144. löggjafarþing — 144. fundur
 2. júlí 2015.
réttur til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[11:02]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í eldhúsdagsumræðum hér í gærkvöldi bar mikið á því að þingmenn úr öllum flokkum ræddu leiðir til þess að bæta ásýnd þingstarfa, tryggja að við næðum meiri árangri í störfunum, tryggðum betur víðtæka sátt um meginlínur í þingstörfunum og kæmum í veg fyrir hið hráa meirihlutaræði sem hér hefur tíðkast allt of lengi. Hæstv. fjármálaráðherra rakti í ræðu sinni áhuga á ýmsum stjórnarskrárbreytingum sem ég er ánægður með að heyra að hann styður. Í beinni útsendingu í viðtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi ræddum við forsætisráðherra umræður kvöldsins og þá tók hæstv. forsætisráðherra ágætlega í þá hugmynd mína að mikilvægasta framlag okkar til að bæta þingstörfin með stjórnarskrárbreytingum væri að þriðjungur þings gæti komið málum í þjóðaratkvæði.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sama sinnis, hvort við getum reynt að ná saman um það á næstu vikum að samhliða því sem unnið er áfram á vettvangi stjórnarskrárnefndar um breytingar sem fela í sér þjóðareign á auðlindum og möguleika almennings á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum tryggjum við þriðjungi þingmanna líka þennan rétt. Þar með getum við lagt grunn að samningum um breytingar á þingsköpum sem meðal annars fælu í sér styttingu ræðutíma og annars konar breytingar á þingstörfunum sem mundu auðvelda dagskrárvald forseta o.s.frv.



[11:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hugmyndir um að einn þriðji þings eða eitthvert annað hlutfall minni hlutans geti sent mál til þjóðaratkvæðagreiðslu hafa komið fram í átökum þingsins í vetur og stundum áður. Þær hafa komið fram eins og ég hef upplifað þetta vegna þess að það er ekki til staðar réttur í stjórnarskránni fyrir fólkið í landinu til að kalla eftir því að mál sem hér eru leidd til lykta gangi til þjóðaratkvæðis. Verði slíkur réttur færður í stjórnarskrána þannig að eitthvert tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi með ekki ósvipuðum hætti og hefur gerst á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar fyndist mér mun minni þörf fyrir slíkan rétt til handa minni hlutanum á þingi.

Ég verð að segja að sama skapi að mér fyndist þá minni ástæða til að viðhalda því sem er að finna í 26. gr. stjórnarskrárinnar, rétti forsetans til að vísa málum til þjóðarinnar. Hvers vegna ættum við annars að hafa áhyggjur af því að slíkur réttur væri ekki til staðar ef tilskilið hlutfall kosningarbærra manna kallar ekki eftir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram? Hver er þá skaðinn af því að forsetinn hafi ekki það vald? Hvers vegna og undir hvaða kringumstæðum ætti forsetinn að beita því valdi að senda mál til þjóðaratkvæðis ef þjóðin kallar ekki eftir því? Hvaða réttlætingu gæti forsetinn notað og vísað til til þess að senda mál við þær aðstæður til þjóðaratkvæðis? Ég spyr að sama skapi: Hvenær ætti þriðjungur þings að beita þeim rétti þegar enn hefur þá ekki reynt á hvort tilskilinn fjöldi kosningarbærra manna kallar eftir því? Þetta er eiginlega mitt svar.



[11:06]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er sammála honum um að ef í stjórnarskrá kemur ákvæði um rétt tiltekins hluta þjóðarinnar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og minni hluta þings til að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað fráleitt að áfram verði fyrir hendi málskotsréttur forseta. Þá er hann óþarfur.

Ég ætla að freista þess að útskýra fyrir hæstv. ráðherra hvern ávinning ég sé í því að þriðjungur þingmanna geti, til viðbótar við einhvern hluta þjóðarinnar, kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þá sú staðreynd að með því styðjum við við þingræðið. Við tryggjum að ríkisstjórn á hverjum tíma leitar eftir víðtækari samstöðu um þingmál en hún gerir ella vegna þess að hún veit að minni hlutinn hefur þetta vald, hún undirbýr málin betur og freistar þess að fá meira en tvo þriðju með sér á málin. Með því móti drögum við úr átökum á þinginu (Forseti hringir.) og getum losnað úr þeirri úlfakreppu sem við erum í með þá stöðu að ræðustóll Alþingis er eina stjórntæki minni hlutans.



[11:07]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ekki svo að engin rök séu með því að minni hluti þings geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, en þetta þarf allt að vega og meta hvað á móti öðru. Þar sem slíkum rétti er til að dreifa, eins og í Danmörku, hefur það heyrt til algerra undantekninga að honum sé beitt. Þá mundi einhver segja að það væri vegna þess að menn hafi leitað málamiðlana. Samt hafa menn þar tekist mjög harkalega á um ákveðin málefni.

Við skulum líka horfast í augu við að það kann að skapast freistnivandi í erfiðum málum sem þarf að leiða til lykta á grundvelli fulltrúalýðræðis og með hangandi yfir sér rétt fólks til að kalla eftir þjóðaratkvæði um málið. Þá kann að vera freistandi að vísa málum til þjóðarinnar við ákveðnar aðstæður og það skal ekki gert lítið úr þeirri stöðu sem þannig kann að rísa. En aðalatriðið er að (Forseti hringir.) mér finnst þetta ekki vera alveg svart/hvítt, mér finnst bara draga mjög úr þörfinni fyrir þann tiltekna rétt þegar þjóðin hefur fengið hann í sínar hendur.