145. löggjafarþing — 8. fundur
 17. september 2015.
upplýsingalög, 1. umræða.
frv. GÞÞ o.fl., 19. mál (kaup á vörum og þjónustu). — Þskj. 19.

[17:17]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er einfalt. Það gengur út á að opna bókhald ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Það var flutt á síðasta þingi. Þá var 1. flutningsmaður hv. þm. Óli Björn Kárason ásamt þeim sem hér stendur og hv. þm. Brynjari Níelssyni en núna flytja málið í forföllum hv. þingmanns sömu flutningsmenn og að auki hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Svo ég lesi beint upp úr breytingartillögunni með frumvarpinu, með leyfi forseta, segir hér um frumvarpið:

„Stjórnvöldum og lögaðilum sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er skylt að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði, nema ákvæði 10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna eigi við. Skulu upplýsingarnar vera öllum aðgengilegar og birtar sem mánaðarlegt yfirlit á vef viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þar skal kaupfjárhæð koma fram, ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá skulu einnig fylgja upplýsingar um hver seljandi er.

Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, í fyrsta sinn 1. janúar 2018.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2016.

Megintilgangur frumvarps þessa er að tryggja aðgang almennings, fjölmiðla, fræðimanna og félagasamtaka að upplýsingum um hvernig opinberir aðilar, jafnt á vegum ríkis sem sveitarfélaga, verja sameiginlegum fjármunum. Aðgangur almennings að slíkum upplýsingum er sjálfsagður og eðlilegur.

Þá mun birting þeirra leiða til aukins aðhalds með hinu opinbera og þar með tryggja betur að hið opinbera verji fjármunum af skynsemi og ráðdeild.

Kaup ríkis og sveitarfélaga á vörum og þjónustu á árinu 2013 voru tæp 28% af heildartekjum sem námu tæpum 797 milljörðum kr. Þá eru ótalin kaup fyrirtækja sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila. Með samþykkt frumvarpsins munu ekki eingöngu ráðuneyti, undirstofnanir þeirra og sveitarfélög þurfa að birta mánaðarlega yfirlit yfir keyptar vörur og þjónustu, heldur einnig öll fyrirtæki sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila.

Hér er ekki lagt til að félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem byggja rekstur sinn að mestu eða öllu leyti á framlögum frá ríki eða sveitarfélögum falli undir ákvæðið. Flutningsmenn telja hins vegar að í náinni framtíð sé nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um slíka almenna upplýsingaskyldu aðila sem þiggja opinbert fé. Þannig verði fjárveitingar opinberra aðila bundnar þeim skilyrðum að viðkomandi upplýsi með sundurgreindum hætti hvernig þeim fjármunum hefur verið varið. Á síðustu árum hafa verið stigin ákveðin skref í Bretlandi við að opna opinbera stjórnsýslu og gera fjármál ríkis og sveitarfélaga gagnsærri en áður. Árangurinn er aukið aðhald og sparnaður í innkaupum en ekki síður hefur orðið til jarðvegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki með nýjar og ódýrari vörur og þjónustu fyrir opinbera aðila. Þannig hefur samkeppni um viðskipti við opinbera aðila aukist sem hefur leitt til lægra verðs á aðföngum og keyptri þjónustu.

Reynslan í Bandaríkjunum hefur verið svipuð en árið 2006 samþykkti Bandaríkjaþing lög, The Federal Funding Accountability and Transparency Act of 2006, þar sem alríkinu og stofnunum þess er gert skylt að birta opinberlega upplýsingar um hvernig fjármunum ríkisins er varið. Í samræmi við lögin var komið á fót sérstakri vefsíðu, USASpending.gov, þar sem skattgreiðendur geta nálgast upplýsingar um það hvernig alríkið ver fjármunum sínum. Nú hafa a.m.k. 46 ríki Bandaríkjanna opnað svipaðar vefsíður þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um útgjöld viðkomandi ríkis, m.a. um kaup á vörum og þjónustu. Þá hafa margar borgir og sveitarfélög í Bandaríkjunum farið svipaðar leiðir. Upplýsingakerfi og gagnsæisgáttir alríkisins og einstakra ríkja Bandaríkjanna hafa aukið aðhald að fjárveitingavaldinu og embættismönnum. Ábendingar almennings og fjölmiðla hafa leitt til þess að milljónir dollara hafa sparast. Aukinn þrýstingur hefur orðið til þess að opinberir aðilar fara betur með skattfé og sóun hefur minnkað.

Markmið frumvarpsins er ekki aðeins að tryggja betri meðferð opinbers fjár og draga úr sóun heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður. Gagnsæi við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu hamlar því að óeðlilega sé staðið að verki og eykur þar með traust á opinberum aðilum. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að á eftir 13. gr. upplýsingalaga um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda komi ný grein er verði 13. gr. a með fyrirsögninni: Upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu. Markmiðið með greininni er að skylda stjórnvöld og lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, að birta opinberlega sundurgreindar upplýsingar um kaup á vörum og þjónustu yfir 150.000 kr. í hverjum almanaksmánuði. Lagt er til að fjárhæðin hækki miðað við neysluvísitölu annað hvert ár, í fyrsta sinn 1. janúar 2018.

