144. löggjafarþing — 144. fundur
 2. júlí 2015.
veiðigjöld, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 692. mál (veiðigjald 2015–2018). — Þskj. 1576, brtt. 1572.

[11:30]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór hér mikinn í gær þegar þetta mál var á dagskrá. Má segja að hann hafi hjakkað svolítið í gamla farinu og gaf tilefni til þess að því yrði svarað sem þar kom fram. Hann taldi að svokallaða auðlindarentu væri mjög auðvelt að finna og færði fyrir því ákveðin rök. Þessu heldur hv. þingmaður fram þrátt fyrir að hafa sjálfur stýrt vinnu í fjögur ár við að reyna að komast að hinu eina sanna varðandi auðlindarentu. Sú vinna hefur síðan haldið áfram og hefur þar með staðið yfir í sex til sjö ár. Niðurstaða okkar helstu sérfræðinga á þessum vettvangi er sú að það sé útilokað finna hina einu sönnu auðlindarentu í sjávarútvegi, þ.e. einhvern umframhagnað sem verður til af því að hafa aðgang að takmarkaðri auðlind. Menn þurfa að finna einhverja sanngjarna gjaldtöku sem komið getur frá íslenskum sjávarútvegi til samfélagsins umfram það sem önnur atvinnustarfsemi greiðir almennt. Það hlýtur þó að leiða hugann að því hvernig við ætlum að tryggja samspil þeirrar gjaldtöku af sjávarútvegi og annarra atvinnugreina sem nýta náttúruauðlindir landsins, svo sem ferðaþjónustu og orkuiðnaði. Það hlýtur að vera verkefni okkar í framtíðinni.

Því var einnig haldið fram af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hægt væri að innheimta miklu hærri veiðigjöld. Sjálfur hafði hann hugmyndir um að þar væri um að ræða upphæðir sem gætu numið allt að 25 milljörðum kr. Það er náttúrlega engin samkvæmni í slíkum málflutningi, virðulegur forseti, þegar því er haldið fram á sama tíma og lögð er fram tillaga um að veita aukinn afslátt af veiðigjöldum, eins og tillaga Vinstri grænna ber með sér sem lögð hefur verið fram við frumvarpið.

Fólk verður að tala skýrt. Fólk verður að hætta að blekkingum. Það er alveg lágmarkskrafa að það sé einhver heiðarleiki í umræðunni á Alþingi þegar kemur að þessum málum sem öðrum. Við fórum vel yfir það, margir þingmenn, í eldhúsdagsumræðum í gær hversu mikilvægt það væri fyrir Alþingi að stunda heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð til þess að endurheimta það traust sem við viljum öll að þjóðin hafi á þessari mikilvægu stofnun. Það felst ekki í þeim málflutningi sem stundaður hefur verið um íslenskan sjávarútveg.

Það vantar algerlega tillögur frá Vinstri grænum og reyndar hafði formaður Samfylkingarinnar líka orð á því að verið væri að gefa eftir milljarða verðmæti sem hægt væri að nota í uppbyggingu velferðarkerfisins með þeim lækkunum á veiðigjöldum sem átt hafa sér stað, eins og það var orðað. Sú lækkun er út af fyrir sig orðum aukin, vegna þess að á þessu kjörtímabili hafa verið innheimt hærri veiðigjöld en nokkru sinni á síðasta kjörtímabili, þó að áform síðustu ríkisstjórnar í orði hafi verið þau að fara í einhverja vegferð sem var svo óralangt frá öllum raunveruleika. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að forustumenn þeirra stjórnmálaflokka sem svo tala komi fram með tillögur um hvað stöndugri og sterkari fyrirtækin í íslensku sjávarútvegi eigi að borga í veiðigjöld. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segi fólki það fyrir austan, á Vopnafirði og Þórshöfn, í Neskaupstað og á Reyðarfirði, hversu mikið hann ætlar að taka í skatta af þeim uppsjávarfyrirtækjum sem byggt hafa upp þar gríðarlega öflug og stór fyrirtæki og eru burðarásar í atvinnulífi þess kjördæmis. Það má líka nefna Dalvík og Akureyri í þessu samhengi. En þar komum við að tómum kofanum. Þetta er ekkert annað en orðagjálfur, marklaust orðagjálfur. Ábyrgðarlaust. Algerlega ábyrgðarlaust. Svo er komið hér með yfirboð á afslátt til meðalstórra fyrirtækja sem er reyndar hærri í þessu frumvarpi en hann hefur nokkru sinni verið, líka í samanburði við það sem gerðist á síðasta kjörtímabili.

