145. löggjafarþing — 10. fundur
 22. september 2015.
opinber fjármál, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 148. mál (heildarlög). — Þskj. 148.

[20:01]Útbýting:

[20:02]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef áður blandað mér lítillega í þessa umræðu í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra í upphafi umræðunnar en langar nú til að leggja nokkuð fleiri orð í belg. Umræðan hefur verið fróðleg og ég hygg að hvaða stórfyrirtæki sem er mundi telja sig hafa sóma af umræðu af þessu tagi í stjórn sinni, fyrirtæki sem vildi koma böndum á fjármál sín og sýna ábyrgan fjárhag. Spurningin er aftur hvort hið sama gildir um samfélag. Það er þar sem ég hef ákveðnar efasemdir.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að sagan geymdi ýmis ljót dæmi, það voru ekki hans orð en slæm dæmi sem ættu að vera okkur tilefni til að staldra við og íhuga að festa í lög ramma af því tagi sem við höfum í þessu frumvarpi en þar eru settar lagalegar skorður við heimilli skuldsetningu.

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að sagan geymir ýmis slæm dæmi og þarf ekki að líta langt aftur í söguna til að finna þau. En verstu dæmin snúa reyndar ekki endilega einvörðungu að skuldsetningu heldur meintum ávinningi, sem reyndar hefur verið ávinningur til skamms tíma. Þá er ég að tala um sveitarfélög sem hafa selt eignir sínar einungis til að leigja þær af nýjum eigendum að nýju og verða með þeim hætti fyrir verulegum búsifjum og skuldasöfnun þegar til lengri tíma er litið. Þetta höfum við séð og þetta varð þess meðal annars valdandi, bæði mikil skuldsetning margra sveitarfélaga og óvarleg fjármálastýring, að reistar voru skorður gegn skuldsetningu sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili. Þar er viðmiðið annað en í þessu frumvarpi. Hér er horft til vergrar landsframleiðslu en í þeim lögum var talað um heildartekjur sveitarfélaganna, að skuldsetningin mætti ekki vera umfram 150%.

Í upphaflegu frumvarpi eða drögum sem ég fékk í mínar hendur sem innanríkisráðherra var gert ráð fyrir að þessi tala væri miklu lægri. Ég held að ég muni það rétt að hún hafi átt að vera 90%. Og það var varað við því í þessum sal meðal annars og ótti þeirra sem settu fram varnaðarorð gekk út á að frumvarpið yrði notað til kerfisbreytinga, til einkavæðingar. Staðreyndin varð síðan sú að eftir að frumvarpið var samþykkt, með 150% þakinu, komu sveitarfélög til mín sem innanríkisráðherra, sveitarfélög sem voru skuldsett og vildu ráðast í umtalsverðar lántökur til að reisa félagslegt húsnæði og sögðu, og það var sannfærandi málflutningur, að þetta mundi borga sig þegar fram liðu stundir, bæði félagslega, þetta gerði samfélagið sterkara og betra, og að auki væri þarna um að ræða fjárfestingu sem kæmi til með að skila tekjum þegar til lengri tíma væri litið. Ég nefni þetta sem dæmi.

Mig langar til að nefna annað dæmi úr reynsluheimi mínum, úr reynslusögu minni. Ég var kjörinn formaður BSRB haustið 1988. Þegar við fórum að skoða búið, nýkjörin stjórn, komumst við að raun um það, sem aldrei hafði reyndar verið neitt felumál, að skuldsetning vegna orlofsbyggða bandalagsins var gríðarleg, hljóp á hundruðum milljóna sem voru miklir peningar í þá daga. Það var svo að við vorum í rauninni dæmd til aðgerðaleysis næstu tíu árin, næsta áratuginn. Við vorum dæmd til að verja öllum fjármunum sem okkur áskotnaðist til að greiða niður skuldir og til að annast viðhald. Var þetta gott eða slæmt? Hafði þetta verið misráðin fjárfesting af forverum mínum? Nei. Þetta hafði verið mjög skynsamlegt. Þarna var byggt upp orlofssvæði sem við nutum og mín kynslóð naut góðs af, þetta var sveit barnanna okkar. Það voru byggð 100 hús og að auki réðust ýmis aðildarfélög bandalagsins í að reisa orlofsbyggðir og setti þeim síðan þessar skorður inn í framtíðina, vegna þess að að sjálfsögðu erum við öll að stefna að því að reka stofnanir okkar og sveitarfélög og ríki skynsamlega. Markmiðið er ekki að safna skuldum eða reka samfélag okkar með halla, að sjálfsögðu ekki. En við viljum hafa þetta svigrúm og við viljum komast hjá því að settur sé lagarammi sem neyðir okkur út í kerfisbreytingar sem menn hafa síðan verið að reyna að fara á undanförnum árum, vegna þess að hin leiðin fyrir hið skuldsetta sveitarfélag sem vill sjálft reisa félagsíbúðirnar er að hvetja einkaaðila til að gera slíkt og nota síðan eigin fjármuni til að niðurgreiða leiguna til þeirra, þeir hafi arðinn og eignarhaldið á íbúðunum. Þetta er raunveruleg hætta sem fylgir því að fara inn á þá braut sem hér er boðuð.

Hver er hugsunin í þessu? Hugsunin er á þennan veg: Alþingi ákveður ramma, hvað við ætlum að verja miklu til samfélagsmála, hvað við ætlum að afla mikils fjár og hvað við ætlum að verja miklu til samfélagsmála. Við ætlum líka að ákveða hér hvað eigi að fara til tiltekinna málaflokka. Við ætlum ekki að karpa um einstakar stofnanir heldur málaflokkana. Þetta er nákvæmlega sama umræðan og fór fram í þessum sal árið 1996 þegar menn voru að reyna að gera umtalsverðar breytingar á fjármálum ríkisins og hugsunin var þá þessi: Ríkið eða sveitarfélagið ákveður hvað á að gera, hve miklu á að verja til þess og síðan er það framkvæmdaraðilinn sem ákveður hvernig verður framkvæmt og þá skiptir engu máli hvort það er opinber aðili eða einkaaðili. Þetta var ávísun og leið inn í einkavæðingu, inn í breytt fyrirkomulag. Það þarf ekki endilega að vera fylgifiskur en þetta er sem sagt hugsunin. Við ákveðum fyrst rammann, njörvum hann niður og tökumst á um það hvað eigi að verja miklu til tiltekinna málaflokka og punktur. Ákvörðunarvaldið færist í ríkara mæli en nú er inn til framkvæmdarvaldsins, inn í ráðuneytin. Hver eru líkleg fórnarlömb þegar umræðan um einstakar stofnanir er tekin út úr þessum sal, út úr sjónvarpsfréttunum, útvarpsfréttunum? Það eru litlu staðirnir, það eru litlu stofnanirnar og litlu staðirnir. Og við vitum hve fórnin getur verið mikil í því að klippa á þessa lýðræðislegu strengi.

Þegar við vorum að skera niður á erfiðum niðurskurðartímum voru fundir úti um allt land; á Húsavík, Sauðárkróki, hjá starfsfólki sjúkrahúsanna, í Reykjanesbæ. Það hafði áhrif á okkur hér. Var það slæmt? Nei, það var gott. Svo urðum við bara að standa frammi fyrir því og við gerðum það. En það var gott að fá viðbrögð og þróa umræðuna áfram í samtali við þjóðina, þessu samtali við einstakar stofnanir, og það er það sem á að taka og nema brott.