Í greininni felst jafnframt að upplýsingarnar skuli vera öllum aðgengilegar og birtar á vef viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar. Þannig skuli birtur listi yfir kaup hvers mánaðar innan 40 daga frá kaupum sem voru samþykkt 1. dag mánaðar. Kaupfjárhæð komi fram ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu. Þá fylgi einnig upplýsingar um hver seljandi er, þ.e. nafn og kennitala. Nauðsynlegt er að leggja til takmarkanir á þessari skyldu stjórnvalda og lögaðila, sbr. 10. gr. laganna, en samkvæmt þeirri grein er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast. Meta þarf því í hverju tilfelli hvort heimildin til takmörkunar eigi við en hana ber að túlka þröngt út frá meginreglunni sem lögð er til í greininni. Komi fram krafa um aðgang að upplýsingum sem hafa ekki verið birtar samkvæmt greininni og sem lögaðili ásamt æðra stjórnvaldi synjar um aðgang að á grundvelli 10. gr. laganna yrði unnt að bera slíka synjun stjórnvalds undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Með samþykkt frumvarpsins munu ekki eingöngu ráðuneyti, undirstofnanir þeirra og sveitarfélög þurfa að birta mánaðarlega yfirlit yfir keyptar vörur og þjónustu heldur einnig öll fyrirtæki sem eru að meiri hluta í eigu opinberra aðila.

Virðulegi forseti. Í örstuttu máli er þetta svona. Hér er bókhaldið opnað fyrir almenning og aðra til að auka líkurnar á ráðdeild og sparnaði og koma í veg fyrir sóun og spillingu. Fordæmin eru til staðar. Við gerum ekki neitt hér sem enginn hefur gert áður, við erum ekki að finna upp hjólið. Til að vekja athygli á ástandinu eins og það er í dag má nefna að búið er að birta endalausar skýrslur. Margir benda á að það borgi sig fyrir hið opinbera að bjóða út vöru og þjónustu. Til eru rammasamningar, þ.e. sérstofnun sem heitir Ríkiskaup. Nú skyldi einhver segja: Það hlýtur þá að hafa verið gert, en staðreyndin er að það er ekki gert. Maður mundi ætla að það væri t.d. einfalt mál að bjóða út rafmagn, síma og aðra slíka þætti sem spara mundu milljónir, jafnvel tugmilljónir fyrir einstakar stofnanir, en það er ekki gert. Það er ekki einu sinni farið inn á rammasamninginn þar sem ódýrasta varan er. Ég nefni bara tvær vörur af því að þær eru sams konar og ekkert mælir gegn því að slíkt sé boðið út.

Meiri hluti hv. núverandi fjárlaganefndar hefur farið leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Við erum búnir að senda hverju einasta ráðuneyti bréf sem við viljum fá sundurliðað svar við um hvað búið sé að bjóða út og hverju það hafi skilað. Enn sem komið er hefur mjög lítið af upplýsingum borist en þó hefur komið bréf, svo maður sé sanngjarn, frá einstaka ráðuneytum þar sem sagt er að þessar upplýsingar séu á leiðinni. En ég veit það fyrir víst að því er ekki fylgt eftir, hvorki í lagabókstafnum né stefnu stjórnvalda hvað þetta varðar.

Við munum halda því áfram í meiri hlutanum í hv. fjárlaganefnd að fylgja þessu máli eftir en við þurfum augljóslega að ganga lengra og hér er tæki til þess. Það þarf einfaldlega að opna þetta. Ég vek athygli á því að eitt sem tilgreint er í greinargerðinni og ætti að vera smámál snýr að því að þetta auðveldar líka nýjum aðilum, sem oftast eru litlir aðilar, oft einyrkjar sem koma af markaðnum, að koma vöru sinni áleiðis og það er gríðarlega mikilvægt. Þarna er um að ræða kaup hins opinbera upp á nær 800 milljarða kr. þannig að það er eftir miklu að slægjast fyrir þá sem vilja selja vöru og þjónustu og mikilvægt að þeir hafi tækifæri til að vekja athygli á vöru sinni og átta sig á hvar tækifærin liggja, því að tækifæri þeirra sem eru með góða og ódýra vöru eru líka tækifæri fyrir skattgreiðendur.

Það er í þriðja skipti sem þetta frumvarp er lagt fram og ég vonast til þess að það fái afgreiðslu núna. Og þrátt fyrir að færa megi rök fyrir að málið eigi jafnvel heima í annarri nefnd legg ég til að því verði vísað til hv. fjárlaganefndar þó að þetta séu upplýsingalög, vegna þess að þau snerta beint rekstur ríkisins. Það getur ekki verið skýrara. Það er því óeðlilegt að málið fari til annarrar nefndar jafnvel þótt upplýsingalögin heyri ekki undir hv. fjárlaganefnd. En þetta er einmitt mál sem hv. fjárlaganefnd, sem hefur lengri tíma en nokkurn tíma áður til að fara yfir fjárlögin, á að ræða um leið og við förum í gegnum fjárlagavinnuna.

Ég vek athygli á því að ekki er bara um ríkisstofnanir að ræða heldur öll fyrirtæki í eigu ríkisins sem ríkið á meira en 51% hlut í. Þá þýðir það ohf.-fyrirtækin, sem mörg hver hafa lagt mikið á sig til að halda upplýsingum — þau eru náttúrlega ekki mörg, en það eru mjög ljós dæmi um að þau hafi reynt að halda upplýsingum frá hv. fjárlaganefnd og gert okkur mjög erfitt fyrir við að veita eðlilegt aðhald sem við erum þó kosin til að gera.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar til afgreiðslu.