Það er eitt sem verður að hafa í huga í þessu samhengi og er skýrt dæmi í huga okkar allra sem höfum áhuga á atvinnuþróun í landinu. Við fáum fréttir af Actavis þessa dagana þar sem 300 manna framleiðsluvinnustaður mun hverfa af landi brott innan tveggja ára. Það er vegna hagræðingar í rekstri alþjóðafyrirtækis. Það er heppilegra fyrir þá að stunda ekki framleiðsluna eins og hún hefur verið byggð upp hér á landi þar sem eldavélin er hreinlega of lítil fyrir þá mörgu potta sem elda þarf í á hverjum tíma. Það þarf sem sagt alltaf að vera að skipta um potta á eldavélinni og það tekur tíma. Framleiðslueiningin verður flutt til Búlgaríu, en hjá þessu stóra og öfluga fyrirtæki verða reyndar eftir um 400 störf í landinu sem snúa að lyfjaþróun, lyfjamarkaðssetningu, leyfisveitingum á alþjóðamarkaði og fjármálastjórnun. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá fyrirtækinu stendur ekki til að flytja þá starfsemi, miklu frekar munu menn horfa til þess að styrkja hana.

Auðvitað hefði maður viljað sjá að rekstrarumhverfi svona framleiðslufyrirtækja væri með þeim hætti á Íslandi að þetta fyrirtæki hefði kosið að stækka eininguna á Íslandi og segja: Heyrðu, þarna getum við byggt upp stærri eldavél sem tekur stærri potta og getur afkastað meira. Það er því miður ekki niðurstaðan núna, vonandi tekst okkur samt að nýta það áfram, vonandi koma tækifæri, án þess að það sé nokkuð í hendi, sem nýta áfram þann sérhæfða starfskraft sem byggst hefur upp í þessu fyrirtæki.

En setjum það svo í samanburð við sjávarútveg sem við ræðum hér núna og þá auknu gjaldheimtu sem vinstri flokkarnir tala alltaf um sem sjálfsagða á þessa atvinnugrein. Setjum það í samhengi. Er eitthvert vandamál fyrir íslenskan sjávarútveg að flytja fulla framleiðslu sína á fiskafurðum til útlanda? Til Búlgaríu eða annarra landa í Evrópu? Jafnvel Kína? Bandaríkjanna? Er það eitthvert vandamál? Nei, það er ekkert vandamál, virðulegur forseti.

Norðmenn búa slíkar við aðstæður í sjávarútvegi sínum. Vegna slakrar samkeppnisstöðu þeirra í fullvinnslu sjávarafurða á vinnslan sér stað í mjög litlum mæli í Noregi í samanburði við okkur. Fiskurinn er í miklum mæli fluttur óunninn úr landi. Viljum við skapa slíkt umhverfi hér? Gríðarleg bylting stendur fyrir dyrum í vinnslu á bolfiski þar sem talið er að rekstrareiningarnar muni á næstu árum fara úr því að vera heppilegar eða sjálfbærar, í kringum tvö til þrjú þúsund tonn af vinnslu, upp í 10 þúsund tonna vinnslu. Við munum sjá gríðarlega framlegðaraukningu verða til í íslenskum sjávarútvegi við slíka tæknivæðingu og við munum sjá miklu færri hendur framleiða miklu meiri verðmæti en nokkru sinni áður í bolfiskinum. Við höfum stigið þau skref í uppsjávargeiranum nú þegar. Viljum við bjóða þeirri hættu heim að slíkar verksmiðjur verði reistar á erlendum vettvangi af því að við erum að skapa hér umhverfi sem fælir þessa vinnslu úr landi? Nei, virðulegur forseti. Ég vil það ekki. Ég mun berjast með kjafti og klóm gegn því að slík þróun eigi sér stað á Íslandi.

En það er nákvæmlega það sem liggur í þeim orðum þegar menn tala um að hin öflugri fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi geti verið skattlögð undir drep, geti borgað hér 25–30 milljarða í aukaskatt. Það er greinilega verið að tala um að leggja þennan skatt á örfá fyrirtæki í greininni, sem eru reyndar burðarásar greinarinnar og skapa gríðarleg verðmæti fyrir íslenska þjóð. Menn verða að fara að sýna einhverja ábyrgð og einhvern heiðarleika í þessari umræðu. Það er algjör lágmarkskrafa, og hætta þeim blekkingum sem haldið hefur verið fram gagnvart íslenskri þjóð um það hvað hægt er að gera gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Það er nefnilega of seint í rassinn gripið, virðulegur forseti, ef við förum að missa þá starfsemi úr landi.

Ég kalla eftir því að þingið fari að sýna ábyrgð og festu í þessu. Og ég kalla eftir því að við tökum málefnalega umræðu um það með hvaða hætti við getum hagað starfsumhverfi þessarar greinar, að við tökum saman höndum um það, ábyrgðarfullir aðilar í íslenskri pólitík úr öllum flokkum, að sætta sjónarmið og skapa hér umhverfi sem mun í framtíðinni skila enn meiri verðmætum fyrir samfélag okkar.



