugum landsmanna. Þar á eftir komu virðing, réttlæti og jafnrétti. Á fundinum varð líka til framtíðarsýn á hverju borði og voru orðin samfélag, menntun, heilbrigðisþjónusta og auðlindir landsmönnum mikilvæg.

Á þjóðfundinum 2010 komu saman 950 landsmenn, aftur valdir af handahófi, til að fjalla um í þetta skipti þau gildi sem leggja skyldi til grundvallar nýrri stjórnarskrá og ræða innihald stjórnarskrárinnar út frá þeim.

Mikið var kallað eftir virkara og beinna lýðræði, meiri valddreifingu og auknara aðhaldi með valdhöfum. Því kom ekki á óvart að meiri hluti landsmanna sagðist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vilja grundvalla nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs sem vann tillögur þjóðfundarins að miklu leyti inn í lagafrumvarp.

Gildi og framtíðarsýn landsmanna eru mannúðleg, réttlát og praktísk. Grunnstefna Pírata snýst um að landsmenn geti gert þessa sýn að veruleika. Gildi eins og aukið gegnsæi og beinna lýðræði, sem nú rísa upp á yfirborðið á Íslandi og víða um heim, eru grunngildi Pírata. Píratar komu, rétt eins og aðrar hreyfingar sem rísa hátt í norðanátt stjórnmálanna í dag, út úr þessum gildum og er fleytt áfram af undiröldu nýrrar forgangsröðunar gilda sem hefur átt sér stað vegna upplýsingatæknibyltingarinnar, vegna samfélagsmiðlanna, vegna internetsins.

Til skemmri tíma mun þennan norðanstorm eitthvað lægja og fylgi Pírata fara niður. En rétt eins og veðurfarið á jörðinni er að breytast er veðurfarið í stjórnmálunum víða um heim að breytast og til lengri tíma mun sú veðurfarsbreyting lyfta þeim sem rétt eins og Píratar vinna að því að vernda og efla nýja forgangsröðun á gildum fólks.

Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, benti á það fyrir aldamótin að allar stóru tæknibyltingarnar síðustu 500 ár hafi bylt efnahagskerfinu, samfélaginu og stjórnmálunum — í þessari röð. Hann sagði að án efa mundu raunveruleg byltingaráhrif þessarar upplýsingatæknibyltingar birtast okkur mjög bráðlega og leiða til nýs risastórs iðnaðar.

Svo springur Facebook út á netinu og nýr iðnaður samfélagsmiðlunar opnar dyrnar á það sem bandaríski forsetaráðgjafinn Zbigniew Brzezinski kallaði í grein í New York Times 2008 stjórnmálalega vitundarvakningu heimsins. Hann bendir á að í fyrsta skipti í mannkynssögunni hafi næstum allt mannkyn orðið stjórnmálalega meðvitað og í stjórnmálalegum samskiptum sín á milli. Þetta er bylting í stjórnmálalegu umhverfi heimsins. Fólk sem tekur þátt í samfélagsumræðunni og á samfélagsmiðlum hefur miklu ríkari væntingar til góðs aðgengis að upplýsingum og til meiri þátttöku í ákvarðanatöku um málefni sem það varðar.

Þessi gildi eru framar í forgangsröðun fólks í dag en þau voru í upphafi aldarinnar þegar ráðandi öfl í stjórnmálum og fjölmiðlum höfðu í raun einokun á miðlun og túlkun frétta.

Það sama gerðist í síðustu upplýsingatæknibyltingu þegar prentvél Gutenbergs kom fólki fram hjá upplýsingaeinokun, þá presta og prinsa. Í þá daga tók það hins vegar miklu lengri tíma, meiri peninga og fleiri mannslíf fyrir þessa nýju prenttækni að fara frá því að bylta efnahagslífinu yfir í það að bylta samfélaginu og yfir í það að bylta stjórnmálunum.

Þegar breytt eftirspurn er aðeins stormur sem stendur yfir í stuttan tíma geta ráðandi öfl beðið hann af sér. En þegar þær breytingar eru til komnar vegna grundvallarveðurfarsbreytinga, grundvallarbreytingar á gildismati fólks, munu þeir sem þrjóskast við að leyfa þessum gildum að rísa enda á því að sökkva sjálfir.