[17:28]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er langt síðan hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hætti að koma mér á óvart, en mér finnst að hér reki hvert sögulegt atvikið annað. Mér finnst það sögulegt þegar hv. þingmaður stígur hér fram með tveimur öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og er engu líkara en á þá hafi vaxið sósíaldemókratískir píratavængir. Hv. þingmaður leggur fram frumvarp sem hann segir að sé beinlínis til að auka gegnsæi og koma í veg fyrir spillingu. Ég segi: Fyrir hönd okkar hinna sósíaldemókratísku pírata, velkominn í hópinn, hv. þingmaður.

Ég veit að hv. þingmaður hefur alltaf verið skeleggur talsmaður einstaklingsfrelsis og litla mannsins í viðskiptum en leyfist mér þá á þessum góða degi að gagnálykta frá máli þingmannsins. Hv. þingmaður eyddi löngu og glæsilegu máli í að reifa hvað þetta væri mikilvægt fyrir þá sem væru litlir og smáir og vildu koma sér á framfæri. Gagnvart hverjum? Gagnvart einhverjum spilltum kommissörum í kerfinu? Leyfist mér þá að gagnálykta að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að innan okkar kerfis, og ég ætla ekki að segja í skjóli neins sérstaks flokks en væntanlega þeirra sem hér hafa lengstum farið með völdin, hafi þrifist háttsemi sem er þannig að mönnum sé bægt frá nema þeir séu í réttum færum gagnvart þeim sem með völdin fara. Ég bara spyr í alvöru. Það hlýtur að vera eitthvert andlag við þessa tillögu. En til að ég taki það alveg skýrt fram, þá er ég sammála tillögunni.

Ég hef tvær spurningar til hv. þingmanns. Hann fór nokkrum orðum um það að tillagan ætti ekki að ná yfir félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem eru að stóru leyti reknar af almannafé. Hvers vegna ekki? Að öðru leyti til að taka af vafa um afstöðu mína, (Forseti hringir.) þá er ég sem leir í höndum þingmannsins gagnvart þessu máli og til að sýna það í verki ef hv. þingmaður vill mitt atkvæði til að það fari til fjárlaganefndar og til að það sé betra fyrir málið þá er ég til í það.



[17:31]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður byrjaði hélt ég að hann ætlaði að kalla mig repúblikana vegna þess að ég held að þeir hafi byrjað á svipuðu mál á sínum tíma. En svo var ekki (ÖS: Er það skammaryrði í huga þingmannsins?) því að hv. þingmaður sagði að á mig væru að vaxa sósíaldemókratískir píratavængir. Það er bara fínt að vera með allt undir og breið samstaða er bara góð. Ég fagna því ef hv. þingmaður, sem lýsti því yfir, ætli að styðja þetta mál og ég geri ekkert lítið úr því. En ég held hins vegar að það sé alþjóðlegt verkefni að gæta almannafjár og það er það, öll þjóðfélög eru sífellt að eiga við það, og mér er alveg nákvæmlega sama hvaðan þær hugmyndir koma. Þær eru góðar og eru alveg í anda þess sem ég hef barist fyrir frá því ég hóf að hafa afskipti af stjórnmálum. Þegar ég var formaður SUS þá gerði ég eitt sem var kannski svolítið í anda þessa og fékk skammir fyrir að við settum stofnanir á svart/hvítan lista, við settum á hvítan lista stofnanir sem voru alltaf innan ramma fjárlaga og svo fóru á svarta listann þær stofnanir sem fóru alltaf yfir, og við gerðum ýmislegt annað til að draga athyglina að því hvernig væri farið með opinbert fé.

Hv. þingmaður spyr hvernig gangi núna, ég veit ekki. Það væri áhugavert að kanna tregðulögmál, af hverju þau eru til staðar. Fyrir mér eru þau óskiljanleg. Ég er þeirrar skoðunar að þær opinberu stofnanir sem bjóða ekki út, til þeirra eigi að lækka fjárframlög. Þær hafa augljóslega of mikið af peningum ef þær þurfa ekki að bjóða út. En ég hef bara ekki svarið við því af hverju þessi tregða er.

Hv. þingmaður spyr um sjálfseignarstofnanir. Þeirra er sérstaklega getið vegna þess að mönnum finnst þær koma til greina en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fyrsta skrefið sé að gera þetta með þessum hætti en við ættum auðvitað að ræða það líka.



[17:33]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf gaman að því að verða vitni að endurfæðingu og mér finnst sem hér stígi fram ákveðinn hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins endurfæddir. Allt í einu reisa þeir gunnfánann gegn spillingu. Hv. þingmaður kallaði þetta, sem hann í seinni ræðu sinni nefndi tregðulögmál, spillingu í fyrstu ræðunni.

Það sem hv. þingmaður lýsir er auðvitað ekkert annað en spilling og mér finnst að hv. þingmaður eigi, af því að hann er kjarkaður, að stíga skrefið til fulls og greina fyrir okkur hvernig þetta tregðulögmál birtist í reynd. Mér fannst hv. þingmaður koma mjög nálægt því. En ég sakna þess gagnvart þessari endurfæðingu og því liðsinni sem okkur er að berast í baráttunni fyrir auknu gagnsæi í samfélaginu að það skuli bara vera þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem fylkja liði undir forustu hv. þingmanns.