[11:41]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld er komið til 3. umr. og umræða er komin að lokum vil ég segja í byrjun að því miður gat ég ekki verið við 2. umr. og atkvæðagreiðslu sem hefur verið um þetta mál og þær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram, vegna þess að ég tók að mér, fyrir hönd virðulegs forseta Alþingis, að fara á fund forseta Vestnorræna sambandsins í Færeyjum síðustu tvo daga. Því vil ég nota tækifærið hér við 3. umr. og fara aðeins yfir frumvarpið, það mál sem enn einu sinni er til umræðu og mun vafalaust verða á komandi árum.

Það er líka mjög gott, eins og ég átti kost á, að heimsækja frændur okkar Færeyinga og ræða þau mál sem þar voru á dagskrá. Það var kannski enn mikilvægara að geta sest niður með þeim og rætt við þá meðal annars um fiskveiðistjórn, um veiðigjöld, hvernig kvótum er úthlutað og bera það saman, þ.e. sem við erum að gera og frændur okkar Færeyingar. Það var til dæmis mjög ánægjuleg kvöldstund þegar við skiptumst á skoðunum við kollega okkar um uppboð á makrílkvóta, sem átti sér stað árið 2011, og lesa stóra og mikla skýrslu sem norskur sérfræðingur hefur skrifað fyrir færeyska jafnaðarflokkinn og tók saman 80 síðna skýrslu um það og ýmislegt fleira í fiskveiðistjórnarmálum. Sitt sýnist hverjum. Þar eru líka deilur eins og hér, hvernig úthluta á kvótum, hvernig á að veiða, hvernig á að fá sem mestan arð út úr þeim veiðum, hvaða rekstrarskilyrði eiga fyrirtækin að hafa og til hve langs tíma o.s.frv. Þetta var mjög ánægjulegt samtal. Ég kem miklu fróðari heim um hvað þeir eru að hugsa og hvaða umræða er þar. Þeir sögðu líka að þeir væru fróðari eftir samtal okkar um hvað við erum að gera á Íslandi og vitna oft í fiskveiðistjórnarkerfi okkar og miklar umræður voru einmitt um álagningu veiðigjalda eins og við erum að ræða hér og nú, hvaða aðferð er notuð og hvernig menn sjá þetta í framtíðinni.

Ég hef áður sagt, virðulegi forseti, að allir flokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa ályktað um það að sjávarútvegurinn sem fær úthlutað fiskveiðiheimildum, veiðir fiskinn sem þjóðin á í sjónum, sem er sameiginleg auðlind, allir flokkar hafa ályktað um það að fyrir það skuli greiða hóflegt veiðigjald. Allir flokkar. En í nefndaráliti, sem ég skrifa upp á ásamt hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur, er líka fjallað um það hvaða aðferðafræði við ættum að nota. Ég vildi, til að taka saman á einn stað, draga fram það sem kemur fram í nefndarálitinu hvernig veiðigjöld hafa þróast í gegnum árin, en þau eru í raun og veru fyrst lögð á fiskveiðiárið 2002/2003. Í nefndaráliti okkar er hægt að sjá þessa þróun. Í nefndarálitinu dreg ég líka fram þau gögn sem við höfum, sem talið er að séu bestu gögn um afkomu veiða og vinnslu, þ.e. tölfræðin sem Hagstofan tekur saman og hefur gert í áratugi. En eins og Hagstofan segir sjálf, og ég er í raun og veru sammála því, var þessi tölfræði aldrei hugsuð sem skattstofn til að leggja á veiðigjöld. Þess vegna hafa verið gerðar breytingar sem við erum að vinna okkur að og tekur tvö ár í viðbót, að ná betur í rauntímaupplýsingar til að leggja á hóflegt veiðigjald. Síðan verði hér á Alþingi vonandi samkomulag milli allra flokka hvað hóflegt veiðigjald er, hvað þjóðin á að fá í greiðslu fyrir nýtingu á þessari sameiginlegu auðlind.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að segja að auðvitað á það að eiga við um aðrar auðlindir landsins. Minni þó á að við erum að fá, allir Íslendingar, í raun og veru auðlindagjald á okkar orku á hverjum einasta degi með mjög lágu og sögulega lágu orkugjaldi, sama hvort það er fyrir rafmagn eða heitt vatn. Það er auðlindagjald sem þjóðin fær af orkunni eins og er í dag. En við vitum og höfum heyrt upplýsingar um hvað Landsvirkjun mun gefa af sér í arð á komandi árum sem verður þá aukaarður hvað þetta varðar.

