145. löggjafarþing — 7. fundur
 16. september 2015.
alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 91. mál (aukin skilvirkni, skipulag, Þróunarsamvinnustofnun Íslands). — Þskj. 91.

[16:15]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst þegar frumvarp um Þróunarsamvinnustofnun Íslands kom fram í dagsljósið fannst mér það ekki vera ýkja stórt mál. Um var að ræða skipulagsbreytingar. Það skipti höfuðmáli að tryggja þá starfsemi sem væri innan veggja Þróunarsamvinnustofnunar hvar sem hún væri vistuð. En eftir því sem ég kynni mér málið betur, og ég hef hlustað á umræður um það, því verra finnst mér málið. Staðreyndin er sú að gegn þessum skipulagsbreytingum hafa verið færð mjög ítarleg og málefnaleg rök af ýmsu tagi, en ég fæ ekki komið auga á nein rök af hálfu hæstv. utanríkisráðherra sem flytur málið. Hvorki er þau að finna í greinargerð frumvarpsins né í málflutningi hæstv. ráðherra þegar hann kynnti málið. Og það á við bæði í vor og síðan aftur núna.

Við fórum yfir þessi mál í umræðu í þinginu í gær og ég ákvað að kveðja mér hljóðs að nýju, sérstaklega út af einum þætti málsins sem snýr að starfsmannamálum. Í greinargerð með frumvarpinu segir að öllum núverandi starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði tryggð vinna innan veggja ráðuneytisins fari svo að þetta frumvarp verði að lögum og Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði lögð niður en starfsemin færð undir regnhlíf stofnunarinnar.

Síðan kom fram í umræðunni að það er ekki alls kostar rétt. Starfsmennirnir eiga að sönnu að flytjast — að undanteknum einum og það er forstöðumaðurinn sjálfur. Nú stendur það upp úr hæstv. ráðherra og öllum sem ég hef heyrt fjalla um Þróunarsamvinnustofnun að þessi tiltekni starfsmaður, þessi forstöðumaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sé einkar góður, hann hafi staðið sig vel í starfi og að ekkert sé að hans störfum að finna. Á það hefur verið bent að réttarstaða starfsmanna sé mismunandi, annars vegar sé um að ræða almenna starfsmenn og hins vegar embættismenn eða sem séu ráðnir á forsendum embættismanna. Hverjar eru þær forsendur? Jú, embættismaður skal ráðinn til fimm ára í senn samkvæmt lögum sem um það gilda frá árinu 1996, tóku gildi í ársbyrjun 1997. Ef hugur ráðamanna stendur til að breyta til skal honum greint frá því með tilteknum fyrirvara. Það er það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur gert, hann hefur sent viðkomandi forstöðumanni bréf þar sem honum er greint frá þessu. Þarna er komið frávikið frá lagatextanum eða skýringartexta laganna sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu. Þetta á sem sagt ekki við um alla starfsmenn.

Ég verð að segja að þegar horft er til skipulagsbreytinga undangenginna ára hafa iðulega verið settar klásúlur inn í lögin um réttarstöðu starfsmanna og þar á meðal að þeim skuli tryggt áframhaldandi starf við nýjar aðstæður. Þá hefur það átt við um alla starfsmenn, jafnt almenna starfsmenn sem stjórnendur sem búa við ráðningarkjör áþekk þeim sem forstöðumaður Þróunarsamvinnustofnunar gerir. Þess vegna hef ég gengið eftir því að ráðherrann taki af allan vafa um að farið verði að þessum lögum. Því miður hefur orðið misbrestur á því í ýmsum efnum, ég nefni til dæmis samgöngustofnanirnar, (Forseti hringir.) að núverandi ríkisstjórn hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru starfsmönnum í tengslum við þær breytingar. Það má ekki endurtaka sig.



[16:20]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni hans innlegg í þessa umræðu. Ég fylgdist aðeins með henni í gærkvöldi en átti ekki tækifæri á því að taka þátt í henni en ætla að blanda mér í hana hér í dag vegna þess að ég er á sömu skoðun og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Mér finnst þetta mál versna eftir því sem maður skoðar það meir.

Fram að þeim tíma að frumvarpið var lagt fram hafði ég haft það á tilfinningunni og haft þá skoðun að Þróunarsamvinnustofnun og sú starfsemi sem þar væri unnin væri til mikillar fyrirmyndar og almennt mjög mikil ánægja með fyrirkomulag vinnunnar. Ég velti fyrir mér hvaða haldbæru rök það eru sem geta legið að baki því að menn fara í svona framkvæmd.

Ég þekki annað sambærilegt dæmi sem þetta mál minnir mig á. Það gerðist hér í upphafi þessa kjörtímabils að starfshópur sem leiddur hafði verið af hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni um notendastýrða persónulega aðstoð var tekinn af hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttur, og leystur upp, skipt um forustu í starfshópnum með þeim rökum að hæstv. ráðherra vildi hafa starfsemina nær sér eins og það var orðað á þeim tíma. Ef menn skoða niðurstöðuna af þeirri ákvörðun hefur ekkert jákvætt gerst í þeim málaflokki. Það er upplausn, óöryggi og kvíði hjá því fólki sem hefur nýtt sér þessa þjónustu og var mjög ánægt með þá þróun sem þarna átti sér stað.

Hér virðist hæstv. utanríkisráðherra ætla að fara sömu slóð, taka þennan málaflokk nær sér inn í ráðuneytið, algerlega án rökstuðnings. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða (Forseti hringir.) afleiðingar hann telji að þetta muni hafa.



[16:23]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta geti haft skaðvænlegar afleiðingar. Það er ekki að ástæðulausu sem menn hafa sett sér þau markmið innan stjórnsýslunnar að reyna eftir föngum að fjarlægja framkvæmdina hinu pólitíska valdi en hafa síðan eftirlitið aðgreint og tryggja með þeim hætti aukið gagnsæi. Það er til dæmis eitt af því sem getur valdið því að maður getur orðið fórnarlamb breytinga af þessu tagi, að það dragi úr gagnsæinu. Ég hef vakið athygli á því að frumvarp um opinber fjármál sem senn lítur dagsins ljós, og gerði það reyndar í vor einnig, sem færir framkvæmdarvaldinu aukið vald, aukið verksvið og aukið vald, geti orðið til þess að draga enn úr gagnsæinu. Þegar þetta allt kemur saman tel ég ástæðu til að hafa af því nokkrar áhyggjur. Það stríðir gegn þeim markmiðum sem menn almennt setja sér innan stjórnsýslunnar, að aðgreina annars vegar framkvæmd og hins vegar eftirlit. Ég lít svo á að ráðuneyti eigi að vera í líkingu við skurn sem ekki er endilega með blómann innan borðs og gín ekki yfir öllu. Þarna er um gífurlega fjármuni að ræða, um milljarða króna, og ég held að þetta muni draga úr gagnsæinu þegar Þróunarsamvinnustofnun sem slík er lögð niður og starfsemin öll er færð undir vængi ráðuneytisins. Ég held að hætt verði við því að að það verði gagnsæið sem verði fórnarlambið.