Enn og aftur segi ég: Ég fagna þessu. Það má síðan velta því fyrir sér hvort eitthvert ósamræmi sé í afstöðu þessara þriggja hv. þingmanna sem til dæmis vilja fá upplýsingar um hvaða persónur það kunna að vera sem verið er að kaupa af, allt niður í 150 þús. kr. Ef maður leggur þetta saman þá veltir maður fyrir sér hvort hugsanlega sé farið þarna á svig við það sem við sósíaldemókratískir píratar erum nú stundum að velta fyrir okkur, sem er persónufrelsi, persónuverndin.

Er ekki svolítið rökleg andstaða eða ágreiningur á milli þessa viðhorfs og síðan hins að hv. þingmaður hefur allar götur frá því á sælum dögum hans sem formanns SUS barist gegn því til dæmis að birtar séu upplýsingar um einstaklinga sem varða skatta þeirra? Er þetta ekki pínulítil þversögn?

Ég held að hv. þingmaður sé einn af þeim sem vilja umbreyta sér, gera sig að betri einstaklingi og betri stjórnmálamanni, skilja hlutina betur. (Forseti hringir.) Vill hann þá ekki fara alla leið með okkur, láta til dæmis af andstöðu sinni við það, ef hann ætlar að samþykkja þetta, að menn upplýsi um skatta einstaklinga. (Forseti hringir.) Í sumum löndum er hægt að lesa það bara á netinu.



[17:35]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði að vísu í ræðu minni um að þetta væri barátta gegn spillingu og ég átta mig ekki á því hvernig þetta geti talist endurfæðing þegar maður er að flytja mál sem er nákvæmlega í anda þess sem maður hefur barist fyrir frá því að maður byrjaði í stjórnmálum. Eins og ég skil hv. þm. Össur Skarphéðinsson oft þá þarf það ekki að vera alltaf.

Ég hef engar áhyggjur af því að við séum ekki með fullan stuðning Sjálfstæðisflokksins á bak við þetta mál en við vildum hins vegar koma snemma með málið og við þingflokksstjórnin erum á því.

Varðandi persónufrelsið þá er það þannig núna að þú getur kallað eftir upplýsingum til dæmis varðandi sérfræðikostnað. Þá færðu upplýsingar um persónur, það er gert núna. Ég hef meðal annars kallað eftir því og í það minnsta hv. þingmenn úr flokki hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hafa gert það, en menn geta ekki fengið launin; ef sett er á tímabundin ráðning, sem er það sama og sérfræðikostnaður, þá er ekki hægt að kalla það fram.

Varðandi upplýsingar um skattana og samræmið. Hvar ætla menn að draga línuna í því? Vilja menn til dæmis kalla fram upplýsingar um skuldir einstaklinga? Ef þú ert með skattana, af hverju þá ekki skuldirnar og hvaðeina sem við setjum undir hefðbundið persónufrelsi?

Ég hélt, af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er á svo miklu píratasvingi, að hann ætlaði að segja að hann væri á móti því að leggja fram þessar persónulegu upplýsingar um hagi fólks, svona um tíma í ræðunni, en það breyttist aðeins. En við ættum að ræða þau mál í þaula, en það tengist kannski ekki alveg þessu máli og ég held að við ættum að klára það eins hratt og við getum.



[17:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum fyrir þessa stórgóðu tillögu. Hann getur algjörlega stólað á minn stuðning við þetta góða og þarfa mál.

Ég er með tvær spurningar en ég ætla að hafa bara eina í hvoru andsvari. Sú fyrri er: Til hvers er þessi 150 þús. kr. takmörkun? Ég velti því fyrir mér hvers vegna svona takmarkanir eru settar yfir höfuð. Ég sé ekki skýringu á því í greinargerð og er hreinlega forvitinn og líka vegna þess að ég velti því fyrir mér hvort ekki megi komast fram hjá því að upplýsingar verði birtar með því að senda einfaldlega marga litla reikninga upp á 149 þús. kr. sem dæmi. Ég velti því fyrir mér hverjar forsendurnar eru á bak við þetta. Ég geri ráð fyrir því að þarna sé einhver persónuverndarvinkill eða því um líkt sem menn hafa kannski verið að velta fyrir sér, en svo ég upplýsi bara strax um mína afstöðu til þess þá finnst mér það ekki einkamál hvað ríkið borgar, svo lengi sem það er fyrir fram vitað af þeim sem eiga í viðskiptum við ríkið hvað er opinbert og hvað ekki. Ég lít ekki á það sem vandamál enda er það ekkert einkamál hvað ríkið borgar í sjálfu sér, þegar kemur að kaupum á vöru og þjónustu fyrir opinber fyrirtæki. Mér finnst það ekki vera einkamál. En ég velti fyrir mér þessu 150 þús. kr. marki.



[17:39]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar og sömuleiðis stuðninginn.