Síðan er það ákveðið lögregluvald sem er verið að koma upp sem heitir fjármálaráð og það er fyrirbrigði sem á að sitja yfir því að farið sé að þeirri heilögu ritningu sem verður sköpuð hérna á hverju vori og sjá til þess að þar verði hvergi hvikað frá, að fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru upp fyrr í lögunum, svo ég vísi í 13. gr. frumvarpsins. Hverjir eiga að vera í fjármálaráði? Það eru einstaklingar sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningu Alþingis. Ráðherra skipar þrjá menn í fjármálaráð, skulu tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis og einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra og skal sá jafnframt vera formaður. Það er athyglisvert að formaðurinn á að vera óvilhallur, þeir eiga allir að vera óvilhallir og hafa þekkingu á opinberum fjármálum.

Formaður fjármálaráðs skal hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi á fræðasviði sem lýtur að hlutverki ráðsins. Væri hægt, hæstv. fjármálaráðherra, að fá eins og eitt nafn kannski til að máta við þessa göfugu lýsingu? Hvaða einstakling erum við að tala um? Gætum við fengið hugmynd um hvað verið er að tala um? Hvaða fólk er verið að tala um? Hvert er þetta óvilhalla fólk sem verið er að tala um með doktorsnafnbót á fræðasviði sem tengist fjármálum ríkisins? Hverjir eru það? Þegar ég var heilbrigðisráðherra var ég einu sinni spurðir að því á fundi lækna hvort það væri klókt að hafa heilbrigðisráðherra sem ekki væri læknir. Ég sagði að það væri kannski miklu klókara að hafa sjúkling sem heilbrigðisráðherra en lækni, einhvern sem þekkti kerfið frá þeim endanum. Og við erum fulltrúar þeirra í umræðu um fjárlög ríkisins. Það erum við í þessum sal og það er verið að skera á alla þessa naflastrengi og allir taka því fagnandi, nánast. Mér heyrist flestir taka því fagnandi, stórkostlegt, og manni finnst maður vera kominn inn á aðalfund hjá stórfyrirtæki. En hvar eru þeir sem ættu að skipa velferðarráðið og tryggja að farið sé að þeim lögum sem við höfum sett um rétt sjúklinga, rétt þeirra og okkar og samfélagsins til að njóta löggæslu, velferðarþjónustu, hafa þak yfir höfuðið o.s.frv.? Hvar er það? Hvar sér þess stað í þessum lögum eða þessu frumvarpi? Hvergi. Þess sér hvergi stað vegna þess að hugsunin öll er fjármálalegs eðlis og það er ekki hugað að hinum samfélagslegu, félagslegu þáttum. Þvert á móti er verið að klippa á þá strengi alla. Við þekkjum það öll sem höfum komið nálægt erfiðum niðurskurðarákvörðunum á liðnum árum, ég hef gert það og við höfum gert það mörg sem erum í þessum sal.

Hvað er líklegast að við gerum ef við stöndum frammi fyrir því að skera niður framlög til heilbrigðismála eða löggæslu við þröngar aðstæður? Er ekki líklegast að við horfum til smæstu eininganna? Það er það sem hefur alltaf verið gert, það er horft til smæstu eininganna og þá erum við komin í landsbyggðarpólitíkina. Það verður fyrsta fórnarlambið eftir að þessi lög og þessi hugsunarháttur hefur verið festur í lög. Ég er alveg hissa á því ef það er virkilega nóg að fara með fjárlaganefnd á einn fund, kynnisfund í Svíþjóð þar sem menn voru plataðir til að taka upp þessar reglur, til að sannfæra allt Alþingi um að sporðrenna þessu svona í einum bita. Ég trúi því ekki. (Gripið fram í: Vertu sanngjarn.) Vertu sanngjarn, það er alveg rétt, ég skal taka það aftur. Auðvitað er ekki verið að kaupa menn upp en það er verið að telja fólki trú um það að eitthvað sem Svíar hafi gert hljóti að vera óumdeilt. En það er ekki svo. Svíar hafa ratað inn á ýmsar rangar brautir á undanförnum árum í fjármálum sínum og skipulagi, t.d. heilbrigðisþjónustunnar, sem þeir eru núna að reyna að vinda ofan af og komast til baka frá. Þetta er bara veruleikinn. Þess vegna segi ég, hæstv. forseti Alþingis, förum varlega í þessar breytingar. Ég held að þær séu ekki til góðs. Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki ná ýmsum markmiðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir um skynsemi í stjórn á fjárreiðum ríkis og sveitarfélaga. Það er allt annar hlutur en að vera bundinn og reyrður niður með lögum á þann hátt sem hér er lagt til.



[20:17]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Það er alltaf gaman þegar við ræðum hérna mál sem virðast í meginatriðum óumdeild að heyra frá einhverjum sem er ekki jafn sáttur við málið og kannski flestir aðrir sem hafa talað þann daginn. En mig langar gjarnan að fá að vita hvort hv. þingmaður sé hlynntur málinu eða ekki eins og það birtist hv. þingmanni nú. Það er fyrsta spurningin.

Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann um 7. gr. og skilyrði hennar. Hv. þingmaður veltir réttilega upp ákveðnum möguleikum sem eru að svo þröng skilyrði neyði menn út í einhvers konar kerfisbreytingar sem þeir mundu kannski annars ekki fara út í eða ættu öllu heldur erfiðara með að réttlæta út frá samfélagslegum gildum eins og hv. þingmaður fór svo vel yfir.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær, frekar en slaka á þessum skilyrðum, að búa til einhvers konar viðbragðsáætlun meðfram góðærum og þegar vel gengur í hagkerfinu til að takast á við skakkaföll þá og þegar þau gerast og auðvitað gerast þau af og til. Ég spyr vegna þess að hér hefur borið á góma hinn gamla og góða Keynes og ég veit ekki hvar hv. þingmaður stendur gagnvart hans frægustu kenningum og tilgátum en ef hugmyndin er sú að við þurfum að geta aukið svigrúm ríkisins á erfiðum tímum, er það ekki frekar eitthvað sem við ættum að byggja upp þegar vel árar frekar en að gera ráð fyrir því að við þurfum að fara í ofurskuldsetningu þegar illa fer?



[20:19]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurt er hvort ég sé hlynntur málinu. Nei, ég er því mjög andvígur. Varðandi 7. gr. þá legg ég til að hún verði numin brott, hún verði tekin út. Ég tel að þetta eigi ekki að festa í lög með þessum hætti. Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki stefna að þeim markmiðum sem þarna er sett á blað um að hafa sem minnsta skuldsetningu hjá hinu opinbera. Ég hef sýnt það í verki að ég er hlynntur því, ég vil það. Ég tók þátt í því í tíð síðustu ríkisstjórnar að skera niður útgjöld og hækka skatta til að bæta skuldastöðu ríkisins þannig að það er allt annar handleggur.

Við erum að tala um hlutfall af landsframleiðslu. Þegar hún dregst saman þá getum við einmitt þurft að bæta í í anda títtnefnds Keynes. Ég er andvígur því að setja okkur þennan lagalega ramma. Ef ég horfi til þess sem við höfum verið að reyna að gera á undanförnum árum þá er það að vera skynsöm í fjármálastjórninni. Löngum var reynt að núa vinstri mönnum því um nasir að við værum óábyrg og vildum eyða og ekki afla. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sýnt það með tillögum sínum að við höfum viljað gera þetta tvennt í senn, að afla fjármuna fyrir þá eyðslu sem við teljum að ríkið eigi að ráðast í. Við erum því að tala fyrir ráðdeild, að sjálfsögðu gerum við það og ég geri það. Ég er ekki að mæla gegn henni en ég er að andmæla því að vera settur í handjárn, pólitísk handjárn með þeim hætti sem hér er lagt til og ákvörðunarvaldið sé fært inn í innviði framkvæmdarvaldsins eins og einnig er lagt til í þessu frumvarpi.