[16:25]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi einmitt að velta fyrir sér þýðingu orðsins „ráðuneyti“ í þessu samhengi. Það er ekki sami hluturinn; sjálfstæð stofnun sem sinnir skilgreindu hlutverki, eins og Þróunarsamvinnustofnun, og síðan einhver skrifstofa inni í ráðuneyti. Hvað er ráðuneyti? Það er einhvers konar föruneyti þess sem fer með málaflokkinn hverju sinni. Það er ráðuneyti ráðherrans, ef svo má að orði komast, þannig að það er algerlega búið að má út mörkin sem eru á milli þessa skilgreinda hlutverks stofnunarinnar og ráðuneytisins. Verkefnið er ekki bara tilfallandi verkefni, eitthvert verkefni sem menn sinna um tiltekinn tíma og er lokið, heldur viðvarandi verkefni, skylda okkar í samfélagi siðaðra þjóða sem við eigum að vera að sinna hverju sinni. Það á ekki að vera undir pólitísku föruneyti eða ráðuneyti ráðherra hverju sinni. Menn eiga að vera með stefnu í þessum efnum. Þjóðfélög og samfélög setja sér stefnu og sinna þeim alveg burt séð frá því hver er ráðherra hverju sinni. Það á ekki að vera háð geðþóttavaldi hans. Ef hann vill gera breytingu á stefnu þjóðarinnar í þessum efnum á hann að gera svo vel og koma með hana hingað inn í þing og leggja fram lagafrumvarp um það mál, leggja fram tillögur og segja hvaða breytingar hann vilji gera.

Það er fyrir neðan allar hellur að gera þetta með jafn veikburða rökstuðningi og hér um ræðir. Það er hreint út sagt hlægilegt að lesa klásúlur í þessu máli sem gera ráð fyrir því að styrkja eigi hið pólitíska vald með því að búa til þingmannanefnd sem eigi að koma saman tvisvar sinnum á ári til að fjalla um þennan málaflokk, tvisvar sinnum á ári. Það sýnir nú skoðun hæstv. utanríkisráðherra á mikilvægi þess málaflokks sem tröllríður umræðu heimsins í dag. En þetta finnst ráðherranum viðeigandi, að menn tali um á hinum pólitíska vettvangi tvisvar á ári. (Forseti hringir.) Það er skammarlegt.



[16:27]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þætti okkur það vera góð hugmynd að færa Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið? Væri það góð hugmynd? Hefði það aukna skilvirkni í för með sér? Þar væri vissulega meiri nálægð milli ráðherrans og framkvæmdaraðilans, en engum manni mundi detta í hug að leggja það til.

Ráðherrann setur fram tillögur um áætlun í samgöngumálum. Alþingi fjallar um hana og samþykkir eða hafnar. Frá Alþingi kemur almenn ákveðin stefna. Síðan hefur ráðuneytið umsjón með framkvæmdinni en í ákveðinni fjarlægð. Það er tiltekin stofnun sem annast þetta og síðan eru tilteknir þættir sem koma til kasta ráðuneytisins ef þurfa þykir, sitthvað sem lýtur að stefnumótun o.s.frv. En ekki dytti nokkrum lifandi manni í hug að færa starfsemina inn fyrir veggi ráðuneytisins, að framkvæmd með vegamálum yrði ein hæð í ráðuneytinu.

Ég lít á þetta sem svipuð mál. Við erum að tala um milljarðaverkefni sem er núna á vegum sjálfstæðrar stofnunar sem leggja á niður samkvæmt tillögum þessa frumvarps, það er skýrt kveðið á um það, það á að leggja hana niður sem slíka og færa starfsemina inn fyrir veggi ráðuneytisins. Ég tel að það muni draga úr gagnsæi auk þess sem það gengur þvert á það sem verið er að reyna að gera alls staðar í stjórnsýslunni. Þó að ég sé ekki alltaf sammála Ríkisendurskoðun, sérstaklega þegar kemur að svokölluðum mannauðsmálum eða mannauðnarmálum, eins og sumir hafa kallað það, er ég sammála henni um þetta. Þarna er samhugur með þeim sem kynnt hafa sér þessi mál best að þetta er ekki í anda þess sem stjórnsýslan á að ganga.



[16:29]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður gerir sér grein fyrir því að menn hafa gert úttektir á því hvaða fyrirkomulag hentar best þróunarsamvinnu. Það er ein niðurstaða og hún er þessi: Fyrirkomulagið skiptir ekki höfuðmáli. Það sem skiptir langmestu máli um árangur er styrkur hinnar pólitísku forustu sem er fyrir málaflokknum. Það skiptir máli. Það er til dæmis ein af niðurstöðum skýrslu sem okkur barst í utanríkismálanefnd í fyrra en er alveg ljóst að hæstv. utanríkisráðherra hefur aldrei augum barið eða sennilega nokkur í hans góða ráðuneyti.

Í þeirri skýrslu kemur til dæmis fram að Ísland er í langstærsta hópnum þ.e. þeim hópi sem hefur það fyrirkomulag þar sem er sérstök stofnun sem sinnir framkvæmdinni og síðan eru það ráðuneytin, utanríkisráðuneytið sem sinnir því að sjálfsögðu að útfæra stefnuna innan þeirra heimilda sem löggjafinn veitir og stefnumótunar af hans hálfu og hefur síðan eftirlit með því hvernig framkvæmdin tekst til. Svona er þetta hjá langflestum löndum innan DAC-hópsins svokallaða sem tilheyrir OECD.

Það er mjög fróðlegt að horfa á hvernig menn hafa verið að breyta þessu. Við sjáum til dæmis Ítalíu. Þar var gerð mjög ítarleg úttekt á því hvernig réttast væri að halda á málum og niðurstaðan varð sú að Ítalir gerbreyttu fyrirkomulaginu fyrir einu og hálfu ári og tóku upp það fyrirkomulag sem tíðkast á Íslandi vegna þess að þeir töldu það farsælast. Aðrar þjóðir hafa haft það öðruvísi, til dæmis hafa Bretar, sem þykja gera þetta hvað best, sérstakt ráðuneyti. En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki að þetta séu frekar rök með því að viðhalda núverandi kerfi a.m.k. þangað til DAC-hópurinn er búinn að framkvæma sína jafningjarýni?