Það er mjög eðlilegt að velta upp spurningu um 150 þús. kr. Ef hv. þingmaður fer, sem ég veit að hann mun gera, inn á þá heimasíðu sem vísað er á í greinargerðinni þá sér hann strax vandann. Þetta er svo gríðarlega mikið af upplýsingum. Það væri náttúrlega annað mál ef upplýsingarnar væru settar fram á þann hátt að sem auðveldast væri fyrir fólk að skilja það, svo að maður tali nú bara um hlutina eins og þeir eru, en því mundi fylgja mikill kostnaður. Hver og einn sem ætlar að skoða þetta verður að leggja þó nokkra vinnu í það að átta sig á stóru línunum og hvernig þessi mál liggja. Þannig að 150 þús. kr. eru meira hugsaðar til þess að takmarka aðeins upplýsingamagnið. Kannski þarf ekki á því að halda en eftir því sem ég best veit þá eru alltaf settar einhverjar lágmarksupphæðir, ég geri þá ráð fyrir því að ef maður setti ekki þau takmörk mundi upplýsingunum fjölga verulega án þess að þær mundu kannski nýtast í því sem er markmið frumvarpsins. En auðvitað er 150 þús. kr. markið ekki greypt í stein og það er sjálfsagt að fara yfir það. Mér fannst alla vega þegar ég var að skoða þetta lauslega að það þyrfti að setja einhver takmörk og það er augljóst þegar við horfum til Bandaríkjanna og Bretlands þar sem eru enn stærri stofnanir og enn meiri kostnaður o.s.frv., að þá erum við að tala um enn meira umfang. En 150 þús. kr. eru ekki greyptar í stein, en þetta er ástæðan fyrir því að þær eru þarna inni, virðulegi forseti.



[17:41]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál eigi heima í fjárlaganefnd, vegna eðlis málsins. En þessi 150 þús. kr. spurning plagar mig enn þá. Ég geri ráð fyrir því að hv. fjárlaganefnd muni einfaldlega fara yfir málið og komast að niðurstöðu um það.

Nú verð ég hreinlega að viðurkenna að ég er búinn að gleyma seinni spurningu minni og ætla frekar að koma með hana í ræðu minni seinna.



[17:42]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef stundum litið á það sem hlutverk mitt á langri samferð minni og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að leggja honum til efnivið til að brýna sinn gogg á og reyna í honum hin rökfræðilegu þolrif. Hann er alltaf að batna, ég verð að segja það honum til hróss.

Til að taka af allan vafa vil ég lýsa því yfir að ég styð þetta þingmál algjörlega, alla leið. Hins vegar fyrirgefst mér væntanlega, virðulegi forseti, að hafa verið í nokkru uppnámi í ræðum mínum áðan því að það er svo sjaldan sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins stíga fram og hafa beinlínis frumkvæði að því að reisa gunnfána í baráttu gegn því sem er bókstaflega í munni þeirra kallað spilling, og ég fagna því.

Hv. þingmaður lýsti ákveðnum aðstæðum sem geta skapast í umhverfi þar sem upplýsingar liggja ekki á lausu og geta leitt til þess sem ekki er hægt að kalla annað en spillingu. Hv. þingmaður beitti því orði væntanlega vegna þess að það eru svo fáir í þessum sal að hlusta á hann og enginn sem kemur og slær á putta hans. Í fyrri ræðum sínum hefur hann kallað það tregðulögmál.

Það breytir engu um það að hér er um að ræða mikilvægt skref til að tryggja að allir geti notið jafnræðis og til að ýta til baka því tregðulögmáli sem hefur oft leitt til þess að nýir aðilar á markaði, sem hafa freistað þess að koma varningi sínum og þjónustu á framfæri gagnvart ríkinu, sitji oft eftir með skarðan hlut. Hér er um að ræða ákaflega háar upphæðir, eins og hv. þingmaður reifaði í ræðu sinni, ríkið og hið opinbera og þær stofnanir sem ríkið á meiri hluta í, sem hér um ræðir, eru gríðarlega stór partur af veltunni á þessum markaði. Því segi ég það að þetta er mikilvægt og jákvætt og stuðlar vitaskuld að því að skapa heilbrigðari viðskiptahætti og betra viðskiptaumhverfi. Og ekki skal ég af því draga að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið einna fremstur í sínum flokki til að tala fyrir vinnubrögðum sem þjóna þeim tilgangi, en hitt er svo það að mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn almennt allt of oft og allt of lengi hafa dregið lappirnar gagnvart því.

Hér var lögð fram gríðarlega þykk og viðamikil skýrsla í kjölfar bankahrunsins, sem búin var til af rannsóknarnefnd Alþingis, þar sem allar meginniðurstöður hnigu að því að menn gerðu reka að því að tryggja betur gagnsæi og upplýsingaflæði og opna fyrir upplýsingar gagnvart almenningi og mér hefur oft fundist vanta á það að Sjálfstæðisflokkurinn tæki undir það.

Af því að ég er nú í stjórnmálahreyfingu sem aðhyllist umhverfisvernd og hef barist árum saman, allt frá því að ég var umhverfisráðherra frá 1993–1995, fyrir því að í lög væru slegnar ákveðnar skuldbindingar sem tryggðu að almenningur ætti frjálsan aðgang að öllum upplýsingum sem umhverfismál varðaði, ekki síst þeim sem lúta að umhverfismati, þá hefur mér oft fundist Sjálfstæðisflokkurinn heldur leggjast í hina áttina. Hér hins vegar, að vísu á gjörólíku sviði, eru þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að taka rösklega á árinni að því er varðar upplýsingaopnun og gagnsæi og ég fagna því.

