144. löggjafarþing — 144. fundur
 2. júlí 2015.
framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[11:16]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið eins konar þumalputtaregla í íslenskri samfélagsumræðu um nokkurt skeið að ef maður vill hleypa upp fundi talar maður um málefni Reykjavíkurflugvallar. Það hefur stundum gerst í þessum sal að færst hefur mikill hiti í umræðu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Mig langar að freista þess að eiga yfirvegaða og rólega og huggulega umræðu um framtíðarmöguleika á flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur eða í Reykjavík. Nú er nýútkomin mjög góð og vönduð skýrsla frá Rögnunefndinni svokölluðu þar sem farið er yfir þá möguleika sem helstir eru í stöðunni. Auðvitað er gengið út frá ákveðnum forsendum í skýrslunni, til dæmis er gengið út frá þeirri forsendu að fjárfesta þurfi í innanlandsflugi og það geti verið gott fyrir landsmenn og aðra sem hingað koma að samtvinna meira millilandaflugið og innanlandsflugið. Margir sem nota innanlandsflugið nota það til þess að fara í millilandaflug, bara svo dæmi sé tekið. Miðað við þessa fjárfestingu, miðað við áætlaða fjölgun ferðamanna til landsins kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að flugvöllur í Hvassahrauni sé hagkvæmasti kosturinn. Auðvitað færum við ekki flugvöllinn þangað fyrir kl. 17 í dag, heldur tekur það dálítinn tíma, þannig að nefndin gerir líka ráð fyrir að farið verði í aðgerðir til að styrkja grundvöll Vatnsmýrarflugvallar þangað til sú færsla á sér stað. Í skýrslunni segir að í Hvassahrauni séu möguleikarnir bestir til stækkunar og veðurskilyrði séu mjög svipuð og í Vatnsmýri.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um viðhorf hennar til skýrslunnar, hvernig henni líst á niðurstöður skýrslunnar og hver verði næstu skref af hálfu ráðuneytisins.



[11:18]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi skýrsla sé komin fram og nefndarstarfi lokið. Við vitum að deilur um Reykjavíkurflugvöll hafa verið viðvarandi, eins og hv. þingmaður nefndi, og málið hefur á margan hátt verið mjög erfitt innan höfuðborgarinnar og jafnframt hefur verið mikill núningur milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar, sem aldrei er gott. Við vitum að málið hefur verið þungt í vöfum.

Í þessari skýrslu svokallaðrar Rögnunefndar finnst mér felast mikil langtímahugsun í flugvallarmálum, sem ég held reyndar að sé mjög mikilvæg. Ég held að þegar flugrekstur er skipulagður verði að horfa til langs tíma, það verði að horfa til þeirra gríðarlegu fjárfestinga sem þar eru undir. Það þarf líka að horfa til þeirra fjárfestinga sem þegar eru fyrir hendi í flugvallarrekstri. Þegar litið er til ríkisins er það nú þannig að ríkið rekur Keflavíkurflugvöll. Það stendur fyrir verulegum fjárfestingum þar nú um stundir og er ekki ólíklegt að ríkið muni þurfa að fara í verulegar fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli. Þegar litið er til framtíðarhugsunar eins og þarna kemur fram verður því líka að líta til þess að ríkið hefur mjög miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna millilandaflugs á Keflavíkurflugvelli.

Þar til annar flugvöllur er fyrir hendi og verður tilbúinn, og það kemur fram í niðurstöðu Rögnunefndarinnar, verður Reykjavíkurflugvöllur auðvitað þar sem hann er í öruggum rekstri. Þá er það skylda mín sem yfirmanns flugmála hér á landi að tryggja að það öryggi sé fyrir hendi og alveg ljóst. Ég mun ekki geta hugsað mér að bera ábyrgð á neinum afslætti í því efni meðan ég sit í þessum stól.

Þetta þarf að hafa í huga. Svo liggur líka fyrir að það er stefna þessarar ríkisstjórnar að flugvöllurinn skuli vera í Reykjavík. Það þekkjum við allt saman. Nú er bara komið að því að taka við þessum (Forseti hringir.) niðurstöðum, leiða saman þá aðila sem að þessu máli koma og hugsa það áfram til lengri tíma, (Forseti hringir.) en alltaf þó með það í huga að á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti (Forseti hringir.) verðum við að vera örugg um að Reykjavíkurflugvöllur sé tryggður.



[11:20]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Það er alveg ljóst að auðvitað verður Reykjavíkurflugvöllur þarna, hann færist ekki strax. En það er einmitt verið að reyna að horfa til langs tíma og einnig er verið að horfa til langs tíma í aðalskipulagi Reykjavíkur. Mér finnst stundum þeir hagsmunir gleymast í þessu að borgin vill haga uppbyggingu sinni þannig að byggðin verði þéttari, og það er skynsamlegt að mínu mati. Það þýðir heilbrigðari lífsstíl, umhverfisvænni lífsstíl og þar fram eftir götunum. Það er mikið hagsmunamál sem þarf líka að meta til fjár í þessu, en Rögnunefndin hefur skilað skýrslu sem mér finnst mjög þarft og yfirvegað innlegg í þessa umræðu alla. Mér finnst mjög athyglisvert að hún kemst að þeirri niðurstöðu að miðað við þær fjárfestingar sem þarf til að byggja upp innanlandsflugið svo það nýtist landsmönnum og ferðamönnum henti Vatnsmýrin ekki, það sé miklu dýrara að (Forseti hringir.) byggja þannig flugvöll þar, ódýrast sé að gera það í Hvassahrauni.

Má ég biðja um viðhorf hæstv. ráðherra bara til þeirrar staðhæfingar sem mér finnst koma fram í skýrslunni?



[11:22]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Það er nefnilega þannig að menn hafa haft ólíkar skoðanir milli ríkis og borgar á þessum flugvallarmálum. Við vitum að sjónarmið meiri hlutans í Reykjavík er mjög eindregið, og reyndar fleiri, að flugvöllurinn skuli víkja úr Vatnsmýrinni, það kemur fram í aðalskipulagi, en ríkið hefur haft önnur sjónarmið. Það hefur lengi verið vandræðalegt, að mér hefur fundist, hversu illa mönnum hefur tekist að ná saman þótt sjónarmiðin séu ólík. Það verður alltaf þannig að annars aðilinn getur ekki bara ráðið öllu, þarna verður að koma einhver önnur niðurstaða, held ég. Það er líka mjög mikilvægt að menn tali bara hreint út um hvernig hlutirnir eru og reyni ekki að fela þá og mála þá einhverjum öðrum litum. Þar er það bara þannig að sjónarmið ríkisins hefur verið það að Reykjavíkurflugvelli sé ágætlega borgið þar sem hann er þar til annar flugvöllur er tilbúinn, hvenær sem það verður.

Varðandi það sem þingmaðurinn spurði sérstaklega að er það líka þannig í niðurstöðunni að menn tala um sjónarmið millilandaflugsins samanber innanlandsflugið, hvernig það geti tengst saman. Þá verðum við líka að líta til þeirrar gríðarlegu fjárfestingar sem ríkið (Forseti hringir.) stendur núna í á Keflavíkurflugvelli. Möguleikar ríkisins í fjárfestingum eru mjög þröngir nú um stundir þannig að (Forseti hringir.) það er mjög erfitt fyrir ríkið að fara að ætla sér að setja gríðarlega fjármuni í þetta og hitt o.s.frv., hversu mikilvægt sem það er, þegar við getum ekki tryggt slíka fjármuni.