[20:22]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei fullyrt það sjálfur að hægri menn eða vinstri menn séu almennt ábyrgari eða óábyrgari í fjármálum en hinir. Mér finnst spurningin miklu flóknari en svo. Mér þykir það oft fara eftir árferði eða hreinlega umræðuefni hvort þær hugsjónir sem eru kallaðar vinstri henti betur eða þær hugsjónir sem eru kallaðar hægri. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég verð oft hratt ringlaður þegar kemur að þeim tiltekna ási.

Ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað því á tveimur mínútum en ég velti fyrir mér hvað hann telji við hæfi að reyna til að ná þessum markmiðum. Allir virðast vera sammála um markmiðin og hvernig eigum við að ná þeim ef ekki með lagasetningu sem gefur okkur færi á því að hafa langtímaáætlun? Í þessu frumvarp kemur fram að þetta eigi að vera langtímaáætlun og markmiðið með því er auðvitað að hægt sé að ræða málin svolítið fram í tímann og þar af leiðandi takast á við þær spurningar sem plaga hv. þingmann og vissulega miklu fleiri um samfélagslegt hlutverk o.s.frv. Getur hv. þingmaður útskýrt á tveimur mínútum þær hugmyndir sem hann hefur, mundi hann ekki nota lagasetningu, mundi hann ekki nota eitthvert þinglegt ferli? Er ekki gott að hafa einhvern lagaramma utan um það hvernig við ætlum að haga þessum málum?



[20:23]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda mig við það að fullyrða að við á vinstri kantinum höfum reynst ábyrgari í fjármálum (Gripið fram í.) en hægri kanturinn hefur verið á undanförnum árum. Það er bara veruleikinn og það á að segja hann eins og hann er. Þannig hefur það verið. Ég vísa til reynslunnar í aðdraganda hrunsins og síðan eftir hrunið og dæmið menn af verkunum.

Hvað á að nota ef við höfum ekki lagasetninguna til að styðjast við, ef við látum ekki lögin knýja okkur til þess? Ég skal segja hv. þingmanni hvað á að nota. Skynsemi. Það á að nota skynsemi. Og hverjir eiga að gera það? Það gerum við að sjálfsögðu hér í þessum sal með þeim ákvörðunum sem við tökum um hvernig við verjum fjármunum ríkisins úr sameiginlegum sjóðum til velferðarmála eða til annarra þátta á vegum hins opinbera. Við eigum að gera þá kröfu til sjálfra okkar að við sjáum til þess að afla fjár að sama skapi þannig að við séum ekki að steypa okkur í skuldir.

Síðan er ég einfaldlega að segja að ferlið sem við erum að búa til er líklegt að mínum dómi til að verða á kostnað velferðar, á kostnað smárra stofnana, á kostnað smárra byggðarlaga, ég held að það verði fórnarlömbin ef þetta ferli sem hér er verið að leggja til verður að veruleika í íslenskum landslögum.



[20:25]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fína yfirferð yfir sjónarmið hans hér. Mér finnst mikilvægt að það komi fram ólík sjónarmið um kosti og galla þessa frumvarps og einstakra greina þess. Hér hefur sjónum einkum verið beint að 7. og 10. gr. og rifjað upp hvernig sveitarfélögunum hafa verið settar nokkuð þrengri skorður en áður giltu. Ég vil meina að reynslan af setningu þeirra reglna fyrir sveitarfélögin hafi verið góð. Ég ætla að leyfa mér að vitna til samtals við einn bæjarstjóra ekki fyrir löngu síðan þar sem hann sagði: „Veistu, þetta hefur bara gerbreytt öllum vinnubrögðum á sveitarstjórnarstiginu. Nú erum við komin með skýra tölusetta reglu um það hvert við þurfum að fara og þá eru menn hættir að tala um það. Það er búið að lögfesta regluna og þá eru allir sameinaðir í því verkefni að komast þangað, niður fyrir skuldaviðmiðin sem þar hafa verið sett.“

Ég hef fengið mjög skýr dæmi um þetta. Í umræðunni um þetta mál og í greinargerðinni er talað um ýmis mistök í fortíðinni og ég ætla að biðja menn um að fara ekki að reyna að finna einhver einstök dæmi um einhver einstök mistök. Það er verið að vísa almennt til þess að við höfum í gegnum tíðina getað gert hlutina betur. Það er hægt að finna ýmis dæmi úr framkvæmd ríkisfjármálanna, líka úr framkvæmd á sveitarstjórnarstiginu. Það væri auðvitað hægt að nefna hvernig peningastefnan hefur verið framkvæmd á ólíkum tímabilum og svei mér þá, er ekki öruggt að við getum fundið mörg dæmi þess að vinnumarkaðurinn hafi ekki verið að stuðla að auknum stöðugleika? Svei mér ef það getur ekki átt við um þessar mundir líka.

En hér er verið að skoða það sem við getum haft beint áhrif á, opinber fjármál, tengingin yfir á sveitarstjórnarstigið, og reglurnar tel ég að séu holl viðmið fyrir okkur. Og ég tel, til að mæta þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur, að 10. gr. frumvarpsins veiti það svigrúm sem þarf að vera til staðar þegar sérstakar aðstæður koma til okkar.



[20:27]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með fullri virðingu fyrir hæstv. fjármálaráðherra og með fullri virðingu fyrir ívitnuðum sveitarstjórnarmanni sem telur að lagaramminn hafi stuðlað að gerbreyttum vinnubrögðum hjá sveitarstjórnarstiginu þá leyfi ég mér að efast um að þetta sé alveg rétt. Ég held hins vegar að umræðan sem tengist þessu máli og þessum lögum, sem ég átti hlut að sjálfur enda flutti ég frumvarpið breytt frá upphaflegri mynd, eins og ég nefndi, þar sem upphaflega var talað um 90% skuldaþak, umræðan sem hefur farið fram í þjóðfélaginu breytti viðhorfum. Það breytti líka viðhorfunum að horfa til þess að sum sveitarfélög höfðu skuldsett sig hættulega mikið og voru orðin baggi á íbúunum, á eigendum sínum, og það þurfti að grípa til róttækra breytinga.

Við höfum líka lært og sveitarstjórnarmenn hafa lært af biturri reynslu að það borgar sig ekki að selja allar eignir sínar, húsnæði sitt og leigja síðan af sjálfum sér aftur. Þetta er bitur reynsla sem menn hafa lært án þess að það sé sett sérstaklega í lög. Það er þetta sem hefur gerst á Íslandi. Sem betur fer hefur hrunið þó kennt okkur þetta og auðvitað er það skylda okkar og hlutverk að halda þessari umræðu gangandi öllum stundum. Það er alveg sama hvað við setjum í lög, ef við höfum ekki hugarfarið rétt hvað þetta snertir munum við vaða út í ógöngur fyrr en varir.

Eitt langar mig til að nefna sem fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra áðan og ég vil gera athugasemd við. Hann sagði: „Við megum ekki gefa framkvæmdarvaldinu sjálfdæmi um hvert eigi að fara (Forseti hringir.) og þessi lög munu koma í veg fyrir það.“ Það hefur aldrei staðið til að gefa framkvæmdarvaldinu sjálfdæmi. Framkvæmdarvaldið á og hefur þurft (Forseti hringir.) að fara eftir þeim fjárlögum sem sett eru. Spurningin sem við erum að fást við er á hvaða forsendum við eigum að smíða þessi fjárlög.



