145. löggjafarþing — 5. fundur
 14. september 2015.
lífeyrisgreiðslur og lágmarkslaun.

[15:32]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni höfum gagnrýnt harðlega að hæstv. ríkisstjórn hafi, undir forustu framsóknarmanna, tekið þá ákvörðun að halda lífeyrisgreiðslum undir lágmarkslaunum í landinu. Um 1% launþega er á lágmarkslaunum en þeir eiga flestir möguleika á að vinna sig upp eftir launastiganum. Þann möguleika eiga öryrkjar og ellilífeyrisþegar hins vegar ekki.

Í nýgerðum kjarasamningum var lagt til grundvallar að 300 þús. kr. séu sú fjárhæð sem launafólki er nauðsynleg til mannsæmandi framfærslu. Hið sama hlýtur þá að gilda um öryrkja, aldraða og þá sem reiða sig á lífeyri almannatrygginga til að sjá sér farborða.

Ég hélt að framsóknarmenn væru sammála þessu. Þann 30. ágúst sl. heyrði ég hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra segja í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni að framsóknarmenn hefðu samþykkt fyrir sitt leyti að bætur almannatrygginga ættu ekki að vera lægri en lágmarkslaun. Nú hefur fjárlagafrumvarpið verið lagt fram, helsta stefnuplagg hæstv. ríkisstjórnar, og þar er lagt til að lífeyrisþegar fái ekki viðlíka kjarabót og þeir sem eru á lægstu launatöxtunum.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort framsóknarmenn muni styðja það frumvarp Samfylkingarinnar sem tekið verður til umræðu hér síðar í dag, um breytingu á lögum um almannatryggingar og hækkun lífeyris í 300 þús. kr. Hafa framsóknarmenn ef til vill skipt um skoðun hvað þetta réttlætismál varðar? Hefur hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra skipt um skoðun frá því að hún tjáði sig um málið 30. ágúst sl. og er einhugur í hæstv. ríkisstjórn um að halda öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir lágmarkslaunum í landinu?



[15:34]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Vilji flokksþings framsóknarmanna var mjög skýr, á því samningstímabili sem núverandi kjarasamningar ná yfir eiga bætur að fylgja lágmarkslaunum og að loknu tímabilinu verða þær orðnar 300 þús. kr. Ef hv. þingmaður mundi kynna sér þá útreikninga sem liggja fyrir varðandi breytingar á bótaflokkum er, a.m.k. samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, verið að fylgja eftir frá og með áramótum þeim hækkunum varðandi grunntölur í bótakerfinu. Við sjáum þarna 9,4% hækkun á bótaflokkum, 11 milljarða sem eru að koma nýir inn í almannatryggingarnar. Við höfum að sjálfsögðu lagt áherslu á það að standa vörð um almannatryggingakerfið. Það er ekki hagræðingarkrafa á almannatryggingar, hvorki nú né á síðasta ári, þannig að þetta er fyllilega í samræmi við þær áherslur sem hafa verið hjá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum.



[15:35]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef kynnt mér ágætlega þær tölur sem liggja að baki útreikningunum í fjárlagafrumvarpinu. Þar er ekki gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki frá 1. maí á árinu 2015 heldur eru teknar almennar kjarabætur í landinu og látnar taka gildi 1. janúar 2016. Þær fylgja ekki hækkunum lægsta taxta sem samið var um. Það má vera að það sé áform ríkisstjórnarinnar að hækkunin verði 300 þús. kr. árið 2018 eða 2017 en það kemur hvergi fram.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki svolítið kaldranalegt að þegar ríkissjóður hefur rétt úr kútnum sé það ekki forgangsmál að láta bætur öryrkja og ellilífeyrisþega fylgja lágmarksbótum. Á síðasta kjörtímabili, þegar barist var við gjaldþrot ríkissjóðs, voru lægstu bætur aldrei skertar, þær voru reyndar hækkaðar mikið að tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur (Forseti hringir.) á árinu 2008 sem fylgdi fólkinu í gegnum hrunið.



[15:36]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um mikilvægi þess að bæta kjör lífeyrisþega. Það kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu, það kemur skýrt fram í þeim breytingum sem munu verða á bótaflokkunum frá og með áramótunum. Þar fylgjum við eftir því sem stendur um það hvernig á að hækka bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þær breytingar sem hafa orðið á vinnumarkaðnum eru reiknaðar inn og bætur verða hærri en lágmarkslaunin þegar búið er að taka þessa tölu inn.

Síðan ítreka ég líka að þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega staðið vörð um almannatryggingakerfið. Eitt af því fyrsta sem hún gerði eftir að hún tók við völdum var að taka til baka þær skerðingar sem fyrri ríkisstjórn fór í á síðasta kjörtímabili og hafa fjölmargir lífeyrisþegar notið góðs af því. Hins vegar held ég að við getum þá öll verið sammála um það, við hv. þingmaður og aðrir þingmenn, að við munum síðan halda áfram að gera enn betur.