[16:32]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er algerlega sammála því. Við eigum að horfa til þess sem aðrar þjóðir draga nú lærdóm af og hvert þær vilja stefna. En meginmálið finnst mér felast í tvennu: Annars vegar að horfa til þess sem við erum almennt að reyna að gera innan stjórnsýslunnar, horfa til þeirra prinsippa sem við byggjum skipulagningu hennar á. Ég legg áherslu á að þetta stríðir algerlega gegn því.

Síðan er það hitt sem hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, bendir á, að nú á sér stað úttekt á fyrirkomulagi þessara mála á vegum OECD, þeirrar stofnunar eða hóps innan OECD sem hefur með þróunarmál að gera þar sem farið er í saumana á fyrirkomulagi víðs vegar um lönd. Auðvitað eigum við að bíða eftir því að þessar niðurstöður, sem eru væntanlegar á komandi ári, liggi fyrir. Ef það væri nú svo að við spöruðum með þessum breytingum mikla fjármuni eða ef eitthvað væri í húfi sem ekki þyldi að málið færi í bið, gegndi hér öðru máli, en svo er ekki. Það eru engin rök færð fram önnur en „af því bara“. Þess vegna finnst mér allt mæla með því að málið verði sett á ís og við fylgjumst með þeirri úttekt sem alþjóðlegar stofnanir framkvæma núna á fyrirkomulagi þróunarmála. Um er að ræða mjög mikla peninga, mikla fjármuni, og við erum að tala um að byggja til framtíðar.



[16:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var við hæfi að hv. þm. Ögmundur Jónasson tæki hér upp málefni starfsmanna. Hann hefur allt sitt líf, bæði hið pólitíska líf og áður en hann hóf það, verið baráttumaður fyrir því að starfsmenn njóti fullra réttinda. En hvað finnst hv. þm. Ögmundi Jónassyni um aðra hlið þessa máls? Hvað finnst honum um með hvaða hætti hæstv. ráðherra tekur ítrekað til máls um stofnunina, bæði í ræðum sínum núna, í fyrra og í greinargerð? Aftur og aftur er ýjað að því að stofnunin sé með einhverjum hætti utan við stefnu sem við og ráðuneytið höfum mótað. Talað er um tvíverknað, talað er um að það þurfi að hagræða og talað er um skörun bæði á stefnumótun og framkvæmd.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason kaus sjálfviljugur að bera vitni um þetta mál í gær. Hann sagðist hafa setið á öllum fundum utanríkismálanefndar þar sem starfsmenn ráðuneytisins og ráðherrann sjálfur eftir atvikum voru þráspurð um þetta. Hvergi kom fram eitt einasta dæmi um að stefnan væri eitthvað öðruvísi, að það væri ekki nægilega vel farið með fjármuni eða það væri einhvers konar tvíverknaður eða skörun. Samt kemur hæstv. ráðherra hér og endurtekur þetta. Ég spyr hinn gamla leiðtoga úr stéttabaráttunni: Hvað kalla bandalög og samtök starfsmanna það þegar framkvæmdarvaldið, handhafi þess, ráðherra, kemur ítrekað, æ ofan í æ, og endurtekur ummæli sem ekki geta annað en fallið af því að draga úr trausti á stofnuninni? Stappar það ekki nærri því að vera einelti? Og þegar það er endurtekið ár eftir ár, er það ekki orðið af toga fjölmæla? Má ekki segja að hér sé bókstaflega verið að ráðast að trúverðugleika stofnunarinnar?



[16:36]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gefnar hafa verið yfirlýsingar um að um tvíverknað sé að ræða og að misræmi sé að finna í kerfinu án þess að fyrir því séu færð nokkur einustu rök, eins og hv. þingmaður vísaði til í greinargerð frumvarpsins og við vékum að í gær, ég gerði það meðal annarra. Ég er alveg sammála því að það er tvímælalaust til þess fallið að grafa undan trúverðugleika stofnunarinnar en það grefur líka undan trúverðugleika ráðuneytisins að halda slíku fram án þess að geta fært trúverðug rök fyrir máli sínu.

Það sem mér hefði fundist vera verðugt verkefni núna er að skoða stjórn stofnunarinnar. Það var rætt talsvert í gær með hvaða hætti hún ætti að vera, aðkoma þingmanna o.s.frv. og var vísað til þess að gerðar hefðu verið breytingar þar á árið 2008 og aftur árið 2012, að gerðar hafi verið ýmsar skýrslur um þennan þátt málsins. Mér þætti það vera góður áfangi núna á þessu ári að taka stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til skoðunar en leggja á ís hinn meginþáttinn, að færa starfsemina inn í ráðuneytið. Ég held að það gæti verið til farsældar fallið.



[16:38]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp sem hæstv. utanríkisráðherra flytur í annað sinn, frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. (skipulag). Þetta þingmál hefur fengið númerið 91 og er á þskj. 91. Til marks um flumbruganginn og ákafa hæstv. utanríkisráðherra að koma höggi á Þróunarsamvinnustofnun og leggja hana niður eins og hann boðar þá er þetta mál á dagskrá næst á eftir fjárlögum og bandormi sem eru venjulega fyrstu mál. Oft hafa nú ýmis mikilvægari stjórnarfrumvörp fengið fyrstu sætin á nýbyrjuðu þingi, annað en sá óskapnaður sem hér er.

Þegar ég hlustaði á hv. þm. Ögmund Jónasson áðan, fyrrverandi formann BSRB, sem hefur borið hag starfsmanna hjá stofnunum eða fyrirtækjum fyrir brjósti, þegar hann var að ræða um þá aðferð sem hér á beita, ef þetta frumvarp verður einhvern tíma að lögum sem ég vona ekki, að allir ættu að fá starf innan ráðuneytisins, kannski ekki sambærilegt en eitthvað breytt, en svo væri gert eitthvað allt annað við forstöðumanninn, þá vil ég segja þetta: Í tiltölulega nýlegri samþykkt ríkisstjórnar Íslands, þeirri sem nú situr, hvort það var í febrúar, mars eða apríl man ég ekki en það raunar skiptir ekki máli, þá barst okkur í atvinnuveganefnd til eyrna, þegar við vorum að ræða frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar, þ.e. það kom fram hjá einum embættismanni, að uppsagnir og sameiningin og allt það ætti ekki að eiga sér stað eins og venjulega hefur verið gert, sem við þekkjum báðir, fyrrverandi ráðherrar samgöngumála, heldur á allt annan hátt samkvæmt nýlegri samþykkt ríkisstjórnar Íslands. Ég hafði aldrei heyrt þetta og þetta var ekki í frumvarpinu svo að ég óskaði eftir því að þessi samþykkt og þetta gagn kæmi til okkar í nefndinni og yrði sett undir málið.

Nú verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér vannst ekki tími til að draga fram þetta plagg til að lesa upp úr því og setja það fram en vil ítreka að með þessari samþykkt er verið að fara nýjar leiðir til að segja upp fólki, starfsmönnum ríkisins. Það átti meðal annars, ef ég man rétt, að gera það auðveldara að leggja niður litlar stofnanir á vegum ríkisins.