[20:30]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem við erum í raun og veru að ræða um hér er spurningin um það hvort við höfum safnað upp nægilega mikilli reynslu í gegnum tíðina til að geta verið almennt sammála um hvað þurfi að gerast í opinberum fjármálum og þar af leiðandi verið laus undan því að þurfa að fara að lögfesta einhverjar sérstakar reglur í því efni, eða hvort sú uppsafnaða reynsla er mögulega ekki nægjanleg ein og sér til að tryggja að við munum ávallt taka skynsamlegar ákvarðanir. Mín skoðun er sú að það er tímabært. Það er fullt tilefni með vísan til sögunnar til að láta á það reyna á þinginu hvort menn geta verið sammála um ákveðin grundvallarviðmið varðandi langtímastefnumörkun í opinberum fjármálum sem ávallt verða höfð til hliðsjónar þegar menn kynna til sögunnar langtímaáætlanir sínar og fjárlög hvers árs, til þess að þau séu þarna fyrir okkur í lögum til að horfa til og þau verka þannig eins og mælistika á það hvort fjárlög hvers árs og áætlanir til lengri tíma standast þau viðmið sem við höfum þannig sett saman. Þetta er það sem margir aðrir hafa gert.

Þeir sem hafa áhyggjur af því að setja slíkar reglur, eins og hv. þingmaður gerir hér grein fyrir, virðast ganga út frá því að þær muni við sérstakar kringumstæður mögulega reynast okkur of erfiðar og þær muni þannig kalla fram viðbrögð sem eru óæskileg fyrir samfélagið í heild. Svo dæmi sé tekið væri það eitthvað sem gæti gerst í hinum smærri byggðum eða á velferðarsviðinu einhvers staðar annars staðar. En þá er ég hingað mættur til að vekja athygli á því að þetta eru þrátt fyrir allt viðmiðunarreglur. Þetta eru ekki refsilög. Við erum ekki að setja þetta inn í almenn hegningarlög. (Forseti hringir.) Við erum að láta á það reyna hvort við getum verið sammála (Forseti hringir.) um ákveðin meginmarkmið og ef hér skapast ekki meiri hluti fyrir því að fylgja þeim reglum er enginn kominn til með að segja að alþingismenn eða einstakir ráðherrar verði eltir uppi og fangelsaðir. (Forseti hringir.) Það verður hins vegar ávallt hægt að setja þessa mælistiku á þá framkvæmd sem er í gangi hverju sinni og maður verður að þola þá umræðu. Það er í raun og veru það eina sem gerist.



[20:32]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er enginn að amast við því, eða ég er alla vega ekki að gera það, að menn setji sér langtímamarkmið og smíði sér áætlanir á sama hátt og við setjum niður fyrir okkur samgönguáætlun til margra ára, sem við síðan tökum til reglulegrar endurskoðunar. Hún er til, ég man ekki hve margra ára, 15 ára hygg ég að það sé, 15 eða 20 ára og síðan endurskoðun á fimm ára fresti. Svo tökum við hvert ár í fjárlögum út af fyrir sig og erum stöðugt að endurskoða stöðuna, t.d. ef framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng fer úr böndum þurfum við að endurskoða framlög til annarra mála á samgönguáætlun.

En það sem ég er að gagnrýna er að við skulum sett undir það ægivald sem heitir fjármálaráð óvilhallra manna. Ég hef ekki enn fengið svar eða nafn og kennitölu á dæmi um hinn óvilhalla einstakling sem lokið hefur framhaldsnámi á háskólastigi á fræðasviði sem lýtur að hlutverki ráðsins og á að hafa eins konar lögregluvald yfir Alþingi Íslendinga.



[20:34]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um opinber fjármál og ef þetta frumvarp nær nú fram að ganga þegar mælt er fyrir því í þriðja skipti og það verður að lögum þá mun það hafa, vil ég leyfa mér að fullyrða, mjög jákvæð áhrif á umgerð ríkisfjármála og jákvæð áhrif á það hvernig stjórnmálamenn meðhöndla ríkisfjármálin og fjalla um þau. Ég held að það muni líka leiða til upplýstari umræðu í fjölmiðlum um ríkisfjármál og það verði aðgengilegra fyrir almenning að fylgjast með störfum okkar hér á Alþingi og að fylgjast með því hvernig skattfé borgaranna er varið.

Það er búið að fara yfir það hér en ég ætla að leyfa mér að rifja upp að þetta frumvarp á sér langa sögu. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem hóf þá vinnu, auðvitað í því ástandi að sitja sem fjármálaráðherra með ríkissjóð í nánast altjóni, róandi lífróður til að forða landinu frá gjaldþroti. Þetta er afkvæmi mikils umbótastarfs sem fram fór á síðasta kjörtímabili á ríkisstjórnartímabili Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var víða sem þurfti að gera lagfæringar og fara í umbætur og margar þeirra hafa tekið umtalsverðan tíma.

Síðan kom að þessu verki hv. þingmaður og þáverandi fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir, síðan hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sem líka var fjármálaráðherra og nú hefur hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson tekið við keflinu og ég vil þakka honum fyrir að hafa staðið einarður með þessu verkefni og ég mun gera það sem ég get til að hjálpa honum til að koma því í höfn. Fjárlaganefnd hefur líka komið að þessu á ýmsum stigum og auðvitað hefur fjárlaganefnd sem nú er að störfum langmest unnið með þetta frumvarp. Þegar ég sat í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þá fengum við fyrst og fremst kynningu á þeirri vinnu sem í gangi var, sem var mjög mikil, og við undirbjuggum okkur vel undir þetta. Þetta hafði áhrif á umræður í nefndinni og áhuga nefndarinnar á því að bæta vinnubrögð sín og við fórum einmitt fyrri ferð fjárlaganefndar til Svíþjóðar til að kynna okkur gang mála þar og heimsóttum þar þingið, fjármálaráðuneyti, Seðlabankann, fjármálaráðið, skuldastofnunina eða stofnunina sem sér um umsýslu skulda, ríkisendurskoðanda, fjársýsluna og fleiri aðila. Það var vægast sagt lærdómsríkt og fyrir okkur meðlimi fjárlaganefndar algerlega ný upplifun að kynnast þeirri umgjörð sem þar er utan um fjármálin. En það kom ekki bara til af því að Svíþjóð hafi eitt sinn verið sæluríki sósíaldemókrata, það átti sér víðtækari skýringar. Svíar urðu rétt eins og Íslendingar fyrir alvarlegu efnahagsáfalli, alls ekki jafn alvarlegu og við en þó það alvarlegu að þar voru ríkisfjármálin algerlega tekin í gegn til að koma í veg fyrir að skuldir sliguðu útgjöldin með tímanum.

Mig langar á þessu stigi að nota tækifærið og þakka því fjölmarga fólki sem hefur komið að þessari vinnu, flest er það auðvitað embættismenn á vegum ríkisins en ýmsir fleiri hafa komið að verkefninu og lagt í það ómælda vinnu með það sameiginlega markmið að bæta til lengri tíma hag ríkissjóðs og okkar allra.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði hér að umtalsefni 7. gr. og það gerði ekki síður hv. þm. Oddný Harðardóttir varðandi skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Ég get algerlega tekið undir þær áhyggjur að auðvitað getum við ekki með lögum afsagt okkur möguleikanum á því að vinna gegn efnahagsþrengingum með virkri stefnu í ríkisfjármálum. Það er náttúrlega grundvöllurinn að þeirri keynesísku pólitík sem við stunduðum á síðasta kjörtímabili sem hefur orðið hér fyrirmynd annarra ríkja og í raun og veru, hvað á maður að segja, „benchmark“ fyrir það hvernig á að beita ríkisfjármálunum og það við mjög erfiðar aðstæður þar sem við gátum ekki leyft okkur mikið. En lagastoðin eða lagaákvæðið má einfaldlega vera þannig að það sé meginreglan en svo séu augljósir mælikvarðar um hvenær má víkja frá því og svo er auðvitað alltaf hægt að gera undantekningar. Þá vil ég taka fram að ég er ekki að grafa undan því að við eigum að taka alvarlega þessa löggjöf en það verður að vera skynsamlegt svigrúm til að grípa til nauðsynlegra efnahagsaðgerða á sviði ríkisfjármála til að bregðast við efnahagsþrengingum.