Ég segi bara: Virðulegur forseti. Guð láti gott á vita. Ég vona að þessi litli partur þingflokksins nái með afli sínu og áræði að draga allan þingflokkinn með sér í þessu máli og ekki aðeins á sviði viðskipta heldur alls staðar. Heilbrigt samfélag getur aldrei orðið til nema við tryggjum sem ríkast gagnsæi.



[17:46]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg viðurkenna það að ég nota sparlega orðið spillingu. Mín tilfinning er sú, eftir að hafa verið til í nærri fimmtíu ár, og sérstaklega á síðustu árum, að þeir sem hæst tala um spillingu, tala mest um siðleysi og annað slíkt, eru alla jafna sekir um það. Mér hefur fundist mikil fylgni þar á milli. Ég ætla því ekki að ganga um og saka fólk um spillingu án þess að hafa staðfesta vitneskju um það, það geta verið aðrar ástæður fyrir því að menn gera ekki hlutina eins og þeir ættu að gera. Í mínum huga er spilling stórt orð og ég er ekki alveg sáttur við það hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson leggur þetta upp. Ég get tekið undir það að við höfum ekki talað jafn mikið um spillingu og margir aðrir og ég held að það sé vel, ég held að við eigum að nota svona stór orð sparlega, en við höfum svo sannarlega sýnt það í verkum okkar að við erum að auka gagnsæi og draga úr spillingu.

Gagnsæi varð að skammaryrði á síðast kjörtímabili vegna þess að ríkisstjórnin sem talaði mest fyrir gagnsæi var alltaf í einhverjum feluleik. Ég get alveg farið yfir það bæði í löngu og stuttu máli, en mér finnst að umræðan hér eigi að snúast um þetta mál. Ég er ekki hér kominn til að ásaka einn eða neinn. Þetta mál, sem ég veit ekki til að neinn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé á móti, þvert á móti á ég von á stuðningi þar, er fram komið til þess að ná þeim markmiðum sem hér er lagt upp með, þ.e. að gæta betur að fjármunum almennings með því að opna bókhald þessara stofnana.



[17:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvernig á að gera þessum hv. þingmanni til geðs. Hér kem ég upp og lýsi mjög afdráttarlausum stuðningi við þetta ákaflega góða mál og hv. þingmaður kemur upp í andsvari bara til að kvarta og gráta undan orðum mínum.

Hv. þingmaður virðist vera ósáttur við það hvernig ég fór með notkun hans á orðinu spillingu. Ég er nú óvart í hópi þeirra þingmanna sem nota bókstaflega aldrei það orð. Það var ekki ég sem færði það inn í þessa umræðu heldur var það hv. þingmaður sjálfur. Það stendur í greinargerðinni sem hv. þingmaður las orðrétt upp að markmið þessa frumvarps sé ekki bara að tryggja betri meðferð opinbers fjár heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður.

Hv. þingmaður lýsti því mætavel með hvaða hætti upplýsingaöflun almennings hvað þennan þátt varðar hefur verið torvelduð. Upplýsingum hefur algjörlega verið lokað gagnvart almenningi um þessi efni og við þekkjum það báðir að þetta hefur valdið úlfúð og tortryggni, sérstaklega í hópi þeirra sem vilja gjarnan komast að með sinn varning, og það er fyllilega skiljanlegt.

Ég ætla að endingu að ítreka stuðning minn. Ég vona að þessi ræða mína pirri ekki þingmanninn eins og hin fyrri. Ég styð þetta mál og hef meira að segja gengið svo langt í stuðningi mínum að ég er reiðubúinn til að styðja hv. þingmann í að fara nokkuð óhefðbundna leið varðandi vinnslu málsins.



[17:51]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að endurtaka það að ég fagna stuðningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ég veit að það munar um minna. Aðalatriði málsins er að við erum báðir sammála um markmið og efni málsins og það er það sem skiptir máli. Svo það sé alveg skýrt þá fagna ég mjög stuðningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ég vonast til þess að við getum klárað þetta mál.

Þeim sem fylgjast með þingstörfum fyndist almennt góður bragur á því að menn kláruðu mál þvert á flokka og ég hef alla vega ekki fengið nein efnisleg rök gegn málinu fram til þessa. Það er auðvitað ekki að marka því að hér hafa tveir fræknir hv. þingmenn komið og lýst yfir stuðningi við málið. En um leið, sem ég geri engar athugasemdir við, er ég spurður spurninga og ýmsum þáttum málsins velt upp. Það er það sem við eigum að gera, bæði í þingsal og í nefndastörfum.



[17:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að ítreka algeran stuðning minn við þetta góða mál. Enn finnst mér hins vegar óljóst hvert nákvæmt markmið er með þessari 150 þús. kr. takmörkun en ég geri ráð fyrir því að hv. fjárlaganefnd fari ítarlega yfir það. Ég veit að hv. 1. flutningsmaður þessa máls er í fjárlaganefnd þannig að ég geri ráð fyrir að hann taki spurningar þangað.

Hvað varðar áhyggjur af magni upplýsinga þá fer það inn á atriði sem er líka vert að hafa í huga, sem er framsetning gagnanna. Ef gögnin eru sett fram á tölvutæku formi má búast við því að þau verði nýtt og sett fram á ýmsan hátt sem fólk úti í bæ getur ákvarðað frekar en endilega Alþingi sjálft. Það er nefnilega þannig að ef upplýsingar eru lagðar fram á hráum gögnum, nú nota ég tæknihugtök eins og CSV, XML, eða einhverju því um líku, þá er mjög auðvelt fyrir einstaklinga úti í bæ, í frítíma sínum jafnvel, að búa til skýrar framsetningar á gögnum sem geta reynst mun betri en eitthvað sem Alþingi mundi sjá fyrir. Kosturinn við frelsið, eins og hv. þingmaður veit, er að maður sér ekki fyrir fram það góða sem getur komið út úr því.