Þess vegna spyr ég: Hafa menn heyrt um þetta? Hefur hæstv. utanríkisráðherra, sem var vonandi á þeim ríkisstjórnarfundi, kynnt sér það mál? Er það leiðin sem á að fara ef þetta óheillafrumvarp nær í gegn? Á þá að segja upp starfsmönnum, eins og þessi tiltölulega nýlega samþykkt ríkisstjórnarinnar var um, sem er allt önnur leið en farin hefur verið hingað til við sameiningu stofnana? Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra og vonandi svarar hann því þegar tími gefst við lok þessarar umræðu.

Virðulegi forseti. Þetta óheillamál er illu heilli komið aftur hingað inn. Ég hefði haldið að hæstv. utanríkisráðherra mundi geyma að leggja það fram og skoða það betur eftir þá sneypuför sem hann fór með þetta sama frumvarp á síðasta þingi. Þetta er vont mál og gerir ekkert annað en versna við frekari umræðu og vitna ég þar í og minni á það sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sagði í þingræðu í gær. Hann hlustaði á umræður, væntanlega líka í utanríkismálanefnd, og fékk ekki neina niðurstöðu úr því hvers vegna verið væri að gera þetta.

Hvernig varð Þróunarsamvinnustofnun Íslands til? Þá var nefnilega framsóknarmaður í sæti utanríkisráðherra eins og nú. Það var 7. apríl 1981 sem þáverandi utanríkisráðherra, Ólafur heitinn Jóhannesson, flutti lagafrumvarp um stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Í því frumvarpi var fjallað um ályktun sem samþykkt var á þingi Sameinuðu þjóðanna um að stefnt skyldi að því að iðnríki verðu a.m.k. 1% þjóðartekna til stuðnings þróunarríkjum. Ég vil lesa upp úr Alþingistíðindum það sem þáverandi utanríkisráðherra, Ólafur Jóhannesson, sagði, með leyfi forseta:

„Eitt þeirra viðfangsefna sem verða æ þýðingarmeiri með ári hverju á sviði alþjóðamála er sú umræða sem fram hefur farið, aðallega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um samskipti ríkra þjóða og snauðra. Veigamikið atriði í því máli er sú krafa þróunarlanda að aukin verði aðstoð til þeirra frá iðnríkjunum sem geri þeim síðan kleift að standa á eigin fótum.“

Það er kannski ekkert óeðlilegt að utanríkisráðherra gangi úr salnum og vilji ekki hlusta á forsendurnar sem settar voru fram af framsóknarmanninum og þáverandi utanríkisráðherra, Ólafi heitnum Jóhannessyni, um tilurð Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram. Þetta var mikilvægt og gott markmið. Síðan fjallar fyrrverandi utanríkisráðherra, Ólafur Jóhannesson, um að skömmu áður en áðurnefnd ályktun var samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna hafi verið samþykkt á Alþingi lög um nýja stofnun, Aðstoð Íslands við þróunarlöndin, nr. 20/1971. Þar var sem sagt fyrst fjallað um að veita 1% af þjóðartekjum í slíka aðstoð. Síðan bað stjórn Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin þáverandi ráðherra, þ.e. Ólaf heitinn Jóhannesson, tveimur árum áður en hann flutti frumvarpið, að hann hlutaðist til um endurskoðun á lögunum. Hann gerði það og fól stjórn stofnunarinnar að sjá um þá endurskoðun. Það má segja að frumvarpinu sem ráðherra flutti hafi verið ætlað að leysa lögin af hólmi. Hæstv. ráðherra sagði þá, með leyfi forseta:

„Það eru nokkur nýmæli í þessu frumvarpi. Nú er skipt um heiti á stofnuninni og hún kölluð Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það er ekki heppilegt heiti og væri gott ef menn gætu fundið eitthvert betra heiti.“

Það fundu menn reyndar ekki, hvorki í efri deild né neðri deild. Síðan var þetta mál unnið í deildum og í báðum deildum voru fulltrúar allra flokka sammála um að mæla einróma með samþykkt frumvarpsins um Þróunarsamvinnustofnun Íslands eins og það lá fyrir á þskj. 603. Það var ekki gerð ein einasta breytingartillaga.

En nú kemur framsóknarmaðurinn, hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, í annað sinn með þetta óheillafrumvarp og ætlar að ráðast á þessa stofnun og það góða starf sem hún hefur innt af hendi, samkvæmt áliti margra, þar á meðal Ríkisendurskoðunar, og leggja stofnunina niður og færa inn í ráðuneyti sitt.

Virðulegi forseti. Það eru engin haldbær rök sett fram í frumvarpinu fyrir því hvers vegna þetta er gert. Ég ítreka aftur það sem ég sagði við umræðuna síðast um þetta mál að ég held að þetta sé meinbægni og allt að því hatur hæstv. ráðherra út í þessa stofnun og starfsmennina sem hafa kannski komið á fund utanríkismálanefndar og lýst skoðunum sínum og talað af hreinskilni. Það er það sem mér sýnist að hæstv. utanríkisráðherra þoli ekki og þess vegna ráðist hann á þessa stofnun og starfsemi hennar. Það er mjög líklegt að þarna liggi líka undir mikill niðurskurður á utanríkisráðuneytinu eftir að hv. þingmenn, varaformaður og formaður fjárlaganefndar, þ.e. Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir, réðust á fjárveitingar til utanríkisráðuneytisins. Ætli það hafi ekki verið fyrir fjárlög 2013 sem mikið var skorið niður hjá ráðuneytinu. Ráðherrann kveinkaði sér mikið undan því og fannst þau beita miklum órétti. Nú held ég að það eigi að ráðast að fjármagni sjálfstæðrar stofnunar, þ.e. Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, og færa hana með húð og hári inn í ráðuneytið með fögrum orðum um að starfsmenn verði endurráðnir og það allt. Ég held að menn ásælist peninga Þróunarsamvinnustofnunar og vilji setja þá í ráðuneytið sjálft og að þeir starfsmenn sem þar vinna muni ekki eingöngu sinna þróunarsamvinnu, eins og þeir eru að gera í dag, heldur verði þeir settir í ýmislegt annað.

Má ég í lokin kannski kasta fram einni spurningu til hæstv. utanríkisráðherra ef hann vill vera svo vænn að svara því í lok umræðu eða hvenær sem hann vill? Getur verið að ef hann nær sínu fram og tekur stofnunina inn í ráðuneytið þá verði skipaðir þrír eða fjórir á sendiherralaunum með sendiherratign til að sinna þessum málum? Ég spyr vegna þess að við lestur þessa frumvarps og við þá umræðu sem hefur farið fram hafa ekki komið fram nein almennileg rök sem styðja málflutning og ætlun ráðherrans nema það sé vegna þess sem ég fjallaði hérna um.