Og af því að hér var komið að því að ræða ábyrga efnahagsstjórn vinstri manna þá langaði mig bara að leyfa mér að gorta aðeins af því hvað við stóðum okkur vel, við stóðum okkur svo vel að núna er veisla í höllinni. Nú er fólk að lækka skatta vinstri, hægri, reyndar enn að skera niður í gríðarlega mikilvægri almannaþjónustu sem er svolítið sérstakt, að leyfa ekki þeim sem báru byrðarnar að njóta góðærisins, en svo vel tókst til að fylgja agaðri hagstjórn á síðasta kjörtímabili að núverandi ríkisstjórn getur haldið veislu. Verst að hún er ekki fyrir alla, bara fyrir útvalda vini þeirra en það er okkar í minni hlutanum að berjast gegn því.

Það verður alltaf deilumál hver stærð ríkissjóðs á að vera, hvað umfang ríkissjóðs á að vera í vergri landsframleiðslu. Það verður áfram pólitískt bitbein óháð því hvort lagaumgjörð sem þessi verður til staðar. Hún segir okkur hvernig við eigum að meðhöndla ríkisfjármálin en ekki hversu umsvifamikill ríkissjóður á að vera í hagkerfinu og þar mun ég ekki hvika frá þeirri sannfæringu minni að við eigum að hafa stóran og öflugan ríkissjóð sem heldur uppi kerfunum sem við eigum öll saman, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslunni og fleiri kerfum sem gera samfélag að góðu og siðuðu samfélagi sem við rekum saman.

Ég fór yfir það í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra að ég teldi vanta í frumvarpið svolítið meiri áherslu á Alþingi. Ég hvet fjárlaganefnd til að skoða það. Hún er auðvitað búin að fjalla um þetta mál áður og afgreiða frá nefndinni, því miður í örlitlum ágreiningi, og ég get eiginlega get ekki skilið að það hafi ekki verið hægt að finna leið þar sem aðilar mættust og ég hvet líka fjármálaráðherra til að blanda sér í það. Það hlýtur að vera í hag allra að hægt sé að gefa eitthvað eftir til að ná öllum um borð sameiginlega og mér skilst að það hafi helst verið ein grein sem styrinn stóð um. En ég hvet fjárlaganefnd sem er búin að fjalla mjög ítarlega um þetta mál að taka sér tíma í það að fara yfir hvað þurfi að gerast hér á Alþingi til að við verðum sterkur aðili í þessu sambandi því við erum fjárveitingavaldið. Við þurfum að hafa á að skipa sérfræðingum og þeim tækjum sem til þarf til að geta sinnt því hlutverki vel og til að geta borið þá ábyrgð sem við eigum að bera sem kjörnir fulltrúar á Alþingi.

Það var einmitt svo þegar við fórum í okkar frægu Svíþjóðarferð — þá fyrri, ég veit að ný fjárlaganefnd hefur líka farið til Svíþjóðar og er það vel því þar er margt gott hægt að læra — að þar vakti athygli okkar að í þinginu er starfandi sérstök fjárlagaskrifstofa sem hefur á að skipa góðum sérfræðingum og þar leggja t.d. flokkar í minni hluta fram sín eigin fjárlagafrumvörp sem breytingartillögu við fjárlagafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Það er eðlilega ekki hægt með núverandi fjárlagafrumvarpi, það er annars eðlis, það er af öðrum skóla, það er af eldri gerð, en íslenska fjárlagafrumvarpið, verði þetta frumvarp að lögum, mun verða mjög líkt því sænska með svið og undirflokka. Þá verður það að vera þannig að við, með aðstoð aðila sem starfa á okkar vegum, getum fengið greiningar og umfjöllun um mál. Ég sem alþingismaður treysti vel íslenskri stjórnsýslu, sæki þangað upplýsingar, fæ þaðan upplýsingar og lít svo á að þeir sem þarf starfa starfi í mína þágu. En Alþingi getur ekki sætt sig við að það eigi ekki upplýsingaveitur og greiningaraðila innan sinna vébanda. Það er kannski af því að það er lenska á Íslandi að tala um stjórnsýsluna eins og óþarfa eða einhverja fitu sem helst eigi að skera. Þessi ríkisstjórn hefur skorið niður af geðþótta milli umræðna í stjórnsýslunni, það er viðhorfið sem ríkir þar á bæ til stjórnsýslunnar, en þetta er stjórnsýslan, sú eining sem á að halda utan um að framfylgt sé löggjöf á Íslandi. Þetta eru þjónar fólksins í landinu og eiga að starfa með almannahagsmuni að leiðarljósi. Það sama á við um starfsfólk Alþingis. Það vinnur að því að hér fáist fram sem vönduðust vinna þannig að við sem hingað erum valin fáum sem besta aðstoð við að fá upplýsingar og að greina þær síðan til að geta tekið ákvörðun á grundvelli þeirra greininga.

Það er kannski í meginatriðum tvennt sem ég vildi koma inn á og er þegar búin að nefna, það er í fyrsta lagi 7. gr. Mér finnst full ástæða til að skoða með hvaða hætti er hægt að hafa hana þannig að við komum ekki í veg fyrir að ríkissjóður geti unnið gegn efnahagsþrengingum án þess þó að gefa eftir þá hugmynd að halda uppi nokkuð stífum römmum. Í öðru lagi er það þannig að ég tel að Alþingi þurfi að fá miklu meiri stuðning til að geta orðið sterkur aðili í þessu samstarfi um ríkisfjármálin. En í þriðja lagi langaði mig að nefna 13. gr., um fjármálaráðið. Mig rekur ekki minni til þess úr fyrri umræðu, það kann að vera misminni en ég velti fyrir mér hvort fulltrúarnir megi ekki vera fleiri en þrír. Ég held að það færi betur á því að þeir væru fimm. Ég ætla ekki að slást fyrir þessu en ég tel fulla ástæðu til að skoða það því þetta verða aðilar með mjög mikið umboð og vald til að gefa einkunn um framgöngu stjórnmálamanna á sviði ríkisfjármála og þá er mikilvægt að breiður hópur komi að slíkri einkunn.



[20:49]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg, sérstaklega vegna þess að mér finnst þetta mjög merkilegt frumvarp. Það er varla hægt að hafa neitt á móti markmiðum þess að mínu mati. Hér er verið að búa til reglur um það hvernig við högum fjárlagagerðinni sem hefur ekki verið mjög nútímaleg hingað til. Vafalaust hafa fjárreiðulögin frá 1997, held ég að megi segja, verið bót á en bráðum verða 20 ár síðan árið 1997 var þannig að það er kannski kominn tími til að uppfæra þau. Ég held að þetta sé mjög merkilegt frumvarp og þó að það þýði auðvitað ekki að ég sé sammála nákvæmlega öllu sem í því er er ég í grunninn ánægð með það.