En aftur að fiskveiðistjórn og veiðigjaldi. Þau bestu gögn sem menn telja sig hafa og veiðigjaldsnefnd notar í útreikningum sínum við útreikning á afkomustuðlum og áætluð veiðigjöld eru niðurstöðutölur frá Hagstofunni, sem þó eru allt að tveggja ára gömul gögn. Þannig erum við að takast á um það hérna núna að leggja á veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár eftir þeim útreikningum og niðurstöðum sem koma út úr veiðum og vinnslu árið 2013. Þar er afkoman fyrir árið 2013 sem betur fer miklum mun betri en fyrir árið 2012 þar sem hreinn hagnaður greinarinnar var árið 2012 um 46 milljarðar kr., en árið 2013 var hann kominn upp í 61 milljarð. Þannig að skattstofninn sem við erum að leggja á núna eru þessar afkomutölur og vinna veiðigjaldsnefndar vegna ársins 2013. Það hef ég áður sagt að er ekki góður grunnur til að leggja á. Að leggja á veiðigjöld verður að vera virkt í raun og veru miðað við daginn í dag eða það sem er að gerast á viðkomandi ári. Ef ástand er gott á mörkuðum og fiskast vel og mikil og góð sala er á háu verði, sem á náttúrlega alltaf að vera keppikefli okkar og er, þá greiðir greinin hærra veiðigjald. Gerist hins vegar eitthvað á mörkuðum eins og ýmislegt bendir til núna, t.d. hvað varðar makríl út af ástandi í Úkraínu og Rússlandi, þá getur verð fallið og þá er auðvitað mjög eðlilegt að veiðigjöld verði lægri það árið. En ef þetta mundi gerast í sumar, sem ég vona auðvitað að gerist ekki hvað varðar sölu og afurðaverð fyrir makríl, þá kemur til lægri veiðigjalda eftir tvö fiskveiðiár. Við sjáum auðvitað að það gengur ekki.

Virðulegi forseti. Síðan kemur annar þáttur inn í þetta og verður alltaf deiluefni, það er hverjir geta borgað veiðigjald. Það hefur alltaf komið fram í vinnu atvinnuveganefndar alveg frá því kerfinu var breytt og nýtt veiðigjald lagt á fyrir árin 2013/2014, ef ég man rétt, að hið sérstaka veiðigjald kom þá fyrst inn, þá hefur alltaf þurft að taka tillit til þeirra þátta og ræða það. Þess vegna segi ég að mjög mikilvægt er að við reynum að þróa okkur í átt að því að verða sammála um hver stofninn eigi að vera, og það verður þá kannski ákvörðun hér á Alþingi hvert gjaldið er. En stóru, sterku fyrirtækin hafa sagt, og kom fram á aðalfundi hjá einu af stærstu fyrirtækjunum, þ.e. HB Granda, þar sem stjórnarformaður þess, Kristján Loftsson, sagði á aðalfundi að það fyrirtæki gæti greitt sín veiðigjöld og væri ekkert óánægt með það, en bætti því auðvitað við að það væri vonandi þáttur í því að skapa meiri sátt um greinina.

Þannig var það þegar var verið að vinna þetta á sínum tíma, við sáum töflu yfir 25 stærstu fyrirtæki sem greiða ábyggilega 85–90% af gjaldinu í dag. Þau eru kannski aflögufær. En þá kemur vandamálið að nota sömu aðferðafræði fyrir þá sem eru með 50 tonn, 100 tonn, 200 tonn eða 500 tonn. Þó svo að ég vilji nú ekki eingöngu taka undir það og segja að samþjöppun hafi átt sér stað í greininni vegna veiðigjaldanna, ég vil ekki taka svo djúpt í árinni og tel að menn séu frekar að nota sér það sem afsökun fyrir það að selja sig út úr greininni, þá má það ekki verða þannig að álagning veiðigjalda verði alltaf það flöt og eins fyrir alla, jafnt allra stærstu, smáu og meðalstóru, að það geti leitt til samþjöppunar í greininni. Það held ég að sé ekki okkur til góðs. Vafalaust yrði það mjög hagkvæmur og góður rekstur ef öll fiskveiði færi fram í gegnum eitt fyrirtæki, en það verður vonandi aldrei.

Þess vegna var í breytingartillögu okkar minni hlutans sett inn aukin upphæð og hækkuð úr 300 milljónum, sem er áætlað í dag að fari í svokallað frítekjumark eða afslátt upp í 500 milljónir eða aukið um 200 milljónir og útfært á þann hátt sem þarna er. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég gat ekki tekið þátt í þeirri vinnu og útfærslu við það, en stend að sjálfsögðu bak við það og vona að það sé bara hin besta leið sem valin var með aðstoð góðra manna. En ég ætla líka að segja það, virðulegi forseti, og það er það sem við gagnrýnum mjög í nefndaráliti okkar hvað málið kom seint fram og í raun og veru hefur ekki verið unnið mikið með það, það var fjórar vikur í atvinnuveganefnd og þá var ekkert unnið með málið.