En burt séð frá framsetningu gagnanna og tæknilegum atriðum hvað varðar 150 þús. kr. markið þá dettur mér einnig í hug að það sé hugsað út frá einhvers konar persónuverndarvinkli og því alveg þess virði að fara aðeins yfir það.

Gegnsæi og friðhelgi einkalífs er í meginatriðum spurning um vald, valdastöðu og einstaklinga. Eins og við Píratar segjum alltaf um gegnsæi og friðhelgi: Gegnsæi varðar yfirvöld. Yfirvöld eiga að vera gegnsæ. Einkalíf á ekki að verða gegnsætt. Friðhelgi einkalífs varðar einstaklinga. Yfirvöld hafa enga friðhelgi, ekki einkalíf. Það er mikilvægt að halda þessu til haga. Og vegna þess að hv. 4. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, fór hér stuttlega inn á skattframtöl og opinbera birtingu á þeim þá er það akkúrat spurning sem þvælist fyrir okkur, þar viljum við hafa gegnsæi. Þegar kemur að skattagögnunum vandast málið. Annars vegar er um að ræða stærstu og umsvifamestu aðilana í samfélaginu, og færa mætti rök fyrir því að þeir hafi völd og stjórni hlutum í samfélaginu, og hins vegar fólk sem hefur engin völd og býr jafnvel þvert á móti við mjög slæma stöðu hvað varðar frelsi til að framfylgja eigin vilja. Það eru einmitt grundvallaratriðin sem við eigum að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur birtingu eða ekki birtingu á skattagögnum eða fjárhagsupplýsingum ríkisins.

Þegar kemur að fjárhagsupplýsingum ríkisins, stofnunum sem eru 51% eða meira í eigu ríkisins, er algerlega sjálfsagt að birta slíkar upplýsingar. Ég sé engan friðhelgisvinkil hvað það varðar, hvort sem um er að ræða 150 þús. kr. eða eitthvað minna. Það sem skiptir mestu máli, og hér fer ég inn á það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um áðan, er að fólk sjái fyrir fram eftir hvaða reglum er spilað. Það er höfuðatriði.

Nú ætlast ég ekki til þess að hv. þingmaður útskýri þetta hér og nú, ég treysti því að hann fari með spurninguna til hv. fjárlaganefndar, en ég velti því fyrir mér hvort yfir höfuð þurfi að meðhöndla sérstaklega viðskipti þar sem fyrirtæki eða jafnvel einstaklingar gera langtímasamninga við ríkið og hafa kannski gert samninga á þeim forsendum að þetta séu gögn sem þeir geti haldið út af fyrir sig, kannski af viðskiptalegum eða samkeppnisástæðum, hver veit, og mundu kannski vilja breyta viðskiptasambandi í ljósi þess að gögnin verði opinber. Ég er ekki viss um að maður þurfi að hafa miklar áhyggjur af þessu en þetta er eitthvað sem hv. fjárlaganefnd getur kannski rætt og komist að því hvort einhver áhyggjuefni séu þar til að útkljá.

Aðalatriðið er að ef tímasetningin á nýjum reglum er ekki afturvirk þá sé ég engin vandamál við þetta. Að sama skapi er mjög mikilvægt að fólk viti að hverju það gengur þegar það er í viðskiptum við ríkið. Það held ég að sé mikilvægast í þessu gagnvart öllum spurningum um friðhelgi og trúnað o.s.frv., samkeppnissjónarmið og hvað eina.

Að öðru leyti ítreka ég stuðning minn við þetta góða mál. Ég vona innilega að það nái í gegn á þessu þingi.



[17:57]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og stuðninginn. Eins og ég nefndi eru 150 þús. kr. ekki greyptar í stein. Ég er sammála hv. þingmanni um að framsetning gagna skiptir mjög miklu máli þannig að hægt sé að vinna úr þeim. Hann veltir upp þætti sem skiptir máli sem er persónuverndarvinkillinn.

Eins og ég nefndi áðan til upplýsingar þá er þetta þannig, sem er eðlilegt og mikilvægt, að ráðuneyti og stofnanir geta kallað til sérfræðinga í skamman tíma, þurfa ekki að ráða þá í langan tíma, enda er þar oft um skammtímaverkefni að ræða og kannski fáir sem hafa þekkinguna, og ekkert mælir heldur gegn því að þeir séu ráðnir inn til lengri tíma. Það eru tvær leiðir: annars vegar geta þeir farið í sérverkefni, hins vegar tímabundnar ráðningar.

Nú er það þannig hjá okkur að hv. þingmaður getur beðið um upplýsingar um sérverkefni. Þá fær hann bara nafnið á viðkomandi einstaklingi og upphæðina en ekki tímabundnar ráðningar. Þetta er oft gert tortryggilegt og því má færa rök fyrir því að þeir sem kunna betur á þetta verði þá ekki fyrir kastljósi fjölmiðla en aðrir, sem eru þá óvanari í þessum bransa, gætu orðið fyrir einhverju ónæði stundum, kannski ekki að ástæðulausu en stundum er eitthvað sem er fullkomlega eðlilegt gert tortryggilegt. En auðvitað þurfum við að huga að þessum þætti sem varðar friðhelgi einkalífsins, það þurfum við alltaf að gera. Það er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur því að það er náttúrlega partur af þjónustukaupunum að kaupa þjónustu af einstaklingnum.

