144. löggjafarþing — 144. fundur
 2. júlí 2015.
samgönguáætlun.

[11:09]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með samgöngumál. Það er sá málaflokkur sem við þingmenn fáum hvað oftast fyrirspurnir um, ekki síst núna þegar samgönguáætlun hefur tvisvar verið lögð fram án þess að hún hafi verið afgreidd. Og bara til upprifjunar þá var samgönguáætlun til fjögurra ára lögð hér fram í fyrra, í lok marsmánaðar. Hún fékk verulega umfjöllun hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Að mig minnir lauk þeirri umfjöllun þó ekki. Ný og endurskoðuð fjögurra ára samgönguáætlun kom fram, lögð fram af hæstv. innanríkisráðherra núna undir lok þings, þ.e. í lok maí. En nú liggur fyrir að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur lokið umfjöllun sinni, hún leggur raunar til verulegar breytingar, verulegar viðbætur við þá áætlun sem hæstv. ráðherra lagði fram. Minni hlutinn styður þær viðbætur, að því er mér hefur skilist, en leggur til að auki aðrar viðbætur.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra um svör við fyrirspurnum í ljósi þess að við munum ekki ljúka þessu máli, og við vitum að beðið er eftir þeim um land allt. Sjálf hef ég öðlast gríðarlega þekkingu á veganúmerum í gegnum allar þessar fyrirspurnir frá fólki um land allt sem spyr mig hvað eigi nákvæmlega að gera við þjóðveg 30 og þjóðveg 643, og svo mætti lengi telja. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um í fyrsta lagi er: Eigum við von á því að þessi áætlun verði þá lögð fram strax í haust þannig að unnt verði að ljúka henni? Og í öðru lagi, því að um það er líka töluvert spurt: Eigum við þá ekki von á því að hæstv. ráðherra leggi fram endurskoðaða áætlun með viðbótum meiri hlutans eða verður sett í gang einhver ný vinna í ráðuneytinu til þess að vinna úr tillögum meiri hlutans? Það finnst mér mikilvægt. Það er að minnsta kosti það sem framkvæmdaþyrsta landsmenn þyrstir í að vita.



[11:11]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er nú reyndar svo að þetta er í þriðja sinn sem samgönguáætlun er lögð fram og nær ekki fram að ganga. Ég lét það þó fylgja þegar ég mælti fyrir henni mjög seint nú í vor, og bað þingið afsökunar á því hversu seint hún væri fram komin, að það væri ekkert víst að hægt væri að afgreiða hana. Af minni hálfu var það því alltaf ljóst, í ljósi þess hve seint hún kom fram, að það væri alveg eins líklegt að hún næði ekki fram að ganga.

Eins og við þekkjum fara umtalsverðir peningar í samgöngumál og í þeirri samgönguáætlun sem þarna var lögð fram var um að ræða töluverða viðbót við fjármagn til samgöngumála, sérstaklega þó á síðari hluta tímabilsins. En sá ljóður er alltaf á tillögum um samgönguáætlun að hún er aldrei fjármögnuð fyrr en fjárlagafrumvarpið hefur verið samþykkt. Og kannski sjáum við það betur núna þegar líða tekur á haustmánuðina og þegar samgönguáætlun verður lögð fram að nýju, sem ég ráðgeri snemma í haust, þá munum við að sjálfsögðu vera búin að sjá að minnsta kosti hvernig árið 2016 lítur út.

Það er mjög ólíklegt að ég muni leggja fram samgönguáætlun, að minnsta kosti þegar litið er til fyrri hluta tímabilsins, þar sem um er að ræða einhverjar óskatölur í henni sem ekki standast síðan fjárlög. Við vitum að það er mikil fjárfestingarþörf í samgöngum. En allar þær óskir sem landsmenn hafa og hafa birst í þinginu og sem ég hef heyrt, og ég hef sjálf miklar óskir, get ég ekki uppfyllt í þeirri tillögu sem ég mun leggja fram, það er alveg ljóst. Ég tel hins vegar mikilvægt að þegar hún kemur fram, og ég vonast svo sannarlega til þess að það verði mjög snemma á haustmánuðum, muni ég einnig geta lagt fram tólf ára samgönguáætlun. Þá fær maður kannski betri yfirsýn yfir þennan málaflokk næstu árin.

Mér finnst hins vegar mikilvægt, og ég held að það mundi horfa til bóta að hún rímaði betur við áætlanir í ríkisfjármálum þannig að hún sé ekki einhver óskalisti heldur raunveruleg áætlun um aðgerðir sem hægt er að fara í.



[11:13]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þarna tæpir hæstv. innanríkisráðherra á mjög mikilvægu máli, sem er samspil laga og annarra samþykkta þingsins við fjárlög. Þar hefur stundum verið misbrestur á og stundum láta menn eins og fjárlög séu öllu öðru yfirsterkari, eins og sjá mátti í málflutningi í nýlegum dómi sem féll um túlkun fyrir heyrnarlausa þar sem um er að ræða stjórnarskrárvarin réttindi sem ekki er hægt að segja að lúti fjárlögum.

Ég skil klemmu hæstv. innanríkisráðherra, sem er með þessa ályktun til þingsályktunar, og síðan þarf að samrýma ályktunina fjárlögum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar og þær upplýsingar sem hún gaf hér. Það er auðvitað mjög bagalegt að þetta sé í þriðja skipti sem afgreiðslu samgönguáætlunar er frestað, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra sagði það líka skýrt hér að áætlunin mætti ekki vera óskalisti. Þá langar mig að spyrja: Er ráðherra sammála þeim breytingum sem meiri hluti (Forseti hringir.) hv. umhverfis- og samgöngunefndar leggur til í nefndarálitinu?



[11:14]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála ýmsu í þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn kom fram með og ég er sammála ýmsum öðrum tillögum sem heyrst hafa frá ýmsum þingmönnum hér og sveitarstjórnarmönnum og fleirum. Ég get bara ekki uppfyllt allar þær óskir sem þarna birtast, og svo sannarlega ekki á næsta ári. Við vitum til dæmis um þá fjárþörf sem er í, ekki bara vegakerfinu, heldur líka í hafnarframkvæmdum. Ég get bara nefnt sem dæmi að í þessari áætlun var gert ráð fyrir 900 millj. kr. í hafnarframkvæmdir fyrir árið 2016. Við vitum að flestar hafnir landsins voru byggðar þegar mikill vöxtur var í fiskveiðistjórn á sjötta áratugnum og þær voru þiljaðar á þeim tíma. Nú er komið að því að það þarf að stálþilja meira og minna allar stórar hafnir í landinu. Þessir fjármunir munu hvergi nærri duga í slíka hluti, þannig að fjárþörfin er svo víða.

Við getum tekið líka flugvelli víða um land þar sem einnig er mikil fjárfestingarþörf, þannig að kerfið er stórt og það er dýrt. Það þarf að forgangsraða. En það er alveg útilokað fyrir ráðherra samgöngumála að standa að öllum þeim óskalistum sem fram hafa komið.