En það sem ég er að segja einfaldlega, virðulegi forseti, er að okkur alþingismenn skortir betri gögn til að vinna með álagningu veiðigjalda til að reyna að komast að niðurstöðu hvað sé hóflegt veiðigjald hvers fiskveiðiárs. Þetta eru mjög flóknir útreikningar og gögn eru yfirleitt þannig að maður er ekki viss um hvort allur afli er kominn inn. Stundum vantar kannski stóran hluta af loðnu, stundum vantar aukninguna sem hefur verið í þorskveiðum og öðru slíku, þannig að það er svolítið flókið mál að finna þetta út. Vonandi verður það þannig að okkur takist að færa okkur fram á við í átt til betri sátta þannig að við förum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um gjaldstofninn, hver afkoman er og þá stendur eftir hvað á að borga. En eins og sagt er í nefndaráliti, þá er það svo ef ég man rétt að á þessu fiskveiðiári er veiðigjald, heildarveiðigjald, sem greitt er til ríkisins af öllum fyrirtækjum, jafnt stórum sem smáum, í kringum 17,2% af hreinum hagnaði, eða EBT, veiða og vinnslu árið 2012 samkvæmt töflunni. Ef sú sama tala væri núna væri það hærra út af auknum afla og síðast en ekki síst miklu betri afkomu, sem er ánægjulegt að geta talað um, sem er milli áranna 2012 og 2013.

En grundvallaratriðið og það stærsta sem ég vildi nefna, virðulegi forseti, er að ég held að við séum áfram að færa okkur í átt að því að hafa kerfið klárt sem við ætlum að vinna eftir. Það er mikilvægt. Þá stendur eftir gjaldið. Í stuttu máli er það þetta sem ég vildi koma hérna á framfæri við 3. umr. málsins, en ítreka það sem ég sagði áðan að í þessari töflu eru fróðlegar upplýsingar hvernig þetta gjald hefur verið lagt á, eins og kemur þar fram, uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs, þá voru heildarveiðigjöldin fiskveiðiárið 2012/2013 um 10,4 milljarðar kr. og höfðu þá hækkað úr rúmum 4 milljörðum árið þar á undan. Þar er auðvitað stærst inni að sérstaka veiðigjaldið kom þar inn og almenna gjaldið var hækkað líka. Það var á okkar erfiðleikaárum sem þetta var gert. En ég minni líka á að þarna var töluvert mikið að breytast í umhverfi sjávarútvegsins, bæði hvað varðar skuldalækkun, auðvitað þannig að við vorum að fá miklu meira fyrir afurðir okkar út af hruni krónunnar, en almenningur fær svo aftur hinar afleiðingarnar af hruni krónunnar, þ.e. að allt verður dýrara í landinu.

Hinn gullni meðalvegur er vandrataður í þessu eins og svo mörgu öðru. En aðalatriðið er að hér er tekist á um það hvert gjaldið skuli vera á næsta ári. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það var fróðlegt að ræða við frændur okkar Færeyinga um hvernig þetta er gert. Það var líka athyglisvert að hlusta á hvernig þeir hugsa til okkar og horfa til þess hvort þeir eigi að gera eitthvað svipað. Þetta vildi ég láta koma fram á þessu síðasta stigi við þessa síðustu umræðu um veiðigjöldin.

Ég segi líka, virðulegi forseti, miðað við það að meiri hlutinn þarf að fara að gera breytingartillögur út frá því kerfi sem meiri hlutinn setti á síðasta ári, að fara þurfi að breyta því, þá er ég alveg 100% sannfærður um að þetta á að vera til eins árs en ekki þriggja ára. Hvað ætla menn að gera ef árið 2014 breytist mikið frá því sem var 2013, (Forseti hringir.) til dæmis hvað varðar reiknaðan gengismun eða (Forseti hringir.) ástand á mörkuðum?



[11:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir lokaorð síðasta hv. ræðumanns Kristjáns L. Möllers. Mér finnst alveg óborganlegt að núverandi ríkisstjórn ætli að ganga frá veiðigjöldunum með þessum hætti til þriggja ára og talsvert inn á næsta kjörtímabil þegar hún hefur sjálft í hvert einasta skipti í þrjú ár í röð þurft að breyta með handafli veiðigjöldunum og gerir núna, breytir með handafli veiðigjöldunum þó að þau ættu að ákvarðast á grunni þeirrar aðferðafræði sem hún vill festa í lög til þriggja ára. Það segir sína sögu.

