144. löggjafarþing — 144. fundur
 2. júlí 2015.
verndarsvæði í byggð, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 629. mál (vernd sögulegra byggða, heildarlög). — Þskj. 1549, nál. m. brtt. 1570.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:30]

[15:22]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér á eftir, við 3. umr., munum við greiða atkvæði um breytingartillögu við frumvarp um verndarsvæði í byggð sem felur það í sér að ákvæði um hverfisskipulag í skipulagslögum haldi gildi sínu, en til einföldunar að tilvísun um varðveislugildi byggðar verði felld úr ákvæðinu.

Þá finnst mér eðlilegt að fara yfir það hér að við meðferð málsins hefur aðkoma almennings að ákvörðunum um verndarsvæði í byggð verið styrkt verulega enda samræmist það markmiðum frumvarpsins og er aðkoma almennings mikilvæg til að markmiðin náist. Þá hefur hugtakanotkun verið samræmd og bætt og með þeim breytingum sem nú eru lagðar til varðandi húsakönnun og hverfisskipulag, ásamt breytingum varðandi hverfisvernd sem samþykkt var við 2. umr., er samspil hverfismatsins við skiplagslög skýrt.



[15:23]
Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð fögnum þessari breytingartillögu sem kemur í veg fyrir að hverfisskipulagið falli úr skipulagslögum, en það hefði verið stórslys og algerlega tilefnislaust. Það breytir því ekki að við munum leggjast gegn þessu frumvarpi þar sem við teljum að það sé óþarft og að markmiðum laganna væri hægt að ná í gegnum skipulagslög og lög um minjavernd.



[15:24]
Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég mun greiða atkvæði með breytingartillögunni sem forðar því stórslysi að hverfisskipulagsákvæði falli út úr lögunum. Frumvarpið er hins vegar alveg ótrúlega illa úr garði gert og alveg sérstakt undrunarefni að sjálfskipaðir talsmenn einkaframtaks í landinu, sjálfstæðismenn, skuli geta greitt atkvæði með svo víðtækum inngriparétti ráðherra í almennan eignarrétt í landinu. Það er algerlega ótrúlegt að sjá það afturhvarf til ráðherraræðis sem er að finna í þessu frumvarpi þannig að jafnvel þó að fagmenn telji ekki ástæðu til friðunar svæða og byggða geti ráðherra samt ákveðið að leggja það fyrir Minjavernd að mæla fyrir um friðun. Það er alger öfugsnúningur frá þeim meginreglum sem við höfum verið að þróa íslenskt stjórnarfar í áttina að og alveg ótrúlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn styðja svona mál.



[15:25]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég verð að taka undir það sem hér var sagt. Vissulega hefur frumvarpið batnað í meðförum nefndarinnar og þar á hv. framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, stóran þátt, en það breytir því þó ekki eins og hér hefur verið rakið að frumvarpið er óþarft. Það er fyrst og fremst til að uppfylla markmið sem kemur fram í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna og hefur ekkert að gera með neina þörf sem snýr að þessum málum.

Ég tek undir það, mér finnst mjög sérstakt að sjá hér þrautreynt sveitarstjórnarfólk, sem finnst það í lagi að ganga svona gegn áliti sveitarstjórna sem hafa látið vel í sér heyra hvað þetta mál varðar. Við getum því ekki greitt þessu frumvarpi atkvæði okkar, frú forseti.



[15:26]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tel að sú breytingartillaga sem hér hefur verið gerð á milli 2. og 3. umr. hafi, í það minnsta fyrir mig, verið grundvallaratriði til að hægt væri að veita þessu frumvarpi stuðning. Hér er hverfisverndin tryggð hjá sveitarfélögum og í skipulagslögum en ég hefði kosið eins og margur annar að þessi mál væru enn og aftur á sama stað og þau hafa verið. En í ljósi þess að hverfisverndin og hverfisskipulagið er komið inn með þessum hætti þá hyggst ég styðja frumvarpið.



[15:27]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í 78. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að sjálfsákvörðunarrétturinn sé hjá sveitarfélögunum nema annað sé ákveðið í lögum. Það er akkúrat það sem við erum að gera hér og nú. Við erum að ákveða með lögum hvort ráðherra geti haft eitthvað um það að segja hvernig megi vernda byggðaheildir eða húsaheildir og ég tel það vera jákvætt.

Á síðasta kjörtímabili var stigið sambærilegt skref þegar 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun var samþykkt, en þar verða sveitarfélög að laga sig að þeim ákvörðunum sem eru teknar á Alþingi.

Ég nefni þetta um leið og ég fagna frumvarpinu vegna þess að sú mýta hefur einhvern veginn verið á kreiki um að skipulagsvaldið sé heilög kýr og við því megi ekki hrófla.



[15:28]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er nú kannski svolítið lýsandi fyrir það ástand sem hefur verið ríkjandi hér á þingi að meira að segja á allan hátt jákvætt mál eins og þetta, sem snýst um að setja Ísland nokkurn veginn á sama stað og nágrannalöndin hafa verið áratugum saman í þessum málaflokki, að jafnvel slíkt mál geti orðið tilefni alls konar útúrsnúninga og upphrópana.

Hvað varðar aðkomu ráðherra, og það er nú rétt að ítreka það vegna þess að hv. þm. Árni Páll Árnason leit algerlega fram hjá því hér áðan að auðvitað snýr þetta verkefni fyrst og fremst að sveitarfélögunum, en hvað varðar aðkomu ráðherra sem hv. þingmaður og einhverjir fleiri hafa séð ofsjónum yfir, þá er hún algerlega í samræmi við það sem er í sambærilegum lögum, lögum um náttúruvernd, lögum um menningarminjar o.s.frv. og í samræmi við það sem er í þeim lögum sem hefur verið stuðst við og notast við í nágrannalöndunum, svoleiðis að þetta var ys og þys út af engu, raunar ys og þys út af einhverju sem er bara á allan hátt jákvætt.



Brtt. í nál. 1570 samþ. með 52 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  AME,  ÁPÁ,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BP,  BN,  EKG,  EldÁ,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓP,  PJP,  RR,  RM,  SDG,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VigH,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
10 þm. (EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  HHj,  IllG,  KJak,  PVB,  REÁ,  SII,  VilB) fjarstaddir.

Frv., svo breytt, samþ. með 33:18 atkv. og sögðu

  já:  AME,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  HBK,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  RR,  SDG,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
nei:  AIJ,  ÁPÁ,  BirgJ,  BjG,  BP,  EldÁ,  GStein,  HHG,  KaJúl,  LRM,  OH,  ÓP,  RM,  SJS,  SSv,  VBj,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
11 þm. (EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  HHj,  IllG,  KJak,  KLM,  PVB,  REÁ,  SII,  VilB) fjarstaddir.