Það eru engin ný sannindi að hagstjórn hefur ekki verið aðalsmerki Íslendinga. Það kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Það er svo sem ekkert nýtt við það en hérna er verið að taka á því og mjög merkilegt reynt sé að tengja saman öll opinber fjármál, sveitarstjórnar- og ríkisfjármál. Mér fannst mjög vel orðað í umræðunni í dag það sem hv. þm. Óttarr Proppé sagði, að það væru ekki tveir vasar sem þyrftu að slást, þetta væri allt sitt hvert. Fólk almennt gerir ekki eins mikinn greinarmun á ríkisfjármálum og fjármálum sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn gera og fólkið í fjárlagagerðinni. Þó að ég fáist við þetta í þinginu þá geri ég ekki þennan mikla greinarmun á fjármagni sveitarfélaga og ríkisins þó að auðvitað sé það gert í fjármálaráðuneytinu. Ég held að það sé mjög gott að þarna skuli verið að taka á þessu og ná utan um það í samhengi.

Síðan eru settar fjármálareglur. Almennu grunngildunum í 6. gr. held ég að sé mjög erfitt að vera ósammála. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur lagt til að þar sé einu bætt við, þ.e. forsjálni. Það má vel vera, en ég held að enginn sé á móti því að það eigi að hafa þessi grunngildi að leiðarljósi. Síðan koma fjármálareglur í 7. gr. og auðvitað má um þær deila. Eru þær of strangar? Veita þær ekki nóg svigrúm til að beita opinberum fjármálum, ríkissjóði og þess vegna sveitarfélögum, t.d. í niðursveiflu af því að það væri fyrst og fremst þá, þegar hagsveiflan er niðri, sem menn vildu kannski beita ríkisfjármálunum? Það þarf bara að ræða um það. Mjög ítarleg umræða þarf að fara fram um það og samspilið á milli 7. gr. og 10. gr. sem segir hvenær megi víkja frá þessum reglum. Það hlýtur að verða gert í fjárlaganefnd. Mér finnst áríðandi að fólk fari vel í gegnum það og hlusti hvert á annað í þeim viðræðum.

Nýtt ferli er um það hvernig fjárlög eru samþykkt. Við fengum nasasjón af því í vor þegar ríkisfjármálaáætlunin var lögð fram. Auðvitað þýðir það ekki að pólitíkin komi ekki nálægt fjárlagagerðinni því að hún gerir það vegna þess að áherslurnar hljóta að vera í fjármálaáætluninni eins og við sögðum hérna í vor. Þess vegna sögðu sum okkar að við söknuðum framsóknarmanna af því að þeir tóku engan þátt í umræðunni. Við sögðum: Hér er verið að leggja pólitíska áherslu til fjögurra ára og eruð þið alveg sammála henni? Það verður auðvitað áfram lagt í fjármálaáætlunina á vorin.

Kannski hef ég misskilið hv. þm. Ögmund Jónasson en mér finnst hann ekki bara vera hræddur við þessa fjármálareglu eða fjárlagareglu heldur líka ferilinn í þinginu, hvað sé ákveðið í þinginu, þetta sé allt komið í einhverja ramma og þingið geti þá ekki verndað litlar stofnanir og þar fram eftir götunum. Þess vegna held ég að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi lagt til, einhvers staðar heyrði ég hana gera það, að sett yrði upp einhvers konar leikrit eða skema um það hvernig þetta yrði unnið í þinginu þannig að við sæjum það fyrir okkur hvernig ramminn yrði. Því miður gafst ekki tími til þess í fjármálaáætluninni sem var lögð fram í vor þar sem menn voru í fyrsta skipti að reyna sig áfram, þá voru þessir rammar ekki þannig. Ég held að það væri mjög gott ef þingmenn sæju það fyrir sér hvernig þessir rammar litu út, hvað þingið væri að ákveða, hver skiptingin yrði og síðar kæmi það í fjárlögum. Ég held að það væri mjög gott ef það væri hægt að búa til einhverjar svoleiðis leikreglur.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur lagt áherslu á að þingið þurfi viðbótarstuðning til að fást við ríkisfjármálin og ferlið. Það má taka undir það. Síðan kom fram í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, þegar hún vitnaði í Þórólf Matthíasson, sem er nú ekki gamall maður en hann er samt gamli prófessorinn minn, að kannski væri rétt að setja upp nýja þjóðhagsstofnun eins og þá sem lögð var af og þar yrðu markmiðin sett en ekki endilega bundin í lög. Það má svo sem vel vera líka.

Ég minni á að við samþykktum í þingsal fræga þingsályktun. Var hún ekki kölluð 63:0-þingsályktunin? Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna var afgreidd hér samþykktum við að það ætti að setja upp nýja þjóðhagsstofnun. Mér finnst vera kominn tími til að við hugum að því. Ég held að það sé nauðsynlegt óháð því að við erum að fara í svo miklar breytingar á meðferð ríkisfjármálanna. Svo má kannski segja að þenslan og allt sem varð hér upp úr 2000 eða þar um bil — það var akkúrat á þeim tíma sem Þjóðhagsstofnun var lögð niður og þá var ekki lengur óháð stofnun sem fjallaði um efnahagslífið. Ég held að þótt við værum komið með gott ferli um það hvernig fjárlög eru sett og farið er með ríkisfjármál þá væri nauðsynlegt að við fengjum óháða efnahagsstofnun sem starfaði hér við rannsóknir og áætlanir fram í tímann og yrði til upplýsingar fyrir alla, fyrir atvinnulífið, fyrir okkur og allt fólk. Ég tel að þetta frumvarp sé bara bylting í því hvernig við nálgumst ríkisfjármálin en þó er enn þörf á óháðri stofnun um efnahagsmál í landinu. Ég held að við ættum að fara að uppfylla það loforð sem við gáfum okkur um það að setja á fót slíka stofnun.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Ég er ekki að segja að það sé ekki eitthvað sem megi breyta í frumvarpinu og haga einhvern veginn öðruvísi. Það verður að skoða þetta í kjölinn. Það þarf sérstaklega að skoða fjármálareglurnar í 7. gr. og samspilið við 10. gr. sem gefur leyfi til undantekninga frá því að fara eftir þessum stífu reglum. Að öðru leyti fagna ég þessu verki.



[21:00]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar ekki að lengja þessa umræðu mikið en það eru nokkrar greinar í þessu frumvarpi sem mér finnst þess virði að ræða strax á þessu stigi. Mikið af því hefur þegar verið rætt, meðal annars í andsvörum, en mig langar að impra aðeins á nokkrum punktum.

Í fyrsta lagi er það 6. gr. sem fjallar um grunngildin en þau eru fimm talsins, þ.e. sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi; allt góð og falleg gildi eins og farið hefur verið inn á. En mig langar til að leggja til að sjötta gildinu verði bætt við sem yrði forsjálni. Ástæðan fyrir því er sú að mér þykir ekki skynsamlegt til lengri tíma hversu bjartsýnt fólk er almennt, og sér í lagi þingmenn og þeir sem hafa áhrif þegar þeir tala, gagnvart hugsanlegum skakkaföllum í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að efnahagshrun, og í það minnsta kreppur og krísur, sé að ákveðnu leyti óhjákvæmilegt, óhjákvæmileg afleiðing þess að framtíðin er óþekkt. Í mjög breytilegum heimi, þar sem fjárfestingar byggja á óþekktum stærðum um óþekktan tíma er það einungis tímaspursmál hvenær mjög alvarlegar efnahagskrísur verða.