Að öðru leyti ætlaði ég örstutt að svara hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem auðvitað hélt sig við sinn hatt hér í ræðu áðan og fór nokkuð mikinn, sakaði aðra um tvískinnung og ef ekki hræsni, að menn mundu flæma sjávarútveginn jafnvel úr landi, hann færi bara á eftir Actavis ef svo héldi sem horfði eða ef menn gengju óhóflega að honum í gjaldtöku.

Hv. þingmaður stillir því þannig upp að það sé mótsögn í því hvað minni hlutann varðar að leggja til vel útfærða breytingartillögu um afslátt til lítilla og meðalstórra útgerða en telja jafnframt að greinin geti í heild borið hærri veiðigjöld. Þetta telur hv. þingmaður vera mótsögn, tvískinnung, hræsni, eitthvað af því tagi. (Gripið fram í.) Eitthvað í þá áttina. Þetta er nefnilega akkúrat öfugt og hugsunin með því að útfæra vel ívilnandi aðgerðir sem létta litlum og meðalstórum fyrirtækjum það að bera veiðigjöldin, á nákvæmlega sama hátt og skuldafrádrátturinn gerir skuldugustu fyrirtækjunum vegna kvótakaupa auðveldara að bera veiðigjöldin, þá þolir greinin að öðru leyti hærri almenn veiðigjöld, vegna þess að það er það sem er verið að leitast við, að koma til móts við þá aðila sem ættu í erfiðleikum með að bera full auðlindagjöld með slíkum ráðstöfunum, eins og að taka tillit til skulda þeirra vegna kvótakaupa og eins og að styðja við bakið á minni einingunum sem hafa auðvitað ekki sömu fjárhagslega burði og ekki jafn ríkulegan aðgang að auðlindinni og þeir stóru hafa og er fullkomlega eðlilegt. Þá þolir greinin að öðru leyti, og afkoma hennar býður upp á það, hærri almenn auðlindagjöld. Þess vegna er þetta ekki mótsögn heldur einmitt í rökréttu samhengi, eins og hv. þingmaður ætti kannski að reyna að skilja.

Hv. þingmaður taldi að það væri skortur á því að menn þyrðu að kannast við stefnu sína í þessum málum og vísaði til þess að menn væru kannski ekki að veifa því í sjávarbyggðunum á Vopnafirði eða Þórshöfn eða Dalvík að þeir teldu að sjávarútvegurinn gæti greitt hærri almenn veiðigjöld ef þau væru skynsamlega útfærð. Það á að minnsta kosti ekki við um þann sem hér talar.

Á sjávarútvegsráðstefnunni 20.–21. nóvember síðastliðinn var ég beðinn af aðstandendum ráðstefnunnar að halda erindi og reyna að svara spurningunni: Hvað er sanngjarnt auðlindagjald? Ég stillti reyndar spurningunni upp svona: Hvað er sanngjarnt auðlindagjald gagnvart hverjum? Vegna þess að það snýr í tvær áttir. Sanngirnin snýr bæði að sjávarútveginum, auðvitað, að honum sé ekki ofboðið með gjaldtökunni, en sanngirnin snýr líka að þjóðinni, eiganda auðlindarinnar sem eðlilegt er að geri tilkall til hluta af rentunni. Ég var ekki að fela niðurstöðu mína í þeim efnum. Í mjög ítarlegu erindi, ég get sent hv. þingmanni a.m.k. glærusýninguna sem fylgdi eða ég studdist við, lagði ég að ég tel býsna traustan staðreynda- og fræðigrunn að því, með því að fara yfir afkomu sjávarútvegsins undanfarin ár með því að skoða framlegðina, með því að skoða eiginfjárþróunina og með því að skoða horfurnar, að 16 milljarðar plús í auðlindagjöld miðað við núverandi afkomu væri hóflegur skerfur til þjóðarinnar — 16 milljarðar plús væru hóflegur skerfur til þjóðarinnar — og við það stend ég. Framlegðin verður sjálfsagt um 80 milljarðar á þessu ári og 16 milljarða auðlindagjöld skilja þá eftir um 65 milljarða í framlegð, fjármunamyndun í greininni, á móti kemur líka einhver lækkun tekjuskatts eftir því sem auðlindagjaldtakan er hærri, og hver ætlar að halda því fram að 65 milljarðar í framlegð sé ekki prýðileg útkoma fyrir greinina heilt yfir séð? Vegna þess að aldrei hefur íslenskur sjávarútvegur í sögu sinni fyrr en árið 2009/2010 séð framlegðartölur af því tagi. Hann hefur búið við einstakt góðæri núna og er að gera áttunda árið í röð. Það er ánægjulegt, það er gleðilegt, það er gott fyrir okkur öll, en við skulum ekki láta segja okkur draugasögur í myrkri. Íslenskur sjávarútvegur er ekkert á leið úr landi þó að hann skilaði hóflegri auðlindarentu til þjóðarinnar.



