145. löggjafarþing — 9. fundur
 21. september 2015.
móttaka flóttamanna.

[15:03]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin tilkynnti á laugardaginn um aðgerðir vegna móttöku flóttamanna og ég vil byrja á að fagna þeim aðgerðum og lýsa sérstakri ánægju með að í svo viðkvæmum málaflokki og mikilvægum sem málefni flóttamanna eru skuli virðast vera að myndast mjög víðtæk pólitísk samstaða um nauðsynlegar aðgerðir. Við erum mörg hér í stjórnarandstöðunni sem höfum lagt fram þingsályktunartillögu um móttöku flóttamanna á næstu þremur árum. Ríkisstjórnin spilar nú út hugmyndum um úrlausn á þessu ári og því næsta og ég fagna því. Ég legg þó áherslu á að hér er ekki um átaksverkefni að ræða sem leysist á tveimur árum, heldur mun viðvarandi úrlausnar þurfa við um ókomin ár til að taka á þessum mikla vanda.

Eitt atriði vil ég sérstaklega nefna. Í viðtölum um helgina við hv. þingmenn Unni Brá Konráðsdóttur og Óttar Proppé, sem kynntu sér aðstæður í flóttamannabúðum fyrir botni Miðjarðarhafs, var áberandi sú upplifun þeirra að vonleysið væri alltumlykjandi og öllu ráðandi í þessum flóttamannabúðum því að fólk upplifði einfaldlega eftir margra ára bið að engin leið væri að fá úrlausn og að röðin kæmi aldrei að því, þess vegna væri fólk að kaupa sér far með manndrápsfleytum yfir Miðjarðarhafið og leggja líf sitt í hættu.

Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn, og ríkisstjórnin, að við hugleiðum í sameiningu með hvaða hætti við getum sérstaklega brugðist við þessum vanda? Getum við veitt þessu fólki áritanir og auðveldað því að koma hingað og fá úrlausn sinna mála í ríkari mæli? Með hvaða hætti getum við reynt að greiða fólki leið? Auðvitað er ódýrara að kaupa sér flugfar til Íslands en að borga þær gríðarlegu fúlgur sem fólk er að borga glæpamönnum (Forseti hringir.) til að fá far yfir Miðjarðarhafið. Hvað getum við gert til að auðvelda fólki úrlausn að þessu leyti?



[15:05]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa yfir ánægju með þær aðgerðir sem hafa verið kynntar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna stríðsins í Sýrlandi og annarra flóttamanna sem margir hverjir hafa komið til Evrópu að undanförnu en miklu fleiri bíða enn úrlausnar annars staðar eins og hv. þingmaður nefndi.

Það er líka rétt sem hann gat um, að þetta er verður viðvarandi vandamál um fyrirsjáanlega framtíð. Það er mikilvægt að nálgast það á þann hátt og nálgast það þar af leiðandi heildstætt.

Hv. þingmaður talaði um það vonleysi sem virðist skiljanlega vera ríkjandi sums staðar í flóttamannabúðum, ekki hvað síst í Líbanon, og mikilvægi þess að við gæfum þessu fólki einhverja von frekar en að skilaboðin frá Íslandi og öðrum Evrópulöndum væru þau að ekkert væri gert nema menn legðu í lífshættulega ferð til að reyna að smygla sér til Evrópu. Það er einmitt þess vegna sem sérstök áhersla er lögð á það í þeirri áætlun sem var kynnt í fyrradag að gefa fólki kosti á því að koma beint frá flóttamannabúðum til Íslands. Þar er Líbanon nefnt sérstaklega.

Mér skilst að aðstæður í flóttamannabúðum séu mjög mismunandi eftir því hvar þær eru. Í Tyrklandi og Jórdaníu mun ástandið ekki vera jafn slæmt og í Líbanon og þess vegna leggjum við okkar af mörkum til að bæta ástandið í þessum búðum, t.d. með því að veita heilbrigðisþjónustu og matvæli, en einnig að gefa fólki sem uppfyllir þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta talist flóttamaður tækifæri á að koma til Íslands í það stórum hópum að við getum veitt því alla nauðsynlega þjónustu hér.



[15:08]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið en ítreka að það er mikilvægt að af Íslands hálfu sé líka lögð áhersla á það á alþjóðlegum vettvangi að við munum almennt reyna að opna leið fyrir fólk úr flóttamannabúðunum. Besta leiðin er auðvitað sú að fækka fólkinu þar, gera því kleift að koma hingað og fá úrlausn sinna mála hér, sækja um hæli hér. Hið sama gæti gilt um önnur vestræn lönd, að létta á þrýstingnum í búðunum og sýna fólki þar með að biðin í biðröðinni skilar árangri, að röðin komi að því, að þetta sé ekki vonlaust.

Ég vil að síðustu ítreka þau orð að það er óskaplega mikilvægt í íslenskum stjórnmálum að þverpólitísk samstaða geti verið um mikilvæg mannúðarmál eins og þetta. Ég fagna því enn og aftur að ríkisstjórnin skuli hafa komið fram með alvöruaðgerðapakka í málinu.



[15:09]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það mat hv. þm. Árna Páls Árnasonar að æskilegt sé að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi, í samskiptum við önnur ríki, að menn hugi að þessum hluta vandans.

Að mínu mati hefur vantað svolítið upp á það, a.m.k. í þeirri umræðu sem við höfum fylgst með í fjölmiðlum, en á næstunni verða fjölmargir fundir um þessi mál. Þar munu Íslendingar, að því marki sem þeir taka þátt í þeirri vinnu, beita sér fyrir því að menn hugi meira að þessum hluta vandans.