Ég tel meira að segja að þetta verði algengara í framtíðinni. Eftir því sem tækniframþróun fer hraðar verður sífellt erfiðara að spá fyrir um það hvernig nýjasta tækni eða nýjustu hugmyndir munu raungerast í framtíðinni. Gott dæmi er hin svokallaða dot.com-bóla sem sprakk rétt eftir aldamót. Þá var vandinn sá að menn höfðu gert fjárfestingar byggðar á væntingum sem þeir skildu ekki. Það gerist reglulega. Það færist í vöxt. Það er alltaf verið að finna upp ný og ný tæki. Það koma þrívíddarprentarar og drónar og guð má vita það. Menn þekkja ekki fyrir fram hvaða raunveruleg verðmæti liggja að baki í þessari tækni þannig að þeir fjárfesta að einhverju leyti í blindni. Af þessu leiðir regluleg bólumyndun og óhjákvæmilegt að slíkar bólur springi.

Með hliðsjón af þessu tel ég ábyrga efnahagsstjórn að miklu leyti felast í því, og í ríkari mæli með tímanum, að gera ráð fyrir efnahagsskakkaföllum. Frekar en einblína á að forðast þau, sem við eigum auðvitað líka að gera, verðum við að horfast í augu við það að við þekkjum ekki framtíðina. Við skiljum ekki og munum aldrei skilja hverjar af væntingum okkar gagnvart framtíðinni eru raunhæfar, og sér í lagi meðal fjárfesta. Mér þykir mikilvægt að búið sé í haginn áður en skakkaföllin dynja yfir. Nóg um það í bili.

Mikið hefur verið rætt um 7. gr. frumvarpsins er varðar skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar en án þess að farið sé nákvæmlega út í prósenturnar þar þá er samhengi milli 7. gr. og 10. gr. 10. gr. fjallar um endurskoðun fjármálastefnu við efnahagsáföll, þjóðarvá eða aðrar aðstæður sem ógerlegt er að bregðast við með tilteknum úrræðum.

10. gr. var hugsuð fyrir mjög alvarleg skakkaföll og það er hluti af orðræðu áhrifafólks að gera lítið úr hugsanlega fyrirsjáanlegum skakkaföllum. Þar af leiðandi óttast ég að aldrei yrði gripið til 10. gr. fyrr en það væri orðið of seint. Aldrei yrði farið út í það fyrr en eitthvað væri þegar skollið á. Með hliðsjón af því þykir mér vel líklegt að það gæti verið skynsamlegt að milda aðeins markmiðin í 7. gr. Ég treysti reyndar hv. fjárlaganefnd ágætlega til að skoða það rækilega og vissulega getum við skoðað það betur við 2. umr. En þetta samhengi og tilhneiging áhrifamanna til bjartsýni, til að styggja ekki markaðinn, gerir að verkum að mér finnst að við förum hóflega í markmiðum okkar. Ef markmiðin eru óraunhæf þá hef ég áhyggjur af því að það verði lenska að spá rangt og það verði hluti af hefðinni sem myndast, sambærilegt við þá sem við höfum samkvæmt fjárlögum núna. Við gerum svolítið ráð fyrir því að stofnanir fari fram úr fjárlögum og svo rífast menn um hvar ábyrgðin sé og jafnvel þegar menn komast að því hvar hún liggur þá breytist ekkert. Þetta frumvarp er vitaskuld að miklu leyti lagt fram til að gera bragarbót á því vandamáli. En það er mikilvægt hvernig hefðin þróast um það hvaða markmið nást og hver ekki. Mér þykir ekki gott ef þróunin verður strax sú að markmiðin náist ekki og því mikilvægt að markmiðin séu raunhæf frekar en farið sé of geyst þar.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði hér áðan að þetta séu ekki refsilög, þetta séu viðmið og það er rétt. Það er eðli þessa frumvarps og væntanlegra laga að þetta er ekki refsilöggjöf. Þess heldur er mikilvægt að markmiðin séu raunhæf og sú hefð myndist strax að standa við gefin markmið.

9. gr. í frumvarpinu fjallar um skýrslu um langtímahorfur sem skal leggja fram á minnst þriggja ára fresti. Mig langar að leggja það til að það gæti verið skynsamlegt að leggja slíka skýrslu fram oftar þar sem heimsmyndin breytist hraðar. Sem dæmi væri núna gott að hafa skýrari sýn á það hvaða áhrif niðursveifla í kínverska hagkerfinu hefur á innkaup okkar eða útflutning. Það væri mjög gott ef slíkt lægi fyrir þegar það gerist. Það eru nokkrir stórir hlutir í heimshagkerfinu sem við vitum að skipta verulegu máli, til dæmis ef það er samdráttur í Rússlandi eða eitthvað því um líkt eða, eins og kom nú nýlega fyrir, að farið verði út í viðskiptaþvinganir. Það er ágætt að við sjáum fyrir fram hvaða áhrif slíkt hefur. Við getum ekki spáð fyrir um allt en við getum spáð fyrir um sumt og ég held að það sé til bóta að hafa það í huga. Heimurinn breytist hratt og hraðar og hraðar, held ég, þannig að ég legg til að það gæti verið skynsamlegt að hafa svona skýrslu oftar en á þriggja ára fresti, hugsanlega á hverju ári; kannski bara á tveggja ára fresti, það gæti hugsanlega dugað. Það er eitthvað sem mér þætti vænt um að hv. nefnd mundi ræða.

Það er í samhengi við ársfjórðungsskýrsluna sem er í 12. gr. Ég nefni hana nú einungis í samhengi við 9. gr. en þar er kveðið á um ársfjórðungsskýrslu um opinber fjármál sem skal liggja fyrir innan átta vikna frá lokum hvers ársfjórðungs. Mér þykir það ákvæði mjög gott og ég held að það muni bæta umræðuna til muna.

Þá er það 13. gr. frumvarpsins sem fjallar um fjármálaráð. Ég hef lítið um það að segja nema ég vil taka undir þær hugmyndir að þetta verði aðeins fjölskipaðra ráð. Ég hvái líka pínulítið, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, yfir þessum hæfisskilyrðum formannsins. Við búum í mjög litlu samfélagi og mér finns það áhugaverð spurning hvaða einstaklingar kæmu til greina í slíka stöðu með menntun á þessu tiltekna sviði. Ég er kannski ekki alveg jafn tortrygginn út í það og hv. þm. Ögmundur Jónasson en mér þykir spurningin réttmæt og áhugaverð.

16. gr. er sú síðasta sem ég ætla að fjalla um að sinni en hún varðar framsetningu fjárlaga. Í hvert sinn sem við höfum rætt fjárlög hér, þann tíma sem ég hef verið á þingi, þá kemur framsetning fjárlaga til umræðu. Við sem erum meira tölvuþenkjandi, kannski sér í lagi nýir þingmenn, hváum oft yfir framsetningu fjárlaga; hún getur verið ruglingsleg og það getur verið erfitt að finna hratt einhver gögn. Það kemur reglulega fyrir að eitthvað sem er óskýrt, ónákvæmt og villandi birtist jafnvel í fjölmiðlum vegna þess að það er erfitt að skoða málin hratt og gaumgæfilega. Það er ýmislegt í framsetningu fjárlaga sem má laga og enginn hefur mótmælt því svo að ég viti. Ég hef aldrei heyrt neinn koma hingað í pontu og segja að framsetning fjárlaga sé í góðu lagi. Það er vegna þess að hún gæti verið svo miklu betri. Það væri að mínu mati mjög hentugt, gríðarlega hentugt, ef fjárlög væru birt á tölvutæku formi og í samhengi við fyrri fjárlög þannig að maður sæi breytingar á raunstærðum, breytingar á tölum í samhengi við margar vísitölur ekki bara eina vísitölu heldur neysluverðsvísitölu, launavísitölu, jafnvel húsnæðisvísitölu; að birta slíkt á tölvutæku formi mundi eitt og sér bæta heilmikið vegna þess að þá fer fólk út í bæ og fyrirtæki sem hafa áhuga á þessu eða stofnanir, rannsóknasetur, háskólar o.s.frv., að skoða þessi gögn og vinna úr þeim. Og þó að alþingismenn skilji ekki endilega tölvutæk gögn þá er það ekki markmiðið heldur er markmiðið að búa til gögn sem aðrir geta búið til og sett fram á skýrari hátt í fallegum kökuritum með litum o.s.frv.

