144. löggjafarþing — 147. fundur
 3. júlí 2015.
stöðugleikaskattur, 3. umræða.
stjfrv., 786. mál (heildarlög). — Þskj. 1619.

og 

fjármálafyrirtæki, 3. umræða.
stjfrv., 787. mál (nauðasamningar). — Þskj. 1620.

[13:34]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu liggur breytingartillaga hv. efnahags- og viðskiptanefndar er lýtur að rétti kröfuhafa til þess að koma að kröfum eftir lok kröfulýsingarfrests. Ég reifaði þetta í stuttu máli í framsögu minni fyrir nefndaráliti hér í gær. Ástæðan fyrir þessari breytingartillögu er að nefndin telur mikilvægt að það liggi fyrir sem fyrst vissa um það hvort kröfur muni berast við slitin og áður en atkvæði verða greidd um frumvarp að nauðasamningi. Nefndin lagði því til að á eftir 2. gr. frumvarpsins kæmi ný grein sem yrði í ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki, ákveðið bráðabirgðaákvæði, og hljóðaði eins og segir á þskj. 1612.

Til frekari skýringar á þessari breytingartillögu vil ég geta þess að með henni er ekki verið að hrófla við þeim heimildum sem slitastjórnir hafa samkvæmt gildandi rétti til að greiða kröfuhöfum, almennum jafnt sem forgangskröfuhöfum, samkvæmt nauðasamningi sem kröfuhafafundur hefur samþykkt lögum samkvæmt. Það geta slitastjórnir gert með því að nauðasamningur taki tillit til krafna sem lýst hefur verið á grundvelli 1. eða 5. töluliðar 118. greinar gjaldþrotaskiptalaga. Það er vitaskuld mat slitastjórnar og kröfuhafafundar að hve miklu leyti nauðasamningur tekur tillit til seint fram kominna krafna sem lýst er með þessum hætti. Við mat sitt getur slitastjórn auðvitað farið ýmsar leiðir, t.d. litið til dómafordæma Hæstaréttar, en það er alfarið utan við efni þeirra laga sem hér um ræðir. Ég vildi bara geta þess til frekari skýringar á þessari breytingartillögu að það er ekki verið hrófla við þeim heimildum sem slitastjórnir hafa til að greiða til almennra kröfuhafa.

Virðulegur forseti. Úr því að ég er nú hingað komin þá er annað atriði sem ég vildi nefna líka svo að öllu sé haldið til haga. Það er örlítil, meinleg villa í nefndarálitinu, í kaflanum sem ber yfirskriftina 1. mgr. f-liðar 2. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með staðfestingu nauðasamnings fjármálafyrirtækis lýkur því formlega slitameðferð þess og slitastjórn lýkur þar með störfum.“

Það er auðvitað ekki rétt að slitastjórn ljúki þar með störfum vegna þess að slitastjórn hefur lagabundna starfsskyldu þrátt fyrir að nauðasamningur hafi verið staðfestur. Ég vildi geta þess hér svo að því sé haldið til haga að þetta hefur slæðst inn fyrir andvaraleysi nefndarmanna án þess að ég telji þörf á að prenta nefndarálitið aftur.



[13:37]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þar sem ég átti þess ekki kost að vera hér við 2. umr. málsins vil ég segja nokkur orð áður en kemur að lokaafgreiðslu þess. Það kom í minn hlut sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar hinn 12. mars 2012 að flytja fyrir hönd meiri hlutans það frumvarp til laga sem felldi þrotabú föllnu bankanna undir lög um gjaldeyrishöft. Þar voru undir gríðarlega miklir hagsmunir og mikilvægt að málið fengi skjóta afgreiðslu í þinginu. Við dreifðum því síðdegis eftir lokun helstu markaða þennan dag og í þinginu tókst góð samstaða þvert á alla flokka um að keyra það í gegnum þrjár umræður, veita því afbrigði og gera það að lögum þá um kvöldið. Fyrir það ber að þakka.

Í umfjöllun þingsins komu fram aðvaranir um það að í frumvarpinu eins og það kom upphaflega fram væru afturvirk ákvæði sem ekki stæðust lög. Fjórum vikum áður, 15. febrúar 2012, hafði Hæstiréttur Íslands fellt dóm um lög nr. 151/2010, sem komu úr sama ranni, um það að þau hefðu falið í sér ólögmæta afturvirkni. Þess vegna var full ástæða til þess fyrir Alþingi að gæta vel að slíkum varnaðarorðum. Úr varð að lítill hluti eignanna, reiðufé sem þá þegar hafði safnast fyrir á bankareikningum erlendis, var undanskilinn höftunum, en allar íslenskar eigur og stærstur hluti erlendra eigna teknar undir höftin. Fyrir vikið varð lagasetningin algjörlega óumdeild, engin lagaleg óvissa var um þessa gjörð og engin málaferli hafa á liðlega þremur árum risið hennar vegna. Hún hefur verið grundvöllurinn að þeirri sterku samningsstöðu sem ástæða er til að þakka fyrir nú að unnið hefur verið vel úr með stöðugleikaskattinum.

Ég þakka meðflutningsmönnum mínum, Magnúsi Norðdahl, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Birni Val Gíslasyni og Skúla Helgasyni, fyrir samstarfið en líka öllum þeim þingmönnum sem lögðu sitt til þess að það mætti takast að afgreiða málið á einu kvöldi, þrátt fyrir ákaflega takmarkaðar upplýsingar á þeim tíma og þeim gríðarlega hraða sem þurfti að keyra málið í gegn á.

Þegar menn skoða umsagnir og afstöðu einstakra þingmanna frá þessum tíma er ástæða til þess að hafa það í huga að takmarkaðar upplýsingar voru um það hvað í frumvarpinu fólst og menn voru ekki fyllilega í aðstöðu til þess að meta hvort unnt væri að treysta umbúnaðinum öllum, en hann hefur sem sagt reynst farsæll.

Eins og svo oft voru það ekki flutningsmenn frumvarpsins sem höfðu veg og vanda af undirbúningi þess. Það voru starfsmenn Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytisins og Alþingis. Ég vil líka nota þetta tækifæri til að færa þeim þakkir.

Það er gríðarlega mikilvægt að þegar menn í framhaldinu leggja mat á hin þjóðhagslegu skilyrði sem þurfa að vera fyrir því að víkja frá ákvæðum um stöðugleikaskatt og veita undanþágur þá séu varúðarsjónarmið um þjóðarhag Íslands í fyrirrúmi. Við hljótum að treysta því að svo verði. Það væri auðvitað langaffarasælast að ekki þyrfti að beita skattinum heldur næðust frjálsir samningar um endanlega lausn þessara mála.

Með þeim góðu óskum vil ég ljúka máli mínu um leið og ég vona að aldrei þurfi aftur að koma til þess að Alþingi Íslendinga neyðist til þess að setja lög sem banna fólki að fara með peningana sína úr landi.