145. löggjafarþing — 5. fundur
 14. september 2015.
tekjutenging vaxta- og barnabóta.

[15:07]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar blaðað er í fjárlagafrumvarpi vakna auðvitað ýmsar spurningar. Það er gleðiefni að okkur skuli hafa tekist svo vel til sem raun ber vitni í viðsnúningi í ríkisfjármálum, en þá skiptir miklu með hvaða hætti það svigrúm er nýtt.

Þegar horft er á þróun vaxtabóta og barnabóta blasir við mjög uggvekjandi mynd. Meðallaun fullvinnandi manneskju voru á síðasta ári 555 þús. kr. á mánuði. Þau meðallaun hafa hækkað það sem af er þessu ári. Vaxtabætur hjóna verða nú að engu þegar meðaltekjur hvors um sig ná 590 þús. kr. Ef bæði hjón eru með meðaltekjur fá þau engar vaxtabætur.

Í barnabótunum er staðan enn verri. Þar er gert ráð fyrir sömu verðlagshækkun milli ára og í fjárlögunum almennt, upp á 3%, en skerðingarmörk hækka ekki. Barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. í mánaðarlaun. Fólk þarf ekki einu sinni að vera komið með lágmarkslaun þegar byrjað er að skerða framlög vegna barna. Hjón með eitt barn missa bætur við 409 þús. kr. í mánaðarlaun, hvort um sig.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna hefur ekki verið gerð gangskör að því að rýmka þessi mörk og mæta fólki þarna? Þessum stuðningskerfum var komið á til að styðja húsnæðisöflun fólks og til að styðja fólk í uppeldishlutverki. Það var aldrei markmiðið að einungis allra fátækustu Íslendingarnir fengju aðstoð af opinberri hálfu (Forseti hringir.) að þessu leyti. Hvers vegna hefur tækifærið ekki verið notað til að rýmka skerðingarmörkin?



[15:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér finnst eins og hér sé spurt: Þegar öllum gengur betur og laun hækka og kaupmáttur vex, eignastaðan lagast og skuldir lækka, hvers vegna hækkum við þá ekki líka bæturnar?

Við gerum ekki neinar kerfisbreytingar í vaxtabótakerfinu. Við erum með sömu réttindi milli ára en útgjöld ríkisins vegna vaxtabóta lækka vegna þess að staða fólks er að lagast.

Þegar menn horfa á húsnæðisstuðning er ekki hægt að einblína á vaxtabæturnar. Við gefum núna hálfan milljarð í skattafslátt í hverjum mánuði til þeirra sem taka út séreignarsparnað og ráðstafa inn á húsnæðislán, hálfan milljarð á mánuði. Það eru aðrir 6 milljarðar á ári í húsnæðisstuðning. Það er fyrir utan 20 milljarðana sem eru í fjárlögunum og fara til þess að loka skuldaleiðréttingunni.

Varðandi barnabætur erum við að hækka heildarfjárhæðina um 3% á milli ára og við höfum verið nokkuð stöðugt með 10 milljarða í barnabætur. Síðustu breytingar sem við gerðum á réttindum í barnabótakerfinu voru til þess að taka rétt frá þeim sem eru í bestri stöðu og færa til þeirra sem eru með lægstu launin. Það voru síðustu breytingar þessarar ríkisstjórnar, að nota það sem við ætlum að setja í barnabætur í meira mæli til þeirra sem eru í lægri þrepum launastigans.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það aldrei vera sjálfstætt markmið, segjum til dæmis í vaxtabótakerfinu, að koma alltaf út 10 milljörðum. Aðalatriðið hlýtur að vera að skoða réttindin og ef staða fólks fer batnandi er ekki nema eðlilegt að eitthvað minna leggist á ríkið við að létta undir með fólki. Í því dæmi sem hér var nefnt er um það að ræða að þegar fólk er komið nokkuð yfir meðallaun dregur verulega úr réttindunum. Mér finnst það ekki mjög óeðlilegt.



[15:11]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem er óeðlilegt er að fólk með 200 þús. kr. í mánaðarlaun teljist vera með það miklar tekjur að barnabætur þess skerðist. Það sem er óeðlilegt er að fólk sem er á meðallaunum og tók húsnæðislán árið 2009 og gerði ráð fyrir að fá vaxtabætur áfram sé núna dottið út úr því kerfi, ekki vegna þess, eins og hæstv. ráðherra segir, að því sé að ganga svo miklu betur heldur vegna þess að skerðingarmörkin hafa ekki verið hreyfð frá árinu 2011.

Við erum í samkeppni við nágrannalöndin um fólkið okkar. Þar býðst fólki á meðaltekjum aðstoð frá hinu opinbera í formi barnabóta, í formi húsnæðisstuðnings og fólk þar býr líka við miklu lægri vaxtakjör. Það hefur einfaldlega verið samstaða um það hingað til að af hálfu hins opinbera sé, með vaxtabótum, niðurgreiddur kostnaður af hærra vaxtastigi á Íslandi en er í nágrannalöndunum. (Forseti hringir.) Það er athyglisvert að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra að það sé yfirveguð stefna ríkisstjórnarinnar að skilja meðaltekjufólk eftir (Forseti hringir.) og hætta að styðja við það við húsnæðisöflun eða við uppeldi barna.



[15:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég gerði einmitt grein fyrir því hvernig við nýttum svigrúmið í barnabótakerfinu betur niður í lægri enda launastigans, það voru þær breytingar sem við gerðum síðast. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að skerðingarmörkin ná mjög langt niður, en við höfum gert bragarbót á því á þessu kjörtímabili. Við höfum dregið úr skerðingum þarna neðst. Eftir sem áður erum við að nota um 10 milljarða í barnabótakerfinu.

Í vaxtamálunum og í húsnæðisstuðningi verð ég að ítreka það sem ég sagði áður: Það verður ekki slitið frá öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ef við horfum til þeirra sem fjárfestu á árinu 2009 þá njóta þeir einmitt líka góðs af því fyrirkomulagi sem við höfum haft í séreignarsparnaðarkerfinu. Varðandi vexti á Íslandi þurfum við að finna leiðir til þess að ná þeim niður. Það er kannski næsta stóra áskorun okkar í efnahagsmálum að finna betri samstöðu við aðila vinnumarkaðarins til þess að byggja undir betri og meiri stöðugleika og þar með lægri vexti og verðbólgu.