[12:02]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon erum algjörlega sammála um það að munur er á rekstrarumhverfi fyrirtækja eftir mismunandi útgerðarformi í landinu. Ég held að við séum sammála um að við viljum halda fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi. Staðreyndin er aftur sú að það yfirboð sem birtist í tillögu Vinstri grænna, breytingartillögu þeirra við þetta frumvarp, snýr að því að gefa aukinn afslátt til meðalstórra fyrirtækja, eins og það er lagt fram. Þetta mun ekki koma minnstu fyrirtækjunum til góða neitt umfram það sem gert er ráð fyrir í afsláttarfyrirkomulagi, sem er ríflegra en áður, sem núverandi meiri hluti leggur fram. Þá veltir maður því fyrir sér hvað verið er að nálgast og hvar mörkin liggja og hversu mikið af þessari framlegð verður til í fullvinnslu afurðanna á Íslandi. Það er það sem þetta snýst um.

Þannig er að tíu fyrirtæki á Íslandi í sjávarútvegi framleiða 61% af EBITDA. Önnur 35 fyrirtæki framleiða um 29% af EBITDA. Með öðrum orðum eru innan við 50 fyrirtæki með um 90% af EBITDA. Nú er hv. þingmaður farinn að slá af, hann er farinn að gefa afslátt af fyrri hugmyndum sem hljóðuðu upp á 25 milljarða og kominn niður í 16 plús, sá plús er auðvitað óræður en á sér væntanlega rætur að rekja í vinnslu afurða. Blasir það ekki við, Actavis-dæmið er til marks um það, að ef of miklar álögur eru lagðar á framleiðsluna hér á landi, fullvinnslu afurða, getur hún flutt úr landi? Væri til of mikils mælst að hv. þingmaður legði þá fram tillögu um það hvað þessi fyrirtæki, þau örfáu fyrirtæki, þurfa að borga í viðbót í veiðigjöld og kynni þjóðinni og þeim fyrirtækjum hvað hann telji þau geta borgað umfram það sem er verið að (Forseti hringir.) leggja á þau í dag? Ég held að það væri heiðarlegast inn í þessa umræðu að útreikningarnir á því fylgdu. Það ætti ekki að vera flókið miðað við hversu einfalda mynd hv. þingmaður dregur upp í þessu máli.



[12:04]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Breytingartillaga minni hlutans núna og það hvernig hún er útskýrð eða rökstudd er algerlega í anda þess að menn horfast í augu við mismunandi stöðu og mismunandi greiðslugetu mismunandi flokka útgerðaraðila. Ég held að það sé alveg nákvæmlega rétt hugsun sem breytingartillaga hv. þingmanna Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Kristjáns L. Möllers boðar að auka nokkuð í stuðninginn og leyfa honum að teygja sig nokkru lengra upp í hóp millistórra fyrirtækja. Það held ég að sé algerlega rétt áhersla. Hún styður auðvitað mjög vel við bakið á minnstu einingunum og stuðningurinn teygir sig síðan talsvert langt upp í hóp millistærra fyrirtækja. Eða er það ekki það sem menn eru að tala um og það sem menn hafa áhyggjur af, að þar liggi vandinn?

Ég held að ég hafi gert ágætlega grein fyrir sjónarmiðum mínum í þessum efnum og það standi ekkert sérstaklega upp á mig í þeim efnum. Eða hefur hv. þingmaður séð marga aðra flytja hálftíma erindi með milli 20 og 30 glærum og útlistað nákvæmlega, nokkurn veginn í smáatriðum, röksemdirnar fyrir því að sjávarútvegurinn hafi vel burði til að greiða auðlindagjald af þessari stærðargráðu, 16 milljarða plús, ekki afmarkað hugtak, enda eðlilegt þegar menn ræða þetta undir þessum formerkjum. Ég ræddi reyndar það bil sem ég teldi vera þarna í erindi mínu, gætu verið 18–22 eða eitthvað á þeim nótum. Niðurstaðan er einfaldlega sú, og horfum á stóru myndina og fjármunamyndunina, á afkomuna, á styrk sjávarútvegsins sem ánægjulega er búinn að endurheimta að fullu sinn fjárhagslega styrk eins og hann var bestur fyrir hrun, að miðað við núverandi góða afkomu er 16–18 milljarða auðlindagjaldtaka hófleg. Ég minni á og vek athygli á orðinu „hófleg“. Það er hófleg hlutdeild eiganda auðlindarinnar, þjóðarinnar, fyrir sinn skerf.