Það er ekki fleira sem ég ætla að ræða að þessu sinni. Mér þykir þetta frumvarp mjög til bóta eða það sem ég þekki af því nú þegar. Ég hlakka til að sjá nefndarálit, sem ég vona nú að verði eitt en geri fastlega ráð fyrir að verði tvö, og ég hlakka til 2. umr.



[21:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir mjög fína umræðu hér í dag þar sem ólík sjónarmið hafa komið fram. Við höfum reifað málið frá ýmsum hliðum. Mikill tími hefur farið í að ræða fjármálareglurnar en líka hefur verið komið inn á önnur atriði frumvarpsins; það sem snýr að fylgiritinu, hvaða hættur kunna að vera því samfara að gera þann aðskilnað sem er verið að leggja til á milli frumvarpsins sjálfs og fylgiritsins, hvaða neikvæðu afleiðingar kunna að hljótast af því. Rætt hefur verið um þörfina fyrir að styrkja bæði stjórnsýsluna og þingið. Við höfum í umræðunni líka leitt það fram að við erum sammála um að við getum gert betur og ég ætla að láta það kannski vera innlegg mitt hér í lokið.

Lagafrumvarpið er að sjálfsögðu ekki fullkomið frekar en önnur lög sem við setjum á þinginu og í framtíðinni eiga eftir að koma tillögur til breytinga á þessum lögum eða jafnvel nýjum heildarlögum um þetta efni. En þetta er tilraun til að gera betur, byggja á þeim grunni sem við höfum byggt upp með fjárreiðulögunum og á grundvelli reynslunnar undanfarin ár og áratugi og þroska umhverfið, lagaumhverfið og regluverkið í kringum opinber fjármál til þess að það sem gerist á vettvangi ríkisfjármálanna og á sveitarstjórnarstiginu sé til að styðja við markmið sem við erum þó þrátt fyrir allan ágreining sammála um að eftirsóknarvert sé að auka stöðugleika.

Ég hef ekki minnst mikið á það í dag en þetta er í mínum huga einn hornsteinninn í nýtt heildarsamkomulag við aðila vinnumarkaðarins, að ríkið sýni að það sé tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að styðja við stöðugleikann, að menn bregðist við þeim ágöllum í regluverkinu sem hafa verið til staðar, að gripið sé til aðgerða til að sýna fram á að hægt sé að gera betur meðal annars í því að styðja Seðlabankann í þeim lögbundnu markmiðum sem honum er ætlað að ná. Með því að stíga þessi skref og sýna fram á það í verki að menn eru tilbúnir til að undirgangast meira að segja stífar fjármálareglur þá tel ég að menn séu í sterkri stöðu til að fara fram á það við vinnumarkaðinn að hann breyti verklagi sínu, geri breytingar í átt til þess sem hefur reynst vel annars staðar. Þá er ég að vísa til þeirrar vinnu sem hefur verið unnin á undanförnum árum og var að verulegu leyti samandregin í skýrslunni í aðdraganda kjarasamninga sem kom út á árinu 2013. En vantað hefur traust frá vinnumarkaðinum í garð stjórnvalda, til þingsins. Menn hafa áhyggjur af framkvæmd peningamálastefnu eða því að þingið ætli ekki að skila sínu eftir atvikum, að þingið og framkvæmdarvaldið tali ekki nægilega vel við sveitarstjórnarstigið o.s.frv. Þetta eru mörg svona smápúsluspil sem þarf að raða saman til að fá heildarmyndina. Þetta er mjög mikilvægt innlegg inn í það heildarsamhengi hlutanna að mínu viti.

Varðandi fjármálaregluna og samspilið á milli 7. og 10. gr., þá geri ég ráð fyrir að nefndin muni fara vel yfir það og eðlilegt að menn vandi vel til verka í því samhengi, en um það vil ég segja það sama og ég minntist á áðan, við erum ekki að setja stjórnarskrá. Við þurfum stundum bara að taka skrefið. Það er enginn að segja að þetta sé eina leiðin en þetta er að mínu viti leið sem horfir til reynslu okkar og til þess sem hefur reynst vel annars staðar. Hún hefur verið skoðuð af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eftir að hún varð til. Hún hefur verið lesin yfir og skoðuð af alþjóðlegum sérfræðingum í þessu efni og hún hefur fengið ítrekaða umfjöllun í fjárlaganefndinni og hún þolir alveg enn frekari skoðun í nefnd og umræðu í þingsal og ég tel að rétt sé að stíga þessi skref. Svo mun tíminn leiða það í ljós hvort menn vilji gera smávægilegar breytingar og það yrði þá bara lagabreyting. Við þurfum ekki að fara í neitt langt og flókið ferli til að gera einhverjar aðlaganir á þessu. En ég tel að við höfum fundið reglu sem gott er að leggja upp með í þeim tilgangi sem við höfum verið að ræða í dag.

Ég vil líka nefna það, fyrst drjúgur hluti umræðunnar í dag hefur farið í að velta vöngum yfir því hvort ekki sé of langt gengið í því að binda hendur löggjafans eða að setja svolítið stíf viðmið sem mun jafnvel reynast erfitt að fylgja og það kunni að kalla fram einhver neikvæð viðbrögð annars staðar, að í almennri umræðu um málið hafa komið fram sjónarmið um að ekki sé nægjanlega langt gengið í því að setja þessar reglur. Má ég minna á að margir hafa haldið því fram að enn vanti útgjaldaregluna í málið. Það væri skref sem gengi enn lengra. Þar væru menn að fastsetja í raun og veru nokkuð sem ég sé fyrir mér að við stillum einfaldlega fram í ríkisfjármálaáætluninni til fimm ára. Þá væru menn að segja að ekki væri hægt að koma inn í þingið með ríkisfjármálaáætlun til fimm ára nema útgjaldastigið, þ.e. vöxtur útgjaldanna yrði að vera undir einhverju fyrir fram gefnu viðmiði. Við látum það nægja í frumvarpinu að vísa í gildin, í þessi almennu viðmið, og við látum það nægja að þau viðmið verði grundvallarskoðun fjármálaráðsins og við látum fjármálareglurnar að öðru leyti nægja til að tryggja að varfærni sé í reynd sýnd, að menn fylgi viðmiðum um skuldahlutföll og heildarafkomu yfir fimm ára tímabil o.s.frv.

Að þessu sögðu vil ég ítreka það sem hefur komið fram áður að við bjóðum fram alla mögulega aðstoð í fjármálaráðuneytinu til að skýra málið betur og ég vonast eftir góðu samstarfi við fjárlaganefnd. Ég get reyndar ekki lokið máli mínu án þess að nefna það sérstaklega að ég hef vonir um að við ljúkum meðferð þessa máls á þessu ári og það er með vísan til þess sem gildistökuákvæðið miðar við, að lögin taki gildi í upphafi næsta árs.

Ég þakka fyrir fína umræðu hér í dag.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.