Varðandi samkeppnissjónarmið þá væri það nú kannski fyrst og fremst það að menn væru þá að upplýsa eftir útboð eða eitthvað slíkt á hvað þeir væru að selja vöruna. Kannski er þá hægt að finna það ef menn fá reikningana, alla vega ef það er merkt sérstaklega inn á reikningana, en þetta er eitthvað sem við þurfum að fara yfir.



[17:59]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta en kannski bæti ég því við að þegar kemur að muninum á sérverkefnum og tímabundnum ráðningum þá er mikilvægast að forsendurnar séu skýrar fyrir fram. Það er ætlast til annarra hluta af manni ef maður ræður sig sem verktaka en ef maður ræður sig sem launþega. Ef maður er verktaki þarf maður að sjá um skatta og lífeyrissjóð og allt slíkt sjálfur en ef maður er í launaðri vinnu þá gerir vinnuveitandinn það jafnan fyrir mann o.s.frv. Það er mikilvægast að þetta sé skýrt fyrir fram þannig að menn viti eftir hvaða reglum þeir eru að spila, það er númer eitt, tvö og þrjú. Oft er spurningin um friðhelgi einkalífsins einfaldlega upplýst samþykki.

Nú er enginn neyddur til að versla við ríkið. Maður er hins vegar neyddur til að borga skatta sem dæmi. Það felst í þessu val sem hægt er að setja ákveðin skilyrði við. Og svo lengi sem upplýst samþykki er raunverulega upplýst þá hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu, en auðvitað er þetta bara útfærsluatriði sem þarf að fara yfir. Kannski þarf þetta ekki einu sinni að standa í lögum. Kannski fylgir þetta bara upplýsingalögum eins og þau eru og lögum um persónuvernd. En ég hlakka mikið til að sjá nefndarálit hv. fjárlaganefndar að því gefnu að henni gefist rúm til að fara vel yfir þetta áhugaverða og mikilvæga mál.



[18:01]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að almennt eigi forsendurnar að vera skýrar, af hverju viðkomandi einstaklingur er ráðinn í tímabundna ráðningu í stað sérverkefna. Eitt er þessi þáttur, eins og hv. þingmaður nefndi, varðandi vinnu verktaka og að vera ráðinn inn á laun, það er allt satt og rétt. En ég held að stóra málið sé að það sé nokkuð skýrt hvenær menn fara í tímabundnar ráðningar og af hverju og hvenær menn kaupa eða selja hefðbundna sérfræðiaðstoð. Ég held að það ætti ekki að vera stórmál í þessu. Að öllu óbreyttu geri ég ráð fyrir því, eins og nú er, að kalla ætti eftir upplýsingum um sérfræðiaðstoð, sem er mjög mikið gert af, en hins vegar er það bara sérmál og tengist ekki þessum muni á milli tímabundnu ráðninganna og sérfræðiaðstoðar.

Í öllum okkar verkum eigum við að huga að persónufrelsi og friðhelgi einkalífsins. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður hafi neitt verið að gefa það í skyn en alla vega sé ég ekki að rökin eigi við um það þegar um er að ræða lögaðila sem eru að selja þjónustu, jafnvel þó að þeir séu litlir lögaðilar, en væntanlega fáum við einhver viðbrögð frá hagsmunaaðilum þegar við sendum þetta til umsagnar. Þá kannski koma einhver slík sjónarmið sem við sjáum ekki hér í salnum. Til þess erum við með þetta vinnulag, að senda mál út, að betur sjá augu en auga.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnaleg og góð andsvör og stuðning við málið.



[18:03]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlakka mikið til að sjá nefndarálitin um þetta mál að því gefnu að þau verði fleiri en eitt, sem ég vona að verði ekki tilfellið. Ég vona einfaldlega að sátt verði um þetta mál og býst reyndar fastlega við því.

Eins og hv. þingmaður veit, og hefur talað um, þá er hins vegar stundum kerfislegur mótþrói gegn svona hlutum og þá kemur hann í ljós og einhver rök um „svona atriði“ sem okkur eru ekki ljós hér og nú. Ég hugsa að við getum aldrei fundið út úr því hér, með einfaldri umræðu, hvaða „svona atriði“ gætu orðið að vandamálum seinna en það er oft þannig að hlutir sem geta orðið að vandamálum verða aldrei raunverulega að vandamálum. Það er eitthvað sem við skoðum þegar þetta er gengið í gegn, sem ég geri ráð fyrir að gerist einhvern tíma; kannski ekki á þessu þingi en vonandi.

En eins og nefnt er í greinargerðinni þá eru fleiri skref sem hægt er að stíga í þessum efnum og í sjálfu sér engin ástæða til að staldra við eða ætla á einhvern hátt að fara ekki áfram með þetta vegna þess að einhver vandkvæði gætu orðið seinna. Ef þau koma upp þá er um að gera að eiga bara við þau þegar það gerist.



Frumvarpið gengur til 2. umr.