Hér ræddi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, um málið í andsvari við hv. þm. Ögmund Jónasson og talaði um hvernig utanríkisráðherra umgengst þessa stofnun í dag og spurði hvort það nálgaðist ekki hreint einelti gagnvart starfsmönnum hennar. Ég held nefnilega að það sé hárrétt. Hvers vegna var forstjórinn ekki tekinn með þegar hæstv. utanríkisráðherra og vafalaust einhverjir fleiri fóru í heimsókn í sumar til ákveðins lands til að ræða þróunarsamvinnu? Hvernig stendur á því? Er það virkilega rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að hæstv. utanríkisráðherra sé búinn að skrifa forstjóranum bréf og tilkynna honum að hann verði ekki endurráðinn, einu eða einu og hálfu ári áður en ráðningartíma hans lýkur? Ég kemst ekki að neinni annarri niðurstöðu um þetta mál og um þann óskapnað sem verið er að gera, að færa stofnunina inn í ráðuneytið.

Nú er ágætt að taka undir spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem hann setti fram hérna áðan. Mundi mönnum einhvern tíma detta í hug, til dæmis innanríkisráðherra, að taka Vegagerðina og gera hana að einhverri deild í innanríkisráðuneytinu? Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu mundum við þingmenn aldrei samþykkja það. Ég ætla að leyfa mér að efast um að nokkurn tíma verði svo vitlaus innanríkisráðherra að honum detti það í hug sem hér er verið að gera við Þróunarsamvinnustofnun.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt þá sé ég ekkert skynsamlegt við þetta mál og spyr hvers vegna í ósköpunum hæstv. ráðherra flytur það aftur eftir þá miklu andstöðu sem var um það á síðasta þingi. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var mesta framlag til Þróunarsamvinnustofnunar sem nokkurn tíma hefur verið reitt af hendi Íslendinga. Það er eitt dæmi um hvað þáverandi ríkisstjórn gerði marga hluti allt öðruvísi en núverandi ríkisstjórn, þegar þáverandi hæstv. utanríkisráðherra beitti sér fyrir því og náði því í gegnum ríkisstjórn og stjórnarflokka. Var ekki upp undir 1 milljarði bætt við í Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamvinnu þá? Við erum það rík þjóð að við eigum að leggja löndum lið hvað þetta varðar. Það sem gert hefur verið í þróunarsamvinnu Íslands til að hjálpa löndum og þjóðum hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Ég vil að það haldi áfram.

Ef ég hefði haft meiri tíma hefði ég verið alveg til í að snúa þessu frumvarp yfir í það að spyrja spurninga um ráðherranefnd (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar hvað varðar móttöku flóttamanna en ég get það ekki núna. Upp í hugann kemur ýmislegt.



[16:54]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hyggst við enda þessarar umræðu svara flestum spurningum sem hér hafa komið fram enda eru þær ekki svo margar, þetta er endurtekið efni hjá flestum þingmönnum. Ég kem hér hins vegar upp og nota þennan tíma til að mótmæla ákveðnum hlutum sem hv. þingmaður sagði um aðferðafræði og annað sem viðkemur forstöðumanni stofnunarinnar, fer yfir það síðar.

Hér hafa menn stundum talað um vinnubrögð í þessum ræðustól, ný vinnubrögð. Nú fyrir skömmu óskaði ég eftir því við varaformann þingflokks Samfylkingarinnar að fá að bregða mér frá til að flytja ræðu uppi á Akranesi þar sem eru hátíðahöld út af uppbyggingu iðnaðar sem þar er. Það er verkefni sem er að fara af stað, frábært verkefni fyrir landið í heild, fyrir Vesturland og fyrir okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Þingflokksmaður Samfylkingarinnar hafnaði því að ég fengi að bregða mér frá en ég legg til að þessari umræðu verði frestað, ég get verið kominn aftur kl. 7 og legg til að umræðunni verði frestað þann tíma. En þetta er áhugavert í ljósi þeirra umræðna sem hafa átt sér stað um ný vinnubrögð og í ljósi þess að ég veit ekki hversu oft á síðasta kjörtímabili þáverandi stjórnarandstaða hliðraði til fyrir þáverandi ráðherrum á þeim tíma. En þetta er Samfylkingin sem lætur svona. Ég mun yfirgefa salinn núna. Það er ekki ég sem stýri fundi, að sjálfsögðu ekki, en ég legg til að umræðunni verði frestað.



[16:55]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega ekki hægt að svara andsvari vegna þess að ég sá utanríkisráðherra sem flutti þetta andsvar við mig ganga úr salnum og leggja það til að fundi yrði frestað og ég tek alveg undir það.



[16:56]
Freyja Haraldsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín starfsreynsla liggur ekki á sviði þróunarsamvinnu þannig að ég hef kannski ekki dýpstu þekkingu á því sviði en við ræðum um stofnun sem sinnir starfinu sem snýr að þróunarsamvinnu og ég vil geta treyst því að unnið sé faglega vegna þess að ég er borgari í samfélagi sem er hluti af heimi og við berum þar með öll ábyrgð á þróunarsamvinnu.

Mín reynsla er samt talsvert mikil þegar kemur að stjórnsýslu, stefnumótun og samfélagsúrbótum á sviði mannréttinda og jafnréttis og sú reynsla kallar fram fullt af spurningum varðandi það að ætla að færa stofnun þróunarsamvinnu til ráðuneytisins. Mér finnst dálítið áhugavert og skrýtið stundum að okkur finnst rosalega erfitt að breyta mörgu sem er í alveg fullkomnu ólagi. Okkur finnst mjög erfitt að stíga skref til að breyta einhverju sem er löngu búið að sýna að er úrelt, þarf að laga og breyta. En svo þegar eitthvað er bara í ágætu lagi, þegar eitthvað reynist vel eins og Þróunarsamvinnustofnun þá viljum við endilega gera breytingar á því og það finnst mér athyglisvert. Og mér finnst skrýtið að stjórnvöld eyði tíma sínum í slíka vitleysu.

Hv. þm. Róbert Marshall nefndi áðan að sumu leyti sambærilegt verkefni, notendastýrða persónulega aðstoð, og lýsti því hvernig það hefði haft slæm áhrif að færa það inn í ráðuneytið. Í mínum huga var það bara ákveðin stefnuyfirlýsing, það var stefnuyfirlýsing félags- og húsnæðismálaráðherra um að hún hefði ekki áhuga á því verkefni. Því langar mig að spyrja hv. þm. Kristján Möller hvort það geti bara ekki verið ástæðan í þessu máli, (Forseti hringir.) hvort hér sé verið að gefa stefnuyfirlýsingu um að við ætlum að breyta stefnu okkar og haga málum kannski með verri hætti en við höfum gert.



