145. löggjafarþing — 5. fundur
 14. september 2015.
fyrirhuguð sala Landsbankans.

[15:14]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í apríl þegar Framsóknarflokkurinn hélt flokksþing sitt að þar var samþykkt dálítið merkileg ályktun um að ekki ætti að fara að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og Landsbankinn ætti að starfa sem samfélagsbanki. Umræðan eins og hún hefur verið hér á landi hefur fremur miðast við það að ríkið ætti að eiga einhvern hlut í bönkunum en að bankarnir mundu áfram starfa á sömu leið og þeir hafa starfað. Mér fannst þetta athyglisverðir tónar og hef opinberlega lýst yfir miklum áhuga á að við ræðum þessi mál í þinginu, þ.e. að sá banki sem er í eigu hins opinbera starfi samkvæmt öðrum lögmálum en við sjáum almennt í bankastarfsemi. Auðvitað er slík starfsemi vel þekkt, ég vil minna á að umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum runnu til slíkra samfélagsbanka.

Þess vegna kom það mér nokkuð á óvart að sjá í fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir því að hlutur í Landsbankanum yrði seldur, þ.e. að ekki sæi stað þessarar samþykktar flokksþings Framsóknarflokksins. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra og formann flokksins hvort Framsóknarflokkurinn standi einhuga á bak við þau áform að selja þennan hlut í Landsbankanum, því að gætum við misst ákveðið tækifæri til að breyta bankastarfsemi hér í landinu og færa hana yfir á samfélagsbankastig sem nýtur vaxandi athygli í allri umræðu í samfélaginu. Síðan hefur samflokksmaður hæstv. forsætisráðherra, hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, bent á að arðurinn sem bankinn er að skila ríkinu núna miðað við óbreytta starfsemi sé verulegur, þannig að þarna finnst mér skorta ákveðna umræðu. Í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur átt frumkvæði að þessari umræðu hefði ég kosið að við ættum slíka umræðu í þinginu áður en þess háttar ákvörðun er tekin. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í hans afstöðu í málinu.



[15:16]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða spurningu. Ég og fleiri vorum ekki alveg sáttir við það með hvaða hætti bankarnir voru yfirteknir á sínum tíma. Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að rekja það hér heldur fyrst og fremst að minna á að bankarnir voru teknir yfir, eða Landsbankinn reyndar sérstaklega, fyrir lánsfé. Það var tekið lán til að yfirtaka þessa banka. Það ákvæði í fjárlögum sem hv. þingmaður vísar til er ekki nýtilkomið. Það er búið að vera í fjárlögum í líklega alla vega fimm eða sex ár, þ.e. frá því snemma á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar þar sem hv. þingmaður var ráðherra. Það ber ekki að skilja þetta sem svo að með þessu ákvæði sé verið að setja eitthvað nýtt inn í fjárlög sem síðasta ríkisstjórn hafi verið andvíg eða aðrir á þingi.

Hvað varðar hins vegar hugmyndir um að bankinn beiti sér með ákveðnum hætti og spurninguna um hvort rétt sé að framkvæma þá heimild sem legið hefur fyrir í fjárlögum árum saman þá hefur hæstv. fjármálaráðherra gert grein fyrir því mjög skilmerkilega að hann sé ekki þeirrar skoðunar að selja eigi allan hlut ríkisins í bankanum, þvert á móti telji hann æskilegt að ríkið eigi þar ráðandi hlut áfram um fyrirsjáanlega framtíð. Mat á því hvenær og hvernig rétt er að selja hlut í samræmi við heimild sem er í fjárlögum er svo matsatriði út frá aðstæðum hverju sinni.

Ég hef gagnrýnt það í nokkur skipti og á ýmsan hátt að mér hefur ekki þótt Landsbankinn sinna hlutverki sínu alveg eins og ég mundi vilja sjá hann sinna því sem banki í eigu almennings. Ég get nefnt hluti eins og áform um byggingu nýrra höfuðstöðva. Ég get nefnt það líka að mér hefur þótt að Landsbankinn hefði mátt vera meira leiðandi í að bæta þjónustu við viðskiptavini og gera það (Forseti hringir.) á betri kjörum og auk þess tel ég að það gæti verið tilraun til þess að hann yrði bakhjarl fyrir sparisjóðina.



[15:19]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Ég greini þó reyndar nokkurn áherslumun á milli hans og hæstv. fjármálaráðherra sem talaði hér með þeim hætti í síðustu viku í umræðum um fjárlagafrumvarpið að hugmyndir um að ríkið ætti banka væru úreltar hugmyndir, sem kom mér nokkuð á óvart í ljósi þess að þetta eru nýjar hugmyndir frá samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. En gott og vel. Ég veit alveg að þessi heimild hefur verið inni í fjárlögum. Eins og ég kom að í máli mínu hefur það verið almennt í umræðunni að eðlilegra væri að ríkið ætti hlut í banka, en þess vegna hef ég viljað hlusta á hugmyndir Framsóknarflokksins og taldi að eðlilegt væri að við tækjum umræðuna upp á nýtt. Á ég að skilja það sem svo að Framsóknarflokkurinn styðji þá að selja þennan hlut — því að það er vissulega tekið fram að gert sé ráð fyrir því í þessu fjárlagafrumvarpi að 30% hluturinn verði seldur á næsta ári, beinlínis sem leið til lækkunar í arðgreiðslum ríkisins samkvæmt áætlun fjárlaga — en beiti sér fyrir því í gegnum þann eignarhlut (Forseti hringir.) ríkisins sem eftir er að bankinn starfi með öðrum hætti, (Forseti hringir.) því að það er líka mikilvægt að við tökum þá stefnumótandi umræðu um það í þinginu?



[15:20]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Rétt eins og undanfarin ár, þar sem þessi heimild hefur verið í fjárlögum, hljóta menn að meta það hverju sinni hvort aðstæður hafi skapast til þess að endurheimta eitthvað af því fjármagni sem ríkið setti inn í þennan banka á sínum tíma sem neyðarúrræði.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að fullt tilefni er til að hafa umræðu um það og velta því fyrir sér hvort þessi banki og helst auðvitað fleiri bankar geti ekki með betri hætti þjónustað íslenskan almenning. Auðvitað eru miklir gallar á íslensku fjármálakerfi sem birtast meðal annars í allt of háum vöxtum.

Ég ítreka aftur önnur atriði sem ég nefndi áðan: Við vildum gjarnan sjá að bankar eins og Landsbankinn væru leiðandi í að bæta þjónustu, draga úr hækkun þjónustugjalda og helst að lækka þau og gætu jafnvel orðið bakhjarlar sparisjóðakerfisins. Þetta eru vissulega hlutir sem, eins og hv. þingmaður bendir á, væri áhugavert að ræða hér.