145. löggjafarþing — 14. fundur
 5. október 2015.
kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[15:32]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar enn og aftur að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum nr. 9/2014, sem eru um það fólk sem kýs, eða á þann eina kost eftir í peningavandræðum sínum, að fara í gjaldþrot. Í þessum lögum átti að veita 250.000 kr. styrk til þess, því að það kostar það að biðja um gjaldþrot. Ef um er að ræða hjón sem fara í gjaldþrot þá eru það 500.000 kr. sem þau þurfa að leggja fram.

Ég spurði hæstv. ráðherra í fyrra eða í lok síðasta þings um þetta mál. Þá svaraði hún, með leyfi forseta:

„Ég hef því í hyggju — og það mun koma núna á næstu þingmálaskrá — að koma með frumvarp og hef kynnt það fyrir ríkisstjórn, um breytingar á skilyrðum sem varða bæði greiðsluaðlögun og gjaldþrotaskipti.“

Virðulegi forseti. Nú er ég búin að fara í gegnum þingmálaskrána og ég sé ekkert þar sem gefur til kynna að breyta eigi þessum lögum, en hæstv. ráðherra getur kannski sagt mér meira um það.

Það kom greinilega fram í fyrirspurn sem ég lagði fram í fyrra og náði til held ég til níu mánaða á árinu 2013 að þetta úrræði, eins og það er í lögum nr. 9/2014, virkar ekki, það virkar einfaldlega ekki. Ég er núna með fyrirspurn inni um allt árið í fyrra og helming þessa árs, þannig að það verður fróðlegt að sjá það.

Mig langar til að ganga eftir því: Hvar er frumvarpið sem á að breyta þessu?



[15:35]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hennar á fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnað vegna gjaldþrotaskipta. Við erum í ráðuneytinu að leggja lokahönd á skriflegt svar við fyrirspurn hv. þingmanns þar sem farið er í gegnum umsóknirnar og ástæður synjunar. Ég vonast til þess að geta dreift því núna í þessari viku.

Það er rétt, sem þingmaðurinn bendir á, að þetta mál er ekki á þingmálaskránni sem var dreift hér við upphaf þingsins. Við höfum hins vegar verið að vinna að málinu áfram, en það var ekki komið í þann búning að ég teldi rétt að setja það inn á þingmálaskrána eins og henni var dreift nú í haust. En ef við sjáum fram á að geta lokið þessu, meðal annars á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum verið að afla okkur um ástæður synjunar, munum við að sjálfsögðu uppfæra þingmálaskrána í samræmi við það.

Í ljósi sameiginlegs áhuga okkar þingmanns á þessu máli vil ég segja að við höfum einmitt verið að huga að því hvað það er sem við getum gert til þess að koma til móts við þennan hóp. Það sem kemur í ljós við kannanir okkar er að um helmingur þeirra sem fá synjun fær hana á grundvelli þess að umboðsmaður skuldara telur að viðkomandi skuldari sé ekki búinn að nýta önnur greiðsluvandaúrræði sem eru til staðar og þá hjá umboðsmanni. Við erum núna að fylgja því eftir. Þá væri hugsanlega hægt að koma til móts við fólk með því að tryggja að það njóti þá annarra úrræða, sérstaklega greiðsluaðlögunar, til hjálpar í vanda.



[15:36]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er nú sem endranær litlu nær um hvað er á seyði. Það var sagt hér fullum fetum — ég held það hafi verið í maí eða hvort það var komið fram í júní — að málið hefði verið lagt fram í ríkisstjórn og það yrði á þingmálaskrá í haust. Það er ekki komið enn heldur eru þau að hugsa þarna í velferðarráðuneytinu. Ég hef sagt það hér fyrr að það er mikið hugsað í því ráðuneyti en minna gert, því miður.

Það hjálpar ekki fólki sem er í þessum vandræðum að embættismenn og ráðherra leggi höfuðið í bleyti. Þetta fólk þarf að fá einhver svör. Þetta er fólk sem er mjög illa sett. Það þarf þá að koma með aðrar aðgerðir sem gagnast þessu fólki. Hæstv. ráðherra var nú ekki þolinmóð hér fyrir fjórum árum þegar fólkið hafði ekki fengið úrbætur sinna mála. Nú er hún búin að vera við stjórnvölinn í tvö og hálft ár og það gengur ekkert enn.



[15:38]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Við erum að vinna í þessu máli. Það hefur náttúrlega komið skýrt fram, og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, að verulega hefur dregið úr málafjölda hjá umboðsmanni skuldara sem er meðal annars ástæða fyrir því að við erum að skera mjög mikið niður í fjárveitingu til stofnunarinnar. Ég held að það endurspeglist í nýjustu tölum sem komu fram varðandi fjárhagsstöðu heimilanna, sem Hagstofan var að birta, um það að hlutirnir eru mun betri. Það er hins vegar þessi hópur sem ég og þingmaðurinn erum sammála um að við þurfum að huga sérstaklega að og við erum að gera það.