[16:58]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og hvernig hún leggur fram sitt mál sem leiðir til spurningarinnar sem hún spyr mig um í lokin. Hún segir réttilega eins og við erum mörg sammála um að henni sé annt um Þróunarsamvinnustofnun vegna þess að hún hafi staðið sig vel og við berum öll ábyrgð í þessum heimi og við á Alþingi berum ábyrgð á því að stuðla að því að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum í hremmingum þeirra. Þess vegna hafa menn eins og ég gat um áðan, með síðustu ríkisstjórn, aukið mjög framlag til Þróunarsamvinnustofnunar.

Hv. þingmaður spurði, sem var mjög athyglisvert: Þegar eitthvað hefur reynst vel, af hverju látum við það þá ekki í friði? Af hverju leyfum við því ekki að starfa áfram? Af hverju vill þá hæstv. utanríkisráðherra ráðast á það og breyta? Ég er sammála því orði sem hv. þingmaður notaði að þetta er vitleysa, það er vitlaus forgangsröðun hjá ríkisstjórn að ráðast á þetta.

Við getum líka spurt vegna orða hv. þingmanns um kerfi sem reynast vel og önnur sem reynast ekki eins vel: Af hverju ráðumst við á kerfi sem reynast vel? Af hverju beitir ríkisstjórn sér ekki af meiri krafti fyrir því að breyta kerfi sem er frekar gallað með innbyggðum alls konar tekjutengingum og fleiru slíku í máli sem varðar aldraða og öryrkja og hefur verið töluvert til umræðu í þinginu síðustu daga? Það er ekki forgangsmál sem er rætt á þriðja, fjórða eða fimmta degi þingsins, lagafrumvarp um breytingar á því kerfi. Nei. Það er akkúrat eins og hv. þingmaður nefndi, það er ráðist að kerfi og stofnun sem hefur fengið viðurkenningar opinberra aðila fyrir faglegt og gott starf.



[17:00]
Freyja Haraldsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem stuðar mig kannski mest við þetta allt saman er að rannsóknir og reynsla okkar sýnir að það er mjög mikilvægt að gera greinarmun á þeim sem setja lög, þeim sem framkvæma stefnu og þeim sem hafa eftirlit. Ég get ekki séð með svo viðkvæman málaflokk eins og þróunarsamvinnu sem snýst fyrst og fremst um það að vernda mannréttindi og umhverfi o.s.frv. að það geti verið gott að hrúga öllu valdinu eða valdníðslunni allri saman á einn stað í ráðuneyti þar sem allir ætla svo að hafa eftirlit með sjálfum sér. Ég get bara ekki séð að það verði til góðs og það er sérstaklega óheppilegt núna þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum eins og að taka á móti flóttafólki og sinna því vel að við sitjum hérna og séum að röfla um þetta þegar við eigum bara að fara að vinna vinnuna okkar.

Getum við kannski farið að sinna þróunarsamvinnunni í staðinn fyrir að sitja hérna og velta því fyrir okkur hvort við eigum að taka einhverja stofnun sem sinnir hlutverki sínu vel og planta henni í eitthvert ráðuneyti? Ég held að við höfum brýnni verkefni en það.



[17:02]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn á ný vil ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið í þessa umræðu með andsvari sínu. Hitti hv. þingmaður ekki akkúrat naglann á höfuðið í síðustu orðum sínum? Getum við ekki farið að sinna þróunarsamvinnunni og gera það sem okkur ber að gera í staðinn fyrir að vera að ræða þetta ólánsfrumvarp ráðherrans sem ræðst að þessari stofnun okkar sem við erum stolt af og eins og ég sagði hér áðan hefur fengið margar viðurkenningar fyrir faglegt og gott starf?

Hv. þingmaður notaði líka orð sem ég get vel tekið undir: Af hverju eigum við að hrúga öllu valdi inn í ráðuneyti þeirra sem setja lög, þeirra sem hafa eftirlitið og framkvæmdina o.s.frv.? Við þurfum að hafa áfram þá armslengd sem hefur verið hér á milli, Þróunarsamvinnustofnun hefur staðið sig vel og það á að láta þá stofnun í friði.



[17:03]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir ræðu hans. Við höfum átt afskaplega góða og áhugaverða umræðu hér um stjórnsýsluna eða góða stjórnsýslu. Mér fannst mjög áhugavert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um það hvort hér sé verið að fara nýjar leiðir til að segja upp starfsmönnum og þá jafnvel finna nýjar leiðir til að leggja stofnanir niður. Ég skal ekki segja, ég hef ekki sérstaklega mikla þekkingu á þessu sviði eða reynslu, en mér finnst þetta klárlega vera atriði sem við þingmenn eigum að taka til góðrar og mikillar skoðunar. Í þessari umræðu hefur nokkrum sinnum verið spurt, eðlilega, að því er ég tel: Af hverju er verið að reyna að laga eitthvað sem er ekki bilað? Það virðist ekki vera hægt að benda á nein haldbær dæmi um það og ekki færð nein rök fyrir því af hverju hæstv. ráðherra vill ganga svona hart fram í því að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður og af hverju það liggur svona mikið á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann því að nú hefur það komið fram að von er á jafningjarýni DAC strax á næsta ári: Er ekki algjör firra að ætla að fara að kollvarpa því fyrirkomulagi sem við erum með núna þegar fyrir liggur að á næsta ári fáum við úttekt á því hvernig þetta kerfi er að virka og (Forseti hringir.) kannski einhverjar tillögur um það hvernig hægt væri að bæta eitthvað? Eigum við ekki að bíða eftir því?



[17:05]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og innlegg hennar í það.

Ef ég bregst fyrst við því sem kom fram hjá henni síðast, um athugun og skoðun sem verið er að gera og hvort við eigum ekki að bíða eftir því: Jú, sannarlega eigum við að bíða eftir því, en við eigum að bíða, held ég, lengur eftir því að þetta ólánsfrumvarp gangi í gegn vegna þess að við eigum hreinlega að stoppa það.

Við þurfum ekki frekari úttektir, en það er allt í lagi að hafa þær. Ríkisendurskoðun hefur meðal annars gert úttekt. Umrædd stofnun hefur aldrei farið fram úr fjárlögum, svo dæmi sé tekið. Hún hefur með öðrum orðum verið ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins en samt sem áður er ráðist á hana eins og hér er gert. Segja má kannski að stofnunin sé það mikil fyrirmyndarstofnun að ég minnist þess ekki að hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem jafnframt leiddi einhvern sparnaðarhóp sem átti að fara í gegnum þessi hluti, hafi á sinn hátt, eins og hún talaði um hlutina, ráðist að Þróunarsamvinnustofnun út af framúrkeyrslu eða neinu slíku. Ég tel að það hafi verið vegna þess að þar var ekkert að finna sem hægt var að gagnrýna þá stofnun fyrir. Þar er ekkert að finna annað en gott starf forstjóra og starfsfólks og allra þeirra sem starfa á þessu sviði, sem hafa staðið sig með mikilli prýði og hafa fengið viðurkenningar eins og hér hefur komið fram fyrir starfsemi sína.