[12:06]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gríman fer af. Nú er komin aukaálagning á 16 milljarðana sem var talað um áðan, þeir eru orðnir 18 eða 22 og það munar miklu. Það munar ansi miklu hvort við erum að tala um 22 milljarða eða 16. Hversu mikill hluti af því er að verða til við fullnaðarframleiðslu afurða á Íslandi, sem hefur vaxið mjög mikið og á stóran þátt í því hversu íslenskur sjávarútvegur hefur eflt stöðu sína? Er ekki hætta á því að mati hv. þingmanns að við munum horft á sama dæmi og er að gerast núna hjá Actavis, 300 manna framleiðslueining, búið er að fjárfesta í starfsfólki, búið að fjárfesta í húsnæði, búið að fjárfesta í öllum tækjabúnaði, þekkingin er til staðar, reynslan er til staðar, að fyrirtæki sjái sér samt hagkvæmni í því að flytja framleiðsluna til Búlgaríu? Er ekki hætta á því að við lendum í sömu stöðu og Norðmenn sem, reyndar á öðrum forsendum, flytja miklu meira af óunnu hráefni úr landi en við, að við lendum í því sama ef við ætlum að fara of mikið inn í vinnsluhluta greinarinnar til þess að reikna út eðlilega auðlindarentu? Blasir þá ekki við að menn munu skoða það að flytja þessar framleiðslueiningar úr landi? Er það ekki hætta ef við förum of langt?

Ég ítreka aftur spurningu mína til hv. þingmanns, sem telur að hálftími hjá honum í mjög ítarlegu erindi leiði allan sannleika í ljós í þessu, má ég biðja hann að bæta öðrum hálftíma við og reikna þetta niður á fyrirtæki, þannig að hann komi með það svart á hvítu hvað hann telji þau fyrirtæki sem hér eiga undir geta greitt í veiðigjöld og eigi að greiða í veiðigjöld samkvæmt yfirferð hans.



[12:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef satt best að segja engan áhuga á því að eiga orðaskipti við hv. þm. Jón Gunnarsson í formi útúrsnúninga um þessi mál. Ég er hins vegar áhugamaður um þetta mál og vil málefnalega og uppbyggilega umfjöllun um auðlindagjöld og skattalegt fyrirkomulag þegar kemur að nýtingu sameiginlegra auðlinda. Við eigum því miður þó nokkuð í land, Íslendingar, varðandi það að þróa rétt okkar í þeim efnum eins og flestar þróaðar þjóðir í kringum okkur hafa gert. Dæmi: Norðmenn, Kanadamenn, sem eru komnir með tiltölulega mótaða löggjöf um gjaldtöku vegna aðgangs einkaaðila að sameiginlegum auðlindum þjóðanna. Það er það sem við þurfum að gera hér. Auðlindarentuhugsunin er alls staðar að ryðja sér til rúms í þessum efnum. Þegar Ísland var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem kom tvisvar sinnum með öflugar sendinefndir utanaðkomandi sérfræðinga og sinna eigin manna til Íslands til að ræða við okkur um m.a. skattamál, þá bentu þeir sérstaklega á þetta og sögðu: Land eins og Ísland, svona ríkt af náttúruauðlindum, þarf að sjálfsögðu að leggja í vinnu í að móta sína löggjöf á því sviði hvað varðar eðlilega gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindanna. Þeir hafa ítrekað bent á það og þeir hafa gagnrýnt að núverandi ríkisstjórn skyldi ganga jafn bratt í það að lækka veiðigjöldin og hún gerði.

Er hætta á því að íslensk fiskvinnsla eða hluti af starfsemi íslenska sjávarútvegsins fari til Búlgaríu eða eitthvað annað út í lönd út af svona gjaldtöku? Nei, ég held satt besta að segja að það séu hverfandi líkur á því einfaldlega vegna þess að íslenskur sjávarútvegur finnur sér hvergi betri starfsskilyrði en hér. Okkar háþróaða fiskvinnsla er samþætt við útgerðina og vinnur að verulegu leyti ferskt hráefni á markað. Halda menn að menn tækju þorskinn ísaðan í land á Akureyri, flygju honum til Búlgaríu til að flaka hann og svo til baka til Bretlands á markað? Það er auðvitað er eins og hver önnur fjarstæða og styrkur okkar liggur m.a. í þessari samþættingu og það höfum við umfram Norðmenn að við erum með samþætta grein. Þeir sem selja á markaði fóðra aðra aðila sem yfirleitt kaupa þann fisk til að vinna hann og mikið ferskt. (Forseti hringir.) Og ferskleikinn og tímalínan gerir það af sjálfu sér að slík vinnsla fer ekki eitthvað annað. Hún er og verður hér.