Það sem ég vil kannski taka undir og ítreka enn frekar er það sem ég gerði að hluta af ræðu minni áðan og snertir þessa nýju nálgun ríkisstjórnarinnar um að segja upp starfsmönnum og leggja niður litlar og meðalstórar stofnanir og sameina. Ég held nefnilega, og það er rétt sem hv. þingmaður spyr mig um, að þessi nýja leið, þessi nýja samþykkt, eigi að gilda um það sem hér er verið að gera þó að það sé ekki sagt í frumvarpinu.



[17:07]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir svarið. Það kom líka fram í máli hv. þingmanns að hann velti fyrir sér hvort hér sé verið að ásælast peninga Þróunarsamvinnustofnunar til þess að fá þá inn í ráðuneytið. Hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sagði í umræðunni í gær að verið sé að taka málið af fagstofnun og færa það nær hinum pólitíska barmi ráðherrans. Ég vil spyrja: Heldur hv. þingmaður að það geti verið að ráðherranum liggi svona mikið á að koma allri þróunarsamvinnu undir sinn arm til að hann geti hlutast til um það hvers konar pólitík sé þá notuð, (Forseti hringir.) að þróunarsamvinna verði hreinlega notuð í pólitískum tilgangi og þá fyrir Ísland sem veitanda aðstoðarinnar en ekki fyrir pólitískum hagsmunum þiggjandans?



[17:09]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni og það sem hv. þingmaður spyr mig um, að ég finn ekkert annað í frumvarpinu en það að ráðherrann sé að ásælast fjármuni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til að taka það undir hatt ráðuneytisins, setja þá þar inn með öllu eins og það er í dag og mun svo taka til hendinni gagnvart þeim átta starfsmönnum sem eiga að flytjast með, færa þá í önnur störf eða eftir atvikum kannski að ráða ekki í störf ef einhverjir kjósa að hætta, að þiggja ekki áframhaldandi starf nema ef þessi nýja samþykkt ríkisstjórnar eigi að gilda eins og læðist að mér sá grunur.

Já, sporin hræða, og hvernig hæstv. ráðherra hefur talað, m.a. um málefni flóttamanna, í þeirri umræðu sem er á Íslandi í dag, þá er ég í raun og veru (Forseti hringir.) skíthræddur við þann ráðherra, hvað hann gerir í þessum málaflokki.



[17:10]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. utanríkisráðherra áður en hann rauk hér á dyr, þá vil ég segja eftirfarandi: Það hefur aldrei tíðkast hér þegar mál eru enn á forræði ráðherra og eru hér í 1. umr. að ráðherra fari úr umræðunni eða fái sérstaka heimild þingsins og eftir atvikum þingflokksformanna til þess og alls ekki þegar um er að ræða umdeild mál. Það hefur alltaf verið gerð skýlaus krafa um það sem ég þekki mætavel af eigin raun að ef slíkt kemur upp þá er umræðunni frestað. Og aðeins til að ég miðli af reynslu þingmanns sem hefur verið hér í fjórum ríkisstjórnum þá minnist ég þess þegar ég var hér einu sinni og hafði framsögu fyrir mjög umdeildu máli, þá gerðu þingmenn, þar á meðal úr flokki hæstv. ráðherra, athugasemdir við það ef ég brá mér úr salnum til að hlýða kalli náttúrunnar svo ég hélt bara í mér. (Forseti hringir.) Ég tel hins vegar sjálfsagt að verða við því sem hæstv. ráðherra sagði að fresta fundi, ég mæli með því, það er ekki hægt að halda áfram án hans, og hefja þá umræðuna kl. 7 og vera eftir atvikum til þess tíma sem búið var að semja um.



[17:12]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði af athygli á orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar enda þekki ég ekki mjög vel til þess hvað tíðkast hefur varðandi viðveru ráðherra en ég verð þó að segja að mér fannst þetta allsérkennileg uppákoma þegar ráðherra tilkynnti það að hann ætlaði ekki að vera hér í þessari umræðu og rauk á dyr.

Mér finnst hins vegar ekki ganga að ætla að fresta umræðunni til kl. 7 vegna þess að þá þóknist hæstv. ráðherra að koma aftur. Mér finnst miklu eðlilegra að gera kröfu um að við frestum þessari umræðu í dag og tökum hana aftur upp á morgun í staðinn fyrir að gera einhverja tveggja klukkutíma eyðu í störfum okkar. Bara fínt mál, frestum umræðunni og höldum áfram á morgun.



[17:13]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta mál hér í gær athugasemdalaust á kvöldfundi frá kl. 8, málið var tekið á dagskrá kl. 8 í gærkvöldi eins og hér lægi lífið á með þetta mál. Við gerðum enga athugasemd við það heldur vorum hér til miðnættis í gær þó að það sé átta og hálfur mánuður til þingloka. Við hljótum því að gera athugasemd við það að nú þegar við erum að byrja að ræða málið aftur og þetta sinn í dagsbirtu að ráðherrann fari. Við erum öll með spurningar til hans, geri ég ráð fyrir. Ég er að minnsta kosti númer þrjú á mælendaskrá og ég er með nokkrar spurningar til ráðherra sem ég tel skipta máli að hann svari áður en málið fer til nefndar. Og ég nenni ekki að byrja enn einn veturinn þar sem maður stendur hér og talar út í tómið. Það er 16. september og ráðherrarnir eru strax byrjaðir að hlaupa á dyr í sínum eigin málum.

Þegar verið er að tala um ásýnd þingsins þá þurfa allir að líta í eigin barm. (Forseti hringir.) Ráðherrarnir eiga að vera hér og fylgja sínum málum til nefnda.



[17:14]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemd við fundarstjórn forseta því það er langt síðan ég bað um orðið en ég fyrirgef það.

Virðulegi forseti. Ég er ekki hokin af reynslu sem varaformaður þingflokks. Ég er búin að vera það í rétta viku eða svo. Ég er oftast ekki kona formlegheita en ég hélt að ef það kæmi formleg beiðni til þingflokksformanna um að ráðherrar þyrftu að víkja af fundi og eitthvað slíkt, þá væri það öðruvísi en að spyrja: Gerið þið athugasemdir ef ég fer af fundi? Ég hélt að við værum að spjalla saman, við hinir góðu kunningjar sem við hæstv. ráðherra erum, og hann segir: Munduð þið gera athugasemdir? Já, auðvitað gerum við athugasemdir. Síðan sagði ég við hann, eftir nokkra umhugsun: En þú getur náttúrlega beðið um að fresta fundi, við gerum engar athugasemdir við það. En formleg skal ég vera í framtíðinni í því virðulega embætti sem það er að vera varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar.



[17:15]
Forseti (Þorsteinn Sæmundsson):

Forseti biður hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur velvirðingar á því að hafa ruglast hér í röðinni.



[17:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Talandi um formlegheit, þá hefði ég nú kannski haldið að hæstv. ráðherra hefði átt að fara yfir það með forseta þingsins og þingflokksformönnum að hann þyrfti að fara frá, ef hann teldi það mikilvægt að fara úr þinghúsinu. Mér finnst úr því sem komið er best að við frestum bara fundi og við tökum upp þráðinn á morgun því ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um það að ekki sé gott að standa hér og tala og spyrja spurninga sem aðeins hæstv. ráðherra getur svarað og hann er ekki á staðnum. Mér finnst það því góð hugmynd að fundinum verði þá bara frestað og við tökum umræðuna aftur á morgun þegar hæstv. ráðherra hefur sinnt sínum mikilvægu erindagerðum.



[17:16]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er sem sagt sagan af 145. þingi. Hér erum við í viku tvö og það gerðist í gær að mælt var fyrir stjórnarfrumvarpi kl. 8 um kvöld einhverra hluta vegna, sem við áttuðum okkur reyndar betur á eftir því sem umræðunni vatt fram að enginn stóð með málinu nema ráðherrann. Það mætti segja mér að ef það yrði leynileg atkvæðagreiðsla um þetta hér í þingsal þá færi það sirka 62:1 á móti málinu. Það er kannski þess vegna sem ráðherrann vill bara gera þetta hratt og vel, en hann verður veskú að vera hér til staðar á meðan við erum að ræða málið vegna þess að þetta er mjög mikið álitamál og mikill ágreiningur um það.

Ráðherrann hefur sjálfur komið hér upp og óskað eftir því að fundi verði frestað til kl. 7 vegna þess að þá geti hann komið aftur til umræðunnar. Það finnst mér eðlilegt að gera vegna þess að það er algerlega óeðlilegt að halda umræðunni áfram án þess að ráðherrann sé í húsi. Við skulum þá bara gera hlé á fundinum til kl. 7 og halda svo umræðunni áfram

Virðulegi forseti. Það þarf aldeilis að fara að huga að því hvernig 145. þing er að fara á stað.



[17:18]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum yfir þeim vinnubrögðum sem eru hérna á þingi. Ég fékk sams konar boð og hæstv. utanríkisráðherra um að koma í kjördæmið og það boð lá fyrir með margra daga fyrirvara og hæstv. ráðherra vissi mætavel hvenær hann átti þá að vera mættur í það boð sem okkur var boðið, þingmönnum kjördæmisins. Ég afþakkaði boðið af því að ég var enn þá í þeirri umræðu sem hér fer fram og taldi eðlilega að utanríkisráðherra væri hér líka. Mér þykir mjög undarlegt að síðan tilkynni hann það bara sisvona í einhverri andarteppu að hann verði að rjúka af stað og það sé varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar að kenna ef hann geti ekki mætt í þetta boð. Það er auðvitað með ólíkindum að bjóða okkur þingmönnum upp á svona vinnubrögð (Forseti hringir.) og ég gef ekki mikið fyrir að Þróunarsamvinnustofnun fari undir ráðuneyti þar sem hæstv. ráðherra hagar sér svona.



[17:19]
Páll Valur Björnsson (Bf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að koma hingað upp til að taka undir með þeim sem rætt hafa um fundarstjórn forseta. Ég er alveg steinhissa á því að svona nokkuð geti gerst í þinginu, en maður hefur nú svo sem séð ýmislegt gerast hér sem maður er hreinlega orðlaus yfir.

Að horfa hér á eftir utanríkisráðherra út áðan á harðahlaupum — hann hafði beðið um að umræðunni yrði frestað til að hann gæti verið viðstaddur einhvern viðburð — ég bara á ekki eitt einasta orð.

Þetta er forgangsmál utanríkisráðherra á nýju þingi, sem er frekar skrýtið því að miðað við umræðuna sem var um málið í vor gat hann alveg gert sér í hugarlund hvernig umræðan um það yrði nú. Að hann geti ekki setið undir henni sjálfur er alveg forkastanlegt, finnst mér. Þó að ég vilji ekkert slæmt um hæstv. utanríkisráðherra segja þá er alveg hreint með ólíkindum að fylgjast með þessu.

Ég legg til að umræðunni verði hreinlega frestað þangað til á morgun.



[17:20]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er mér að meinalausu að byrja aftur að ræða þetta mál kl. 19. Hér eru tveir þingmenn Pírata á mælendaskrá og við vonumst til að geta tekið til máls í kvöld. En hins vegar verður að viðurkennast að það er svolítið skrýtið að hefja umræðuna kl. 19 og ljúka henni kl. 20, að hafa einn klukkutíma til að ræða þetta mál. Gera má ráð fyrir að það séu kannski tveir til þrír ræðumenn eða eitthvað því um líkt og þegar svo ber við sé ég enga ástæðu til þess að hafa þennan klukkutíma til umræðna akkúrat í kvöld. Þetta er ekki nokkur tími. Við getum alveg eins frestað umræðunni út daginn og tekið hana upp að nýju á morgun. Ég held að það mundi koma í sama stað niður hvað varðar efnisgæði umræðunnar, fyrir utan það að ýmsir þingmenn gætu eflaust nýtt afganginn af deginum betur í önnur störf ef þessi klukkutími færi í eitthvað annað.

Að því sögðu þá hef ég skilning á því að hæstv. utanríkisráðherra þurfi að fara, en það er ljóst að við þurfum ekki að hafa þennan klukkutíma til umræðna í kvöld.



[17:21]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst þessi atburður vera tilefni til þess að hv. forsætisnefnd taki málið aðeins til skoðunar. Mér fannst hæstv. utanríkisráðherra sýna þinginu ansi mikla lítilsvirðingu. Hann kemur upp í pontu og talar um að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, varaþingflokksformaður Samfylkingarinnar, hafi sagt að hún mundi gera athugasemd við það ef hann færi úr húsi. Ég hélt satt að segja að hann ætlaði í framhaldinu að segja: Þess vegna fer ég ekki úr húsi vegna þess að ég geri auðvitað það sem þingmenn vilja og ætlast til af mér í þessum sal. En nei, hann segir þvert á móti: Ég ætla nú samt að rjúka af stað, og er farinn.

Herra forseti. Það hlýtur að vera ástæða til þess fyrir forsætisnefnd að fara yfir þetta og íhuga aðeins stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað svona lagað varðar.